Fréttir
  • Ferðamenn í Reynisfjöru

Viðvörunarkerfi fyrir hættulegar öldur í Reynisfjöru

Nýtt hafsvæði með ölduspá

14.6.2018

Vegagerðin hefur bætt við nýju hafsvæði í Upplýsingakerfi um veður og sjólag undir liðnum Ölduspá á grunnslóð.  Hér er um er að ræða Reynisfjöru – Víkurfjöru , en fyrir eru ölduspár fyrir Faxaflóa, Skjálfanda, Grynnslin við Hornafjörð, svæðið milli Vestmannaeyja og Landeyjahafnar og Breiðafjörð.

Þessi viðbót er frábrugðin hinum hafsvæðunum að því leyti að hér er ekki beint verið að höfða til sjófarenda heldur reynt finna við hvaða aðstæður brim og öldugangur er hættulegur og við hvaða aðstæður hann er minna hættulegur.  Ölduhæð og öldulengd ráða mestu um það hve hættulegt brimið er en sjávarstaða hefur líka áhrif.  Til þess að ná því að spá fyrir um það hvort aðstæður verði hættulegar þarf að reikna ölduna upp að ströndinni.  Síðan eru ölduhæð og öldulengd skoðuð og borin saman við ákveðin áhættumörk sem eru enn í þróun.

Taflan með myndinni sýnir spá um ölduhæð kenniöldu við 10 m dýpi utan við Kirkjufjöru (K), Reynisfjöru (R) og Víkurfjöru (V) fjóra daga fram í tímann á þriggja tíma fresti, auk sveiflutíma öldunnar og sjávarhæðar.  Út frá þessum upplýsingum er reiknaður svokallaður hættustuðull sem gefur til kynna með litum hversu mikil hætta er af öldunni í fjörunum.

Síðast liðin tvö ár hafa orðið tvö dauðsföll þar sem brim við suðurströndina hefur dregið út fólk af ströndinni, það hefur ekki náð að komast að landi og drukknað.  Á sama tíma eru margir hætt komnir.  Það sem dregur fólk að ströndinni er brimið, það sjónarspil sem á sér stað þegar þung alda brotnar á strönd og klettum.  Hættan af briminu fer saman við sjónarspilið, því meira og þyngra sem brimið er því meira er aðdráttaraflið.  Því er nauðsynlegt að koma á viðvörunarkerfi þar sem varað er við hættulegum aðstæðum.

Hægt er að hugsa sér mismunandi not af slíku kerfi.  Í fyrsta lagi má hugsa sér að viðvörunin sé eingöngu fyrir löggæslu eða aðra sem hafa eftirlitsskyldu í fjörunum.  Þannig vissu þessir aðilar með einhverjum fyrirvara að aðgæslu verði þörf.  Í öðru lagi má hugsa sér að einhverskonar rauð ljós blikki á stöðum þar sem ferðamenn koma að þessum fjörum þegar aðstæður eru hættulegar.  Ef að það gengur upp að skilgreina mismunandi stig hættu má hugsa sér að við ákveðnar aðstæður blikki eitt rautt ljós en við aðrar fleiri rauð ljós[SS1] .  Þá er hægt að hugsa sér annars konar fyrirkomulag á viðvörunum.  Verið er að vinna við uppsetningu masturs í Reynisfjöru sem mun gefa möguleika á tengingu við kerfið.

Þessi viðbót við ölduspá á grunnslóð er hluti af verkefni sem fjármagnað er af framkvæmdasjóði ferðamála í þágu öryggismála, sem miðar að því að auka öryggi ferðamanna í Reynisfjöru og Kirkjufjöru.  Leitast verður við að fá viðbrögð heimamanna sem og ferðaþjónustuaðila sem koma reglulega á þetta svæði við hagnýti þessarar viðbótar og þeir hvattir til að koma með ábendingar.

Reynisfjara-vidvorunarkerfi