Fréttir
  • Slitlagsskemmdir - Gljúfurá
  • Slitlagsskemmdir
  • Slitlagsskemmdir
  • Slitlagsskemmdir
  • Slitlagsskemmdir

Illa farið slitlag

Vegfarendur aki með gát

22.2.2018

Slitlag á vegum landsins eru víða illa farin eftir veturinn og umhleypinga undanfarið. Nú þegar þiðnar þá koma í ljós illa farin slitlög sem verða lagfærð eins fljótt og kostur er. En vegna umfangsins og umhleypinganna sjálfra er ekki unnt að laga allt samstundis. Vegfarendur eru því beðnir um að aka með gát og vera viðbúnir hugsanlegum skemmdum í slitlaginu, hvort heldur er malbiki eða klæðingu. 

Ekki er hægt að sjá fyrir og tímasetja áætlun í viðhaldi á vegaskemmdum enda geta þær myndast skyndilega. Erfitt er að gera sér grein fyrir ástandi undirlags vegar og geta aðstæður því verið ófyrirsjáanlegar. Starfsmenn Vegagerðarinnar hafa eftirlit með vegum og grípa til aðgerða um leið og þeir verða varir við eða fá tilkynningar um holur á vegum.

Vegakerfið sem er í umsjón Vegagerðarinnar er tæplega 13.000 km langt og þar af eru um 5.500 km með bundnu slitlagi. Svo sem kunnugt er þá hafa fjárveitingar til viðhalds mörg undanfarin ár verið lægri en Vegagerðin hefur talið þörf fyrir til að sinna viðhaldinu. Það þýðir að einhverju marki að skemmdir í slitlaginu verða heldur meiri eftir umhleypingatíð en ella. Aldrei verður þó hægt að koma í veg fyrir að skemmdir í malbiki og klæðingu komi í ljós þegar vorar, ekki við þær veðuraðstæður sem ríkja á Íslandi. Einnig eru ekki alltaf aðstæður til að lagfæra vegaskemmdir um leið og þeirra verður vart en í slíkum tilvikum er brugðist við með merkingum þegar þörf er á. Starfsmenn Vegagerðarinnar vinna hörðum höndum við að laga allra verstu vegaskemmdirnar en Vegagerðin biðlar til ökumanna að sýna sérstaka aðgæslu við aksturinn.

Því er mikilvægt að ökumenn séu vakandi fyrir því að slitlagið er ekki allsstaðar eins gott og ætti að vera. Aðgæsla ökumanna er besta leiðin til að forða tjónum.