Fréttir
  • Brú yfir Morsá
  • Brú yfir Morsá - Skeiðarárbrú í baksýn
  • Brú yfir Morsá - Skeiðarárbrú til vinstri
  • Brú yfir Morsá

Skeiðarárbrú öll - umferð um Morsárbrú

umferð var hleypt á nýja brú yfir Morsá í vikunni

1.9.2017

Umferð var hleypt á nýja brú yfir Morsá á miðvikudag og er þá ekki lengur ekið yfir lengstu brú landsins Skeiðarárbrú. Þegar vatn fór að renna í vestur og ekki lengur í farveg Skeiðarár var ljóst að þörfin fyrir þessa, á sínum tíma, gríðarlega mikilvægu brú var ekki lengur til staðar. Jökulinn hopar og vatnið fer annað, því var byggð brú yfir Morsá bergvatnsá sem eftir stendur.

Brúin langa var opnuð árið 1974 og þá Hringvegurinn um leið þar sem áður var enginn vegur. Að hluta til var verkefnið sem fólst í fleiri brúm og vegagerð fjármagnað með tilstuðlan almennings sem keypti happdrættismiða í því skyni. Ríkið gaf út happdrættis-skuldabréf til tíu ára, og tók þannig lán hjá almenningi sem átti einnig möguleika á happdrættisvinningi.

Í fyrra byggði brúarvinnuflokkur Vegagerðarinnar 68 metra langa eftirspennta bitabrú yfir Morsá. Nýr Hringvegur og brú um Morsá er um 2,9 km að lengd og leysir af hólmi Skeiðarárbrú.

Héraðsverk, Egilsstöðum hefur unnið að vegagerð og vinnur nú að lokafrágangi. Eftir er að setja niður vegrið við brúarenda, sem gert verður í næstu viku. Unnið er að setja upp vegstikur.

Skeiðarárbrú var lengsta brú landsins 880 metrar að lengd. Ekki hefur verið tekin ákvörðun um framtíð brúarinnar. 

Anna Elín Jóhannsdóttir, Vegagerðinni, tók myndirnar.