Fréttir
  • Suðurströndin við Reynisfjöru kort
  • Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir ráðherra ferðamála kynnir verkefnið í Reynisfjöru
  • Sigurður Sigurðarson Vegagerðinni ræðir við fjölmiðla

Styrkur til að vinna viðvörunarkerfi í sunnlenskum fjörum

skrifað undir samning um styrk

17.5.2017

Vegagerðin og Framkvæmdasjóður ferðamannastaða hafa skrifað undir samning vegna styrks sem Vegagerðin hlaut til að setja upp ölduspár og viðvörunarkerfi á ferðamannafjörum á Suðurlandi 2017. Um er að ræða Reynisfjöru og Kirkjufjöru. Vegagerðin mun nýta kerfið Veður og sjólag til þess arna.

Verkefnið felst í því að þróa og setja upp  ölduspá- og viðvörunarkerfi fyrir ferðamannafjörurnar á Suðurlandi og að finna við hvaða aðstæður brim og öldugangur er hættulegur og við hvaða aðstæður minni hætta er á ferðum.. Kerfi til þess verður þróað innan kerfisins ,,Veður og sjólag“ sem rekið er af Vegagerðinni, þar sem öldur af hafi verða reiknaðar  upp að ströndinni nokkra daga fram í tímann. Viðvörunarkerfið verður unnið í samráði við lögreglu og almannavarnir. Strax verður sett upp fánastöng þar sem sjónrænt mat á hættu verður nýtt til þess að vara við hættulegum aðstæðum.

Styrkurinn nemur 20,5 milljónum króna en reiknað er með að frumgerð spákerfisins verði tilbúin mjög fljótlega, dýptarmælingar fari fram í sumar og uppsetning á viðvörunarbúnaði í haust. Veturinn verði nýttur til að endurskoða viðmiðunargildin fyrir hættulegar aðstæður miðað við reynsluna og raunatburði.

Lokaskýrslu ber að skila í byrjun desember.

Á myndunum má sjá ráðherra úthluta styrknum en verkefnið vakti nokkra athygli fjölmiðla enda öryggi ferðamanna í fjörunum mikið áhyggjuefni.