Fréttir
  • Umferðin eftir mánuðum
  • Umferðin með spá út árið
  • Umferðin uppsafnað
  • Umferðin eftir vikudögum

Ekki áður sést meiri aukning í umferðinni á Hringvegi á einu ári

Umferðin á Hringveginum jókst um rúm 11 prósent í nóvember

2.12.2016

Umferðin á Hringveginum jókst um ríflega 11  prósent í nýliðnum nóvember og er gríðarleg aukning sem ekki hefur sést síðan árið 2007 í þessum mánuði. Útlit er nú fyrir að umferðin á Hringveginum í ár aukist um nærri 13 prósent sem yrði þá mesta aukning á einu ári síðan þessar mælingar hófust árið 2005. Aukning umferðar á Hringveginum er töluvert meiri en á höfuðborgarsvæðinu, sjá eldri frétt. 

Milli mánaða 2015 og 2016
Umferðin í nýliðnum mánuði jókst um 11,3% miðað við sama mánuð á síðasta ári, um 16 lykilteljara á Hringvegi.  Þetta er mesta aukning milli nóvember mánaða síðan árið 2007. Alls fóru rétt rúmlega 61 þúsund ökutæki á degi hverjum um mælisniðin 16.  Til samanburðar fóru tæp 53 þúsund ökutæki um sömu snið árið 2007.  Umferðin í nýliðnum nóvember var því 15% meiri en árið 2007. Mest jókst umferðin um Austurland eða 28% en minnst um Vesturland eða 8%.


Samanburðartafla

Frá áramótum milli áranna 2015 og 2016
Umferðin hefur nú aukist um tæp 13% frá áramótum og er þetta lang mesta aukning miðað við árstíma frá upphafi þessarar samantektar (árið 2005) fyrir teljarana 16.  Mest hefur umferðin aukist um Austurland eða um rúmlega 30% en minnst um höfuðborgarsvæðið eða um tæplega 11%. 

Umferð eftir vikudögum
Frá áramótum hefur umferðin aukist mest á sunnudögum eða um rúmlega 15% en minnst á föstudögum eða um tæp 9%.  Mest er ekið á föstudögum en minnst á þriðjudögum.

Horfur út árið 2016
Nú eru mestar líkur á því að umferðin í desember geti aukist talsvert, ef marka má umferðarmynstur fyrri ára. En hafa verður í huga að vetrarumferð á Íslandi er afar óviss enda mikið háð duttlungum veðurfarsins hvað gerist.  En varlega, miðað við reynslu fyrri ára, má áætla aukningu í kringum 10%.  Gangi það eftir gæti heildarumferðin yfir mælisniðin 16 orðið tæpum 13% meiri en árið 2015.  Fyrir heilt ár hefur ekki sést viðlíka aukning, frá upphafi samantektar.

Talnaefni