Fréttir
  • Hjólastígar merktir
  • Hjólastígar merktir
  • Hjólastígar merktir
  • Hjólastígar merktir
  • Hjólastígar merktir
  • Hjólastígar merktir
  • Píluvegvísar
  • Töfluvegvísir
  • Lykilleiðir

Hjólastígar á höfuðborgarsvæðinu verða merktir með skiltum

skilti afhjúpað í Garðabæ

20.9.2016

Um leið og nýr samgöngustígur yfir Arnarnesháls var formlega opnaður í dag 20. september var nýtt merki afhjúpað sem sýnir að stígurinn er hluti af rauðri lykilleið. Hjólreiðastígar, eða stofnnet slíkra stíga, verður merkt á höfuðborgarsvæðinu og er þetta liður í því. 

Það var bæjarstjórinn í Garðabæ Gunnar Einarsson sem opnaði stíginn með aðstoð nemenda úr 7. bekk í Sjálandsskóla en Hreinn Haraldsson vegamálastjóri og bæjarstjórinn afhjúpuðu hið nýja skilti sem sýnir hjólastíginn. Þar sem stígar á höfuðborgarsvæðinu skerast verða frekari merkingar eða skilti sem sýna hvert hver stígur liggur ásamt fleiri upplýsingum. Leiðirnar verða litamerktar en ekki merktar með númeri líkt og tíðkast á vegakerfinu.

Stígurinn yfir Arnarnesháls, sem var samstarfsverkefni Garðabæjar og Vegagerðarinnar, er hluti af rauðu lykilleiðinni sem nær allt frá miðbæ Hafnarfjarðar að Borgartúni í Reykjavík. Alls verða leiðirnar fimm, gul, rauð, græn, blá og fjólublá. 

Litamerking lykilleiða er samstarfsverkefni sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu og var það unnið í samráði við Vegagerðina.  

Þá er þetta ein af þeim aðgerðum sem lögð er áhersla á í Hjólreiðaáætlun Reykjavíkur 2015-2020 sem eru betri leiðarvísar á hjólaleiðum. Í svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins 2015-2040 er einnig lögð áhersla á að sveitarfélögin á svæðinu samræmi merkingar á lykilleiðum hjólreiða sem tengja sveitarfélögin.

Það var starfshópur sveitarfélaganna, með aðstoð ráðgjafa og Vegagerðarinnar, sem ákvað hvaða hjólaleiðir á að merkja með samræmdum hætti, sem hannaði kerfi merkinga að erlendri fyrirmynd og gaf út leiðbeiningar um merkingar lykilleiða fyrir tæknimenn sveitarfélaga og hönnuði.

Unnið verður að því næstu mánuði og misseri að koma fleiri skiltum upp á hjólreiðastígum á svæðinu.