Fréttir
  • Freistað að bjarga lífi kríunga á Útnesvegi
  • Freistað að bjarga lífi kríunga á Útnesvegi
  • Freistað að bjarga lífi kríunga á Útnesvegi
  • Freistað að bjarga lífi kríunga á Útnesvegi

Heilmála veg til bjargar kríuungum

á Útnesvegi rétt milli Hellisands og Ólafsvíkur

24.6.2016

Búið er að mála þrjá kafla á Útnesvegi rétt utan við Rif á Snæfellsnesi til að freista þess að forða kríuungum frá ótímabærum dauða. Málaðir eru þrír bútar í mismunandi litum. Talið er að kríuungarnir líti á dökka klæðinguna sem felulit fyrir sig auk þess sem þeir sæki í hlýindin í henni. Tilraun sumarsins felst í því að staðreyna þessar tilgátur.

Það er Sjávarrannsóknarsetrið Vör við Breiðafjörð sem annast þessa rannsókn. Tildrögin eru þau að Benóný Jónsson líffræðingur hjá Veiðimálastofnun sá fjölda dauða kríuunga á veginum í fyrrasumar, en þarna er stórt kríuvarp, og viðraði hann þessa hugmynd við Sjávarrannsóknarsetrið, segir Kristinn Ólafur Kristinsson hjá Sjávarrannsóknarsetrinu. Hann segir að dökkt malbikið hitni töluvert og krían sæki eðlilega í það. Gera á tilraun með þrjá mismunandi liti m.a. til að sjá mismunandi hita í klæðingunni og verður það kannað með hitamyndavél.

Hin tilgátan, segir Kristinn, er þá sú að mála bundna slitlagið í litum sem fæli ungana frá, þannig að þeim finnist þeir berskjaldaðir. Á myndunum sést Anna Kristrún Jónsdóttir, mála á veginn, en hún vinnur fyrir styrk frá Nýsköpunarsjóði námsmanna við þetta verkefni. Hún mun einnig kortleggja hreiður í nágrenni hvers málaðs kafla til að menn geti gert sér grein fyrir því hvort mismunandi litir hafi mismikil áhrif. 

Kaflarnir máluðu standa sér og er ómálaður kafli á milli þeirra. Fróðlegt verður að fylgjast með framvindu þess, en reikna má með að kríuungar fari að koma úr eggjum uppúr helginni.