Fréttir
  • Umferð á nokkrum heiðum árið 2015
  • Þróun umferðar á nokkrum heiðum

Víkurskarð umferðarmest fyrir utan Hellisheiði

af fjallvegum á Hringveginum yfir 300 m yfir sjávarmáli

19.1.2016

Líkt og annarsstaðar á vegakerfinu hefur umferð á fjallvegum á Hringveginum aukist verulega að undanförnu. Hellisheiðin er lang umferðarmest en þegar kemur að öðru sætinu hefur Víkurskarðið austan við Akureyri slegið Holtavörðuheiðina út. Hinsvegar hefur umferð aukist mest um Möðrudalsöræfi í prósentum talið en þar er umferðin eigi að síður langminnst. 

Umferðin frá aldamótum

Umferð yfir nokkrar heiðar á Hringveginum hefur aukist mikið frá aldamótunum síðustu.  Af þeim heiðum sem þessi samantekt nær til hefur umferðin um Möðrudalsöræfi aukist mest eða um 6,5% að meðaltali á ári.  En umferðin um Möðrudalsöræfi er jafnframt sú minnsta af þessum heiðum.  Minnst hefur umferðin aukist um Vatnsskarð, í Skagafirði, eða um 1,2% að meðaltali á ári á umræddu tímabili.

Lang umferðarmesti fjallvegur (heiði 300 m yfir sjávarmáli) landsins er Hellisheiði en það fóru að meðaltali um 6.803 ökutæki á sólarhring um heiðina árið 2015.  Næst umferðarmesti fjallvegur landsins er Víkurskarð í Eyjafirði með 1.351 ökutæki á sólarhring.  
Á stöplaritinu sem fylgir fréttinni má sjá yfirlit yfir meðalumferðina á síðasta ári eftir heiðum.

Þróunin frá aldamótum
Þróunina frá aldamótum má sjá á línuritinu.  Af því má ráða að Holtavörðuheiði hafi áður verið annar umferðarmesti fjallvegur landsins fram að bankahruni en upp úr því hefur Víkurskarðið haldið þeim titli og virðist ekki líklegt til að gefa hann eftir ef marka má umferðina síðast ár.