Fréttir
  • Lúpína herjar á vegaxlir
  • Roundup og Clinic notkun á Íslandi
  • Roundup og Clinic notkun Vegagerðarinnar

Stefnan að draga úr og hætta alveg notkun á Roundup

Notkun hefur ekki verið bönnun en dregið verður úr henni

15.10.2015

Vegagerðinni er nauðsynlegt að geta eytt gróðri í vegöxlum og vegköntum fyrst og fremst í umferðaröryggisskyni en einnig til að koma í veg fyrir skemmdir á vegunum. Gróður er sleginn og í einhverjum mæli hefur honum verið eytt með Roundup og Clinic enda talin hættulaus efni þegar notkun hófst. Stefna Vegagerðarinnar er að draga úr og hætta alveg notkun þessara efna en heldur hægt hefur gengið að ná þeim markmiðum.

Þau markmið eru þó enn í fullu gildi. Einnig eru aðrar leiðir skoðaðar, svo sem „Spuma“ þar sem heitu vatni, blönduðu náttúrulegum efnum í litlum mæli, er beitt á gróðurinn. Þessar leiðir eru margfalt dýrari og þarf að vera nokkuð öruggt að þær skili þeim árangri sem vænst er áður en ráðist er í mikla fjárfestingu.

Nokkuð er rætt um Roundup þessa dagana, því vill Vegagerðin koma á framfæri eftirfarandi upplýsingum um árangur við að draga úr notkun slíkra efna undanfarin ár.

Ástæður þess að Vegagerðin notar gróðureyði eru:

  • Gróðureyðing í vegköntum er mikilvæg til að viðhalda umferðaröryggi. Eitrinu er sprautað á lúpínu, skógarkerfil og hátt gras sem skyggir á vegstikur eða safnar snjó.
  • Stýrihópur umhverfisráðherra, sem hefur það hlutverk að finna leiðir til að draga úr neikvæðum áhrifum alaskalúpínu og skógarkerfils, hefur óskað eftir samvinnu Vegagerðarinnar við að eyða ágengum tegundum, m.a. með Roundup.

Gæðadeild Vegagerðarinnar hefur beint þeim tilmælum til yfirmanna þjónustustöðva að nota efnið mjög sparlega og helst ekki neitt.  Deildin hefur einnig haldið námskeið um notkun og meðferð hættulegra efna sem um 120 starfsmenn hafa sótt.

Yfirstjórn Vegagerðarinnar hefur að svo komnu máli ekki tekið ákvörðun um að banna notkunina, en hefur samþykkt að draga sem mest úr notkuninni og leita annarra umhverfisvænni leiða til að ná sama árangri með það að markmiði að hætta allri notkun á Roundup og skyldum efnum. Gróðureyðing með vistvænni aðferðum er mun kostnaðarmeiri en eitrun.

Vegagerðin hefur undanfarin ár fengið upplýsingar frá Umhverfisstofnun um innflutning til landsins af gróðureyðandi efnum. Þau efni sem Vegagerðin hefur verið að nota, sem eru Roundup og Clinic, innihalda virka efnið Glýfosat. Hlutfallsleg notkun Vegagerðarinnar á notkun efnisins er innan við 10% flest árin en Vegagerðin leitar engu að síður leiða til að draga úr notkuninni. Vegagerðin hefur ekki upplýsingar um hverjir norta 90% af innfluttu efni.

Rannsóknasjóður Vegagerðarinnar styrkti á þessu ári verkefnið Umhverfisvæn eyðing gróðurs í vegköntum. Verkefnið er samvinnuverkefni Reykjavíkurborgar og Vegagerðarinnar en verkfræðistofan VSÓ sér um verkefnisstjórn. Árangur verkefnisins, ef vel tekst til, er gróðureyðing við vegi og götur án hættulegra efna. Það er í samræmi við stefnumörkun ríkisins um sjálfbæra þróun, þar sem eitt af markmiðunum er að losun efna sem eru hættuleg heilbrigði og umhverfi verði takmörkuð eins og mögulegt er og verði hætt fyrir árið 2027. Fyrstu niðurstöður verða kynntar á rannsóknaráðstefnu Vegagerðarinnar 30. október nk.

Myndir 1 og 2 sýna stöðuna og þótt ekki hafi dregið nægilega mikið úr notkuninni er að því stefnt. Ljóst er að Vegagerðin er ekki stórnotandi þessara efna á landsvísu.

Nánari upplýsingar:

Árangur Vegagerðarinnar við að draga úr notkun hættulegra efna er birtur í árlegum umhverfisskýrslum stofnunarinnar.

Árangur Vegagerðarinnar við innleiðingu grænna skrefa: graenskref.is.

Rannsóknir NÍ og LBHÍ um eyðingu Skógarkerfils frá árinu 2006.

Benda má líka á að deilur hafa staðið um rannsóknir á Roundup og skaðsemi efnisins sjá umfjöllun á Wikipediu. Vísindasamfélagið er ekki sammála um hvort sannað hafi verið í raun að efnið sé skaðlegt.

Roundup og Clinic notkun á Íslandi









Roundup og Clinic notkun Vegagerðarinnar