Fréttir
  • Brúarvinna, Eskifjarðará 2015

Vegagerðin hefur ekki farið fram úr fjárlögum

misskilningur varðandi athugasemdir Ríkisendurskoðunar

29.9.2015

Misskilningur hefur orðið í sambandi við umsögn Ríkisendurskoðunar um fjárlagafrumvarpið 2016. Því er haldið fram að Vegagerðin hafi farið 18,7 milljarða fram úr fjárlögum. Sú er ekki reyndin heldur er um bókhaldslegt atriði að ræða. Bein framlög á fjárlögum til Vegagerðarinnar eru að hluta til skuldfærð og litið á sem skuld Vegagerðarinnar, sem lántaka. Það breytir því ekki að þessu fé hefur verið veitt til Vegagerðarinnar á fjárlögum og í samgönguáætlun og því varið til vegagerðar svo sem vera ber.


Framlög til Vegagerðarinnar koma fyrst og fremst af mörkuðum tekjum, olíugjaldi og bensíngjaldi, en einnig sem beint framlag úr ríkissjóði. Framlag kemur til jarðganga og einnig til annarra verka Vegagerðarinnar. Fjármálaráðuneytið hefur haft þann hátt á að skuldfæra þann hluta beina framlagsins sem ekki er til jarðganga sem skuld Vegagerðarinnar við ríkissjóð. Ríkisendurskoðun hefur margoft gert athugasemdir við fjármálaráðuneytið vegna þessa án þess að þessu hafi verið breytt. Framlögin eru á fjárlögum og Vegagerðin hefur ekki farið fram úr fjárlögum mörg síðustu ár í heild sinni þótt einstaka liðir eins og vetrarþjónustuna hafi gert það án þess að hafa haft áhrif á jákvæða heildarniðurstöðu Vegagerðarinnar.