Fréttir
  • Klippt á borðann
  • Eiði - Þverá vígsla
  • Eiði - Þverá vígsla
  • Heiðursverðirnir með skæravörðinn
  • Borðaklipping í undirbúningi
  • Ólöf Nordal innanríkisráðherra, Kristján L. Möller fyrrverandi samgönguráðherra og Þórólfur Halldórsson fyrrv. sýslumaður á staðnum.
  • Heiðursverðirnir með skæravörðinn
  • Ráðherra vígir með því að aka nýja kaflann
  • Eiði - Þverá
  • Eiði - Þverá
  • Eiði - Þverá
  • Eiði - Þverá

Stór áfangi á sunnanverðum Vestfjörðum

kaflinn Eiði - Þverá tekinn formlega í notkun

12.9.2015

Föstudaginn 11. september var nýr vegur um vegarkaflann Eiði - Þverá á sunnanverðum Vestfjörðum tekinn formlega í notkun. Innanríkisráðherra Ólföf Nordal klippti á hefðbundinn hátt á borða með aðstoð Hreins Haraldssonar vegamálastjóra. Vegurinn nýi er 16 km langur og leysir af hólmi 24 km langan og krókóttan malarveg.

Við athöfnina benti vegamálastjóri á að þessi nýi vegur myndi ekki nýtast eingöngu heimamönnum og hefðbundnum vegfarendurm heldur jafnvel líka fólki sem kæmi úr 101 í Reykjavík til að tína ber, sem þá gætu áttað sig á mikilvægi samgöngubóta sem þessara og hversu miklu þær skila samfélaginu öllu. Hann, innanríkisráðsherra og allir aðrir sem til máls tóku nefndu að þótt það væri mjög ánægjulegt að þessari vegagerð væri lokið og þessi góður vegur tekinn í notkun þá væri enn einn eftir einn kafli á sunnanverðum Vestfjörðum, um Gufudalssveit og helst, að mati heimamanna, ætti sú leið að liggja um Teigsskóg. Þessu til áréttingar, að vegagerðinni væri ekki lokið, færði Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri Vesturbyggðar vegamálastjóra og innanríkisráðherra sinn hvorn pennann sem gerður er úr birki úr Teigsskógi. Nota á pennann við nauðsynlegar undirskriftir í því sambandi. Aðrir sem til máls tóku í móttöku að lokinni vígslunni nefndu einnig að bæta þyrfti í framhaldinu samgöngurnar á milli sunnanverðra Vestfjarða og norðanverðra.

Skæravörður við athöfnina var Ásborg Styrmisdóttir, heiðursverðir Gunnar Sigurgeirsson og Kristinn G. K. Lyngmo. Móðir Ásborgar Jóhanna Einarsdóttir var einnig viðstödd svo sem sjá má á myndunum sem fylgja fréttinni.

Um vegagerðina
Vestfjarðavegur er aðal samgönguæð sunnanverðra Vestfjarða og Dalabyggðar og megin tenging þess svæðis við stofnvegakerfi landsins, auk þess að tengja saman sunnanverða og norðanverða Vestfirði. Undanfarna tvo áratugi hefur verið unnið markvisst að endurbyggingu Vestfjarðavegar frá Hringvegi við Dalsmynni að Flókalundi og einnig Barðastrandarvegi að Patreksfirði. Vegagerð á þessari leið er víða erfið og kostnaðarsöm vegna brattlendis og fjalla sem komast þarf yfir. Helstu stóru verkefnin sem unnin hafa verið á þessu tímabili eru m.a. vegur um Bröttubrekku 2003, um Svínadal 2007, þverun Gilsfjarðar 1999, vegur um Klettsháls 2004, úr Kjálkafirði í Vatnsfjörð 2010 og Kleifaheiði 2002.

Með tilkomu nýs vegar sem liggur frá Eiði í Vattarfirði að Þverá í Kjálkafirði lýkur enn einum stóráfanganum á þessari leið. Gamli vegurinn var 24 km langur malarvegur og lá fyrir botn Mjóafjarðar og Kjálkafjarðar. Nýi vegurinn þverar Mjóafjörð og Kjálkafjörð og er heildar lengd hans 16 km. Leiðin vestur styttist því um 8 km með þessari framkvæmd.

Vegurinn er byggður í vegflokki C8, með heildarbreidd 8,0 m en þar af er slitlag 7,0 m breitt. Tvær brýr voru byggðar vegna þverana fjarðanna. Brúin á Mjóafirði er 160 m löng og brúin á Kjálkafirði er 117 m. Í veginn fóru um 1.600 þ.m3 af efni og í brýrnar fóru um 2.900 m3 af steypu og um 215 tonn af stáli. Í upphafi verks var áætlaður kostnaður ætlaður við verkið  um 3,6 milljarðar króna. Lokakostnaður stefnir í 3,7 – 3,8 milljarða án verðbóta.

Í kjölfar kynningar á verkefninu var niðurstaða Skipulagsstofnunar að framkvæmdin skuli háð mati á umhverfisáhrifum.

Undirbúningur, gerð matsskýrslu og hönnun vegar og brúar var unnin af hönnunardeild Vegagerðarinnar.

Verkið var boðið út í febrúar 2012. Samið var við Suðurverk hf um framkvæmdina og hófust framkvæmdir í júní sama ár. Undirverktaki við brúarsmíðina var ÞG Verk ehf. Brúarvinnuflokkur Vegagerðarinnar á Hvammstanga sá um niðurrekstur staura undir sökkla brúnna. Undirverktaki í efnisvinnslu var Tak-Malbik ehf og Borgarverk lagði bundna slitlagið.

Umsjón og eftirlit með framkvæmdinni var í umsjá vestursvæðis Vegagerðarinnar.