Fréttir
  • Umferðin eftir mánuðum
  • Umferðin með spá út árið
  • Umferðin eftir vikudögum

Umferðin á höfuðborgarsvæðinu jókst mikið í ágúst

aukningin er tæp sjö prósent

2.9.2015

Umferðin á höfuðborgarsvæðinu í ágúst jókst um tæp sjö prósent frá sama mánuði í fyrra og aldrei hafa fleiri ökutæki farið um mælisnið Vegagerðarinnar í ágúst. Útlit er fyrir að umferðin á svæðinu í ár verði tæplega fjórum prósentum meiri en í fyrra. Sem yrði þá sama aukning í umferð og á Hringveginum.

Milli mánaða 2014 og 2015
Umferð jókst mikið yfir þrjú mælisnið Vegagerðarinnar á höfuðborgarsvæðinu milli ágúst mánaða eða um 6,9%.  Þessi aukning varð til þess að aldrei hafa fleiri ökutæki verið á ferðinni yfir lykil-mælisnið Vegagerðarinnar í ágústmánuði á höfuðborgarsvæðinu.  Aldrei hefur mælst eins mikil aukning á milli ágústmánaða, ef frá er talin árin 2006 og 2007, frá því að þessar mælingar hófust. Umferð jókst mest yfir mælisnið í Ártúnsbrekku eða um 7,9%.

Frá áramótum 2014 og 2015
Það sem af er ári hefur umferðin nú aukist um 3,7% miðað við sama tímabil á síðasta ári. Umferðin hefur aldrei verið jafn mikil miðað við árstíma eins og hún er nú á höfuðborgarsvæðinu, um nefnd mælisnið.

Umferð eftir vikudögum
Umferðin hefur aukist alla vikudaga miðað við árið á undan. Hlutfallslega hefur umferð aukist mest á virkum dögum og þar af mest á mánudögum eða um 4,9%.  Aðeins minni aukning er um helgar eða um 3,5%.

Horfur út árið 2015
Hegði umferðin sér líkt og undanfarin ár má reikna með því að hún aukist um 3,9% sem er sama aukning og búist er við á Hringveginum. Gangi þessar spár eftir er það í fyrsta sinn sem umferðin eykst um sama hlutfall á Hringvegi og höfuðborgarsvæði.

Talnaefni