Fréttir
  • Úr handbókinni
  • Umhverfis- og öryggishandbók
  • Bæklingur um öryggi gesta

Umhverfis- og öryggishandbók fyrir verktaka og þjónustuaðila Vegagerðarinnar

Vegagerðin kynnir handbókina Umhverfis- og öryggishandbók fyrir verktaka og þjónustuaðila Vegagerðarinnar. 

18.6.2015

Vegagerðin kynnir nú handbókina "Umhverfis- og öryggishandbók fyrir verktaka og þjónustuaðila Vegagerðarinnar". Handbókin hefur verið aðgengileg á rafrænu formi á vef Vegagerðarinnar frá október 2013 en hefur nú verið uppfærð og gefin út á prenti. 


Vegagerðin kynnir jafnframt bæklinginn "Öryggi gesta á vinnusvæðum Vegagerðarinnar". Bæklingurinn var unninn í samráði við verktaka og er þetta fyrsta útgáfa hans. Kynningareintök af handbókinni og bæklingnum hafa verið send helstu verktökum og þjónustuaðilum sem hafa átt viðskipti við Vegagerðina undanfarin ár. 

Hægt er að sækja bæði ritin rafrænt á heimasíðu Vegagerðarinnar www.vegagerdin.is, undir „Upplýsingar og útgáfa“ og áfram á „Leiðbeiningar og reglur“. Handbókina er auk þess hægt að kaupa á kostnaðarverði, sem er 970 kr, á afgreiðslustöðum Vegagerðarinnar. Tengiliðir eru Matthildur B. Stefánsdóttir vegna umhverfisstjórnunar, mbs(hjá)vegagerdin.is, og Sverrir Valgarðsson vegna öryggisstjórnunar, sv(hjá)vegagerdin.is, hjá gæðadeild Vegagerðarinnar. Þau taka einnig við ábendingum um það sem betur mætti fara í næstu útgáfu.

Inngangur handbókarinnar
Mikilvægur þáttur í innleiðingu umhverfis- og öryggisstjórnunar er að kynna það verklag og þær kröfur í umhverfis- og öryggismálum, sem gerðar eru til verktaka, birgja og annarra þjónustuaðila. Vegagerðin setti sér fyrst umhverfisstefnu árið 1997 og hefur unnið að framgangi hennar síðan samkvæmt alþjóðlega umhverfisstaðlinum ISO 14001. Einnig hefur verið unnið að framgangi öryggismála, en Vegagerðin setti sér öryggisstefnu árið 2008. 

Hlutverk þessarar handbókar er að veita upplýsingar, um kröfur sem Vegagerðin gerir í umhverfis- og öryggismálum, til þjónustuaðila sem vinna fyrir stofnunina. Handbókin er ekki tæmandi lýsing á öllu því sem viðkemur þessum málum, heldur er oft vísað til ítarefnis. Í bókinni er fjallað um öryggi starfsmanna við vinnu en ekki umferðaröryggi eða upplýsingaöryggi.

Vegagerðin vonar að handbókin muni stuðla að því að allir komi ávallt heilir heim að vinnudegi loknum.