Fréttir
  • Dettifossvegur í september 2014
  • Veiting Vörðunnar á Akureyri Hreinn Haraldsson og Árni Helgason með alnafna sínum og sonarsyni
  • Veiting Vörðunnar á Akureyri, Hreinn Haraldsson og Kristján Kristjánsson
  • Veiting Vörðunnar á Akureyri Hreinn Haraldsson og Hafdís Eygló Jónsdóttir
  • Veiting Vörðunnar á Akureyri, Hreinn Haraldsson og Guðmundur Heiðreksson

Hönnun og frágangur Dettifossvegar hlýtur Vörðuna

Varðan er viðurkenning Vegagerðarinnar vegna hönnunar og frágangs vegamannvirkja

9.6.2015

Varðan sem er viðurkenning Vegagerðarinnar vegna hönnunar og frágangs vegamannvirkja var veitt á Akureyri sl. föstudag fyrir framkvæmdina Dettifossvegur (862), Hringvegur – Dettifoss. Varðan er veitt á þriggja ára fresti. Viðurkenninguna fyrir árin 2011-2013 hlutu annars vegar Dettifossvegur og hins vegar göngu- og hjólabrýr við Elliðavog, en Varðan hefur þegar verið afhent vegna þeirra.

Tilgangurinn með veitingu Vörðunnar er að efla vitund um útlit og frágang mannvirkja meðal starfsmanna og verktaka Vegagerðarinnar, stuðla að umræðu þar um og að vitna um ákveðinn vilja yfirstjórnarinnar á þessu sviði.

Þetta í fimmta sinn sem þessi viðurkenning er veitt hjá Vegagerðinni en hún var tilraunaverkefni þar til í maí 2014 þegar Verklagsreglan Varðan nr. 4.0.02 var gefin út í gæðahandbók Vegagerðarinnar.

Yfirstjórn skipaði dómnefnd til að annast mat á tilnefningum og veitingu Vörðunnar.  Í nefndina voru skipuð þau Aron Bjarnason deildarstjóri í framkvæmdadeild, Eiríkur Bjarnason forstöðumaður áætlanadeildar og Helga Aðalgeirsdóttir landslagsarkitekt á hönnunardeild.  Matthildur B. Stefánsdóttir deildarstjóri í gæðadeild var ritari nefndarinnar.

Svæði Vegagerðarinnar tilnefndu í ársbyrjun 2014 þau mannvirki, sem þau töldu skara framúr á tímabilinu 2011-2013. Þessi mannvirki eru:

  • Dettifossvegur (862), Hringvegur – Dettifoss.
  • Göngu- og hjólabrýr við Elliðaárvog.
  • Norðausturvegur (85), tenging Vopnafjarðar.
  • Snæfellsnesvegur um Haffjarðará (54-05).
  • Suðurstrandarvegur (427), Grindavík-Þorlákshöfn.
  • Strandavegur (643), Djúpvegur – Geirmundarstaðavegur.
  • Vestfjarðavegur (60), Þverá – Þingmannaá.

Dómnefnd skoðaði allar tilnefningar sumar og haust 2014 og mat þær samkvæmt ákveðnu kerfi. Hún ákvað að veita Vörðuna í tveimur flokkum að þessu sinni, annarsvegar í flokki vega og hins vegar í flokki brúa.

Þeir sem komu að undirbúningi og vinnu við Dettifossveg (862), Hringvegur – Dettifoss voru:

Verktaki: Árni Helgason ehf.

Hönnun: Vegagerðin, Hönnunardeild.

Val efnistökustaða og ákvörðun um frágang: Vegagerðin, Jarðefni.

Eftirlit og umsjón framkvæmdar: Vegagerðin, Norðursvæði.