Fréttir
  • Vegprestur á Dettifossvegi

Aukið fé í vegagerð í ár

ríkisstjórnin samþykkir 1.800 milljónir króna í ferðamannavegi og viðhald

26.5.2015

Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum í morgun, þriðjudag 26. maí, aukafjárveitingu til vegamála upp á 1.800 milljónir króna. Af þeim fara um 1.300 milljónir króna í ferðamannavegi og hálfur milljarður króna í viðhald vega á höfuðborgarsvæðinu og á Hringveginum samkvæmt mati Vegagerðarinnar.


Farið verður í framkvæmdir sem eru langt komnar í undirbúningi og fljótlegt ætti að vera að bjóða út, það er hluti Dettifossvegar, Kjósaskarðsvegar, Uxahryggjavegar og Kaldadalsvegar.

Ætlun ríkisstjórnarinnar er að fjárveiting fáist á aukafjárlögum 2015. Sjá frétt innanríkisráðuneytisins um málið.

Um Dettifossveg.
Framkvæmdir við veginn milli Dettifoss og Ásbyrgis hafa verið ráðgerðar í nokkur ár, en þeim ávallt verið frestað vegna fjárskorts. Vegarkaflinn sem um ræðir liggur um þjóðgarð Jökulsársgljúfra og veitir aðgengi að nokkrum helstu náttúruperlum landsins; Dettifossi, Hólmatungum og Hljóðaklettum. Fullbúinn Dettifossvegur tengir  Kelduhverfi (og þar með Ásbyrgi) í Öxarfirði við Hringveginn á Mývatnsöræfum og þjónar bæði ferðamönnum og aðliggjandi byggðum. Í þessum áfanga er lagt til að lokið verði við áfanga Dettifossvegar milli Ásbyrgis  og Vesturdals (Hljóðakletta) en þar er umferð ferðamanna mikil og vegurinn ekki boðlegur. Áfanginn er mikilvæg viðbót við þann hluta sem kominn er milli Hringvegar og Dettifoss, hann stækkar ferðaþjónustusvæðið, lengir ferðatímabilið og þjónar þannig ferðamönnum og landsmönnum betur. Framkvæmdatími er áætlaður tvö ár. Hægt er að bjóða verkið út fljótlega.

Um Kjósaskarðsveg
Endurbygging Kjósarskarðsvegar hefur lengi verið talin brýn. Með fjárveitingunni sem ríkisstjórnin leggur til er hægt að flýta henni um eitt ár frá því sem áður var áætlað. Kjósarskarðsvegur tengir Þingvelli við Hvalfjörð og Vesturland. Með uppbyggingu hans er hægt að dreifa betur álagi vegna ferðamanna, auk þess sem nýr Kjósarskarðsvegur mun þjóna betur byggð á svæðinu. Stefnt er að því að endurbyggja á árinu 2015 ríflega helming þess hluta vegarins sem eftir er og leggja á hann bundið slitlag. Hægt er að bjóða út verkið fljótlega.

Um Uxahryggjaveg og Kaldadalsveg
Uxahryggjavegur liggur milli Borgarfjarðarbrautar og Kaldadals um Lundarreykjadal. Kaldadalsvegur kallast leiðin milli Þingvalla og Húsafells. Unnið verður að endurgerð Uxahryggjavegar eftir því sem fjármagn leyfir og lagt á hann bundið slitlag. Leggja á bundið slitlags á uppbyggðan kafla á Kaldadalsvegi milli Uxahryggja og Sandkluftavatns. Um er að ræða fjölfarinn kafla sem tengir Þingvelli við Vesturland um Uxahryggi.


Dettifossvegur