Fréttir
  • Umferðin eftir mánuðum
  • Umferðin með spá út árið

Sama umferð í apríl á Hringveginum og í fyrra

Samdráttur fyrstu fjóra mánuðina

4.5.2015

 


Milli mánaða 2014 og 2015
Engin heildarbreyting varð í umferð í nýliðnum apríl borið saman við sama mánuð síðasta árs. En þegar taflan hér fyrir neðan er skoðuð sést að umferðin dróst klárlega saman í öllum svæðum nema í grennd við höfuðborgarsvæðið, þar sem hún jókst um 1,6%. Þessi auking við höfuðborgarsvæðið dugði til þess að vega upp á móti samdrætti annara svæða.
Mest dróst umferðin saman um Suður- og Austurland eða um 3,4% á báðum svæðum.

Frá áramótum 2014 og 2015
Umferð hefur nú dregist saman um 0,1% frá áramótum á 16 völdum stöðum á Hringvegi en mestu munar þar um að umferð hefur dregist saman um 2,3% á Suðurlandi og 0,3% á og við höfuðborgarsvæðið. Umferð um Austurland hefur aukist mest eða um 9% en lítið umferðarmagn er um mælipunktinn á Austurlandi í samanburði við önnur svæði þ.a.l. hefur mikil auking eða, eftir atvikum, samdráttur lítil áhrif á heildarniðurstöðu þessarar samantektar.

Samanburðartafla

Horfur út árið 2015

Miðað við 4 fyrstu mánuði ársins lítur út fyrir að umferðin geti dregist saman um 1%. Þessi niðurstaða er nokkuð önnur en það sem á sér stað á höfuðborgarsvæðinu, sbr. fyrri fréttir þar um. Gangi spá um samdrátt ekki eftir er það vísbending um að fjórir fyrstu mánuðir ársins hafi verið nokkuð óhefðbundnir miðað við undanfarin ár.   

Hafa skal í huga að umferðarmestu mánuðir ársins eru framundan og munu þeir ráða mestu um lokaniðurstöðu ársins.  Það er því enn óvarlegt að fullyrða nokkuð um hvort samdráttur eða aukning verði í umferðinni um Hringveginn nú í ár. 

Vikudagsumferðin það sem af er ári 2014 og 2015
Það vekur athygli að umferð eftir vikudögum virðist vera að aukast á virkum dögum en dragast saman um helgar.   Hlutfallslega hefur umferð, það sem af er ári, aukist mest á miðvikudögum eða um 2,4%.  Umferð hefur aftur á móti dregist gríðarlega saman á sunnudögum, það sem af er ári, eða um rúmlega 10%. Þessi mikli samdráttur í umferð um helgar veldur því að umferðin hefur dregist aðeins saman þrátt fyrir aukningu í umferð á öðrum dögum. 

Það mætti ef til vill draga þá ályktun að atvinnutengd umferð sé að aukast á sama tíma sem frítímaumferð dregst saman. Hvers vegna frítímaumferð dregst saman gæti verið tengt óvenju lélegu tíðarfari, sérstaklega sunnan og suðvestanlands. 

Umferðin eftir vikudögum

Talnaefni


Ath. allar umferðartölur eru grófrýndar, sem þ.a.l. gætu tekið breytingum við endanlega yfirferð, í byrjun næsta árs.