Fréttir
  • Ný Vestmannaeyjaferja

Moskenesstraumen AS með lægsta boð í smíði og rekstur Vestmannaeyjaferju

Nantong Rainbow Offshore and Engineering með lægsta boð í smíði eingöngu

15.9.2016

Norska fyrirtækið Moskenesstraumen AS átti lægsta tilboð í smíði og rekstur nýrrar Vestmannaeyjaferju. Tilboð voru opnuð hjá Ríkiskaupum í dag. Lægsta boð eingöngu í smíði ferjunnar átti Nantong Rainbow Offshore and Engineering frá Kína en litlu munaði á því tilboði og boði frá Fiskerstrand Verft AS frá Noregi. 

Útboðið var tvíþætt en bjóða mátti í annarsvegar nýsmíði ferjunnar og hinsvegar í einkaframkvæmd þar sem boðið var í smíði ferjunnar og rekstur í 12 ár.

Í smíði ferjunnar bárust alls 12 tilboð en kostnaðaráætlun hljóðaði upp á 27,5 milljónir evra eða ríflega 3,5 milljarða íslenskra króna. Lægst boð kom frá Nantong Rainbow Offshore and Engineering frá Kína upp á 21.420.000 evrur, næstlægsta boð átti Fiskerstrand Verft AS frá Noregi upp á 21.850.000 evrur.

Lægsta boð í smíði og rekstur ferjunnar átti norska fyrirtækið Moskenesstraumen AS og hljóðaði það upp á 7,14 milljarða íslenskra króna en kostnaðaráætlun nam rúmum 13,22 milljörðum króna. Næstlægst bauð Eimskip Ísland ehf., og Sæferðir ehf. en það boð hljóðaði upp á rúmar 8,12 milljarða íslenskra króna.

Sjá nánar á vef Ríkiskaupa, aðra  bjóðendur og tilboðsupphæðir.

Farið verður yfir tilboðin og borið saman eftir ákveðnum reglum hvort sé hagstæðara að smíða ferjuna eingöngu eða taka tilboði í einkaframkvæmd þ.e.a.s. smíði og rekstur ferjunnar. Farið verður yfir hvort tilboðin eru gild sem og mat á skipasmíðastöðinni. Einnig þarf að taka með í reikninginn fjarlægðarálag vegna nýsmíðinnar sem gert verður í samræmi við útboðsskilmála.