Fréttir
  • Umferðin uppsafnað
  • Umferðin hlutfallsleg breyting
  • Covid daglegur munur vika 5
  • Covid umferðin það sem af er ári 01.02.2021
  • Umferðin eftir mánuðum
  • Umferðin með spá út árið
  • Umferðin eftir vikudögum

Minni umferð í janúar á höfuðborgarsvæðinu

Umferðin dróst saman um 6,4 prósent

4.2.2021

Umferðin á höfuðborgarsvæðinu í janúar reyndist 6,4 prósentum minni en í sama mánuði fyrir ári síðan. Þetta er annað en á Hringveginum þar sem umferðin jókst lítillega í janúar ( sjá fyrri frétt ). Umferðin dróst líka saman í síðustu viku miðað við sömu viku fyrir ári þannig að reikna má með að enn séu reglur um sóttvarnir áhrifavaldur í umferðinni.


Milli ára eftir mánuðum
Umferðin í janúar á höfuðborgarsvæðinu, yfir þrjú lykilmælisnið Vegagerðarinnar, reyndist 6,4% minni en í sama mánuði á síðasta ári.  Umferð dróst saman í öllum mælisniðum en mest í sniði á Hafnarfjarðarvegi (-11,9%) og minnst í sniði á Vesturlandsvegi (-1,9%) ofan Ártúnsbrekku.  Fyrir ári síðan dróst umferð saman í janúar 2020 um 1,6% miðað við janúar 2019 svo þessi samdráttur nú kemur ofan á þann samdrátt.

Vikuumferðin (Covid-tengd)
Ef eingöngu er horft til síðustu viku eða fimmtu viku, innan ársins, dróst umferðin saman um 5,6% miðað við sömu viku árið 2020. Þetta er heldur meiri samdráttur en varð í viku 4, en alls ekki óeðlilegt að umferðin sveiflist talsvert meira á milli vikna en mánaða, þar sem vikurnar eru ekki á sömu dagsetningum á milli ára og síðan, yfir vetrartímann, hefur veðurfarið meira vægi þó minna innan höfuðborgarsvæðis en út á Hringvegi. Það verður því áfram fróðlegt að fylgjast með þróuninni á næstu vikum og mánuðum.

Umferð innan mánaðar eftir vikudögum
Ef bara er horft á virka daga, í nýliðnum mánuði,  þá var mest ekið á þriðju- og miðvikudögum en minnst á föstudögum sem verður að teljast óvanalegt enda kemur í ljós að umferðin dróst hlutfallslega mest saman á þeim vikudegi eða um tæp 15%, þegar miðað er við sama mánuð á síðasta ári.  Umferðin jókst hins vegar á miðvikudögum í janúar eða um 3,5%.