Fréttir
  • Umferðin eftir mánuðum
  • Umferðin með spá út árið
  • Umferðin uppsafnað
  • Umferðin eftir vikudögum

Mikil aukning í umferðinni í ágúst á höfuðborgarsvæðinu

umferðin jókst um tæp tíu prósent

9.9.2016

Umferðin á höfuðborgarsvæðinu í ágúst sl. jókst um tæp tíu prósent frá sama mánuði fyrir ári síðan. Þetta er mesta umferðaraukning í þessum mánuði síðan árið 2007. Útlit er fyrir mikla aukningu í ár, hún gæti numið um sex prósentum. Umferðin hefur aldrei verið meiri í ágúst.

Milli mánaða 2015 og 2016
Ágústumferðin um 3 mælisnið Vegagerðarinnar, á höfuðborgarsvæðinu, jókst gríðarlega mikið miðað við sama mánuð á síðasta ári eða um 9,6%. Leita þarf aftur til ársins 2007 til að finna meiri aukningu milli ágústmánaða en þá jókst umferðin um 13,2%. Þessi aukning nú varð til þess að aldrei hafa fleiri ökutæki ekið um mælisniðin 3 í ágúst mánuði frá því að þessi samantekt hófst. Alls fóru tæplega 158 þúsund ökutæki um sniðin þrjú á degi hverjum. Þessi aukning fól einnig í sér að annað met var sett, en aldrei hafa mælst jafn mörg ökutæki um sniðin í nokkrum mánuði frá upphafi.

Umferðin jókst mikið í öllum mælisniðum en mest um mælisnið á Reykjanesbraut við Dalveg í Kópavogi eða um tæp 12%

Frá áramótum milli áranna 2015 og 2016
Umferðin hefur nú aukist um 6,6% frá áramótum miðað við sama tímabil á síðasta ári, um mælisniðin 3. Enn og aftur þarf að leita aftur til ársins 2007 til að finna hlutfallslega meiri aukningu miðað við árstíma.

Ljóst má vera að það þarf eitthvað mikið að gerast til þess að ekki verði set met í heildarumferð yfir árið í lok þessa árs.

Umferð vikudaga

Umferðin hefur aukist á öllum vikudögum og mest á miðvikudögum, sem eru enn umferðarmestu dagar vikunnar að loknum ágúst mánuði.  Minnst er ekið á sunnudögum um höfuðborgarsvæðið.

Frá áramótum hefur umferðin, að meðaltali, aukist um 6,3% á virkum dögum og um 7,2% um helgar.

Horfur út árið 2016

Eftir því sem liðið hefur á árið hafa horfurnar aukist og nú stefnir í að umferðin á höfuðborgarsvæðinu geti aukist um 6% miðað við árið á undan.  Ef þessi spá gengur eftir þá hefur umferðin ekki aukist jafn mikið á milli ára frá því árið 2007. 

Þó að enn standi eftir nokkur prósentumet frá því árið 2007 skal það haft í huga að heildarumferðin nú er langtum meiri en hún var þá og stefnir í að vera um 13% meiri í árslok. 

Þá má vekja athygli á því hversu vel aukning umferðar á höfuðborgarsvæðinu fylgir hagvextinum eða aukningum á landsframleiðslu. Höfuðborgarumferðin fylgir hagvextinum mun betur en umferðin um Hringveginn og fylgir honum svo vel að vel mætti notast við aukningu umferðar sem haldgóða spá um hagvaxtaraukningu hvers árs.
Talnaefni