Fréttir
  • Umferðin hlutfallsleg breyting
  • Umferðin eftir mánuðum
  • Umferðin uppsafnað
  • Covid umferðin í viku 18
  • Covid Umferðin á Hb vikuleg
  • Umferðin eftir vikudögum

Metsamdráttur umferðar á höfuðborgarsvæðinu í apríl

umferðin dróst saman um nærri 28 prósent

5.5.2020

Umferðin á höfuðborgarsvæðinu í apríl var 28 prósentum minni en í apríl í fyrra og hefur aldrei mælst svo mikill samdráttur á svæðinu. Þetta er þó heldur minna en samdrátturinn var á Hringveginum í sama mánuði. Umferðin í nýliðinni viku reyndist 21 prósenti minni en sömu viku fyrir ári. Þó fóru heldur fleiri bílar um mælisniðin en í síðustu viku þótt væru fimmtungi færri en í sömu viku fyrir ári.

Milli mánaða 2019 og 2020
Umferðin í þremur lykilmælisniðum á höfuðborgarsvæðinu dróst saman um 27,7% í nýliðnum apríl borið saman við sama mánuð á síðasta ári.  Þetta er heldur minni samdráttur en varð á Hringveginum í apríl en engu að síður gríðarlega mikill því aldrei áður hefur umferðin á höfuðborgarsvæðinu í umræddum mælisniðum dregist svona mikið saman. Stærsti samdráttur, sem mælst hefur, var í mars sl eða 20,7% samdráttur en þar áður hafði mesti samdráttur mælst 9,1%, í apríl 2009. Svona tölur hafa því aldrei áður sést í gögnum Vegagerðarinnar, frá því að þessi samantekt hófst.

Mest dróst umferðin saman um Hafnarfjarðarveg eða um 37,4% en minnst um mælisnið á Reykjanesbraut við Dalveg eða um 23,0%.

Frá áramótum 2020
Nú hefur umferðin dregist saman um tæp 13% frá áramótum ef borið er saman við sama tímabil á síðasta ári. Aldrei áður hefur samdrátturinn mælst jafn mikil miðað við árstíma og er hann tæplega 4 sinnum meiri en áður hafði mælst áður.

Umferð vikudaga
Líkt og á Hringvegi dróst umferðin mest saman á sunnudögum eða um tæplega 42% en minnst mældist samdrátturinn á fimmtudögum eða rúmlega 21%. Gjarnan er ekið minnst á sunnudögum á höfuðborgarsvæðinu og það varð ekki breyting á því í apríl en hins vegar var mest ekið á miðvikudögum.

Meðalvikuumferðin
Þegar er horft á skemmra tímabil en mánuð, eins og Vegagerðin hefur verið að gera undanfarið, þá er umferðin að aukast jafnt og þétt eftir páska en það er í takt við það sem gerðist á síðasta ári, svo draga má þá ályktun að þrátt fyrir allt þá virðist sem svo að umferðin sé aftur að ná einkennum (e. character) sínum þó að hún sér áfram talsvert minni en á síðasta ári. Næstu vikur munu verða fróðlegar að sjá því þá kemur betur í ljós hvernig samfélagið nær sér eftir að slakað hefur verið á samkomubanninu.

Umferðin í viku 18 reyndist rúmlega 21% minni en í sömu viku á síðasta ári.  Þetta er aðeins meiri samdráttur en mældist í vikunni áður en samt er eins og merkja megi að umferðin sé að aukast.

Horfur út árið 2020
Líkt og á Hringvegi er óvissan mjög mikil í horfum út árið og því eingöngu hægt að gefa viðmið um að hegði umferðin sér líkt og í venjulegu ári hér eftir má búast við 5 - 13% samdrætti allt eftir því hversu fljótt samfélagið verður að taka við sér.

Talnaefni