Fréttir
  • Öldur
  • Skjáskot af sjolag.is

Met slegið í ölduhæð á Garðskagadufli

Gríðarlega háar öldur slá met frá árinu 1990

9.2.2022

Öldumælingardufl við Garðskaga mældi ítrekað öldur yfir 30 m í óveðrinu sem gekk yfir landið síðdegis þann 7, febrúar og aðfaranótt mánudags 8. febrúar. Fyrra met í ölduhæð við Ísland var síðan árið 1990 á sama dufli. Ein aldan var svo kröftug að mælirinn sló út en hann mælir mest 40 m ölduhæð og því óvíst hversu há sú alda var. Heppilegt var að lágstreymt var og sjávarstaða því hagstæð.

Fyrir þetta veður hafði ölduspá gerði ráð fyrir að um væri að ræða stór atburður sem gæti leitt til þess að mjög háar öldur nái landgrunni. Líkur voru á því að ölduhæð gæti náð sömu hæðum og voru mældar þann 9. janúar 1990 þegar Garðskagaduflið mældi 25 m háa staka öldu, sem er sú hæsta sem mælst hefur við strendur Íslands. 
Þar sem það var lágstreymt og sjávarstaða því hagstæð var fyrirséð að öldur myndu ekki valda miklum skemmdum á mannvirkjum þar sem þær brotna langt fyrir utan grynningarnar.

Vegagerðin rekur um 11 öldumælingaduflum í kringum Ísland og einnig vefupplýsingakerfið um veður og sjólag, www.sjolag.is

Á vefnum er hægt að finna mælda kenniöldu frá duflunum en kennialda er meðaltal af hæstu öldum yfir hvert mælitímabil sem varir í 30 mínútur.

Þau dufl sem eru við Suðurströnd landsins er Garðskagadufl, Grindavíkurdufl og Surtseyjardufl. Garðskagaduflið og Grindavíkurduflið voru virk þegar stormurinn reið yfir.

Frumgögn úr Garðskagaduflinu hafa verið greind af hafnadeild Vegagerðarinnar. Hæsta kennialdan sem mæld var úr duflinu náði 19,8 m hæð rétt eftir miðnætti en truflanir í mæligögnum skekkir þetta gildi og líklega var kennialdan aðeins lægri. 

Alls mældust um 10 stakar öldur yfir 25 m sem var fyrra metið og fjórar öldur yfir 30 m. Eins mældist ein alda sem sprengdi skalann á duflunum sem er 40 m og því ekki hægt að segja með vissu um að sú mæling sé rétt. Verið er að vinna að frekari greiningu úr ölduduflinu og fá staðfestingu á gæði gagnanna. Ef rétt reynist er þetta langhæsta mælda aldan við Íslandsstrendur og sennilega með þeim hærri sem mældar hafa verið í heiminum. 
Suðurströnd landsins er eitt útsettasta strandsvæði jarðarinnar og má því búast við að hér nái öldur hæð sem er sú hæsta sem fyrirfinnst.