Fréttir
  • Covid umferðin það sem af er apríl

Lítilsháttar aukning í umferðinni á höfuðborgarsvæðinu í síðustu viku

páskar gera samanburð erfiðan en svipuð umferð var og fyrir tveimur vikum

21.4.2020

Umferðin um þrjú lykilmælisnið Vegagerðarinnar á höfuðborgarsvæðinu í síðustu viku, viku 16, var svipuð og umferðin fyrir tveimur vikum. Lítilsháttar aukning er frá síðustu viku en breytileg tímasetning páska á milli ára gerir samanburð erfiðan. Fróðlegt verður að sjá hvort að umferðin næstu tvær vikur haldi áfram að aukast þótt lítið sé og þá einnig hvað gerist eftir 4. maí.

Umferðin í þremur lykilmælisniðum Vegagerðarinnar jókst lítillega í viku 16 miðað við vikuna þar á undan og var svipuð og í viku 14, en það var vikan fyrir páska.  Yfirleitt er umferðin á höfuðborgarsvæðinu mun minni í páskaviku en vikum í kringum páska þar sem margir fara út úr borginni um þetta leyti.

Vegna samkomubanns eru sveiflurnar hins vegar minni í umferðinni núna heldur en á síðasta ári.  Páskar voru að stærstum hluta í viku 16 á síðasta ári þ.a.l. var umferðin mun minni í þeirri viku en vikunum sitt hvoru megin við.  Þetta hefur þau áhrif að þegar vika 16, núna í ár, er borin saman við sömu viku á síðasta ári, virðist sem svo að að kippur hafi komið í umferðina ef horft væri einungis á prósentubreytinguna en línuritið sem fylgir sýnir þess vegna umferðarþungann í tölum, græna línan í ár en sú gráa í fyrra, þar sést vel samdrátturinn í umferðinni um páskana í fyrra.

Þegar umferðartölurnar eru skoðaðar má sjá að umferðin var ekki að aukast að neinu ráði núna í ár og var hún svipuð og verið hefur síðustu þrjár vikurnar.  En ætla má að umferðin aukist aftur þegar slakað verður á samkomubanninu í viku 19.  Mögulega gæti umferðin þó aukast núna í viku 17 og 18 ef aukin bjartsýni færist yfir landann um að við séum að sigrast á þessari veiru. Það verður því fróðlegt að fylgjast með framhaldinu, hvort það verður raunin og eða umferðin taki frekar við sér þegar slakað verður á samkomubanninu.