Fréttir
  • Á Hjallahálsi

Leiðin greið í Gufudalssveit

Úrskurðarnefndin hafnar kröfu kærenda

1.10.2020

Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hafnaði í dag kröfu þeirra er kærðu framkvæmdaleyfi Reykhólahrepps vegna vegalagningar á Vestfjarðavegi um Gufudalssveit á milli Bjarkalundar og Skálaness.  Leiðin er því greið að framhaldi verksins. Vegagerðin hefur nú þegar hafið framkvæmdir á litlum hluta verksins í Gufufirði og mun nú halda ótrauð áfram með útboð og framkvæmdir.

Í úrskurði sínum fer nefndin yfir langa forsögu málsins og rekur aftur til ársins 2003 þegar Vegagerðin lagði fram tillögu að matsáætlun fyrir mat á umhverfisáhrifum. Núverandi þáttur málsins hefst þegar Vegagerðin sótti um framkvæmdaleyfi til Reykhólahrepps þann 16. desember 2019. Sveitarstjórn hreppsins samþykkti síðan að veita framkvæmdaleyfið 25. febrúar 2020.

Þann 16. apríl 2020 kærðu fjórir eigendur Grafar og tveir eigendur Hallsteinsness í Reykhólahreppi, Náttúruverndarsamtök Íslands, Fuglaverndarfélag Íslands og Gunnlaugur Pétursson ákvörðun Reykhólahrepps um veitingu framkvæmdaleyfis til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála og kröfðust þess að ákvörðunin yrði felld úr gildi og framkvæmdir yrðu stöðvaðar á meðan á málsmeðferð stæði. Nefndin hafnaði því að stöðva framkvæmdir með bráðabirgðaúrskurði 5. júní 2020.

Nefndin kemst nú að þeirri niðurstöðu einsog segir í úrskurðinum að „[ekki] er um það deilt og er engum blöðum um það að fletta að brýn nauðsyn er á samgöngubótum á því svæði sem um ræðir. Að teknu tilliti til þess svigrúms sem sveitarstjórn hefur […] verður fallist á að hún hafi fært ásættanleg rök fyrir því að þeir samfélagslegu hagsmunir sem hún vísaði til, og felast í auknu umferðaröryggi vegfarenda um sveitarfélagið til frambúðar, feli í sér brýna nauðsyn í skilningi 61. fr. laga nr. 60/2013, en fyrir liggur að lagning vegarins myndi alltaf raska þeim verndarhagsmunum sem þar eru tilgreindir, þótt í mismiklum mæli yrði. Með sama hætti eru uppfyllt skilyrði 3. mgr. 37. gr. laganna, enda um almannahagsmuni að ræða, og voru fjölmargir kostir skoðaðir áður en ákvörðun var tekin.“ Nefndin bendir einnig á að „[m]ismunandi leiðarval myndi því ávallt leiða til íþyngjandi ákvörðunar gagnvart einhverjum landeigendum. Verður því ekki séð að sjónarmið um meðalhóf gagnvart kærendum sérstaklega, umfram aðra landeigendur, hafi átt að standa hinni kærðu ákvörðun í vegi.“

Niðurstaða nefndarinnar er því að ekki verði talið að „hin kærða ákvörðun um veitingu framkvæmdaleyfis til lagningar Vestfjarðavegar eftir leið Þ-H sé háð þeim form- eða efnisannmörkum að ógildingu varði og verður kröfu kærenda þar um því hafnað.“ líkt og segir í úrskurðarorðum.

Vegagerðin fagnar niðurstöðu nefndarinnar og því að loks gefist kostur á því að koma þessum nauðsynlegu samgöngubótum á um sunnanverða Vestfirði en alkunna er að erfiðar samgöngur hafa staðið svæðinu fyrir þrifum um langt árabil. Stefnt er að því að bjóða út þverun Þorskafjarðar í haust og komast af stað með það verk í vetur. Þverun Þorskafjarðar er umfangsmikið verk sem tekur tvö og hálft til þrjú ár. Þegar hefur eins og nefnt var hér að ofan verið hafist handa við vegagerð í Gufufirði.  Næstu áfangar verksins fara svo í framkvæmd samhliða þessu en áætluð verklok gætu orðið árið 2024.

Úrskurður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála