Fréttir
  • Öldumælingaduflið er kerfilega merkt og því reyndist það starfsmönnum sjávarráðuneyti Frakklands ekki erfitt að finna eiganda þess.
  • Duflið var merkt Siglingastofnun, en Vegagerðin og Siglingastofnun sameinuðust í eina stofnun árið 2013. Duflið var því orðið nokkurra ára gamalt þegar það týndist 2019.
  • Dufið fannst við La Turballe á suðurströnd Bretaníuskagans.
  • Vefurinn Veður og sjólag veitir mikilvægar upplýsingar til sjófarenda.

Íslenskt öldumælingadufl finnst við Frakklandsstrendur

Týndist við Surtsey í ágúst 2019

28.12.2020

Vegagerðin fékk óvæntan jólaglaðning á aðfangadag þegar henni barst tilkynning um að öldumælingadufl frá Surtsey merkt Siglingastofnun hefði fundist við Frakklandsstrendur, nánar tiltekið við La Turballe á suðurströnd Bretaníuskagans. Duflið týndist í ágúst 2019 og var það nokkuð tjón enda veita slík dufl sjófarendum nauðsynlegar upplýsingar.

Eitt af hlutverkum Vegagerðarinnar er að sjá sjófarendum fyrir nauðsynlegum upplýsingum svo þeir geti með öruggum hætti siglt við Íslandsstrendur. Á vefnum Veður og sjólag er að finna gögn frá veðurstöðvum og öðrum sjálfvirkum mælabúnaði við strendur landsins. Þar er einnig að finna mikilvæg gögn frá öldumælingaduflum sem veita upplýsingar um stærð á öldum umhverfis landið í rauntíma allan sólarhringinn.

Slík öldumælingadufl eru víða við strendur landsins. Þau eru fest við legufæri með gúmmíkapli, svipuðum þeim sem eru notaðir í teygjustökki en þannig getur duflið fylgt yfirborði öldunnar.

Eitt slíkt dufl er að finna við Surtsey en í ágúst 2019 hefur gúmmíkapallinn að öllum líkindum slitnað og duflið rekið á haf út. Talsvert tjón er að týna slíku dufli. Bæði eru þetta tiltölulega dýr tæki en ekki síst er slæmt að missa upplýsingarnar sem þau veita en um leið og öldudufl dettur út rignir inn ábendingum frá sjófarendum.

Ekki er algengt að öldumælingadufl týnist, öðru hvoru gerist það þó að dufl slitnar upp en oftast finnst það aftur á reki eða uppi í fjöru í kringum landið.

Surtseyjarduflið lagðist þó í heldur lengra ferðalag. Á aðfangadag barst starfsmönnum hafnadeildar Vegagerðarinnar tilkynning frá sjávarútvegsráðuneyti Frakklands, Ministere de la Mar, um að dufl merkt Siglingastofnun* hefði fundist við La Turballe á suðurströnd Bretaníuskagans.

Þetta þóttu skemmtilegar fréttir enda loksins ljóst hvað varð af duflinu horfna. Ekki er þó ljóst hvort það muni aftur þjónusta sjófarendur við Íslandsstrendur en eftir á að meta hvort borgi sig að fá duflið sent heim.

Þess skal þó geta að ekki var lengi dufllaust við Surtsey en nýtt öldumælingadufl var sjósett fljótlega eftir að hitt týndist. Á meðfylgjandi mynd má sjá kort af vefnum Veður og sjólag frá 28. desember. Þar kemur til dæmis fram að ölduhæð á Surtseyjarduflinu var þá 2,4 m.

 

*Siglingastofnun og Vegagerðin sameinuðust í eina stofnun árið 2013.