Fréttir
  • Allar upplýsingar er að finna á vefnum www.loftbru.is
  • Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, kynnti verkefnið Loftbrú á Egilsstaðaflugvelli í dag.
  • Bergþóra Þorkelsdóttir forstjóri Vegagerðarinnar þakkaði öllum sem gerðu verkefnið að veruleika í mjög þröngum tímaramma.
  • Jóna Árný Þórðardóttir framkvæmdastjóri Austurbrúar pantaði fyrsta miðann með afsláttarkóða Loftbrúar.
  • Á veg Loftbrúar www.loftbru.is er kort sem sýnir á hvaða svæðum íbúar eiga rétt á Loftbrú.
  • Merki Loftbrúar var hannað af Kolofon.

Íbúar á landsbyggðinni fá lægri flugfargjöld með Loftbrú

40% afsláttur af heildarfargjaldi í innanlandsflugi fyrir allt að 6 flugleggi á ári.

9.9.2020

Íbúar á landsbyggðinni með lögheimili fjarri höfuðborginni eiga frá deginum í dag kost á lægri flugfargjöldum til borgarinnar. Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og Bergþóra Þorkelsdóttir forstjóri Vegagerðarinnar opnuðu nýju þjónustuna, sem ber heitið Loftbrú, á kynningarfundi í flugstöðinni á Egilsstöðum í dag. Loftbrú er ætluð öllum með lögheimili fjarri höfuðborginni og á eyjum. Þjónustan mun bæta aðgengi landsbyggðarinnar að miðlægri þjónustu í höfuðborginni.

Loftbrú veitir afsláttarkjör til þeirra sem eiga lögheimili á landsbyggðinni fjarri höfuðborgarsvæðinu og á eyjum án vegasambands. Undir Loftbrú falla Vestfirðir, hluti af Norðurlandi vestra, Norðurland eystra, Austurland, Hornafjörður og Vestmannaeyjar. Svæðið er afmarkað með tilliti til póstnúmera. Alls ná afsláttarkjör Loftbrúar til rúmlega 60 þúsund íbúa á þessum svæðum.

Markmiðið með verkefninu er að bæta aðgengi íbúa á landsbyggðinni að miðlægri þjónustu og efla byggðir með því að gera innanlandsflug að hagkvæmari samgöngukosti. Afsláttarkjörin koma þeim til góða sem vilja nýja margvíslega þjónustu og afþreyingu á höfuðborgarsvæðinu og til að heimsækja ættingja og vini. Loftbrú er ætluð fólki í einkaerindum til höfuðborgarinnar en ekki fyrir ferðir í atvinnuskyni eða hefðbundnar vinnuferðir.

Loftbrú veitir 40% afslátt af heildarfargjaldi fyrir allar áætlunarleiðir innanlands til og frá höfuðborgarsvæðinu. Fullur afsláttur er veittur hvort sem valið er afsláttarfargjald eða fullt fargjald. Hver einstaklingur getur fengið lægri fargjöld fyrir allt að þrjár ferðir til og frá Reykjavík á ári (sex flugleggir). Út árið 2020 gilda afsláttarkjörin fyrir eina ferð til og frá Reykjavík (tveir flugleggir).

Á Ísland.is auðkennir fólk sig með rafrænum skilríkjum og þeir sem eiga rétt á Loftbrú fá yfirlit yfir réttindi sín. Þeir sem vilja nýta afsláttinn sækja sérstakan afsláttarkóða sem notaður er á bókunarsíðum flugfélaga þegar flug í áætlunarflugi er pantað.

Mikið réttlætismál

„Það er mikið réttlætismál að þeir sem búa fjarri höfuðborginni og vilja og þurfa að sækja þjónustu þangað fái niðurgreiðslu á ferðum sínum með flugi. Þetta er mikilvægt skref í því að jafna aðstöðumun þeirra sem búa annars staðar en á suðvesturhorninu. Ég er sérstaklega ánægður að sjá afsláttarkjörin verða að veruleika en verkefnið hefur verið á stefnuskrá minni síðan ég kom í ráðuneytið. Fyrirmyndin var sótt til nágranna okkar Skota en höfum nú útfært verkefnið á okkar hátt og gert aðgengilegt í takt við áherslur um stafræna þjónustu hins opinbera,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.

Verkefnið er í takt við stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar um að efla innanlandsflug og byggja upp almenningssamgöngur um land allt. Verkefnið er hluti af samgönguáætlun 2020-2034 sem Alþingi samþykkti í júní 2020. Verkefni hefur gjarnan verið nefnt skoska leiðin þar sem það á fyrirmynd í vel heppnuðu kerfi sem Skotar hafa byggt upp í samstarfi ríkis og flugfélaga.

Á kynningarfundinum í dag bókaði Jóna Árný Þórðardóttir framkvæmdastjóri Austurbrúar fyrsta farmiðann með afsláttarkóða Loftbrúar. Jóna Árný fór í gegnum allt ferlið sem var einfalt og skilvirkt.

Mikið gleðiefni

Vegagerðin fer með umsjón og framkvæmd verkefnisins í samvinnu við samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið. „Vegagerðin vinnur að almannasamgöngum utan þéttbýlis um land allt. Það er okkur gleðiefni að geta greitt götu þeirra sem nota flug frá fjærstu byggðum landsins að höfuðborg allra landsmanna og þeirri þjónustu sem þar er að sækja,“ segir Bergþóra Þorkelsdóttir, forstjóri Vegagerðarinnar. Umferðarþjónusta Vegagerðarinnar í síma 1777 mun veita upplýsingar til þeirra sem á þurfa að halda en almenningssamgöngudeild stofnunarinnar heldur utan um aðra þræði.

Kostnaður við greiðsluþátttöku ríkisins við lækkun flugfargjalda í verkefninu er metinn allt að 600 milljónum kr. á ársvísu og 200 milljónum kr. á þessu ári. Gert er ráð fyrir þeim fjárframlögum í samgönguáætlun sem samþykkt var í júní sl.

Stafrænt Ísland bar ábyrgð á þróun á veflausn fyrir Loftbrú á þjónustuvefnum Ísland.is í samvinnu við fyrirtækið Parallel ráðgjöf sem sérhæfir í stafrænum lausnum. Veflausnin er tengd bókunarvélum flugfélögum, sem bjóða upp á innanlandsflug en það eru Air Iceland Connect, Ernir og Norlandair. Kolofon sá um hönnun vefsins www.loftbru.is þar sem finna má helstu upplýsingar um verkefnið. Síðan er á íslensku, ensku og pólsku.

Námsmenn og börn

Tveir hópar hafa sérstöðu og um þá gilda undantekningar frá reglunni um að eiga lögheimili á landsbyggðinni. Framhaldsskólanemar af landsbyggðinni sem stunda nám á höfuðborgarsvæðinu og hafa fært lögheimili sitt tímabundið þangað munu eiga rétt á Loftbrú. Börn sem eru með lögheimili á höfuðborgarsvæðinu en eiga foreldra eða forráðamenn sem hafa búsetu á landsbyggðinni munu einnig eiga rétt á Loftbrú. Unnið er að því að útfæra þjónustuna þannig að hægt verði að bóka lægri fargjöld fyrir þessa tvo hópa. Stefnt er að því að klára þá vinnu fyrir áramót.

·         Nánar um Loftbrú á vef verkefnisins www.lofbrú.is

·         Sækja afsláttarkóða á þjónustuvef Ísland.is