Fréttir
  • Erna Bára Hreinsdóttir og Rúna Ásmundsdóttir hjóla stíg við Grindavíkurveg.

Hjólastígar umferðaröryggisrýndir í fyrsta sinn

Umferðaröryggishópur á vegum Vegagerðarinnar framkvæmdi í fyrsta sinn 3. stigs umferðaröryggisrýni á hjólastíg í lok maí síðastliðnum.

6.8.2019

„Stærri vegaframkvæmdir fara í gegnum umferðaröryggisrýni en hins vegar er nýtt af nálinni að stígaframkvæmdir séu rýndar með sama hætti,“ segir Katrín Halldórsdóttir verkfræðingur á umferðardeild Vegagerðarinnar. 

Umferðaröryggisrýni er eitt af tækjum öryggisstjórnunar vegamannvirkja og hefur það markmið að tryggja að ný umferðarmannvirki séu byggð eins örugg og hagkvæmt er. Umferðaröryggisrýni er skipt upp í fjögur stig; forhönnun(1), verkhönnun (2), eftir framkvæmd – fyrir opnun (3) og skömmu eftir að vegur hefur verið tekinn í notkun (4).

Þann 31. maí var í fyrsta sinn gerð 3ja stigs rýni á hjólastíg meðfram Grindavíkurvegi. „Þriðja stigs rýni fer fram eftir framkvæmd en fyrir opnun, eða í raun áður en lokahönd er lögð á framkvæmdina.  Þá er farið á vettvang til þess að skoða aðstæður.  Í þriðja stigs rýni er verið að skoða hvernig yfirfærsla frá hönnun yfir í veruleika tekst,“ útskýrir Katrín. 

Vegagerðin styrkir stígagerð

Á undanförnum árum hefur Vegagerðin styrkt gerð hjólreiða- og göngustíga.  Það er gert í samræmi við vegalög og ákvörðun Alþingis um samgönguáætlun.  Vegagerðin hannar hvorki né leggur þessa stíga, heldur er þátttaka Vegagerðarinnar falin í styrkveitingu.  Vegagerðin gerir sameiginlega áætlun með sveitarfélögum um leiðarval stíganna. 

Af hverju er farið að rýna hjólastíga?

„Það eru ekki mörg ár síðan Vegagerðin fór að styrkja stígagerð.  Fyrir um fimm árum voru alvarleg slys í umferðinni rannsökuð og kom í ljós að stór hluti þeirra slysa urðu á hjólandi vegfarendum,“ segir Katrín.

Eitt af markmiðum sem sett er fram í samgönguáætlun er fækkun alvarlegra slysa. „Við höfum góða og mikla reynslu af að nota umferðaröryggisrýni fyrir vegaframkvæmdir og því var stungið upp á því að beita sama verklagi fyrir stígana sem við styrkjum. Það fékkst nýlega í gegn.“ 

Stígurinn meðfram Grindavíkurvegi var fyrsti stígurinn af mörgum sem rýndir hafa verið í sumar. Til dæmis er búið að rýna stíga við Mývatnssveitarveg, Garðskagaveg, Bústaðaveg, Suðurstrandarveg og Vatnsleysustrandarveg.

Mynd:  Erna Bára Hreinsdóttir og Rúna Ásmundsdóttir hjóla stíg við Grindavíkurveg. Erna hélt utan um  umferðaröryggisrýni hjá Vegagerðinni áður en Rúna tók við því verkefni síðastliðið haust.  Í umferðaröryggishópnum voru einnig Bryndís Friðriksdóttir og Katrín Halldórsdóttir, en þess má geta að allir hópmeðlimir eru vottaðir umferðaröryggisrýnar.