Fréttir
  • Brú á Gígjukvísl 2017, leiðigarðar ofan brúar.
  • Hringvegur um Skeiðarársans 2019. Kort /@Loftmyndir.is
  • Brú á Gígjukvísl, 2019 Kort/@loftmyndir
  • Straumlíkan af farvegi Gígjukvíslar, reiknuð hámarksútbreiðsla miðað við 5.000 m3/s flóðtopp.

Grímsvötn - jökulhlaup í Gígjukvísl

Vel fylgst með þróun mála

3.12.2021

Vegagerðin hefur fylgst grannt með gangi mála við Grímsvötn undanfarið. Eins og staðan er nú er ekki talið líklegt að jökulhlaup hafi áhrif á samgöngur og loka þurfi vegi en fylgst verður vel með næstu daga. Vegagerðin á í góðu samstarfi við Veðurstofuna og jöklahóp jarðvísindastofnunar og hefur styrkt vinnu vísindamanna við rannsóknir á Grímsvötnum og hlaupum frá Skeiðarárjökli allt frá því að undirbúningur hófst að vega- og brúargerð á Skeiðarársandi enda eru forsendur fyrir vatnafari grundvallaratriði varðandi hönnunarforsendur mannvirkjagerðar.

Í upphafi voru fjórar stórar brýr á Skeiðarársandi en miklar breytingar hafa verið á rennsli jökuláa á svæðinu og hafa því þarfirnar breyst með árunum.  Í kjölfar rýrnunar jökulsins rennur ekki lengur í fyrri farveg Skeiðarár heldur meðfram jöklinum til vesturs og í farveg Gígjukvíslar.  Það gerðist árið 2009 og árið 2017 var byggð ný 70 m löng brú á Morsá í stað 848 langrar brúar á Skeiðará sem stendur þó enn.   Súlujökull er vestast í Skeiðarárjökli Súlujökull og rann jökulvatn í ána Súlu eða Núpsvötn vestast á Skeiðarársandi þar sem nú er 420 m löng einbreið brú. Árið 2018 hafði Súlujökull hopað það mikið að jökulvatnið rennur til austurs og í farveg Gígjukvíslar. Ekki er búist við að það breytist á næstu áratugum og því hófst bygging nýrrar brúar á Núpsvötn í stað 420 m langrar einbreiðrar brúar fyrr á árinu.

Þessar breytingar á farvegum jökuláa valda því að meira vatn en áður rennur um farveg Gígjukvíslar auk þess sem framburður jökulsins sest í lón fyrir framan jökulinn. Það veldur því að töluverðar breytingar hafa verið undanfarið 10 ára á farvegi Gígjukvíslar og hefur hann grafist um 6-8 m niður í sandinn. Ekki er alveg ljóst hvort hann sé búinn að ná jafnvægi en hægt hefur á þessari þróun síðustu 2-3 ár. 

Þegar ráðist var í uppbyggingu vegamannvirkja á Skeiðarársandi í kjölfar jökulhlaupsins árið 1996 var hugað vel að hönnunarforsendum mannvirkja.   Hámarksrennsli jökulhlaupsins árið 1996 hefur verið metið sem 40- 50.000 m3/s. Ekki var einungis um jökulvatn heldur var Skeiðarársandur alþakinn stórum ísjökum.  Jakaburður átti stóran þátt í að brú á Gígju tók af árið 1996.

Ný 336 m löng tvíbreið brú á Gígjukvísl var tekin í notkun árið 1998.  Hönnunarforsendur þeirrar brúar miðuðu við að hún gæti tekið við minni jökulhlaupum án skemmda og án þess að vegur myndi rofna. Minni jökulhlaup hafa verið metin af stærðargráðunni 3000-5000 m3/s.  Stærri hlaup voru skilgreind sem hönnunaratburður með um 30.000 m3/s hámarksrennsli. Við slíkan atburð væri mögulegt að rjúfa veg og hleypa vatni framhjá án þess að til tjóns komi á brúarmannvirkjum.  Brúaropið gæti flutt um 7-8000 m3/s og gæti jafnframt þolað árekstur um 2000 tonna ísjaka. 

Í svo stórum atburðum eru þó forsendur nokkuð grófar og erfitt að meta nákvæmlega hversu mikið rof getur orðið á hverjum tíma.  Líklegt er að einhverjar skemmdir geti orðið á rofvörnum og varnargörðum.

Áhrif Grímsvatnahlaups á núverandi brú

Vísindamenn Veðurstofunnar og Jarðvísindastofnunar Háskólans hafa metið líklegt hámarksrennsli sem um 4.000 m3/s og að engar líkur séu á að jökulhlaupið nái í eldri farveg Skeiðarár eins og kemur farm í frétt á vef Veðurstofunnar.

Lagt var mat á útbreiðslu jökulhlaups með hámarksrennsli 5000 m3/s.  í straumlíkani sem byggir á landlíkani frá árinu 2015.  Það er metið að mögulegt er að slíkur atburður geti valdið því að vatn geti farið upp úr meginfarvegi Gígjukvíslar og safnast upp að Hringvegi án þess þó að það sé talið valda tjóni. Töluverð óvissa er varðandi áhrif jökulhlaupsins  á farveg Gígju en jarðvegur á svæðinu er frekar fínn, einskorna og því lítil fyrirstaða í honum.  Búast má við skemmdum á rofvörnum og rof á bökkum. Stærsta hlaupið sem reynt hefur á brú og varnargarða við Gígjukvísl til þessa er árið 2010 en stærð þess hlaups hefur verið metið sem um 3.000 m3/s hámarksrennsli.

Vegagerðin fylgist með framvindu í samvinnu við almannavarnir og vísindamenn.  Eins og staðan er nú er ekki talið líklegt að jökulhlaup af stærðinni 4-5.000 m3/s  hafi áhrif á samgöngur og loka þurfi vegi en fylgst verður vel með næstu daga. Gert er ráð fyrir að hlaupið nái hámarki um eða eftir helgina og helsta óvissan að mati vísindamanna er hvort að gos í Grímsvötnum fylgi í kjölfar jökulhlaupsins.