Fréttir
  • Bergþóra Þorkelsdóttir forstjóri Vegagerðarinnar og Ásta Dís Óladóttir lektor við Viðskiptafræðideild HÍ olnboga samninginn í húsnæði Vegagerðarinnar.
  • Sigurbjörg J. Narby Helgadóttir mannauðsstjóri, Bergþóra Þorkelsdóttir forstjóri, Ásta Dís Óladóttir frá HÍ og Ruth Elfarsdóttir framkvæmdastjóri fjármálasviðs voru ánægðar með samninginn.

Fyrsti starfsþjálfunarsamningur í 82 ára sögu Viðskiptafræðideildar HÍ

- Samningur milli Vegagerðarinnar og Viðskiptafræðideildar HÍ

13.5.2020

Vegagerðin og Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands hafa skrifað undir samstarfssamning um  starfsþjálfun.

„Þetta er fyrsti starfsþjálfunarsamningurinn í rúmlega 80 ára sögu Viðskiptafræðideildar Háskóla Íslands. Það skiptir miklu máli að geta nýtt tengslanet kennara deildarinnar við atvinnulífið nemendum okkar til framdráttar,“ segir Ásta Dís Óladóttir lektor við Viðskiptafræðideild HÍ.

Markmiðið með samningnum er að efla starfsþjálfun nemenda og efla tengsl starfsmanna og nemenda Viðskiptafræðideildar við atvinnulífið á Íslandi og auka tengsl viðkomandi fyrirtækja og stofnana við háskólasamfélagið.

Samkvæmt samningnum mun Vegagerðin taka árlega við að lágmarki einum nemenda í grunnnámi  við Viðskiptafræðideild í starfsþjálfun.

Starfsþjálfun í grunnnámi jafngildir sex ECTS einingum sem jafngildir 150 vinnustundum nemanda. Nemendur skila inn umsókn ásamt starfsferilsskrá til Viðskiptafræðideildar sem heldur utan um umsóknarferli nemenda. Vegagerðin getur þá valið úr hópi nemenda.

Auk þessa mun Vegagerðin bjóða nemendum í grunnnámi við Viðskiptafræðideild sem hafa áhuga á starfsnámi í heimsókn á hverju ári, eða senda fulltrúa sinn til að kynna Vegagerðina hjá Viðskiptafræðideild. Tilgangur heimsóknarinnar er að kynna starfsþjálfun hjá Vegagerðinni, starfsemi hennar og hvernig nám í viðskiptafræði getur nýst í ólíkum verkefnum í atvinnulífinu.

„Það er gríðarlega jákvætt fyrir okkur að fá inn ungt fólk. Vonandi getum við kennt þeim eitthvað en við munum örugglega læra af þeim,“ sagði Bergþóra Þorkelsdóttir forstjóri Vegagerðarinnar við undirritun samningsins.