Fréttir
  • Eysteinn Haraldsson, Guðbjörg Brá Gísladóttir, Gunnar Einarsson bæjarstjóri, Bergþóra Þorkelsdóttir forstjóri og Einar M. Magnússon. Mynd/Garðabær

Framkvæmdir við Hafnarfjarðarveg hefjast í sumar

Skrifað undir samning vegna framkvæmda við vegamót Hafnarfjarðarvegar við Vífilsstaðaveg og Lyngás.

31.1.2020

Garðabær og Vegagerðin hafa gert með sér samning vegna framkvæmda við vegamót Hafnarfjarðarvegar við Vífilsstaðaveg og Lyngás. Samkvæmt samningnum verður Vífilsstaðavegur breikkaður frá Hafnarfjarðarvegi að Litlatúni og hringtorg sett upp við vegamót Vífilsstaðavegar og Litlatúns. Einnig verða gerð undirgöng undir Hafnarfjarðarveg við Hraunsholtslæk og farið verður í stígagerð og færslu hljóðvarnargirðinga.

Gunnar Einarsson, bæjarstjóri Garðabæjar og Bergþóra Þorkelsdóttir, forstjóri Vegagerðarinnar, undirrituðu samninginn í ráðhúsi Garðabæjar fimmtudaginn 30. janúar. Í samningnum er nánar kveðið á um kostnaðarskiptingu á milli aðila um þetta samstarfsverkefni og verkið verður boðið út á næstunni af Vegagerðinni og stefnt er að því að framkvæmdir hefjist í sumar. Umsjónarmaður verksins af hálfu Vegagerðarinnar verður Einar M. Magnússon tæknifræðingur og af hálfu Garðabæjar Guðbjörg Brá Gísladóttir byggingarverkfræðingur á tækni- og umhverfissviði Garðabæjar.

Nánari upplýsingar um verkið má finna í frétt á vef Garðabæjar.