Fréttir
  • Umferðin hlutfallsleg breyting
  • Umferðin uppsafnað
  • Umferðin eftir mánuðum
  • Umferðin með spá út árið
  • Umferðin eftir vikudögum

Flykktust út á land í júlí

samdráttur í júlí á höfuðborgarsvæðinu en aukning á Hringvegi

4.8.2021

Umferðin á höfuðborgarsvæðinu í júlí dróst saman rúm þrjú prósent á meðan að umferðin á Hringveginum jókst um sex prósent og hefur aldrei verið meiri í júlí. Þetta bendir til þess að íbúar höfuðborgarsvæðisins hafi í miklum mæli sótt út á land í júlí, hugsanlega til að elta sólina. Umferðin í júlí á höfuðborgarsvæðinu hefur ekki verið minni í fimm ár.

Milli mánaða
Umferðin á höfuðborgarsvæðinu var með minnsta móti í nýliðnum júlí en hún reyndist 3,1% minni en í sama mánuði á síðasta ári. Leita þarf 5 ár aftur tímann eða til ársins 2016 til að finna minni umferð í júlímánuði.

Umferð dróst saman í öllum mælisniðum og mest um Vesturlandsveg ofan Ártúnsbrekku eða um 7,3% en minnst um Reykjanesbraut við Dalveg í Kópavogi eða um 0,6%.

Þetta er þveröfug þróun en átti sér stað á sama tíma úti á Hringveginum svo nærtækast er að draga þá ályktun að óvenju stór hluti höfuðborgarbúa hafi verið úti á landi í júlí.

Frá áramótum
Nú hefur uppsöfnuð umferð frá áramótum til júlí aukist um 6,4% miðað við sama tímabil á síðasta ári. Þrátt fyrir þessa miklu aukningu er heildarumferðin samt rétt rúmlega 3% minni en hún var á sama tíma árið 2019.

Umferð eftir vikudögum
Ef horft er á nýliðinn júlímánuð og hann borinn saman við sama mánuð á síðasta ári þá dróst umferð saman í öllum vikudögum, nema á föstudögum en þar varð um 1,4% aukning, en mest dróst umferð saman á miðvikudögum eða um 8,3%.

Mest var ekið á föstudögum en minnst á sunnudögum.

Horfur út árið 2021
Nú stefnir í að umferð um höfuðborgarsvæðið gæti aukist um 8,5% miðað við árið 2020 en þrátt fyrir þessa aukningu yrði hún samt um 2,5% minni en hún var árið 2019.