Fréttir
  • Jónas Snæbjörnsson lét af störfum nýverið eftir rúmlega fimmtíu ára starf ef sumarstörfin eru meðtalin.
  • Jónas og Bergþóra Þorkelsdóttir forstjóri Vegagerðarinnar í kveðjuhófi Jónasar á dögunum.
  • Hreinn Haraldsson vegamálastjóri kvaddur í júní 2018.
  • Jónas skoðar álfastein við Álftanesveg með Eiríki Bjarnasyni og Jóhanni J. Bergmann.
  • Jónas í sjónvarpsviðtali í september 2012.
  • Jónas með foreldrum sínum, Bryndísi og Snæbirni árið 1996. Á myndinni eru einnig systur Jónasar, Sigríður og Herdís.
  • Verkefnin eru fjölbreytt. Hér heldur Jónas uppi borða við vígslu göngubrúar við Krikahverfi í september 2012.
  • Umdæmisverkfræðingur að störfum árið 1987.
  • Þrír vaskir mælingamenn, Sigurður Gísli Pálmason, Jónas og Jón Magnússon.
  • Mælingarmaður í djúpu vatni.
  • Fimmtán ára gamall í brúarvinnu með félaga sínum Sigfúsi Cassata.
  • Hjónin Jónas og Þórdís með 7 af barnabörnum sínum sumarið 2008.

Fjölskyldan tengd Vegagerðinni í 100 ár

Jónas Snæbjörnsson framkvæmdastjóri þróunarsviðs lætur af störfum.

4.3.2020

Að fletta upp í Jónasi, er þekktur frasi innan Vegagerðarinnar. Er honum kastað fram þegar rifja þarf upp einhver atvik úr framkvæmdasögunni með því að spyrja Jónas Snæbjörnsson framkvæmdastjóra þróunarsviðs. Ekki spillir fyrir að Jónas þykir einstakt ljúfmenni sem gott er heim að sækja. Vafalaust munu margir sjá eftir því að geta ekki stokkið inn á skrifstofu til Jónasar til að spyrja hann út úr en nú í lok febrúar urðu talsverð tímamót hjá Vegagerðinni þegar um hundrað ára fjölskyldusögu innan stofnunarinnar lauk með starfslokum Jónasar.

Af því tilefni setjumst við Jónas niður yfir kaffibolla og ég fæ að „fletta upp í honum“ um ferilinn og fjölskyldusöguna. „Það má grínast með að mér sé Vegagerðin í blóð borin,“ segir Jónas glettinn. „Afi minn Jónas Snæbjörnsson, sem fæddur var 1890, lærði smíðar í Danmörku og byrjaði hjá Sigurði Björnssyni brúarsmiði í kringum 1920. Hann starfaði reyndar sem kennari við gagnfræðaskólann á Akureyri á veturna en stundaði brúarsmíðina á sumrin, aðallega á Norðurlandi. Síðustu árin starfaði hann reyndar allt árið hjá Vegagerðinni en þá var trésmíðaverkstæði rekið hér í Borgartúninu,“ segir Jónas en afi hans og nafni starfaði við smíðar allt til ársins 1963.

Faðir Jónasar, Snæbjörn Jónasson, byrjaði ungur hjá Vegagerðinni. „Hann kláraði verkfræðina í stríðinu, í kringum 1945, og var í einum af tveimur árgöngum sem útskrifuðust eftir nám á Íslandi einvörðungu en á þessum árum var ekki hægt að fara utan í nám. Hann starfaði alla tíð hjá Vegagerðinni og síðustu sextán árin sem vegamálastjóri.“

Kynntist ástinni í menntaskóla

Jónas er fæddur og upp alinn í Reykjavík, gekk í Langholtsskóla og Vogaskóla. Fótbolti var hans helsta áhugamál, hann æfði með KR og varð Íslandsmeistari í fimmta flokki. „Svo fór ég í brúarvinnu fimmtán ára gamall og þá var sjálfhætt í fótboltanum,“ segir Jónas og brosir.

Bekkur Jónasar fylgdist að í gegnum gagnfræðaskóla og í Menntaskólann við Hamrahlíð. „Við vorum í öðrum árganginum í MH og vorum ansi ánægð þar. Þá var MH ennþá bekkjaskóli og við í 4X samrýmd enda hittumst við enn í dag einu sinni í mánuði yfir vetrartímann,“ segir Jónas sem kynntist konu sinni Þórdísi Magnúsdóttur í MH en þau voru saman í bekk. „Við útskrifuðumst saman árið 1971 og eignuðumst Snæbjörn árið 1972 en það haustið fluttum við saman og höfum verið saman síðan.“ Þau Jónas og Þórdís eiga fjögur börn, áðurnefndan Snæbjörn, Kristjönu (f. 1974) og tvíburana Bryndísi og Níní (f. 1978). Barnabörnin eru orðin ellefu talsins.

15 ára í brúarsmíði

Ferill Jónasar hjá Vegagerðinni hófst snemma en aðeins fimmtán ára gamall fór hann að vinna við brúarsmíði á sumrin. „Ég var fyrst hjá Sigfúsi Kristjánssyni á Vestfjörðum og Vesturlandi. Þarna voru nokkrir aðrir ungir strákar og aginn var talsverður. Maður þurfti að fara á fætur klukkan sjö og fara í morgunkaffi með hinum. Svo voru valin fyrir mann verkefni við hæfi, eins og að naglhreinsa timbur, skafa steypu af mótum og gera þau tilbúin í næsta verk. Svo þurfti að beygja járn og í steypuvinnunni var maður að moka möl í skúffuna sem lyftist upp í steypuvélina. Þeir sem voru sterkari lyftu sementspokunum,“ segir Jónas og telur að hann hafi komið vel undan sumrunum, bæði líkamlega og fjárhagslega. „Þetta þótti vel borgað, enda var unnið mikið. Maður vann alla daga nema sunnudaga í þrjár vikur og fékk þá nokkurra daga frí til að fara heim til Reykjavíkur.“  

Starfsmenn í brúarflokkum gistu í hefðbundnum hvítum vegavinnutjöldum. „Við vorum tveir saman með tvo rúmbotna og dýnur. Í tjaldinu var svokallaður Aladdínofn sem gekk fyrir ljósaolíu og á kvöldin fór maður og sótti vatn í vaskafat sem maður hitaði á ofninum til að þrífa sig. Stundum vorum við heppnir og unnum nálægt þéttbýlisstöðum eins og Bolungarvík og gátum þá farið í sund, en á öðrum tímum vorum við fjarri bæjum, eins og á Rauðasandi.“ Vistin gat verið heldur óhrjáleg þegar haustaði enda snjóaði oft og frysti. „Við vorum vel klæddir en maður skaffaði sér öll föt sjálfur. Árið 1968 komu vinnuskúrarnir til sögunnar, það var þriðja og síðasta sumarið mitt í brúarvinnunni. Þá voru fjórir til átta saman í skúrum og þótti gott. Í dag eru menn með einkaherbergi,“ segir Jónas glettinn.

Sumarið 1969 gerðist Jónas aðstoðarmaður í mælingaflokki norður í landi, aðallega í Skagafirði og Húnavatnssýslum. „Vinnan gekk út á að setja út fyrir veglínu. Við vissum nokkurn veginn hvar vegurinn ætti að liggja og svo settum við niður hæla á 20 metra fresti í beinar línur og boga samkvæmt ákveðnum reglum. Við hallamældum og teiknuðum hæðarlínur á stikurnar og lögðum fyrir verkfræðing til samþykktar. Síðan komu vegavinnuflokkar Vegagerðarinnar til að leggja veginn sjálfan,“ lýsir Jónas, en á þessum tíma sáu vegavinnuflokkar Vegagerðarinnar að mestu um lagningu vega en í dag eru öll slík verk boðin út.

Jónas vann öll sumur hjá Vegagerðinni utan eitt. Þá vann hann hjá Verkfræðistofu Sigurðar Thoroddsen sem var undanfari Verkís en Jónas fylgdi einum af háskólakennurum sínum í það starf sem snerist um að reikna vatnsmagn í Blöndulóni fyrir mismunandi stífluhæðir.

Góð ár í Danmörku

Jónas hóf nám í verkfræði við Háskóla Íslands árið 1971. „Ég tók mér rúman tíma til að byrja með og var tvö ár að klára fyrsta árið,“ segir Jónas sem útskrifaðist frá HÍ 1976 og hélt þá utan til Kaupmannahafnar til að taka masterspróf í almennri byggingaverkfræði frá DTH sem hann kláraði tveimur árum síðar.

„Þegar við vorum í Kaupmannahöfn vorum við komin með tvö börn. Við bjuggum á stúdentagarði ekki langt frá miðbænum, barnaheimili var á jarðhæðinni og öll aðstaða mjög þægileg. Við kunnum ansi vel við okkur í Danmörku og þykir alltaf gaman að koma þangað.“

Á sumrin sneru þau heim til að vinna og safna fyrir vetrinum. „Við reyndum að lifa spart og drýgja tekjurnar. Lánasjóður íslenskra námsmanna fannst manni vandræðastofnun og aldrei voru reglurnar eins frá ári til árs. Þá voru gjaldeyrismálin líka í ólestri og oft lenti það á foreldrum og aðstandendum að redda manni milli greiðslna,“ segir Jónas en Snæbjörn faðir hans kom stundum í heimsókn og þá færandi hendi. „Pabbi tók oft með sér mat. Til dæmis fiskibollur í dós og annað góðgæti. Þórdís hefur síðan haft mjög lítinn áhuga á slíkum mat,“ segir hann hlæjandi.

Umdæmisverkfræðingur á Sauðárkróki

Þegar fjölskyldan flutti heim 1978 var Vegagerðin að skipta Norðurlandi í tvö umdæmi, eystra og vestra. Jónas sótti um stöðu umdæmisverkfræðings á Norðurlandi vestra og fékk. Fjölskyldan flutti á Sauðárkrók 1979 og undi þar hag sínum vel næstu árin.

„Þetta var mjög skemmtilegur tími. Börnin voru orðin fjögur og Sauðárkrókur mjög góður staður til að ala upp börn. Ég þekkti líka vel til hjá Vegagerðinni fyrir norðan síðan ég var í mælingunum. Aðstaðan var mjög fín enda nýbúið að byggja upp nýja starfsstöð.“ Heldur var fámennt á starfsstöðinni til að byrja með en smám saman fjölgaði enda jukust verkefni fyrir tækni- og verkfræðinga með tímanum. „Þarna var farið að bjóða verkin út og því þurftu öll útboðsgögn að vera vandaðri. Maður gat ekki lengur hlaupið til verkstjórans til að segja honum hvernig ætti að gera hlutina,“ segir Jónas en það verkefni sem einna fyrst var boðið út tengdist vegagerð í kringum Blönduvirkjun.

Starf Jónasar þessi ári litaðist mikið af þeirri þróun sem varð í bundnu slitlagi. „Í kringum 1978 var verið að leggja fyrsta ódýra bundna slitlagið á þjóðvegi á Íslandi. Áður höfðu aðeins verið malbikaðir og steyptir vegir út frá Reykjavík. Næstu árin snerust um að leggja bundið slitlag á stofnvegina, Hringveginn í Húnavatnssýslum og Skagafirði, á Sauðárkróksbraut og smám saman til Siglufjarðar. Þessi ár var verið að leggja 30 til 40 kílómetra af bundnu slitlagi á ári sem var rosaleg bylting,“ segir Jónas en bendir á að þetta hafi krafist vandaðri vinnubragða en áður. „Ef upp koma gloppur í malarvegi er hægt að senda hefilinn til að laga þær. Erfiðara er að gera við ef eitthvað skemmist í bundnu slitlagi.“ Mikilvægt var því að undirbyggja vegina vel fyrir bundna slitlagið og í raun hafi þurft að endurbyggja allan Hringveginn.

Umdæmisverkfræðingur Reykjanesumdæmis

Jónasi leið vel á Sauðárkróki enda bjó fjölskyldan þar í 16 ár. Jónas spilaði um tíma með meistaraliði UMSS í fótbolta og var forseti bæjarstjórnar Sauðárkróks árið 1994 til 1995. Þá lauk hins vegar pólitískum ferli hans enda stefnan sett suður til Reykjavíkur.

„Á þessum tíma losnaði staða umdæmisverkfræðings Reykjanesumdæmis sem Rögnvaldur Jónsson gegndi áður. Ég sótti um, fékk starfið og flutti suður. Hér fyrir sunnan var takturinn allt annar og hraðari en fyrir norðan. Verkefnin voru af allt öðrum toga og snerust um að byggja upp þéttbýlisvegi.“

Árið 1994 var lögum breytt en þá yfirtók Vegagerðin aftur þjóðvegi í þéttbýli sem sveitarfélögin höfðu séð um að byggja upp og breyta fyrir styrk úr samgönguáætlun. Starf Jónasar einkenndist af miklu samráði við tæknideildir sveitarfélaganna enda verkefnin ærin. „Höfðabakkabrúin var langt komin þegar ég kom til starfa en síðan tók við að breikka Ártúnsbrekkuna, Miklubrautina og Reykjanesbrautina frá Bústaðavegi í Hafnarfjörð. Á þeim kafla Reykjanesbrautarinnar voru einungis umferðarljós og því mörg mislæg gatnamót sem þurfti að byggja, til dæmis við Mjódd, Vífilsstaðaveg, Fífuhvammsveg og Arnarnesveg.“

Jónas hefur því all nokkra reynslu af byggingu mislægra gatnamóta er þó nokkur fylgismaður þeirra. „Mislæg gatnamót leysa mikinn vanda, slysatíðni minnkar, aksturstími minnkar og þar með útblástur. Þau eiga vitanlega ekki heima alls staðar en ég hefði þó viljað sjá Miklubrautina með mislægum gatnamótum yfir Grensásveg, Háaleitisbraut og Kringlumýrarbraut. Við eigum gamlar tillögur um hvernig hefði verið hægt að koma mislægum gatnamótum fyrir.“

Meðal þeirra leiða sem Vegagerðin hefur mælt með að verði greiðfær mislæg leið er vegurinn frá Hvalfjarðargöngum að Keflavíkurflugvelli. „Það vantar ekki mikið upp á ef Sundabrautin verður mislæg,“ segir Jónas, en það er raunar vegur sem Jónas hefur þekkt óþægilega lengi.

„Árið 1995 var verið að stofna líklega fyrstu alvöru Sundabrautarnefndina. Í henni voru vegamálastjóri, borgarverkfræðingur og fleiri. Þá var skipaður vinnuhópur sem ég sat í. Sá hópur starfaði í sex til átta ár og skilaði nokkrum kílóum af skýrslum og fór í það mikill tími og peningar. Í dag er staðan sú að verið er að stofna nýja nefnd sem vonandi nær að klára verkefnið.“

Árið 2004 breytist starfstitill Jónasar í svæðisstjóra Suðvestursvæðis en verkefnin flest þau sömu. Árið 2013 urðu breytingar á skipuriti Vegagerðarinnar. Þá voru svæðismörk endurskilgreind og Suðvestursvæði og Suðursvæði slegið saman í eitt Suðursvæði með svæðisstjóra á Selfossi. Jónas tók þá við starfi framkvæmdastjóra þróunarsviðs en sviðið hafði verið sett á fót árið 1999. Undir sviðið féllu áætlanir og skipulagsmál, umferð og umferðaröryggi auk upplýsingatækni. Gerð var breyting á sviðinu síðastliðið haust þegar nýtt skipurit tók gildi, en eftir það féllu undir þróunarsvið; almenningssamgöngur, áætlanir, rannsóknir, skipulag og umferð og öryggi.

 

Átök og álfar

Inntur eftir því hvort einhver verkefni hafi verið erfiðari en önnur nefnir Jónas byggingu Álftanesvegar. „Þegar farið var í hönnun Álftanesvegar voru tveir valkostir í stöðunni, að endurbyggja þann veg sem var til staðar, eða leggja nýjan veg sem búið var að undirbyggja í skipulagi einhverjum áratug áður. Ákveðið var að leggja þennan nýja veg en þegar kom að framkvæmdum sjálfum myndaðist andstaða frá hópi náttúruverndarsinna sem sáu eftir því að hrauninu yrði skipt í tvennt. Vegagerðin vann allt eftir þeim reglum sem gilda, umhverfismati, framkvæmdaleyfi og slíku,“ segir Jónas en kærur gengu fram og til baka auk þess sem mótmælendur reyndu að koma í veg fyrir að tæki gætu unnið. „Það situr pínulítið í manni hvað menn gátu verið orðljótir í garð starfsmanna Vegagerðarinnar og umræðan fór út í persónulegt skítkast.“

Jónas hefur ekki aðeins þurft að eiga við mótmælendur heldur einnig álfa og huldufólk. „Það hefur líklega komið fyrir þrisvar til fjórum sinnum á ferlinum. Fyrst var það í Hegranesinu í Skagafirði. Þar átti að fara að grafa fyrir vegi í gegnum ákveðna hæð. Við fengum fyrirspurn frá íbúa sem hafði dreymt draum og spurði hvort þessi framkvæmd stæði til, sem hún gerði. Hann varaði við því að ráðast í hana. Þegar framkvæmdir hófust fóru jarðýtur að bila og ýmislegt fleira kom upp á. Þá voru haldnir miðilsfundir sem ég reyndar komst ekki á. Hafsteinn Björnsson var miðillinn en þeir Eymundur Runólfsson og Hákon Sigtryggsson fóru á fundinn fyrir hönd Vegagerðarinnar til að semja. Þeir voru reyndar ekki alveg sammála eftir fundinn hvort samningar hefðu náðst eða ekki. En niðurstaðan var sú að eitthvað minna var sprengt en ætlunin var og framkvæmdirnar gengu betur eftir þetta.“

Jónas minnist einnig Grásteins í Grafarholti, við Keldnaholt.“ Á sínum tíma voru stórir steinar fluttir úr vegstæðinu við Vesturlandsveg. Þegar vegurinn var breikkaður í kringum 2000 þurfti að flytja steinana að nýju. Þá komu mótmæli og aðvaranir frá fólki sem taldi það óráðlegt. Við reyndum að fara varlega og fluttum steinana á nýjan stað. Stóri steinninn er klofinn og við röðuðum honum fallega saman. Öryggislega eru steinarnir kannski aðeins of nálægt veginum út frá öryggissjónarmiðum en íbúar hans virtust sáttir við nýja staðinn.“

Í vegstæði nýja Álftanesvegarins var einnig talin vera álfabyggð, þar á meðal álfakirkja. Samkomulag varð milli Vegagerðarinnar og talsmanna álfanna að flytja ákveðinn klett í stað þess að sprengja hann í burtu. „Mér skilst að flutningurinn hafi gengið vel.“

Jónas hefur einnig heyrt um álfabyggð meðfram Reykjanesbrautinni. Vegagerðin hafi þannig fengið beiðni um að nýjar rafmagnslínur yrðu lagðar meðfram veginum til að raska ekki frekar híbýlum álfa.

En er eðlilegt að taka tillit til þessara sjónarmiða í vegagerð? „Trúin á álfa er hluti af þjóðarsálinni. Ég veit ekki hvort kosta megi miklu til en menningarlega er þetta bara skemmtilegt,“ segir Jónas og telur ekkert að því að koma til móts við þá sem trúa á álfa, innan skynsemismarka.

Nýtt líf

En nú tekur nýtt líf við hjá Jónasi sem varð 69 ára þann 6. febrúar síðastliðinn. „Þórdís hefur verið heima í nokkur ár og við sáum fram á að geta haft það ágætt. Við höfum nóg við að vera, eigum 11 barnabörn, þar af tíu á höfuðborgarsvæðinu, og reynum að sinna þeim,“ segir Jónas sem er einnig mikill áhugamaður um garðyrkju og fær útrás fyrir áhugann í sumarbústað þeirra hjóna í Skorradal þar sem hann ræktar, tré, runna og lyngrósir. Hann hlakkar til að geta sinnt hugðarefnum sínum næstu árin.