Fréttir
  • Ný Vestmannaeyjaferja í smíðum
  • Ný Vestmannaeyjaferja í smíðum
  • Ný Vestmannaeyjaferja í smíðum
  • Ný Vestmannaeyjaferja í smíðum
  • Ný Vestmannaeyjaferja í smíðum

Ferjan hugsanlega lengd

Vestmannaeyjaferjan sem er í smíðum í Póllandi hugsanlega lengd

4.12.2017

Skipasmíðastöðin CRIST S.A. í Póllandi hefur lagt til að lengja nýju Vestmannaeyjaferjuna um 1,8 metra og breyta stefninu. Með því móti tekst að halda djúpristunni innan þeirra marka sem að var stefnt. 

Við þessar breytingar verður aðstaða fyrir farþega betri og ferjan getur flutt fleiri fólksbíla að jafnaði. Þessar breytingar eru verkkaupa að kostnaðarlausu en verða þess valdandi að afhending dregst eitthvað. Þessi tillaga skipasmíðastöðvarinnar er enn til skoðunar hjá samgönguráðuneytinu og Vegagerðinni. Ákvörðun verður tekin fljótlega.

Það eru gerðar afar stífar kröfur um djúpristu nýju Vestmannaeyjaferjunnar til að auðvelda siglingar í Landeyjahöfn. Það þýðir að það er fylgst vel með þyngd ferjunnar og stöðugleikanum og gripið til ráðstafana ef frávik verður.  Að mati skipasmíðastöðvarinnar verður ferjan að óbreyttu of þung og því leggur hún til að lengja nýju ferjuna lítillega og breyta stefninu.   

Samkvæmt útboðið á að skila ferjunni tilbúinni í júlí árið 2018 en komi til þessa gæti það orðið síðsumars í staðinn.