Fréttir
  • Vitaflokkurinn við Dyrhólaey 25. júní f.v. Ingvar, Þorbirna, Vigdís, Þórarinn, Róbert, Kristófer, Ísak og Sveinn Orri. Þrjá vantar á myndina, þá Ingvar Engilbertsson, Bjarka og Kristján.
  • Dyrhólaviti.
  • Dyrhólaviti.
  • Körfubíll vitaflokksins kemur að góðum notum.
  • Hópurinn matast í borðstofu Dyrhólavita.

Ekkert sumarfrí í 24 ár

Ingvar Hreinsson fer fyrir vitaflokki Vegagerðarinnar

13.7.2020

Vitaflokkur Vegagerðarinnar ferðast um landið á sumrin, gerir við og dyttar að vitum. Farið er í um tuttugu vita á sumri en unnið er tólf tíma á dag, tíu daga í senn. Ingvar Hreinsson fer fyrir flokknum sem telur þrettán manns en þar af eru níu sumarstarfsmenn.

Komið er hádegishlé þegar hitt er á vitaflokkinn í Dyrhólaey. Dyrhólaviti er afar vel búinn og líklega með flottasta húsakost sem viti á Íslandi hefur uppá að bjóða. Hann var gerður upp fyrir þó nokkrum árum og um tíma var hótel með hann á leigu og seldi ferðamönnum gistingu. Það væsir því ekki um vitaflokkinn í þetta sinn en sjaldgæft er að hafa svo gott athvarf í hádegishléum í vitavinnunni. „Hér sér hver um sig með mat, enda vilja sumir kjöt og aðrir eru vegan,“ segir Ingvar Hreinsson sem leitt hefur vitaflokkinn í fjöldamörg ár. Sjálfur steikir hann sér fiskibollur og kartöflur meðan hann spjallar um starfið.

Ingvar byrjaði í vitavinnunni árið 1996 og alla tíð síðan hafa sumrin snúist um viðgerðir á vitum landsins með tilheyrandi ferðalögum og fjarveru frá heimilinu. „Það er útiveran sem ég heillast mest af. Á vorin er maður farinn að iða í skinninu að komast út á land,“ segir Ingvar sem hefur ekki verið heima hjá sér á sumrin í 24 ár. „Jú, konan er nú orðin pínu þreytt á því,“ svarar hann glettinn þegar hann er spurður út í hvað fjölskyldunni finnist um þetta.

„En þetta er gott uppgrip enda vinnum við langa vinnudaga. Við vinnum tólf tíma á dag, frá átta til átta og oft lengur ef við fáum gott veður og von er á rigningu. Inn á milli koma rólegri dagar. Við byrjum yfirleitt á nýju verki á mánudegi og vinnum tíu daga, komum heim síðdegis á fimmtudegi vikuna á eftir og byrjum svo aftur á mánudegi.“

Megin reglan er að vitaflokkurinn fari í hvern vita landsins á fimm ára fresti. Því þarf að fara í um tuttugu vita á hverju sumri. „Í sumar eru aðeins tvö stór verkefni. Annars vegar við Reykjanesvita og hins vegar Dyrhólavita þar sem við erum nú.“ Meðal þess sem flokkurinn gerir í Dyrhólaey er múrkústa alla veggi að utan, líka vélarhúsið. Mála þökin, skipta um rúður í ljóshúsinu og þétta sprungur í veggjum sem er ekki lítið verk enda eru veggir vitans fimmtíu sentímetra þykkir. „Þetta var haft svona þykkt í gamla daga því þá voru engar járnabindingar,“ útskýrir Ingvar en vitinn var byggður árið 1927.

Umkringdur ungu fólki

Þrettán starfa í vitaflokknum á sumrin, fjórir fastir starfsmenn að Ingvari meðtöldum og níu sumarstarfsmenn. Margir sumarstarfsmenn koma aftur ár eftir ár, en á hverju sumri eru teknir inn einhverjir nýliðar. Ingvar er því vanur að hafa ungt og óreynt fólk undir sínum verndarvæng og hefur ávallt tekist að koma því til manns með þolinmóðri kennslu í verklegum framkvæmdum.

„Það er mikil vinna að þjálfa upp nýjan starfskraft, það tekur alveg eitt til tvö sumur. Þess vegna er gott að menn koma aftur. Við erum með einn núna sem er með okkur í tíunda sinn,“ segir Ingvar og viðurkennir að hann þurfi stundum að vera bæði pabbi og mamma í vinnunni. „Það getur stundum verið erfitt en það er líka gaman að vera umkringdur ungu fólki. Það er líf í því.“