Fréttir
  • Umferð á Hringvegi
  • Umferðin uppsafnað
  • Umferðin eftir mánuðum
  • Umferðin með spá út árið
  • Umferðin eftir vikudögum

Dregur úr umferðaraukningunni á Hringveginum

samdráttur í umferðinni á Suðurlandi

5.11.2019

Umferðin á Hringvegi í október jókst um 0,4 prósent og er þetta minnsta aukning í októbermánuði síðan árið 2011 eða í átta ár. Fjögurra prósenta samdráttur mældist í umferðinni á Suðurlandi og má leiða lýkur að því að samdráttur í ferðamennsku skýri þann samdrátt. Reikna má með að umferðin í ár aukist eigi að síður um 2,5-3 prósent.


Milli mánaða
Umferðin yfir 16 valda staði á Hringvegi jókst um 0,4% í nýliðnum október borið saman við sama mánuð á síðasta ári.  Þetta er minnsta aukning í októbermánuði frá árinu 2011, eða í 8 ár.   Meðalaukning í október milli áranna 2005 – 2018 var 4,2% þ.a.l. er þessi aukning nú langt undir meðalþróun.

Minnst jókst umferðin um Hringveginn á Suðurlandi en þar mældist 4% samdráttur, en umferð dróst einnig saman um Austurland eða um 0,5%.  Mest jókst umferðin um mælisnið í og grennd við höfuðborgarsvæðið eða um 2%. 

Frá áramótum
Nú hefur umferð aukist um 2,7% frá áramótum miðað við sama tímabil á síðasta ári.  Árleg meðaltalsaukning fyrir lykilsniðin í heild frá árinu 2005 hefur verið 3,5% þ.a.l. er núverandi aukning 23% undir meðalþróun, verði þetta niðurstaðan í árslok.

Mest hefur umferðin aukist um mælisnið á Vesturlandi eða um 5,6% en dregist saman um 2,8% um Austurland.  Einnig hefur umferð um Suðurland dregist saman um 1,2%.

Samanburðartafla







Umferð vikudaga
Það sem af er ári er lang mest ekið á föstudögum og minnst á þriðjudögum, eins og venja hefur verið til. Hlutfallslega hefur umferð aukist mest á  sunnudögum eða um 5,5% en minnst á mánudögum eða um 1,5%.  Umferð hefur aukist að meðaltali um 2,2% á virkum dögum en 3,8% um helgar. 

Horfur út árið
Nú er gert ráð fyrir að umferðin á Hringveginum geti vaxið um 2,5 – 3,0% í ár miðað við síðasta ár. Þetta er í sjálfu sér hófleg aukning en engu að síður talsvert undir meðalaukningu á bilinu 2005 – 2018, þó að eitt efnahagshrun sé á milli, og það þarf að leita aftur til ársins 2012 til að finna minni aukningu milli ára.

Helstu ástæður fyrir minni aukningu nú en undanfarin ár er minni hagvöxtur en benda má á að fall flugfélagsins Wow Air hefur haft þær afleiðingar að fækkað hefur í fjölmennasta ferðamannahópi til landsins um þriðjung.  Nú má gera ráð fyrir að erlendum ferðamönnum til landsins geti fækkað um 15% í ár miðað við árið á undan. Verði þetta raunin hafa rannsóknir Vegagerðarinnar, um fjölda erlendra ferðamanna í umferðinni, sýnt fram á að slíkur samdráttur gæti dregið úr umferð um 1,5 – 2,0 prósentustig.  Því má draga þá ályktun að ef ferðamannastraumurinn hefði haldist óbreyttur til landsins væru sterkar líkur á, að á þessum tíma ársins, væri verið að áætla um  4 – 5% aukningu á umferð um Hringveginn nú í ár.

Talnaefni