Fréttir
  • Bikblæðingar desember 2020
  • Bikblæðingar desember 2020
  • Bikblæðingar desember 2020
  • Bikblæðingar desember 2020

Bikblæðingar að vetri

slæmt ástand á Hringvegi frá Borgarfirði norður í Skagafjarðarsýslu

15.12.2020

Verulega slæmar bikblæðingar eru nú á Hringveginum á svæði sem nær frá Borgarfirði og norður í Skagafjörð. Blæðingarnar koma í kjölfar mikilla sveifla í hitafari síðustu daga. Blæðingar eru alþjóðlega þekktar en miklar hitasveiflur á skömmum tíma eins og oft einkennir íslenskt veðurfar gerir bikblæðingar af þessu tagi algengari hér en víða annars staðar.

Verði vegfarendur fyrir tjóni af þessum völdum, eða hafði orðið fyrir tjóni, er best að fylla út tjónaskýrslu á vef Vegagerðarinnar á þessari síðu http://www.vegagerdin.is/thjonusta/tilkynning-um-tjon/. Ef einungis er þörf á þrifum er rétt að hafa samband við næstu þjónustustöð Vegagerðarinnar eða skoðunarmann í Reykjavík í síma 898-3210

Vegagerðin hefur farið yfir alla þá kafla sem um ræðir og fór aftur af stað strax í birtingu. Úrræðin eru fyrst og fremst þau að hreinsa burtu bik sem er á yfirborði og verður unnið að því í dag. Búið er að merkja þessa kafla sem um ræðir en til skoðunar er að takmarka leyfðan þunga ökutækja.

Blæðingar af þessu tagi verða í klæðingu sem lögð er á stóran hluta vegakerfisins. Malbik er lagt á umferðarmestu vegi og nær nú út frá Reykjavík að Borgarnesi og að Þjórsárbrú á Suðurlandi og einnig út frá Akureyri. Blæðingar af þessu tagi eiga sér ekki stað í malbiki.

Malbik er 3-5 sinnum dýrari lausn en klæðing og því ljóst að ef ekki hefði komið til þeirrar aðferðar væri ekki búið að leggja bundið slitlag á nærri 6.000 km af íslenskum þjóðvegum. Það breytir því ekki að umferðin nú kallar á að lengja þá kafla þar sem malbik er lagt. Það er fyrst og fremst umferð þungra ökutækja sem kemur bikblæðingum af stað og ef það er mikil umferð léttari bíla að auki viðheldur hún blæðingunum. Einnig er mikilvægt að réttur loftþrýstingur sé í hjólbörðum þungra ökutækja, hann má ekki vera of mikill sérstaklega við aðstæður einsog þessar.

Í umræðunni er því oft slengt fram að klæðing sé bara notuð á Íslandi það er þó fjarri lagi. Þessi aðferð er mikið notuð víða t.d. annarsstaðar á Norðurlöndum, í Norður-Ameríku, víða í Evrópu og mikið í Ástralíu og á Nýja-Sjálandi. Blæðingar  í klæðingum eru vel þekktar á erlendum vettvangi en veðurfar á Íslandi reynist að auki áskorun bæði lágur hiti á sumrin þegar verið er að leggja bundið slitlag og tíðar sveiflur á milli frosts og þíðu á veturna, líkt og á sér stað núna.

Við útlögn klæðingar eru  notuð  lífolía til að mýkja bikið svo það sé nógu mjúkt til að leggja það, en það harðnar síðan eftir útlögn og heldur steinefnunum föstum og verður þar af leiðandi bundið slitlag. Önnur aðferð er svokölluð bikþeyta en þá er notað vatn til þess að mýkja bikið.  Bikþeyta kallar hinsvegar á að lofthiti sé heldur hærri en iðulega er á Íslandi á sumrin. Unnið er að rannsóknum  og þróun aðferða til þess að geta notað i bikþeytu við lægra hitastig en vonir manna standa til þess að með slíkri þróun megi bæta verulega árangur af útlögn klæðingar.

Myndirnar sem fylgja fréttinni voru teknar af ökumanni vörubifreiðarinnar sem lenti í bikblæðingunum og sýna vel hvernig bikið hleðst utan á bílinn og síðan kastast þessar bikklessur iðulega aftur út á veginn og skapar hættu. Unnið er að hreinsun.