1905

Þjóðólfur, 15. september 1905, 57. árg., 39. tbl., forsíða:

Vígsla Sogsbrúarinnar 9. sept. 1905. Ræða ráðherrans.
Það er bjart yfir Grímsnesinu í dag, og gleðibragð yfir mörgum svip, enda er gott og gleðilegt tilefnið til þessa fjölmenna mannfundar. Svo er að vísu guði fyrir kallandi, að það er ekki lengur nein sérleg nýlunda, að brúað sé vandræðavatnsfall hér á landi, eða í ráðist önnur nauðsynleg samgöngumannvirki. En slíku er þó aldrei til framkvæmda hrundið án margvíslegra erfiðleika og mótspyrnu, og eru það því sigurdagar, þegar slík verk eru til lykta leidd.
Þegar Ölfusárbrúin var opnuð til umferðar fyrir réttum 14 árum síðan (8. sept. 1891) var þess óskað, að hún mætti verða sömu náttúru eins og hringurinn Draupnir, er af drupu 8 baugar jafnhöfgir 9. hverja nótt. Þó að þetta hafi auðvitað ekki getað ræst bókstaflega, þá hefur þó þegar furðu mikið gott af henni dropið; það má telja það alveg víst, að þegar það loks lánaðist eftir langa mæðu og þreytandi þref að koma því stórvirki í framkvæmd, þá ruddi sá sigur braut öðrum samskonar sigrum, bæði beinlínis, en einkum óbeinlínis. Hrakspárnar og grýlurnar urðu að reyk. Sönnunin fyrir mætti vorum til slíkra framkvæmda var fengin úr stáli og steini. Við það urðu þesskonar fyrirtæki viðráðanlegri í hugum manna, ofureflið ekki eins geigvænlegt, kostnaður og erfiðismunir ekki eins ókleyfir, sigurvonin ríkari yfir því, sem áður var talið ósigrandi. Í stuttu máli: það vakti mönnum hug. En "hugur ræður hálfum sigri", eins og menn vita; "hálfur er auður und hvötum".
Áhuginn á brúargerðum yfir helstu vatnsföll, hefur, þrátt fyrir alla erfiðleika, þegar afkastað talsverðu á síðari árum. Eg skal að eins minna á Þjórsárbrúna, Hvítárbrúna, Blöndubrúna og aðrar smærri brýr, sem eigi þarf hér upp að telja. 15. þ.m. verður opnuð brúin yfir Lagarfljót, 20. þ.m. verður opnuð brúin yfir Jökulsá í Axarfirði, eitthvert hið versta vatnsfall þessa lands, og í dag þessi brú, sem vér sjáum blasa við oss.
Í öllum hinum stærri og merkari brúargerðum undanfarin ár, hefur landsjóður átt aðalþáttinn. Um þessa brú víkur öðru vísi við. Í kostnaðinum til hennar á landsjóður að eins tiltölulega lítinn þátt; það er héraðið, sem hefur lagt fram eigi að eins áhugann til þess að koma þessu nauðsynjamáli fram, heldur einnig meiri hluta fjárins, sem til þess þurfti. Sérstaklega hefur þessi hreppur, sem vér nú stöndum í, Grímsneshreppur, lagt fram drjúgan skerf, ekki að eins mikið fé til kostnaðarins, heldur og af ötulum forvígiskrafti fyrir framkvæmd verksins. Eg er því ekki hér kominn af því, að hér sé um landsjóðseign að ræða, er landstjórnin afhendi almenningi til afnota. Eg er kominn af því, að forgöngumenn brúargerðarinnar hafa sýnt mér þá velvild og þann sóma, að óska þess að ég kæmi.
Eg hef fylgt þessu fyrirtæki með athygli og óskað því framgangs og sigurs, frá því háttvirtur vinur minn 1. þingmaður þessa kjördæmis fyrst tók að berjast fyrir styrk til þess af landsjóði á alþingi 1901, gegn allmiklu framlagi af sýslunni og Grímsneshreppi sérstaklega. Eg man glöggt eftir rökum þeim, sem hann þá færði fyrir því, að hér væri um nauðsynjamál að ræða, sem gæti orðið til mikils hagnaðar, eigi að eins fyrir þær sveitir, sem að brúnni liggja, heldur einnig fyrir framtíðarsamgöngur og fjárhagsleg þrif í þessu fagra og blómlega héraði í heild sinni. Tillagan féll þá að vísu með eins atkvæðis mun, eins og svo margt fleira á því lofsæla þingi. En á alþingi 1903 var fyrir forgöngu sama háttv. þingmanns veittur 6000 kr. styrkur af landsjóði til brúargerðarinnar, og þótt sá styrkur væri talsvert minni en á hafði verið byggt, þegar sýsla og hreppar höfðu skipt með sér framlögum, þá var fyrirtækið þar með tryggt, því að Grímsneshreppi óx ekki í augum að bæta við sig upphæð þeirri, sem þá vantaði á kostnaðinn, umfram það, sem áður var framboðið. Framkvæmd verksins og fjárhagsleg ábyrgð þess hefur þannig hvílt á héraðinu, og þótt landstjórnin auðvitað hafi látið í té þá aðstoð, sem hún gat, eins og skylt var, þá er það héraðið og þess völdu menn, sem aðallega hafa veg og vanda af hinni fögru og vönduðu brúarsmíð, sem nú blasir við fullgerð.
Eg er því kominn hér sem gestur til þess að samgleðjast héraðsbúum og árna þeim hamingju, er þeir hafa komið þessu verki svo vel og drengilega í framkvæmd. Eg óska þess og vona, að brú þessi verði að öllu því gagni, sem forgöngumenn fyrirtækisins hafa vænst eftir, nú er þessi þunga og aflmikla elfa bannar ekki lengur ferðir manna né sundrar sveitunum. Eg trúi því og treysti, að þessi dugnaður héraðsins verðu öðrum héruðum góð fyrirmynd til eftirbreytni, og að telja megi þessa framkvæmd, eitt með öðru, órækan vott þess, að farið sé að lifna yfir þessu landi, að traustið á landið og framtíð þess sé að eflast, víl og vonleysi að dofna, menningarkröfurnar að aukast, fastheldnin við gamla sleifarlagið að þverra, yfir höfuð að umbótaþráin, sem er og jafnan verður óróin í sigurverki framfaranna, sé að ryðja sér til rúms, og festa dýpri og dýpri rætur. Það hefur verið sagt og kveðið, að hér á landi þyrfti margt að brúa, og er það satt. Það er ekki að eins elfurnar stríðu, sem sveitunum sundra. Það er margt annað, sem tengslum þarf yfir að koma. Landið okkar sjálft liggur langt út í sæ, fjarri og fráskilið öðrum þjóðum, og innanlands skilja fjöll og seinfær firnindi strjálar byggðir. Það virðist nú svo í skjótu bragði, að ekki sé hlaupið að því að bæta úr þessu með brúargerðum. Og þó er það einmitt nú eitt aðalmál þessarar þjóðar, að koma slíkri brú í framkvæmd, brú, sem að vísu er ekki til líkamlegra ferða né flutninga, en sem tengir Ísland við umheiminn og sveit við sveit með málmstrengjum þeim, sem á svipstundu bera orðsendingar hingað utan úr heimi, og héðan til útlanda, sem flytja hljóð orðanna viðstöðulaust, frá munni til eyra, landshornanna á milli, svo að vér getum talað frá einum landsenda til annars, eins og vér værum augliti til auglitis við menn, sem eru langt í burtu, fyrir handan fjöll og firnindi. Það er von mín og trú, að sú brúargerð kippi Íslandi inn í menningarstraum heimsins og létti samband og samvinnu innanlands meira en menn nú geta séð fyrir eða almennt gert sér í hugarlund.
En ein er sú brúin, sem mest ríður á af öllum brúm, og það er brú milli huga og hjartna þeirra manna, sem Íslandi unna, og vilja þess veg. Þar eru einnig mörg djúp, sem skilja, kaldir straumar, sem banna samgöngur og slíta félagsskapnum. Tortryggni, öfund og sundrungandi velta sumstaðar fram í stríðum straumum, brjóta bakka og flóa yfir gróandi lendur. En það er trú mín og sannfæring, að með vaxandi menning muni einnig þessar torfærur brúast, samheldni og samvinna eflast, í öllu því sem fósturjörðu vorri er fyrir bestu, samvinna í andlegum efnum, og samvinna í verklegum, fjárhagslegum efnum. Sameinaðir erum vér sterkir, þótt vér séum fáir; sundraðir erum vér veikir og vanmátta, þótt vér verðum fleiri. Sameiginlegur vilji um að keppa fram til umbóta og menningar í trausti til landsins okkar og framtíðar þess, er brú, sem þarf að byggja og tryggja sem besta og vandaðasta.
Forfeður vorir í heiðni hugsuðu sér sambandið milli þessa heims og annars, mannheims og Valhallar, sem brú, brúna Bifröst, er guðir byggðu til himins af jörðu, og nú er nefnd friðarbogi. Það á sér þannig djúpar rætur, að brú tákni sátt og sameining, sigur yfir tvístrandi kröftum, samtenging þess, er sundrað var áður. Verði það þá að áhrínsorðum, að af hverri nýrri brú, sem lánast að leggja, drjúpi sem flestar andlegar brýr, sameiningarmögn, sem geri þjóðinni lífið ánægjulegra og vegi framtíðarinnar færari.
Vér höfum heyrt mikið um það talað í seinni tíð, að óánægja sé "aðal lyftiaflið" í öllum framförum, að hún eigi að vera aðalkrafturinn, sem knýr menn áfram til bóta. En það er þá svo best að óánægjan sé ekki ófrjó, niðurrífandi, upprætandi. Óánægja, sem knýr fólk af landi burt, héðan til annara heimsálfa, er enginn framfarakraftur fyrir okkar land. Óánægja, sem heggur upp ungviðið og nýgræðinginn, af því að hann þarf tíma til að vaxa, er ekki lyftiafl fyrir neinum framförum. Óánægja, sem brýtur brýrnar og spillir vegunum, af því að annarstaðar séu til betri brýr og breiðari vegir, er vissulega ekki út af fyrir sig ábyggilegt framtíðarmagn. Hin rétta umbótarþrá sem er óróin í sigurverki framfara-andans, er full af trausti, svo og kærleika, flýr ekki, upprætir ekki, eyðileggur ekki.
Í þessu landi hefur jafnan verið allmikið af eyðileggjandi og niðurbrjótandi öflum, eldar, ísar, stormar. Ár hafa brotið breiðar sveitir, mennirnir hafa upprætt og eyðilagt skóg eftir skóg, og þar sem þeir hafa hætt, hefur náttúran tekið við, svo sandar og auðnir hafa hertekið fagrar hlíðar og grænar grundir. Langrækni liggur í loftinu á Íslandi. Jörðin sjálf er langrækin. Hólar og börð, sem kalið hefur og blásið upp í nepjum og næðingum, eru lengi að grænka aftur og gróa. Víðlend flæmi, sem eyðandi hraun hefur runnið yfir einhvern tíma í fyrndinni, hafa látið þúsund ára sól renna upp yfir sinni reiði, áður þau aftur tóku að gróa eins og hraunið hefur gert, sem vér stöndum á nú. En jafnframt þessu hefur jafnan fylgt landi voru eitthvert sérstakt viðhaldsafl, einhver "hulinn verndarkraftur", sem hefur viðhaldið og verndað ekki að eins land vort og góðan gróður, heldur einnig tungu vora, þjóðerni og forna frelsisþrá. Þessi huldi verndarkraftur, þetta viðhaldsmagn góðra vætta gegn eyðileggingaröflum í náttúru lands og lýðs, kemur víða fram í þjóðtrú og þjóðsögum vorum. Eg heyrði rétt nýlega eina slíka sögu, sem skeði hér í nándinni, og sýnir vernd góðra vætta gegn eyðileggingarfýst eða hugsunarleysi mannana, sem því miður hefur rúið landið okkar víða. Hér ofar í ánni, sem vér stöndum við, uppi undir bænum Syðri-Brú, er yndislegur hólmi, sem heitir Axarhólmi, umflotinn stríðum straum. Í hólmanum hefur mjög lengi verið , og er enn, ríkur gróður, angandi reyniviður innan um birkiskóg og hvannstóð, svo unun er á að líta frá árbakkanum. Einn kaldan vetur lagði ána kringum hólmann, svo gengt varð út í hann, og óðar var þar kominn maður frá næsta bænum, með öxi í hendi, til þess að höggva upp reyniviðinn, og hugði nú gott til glóðarinnar. En jafnskjótt sem hann reiddi öxina til höggs, kváðu allt í einu við dunur, brak og dynkir í ísnum milli lands og hólma, eins og allt ætlaði upp að brotna, og manninum skaut svo skelk í bringu, að hann fleygði frá sér öxinni og hljóp í land sem fætur toguðu, svo reynirinn stendur enn óhögginn, og öxin liggur enn úti í hólmanum, þó bersýnilegt sé, að hægt er að komast út í hólmann. Þannig vernduðu vættir elfunnar fegurð hólmans síns og framtíðargróður.
Eg vildi nú óska þess, að í hvert skipti, sem eyðileggjandi öfl þessa lands ætla að leggja öxina að rótum á mætum viði í þjóðlífi voru og félagsskap, þá megi vættir landsins og þess "huldi verndarkraftur" grípa fram í, vernda viðinn og skelfa spellvirkjann, svo að öxin hrjóti úr höndum hans og verði eftir til eilífðar í hólma þeim, sem enginn fær að komist.
Eg vil óska þessu landi og þessu héraði margra brúa, sterkra brúa og heillaríkra brúa í sem flestum og bestum skilningi. Óskum þess að hið sundraða megi sameinast, hið tvístraða tengjast. Heill og gengi yfir þetta hérað og þessa gullfögru sveit. Um leið og eg að lokum þakka þeim mönnum, sem hrundið hafa þessu fyrirtæki áfram, þar á meðal hinum ötula yfirsmið brúarinnar, lýsi eg því yfir, að brú þessi er nú opin til almenningsafnota.
Til heilla og hamingju með brúna. Guð verndi og blessi þessa fögru og öflugu samgöngubót.
Undirbúningur málsins og brúargerðin.
Það eru full 20 ár síðan fyrst var farið að hreyfa því, að koma á brú yfir Sogið hjá Alviðru, austan undir Ingólfsfjalli í Ölfusi, en Sogið rennur eins og kunnugt er úr Þingvallavatni millum Grímsness að austan og Grafnings að vestan, og fellur í Hvítá móts við Tannastaði í Ölfusi. Sogið er mjög vatnsmikið og hvergi reitt nú orðið, þótt slarkað hafi verið stundum yfir það á vaði eða réttara sagt vaðleysu, er "Álftavatn" nefnist undan Torfastöðum í Grafningi. Er Sogið þar afarbreitt, svo að hálftíma ferð er þar yfir það, og djúpt mjög, enda er vað þetta nú nær ófært orðið, og sjaldan eða aldrei farið, síst með klyfjar. Sogið var því hinn versti farartálmi fyrir Grímsnes allt, en að því lykja Brúará að austan og Hvítá að austan og sunnan, hvorttveggja ferjuvötn, svo að sveitin er vötnum lukt á alla vegu nema til fjalls. Af Sogsbrúnni hafa og fleiri not en Grímsnesingar einir t.d. Laugdælir í Eyrarbakkaferðum og Biskupstungnamenn, ekki síst á vetrardag, þá er nyrðri leiðin, Mosfellsheiðarvegurinn, er ófær. Svo mun og tilætlað, að hin fyrirhugaða Geysisbraut liggi um Sogsbrúna upp Grímsnes og Biskupstungur til Geysis og verður það þráðbein stefna suður á aðalakbrautina frá Selfossi. Verða þá not Sogsbrúarinnar vitanlega margfalt meiri en nú er, meðan enginn vegur liggur frá henni upp sýsluna.
Þrátt fyrir þessa mjög nauðsynlegu samgöngubót, sem margir viðurkenndu að brú á Sogið mundi verða, átti málið mjög lengi erfitt uppdráttar, vegna mótspyrnu einstakra manna, er síst mátti ætla, að snerust gegn því, og tafði það mjög fyrir. Loks fékkst þó brúarstæðið skoðað og áætlun gerð. Var svo leitað til þingsins 1901 um helmingsstyrk til brúargerðarinnar úr landssjóði eða 7500 kr. gegn jafnmiklu tillagi frá sýslunni og Grímsneshreppi. En þeirri málaleitan var þá hrundið, og var enda svo mikið kapp í sumum efrideildarmönnum (eftir undirrjóðri mótstöðumanna brúarinnar þar eystra), að þeir þorðu ekki að hleypa fjárlögunum í sameinað þing af ótta við, að þessi óhæfilega (!) fjárveiting kæmist þá að. En á þinginu 1903 hafðist það þó fram (í sameinuðu þingi), að landssjóður veitti allt að 6000 kr. til brúargerðarinnar, gegn því að tvöfalt meiri upphæð yrði lögð fram annarsstaðar frá. Hafði Grímsneshreppur einn lofað 5000 kr. tillagi, og svo hafðist það fram, að sýslan lofaði öðrum 5000 kr. Nú var loks unnt að fara að byrja á verkinu. Næstl. haust kom efnið í brúna hingað til lands og gekk stjórnarráðið vel fram í því að koma verkinu sem fyrst áleiðis. En miklir erfiðleikar voru á flutningum, því að efnið varð að flytja landveg austur alla leið úr Reykjavík, því að ekki tókst að skipa því upp á Eyrarbakka. En þrátt fyrir alla þessa erfiðleika varð þó byrjað á verkinu næstl., vor, og brúin fullger fyrir 8. þ.m. Stóð mest fyrir þessum framkvæmdum Magnús óðalsbóndi Jónsson í Klausturhólum, er hreppsnefndin í Grímsneshreppi valdi til þess starfs, og leysti hann það bæði vel og rösklega af hendi, með aðstoð nokkurra sveitunga sinna, sérstaklega Gunnlaugs hreppstjóra Þorsteinssonar á Kiðabergi, er varð einna fyrstur manna þar í sveit til að hreyfa þessari brúargerð fyrir mörgum árum. - Yfirsmiður við brúna var Halldór Guðmundsson rafmagnsfræðingur, ættaður úr Mýrdal, og fórst það starf ágætlega úr hendi, þótt hann væri óvanur brúargerð. Var gert orð á því þar eystra, hversu verkið hefði gengið greiðlega og liðlega undir forustu hans. Fyrir stöplahleðslunni (steinsmíðinu) stóð í fyrstu Sæmundur Steindórsson steinsmiður (tengdafaðir Símonar snikkara á Selfossi), en hann varð fyrir því slysi snemma í sumar, að steinflís hraut í auga honum, og varð hann að hætta vinnu úr því og er ekki jafngóður enn. Er þetta hið eina óhapp, sem komið hefur fyrir við brúargerð þessa. Síðar stóð fyrir steinsmíðinu Sigurður Gíslason af Eyrarbakka. - Brúin sjálf er hengibrú, 60 álnir á lengd og 4 álna breið með tveimur uppihaldsstrengjum sínum hvoru megin, öll úr járni og hin vandaðasta að allri gerð, og mjög snotur að útliti, svipuð Þjórsárbrúnni þótt minni sé. Hefur Sigurður Thoroddsen verkfræðingur gert teikninguna að henni. Er talið að brúin muni kosta alls 16,000 kr. og fer það furðu nærri áætlun er gerði hana 15,000.
Það eru samtök og þrautsegja Grímsnessinga, sem komið hefur þessu mannvirki á þrátt fyrir megnan andróður úr ýmsum áttum: og hafa þeir með því reist sér prýðilegan minnisvarða, er seint mun fyrnast og ætti að verða öðrum héruðum til eftirbreytni. Þá mundi margt skipast öðruvísi á landi voru. Það mátti og með sanni segja, að vígsludagurinn var hátíðis- og fagnaðardagur, sérstaklega fyrir Grímsnessinga. Og mundu margir hafa kosið að vera í þeirra sporum þar.
Vígsluathöfnin.
Laugardaginn 9. þ.m. var veður bjart og fagurt, og mátti þá sjá mannareið um Árnessýslu. En allir flokkarnir stefndu að Sogsbrúnni, er ráðherrann ætlaði að vígja þann dag kl. 2. Úr Reykjavík var meðal annars hátt á 3. hundrað manna, að því er næst varð komist. Var erfitt um gististaði fyrir allan þann fjölda, og lágu menn í heyhlöðum á bæjum meðfram veginum, voru t.d. um 60-70 Reykvíkingar nætursakir á Selfossi og í Tryggvaskála á laugardagsnóttina, og enn fleiri kvað hafa verið þar nóttina eftir. En alls voru staddir við vígsluna fullt 1000 manns eða hátt á 11. hundrað eftir því sem sumum taldist. Ráðherrann kom að aflíðandi hádegi að Soginu, að austanverðu, Grímsnesmeginn. En mestur hluti mannfjöldans var fyrir vestan ána, og gekk smátt og smátt austur yfir, því að þar var ræðupallurinn reistur við brúarsporðinn. Er þar skógur upp frá brúnni og landslag fagurt og vinalegt þar með Soginu, (í Öndverðarneslandi) þótt brunahraun sé og skógurinn ekki hávaxinn. Er þar beitiland ágætt fyrir sauðfé og land kjarngott.
Nokkru áður en sjálf vígsluathöfnin hófst var blásið í lúðra til að stefna fólkinu saman, og streymdi það þá austur yfir það er eftir var fyrir vestan ána, 40-50 í hóp, en verðir voru settir við vestri enda brúarinnar til að gæta þess að ofmargir væru ekki á brúnni í senn. Þá er kl. var 2 og allir (eða nær því allir) komnir austur yfir var spennt silkiband yfir brúna, en á meðan fólkið gekk brúna lék lúðrafélag Reykjavíkur "Eldgamla Ísafold" og "Ó, guðs vors lands" tvisvar sinnum. Þá er fólkið var komið saman á eystri bakkanum sté ráðherrann upp á ræðupallinn, og hélt þar ræðu þá, sem hér er prentuð á undan, og fannst flestum mikið um bæði efni og framburð, en maðurinn sjálfur hinn gervilegasti og veðrið skínandi fagurt, en skógarilminn lagði að vitum manna, og varð því allt til þess að gera athöfn þessa sem hátíðlegasta. Að lokinni ræðu og um leið og ráðherrann sté niður af ræðupallinum var hrópað: "Lifi ráðherrann" og tók mannfjöldinn undir það með níföldu húrra. Að því búnu gekk ráðherrann og frú hans fyrst vestur yfir brúna og klippti ráðherrafrúin sundur band það, er spennt var yfir brúna, en mannfjöldinn gekk allur á eftir og var á meðan leikið á lúðra brúardrápa H.H. og að því loknu hrópað húrra fyrir höfundinum. Síðan dreifðust menn smátt og smátt víðsvegar í kringum brúna. Höfðu Grímsnesingar reist tjald allmikið í skóginum að austanverðu við brúna handa ráðherranum og frú hans, og bauð forstöðunefndin þangað nokkrum mönnum. Var þar drukkið minni ráðherrans, yfirsmiðs brúarinnar, forstöðunefndarinnar o. fl.
Síðar um daginn hélt séra Gísli Jónsson á Mosfelli ræðu og talaði aðallega um þá erfiðleika, er þetta brúarmál hefði átt við að stríða, og þótti mælast vel. Einn hálfsvínkaður Reykvíkingur, er ekki þótti ræðan eftir valtýskum nótum, var stöðugt að gjamma fram í, og flissa heimskulega, og stórhneyksluðust allir á slíkum götustrákahætti, og þótti maðurinn vera fremur "krúkk" að kurteisi. Auk annars manns (G. Felixssonar) er talaði nokkur orð, varð ekki meira af ræðuhöldum, enda fóru menn smátt og smátt að tínast burtu, er á leið. Dansað var um hríð á fögrum grasfleti að austanverðu við Sogið, en danspallur var enginn, því að forstöðunefndin hafði ekki haft tæki til að reisa hann, enda ekki útlit fyrir næstu daga á undan, að veður yrði svo gott vígsludaginn, að menn mundu skemmta sér við dans. En þótt pallinn vantaði, skemmtu menn sér eftir föngum og létu allir hið besta yfir förinni, enda veður hið blíðasta allan daginn, og staðurinn hinn fegursti. tók Árni Thorsteinsson ljósmyndari þar nokkrar myndir, er hann hefur nú til sýnis og sölu, og eru þær allar mjög vel gerðar.


Þjóðólfur, 15. september 1905, 57. árg., 39. tbl., forsíða:

Vígsla Sogsbrúarinnar 9. sept. 1905. Ræða ráðherrans.
Það er bjart yfir Grímsnesinu í dag, og gleðibragð yfir mörgum svip, enda er gott og gleðilegt tilefnið til þessa fjölmenna mannfundar. Svo er að vísu guði fyrir kallandi, að það er ekki lengur nein sérleg nýlunda, að brúað sé vandræðavatnsfall hér á landi, eða í ráðist önnur nauðsynleg samgöngumannvirki. En slíku er þó aldrei til framkvæmda hrundið án margvíslegra erfiðleika og mótspyrnu, og eru það því sigurdagar, þegar slík verk eru til lykta leidd.
Þegar Ölfusárbrúin var opnuð til umferðar fyrir réttum 14 árum síðan (8. sept. 1891) var þess óskað, að hún mætti verða sömu náttúru eins og hringurinn Draupnir, er af drupu 8 baugar jafnhöfgir 9. hverja nótt. Þó að þetta hafi auðvitað ekki getað ræst bókstaflega, þá hefur þó þegar furðu mikið gott af henni dropið; það má telja það alveg víst, að þegar það loks lánaðist eftir langa mæðu og þreytandi þref að koma því stórvirki í framkvæmd, þá ruddi sá sigur braut öðrum samskonar sigrum, bæði beinlínis, en einkum óbeinlínis. Hrakspárnar og grýlurnar urðu að reyk. Sönnunin fyrir mætti vorum til slíkra framkvæmda var fengin úr stáli og steini. Við það urðu þesskonar fyrirtæki viðráðanlegri í hugum manna, ofureflið ekki eins geigvænlegt, kostnaður og erfiðismunir ekki eins ókleyfir, sigurvonin ríkari yfir því, sem áður var talið ósigrandi. Í stuttu máli: það vakti mönnum hug. En "hugur ræður hálfum sigri", eins og menn vita; "hálfur er auður und hvötum".
Áhuginn á brúargerðum yfir helstu vatnsföll, hefur, þrátt fyrir alla erfiðleika, þegar afkastað talsverðu á síðari árum. Eg skal að eins minna á Þjórsárbrúna, Hvítárbrúna, Blöndubrúna og aðrar smærri brýr, sem eigi þarf hér upp að telja. 15. þ.m. verður opnuð brúin yfir Lagarfljót, 20. þ.m. verður opnuð brúin yfir Jökulsá í Axarfirði, eitthvert hið versta vatnsfall þessa lands, og í dag þessi brú, sem vér sjáum blasa við oss.
Í öllum hinum stærri og merkari brúargerðum undanfarin ár, hefur landsjóður átt aðalþáttinn. Um þessa brú víkur öðru vísi við. Í kostnaðinum til hennar á landsjóður að eins tiltölulega lítinn þátt; það er héraðið, sem hefur lagt fram eigi að eins áhugann til þess að koma þessu nauðsynjamáli fram, heldur einnig meiri hluta fjárins, sem til þess þurfti. Sérstaklega hefur þessi hreppur, sem vér nú stöndum í, Grímsneshreppur, lagt fram drjúgan skerf, ekki að eins mikið fé til kostnaðarins, heldur og af ötulum forvígiskrafti fyrir framkvæmd verksins. Eg er því ekki hér kominn af því, að hér sé um landsjóðseign að ræða, er landstjórnin afhendi almenningi til afnota. Eg er kominn af því, að forgöngumenn brúargerðarinnar hafa sýnt mér þá velvild og þann sóma, að óska þess að ég kæmi.
Eg hef fylgt þessu fyrirtæki með athygli og óskað því framgangs og sigurs, frá því háttvirtur vinur minn 1. þingmaður þessa kjördæmis fyrst tók að berjast fyrir styrk til þess af landsjóði á alþingi 1901, gegn allmiklu framlagi af sýslunni og Grímsneshreppi sérstaklega. Eg man glöggt eftir rökum þeim, sem hann þá færði fyrir því, að hér væri um nauðsynjamál að ræða, sem gæti orðið til mikils hagnaðar, eigi að eins fyrir þær sveitir, sem að brúnni liggja, heldur einnig fyrir framtíðarsamgöngur og fjárhagsleg þrif í þessu fagra og blómlega héraði í heild sinni. Tillagan féll þá að vísu með eins atkvæðis mun, eins og svo margt fleira á því lofsæla þingi. En á alþingi 1903 var fyrir forgöngu sama háttv. þingmanns veittur 6000 kr. styrkur af landsjóði til brúargerðarinnar, og þótt sá styrkur væri talsvert minni en á hafði verið byggt, þegar sýsla og hreppar höfðu skipt með sér framlögum, þá var fyrirtækið þar með tryggt, því að Grímsneshreppi óx ekki í augum að bæta við sig upphæð þeirri, sem þá vantaði á kostnaðinn, umfram það, sem áður var framboðið. Framkvæmd verksins og fjárhagsleg ábyrgð þess hefur þannig hvílt á héraðinu, og þótt landstjórnin auðvitað hafi látið í té þá aðstoð, sem hún gat, eins og skylt var, þá er það héraðið og þess völdu menn, sem aðallega hafa veg og vanda af hinni fögru og vönduðu brúarsmíð, sem nú blasir við fullgerð.
Eg er því kominn hér sem gestur til þess að samgleðjast héraðsbúum og árna þeim hamingju, er þeir hafa komið þessu verki svo vel og drengilega í framkvæmd. Eg óska þess og vona, að brú þessi verði að öllu því gagni, sem forgöngumenn fyrirtækisins hafa vænst eftir, nú er þessi þunga og aflmikla elfa bannar ekki lengur ferðir manna né sundrar sveitunum. Eg trúi því og treysti, að þessi dugnaður héraðsins verðu öðrum héruðum góð fyrirmynd til eftirbreytni, og að telja megi þessa framkvæmd, eitt með öðru, órækan vott þess, að farið sé að lifna yfir þessu landi, að traustið á landið og framtíð þess sé að eflast, víl og vonleysi að dofna, menningarkröfurnar að aukast, fastheldnin við gamla sleifarlagið að þverra, yfir höfuð að umbótaþráin, sem er og jafnan verður óróin í sigurverki framfaranna, sé að ryðja sér til rúms, og festa dýpri og dýpri rætur. Það hefur verið sagt og kveðið, að hér á landi þyrfti margt að brúa, og er það satt. Það er ekki að eins elfurnar stríðu, sem sveitunum sundra. Það er margt annað, sem tengslum þarf yfir að koma. Landið okkar sjálft liggur langt út í sæ, fjarri og fráskilið öðrum þjóðum, og innanlands skilja fjöll og seinfær firnindi strjálar byggðir. Það virðist nú svo í skjótu bragði, að ekki sé hlaupið að því að bæta úr þessu með brúargerðum. Og þó er það einmitt nú eitt aðalmál þessarar þjóðar, að koma slíkri brú í framkvæmd, brú, sem að vísu er ekki til líkamlegra ferða né flutninga, en sem tengir Ísland við umheiminn og sveit við sveit með málmstrengjum þeim, sem á svipstundu bera orðsendingar hingað utan úr heimi, og héðan til útlanda, sem flytja hljóð orðanna viðstöðulaust, frá munni til eyra, landshornanna á milli, svo að vér getum talað frá einum landsenda til annars, eins og vér værum augliti til auglitis við menn, sem eru langt í burtu, fyrir handan fjöll og firnindi. Það er von mín og trú, að sú brúargerð kippi Íslandi inn í menningarstraum heimsins og létti samband og samvinnu innanlands meira en menn nú geta séð fyrir eða almennt gert sér í hugarlund.
En ein er sú brúin, sem mest ríður á af öllum brúm, og það er brú milli huga og hjartna þeirra manna, sem Íslandi unna, og vilja þess veg. Þar eru einnig mörg djúp, sem skilja, kaldir straumar, sem banna samgöngur og slíta félagsskapnum. Tortryggni, öfund og sundrungandi velta sumstaðar fram í stríðum straumum, brjóta bakka og flóa yfir gróandi lendur. En það er trú mín og sannfæring, að með vaxandi menning muni einnig þessar torfærur brúast, samheldni og samvinna eflast, í öllu því sem fósturjörðu vorri er fyrir bestu, samvinna í andlegum efnum, og samvinna í verklegum, fjárhagslegum efnum. Sameinaðir erum vér sterkir, þótt vér séum fáir; sundraðir erum vér veikir og vanmátta, þótt vér verðum fleiri. Sameiginlegur vilji um að keppa fram til umbóta og menningar í trausti til landsins okkar og framtíðar þess, er brú, sem þarf að byggja og tryggja sem besta og vandaðasta.
Forfeður vorir í heiðni hugsuðu sér sambandið milli þessa heims og annars, mannheims og Valhallar, sem brú, brúna Bifröst, er guðir byggðu til himins af jörðu, og nú er nefnd friðarbogi. Það á sér þannig djúpar rætur, að brú tákni sátt og sameining, sigur yfir tvístrandi kröftum, samtenging þess, er sundrað var áður. Verði það þá að áhrínsorðum, að af hverri nýrri brú, sem lánast að leggja, drjúpi sem flestar andlegar brýr, sameiningarmögn, sem geri þjóðinni lífið ánægjulegra og vegi framtíðarinnar færari.
Vér höfum heyrt mikið um það talað í seinni tíð, að óánægja sé "aðal lyftiaflið" í öllum framförum, að hún eigi að vera aðalkrafturinn, sem knýr menn áfram til bóta. En það er þá svo best að óánægjan sé ekki ófrjó, niðurrífandi, upprætandi. Óánægja, sem knýr fólk af landi burt, héðan til annara heimsálfa, er enginn framfarakraftur fyrir okkar land. Óánægja, sem heggur upp ungviðið og nýgræðinginn, af því að hann þarf tíma til að vaxa, er ekki lyftiafl fyrir neinum framförum. Óánægja, sem brýtur brýrnar og spillir vegunum, af því að annarstaðar séu til betri brýr og breiðari vegir, er vissulega ekki út af fyrir sig ábyggilegt framtíðarmagn. Hin rétta umbótarþrá sem er óróin í sigurverki framfara-andans, er full af trausti, svo og kærleika, flýr ekki, upprætir ekki, eyðileggur ekki.
Í þessu landi hefur jafnan verið allmikið af eyðileggjandi og niðurbrjótandi öflum, eldar, ísar, stormar. Ár hafa brotið breiðar sveitir, mennirnir hafa upprætt og eyðilagt skóg eftir skóg, og þar sem þeir hafa hætt, hefur náttúran tekið við, svo sandar og auðnir hafa hertekið fagrar hlíðar og grænar grundir. Langrækni liggur í loftinu á Íslandi. Jörðin sjálf er langrækin. Hólar og börð, sem kalið hefur og blásið upp í nepjum og næðingum, eru lengi að grænka aftur og gróa. Víðlend flæmi, sem eyðandi hraun hefur runnið yfir einhvern tíma í fyrndinni, hafa látið þúsund ára sól renna upp yfir sinni reiði, áður þau aftur tóku að gróa eins og hraunið hefur gert, sem vér stöndum á nú. En jafnframt þessu hefur jafnan fylgt landi voru eitthvert sérstakt viðhaldsafl, einhver "hulinn verndarkraftur", sem hefur viðhaldið og verndað ekki að eins land vort og góðan gróður, heldur einnig tungu vora, þjóðerni og forna frelsisþrá. Þessi huldi verndarkraftur, þetta viðhaldsmagn góðra vætta gegn eyðileggingaröflum í náttúru lands og lýðs, kemur víða fram í þjóðtrú og þjóðsögum vorum. Eg heyrði rétt nýlega eina slíka sögu, sem skeði hér í nándinni, og sýnir vernd góðra vætta gegn eyðileggingarfýst eða hugsunarleysi mannana, sem því miður hefur rúið landið okkar víða. Hér ofar í ánni, sem vér stöndum við, uppi undir bænum Syðri-Brú, er yndislegur hólmi, sem heitir Axarhólmi, umflotinn stríðum straum. Í hólmanum hefur mjög lengi verið , og er enn, ríkur gróður, angandi reyniviður innan um birkiskóg og hvannstóð, svo unun er á að líta frá árbakkanum. Einn kaldan vetur lagði ána kringum hólmann, svo gengt varð út í hann, og óðar var þar kominn maður frá næsta bænum, með öxi í hendi, til þess að höggva upp reyniviðinn, og hugði nú gott til glóðarinnar. En jafnskjótt sem hann reiddi öxina til höggs, kváðu allt í einu við dunur, brak og dynkir í ísnum milli lands og hólma, eins og allt ætlaði upp að brotna, og manninum skaut svo skelk í bringu, að hann fleygði frá sér öxinni og hljóp í land sem fætur toguðu, svo reynirinn stendur enn óhögginn, og öxin liggur enn úti í hólmanum, þó bersýnilegt sé, að hægt er að komast út í hólmann. Þannig vernduðu vættir elfunnar fegurð hólmans síns og framtíðargróður.
Eg vildi nú óska þess, að í hvert skipti, sem eyðileggjandi öfl þessa lands ætla að leggja öxina að rótum á mætum viði í þjóðlífi voru og félagsskap, þá megi vættir landsins og þess "huldi verndarkraftur" grípa fram í, vernda viðinn og skelfa spellvirkjann, svo að öxin hrjóti úr höndum hans og verði eftir til eilífðar í hólma þeim, sem enginn fær að komist.
Eg vil óska þessu landi og þessu héraði margra brúa, sterkra brúa og heillaríkra brúa í sem flestum og bestum skilningi. Óskum þess að hið sundraða megi sameinast, hið tvístraða tengjast. Heill og gengi yfir þetta hérað og þessa gullfögru sveit. Um leið og eg að lokum þakka þeim mönnum, sem hrundið hafa þessu fyrirtæki áfram, þar á meðal hinum ötula yfirsmið brúarinnar, lýsi eg því yfir, að brú þessi er nú opin til almenningsafnota.
Til heilla og hamingju með brúna. Guð verndi og blessi þessa fögru og öflugu samgöngubót.
Undirbúningur málsins og brúargerðin.
Það eru full 20 ár síðan fyrst var farið að hreyfa því, að koma á brú yfir Sogið hjá Alviðru, austan undir Ingólfsfjalli í Ölfusi, en Sogið rennur eins og kunnugt er úr Þingvallavatni millum Grímsness að austan og Grafnings að vestan, og fellur í Hvítá móts við Tannastaði í Ölfusi. Sogið er mjög vatnsmikið og hvergi reitt nú orðið, þótt slarkað hafi verið stundum yfir það á vaði eða réttara sagt vaðleysu, er "Álftavatn" nefnist undan Torfastöðum í Grafningi. Er Sogið þar afarbreitt, svo að hálftíma ferð er þar yfir það, og djúpt mjög, enda er vað þetta nú nær ófært orðið, og sjaldan eða aldrei farið, síst með klyfjar. Sogið var því hinn versti farartálmi fyrir Grímsnes allt, en að því lykja Brúará að austan og Hvítá að austan og sunnan, hvorttveggja ferjuvötn, svo að sveitin er vötnum lukt á alla vegu nema til fjalls. Af Sogsbrúnni hafa og fleiri not en Grímsnesingar einir t.d. Laugdælir í Eyrarbakkaferðum og Biskupstungnamenn, ekki síst á vetrardag, þá er nyrðri leiðin, Mosfellsheiðarvegurinn, er ófær. Svo mun og tilætlað, að hin fyrirhugaða Geysisbraut liggi um Sogsbrúna upp Grímsnes og Biskupstungur til Geysis og verður það þráðbein stefna suður á aðalakbrautina frá Selfossi. Verða þá not Sogsbrúarinnar vitanlega margfalt meiri en nú er, meðan enginn vegur liggur frá henni upp sýsluna.
Þrátt fyrir þessa mjög nauðsynlegu samgöngubót, sem margir viðurkenndu að brú á Sogið mundi verða, átti málið mjög lengi erfitt uppdráttar, vegna mótspyrnu einstakra manna, er síst mátti ætla, að snerust gegn því, og tafði það mjög fyrir. Loks fékkst þó brúarstæðið skoðað og áætlun gerð. Var svo leitað til þingsins 1901 um helmingsstyrk til brúargerðarinnar úr landssjóði eða 7500 kr. gegn jafnmiklu tillagi frá sýslunni og Grímsneshreppi. En þeirri málaleitan var þá hrundið, og var enda svo mikið kapp í sumum efrideildarmönnum (eftir undirrjóðri mótstöðumanna brúarinnar þar eystra), að þeir þorðu ekki að hleypa fjárlögunum í sameinað þing af ótta við, að þessi óhæfilega (!) fjárveiting kæmist þá að. En á þinginu 1903 hafðist það þó fram (í sameinuðu þingi), að landssjóður veitti allt að 6000 kr. til brúargerðarinnar, gegn því að tvöfalt meiri upphæð yrði lögð fram annarsstaðar frá. Hafði Grímsneshreppur einn lofað 5000 kr. tillagi, og svo hafðist það fram, að sýslan lofaði öðrum 5000 kr. Nú var loks unnt að fara að byrja á verkinu. Næstl. haust kom efnið í brúna hingað til lands og gekk stjórnarráðið vel fram í því að koma verkinu sem fyrst áleiðis. En miklir erfiðleikar voru á flutningum, því að efnið varð að flytja landveg austur alla leið úr Reykjavík, því að ekki tókst að skipa því upp á Eyrarbakka. En þrátt fyrir alla þessa erfiðleika varð þó byrjað á verkinu næstl., vor, og brúin fullger fyrir 8. þ.m. Stóð mest fyrir þessum framkvæmdum Magnús óðalsbóndi Jónsson í Klausturhólum, er hreppsnefndin í Grímsneshreppi valdi til þess starfs, og leysti hann það bæði vel og rösklega af hendi, með aðstoð nokkurra sveitunga sinna, sérstaklega Gunnlaugs hreppstjóra Þorsteinssonar á Kiðabergi, er varð einna fyrstur manna þar í sveit til að hreyfa þessari brúargerð fyrir mörgum árum. - Yfirsmiður við brúna var Halldór Guðmundsson rafmagnsfræðingur, ættaður úr Mýrdal, og fórst það starf ágætlega úr hendi, þótt hann væri óvanur brúargerð. Var gert orð á því þar eystra, hversu verkið hefði gengið greiðlega og liðlega undir forustu hans. Fyrir stöplahleðslunni (steinsmíðinu) stóð í fyrstu Sæmundur Steindórsson steinsmiður (tengdafaðir Símonar snikkara á Selfossi), en hann varð fyrir því slysi snemma í sumar, að steinflís hraut í auga honum, og varð hann að hætta vinnu úr því og er ekki jafngóður enn. Er þetta hið eina óhapp, sem komið hefur fyrir við brúargerð þessa. Síðar stóð fyrir steinsmíðinu Sigurður Gíslason af Eyrarbakka. - Brúin sjálf er hengibrú, 60 álnir á lengd og 4 álna breið með tveimur uppihaldsstrengjum sínum hvoru megin, öll úr járni og hin vandaðasta að allri gerð, og mjög snotur að útliti, svipuð Þjórsárbrúnni þótt minni sé. Hefur Sigurður Thoroddsen verkfræðingur gert teikninguna að henni. Er talið að brúin muni kosta alls 16,000 kr. og fer það furðu nærri áætlun er gerði hana 15,000.
Það eru samtök og þrautsegja Grímsnessinga, sem komið hefur þessu mannvirki á þrátt fyrir megnan andróður úr ýmsum áttum: og hafa þeir með því reist sér prýðilegan minnisvarða, er seint mun fyrnast og ætti að verða öðrum héruðum til eftirbreytni. Þá mundi margt skipast öðruvísi á landi voru. Það mátti og með sanni segja, að vígsludagurinn var hátíðis- og fagnaðardagur, sérstaklega fyrir Grímsnessinga. Og mundu margir hafa kosið að vera í þeirra sporum þar.
Vígsluathöfnin.
Laugardaginn 9. þ.m. var veður bjart og fagurt, og mátti þá sjá mannareið um Árnessýslu. En allir flokkarnir stefndu að Sogsbrúnni, er ráðherrann ætlaði að vígja þann dag kl. 2. Úr Reykjavík var meðal annars hátt á 3. hundrað manna, að því er næst varð komist. Var erfitt um gististaði fyrir allan þann fjölda, og lágu menn í heyhlöðum á bæjum meðfram veginum, voru t.d. um 60-70 Reykvíkingar nætursakir á Selfossi og í Tryggvaskála á laugardagsnóttina, og enn fleiri kvað hafa verið þar nóttina eftir. En alls voru staddir við vígsluna fullt 1000 manns eða hátt á 11. hundrað eftir því sem sumum taldist. Ráðherrann kom að aflíðandi hádegi að Soginu, að austanverðu, Grímsnesmeginn. En mestur hluti mannfjöldans var fyrir vestan ána, og gekk smátt og smátt austur yfir, því að þar var ræðupallurinn reistur við brúarsporðinn. Er þar skógur upp frá brúnni og landslag fagurt og vinalegt þar með Soginu, (í Öndverðarneslandi) þótt brunahraun sé og skógurinn ekki hávaxinn. Er þar beitiland ágætt fyrir sauðfé og land kjarngott.
Nokkru áður en sjálf vígsluathöfnin hófst var blásið í lúðra til að stefna fólkinu saman, og streymdi það þá austur yfir það er eftir var fyrir vestan ána, 40-50 í hóp, en verðir voru settir við vestri enda brúarinnar til að gæta þess að ofmargir væru ekki á brúnni í senn. Þá er kl. var 2 og allir (eða nær því allir) komnir austur yfir var spennt silkiband yfir brúna, en á meðan fólkið gekk brúna lék lúðrafélag Reykjavíkur "Eldgamla Ísafold" og "Ó, guðs vors lands" tvisvar sinnum. Þá er fólkið var komið saman á eystri bakkanum sté ráðherrann upp á ræðupallinn, og hélt þar ræðu þá, sem hér er prentuð á undan, og fannst flestum mikið um bæði efni og framburð, en maðurinn sjálfur hinn gervilegasti og veðrið skínandi fagurt, en skógarilminn lagði að vitum manna, og varð því allt til þess að gera athöfn þessa sem hátíðlegasta. Að lokinni ræðu og um leið og ráðherrann sté niður af ræðupallinum var hrópað: "Lifi ráðherrann" og tók mannfjöldinn undir það með níföldu húrra. Að því búnu gekk ráðherrann og frú hans fyrst vestur yfir brúna og klippti ráðherrafrúin sundur band það, er spennt var yfir brúna, en mannfjöldinn gekk allur á eftir og var á meðan leikið á lúðra brúardrápa H.H. og að því loknu hrópað húrra fyrir höfundinum. Síðan dreifðust menn smátt og smátt víðsvegar í kringum brúna. Höfðu Grímsnesingar reist tjald allmikið í skóginum að austanverðu við brúna handa ráðherranum og frú hans, og bauð forstöðunefndin þangað nokkrum mönnum. Var þar drukkið minni ráðherrans, yfirsmiðs brúarinnar, forstöðunefndarinnar o. fl.
Síðar um daginn hélt séra Gísli Jónsson á Mosfelli ræðu og talaði aðallega um þá erfiðleika, er þetta brúarmál hefði átt við að stríða, og þótti mælast vel. Einn hálfsvínkaður Reykvíkingur, er ekki þótti ræðan eftir valtýskum nótum, var stöðugt að gjamma fram í, og flissa heimskulega, og stórhneyksluðust allir á slíkum götustrákahætti, og þótti maðurinn vera fremur "krúkk" að kurteisi. Auk annars manns (G. Felixssonar) er talaði nokkur orð, varð ekki meira af ræðuhöldum, enda fóru menn smátt og smátt að tínast burtu, er á leið. Dansað var um hríð á fögrum grasfleti að austanverðu við Sogið, en danspallur var enginn, því að forstöðunefndin hafði ekki haft tæki til að reisa hann, enda ekki útlit fyrir næstu daga á undan, að veður yrði svo gott vígsludaginn, að menn mundu skemmta sér við dans. En þótt pallinn vantaði, skemmtu menn sér eftir föngum og létu allir hið besta yfir förinni, enda veður hið blíðasta allan daginn, og staðurinn hinn fegursti. tók Árni Thorsteinsson ljósmyndari þar nokkrar myndir, er hann hefur nú til sýnis og sölu, og eru þær allar mjög vel gerðar.