1900

Ísafold, 4. apríl, 27. árg, 18. tbl., forsíðu:

Um vegi og brýr
á aðalleiðinni frá Reykjavík austur í Holt
Fyrri hluta marsmánaðar ferðaðist ég austur um sveitir til þess að skoða húsabyggingar. Eins og mönnum mun kunnugt, er í fjárlögum nú veitt fé til rannsókna á byggingarefnum landsins og leiðbeiningar í húsabyggingum; og hef ég verið valinn til þess að hafa á hendi það starf, sem þessi fjárveiting gerir ráð fyrir.
Þessi ferð var byrjun í þá átt, að fá ljóst og áreiðanlegt yfirlit yfir ásigkomulag húsakynna vorra til sjávar og sveita, eins og það nú er. Ég áleit rétt að fara af stað í þessar leitir um þennan tíma árs, því þá rekur maður áreiðanlega augun í ýmislegt, sem ekki sést að sumrinu til og menn muna þá heldur ekki eftir að kvarta um.
Ég ætla þó ekki að fara að gefa hér skýrslu um athuganir mínar viðvíkjandi húsakynnum; þær munu koma síðar; ég ætla aðeins að geta ýmislegs, er ég veitti eftirtekt viðvíkjandi vegum og brúm á aðalleiðinni austur; um vegina er nefnilega að sínu leyti eins ástatt og húsin, að það sést oft ekki fullkomlega fyrr en á vetrum, að hverju leyti vegarval og öll tilhögun hefur verið hyggileg eða ekki. Að minnsta kosti á sú hliðin ávallt að vera sá reynsluskóli sem byggt er á eftirleiðis. Ég hef þá ástæðu til að birta þessar athuganir, að vér erum of fátækir til þess að láta nokkurt tækifæri ónotað til fræðslu um það, er reynslan sýnir að betur má fara.
Um leiðina upp úr Reykjavík er það að segja, að henni er stórum betur hagað en áður var; þó hefði ávallt legið næst, að halda leiðinni úr miðbænum austur með sjónum. Sú leið var í byrjun eðlilegust og útfærsla bæjarins austur á við (húsin fyrir austan landshöfðingjatún og norðan Laugavegar) krefst þar vegar nú, þó seint sé.
Í haust hefur verið borið ofan í all langan kafla af leiðinni inn að Elliðaánum. Hvers vegna haustið og fyrri hluti vetrar hefur verið valinn til þessa, skilst mér ekki; þó má vera, að það styðjist við einhverja reynslu og megi til sanns vegar færa. Allmikið af þessum ofaníburði hlýtur að berast burtu við leysingar að vetrinum og vorinu; sömuleiðis verður brautin þungfær í fyrstu leysingum.
Á þessum tíma lá allmikið af veginum frá Lækjarbotnum austur yfir Hellisheiði undir fönn og klaka, svo þennan hluta gat ég ekki séð til fulls. Allt það, sem ég sá, bar þess ljósan vott, að viðhaldið er ekki eins gott og æskja mætti; skurðir hafa mjög víða hrunið saman eða fyllst, og víða komin skörð í vegarbrúnir. Þetta fer auðvitað saman við það, að litlu fé mun árlega varið til viðhalds þessari leið.
Á þessum tíma var eingöngu farin gamla leiðin yfir Hellisheiði (upp Hellisskarð). Vörður þar eru margar fallnar, og liggja sumar við falli; og er það illt, með því að þetta er þrautaleið yfir heiðina á vetrum í snjóalögum. Syðri leiðin (nýi vegurinn) var vörðuð í haust, sem leið, og hefur að líkindum farið til þess töluvert fé. Nokkru af þessu fé hefði, að mínu áliti, sjálfsagt átt að verja til þess, að hlaða upp vörður á gömlu leiðinni, því reynslan sýnir, að sú leið verður ávallt styst og fjölförnust á vetrum.
Leiðin niður Kamba og allt þar fyrir austan var snjólaust.
Í Kömbum var vegurinn góður og heldur sér vel, en mjög örðugur vagnvegur verður hann, ef á það á að reyna; hallinn mikill og krókar krappir.
Vegurinn frá Heiðinni að Gljúfurá hefur haldið sér vel; en á þessum kafla er brúm miður hyggilega fyrirkomið og óþarfir krókar á stefnum. Brýr vantar yfir Gljúfurá og Bakkaholtsá. Þegar það kemur til athugunar að brúa þær, sem ekki mundi þurfa að hafa neinn stórvægilegan kostnað í för með sér, þá rekur maður fyrst verulega augun í ósamræmið í vegarstefnum hér, því kaflinn milli ánna liggur þannig, að hann ætti ekkert skylt við aðalleiðina.
Lagði vegurinn yfir Ölfusið endar við Köguðarhól. Ef hugsað verður til þess að halda áfram veginum austur að Ölfusárbrú í sambandi við vagnflutninga, liggur beinast við að taka stefnuna sunnan við Köguðarhól beinustu leið á brúna. Að halda við leiðinni með fram Ingólfsfjalli og þaðan niður að brú, svo að hún verði akfær, hlýtur að hafa töluverðan kostnað í för með sér.
Um Ölfusárbrúna verð ég að geta þess, að mér finnst athugaverð “uppskrúfunin”, eins og hún er nú gerð hvað eftir annað. Brúin er of falleg og dýr til þess, að hún sé skemmd fyrir vangá. Ef brúin heldur ekki nokkurn veginn lagi sínu um stund, verður að aðgæta fleira en uppihaldsstengurnar. Mér finnst að minnsta kosti engin vanþörf að veita þessu frekari eftirtekt, og ætti að láta mannvirkjafræðing landsins einn segja fyrir um, hvenær og hve mikið eigi að hreyfa við skrúfum.
Um Flóaveginn get ég verið stuttorður; hann var góður og greiðfær yfirferðar. Ég get þó ekki bundist orða um það, að á honum eru alveg óþarfir krókar á nokkrum stöðum. Á öllum veginum vottaði fyrir holklaka meira og minna, en við því hefur ekki verið hægt að gera. Á löngum köflum er vegurinn púkklagður, en á púkklagningunni eru miklir gallar. Vegurinn átti að vera 6 álna breiður, en með púkklagningunni verða tæpar 5 álnir færar af breidd hans á æði mörgum stöðum. Mulningurinn (púkkið) heldur sér vel og gerir veginn góðan fyrir lestarferðir og vagnflutninga en harðan fótgangandi mönnum. Ef púkklagið hefði verið rétt lagt, mundi hann hafa fullnægt öllum skilyrðunum þremur. Ennfremur verð ég að geta þess , að við hverja rennu er lægð í veginum. Á kaflanum næst Ölfusá vantar fráræsluskurði. Nálægt Bitru hafa vegarskurðir verið stíflaðir. Víða sést á leiðinni, að uppgröftur úr skurðum hefur ekki gengið til vegarins, heldur verið lagður upp á skurðabakkana að utanverðu og hefur vatnið sumstaðar flutt hann aftur niður í skurðina.
Þjórsárbrú er lagleg og lítur vel út. Veita þarf eftirtekt vestari brúarstöplinum; honum getur fljótt hætta búin af frostum og jakaburði Ennfremur þarf að lengja fráræsluskurðinn Holtamegin vestur og suður fyrir eystri stöpulinn.
Um Holtaveginn er það að segja að vegarstefnan er vel valin, liggur beinustu leið milli Þjórsárbrúar og Rauðalækjabrúar. Vegurinn liggur í heild sinni laglega með löngum, beinum köflum og reglulegum bogum á milli. Vegurinn hefur haldið sér vel þar sem ofaníburður var góður (í öllum vestari kaflanum). Á austari kaflanum varð eingöngu að nota sand til ofaníburðar og hann hefur fokið burt á löngum köflum. Fráræsluskurðir eru margir, en þó þarf slíka skurði á 2-3 stöðum enn, þar sem runnið hefur yfir veginn. Fyrir holklaka vottar aðeins á 2 stöðum.
Ég hef þá farið fljótt yfir einstök atriði þess, sem ég veitti eftirtekt á þessari leið. Sérstaklega rekur maður augun í, hve vegarlagningin yfir Ölfusið er samræmislaust og öll í bútum. Þegar leið þessa á að fullgera, gerir þetta töluverða erfiðleika og aukakostnað.
Ennfremur vil ég geta þess, að það er einkar eftirtektarvert, að allir vegakaflar, sem liggja yfir mýrar, hafa haldið sér best og virðast munu þurfa lítinn viðhaldskostnað.
Þetta er einkar mikilsvert hjá oss, þar sem eftirlit og viðhald er svo ófullkomið. Almennt má segja að vegir þeir sem landssjóður er búinn að leggja, kosti of mikið fé til þess, að láta þá vera eftirlitslausa og viðhaldslitla, enda þekkist það ekki hjá nokkurri annarri þjóð. Vér gætum eins látið stórbrýrnar, sem gerðar hafa verið á síðustu árum, vera umsjónar- og eftirlitslausar. Þetta virðist þing og þjóð þurfa að athuga frekar. Þegar fé er lagt til einhverra nývirkja, þarf ávallt að gera einhverjar ráðstafanir til þess, að þau gangi ekki úr sér fyrir tímann.
Reykjavík, í marsmánuði 1900.
Sigurður Pétursson
Ingeniör.


Ísafold, 4. apríl, 27. árg, 18. tbl., forsíðu:

Um vegi og brýr
á aðalleiðinni frá Reykjavík austur í Holt
Fyrri hluta marsmánaðar ferðaðist ég austur um sveitir til þess að skoða húsabyggingar. Eins og mönnum mun kunnugt, er í fjárlögum nú veitt fé til rannsókna á byggingarefnum landsins og leiðbeiningar í húsabyggingum; og hef ég verið valinn til þess að hafa á hendi það starf, sem þessi fjárveiting gerir ráð fyrir.
Þessi ferð var byrjun í þá átt, að fá ljóst og áreiðanlegt yfirlit yfir ásigkomulag húsakynna vorra til sjávar og sveita, eins og það nú er. Ég áleit rétt að fara af stað í þessar leitir um þennan tíma árs, því þá rekur maður áreiðanlega augun í ýmislegt, sem ekki sést að sumrinu til og menn muna þá heldur ekki eftir að kvarta um.
Ég ætla þó ekki að fara að gefa hér skýrslu um athuganir mínar viðvíkjandi húsakynnum; þær munu koma síðar; ég ætla aðeins að geta ýmislegs, er ég veitti eftirtekt viðvíkjandi vegum og brúm á aðalleiðinni austur; um vegina er nefnilega að sínu leyti eins ástatt og húsin, að það sést oft ekki fullkomlega fyrr en á vetrum, að hverju leyti vegarval og öll tilhögun hefur verið hyggileg eða ekki. Að minnsta kosti á sú hliðin ávallt að vera sá reynsluskóli sem byggt er á eftirleiðis. Ég hef þá ástæðu til að birta þessar athuganir, að vér erum of fátækir til þess að láta nokkurt tækifæri ónotað til fræðslu um það, er reynslan sýnir að betur má fara.
Um leiðina upp úr Reykjavík er það að segja, að henni er stórum betur hagað en áður var; þó hefði ávallt legið næst, að halda leiðinni úr miðbænum austur með sjónum. Sú leið var í byrjun eðlilegust og útfærsla bæjarins austur á við (húsin fyrir austan landshöfðingjatún og norðan Laugavegar) krefst þar vegar nú, þó seint sé.
Í haust hefur verið borið ofan í all langan kafla af leiðinni inn að Elliðaánum. Hvers vegna haustið og fyrri hluti vetrar hefur verið valinn til þessa, skilst mér ekki; þó má vera, að það styðjist við einhverja reynslu og megi til sanns vegar færa. Allmikið af þessum ofaníburði hlýtur að berast burtu við leysingar að vetrinum og vorinu; sömuleiðis verður brautin þungfær í fyrstu leysingum.
Á þessum tíma lá allmikið af veginum frá Lækjarbotnum austur yfir Hellisheiði undir fönn og klaka, svo þennan hluta gat ég ekki séð til fulls. Allt það, sem ég sá, bar þess ljósan vott, að viðhaldið er ekki eins gott og æskja mætti; skurðir hafa mjög víða hrunið saman eða fyllst, og víða komin skörð í vegarbrúnir. Þetta fer auðvitað saman við það, að litlu fé mun árlega varið til viðhalds þessari leið.
Á þessum tíma var eingöngu farin gamla leiðin yfir Hellisheiði (upp Hellisskarð). Vörður þar eru margar fallnar, og liggja sumar við falli; og er það illt, með því að þetta er þrautaleið yfir heiðina á vetrum í snjóalögum. Syðri leiðin (nýi vegurinn) var vörðuð í haust, sem leið, og hefur að líkindum farið til þess töluvert fé. Nokkru af þessu fé hefði, að mínu áliti, sjálfsagt átt að verja til þess, að hlaða upp vörður á gömlu leiðinni, því reynslan sýnir, að sú leið verður ávallt styst og fjölförnust á vetrum.
Leiðin niður Kamba og allt þar fyrir austan var snjólaust.
Í Kömbum var vegurinn góður og heldur sér vel, en mjög örðugur vagnvegur verður hann, ef á það á að reyna; hallinn mikill og krókar krappir.
Vegurinn frá Heiðinni að Gljúfurá hefur haldið sér vel; en á þessum kafla er brúm miður hyggilega fyrirkomið og óþarfir krókar á stefnum. Brýr vantar yfir Gljúfurá og Bakkaholtsá. Þegar það kemur til athugunar að brúa þær, sem ekki mundi þurfa að hafa neinn stórvægilegan kostnað í för með sér, þá rekur maður fyrst verulega augun í ósamræmið í vegarstefnum hér, því kaflinn milli ánna liggur þannig, að hann ætti ekkert skylt við aðalleiðina.
Lagði vegurinn yfir Ölfusið endar við Köguðarhól. Ef hugsað verður til þess að halda áfram veginum austur að Ölfusárbrú í sambandi við vagnflutninga, liggur beinast við að taka stefnuna sunnan við Köguðarhól beinustu leið á brúna. Að halda við leiðinni með fram Ingólfsfjalli og þaðan niður að brú, svo að hún verði akfær, hlýtur að hafa töluverðan kostnað í för með sér.
Um Ölfusárbrúna verð ég að geta þess, að mér finnst athugaverð “uppskrúfunin”, eins og hún er nú gerð hvað eftir annað. Brúin er of falleg og dýr til þess, að hún sé skemmd fyrir vangá. Ef brúin heldur ekki nokkurn veginn lagi sínu um stund, verður að aðgæta fleira en uppihaldsstengurnar. Mér finnst að minnsta kosti engin vanþörf að veita þessu frekari eftirtekt, og ætti að láta mannvirkjafræðing landsins einn segja fyrir um, hvenær og hve mikið eigi að hreyfa við skrúfum.
Um Flóaveginn get ég verið stuttorður; hann var góður og greiðfær yfirferðar. Ég get þó ekki bundist orða um það, að á honum eru alveg óþarfir krókar á nokkrum stöðum. Á öllum veginum vottaði fyrir holklaka meira og minna, en við því hefur ekki verið hægt að gera. Á löngum köflum er vegurinn púkklagður, en á púkklagningunni eru miklir gallar. Vegurinn átti að vera 6 álna breiður, en með púkklagningunni verða tæpar 5 álnir færar af breidd hans á æði mörgum stöðum. Mulningurinn (púkkið) heldur sér vel og gerir veginn góðan fyrir lestarferðir og vagnflutninga en harðan fótgangandi mönnum. Ef púkklagið hefði verið rétt lagt, mundi hann hafa fullnægt öllum skilyrðunum þremur. Ennfremur verð ég að geta þess , að við hverja rennu er lægð í veginum. Á kaflanum næst Ölfusá vantar fráræsluskurði. Nálægt Bitru hafa vegarskurðir verið stíflaðir. Víða sést á leiðinni, að uppgröftur úr skurðum hefur ekki gengið til vegarins, heldur verið lagður upp á skurðabakkana að utanverðu og hefur vatnið sumstaðar flutt hann aftur niður í skurðina.
Þjórsárbrú er lagleg og lítur vel út. Veita þarf eftirtekt vestari brúarstöplinum; honum getur fljótt hætta búin af frostum og jakaburði Ennfremur þarf að lengja fráræsluskurðinn Holtamegin vestur og suður fyrir eystri stöpulinn.
Um Holtaveginn er það að segja að vegarstefnan er vel valin, liggur beinustu leið milli Þjórsárbrúar og Rauðalækjabrúar. Vegurinn liggur í heild sinni laglega með löngum, beinum köflum og reglulegum bogum á milli. Vegurinn hefur haldið sér vel þar sem ofaníburður var góður (í öllum vestari kaflanum). Á austari kaflanum varð eingöngu að nota sand til ofaníburðar og hann hefur fokið burt á löngum köflum. Fráræsluskurðir eru margir, en þó þarf slíka skurði á 2-3 stöðum enn, þar sem runnið hefur yfir veginn. Fyrir holklaka vottar aðeins á 2 stöðum.
Ég hef þá farið fljótt yfir einstök atriði þess, sem ég veitti eftirtekt á þessari leið. Sérstaklega rekur maður augun í, hve vegarlagningin yfir Ölfusið er samræmislaust og öll í bútum. Þegar leið þessa á að fullgera, gerir þetta töluverða erfiðleika og aukakostnað.
Ennfremur vil ég geta þess, að það er einkar eftirtektarvert, að allir vegakaflar, sem liggja yfir mýrar, hafa haldið sér best og virðast munu þurfa lítinn viðhaldskostnað.
Þetta er einkar mikilsvert hjá oss, þar sem eftirlit og viðhald er svo ófullkomið. Almennt má segja að vegir þeir sem landssjóður er búinn að leggja, kosti of mikið fé til þess, að láta þá vera eftirlitslausa og viðhaldslitla, enda þekkist það ekki hjá nokkurri annarri þjóð. Vér gætum eins látið stórbrýrnar, sem gerðar hafa verið á síðustu árum, vera umsjónar- og eftirlitslausar. Þetta virðist þing og þjóð þurfa að athuga frekar. Þegar fé er lagt til einhverra nývirkja, þarf ávallt að gera einhverjar ráðstafanir til þess, að þau gangi ekki úr sér fyrir tímann.
Reykjavík, í marsmánuði 1900.
Sigurður Pétursson
Ingeniör.