1892

Ísafold, 27. apríl 1892, 19. árg., 34. tbl., forsíða:

Skeiðarársandur ófær.
Það þykir nú varla efunarmál framar, að Skeiðarársandur verði allsendis ófær yfirferðar í allt sumar, þannig, að samgöngur allar hljóti að leggjast niður, milli Austur-Skaftafellssýslu og Vestur-Skaftafellssýslu. Austanpóstur héðan mun því verða að enda göngu sína hérna megin við sandinn, en Austur-Skaftfellingar að fá póst til sín hina leiðina, úr Múlasýslunum. Sömuleiðis litlar líkur til, að sýslumanni Skaftfellinga, sem situr á Síðunni, verði unnt að þjóna austursýslunni sumarlangt, og verði því að skipa annan mann til að vera þar.
Að öðru leyti skal vísað í eftirfarandi mikið fróðlega bréfkafla frá sýslumanninum í Skaftafellssýslu, herra Guðl. Guðmundssyni, til suður-amtsins, góðfúslega lánaða blaðinu til birtingar. Er fyrra bréfið dagsett 28. mars, en hið síðara 4. apríl (í Öræfunum):
"Eins og kunnugt mun af blaðafregnum, kom hlaup úr Skeiðarárjökli dagana 12. - 15. þ. m. og bárust eða runnu fram nokkrar jökulhrannir á sandinum austanverðum alla leið til sjávar, þannig, að þær mynda eins og há hamrabelti, allbreið og full af gjám og sprungum, er sumar eru fullar með ísmulning, er hrynur undan, ef á er stigið. Á beltum þessum eru engin auð hlið, er komist verður um, nema hvað jökulbrotin standa nokkuð strjálli fast uppi undir jöklinum sjálfum, og má þar rekja sig milli jakanna gegn um beltin öll nema eitt, en yfir það hefir verið höggvin braut og farið þar með hesta; lengra frá jöklinum, úti á sandinum, þar sem áður hefir verið farið, er ófært gangandi mönnum, hvað þá með hesta. Það er álit kunnugra, skilríkra manna, og ég get eigi annað en álitið það rétt, að þegar hitnar í veðri og jökulhrannirnar fara að þiðna á sandinum, jakarnir að sökkva niður í sandinn og þiðna niðri í honum, þá myndist þar á þessu svæði þær hyldýpisbleytur og sandhvörf, er engri lifandi skepnu verði fært yfir, nema fugli fljúgandi. Jafnvel nú, þó að frost sé á jörðu og sólbráð ekkert um daga, telja þeir, er farið hafa um sandinn, og það menn, sem ég þekki að því að vera bæði einbeittir og hugdjarfir ferðamenn, þessa leið hinn mesta glæfraveg, bæði fyrir menn og skepnur.
En þó að gjöra mætti nú ráð fyrir, að mögulegt væri að komast þennan veg fyrir sandbleytum og jökulhrönnum, sem þó eru varla líkur til nú, þá er það annað, er gjöra hlýtur leið þessa ófæra, þegar hiti kemur og vaxa fer í jökulvötnunum; það er Skeiðarár. Á undan hlaupinu kom hún undan skriðjöklinum austast og efst og rann fram vestan undir Skaftafelli og lítið eitt vestur með jöklinum að austanverðu og féll svo og fram sandinn í mörgum breiðum farvegum, er allir lágu á flatneskju, og breiddist áin þar út, svo að hún varð svo að segja aldrei ófær, að eins farvegirnir, "álarnir", fleiri og breiðari, því meir sem vatn óx í henni. Í hlaupinu hefir áin nú flutt upptök sín og kemur nú undan jöklinum nokkru vestar, hér um bil 1 mílu á að geta, og fellur þar beint fram á sandinn; er þar að vestanverðu við hana há sandalda, en að austan jökulhrönn, og fellur hún í einum fremur þröngum farveg þar á milli. Það eru að kunnugra mati áliti engar líkur til, að hún geti rutt sér þar breiðari veg fyrst um sinn, og verður því, þegar vatn vex í henni, al-ófær, en hvergi mögulegt að komast að henni framar á sandinum; þegar hún því er orðin svo vatnsmikil, að eigi er fært yfir hana undir jöklinum, rétt við uppgönguna, þá er algjör frágagnssök, hreinn ómögulegleiki, að komast þennan veg yfir sandinn. Það er því aðeins hugsanlegt, að þessi vegur verður fær í sumar, að Skeiðará flytji sig aftur í hina eystri farvegi; en þó að það vitanlega geti komið fyrir. Þá er mjög valt að byggja á því, að svo verði, enda verður vegurinn samt sem áður hættulegur, ef ekki al-ófær, vegna sandhvarfanna og bleytunnar, sem ég áður hefi lýst.
Eins og þetta því nú horfir við, er eigi annað fyrirsjáanlegt, en að umferð um Skeiðarársand verður ómöguleg frá 15. maí eða í öllu falli frá maí-lokum næstkomandi og það sjálfsagt til septemberloka eða jafnvel lengur. Það er vitanlega eigi allsendis óhugsandi, að einhver ófyrirsjáanleg breyting geti orðið á sandinum, og ef til vill getur það komið fyrir, að einstaka kunnugur maður geti brotist einhverja leið yfir sandinn eða jökulinn. En það eru eigi neinar líkur til þess nú, að vegurinn yfir sandinn geti á þessum tíma orðið svo, að hann geti talist hættulítill og alfaraleið, og kunnugir menn vilja álíta, að hann hljóti að verða opinn voði hverjum ókunnugum, er reyna kynni að fara yfir sandinn, jafnvel þó að hann ef til vill, eigi sé orðinn það nú. Ég þori heldur eigi að fullyrða, að vegurinn verði fær fram í miðjan maímánuð næsta eða til maí-loka, því tilgátur kunnugra manna um það eru á reiki, en það býst enginn við, að hann verði fær eftir þann tíma, og hann verður sjálfsagt ófær mikið fyrr, ef hitar koma eða miklar rigningar".
Hinn 3. þ. m. fór sýslumaður austur yfir sandinn, í embættisnauðynja-erindum, og lýsir ferð sinni þannig daginn eftir í bréfi til amtsins.
"Í framhaldi af bréfi mínu 28. f. m. skal ég nú, eftir að ég hefi skoðað veginn yfir Skeiðarársand, leyfa mér að skýra frá eftirfylgjandi.
Ég get í öllum verulegum atriðum staðfest skýrslu þá, er ég hefi gefið í nefndu bréfi um þennan veg. Eins og nú stendur er vegurinn ekki hættulegur fyrir menn, en nokkuð viðsjáll með hesta. Þeir kaflar á veginum, er verstir verða yfirferðar eru: kaflinn frá Lómanúp og austur fyrir svo nefndar "Sandgígjur" að vestanverðu, og kaflinn frá vestri brún jökulhrannarinnar fyrir vestan Skeiðará og austur undi Skaftafell, og þar gjöra kunnugir menn ráð fyrir, að ófært verði, þegar vaxa fer í Skeiðará, eða nálægt maí-lokum, og jafnvel fyrr, ef hitar verða nokkrir verulegir eða rigningar í vor.
Sandhvörf eru þegar farin að myndast nokkur í Núpsvatna-farveginum, jakarnir farnir að sökkva í sandinn og þiðna, og þar verður eflaust innan skamms mjög viðsjárverður vegur og t. d. alls eigi áhættandi fyrir fáa menn saman að fara þar um.
Menn voru sendir að austan yfir sandinn 2. þ. m., til að flytja mér boð um strand á Sléttaleitisfjöru í Borgarhafnarhreppi, og voru þeir fjórir saman vestur yfir jökulhrannirnar við Skeiðará, og fóru svo tveir þeirra alla leið og komust með illan leik vestur yfir.
Við vorum í gær sjö saman austur yfir Núpsvatna-farveginn, með 10 hesta; við höfðum víða hvar tvo menn gangandi á undan með stengur og þrjá lausa hesta, og þó vildu hér og hvar fara hestar á kaf í brautinni. Þessi kafli mun vera full hálf míla á breidd, og jakarnir standa nokkuð þétt um allt þetta svæði, en eru þar nokkuð minni en austar á sandinum. Þessi kafli held ég þó tæplega að verði ófær með öllu, með ef til vill með þungan flutning, en lausríðandi mönnum held ég varla að hann verði verulegur háski eða faratálmi.
Að austanverðu er vegurinn sem stendur ekki hættulegur, nema hvað vegarspöng sú, er gjörð hefir verið yfir jökulhrönnina, er svikul, og hver sem um veginn fer, verður að hafa með sér verkfæri, til að mylja klakann og fylla með honum sprungurnar, svo að hestarnir verði teymdir yfir, en svo dettur það úr og þiðnar jafnóðum. Spöngin er ekki nema 30-40 faðmar á breidd, en jökulhrönn er beggja vegna við hana, því að þar standi jakarnir nokkuð strjálla, svo að mögulegt sé að rekja sig að spönginni báðu megin. Hér er mjög hætt við, að ófært verði með hesta, þegar þiðna fer. Hrannarbeltið mun vera nálægt mílu á breidd og nær alla leið til sjávar.
Um það, hvort finna megi sér færan veg yfir skriðjökulinn, er mönnum hér lítið kunnugt; en fremur er það þó skoðun manna, að hann muni vera fær gangandi mönnum, og það er vafalaust hægt, að fá hér menn til að reyna það; en alfaraleið er óhugsandi að þar geti orðið.
Vitanlega er eigi hægt að fortaka, að á þessum vegi geti einhver sú ófyrirsjáanleg breyting orðið, að sandurinn verður fær í sumar, þó að mér þyki það næsta ótrúlegt; en, eins og ég hefi áður tekið fram, ég álít nær því vafalaust, að hann verður ófær, í öllu falli með nokkurn flutning".


Ísafold, 27. apríl 1892, 19. árg., 34. tbl., forsíða:

Skeiðarársandur ófær.
Það þykir nú varla efunarmál framar, að Skeiðarársandur verði allsendis ófær yfirferðar í allt sumar, þannig, að samgöngur allar hljóti að leggjast niður, milli Austur-Skaftafellssýslu og Vestur-Skaftafellssýslu. Austanpóstur héðan mun því verða að enda göngu sína hérna megin við sandinn, en Austur-Skaftfellingar að fá póst til sín hina leiðina, úr Múlasýslunum. Sömuleiðis litlar líkur til, að sýslumanni Skaftfellinga, sem situr á Síðunni, verði unnt að þjóna austursýslunni sumarlangt, og verði því að skipa annan mann til að vera þar.
Að öðru leyti skal vísað í eftirfarandi mikið fróðlega bréfkafla frá sýslumanninum í Skaftafellssýslu, herra Guðl. Guðmundssyni, til suður-amtsins, góðfúslega lánaða blaðinu til birtingar. Er fyrra bréfið dagsett 28. mars, en hið síðara 4. apríl (í Öræfunum):
"Eins og kunnugt mun af blaðafregnum, kom hlaup úr Skeiðarárjökli dagana 12. - 15. þ. m. og bárust eða runnu fram nokkrar jökulhrannir á sandinum austanverðum alla leið til sjávar, þannig, að þær mynda eins og há hamrabelti, allbreið og full af gjám og sprungum, er sumar eru fullar með ísmulning, er hrynur undan, ef á er stigið. Á beltum þessum eru engin auð hlið, er komist verður um, nema hvað jökulbrotin standa nokkuð strjálli fast uppi undir jöklinum sjálfum, og má þar rekja sig milli jakanna gegn um beltin öll nema eitt, en yfir það hefir verið höggvin braut og farið þar með hesta; lengra frá jöklinum, úti á sandinum, þar sem áður hefir verið farið, er ófært gangandi mönnum, hvað þá með hesta. Það er álit kunnugra, skilríkra manna, og ég get eigi annað en álitið það rétt, að þegar hitnar í veðri og jökulhrannirnar fara að þiðna á sandinum, jakarnir að sökkva niður í sandinn og þiðna niðri í honum, þá myndist þar á þessu svæði þær hyldýpisbleytur og sandhvörf, er engri lifandi skepnu verði fært yfir, nema fugli fljúgandi. Jafnvel nú, þó að frost sé á jörðu og sólbráð ekkert um daga, telja þeir, er farið hafa um sandinn, og það menn, sem ég þekki að því að vera bæði einbeittir og hugdjarfir ferðamenn, þessa leið hinn mesta glæfraveg, bæði fyrir menn og skepnur.
En þó að gjöra mætti nú ráð fyrir, að mögulegt væri að komast þennan veg fyrir sandbleytum og jökulhrönnum, sem þó eru varla líkur til nú, þá er það annað, er gjöra hlýtur leið þessa ófæra, þegar hiti kemur og vaxa fer í jökulvötnunum; það er Skeiðarár. Á undan hlaupinu kom hún undan skriðjöklinum austast og efst og rann fram vestan undir Skaftafelli og lítið eitt vestur með jöklinum að austanverðu og féll svo og fram sandinn í mörgum breiðum farvegum, er allir lágu á flatneskju, og breiddist áin þar út, svo að hún varð svo að segja aldrei ófær, að eins farvegirnir, "álarnir", fleiri og breiðari, því meir sem vatn óx í henni. Í hlaupinu hefir áin nú flutt upptök sín og kemur nú undan jöklinum nokkru vestar, hér um bil 1 mílu á að geta, og fellur þar beint fram á sandinn; er þar að vestanverðu við hana há sandalda, en að austan jökulhrönn, og fellur hún í einum fremur þröngum farveg þar á milli. Það eru að kunnugra mati áliti engar líkur til, að hún geti rutt sér þar breiðari veg fyrst um sinn, og verður því, þegar vatn vex í henni, al-ófær, en hvergi mögulegt að komast að henni framar á sandinum; þegar hún því er orðin svo vatnsmikil, að eigi er fært yfir hana undir jöklinum, rétt við uppgönguna, þá er algjör frágagnssök, hreinn ómögulegleiki, að komast þennan veg yfir sandinn. Það er því aðeins hugsanlegt, að þessi vegur verður fær í sumar, að Skeiðará flytji sig aftur í hina eystri farvegi; en þó að það vitanlega geti komið fyrir. Þá er mjög valt að byggja á því, að svo verði, enda verður vegurinn samt sem áður hættulegur, ef ekki al-ófær, vegna sandhvarfanna og bleytunnar, sem ég áður hefi lýst.
Eins og þetta því nú horfir við, er eigi annað fyrirsjáanlegt, en að umferð um Skeiðarársand verður ómöguleg frá 15. maí eða í öllu falli frá maí-lokum næstkomandi og það sjálfsagt til septemberloka eða jafnvel lengur. Það er vitanlega eigi allsendis óhugsandi, að einhver ófyrirsjáanleg breyting geti orðið á sandinum, og ef til vill getur það komið fyrir, að einstaka kunnugur maður geti brotist einhverja leið yfir sandinn eða jökulinn. En það eru eigi neinar líkur til þess nú, að vegurinn yfir sandinn geti á þessum tíma orðið svo, að hann geti talist hættulítill og alfaraleið, og kunnugir menn vilja álíta, að hann hljóti að verða opinn voði hverjum ókunnugum, er reyna kynni að fara yfir sandinn, jafnvel þó að hann ef til vill, eigi sé orðinn það nú. Ég þori heldur eigi að fullyrða, að vegurinn verði fær fram í miðjan maímánuð næsta eða til maí-loka, því tilgátur kunnugra manna um það eru á reiki, en það býst enginn við, að hann verði fær eftir þann tíma, og hann verður sjálfsagt ófær mikið fyrr, ef hitar koma eða miklar rigningar".
Hinn 3. þ. m. fór sýslumaður austur yfir sandinn, í embættisnauðynja-erindum, og lýsir ferð sinni þannig daginn eftir í bréfi til amtsins.
"Í framhaldi af bréfi mínu 28. f. m. skal ég nú, eftir að ég hefi skoðað veginn yfir Skeiðarársand, leyfa mér að skýra frá eftirfylgjandi.
Ég get í öllum verulegum atriðum staðfest skýrslu þá, er ég hefi gefið í nefndu bréfi um þennan veg. Eins og nú stendur er vegurinn ekki hættulegur fyrir menn, en nokkuð viðsjáll með hesta. Þeir kaflar á veginum, er verstir verða yfirferðar eru: kaflinn frá Lómanúp og austur fyrir svo nefndar "Sandgígjur" að vestanverðu, og kaflinn frá vestri brún jökulhrannarinnar fyrir vestan Skeiðará og austur undi Skaftafell, og þar gjöra kunnugir menn ráð fyrir, að ófært verði, þegar vaxa fer í Skeiðará, eða nálægt maí-lokum, og jafnvel fyrr, ef hitar verða nokkrir verulegir eða rigningar í vor.
Sandhvörf eru þegar farin að myndast nokkur í Núpsvatna-farveginum, jakarnir farnir að sökkva í sandinn og þiðna, og þar verður eflaust innan skamms mjög viðsjárverður vegur og t. d. alls eigi áhættandi fyrir fáa menn saman að fara þar um.
Menn voru sendir að austan yfir sandinn 2. þ. m., til að flytja mér boð um strand á Sléttaleitisfjöru í Borgarhafnarhreppi, og voru þeir fjórir saman vestur yfir jökulhrannirnar við Skeiðará, og fóru svo tveir þeirra alla leið og komust með illan leik vestur yfir.
Við vorum í gær sjö saman austur yfir Núpsvatna-farveginn, með 10 hesta; við höfðum víða hvar tvo menn gangandi á undan með stengur og þrjá lausa hesta, og þó vildu hér og hvar fara hestar á kaf í brautinni. Þessi kafli mun vera full hálf míla á breidd, og jakarnir standa nokkuð þétt um allt þetta svæði, en eru þar nokkuð minni en austar á sandinum. Þessi kafli held ég þó tæplega að verði ófær með öllu, með ef til vill með þungan flutning, en lausríðandi mönnum held ég varla að hann verði verulegur háski eða faratálmi.
Að austanverðu er vegurinn sem stendur ekki hættulegur, nema hvað vegarspöng sú, er gjörð hefir verið yfir jökulhrönnina, er svikul, og hver sem um veginn fer, verður að hafa með sér verkfæri, til að mylja klakann og fylla með honum sprungurnar, svo að hestarnir verði teymdir yfir, en svo dettur það úr og þiðnar jafnóðum. Spöngin er ekki nema 30-40 faðmar á breidd, en jökulhrönn er beggja vegna við hana, því að þar standi jakarnir nokkuð strjálla, svo að mögulegt sé að rekja sig að spönginni báðu megin. Hér er mjög hætt við, að ófært verði með hesta, þegar þiðna fer. Hrannarbeltið mun vera nálægt mílu á breidd og nær alla leið til sjávar.
Um það, hvort finna megi sér færan veg yfir skriðjökulinn, er mönnum hér lítið kunnugt; en fremur er það þó skoðun manna, að hann muni vera fær gangandi mönnum, og það er vafalaust hægt, að fá hér menn til að reyna það; en alfaraleið er óhugsandi að þar geti orðið.
Vitanlega er eigi hægt að fortaka, að á þessum vegi geti einhver sú ófyrirsjáanleg breyting orðið, að sandurinn verður fær í sumar, þó að mér þyki það næsta ótrúlegt; en, eins og ég hefi áður tekið fram, ég álít nær því vafalaust, að hann verður ófær, í öllu falli með nokkurn flutning".