1891

Tenging í allt blaðaefni ársins 1891

Ísafold, 17. jan. 1891, 18. árg., 5. tbl., forsíða:
Brynjólfur Jónsson skrifar um póstveginn í Árnessýslu og mótmælir hugmyndum “m-g” í þeim efnum.

Póstvegurinn í Árnessýslu.
Í staðinn fyrir að svara "m-g" orði til orðs, vil ég biðja lesendur Ísafoldar að bera vandlega saman greinir hans og mína. Ég get ekki séð, að hann hafi hrakið neitt í henni. Spurningarnar hans fara utan við merginn málsins, og það, sem hann segir um Hraunsá, er ónákvæmt: hún var ófær daginn sem flóðið var mest, en ferjað yfir hana daginn eftir. Það er líka auðséð á síðari grein "m-g´s", að hann hefir að nokkru leyti látið sannfærast, líklega bæði af grein minni og af því að pósturinn tepptist við Sandhólaferju í vetur.
Nú get ég því verið stuttorður, og skal að eins líta á aðalspursmálið, sem er þetta:
Er það samgöngumáli sýslunnar í hag, eða óhag, að fallast á tillögu "m-g´s"?
Svo hagar til, að aðalstraumar umferðarinnar um sýsluna austan Ölfusár eru eftir 4 aðalvegum: Eyrarbakkavegi, milli Óseyrar og Sandhólaferju; Ásavegi, milli uppsveita og Eyrarbakka; Hraungerðisvegi, milli uppsveita og Ölfusár ferjustaða, eða milli brúanna tilvonandi ("uppsveitir" eru báðum megin Þjórsár); og Melavegi, milli Ölfusár (ferjustaða eða brúar) og Eyrarbakka. Þar er umferðin einna minnst, og þó eigi lítil. Allir, sem fara um Ölfusárbrú, hljóta annaðhvort að fara Hraungerðisveg eða Melaveg; og eftir því sem til hagar, hlýtur meiri hlutinn að fara Hraungerðisveg. Þar er mjög mikil umferð, hvað sem "m-g" segir, og hlýtur að verða svo lengi, sem uppsveitamenn hafa viðskipti við kaupstaði og útver við Faxaflóa. Og þau viðskipti hafa ekki minnkað að sama skapi sem viðskipti við Eyrarbakka hafa aukist, síðan einokunin var rofin þar og síðan farið var að hafa lóð til fiskiveiða þar. En viðskiptalífið hefir mikið glæðst síðan. Um slíkt þótti mér ekki þörf að orðlengja; það er ekki mergurinn málsins. Hann er sá; að allir þessir vegir eru nauðsynlegir og þurfa að vera í góðu lagi. Hraungerðisvegurinn er póstvegur (þó ekki allur fyr, en Þjórsárbrúin kemur); en hinir allir, ásamt mörgum öðrum, hvíla eingöngu á sýsluvegasjóðnum. Nú er vegasjóðurinn ekki einungis fátækur, heldur í stórskuld eftir Melabrúna; er mikill og tilfinnanlegur brestur á því, að hann geti fullnægt þörfum sýsluveganna. En nú vill "m-g", að hann hafi skipti: láti landssjóð taka við Melaveginum, þar sem af er hið harðasta, en taki aftur að sér Hraungerðisveginn, þar sem hvað mest er ógjört: það sem þar er búið að gjöra, er varla nema byrjun. Slík skipti mundu því auka vandræði vegasjóðsins að miklum mun, og það yrði því meiri brestur eftir en áður á því, að vegasjóðurinn gæti fullnægt þörfum sýsluveganna.
Vert er að taka það fram, að vegarkaflinn, sem búið er að gjöra á Hraungerðisvegi, hefir orðið fyrir árflóði og ekki sakað, því hann var klakaður, en slík árflóð koma aldrei þegar jörð er þíð, þó þau komi, sem ég hefi aldrei fortekið.
En þó landssjóður tæki að sér Melaveg og Eyrarbakkaveg, þá mundi hann að eins kosta til viðhalds brúanna þar, en ekki gjöra þá að akvegum að sinni. Þar er alstaður með sjónum torfærulaust fyrir hesta, þó víða sé grýtt eftir sjóganginn sem þar er eigi sjaldgæfur. En ætti að leggja þar akveg, yrði fyrst að tryggja hann með öflugum sjógarði alla leið frá Baugstaðasíki að Óseyrarferjustað. Ég er nú engan veginn vonlaus um, að þetta verði gjört með tímanum, t. a. m. þegar búið er að bæta Eyrarbakkahöfn og gjöra hana frjálsa; því fátt er líklegra til að hafa stórvægilegar framfarir í för með sér, bæði fyrir Eyrarbakka og nærhéruðin. En meðan ekki er fyrir akvegi að gangast, sé ég ekki betur en að ferðamönnum megi standa á sama, hvort vegurinn heitir póstvegur eða ekki; eins og Eyrarbakkamönnum mun mega standa á sama, hvort það er póststöð eða bréfhirðing; þeir senda flestöll bréf sín með öðrum ferðum.
Í þeirri von, að ég þurfi ekki oftar að taka til máls í þessu máli, vil ég gleðja "m-g" með því, að ef búið væri að brúa báðar árnar, ef Hraungerðisvegurinn væri kominn í það lag, sem þörf er og, og ef vissa væri fyrir því, að akvegur yrði lagður frá Eyrarbakka til brúanna beggja, þá mundi ég ekki álíta tillögu hans háskalega fyrir samgöngumál vor. Vill hann nú ekki láta hana bíða eftir þessu? Vilji hann það ekki, er hætt við, að fleirum en mér detti í hug, að sá fiskur liggi undir steini, sem ekki er lagaður til að greiða fyrir Þjórsárbrúnni eða samgöngunum yfir höfuð.
Brynjólfur Jónsson.


Ísafold, 21. jan. 1891, 18. árg., 6. tbl., forsíða:
Hér er fjallað um hvað þyrfti að gera í vegagerð næsta sumar.

Vegagjörð á sumri komanda.
Nú hefir í nokkur ár undanfarin verið unnið af landssjóðs hálfu langmest eða því nær eingöngu að þjóðvegum í nánd við höfuðstaðinn, einkum Hellisheiðarvegi, og þar næst Mosfellsheiði.
Gjöra má ráð fyrir, að ýmsum muni þykja sú ráðmennska landsstjórnarinnar kenna hlutdrægni til hagsmuna fyrir höfuðstaðinn. Sumir hafa meira að segja látið sér um munn fara, að höfðingjarnir í Reykjavík hugsi ekki um annað en að útvega góða vegi handa sjálfum sér að skemmta sér á í útreiðum og smáskjökti til næstu héraða. Til þess eyði þeir fé landsins, og láti önnur héruð sitja alveg á hakanum. Hinir eru þó eflaust fleiri, og það þeir, sem best kunna að skynja, er vita, að góðir vegir nærri höfuðstað landsins eru eigi síður gerðir fyrir þá, sem þar sækja að sí og æ árið um kring, heldur en hina, er þaðan bregða sér eitthvað stöku sinnum - með öðrum orðum, að móts við hvern höfðingja eða heldri mann úr Reykjavík, er notar hina nýju vegi þar í grennd lítils háttar, koma tuttugu sveitamenn, er nota þá eigi miður hver um sig, og það til nauðsynja sinna, í kaupstaðinn eða í erindagjörðum við höfðingja í Reykjavík í sínar þarfir. Með því að Reykjavík er langmestur bær á landinu, 5-6 sinnum stærri (fólksmeiri) en stærstu kaupstaðir aðrir, liggur í augum uppi, að þangað muni meiri aðsókn en til nokkurs staðar annars á landinu. En þar sem mest er umferðin, verða góðir vegir að mestum notum. Er því síður en svo, að nein hlutdrægni þurfi því að valda, að unnið hefir verið að vegagjörð í nánd við Reykjavík fremur en annarsstaðar. Stendur auk þess svo á um þá tvo vegi, er mest hefir verið unnið að hér, og áður eru nefndir, að þeir eru báðir kaupstaðarvegir fyrir allmikla byggð landsins, þá er eigi getur haft strandferðanna not sakir hafnleysis, en annar þar á ofan hinn fjölfarnasti vegur á landinu af útlendum ferðamönnum, en af þeim hafa landsmenn talsverða hagsmuni, og hefðu stórum meiri, ef vegaleysi og léleg aðhlynning á ferðum hér fældi þá ekki einmitt frá að leggja hingað leiðir sínar. Enn má og nefna það, að frá höfuðstaðnum er langhelst svo um, að hið nýja vinnulag og verkkunnátta, er hingað hefir færst með hinni útlendu vegagjörð, dreifst út um landið.
Enn eru samt hinir nýju vegir í grennd við höfuðstaðinn ekki nema vegarstúfar. Hvorugur þeirra nær nema hálfa leið milli byggða eða fyrirhugaðra endastöðva þeirra í næstu byggðalögum; og er öllum sýnilegt að ekki verða þeirra hálf not, meðan svo stendur. Hefði því mesta nauðsyn verið, að reyna að halda vegum þessum áfram og fullgjöra þá, áður en tekið væri til verulegrar vegagjörðar annarsstaðar. Útlendingar mundu kalla það bersýnilega ráðleysu, að hætta við þá á miðri leið. Mundu og naumast innlendir valdamenn eða löggjafar hafa látið sér það til hugar koma, þrátt fyrir nokkurn héraðaríg og dálitla amasemi við höfuðstaðinn á stundum, ef vegaféð úr landssjóði væri eigi hvort sem er mikils til of lítið til að ljúka við þessar eða aðrar vegagjörðir, sem nokkuð kveður að, öðruvísi en á ævalöngum tíma. Það er með öðrum orðum, að hefði átt að halda áfram og hætta eigi fyr en Mosfellsheiðarvegur og Hellisheiðarvegur voru fullgerðir alla leið, þá hefði aðrir landsfjórðungar orðið að bíða tíu ár enn eftir því, að nokkur skapaður hlutur væri gerður til að bæta þjóðvegi öðruvísi en með bráðabyrgðakáki, ruðningum o. s. frv.
Það er þá fyrst, er landssjóður er orðinn því vaxinn og þingmenn svo stórhuga, að verja má 50 til 100.000 kr. á ári til vegagjörða - það er þá fyrst, að verulegt skrið getur komist á vegalagning um landið. Þá fyrst er hægt að fullgera aðra eins vegi og þá, er hér hafa nefndir verið, á eigi mjög löngum tíma, og sinna þó öðrum landsfjórðungum að nokkrum mun.
Nema ef sérstaklegar ástæður hefðu svo mikil áhrif á þingið, að það vildi leggja fram fé aukreitis handa einhverjum ákveðnum vegi, svo sem t.d. Mosfellsheiðarveginum, til þess að reyna að auka með því aðstreymi útlendra ferðamanna til landsins, eða vegna brúarinnar yfir Ölfusá: að gera almennilega fært að henni undir eins og hún kemst á, að sumri.
Á sumri komanda fer því aðalvegavinnan af landssjóðs hálfu að sögn fram ekki hér syðra, heldur fyrir norðan, á aðalpóstleiðinni um Húnavatnssýslu, þar sem hún þarfnast þess mest.
Verði nokkuð gert hér, þá er það að ljúka við ofaníburð í Svínahraunsveginn, það sem eftir var í fyrra, á kafla í sjálfu hrauninu, og ef til vill að brúa eina litla á skammt frá Reykjavík, á leið póstanna norður og vestur. Það er Leirvogsá, sem getur orðið mikið slæm torfæra, þótt lítil sé fremur. Erlendur Zakaríasson hefir verið látinn mæla brúarstæðið nýlega og gera áætlun um kostnaðinn, líklega í því skyni, að tekið verði til starfa í vor. Er gjört ráð fyrir trébrú, 21½ al. á lengd, og 5-6½ álna háir steinstöplar undir endunum, en 5 álnir á breidd og 7-8 álnir á lengd. Lauslega áætlaður kostnaður 1.700 kr.
Minnst var á í sumar er leið í þessu blaði, að brýna nauðsyn bæri til að gera veg frá brúarstæðinu hérna megin Ölfusár beina leið upp undir Ingólfsfjall, á þjóðveginn þar, jafnskjótt sem brúin væri á komin, með því að hún gæti eigi komið að fullum notum að öðrum kosti, og meira að segja allar líkur til, að margir kysu heldur að fara á ferju yfir ána eins eftir sem áður, heldur en að tefja sig og þreyta á því að brjótast yfir vegleysu og kviksyndi að brúnni. Nú hefir landshöfðingi látið fyrir skemmstu mæla vegalengdina frá brúarsporðinum væntanlegum upp undir Ingólfsfjall, líklega í því skyni, að fá bætt úr áminnstum annmarka við notkun brúarinnar hið bráðasta að auðið er. Skýrir maður sá, er það gerði, Erlendur Zakaríasson svo frá, að vegalengdin sé alls 1300 faðmar, og er fjórðung vegar (350 faðmar) yfir móa að fara og holt, en hitt mýri, 950 faðmar; en mýrar þykja nú orðið allgott vegarstæði, þótt áður þættu hið versta, meðan vankunnáttan sat í öndvegi. Halli er góður á kafla þessum, og því hægt um frárennsli. En langt þarf nokkuð að sækja góðan ofaníburð, allt að 600 föðm. lengst, og fyrir þá skuld mest er búist við að 4 kr. muni kosta hver faðmur í vegi þessum. En fyrir því er fengin full reynsla, að óhyggilegt er að vera mjög spar á ofaníburð, hvort heldur er að vöxtum eða gæðum.
Með fram Ingólfsfjalli er allgóður vegur mikið af leiðinni undir heiðina, Hellisheiði, er herfilegur úr því lengst af alla leið að Kolviðarhól og Svínahrauni.
Þess hefir verið áður getið, að mjög mikið er eftir ógjört af Mosfellsheiðarveginum beggja vegna, þótt lokið sé við há-heiðina, sjálfan fjallveginn, sem svo er kallaður, og landssjóður á að kosta samkvæmt vegalögunum nýju. Eru það sýslusjóðirnir í Árnessýslu og Gullbringu- og Kjósarsýslu, sem eiga að bera kostnað af því sem ógert er af vegi þessum, en það er sama sem að hafa þar vegleysu eða því sem næst um aldur og æfi; sjóðir þessir hafa í svo mörg horn að líta önnur og nær sér, og eru þeim auk þess stórkostlegar vegabætur langt um megn, jafnvel á ævalöngum tíma.
Það er ósagt látið, hvort landsstjórnin hefir annað í huga með þennan veg, fyr eða síðar. En geta má þess, að landshöfðingi hefir í haust látið Erlend Zakaríasson rannsaka nokkuð vegarstæði til framhalds Mosfellsheiðarvegi að sunnanverðu, frá heiðabrúninni fyrir ofan Seljadal efri á þjóveginn austan yfir Hellisheiði. Er þar um tvennt að velja: að halda hina gömlu leið niður Seljadali allt þar til er vegir koma saman skammt fyrir ofan Árbæ, eða að stytta sér leið með því að nota hinn nýja þjóðveg austur yfir fjall (Hellisheiðarveg) spölkorn upp fyrir Hólm og leggja þaðan nýjan veg eftir holta- og melbörðunum sunnan með Seljadölum upp á Borgarhólamel, þ.e. þar sem fjallvegurinn gamli tekur við. Er síðari kosturinn vitanlega langt um ákjósanlegri, sé þar engin veruleg fyrirstaða. Hann er nokkuð í þá áttina, er haldið hefir verið fram margsinnis í þessu blaði: að nota sem lengst sameiginlegan veg fyrir báðar heiðarnar, Mosfellsheiði og Hellisheiði, upp fyrir Lyklafell; en það ráð var því miður eigi í tíma tekið, svo sem kunnugt er.
Munurinn á því, að halda gamla veginum ofan Seljadalina, og að leggja nýjan veg niður með þeim að austan og sunnan, er nú sá, eftir skýrslu Erlendar, að gamli vegurinn, milli Borgarhólamels og Seláss, fyrir ofan Árbæ, er 10.200 faðmar á lengd, en hinn nýi, frá Borgarhólmamel ofan í Gjótulág, þar sem vegirnir eiga að koma saman fyrir ofan Hólm, ekki nema 7.200 faðmar. Þar við bætist, að á hinni nýju leið er landslag heldur sléttlent og þurrt; þar er hálent, svo vegur ver sig vel, og vatnsrennsli mjög lítið. En á gamla veginum er svo mikið um vatnsrennsli, stærri og smærri, og sumsstaðar kaldavermsl, að þar þarf 4 brýr og 16 rennur; þar er og all-hæðótt og lautótt, og fannasamt mjög á vetrum. Ætlar Erlendur, að sá munur muni valdið geta allt að helmings-mun á kostnaði, þannig, að vegurinn niður Seljadal o.s.frv. kosti 4-5 kr. faðmurinn, en eftir syðri leiðinni ekki nema 2 kr. 60 a. Ætti eftir því allur vegarkaflinn syðri leiðina að kosta 18.720 kr., en hina nyrðri 40.800 kr. með 4 króna verði á faðminum, en 51.000 kr. með 5 kr. verði. Það er því mikið meira en helmings-sparnaður, að hætta við gamla veginn (Seljadalsveginn) og taka upp syðri leiðina.
Þann einn ókost telja menn á syðri leiðinni, að þar er illt um áfangastaði. En við því segja menn auðgert með því að ryðja ómerkilega braut niður í Neðri-Seljadalinn, 800 faðma langa, og getur eigi mikið kostað, en vel fært ofan í Efri-Seljadal sunnan af hinum fyrirhugaða vegi, og auk þess smádalir uppi á heiðinni, sem gætu verið áfangastaðir (Rótardalir og Hrossadalir).
Talsvert hefir verið kostað til vegabóta eftir Seljadalnum eða -dölunum fyrir eigi mörgum árum, og stóðu fyrir því vorir eldri, innlendu vegameistarar, einn eða fleiri. Þarf þá ekki frekara því verki að lýsa, og engar áhyggjur að bera út af því, að þar sé merkilegt mannvirki lagt fyrir óðal, ef sá vegur legðist niður.


Þjóðólfur, 23. janúar 1891, 43. árg., 4. tbl., forsíða:
“Vegagjörðarmaður” skrifar um miður heppilegt fyrirkomulag vegagerðar hér á landi.

Nokkur orð um vegagjörð.
Hingað til hefur vegagjörð hér á landi verið hagað þannig, að sinn vegspottinn hefur verið gerður hvert árið, eitt árið á þessum stað, hitt árið á öðrum stað. Þessi skipting er mjög óheppileg; notin verða svo lítil að þessum vegspottum, sem unnið er að hér og hvar; stefnuleysi og ósamkvæmni kemur fram í verkinu, vegagjörðin verður miklu dýrari en ella, því að flutningur á verkfærum fram og aftur og öllu, sem til verksins heyrir, kostar ótrúlega mikið, þar sem allt verður að flytja á hestum, en engu verður ekið á vögnum. Ef aftur á móti væri haldið áfram sama veginum ár eftir ár, hyrfi því nær allur þessi flutningskostnaður. Þegar áhöldin hafa einu sinni verið flutt þangað, færi flutningurinn úr því fram jafnframt því sem verkið væri unnið. Það er því mín skoðun, að halda ætti áfram sama veginum ár eftir ár, þangað til hann er búinn. Þetta ætti að geta orðið að minnsta kosti með tvo aðalvegi í senn. En auk þess ætti þá að gera vegspotta hingað og þangað, þar sem mest á liggur.
Að halda þannig áfram tveim aðalvegum samfleytt ár eftir ár, er þó auðvitað ekki mögulegt, nema þingið veiti meira fé til vegagjörða, en það hefur hingað til gert, en það ætti þingið að geta, er nýju tollarnir eru farnir að hafa áhrif á fjárhaginn. Það eru sérstaklega tveir aðalvegir, sem að mínu áliti ættu helst að sitja fyrir, fyrst áframhaldið af Svínahraunsveginum austur fyrir Hellisheiði, sem nauðsynlegt væri að héldi áfram, til að setja austursýslurnar í samband við Reykjavík og sjávarsveitirnar fram með Faxaflóa. Þessi vegur er víst einhver fjölfarnasti vegur á landinu, þar sem að honum liggja 3 sýslur, sem mjög lítið geta notað sjóleiðina sökum hafnaleysis.
Hinn vegurinn er norður-póstleiðin, sem ekki væri vanþörf á þótt eitthvað væri gjört við.
Það er því mín tillaga, að næsta þing veiti 60-70.000 kr. alls til vegagjörða á næsta fjárhagstímabili, þar af til áðurnefndra tveggja aðalvega 20-25.000 kr. til hvors þeirra. Þá mætti vinna nokkurn veginn tafarlaust að áframhaldinu ár eftir ár. Það sem eftir væri af peningum, gæti svo gengið til vegagjörðar, þar sem brýnust nauðsyn væri til að leggja eða gjöra við veg, sem landssjóður ætti að kosta. Eftir næsta fjárhagstímabil gæti vel verið, að þingið sæi sér fært að leggja nokkuð meira til vegagjörða, svo að byrjað yrði á þriðja staðnum fyrir alvöru.
Í sambandi við þetta á Mosfellsheiðarveginn. Yfir sjálfa heiðina er nú kominn allgóður vegur vestan frá Leirdalsrás austur að Þrívörðum, skammt fyrir ofan Vilborgarkeldu, en þaðan frá og austur úr á Árnessýsla að kosta veginn, með því að það er sýsluvegur Árnessýslu, en frá Leirdalsrás og niður úr á Gullbringusýsla að kosta hann, af því að það er sýsluvegur Gullbringusýslu, en það er víst, að sýslurnar fara seint eða aldrei að kosta þennan veg, allra síst Gullbringusýsla, sem ekkert beinlínis gagn hefur af veginum, þessi vegur þyrfti þá að koma, sem allra fyrst, því að fyrst og fremst er mikil umferð um hann úr efri partinum af Árnessýslu og að norðan og flestallir útlendir ferðamenn nota hann, sérstaklega þeir, sem fara til Þingvalla, Geysis og Heklu. Ef góður vegur væri alla þessa leið, gæti það orðið heldur til að laða útlendinga hingað til lands, sem væri mikilsvert, því að það eru ekki svo litlir peningar, sem þeir skilja hér eftir fyrir hestalán, greiða og ýmislegt fleira. Mér þætti því heppilegast, að þessi vegur að minnsta kosti og jafnvel allir aðalvegir, þótt ekki séu póstvegir, kæmust undir stjórn landsstjórnarinnar og landssjóður kostaði þá að miklu leyti, en sýslusjóður í þeirri sýslu, sem vegurinn væri gjörður í, legði þó nokkuð til, eftir því sem þingið ákvæði nánara um hvern veg fyrir sig.
Vegagjörðarmaður.


Ísafold, 28. jan. 1891, 18. árg., 8. tbl., bls. 31:
Brúarstrengirnir í Ölfusárbrúna eru komnir upp að Selfossi.

Ölfusárbrúin.
Af brúarflutningnum er það að segja, að nú eru allir brúarstrengirnir komnir upp að Selfossi, ásamt mörgu öðru af brúarefninu. Þó eru enn eftir ódregin nál. 10 stykki, er vega um 500 pund, og auk þess mörg smærri. (Þannig skrifað af Eyrarbakka 26. þ.m.).


Þjóðólfur, 2. feb. 1891, 43. árg., 6. tbl., bls. 24:
Nú eru öll stykkin í Ölfusárbrúna komin að brúarstæðinu.

Um Ölvesárbrúna.
Um Ölvesárbrúna er oss skrifað 29. f. m. úr Árnessýslu: "Brúin er öll komin að brúarstæðinu, öll smærri stykki hafa verið látin inn í húsið, sem er þar, en það, sem illt er að hreyfa, er haft úti Aksturinn hefur gegnið ágætlega og sýndu menn hér góð samtök og dugnað í því verki; nú seinustu dagana voru 50 til 60 menn við aksturinn. Flest brúarstykkin eru 160 til 600 pd. að þyngd og þar yfir, að undanteknum strengjunum, sem eru 6000 til 7000 pd. 34 menn þurfti til að draga þyngstu strengina, en hinir minni voru hafðir tveir á í einu og drógu þá fleiri; strengirnir voru hafðir tvöfaldir á sleðunum og hver sleðinn aftan í öðrum með þriggja álna millibili, og á þann hátt veittist fremur létt að draga þá".


Ísafold, 14. feb. 1891, 18. árg., 13. tbl., bls. 51:
Hér er sagt frá vegagerðinni milli Reykjavíkur og “fiskimannahverfis þess í landi bæjarins suður við Skerjafjörð, er Kaplaskjól nefnist”.

Vegargjörð á vetrardag.
Það er vottur um frábært vetrarfar og að öðru leyti í frásögur færandi, að frá því um veturnætur og nú fram í þorra-byrjun var gerður nýr vegur frá rótum milli Reykjavíkur og fiskimannahverfis þess í landi bæjarins suður við Skerjafjörð, er Kaplaskjól nefnist. Þar er mýri á milli allbreið, ófær yfirferðar, og þurfti að fara langan krók austur fyrir hana til þess að komast til bæjarins sunnan að, og þó um vegleysu. Hinn nýi vegur er vandaður vagnvegur, 6 álna breiður og 640 álna langur alls. Yfir mýrina eru vegarjaðrarnir hlaðnir úr grashnausum, en grjót lagt utan á þá, er upp úr mýrinni dregur, en hleðsla þar sem byggðin tekur við inni í bænum, yfir Selsholt.
Vegargjörð þessi er mikið vel vönduð, öllu betur en á hinum nýju þjóðvegum hér í grennd að tvennu leyti: 1., ofaníburður miklu meiri, sumsstaðar hálfu þykkri en vanalegt hefir verið, með því reynslan hefir sýnt, að ofaníburður hefir verið hafður heldur þunnur víðast hvar; 2., skurðir meðfram veginum hafðir talsvert fjær: hafður nær 3 álna (69 þml.) breiður bekkur utan með veginum í mýrinni, frá vegarjaðrinum neðanverðum út að skurðunum beggja vegna. Reynslan hefir kennt það hér, að vegirnir liggja undir skemmdum, ef skurðirnir eru hafðir öllu nær en það.
Að vegavinnu þessari unnu nær eingöngu verkfærir þurfamenn bæjarins, undir forustu okkar efnilega og ötula vegavinnustjóra Erlendar Zakaríassonar, er stikaði veginn og sagði fyrir verkum, en hafði undir sér 3-4 flokksformenn, eins og siður er til og vel greiðir fyrir verkum. Verkmenn voru rúmir 30 framan af, en tæpir tuttugu upp á síðkastið. Dýrara varð verkið fyrir það, að eigi voru tök á að hafa hesta til að aka ofaníburði.
Kostað hefir vegur þessi alls um 3.300 kr., eða um 5. kr. faðmurinn. Er þegar gerð grein fyrir, hvað valdið hefir dýrleikanum. Veðráttu verður varla um það kennt; hún gerði svo sem engan verulegan tálma, nema helst rigningarnar í haust, og verkfall varð eigi hennar vegna nema örfáa daga alls, naumast fleiri en gerist á sumardag vegna rigninga. Kaup var haft lágt, 16-20 a. um kl.-stundina, nema verkstjóranna nokkuð hærra. Meiri hluta kostnaðarins mundi hafa orðið að leggja þurfamönnum þeim, er að vegunum unnu, úr bæjarsjóði hvort sem var, þótt þeir hefðu ekkert unnið, en talsvert gelst upp í leigu fjár þess, er í veginn hefir lagt verið, með eftirgjaldi eftir túnræktarbletti o. fl., er menn föluðu fram með honum jafnskjótt sem hann var lagður.


Þjóðólfur, 20. feb. 1891, 43. árg., 9. tbl., forsíða:
Björn Bjarnason jarðyrkjumaður álítur greiðar samgöngur hið mesta nauðsynjamál og er þeirrar skoðunar að nú þurfi að stofna “embætti samgangnamálastjóra” og fá íslenskan verkfræðing til að stjórna vegagerð hér á landi. Þá lætur hann í ljósi skoðanir sínar á ýmsum einstökum vegamálum.

Samgangnamál.
Eftir Björn Bjarnason, jarðyrkjumann.
I.
Flestir, sem um "landsins gagn og nauðsynjar" hugsa, munu nú orðið viðurkenna hversu lífsnauðsynlegar greiðar samgöngur eru - álíka nauðsynlegar fyrir þjóðlífið, eins og æðarnar fyrir líkamann. Óhætt að dæma um þjóðlífið eftir samgöngunum. Dauflegt ástand hjá oss með hvorttveggja. En fyrsta stig til framfaranna er að sjá og viðurkenna, hvað bótavant sé, og á það stig mun nú samgangnamálið komið hér. "Lítið er smátt og stutt er skammt".
Og þá er næst að koma sér niður á, hvernig eigi að koma því til framkvæmda, sem gjöra þarf. Um það eru víst enn mjög skiptar skoðanir , hvað samgangnamálið snertir. Að vísu mun það nú orðið ljóst, landsstjórninni að minnsta kosti, að það, sem gjört verður að vegarbótum á landi, verði að gjöra eftir verkfræðilegum reglum, hvað vinnuna snertir. En það er ekki einhlýtt, að vegurinn sé vel byggður, hann þarf að vera hagkvæmlega lagður; en það er ekki landstjórnarinnar meðfæri að ráða neinu eða ákveða um það.
Í hitt-ið-fyrra vildi ég sýna fram á það í ritgjörð um "samgöngumál" (í Þjóðólfi, 25., 27. og 29. tbl.), að eina ráðið til að fá vegabæturnar gjörðar með reglu og samkvæmi (systematiskt) væri að fá forstöðu þeirra í hendur verkfræðingi, sem helst ætti að vera innlendur maður, og hafa svo viðunanleg kjör, að hann gæti algjörlega lifað fyrir þann starfa sinn. Í sumar tók blaðið Ísafold - sem oft þykir fara furðu nærri um hugsunarhátt landsstjórnarinnar - alveg í sama strenginn. Ég gæti því trúað, að mönnum þeim, er nú hafa á hendi yfirumsjón með vegagjörð hér á landi, væri kærast að losast sem fyrst við þann starfa. Má ef til vill búast við, að til Alþingis að sumri komi tillaga frá stjórninni um stofnun samgangnamálastjóraembættis á Íslandi.
En þá er einkar-áríðandi, að þingið, og þjóðin í heild, hafi opnað augun og séð nauðsynina í þessu efni, svo að það kasti eigi frá sér þeirri perlu (-því perla væri það fágæt og dýrmæt úr þeirri átt-), gleðilegum vott um umhyggju fyrir lífsglæðing og framförum hjá þjóð vorri.
En því miður er ég smeikur um, að framfarirnar séu enn eigi skriðnar svo langt fram, að þetta sé orðið almennt viðurkennt. Menn munu hugsa, að það sé "húmbúg" eða heimska að hafa sérstakan embættismann til að sjá um vegabætur! Og þó er það einungis hyggileg "vátrygging" veganna (eins og Ísafold tók fram). Ég þori að fullyrða, að þessi ár (5-6), sem fengist hefur verið við reglulega vegagjörð hér á landi, hefur það kostað miklu meiri fjárútlát fyrir landið að hafa ekki slíkan mann, en þó hann hefði verið með 3-4.000 kr. launum árlega. Þetta mætti sanna reikningslega, en það kostar nokkurt ómak, og verð ég þess vegna að sleppa því að sinni.
Meðan svona stendur, meðan hæfan forstöðumann vantar, verður öll vegalagning hjá oss frumstefnulaus og á reiki. Er þá hætt við að þeir, sem atkvæði geta haft um vegamál, neyti þess, samkvæmt sveitapólitískum reglum, til að toga einhvern brúarstúf í sína átt. Og landsstjórnin á úr vöndu að ráða, þar sem ekkert áreiðanlegt er til að styðjast við, vegalöggjöfin ófullkomin o. fl. o. fl.
Að fá útlending til að bregða sér hingað stund úr sumri, er nauða-þýðingarlítið; maðurinn þarf að búa hér og vera eða verða gagn-kunnugur náttúru landsins og loftslagi. Hann þarf að ferðast vetur og sumar um þá staði, þar sem veg á að leggja, og kynna sér öll náttúru-umbrot og byltingar, af viðtali við kunnuga menn, þar sem eftirtekt og kunnugleiki hans sjálfs eigi nær til. Við að byggja brýr og vegi þarf að taka tillit til svo margs, sem útlendingur hefur eigi hugmynd um, þó hann dvelji hér hluta úr sumri.
Jafnvel þó þess sé öll þörf og meir en mál að fá sem fyrst mest og verulegast framhald á framkvæmdum til samgangnabóta, mundi þó betra að biðloka við eða fara sér hægt 2-3 ár enn, meðan verið væri að búa til eða útvega "samgangnamálaráðgjafa" - því undirbúningstíma þarf til þess - en úr því ætti að taka til óspilltra málanna.
II.
Þó ég geri mér nú bestu vonir um, að farið verði að gjöra gangskör að því, að útvega hæfan verkfræðing til að vega samgöngumálum vorum og vegagjörð forstöðu, er ég ekki alveg viss um, að það verði svo fljótt. Allar vonir geta brugðist. Ég vil þá leyfa mér að láta enn uppi álit mitt um nokkur atriði í samgangnamáli voru, er ég vil biðja menn að athuga.
Eins og oft hefur verið tekið fram, væru það hinar auðveldustu, fljótustu og verulegustu samgangnabætur, ef gufuskipaferðum kring um landið og inn á firðina yrði komið á, svo að verulegu gagni kæmi. Að undanteknum nokkrum hluta suðurstrandarinnar, má svo telja, að hvergi sé lengra en dagleið til næstu hafnar. Væri nú sævarsamgöngunum komið í það horf, að eimskip kæmi 1-4 sinnum í mánuði á hverja höfn við landið allt árið, þegar ís eigi hindraði, má geta nærri, hver ómetanlegur léttir það væri fyrir samgöngur og öll viðskipti landsmanna. Sjóveginn, þennan aðalveg landsins, þarf lítið að bæta, að eins með leiðarmælingum, leiðarljósum og bryggjum, þar sem þeim má við koma. Og svo vantar algjörlega flutnings-áhöldin, skipin; en þau mætti að sumu leyti fá lánuð (leigð) hjá nágrönnunum fyrst í stað - ekki hjá (sameinaða) okurkarlinum í Höfn, heldur hverjum sem best kjör byði.
Landvegina má skoða sem aukavegi, eða sem greinar á þessum aðalvegi, sjónum, og því að byggja þá út frá honum á ýmsum stöðum inn í fjölbyggðustu héruðin. En gott væri að geta tengt þau saman með einum landvegi kringum landið, jafnóðum og ástæður leyfðu.
Þetta er sú frumregla (system), sem byggja bæri á allar framkvæmdir til umbóta á samgöngunum hjá oss.
Hvað viðvíkur samgöngum á sjó, skal ég hér aðeins taka það fram, að ég álít ástand það, sem þær nú eru í, svo ófullkomið og óhagkvæmt, að það mætti telja frámunalegt rænuleysi, ef eigi væri reynt hið bráðasta að bæta úr því, í hið minnsta að leita fyrir sér um hagkvæmari skipaleigu-samning en nú er við að búa. Til mælinga og annarra umbóta á sjóleiðinni þyrfti að leggja fé á hverju ári fyrst um sinn. Það greiðir fyrir gufuskipaferðunum.
Annars óska ég að forkólfar gufuskipamálsins þreytist eigi á að halda því vakandi, og reyna að ýta því fram á leið.
"Vegagjörðarmaður" hefur nýlega ritað í "Þjóðólf" (4. tbl. þ. á.) um vegagjörð. Hann álítur "að halda ætti áfram sama veginum ár eftir ár þangað til hann er búinn" og telur til þess helstu landspóstvegina austur og norður (frá Reykjavík). Þetta væri auðvitað æskilegt, og ástæður hans eru að sumu leyti góðar; en sá hankur er á því, að fyrst um sinn lenti þá allar vegabæturnar því nær á einum stað, Suðurlandi, og svo gleyptu þessir tveir vegir allt samgangnabótaféð, ef þeim ætti nokkuð verulega áfram að miða; en hvorttveggja mundi óvinsælt í öðrum hlutum landsins, enda að mínu áliti ekki rétt, samkv. frumreglunum hér að ofan. Ég álít, að fyrst ætti að leggja vegi frá kauptúnum, höfnum eða lendingum við sjó inn í landsveitirnar, sem síst geta notað sjóinn til vöruflutninga, þó með nokkru tilliti til þess, að landpóstarnir gætu notað vegkafla þessa, og að þeir síðan yrðu samtengdir, er fram liðu stundir.
Væri þessari reglu fylgt, ávallt byrjað frá höfn - áfangastað á sjóveginum - mætti flytja vagna, vinnutól öll og brúarefni á skipi að upphafsenda vegarins og er þar með verkfæraflutningskostnaðar-ástæða "vegagjörðarmannsins" að mestu fallin.
Húnavatnssýslu-kaflann fyrirhugaða ætti þannig að byrja frá Hrútafirði gagnvart Borðeyri eða frá Miðfjarðarbotni og halda þaðan austur eftir héraðinu. Ætti svo austurendi vegarins, eða armur af honum að ná til sjávar við Blönduós eða annan hentugan stað þar nálægt (eða þá byrja þaðan).
Kaflinn yfir Borgarfjarðarsýslu gæti byrjað við Hrafnabjargahöfn eða annan hentugan stað við Hvalfjörð, og endað við brú yfir Hvítá. Armur af honum sunnanverðum væri gott að næði út á Akranes.
Mýrarsýslu-kaflinn frá Borgarnesi í báðar áttir austur (að Hvítárbrú) og vestur eftir Mýrunum.
Árnessýslu-kaflinn frá Eyrarbakka austur á við að Þjórsárbrú með samtengingararmi fyrir Ölfversárbrú vestur á við, móti Svínahraunsveginum.
Á líkan hátt norðanlands og austan.
Landssjóður ætti að leggja fram fé til vegagjörðanna, en sýslufélögin afborga það að meiru eða minnu leyti, þar sem vegirnir væru ekki á aðalpóstleið (væru aðeins héraðsvegir, t. d. Akraness-armurinn).
III.
Fátt er óþakklátlegar þegið en aðfinningar. Er það og eðlilegt, því þær eru oft óþægilegar. En nauðsynlegar geta þær þó verið.
Árið 1882 ritaði ég fyrst um vegabætur (í Ísaf.) og fann að vegagjörð þeirri, er þá var farin að tíðkast, sérstaklega "Kambaveginum" fræga. Undirtektirnar urðu þá svar frá einum af "vorum eldri innlendu vegameisturum" (auðvitað kryddað með persónulegum móðgunaryrðum, eins og oftítt er hjá oss, þegar um almenn mál er að ræða 1). En nú í sumar síðastl., eftir 8 ár rúm, slær Ísaf. á sama strenginn og ég 1882 (í 64. tb.: "Vegagjörðarátak - dýrt kennslukaup").
Mér þykir of vænt um þennan litla vísi til framfara í vegagjörð hjá oss, vegastúfinn frá Reykjavík uppí Svínahraun, til þess að fara nú að finna að honum. Einungis skaði, að hann liggur að mestu í óbyggð, svo hann verður eigi að notum til vagnferða fyrir landsmenn, eða til að hvetja til að taka upp vagna, fyr en ef hann kæmist austur yfir fjallið.
En Mosfellsheiðarveginn álít ég algjörlega vanhugsað fyrirtæki. Skal ég reyna að gjöra grein fyrir því áliti mínu.
Ætla mátti, að Svínahraunsvegagjörðin hefði nógsamlega kennt mönnum, hve fráleitt það er, að byrja slíka vegagjörð frá fjalli, og verða þannig að flytja allt til vegagjörðarinnar á hestabökum, í stað þess að byrja frá sjó og nota vagnflutning jafnóðum eftir veginum. Slíkt gengur næst því að heita óvita-fjárvarsla. Betra væri, að láta slíka fjallvegastúfa "bíða betri tíða", en verja heldur þeim krónunum til að vega sveitirnar.
Þá er vegarstefnan til að vegleggja miðja heiðina, í líka stefnu og gamli götustígurinn lá, vegurinn varðaður, sæluhús byggt - en þegar til kemur, er ómælt og ákveðið hvar vegurinn á að liggja til byggða! Ísaf. (XVIII. 6.) segir, að fyrst í haust hafi verið rannsakað nokkuð vegarstæði til framhalds þeim vegi suður á við. Niðurstaðan verðu sú, að tiltækilegast muni vera að leggja veginn á byggðabaki alla leið ofan í Gjótulá. Þangað til hefur vegurinn þá aðalstefnu, frá Þingvöllum - til Grindavíkur! - Þó játa ég, að þetta mundi nú ráðlegast, úr því sem komið er með Hellisheiðarveginn, ef Mosfellsheiðar-vegurinn væri rétt lagður og honum ætti þannig að framhalda. En svo álít ég ekki.
Leggi maður réttstiku á uppdrátt Íslands, sést, að bein lína milli Þingvalla og Reykjavíkur fellur fyrir norðan Leirvogsvatn á Mosfellsheiði, og ofan Mosfellsdalinn sunnan vert við Mosfell og Leirvogstungu. Kemur þessi stefna saman við Svínaskarðsveginn (norðurpóstleiðina) hjá Mosfelli. Þessa aðalstefnu hygg ég rétt hefði verið að velja fyrir Mosfellsheiðar veginn. - Að vísu byggist vegurinn á þessari leið suður á við úr því niður að Varmá kemur; en það er óhjákvæmilegur bugur fyrir Grafarvog; þar liggur vegurinn eftir miðri, þéttbyggðri sveit og samleiðis aðal landpóstveginum norður og vestur.
Hvenær sem farið verður að tengja saman suðurland og norður- og vesturland með landvegi, verður vegur lagður frá Reykjavík norður að Hvalfjarðarbotni. Beinasta leiðin mun þá vera um Svínaskarð; og sænski vegfræðingurinn, sem hér kom í fyrra sumar, hefur sjálfsagt farið þá leið, því hann gjörir ráð fyrir - af ókunnugleika eðlilega - að veginn eigi eða verði þar að leggja. Hyggur að það "megi takast", en árennilegt virðist honum það ekki.
Mitt álit er, að vegurinn eigi alls ekki að liggja um Svínaskarð, og það því síður, sem völ er á miklu betri leið lítið eða ekki lengri. Á Svínaskarðsvegi mundi frá Skeggjastöðum að Laxá þurfa 6-7 stærri brýr og fjölda smærri rennur, auk þess sem hinar snarbröttu skriðuhlíðar í dölunum beggja vegna skarðsins, mundu sí og æ brjóta brýr og rennur og hlaupa fram með kafla úr veginum. Skarðið oft bráð-ófært á vegum.
Norður-landpóstveginn frá Reykjavík að Hvalfirði stika ég þannig:
Vegamót í sneiðingunni fyrir ofan Elliðaárbrýrnar; þaðan stefna sunnan í Keldnaholti; yfir Úlfarsá neðan við Lambhagavað; stefna ofan við Hamrahlíðarbæ; að vestan við Lágafellið; ausan við Varmárurð; yfir Varmá í Ullarnesi; fyrir ofan Böðvarshaga og þar yfir Köldukvísl á brúarstæði; (þaðan stuttur auka-armur eftir sléttum mel að Leirvogsárbrú); frá Köldukvíslarbrú upp dalinn neðan við Hrísbrú og Mosfell, norðan Laxness, sunnan Skógarbringur og Efri-Sog; yfir Leirvogsá fyrir neðan vatnið; norðan við vatnið; austur hjá Fellsenda; ofan Kjósina vestan Laxár, og yfir hana á hinum fornu brúarhlöðum eða ofar; yfir Reynivallaháls hjá Sandfelli, nálægt götunni sem nú er, allt að Fossá.
Frá Fossá mætti til bráðabyrgða ferja vagnflutning yfir fjörðinn að Hrafnabjörgum. Landvegarkaflinn þar á milli yrði - að Svínaskarði slepptu - óefað hin torunnasti og kostnaðarsamasti á landvegarhringnum, að undanteknum sandvötnunum í Skaptafellssýslum (7 ár: 1. Fossá, 2. Brynjudalsá, 3. Botnsá, 4. Brunná, 5. Bláskeggsá, 6. Sandsá, 7. Skarðsá og urmull af giljum og rásum, og sæbrattar skriðuhlíðar og klettahöfðar á milli).
Frá Fellsenda ætti svo Þingvallasveitarvegurinn, nyrðri vegurinn til Árnessýslu, að liggja skemmstu leið til Þingvalla. Skal ég þó geta þess, að ég er ekki alveg viss um, hvort vegirnir ættu að fylgjast austur fyrir Sandfellin eða skilja vestan vert að þau. Til að ákveða það, þarf að mæla og reikna út báðar leiðirnar.
Kostirnir við að leggja vegina þessa leið eru:
1. Vegarstæðið allstaðar gott; jarðvegurinn umbrotslaus, hallinn mjög lítill, brýr fáar, brúarstæðin trygg og góð, torfærur engar aðrar.
2. Beinasta og stysta leið, sem gjörandi er að leggja veg um frá Reykjavík að Hvalfjarðarbotni og norðan Þingvallavatn.
3. Spara má allan kostnað framvegis við hinn lagða Mosfellsheiðarveg og framhald hans vestur á við. (Frá Fellsenda er lítið lengra austur af heiðinni en frá Vilborgarkeldu, þar sem vegurinn nú endar).
4. Vegurinn liggur næstum alla leið í byggð (heiðarvegurinn syðri er c. 5-fallt lengri milli byggða), kemur að notum upp-Kjósinni, sem síst getur notað sjóveginn, og Stýflisdalsbæjunum í Þingvallasveit. Áfangastaðir góðir.
Leið þessi er tíðfarin á vetrum bæði á norðurleiðinni, þegar Svínaskarð er ófært sökum harðfennis, ófærðar eða hálku, og á austurleiðinni, þegar Þingvallavatn er autt. En þegar leggja á "mac-admiseraðra" 2) vegi, er hið eina skynsamlega tillit, sem tekið verður til stefnu fyrri vega það, hvar farið er á vetrum undir ýmsum kringumstæðum.
Þeir, sem ekki geta fallist á þetta álit mitt, vona ég að færi gagnrök móti því hið fyrsta; ella verð ég að álíta, að það sé þegjandi viðurkennt. Og ég hika jafnvel ekki við að lýsa yfir því, að ég ætla, nú þegar eða að 8 árum, þá 80 árum liðnum.
Bæði Mosfellsheiðarvegurinn og fleira af því litla, sem gjört hefur verið fyrir samgöngurnar hjá oss, ber vott um hryggilega vanhögun. Sama, hvort það er lagaleysi eða þekkingarleysi að kenna; úr því þarf að bæta hið bráðast. - Eftirlit og viðhald á því, sem gjört er, vantar. Sumt aldrei fullgjört, og spillist því brátt. Á brýrnar vantar hlífarborð, sem endurnýja megi jafnóðum og þau slitna, án þess að rifta brúnni. Á brúarstöplana vantar handriði; svo þétt, að fénaður falli ekki gegn um þau. Sumsstaðar liggur vegáburðurinn fram á brúarsporðana, varnar þeim að þorna og feyir þá. Sumsstaðar renna lækir eftir götunum fram á brúna! (Fossárbrú). Hin litla Varmárbrú ekki fullgjör enn eftir nokkur (4-5?) ár. - Hjallur sá eða bátur þykir vanhirtur, sem ekki er málaður eða bikaður iðulega, en um brú - nokkur þúsunda króna virði - þykir það ekki tiltökumál, þó ekkert sé gjört til að verja hana eyðileggingu af áhrifum lofts og vatns. Allt þetta ætti vegfræðingurinn að sjá um. Hann gæti haft nóg að starfa.
1) Embættismaður sá, er þá átti nánast hlut að máli, minnti mig á það síðar eftir að hann var kominn í annað embætti, þegar ég sótti um veðlán úr sjóði, er stóð undir hans stjórn, að ég hefði verið "svo djarfur" að finna að gjörðum hans, kvað mig nú skyldu þess gjalda og synjaði mér lánsins af þeirri ástæðu!
2) Englendingurinn Mac Adam kenndi fyrstur (1835) reglur þær fyrir vegagjörð, sem nú er farið eftir.


Ísafold, 25. feb. 1891, 18. árg., 16. tbl., bls. 62:
Menn eru ekki sammála um hvar leggja eigi aðalpóstveginn um Húnavatnssýslu.

Aðalpóstleið um Húnavatnssýslu.
Það mál var rætt á sýslufundi Húnvetninga í vetur, eins og hér segir, úr bréfi að norðan 10. þ.m.: "Eins og kunnugt er hefir menn mjög greint á um það, hvar heppilegast mundi að leggja aðalpóstveginn um austursýsluna, hvort heldur frá Stórugiljá um Reyki, fram með Svínavatni að austanverðu, og yfir um Blöndu á Tunguvaði, eða frá Stórugiljá um Blönduós fram Langadal. Fremri leiðin er að vísu beinni og mun þar af leiðandi lítið eitt skemmri, og þessi kostur hennar nægði til þess, að hinn útlendi vegfræðingur, sem átti að segja álit sitt í þessu efni, áleit rétt að gjöra hana að aðalpóstleið.
Þeir ókostir fundust honum víst ekki nema smáræði, að hér er um ekkert hentugt brúarstæði að ræða á Blöndu, og ómögulegt er að gjöra greiðan veg á þessari leið, nema með þeim stórkostnaði, sem álíta má lítt kljúfandi fyrir landssjóð, eins og fjárhagurinn er nú, og í mörg horn er að líta. Einnig er ekki að sjá, að hann hafi gjört mikið úr Svartá sem farartálma, er oft reynist hið versta vatnsfall. En þegar litið er á, að vegfræðingurinn var erlendur maður, lítt kunnugur öllum högum þjóðarinnar, er það afsakanlegt, þótt miður tækist en skyldi með þessa álitagjörð hans. Hitt gegnir fremur furðu, að meiri hluti amtsráðsins skyldu verða honum samdóma, þrátt fyrir upplýsingar minni hlutans í málinu, umboðsmanns B. G. Blöndals, sem vitanlega er gagnkunnugur leiðinni, og mælti mjög á móti áliti vegfræðingsins.
Þegar nú mál þetta kom fyrir sýslunefndina, varð það samhljóða álit allra sýslunefndarmanna, nema sýslunefndarmannsins úr Svínavatnshreppi, að póstleiðin skyldi leggjast um Blönduós og fram Langadal, og mun sú ályktun í samræmi við eindregið álit, ósk og vilja allra sýslubúa, nema Svínavatns-hreppsmanna einna, sem auðvitað þætti það mjög æskilegt, að aðalpóstleiðin lægi um sveit þeirra. En það eru ekki aðeins allflestir sýslubúar, sem eru þeirrar skoðunar, að best eigi við í alla staði, að póstleiðin liggi um Blönduós, heldur og margir merkir utanhéraðsmenn, sem gagnkunnugir eru hér í sýslu; og ástæðurnar fyrir því eru fyrst og fremst, að vegurinn er svo góður á þeirri leið, að það yrði margfalt minni kostnaður, að gjöra hann að góðri póstleið, heldur en hina fyrrnefndu syðri leið. Í öðru lagi er skammt frá Blönduós eitthvert hið ágætasta brúarstæði á Blöndu, sem til er. Í þriðja lagi virðist það eiga vel við, að póstleiðin liggi um Blönduós, þar sem hann er hinn fjölfarnasti staður sýslunnar, og má með réttu nefnast miðdepill hennar, að því er snertir samgöngur og viðskipti sýslubúa. Margt er það fleira, sem mælir með því, að Blönduósleiðin verðu aðalpóstleið, og þar sem vegalengdarmunur er næsta lítill á henni og hinni fremri leið, búast menn við æskilegum úrslitum í þessu máli, samkvæmt tillögum sýslunefndarinnar, einkum þar sem landshöfðingi vor hefir nú sjálfur séð þessar umræddu leiðir, og þarf ekki að byggja það á sögusögn vegfræðingsins né annarra, hvað muni kostnaðarminnst og sýslubúum hagfelldast í þessu tilliti.


Ísafold, 28.mars 1891, 18. árg., 25. tbl., forsíða:
Tryggvi Gunnarsson telur nauðsynlegt að innheimt verði brúargjald á “Ölvesárbrúnni” enda verði brúargæsla viðhöfð til að vernda hana frá illri meðferð manna.

Brúargæsla, vegir og brúargjald.
eftir Tryggva Gunnarsson
I.
Margir sögðu við mig síðastliðið sumar, að þeim fyndist það bæði of dýrt og óþarft, að hafa gæslumann við brúna á Ölvesá, þegar hún er komin yfir hana.
Ég svaraði þeim því, að það væri þá nokkuð ólíkt með þessa brú og flesta aðra hluti; því fáir mundu þeir eigendur, sem vildu lána bát sinn eða smákofa almenningi til afnota án gæslumanns, auk heldur skip, stórhýsi eða byggingar, sem kosta mörg þúsund krónur.
Ég held þessir menn hafi gleymt því, "að eigi er minna um vert að gæta fengins fjár en afla þess". Sunnlendingar muna líklega hvernig gekk með sæluhúsið á Kolviðarhóli, meðan enginn var til að gæta þess; og margir, sem ferðast hafa til Austurlandsins, hafa séð sæluhúsið við Jökulsá.
Ég hef líka, eins og margir aðrir, séð meðferðina á brúm þeim, sem þegar eru komnar upp á norður- og austurlandi. Einu sinni var ég á ferð með mörgum öðrum, og komum við að brú, sem nýbúið var að leggja yfir á; nokkrir kvenmenn voru í hópnum, og höfðu þær orð á því, að þær mundi sundla, er þær færu yfir brúna. "En sú hræðsla", sögðu nokkrir unglingar, sem voru í hópnum; "við skulum sýna ykkur hvort við erum smeykir" og svo skelltu þeir undir nára og fóru á harða stökki, í kappreið, yfir brúna. Í annað sinn var ég á ferð með öðrum og rákum við á undan okkur um 200 hesta lausa. Þegar að brúnni kom, fór fylgdarmaðurinn að herða reiðina og ætlaði að reka hestana á harða stökki yfir brúna, en ég komst fram fyrir hestana og vítti hann harðlega. Það er lítið hugrekki sýnt með því, þótt hart sé riðið yfir brýrnar, en það er bæði gapsháttur og fáfræði.
Brúin yfir fjörðinn Firth of Forth á Skotlandi er hin stærsta og dýrasta brú, sem enn hefir verið gjörð; mig minnir að hún kostaði 7 milljónir punda sterling. Þegar hún var vígð, var mælt fyrir minni brúarsmiðsins og gjörði það frægur byggingameistari; hann sagði að með stórsmíð þessu hefði hann gjört landi sínu hið þarfasta verk, ef brúarinnar væri gætt; en væri það trassað, þá væru öllu þessu mikla fé varpað í sjóinn.
Og þetta er eflaust satt
Hver maður með dálítilli umhugsun hlýtur að sjá, að hve sterk sem brúin er, þá hlýtur hún að skemmast í öllum samskeytum við mikinn hristing, þó lítið sé í hvert skipti; en safnast þegar saman kemur, þá tímar líða. Hristingur á járnbrúm er þó langtum skaðlegri en á trébrúm, því járnið hefir þann eiginlegleika, að það hrekkur eins og gler í frosti. Hér í Danmörku var í vetur um tíma 4-8 stiga frost, og þá leið varla sá dagur, að járnteinar þeir, er gufuvagnarnir runnu á, brotnuðu ekki á 3-4 stöðum, þótt þeir lægju á sterkum trjám og sléttum grundvelli, hvað þá ef .þeir hefðu legið á huldu eins og brúin á Ölfusá. Mörg þús. naglar verða í brúnni, sem allir hljóta að slitna lítið eitt í hvert skipti, sem núningur fram kemur við mikinn hristing, og þar af leiðandi endast skemur.
Landssjóður hefir lagt til brúarinnar, sem öll er úr járni 40.000 kr., og Sunnlendingar 20.000 kr. Væri það þá ekki hörmulegt, ef einhver sólargapi af monti og heimsku skemmdi hann og bryti niður, með því að reka marga hesta yfir hana á harða stökki í grimmdarfrosti, svo ærið fé þyrfti til þess að kosta, að gjöra við hana aftur? Mér þætti þá gaman að eiga til við þá menn, sem ég nefndi í upphafi greinarinnar, og spyrja þá, hvort það hefði ekki verið kostnaðarminna að hafa gæslumann við brúna, til þess að vernda hana fyrir illri meðferð manna og áhrifum loftsins.
Hvar sem farið er um útlönd, standa lögregluþjónar við báða brúarsporða á öllum stærri brúm, og skrifa upp til sekta alla þá, er fara með hesta yfir brýrnar harðara en fót fyrir fót, enda þótt þær séu 10 sinnum sterkari en Íslendingar hafa efni á að gjöra brýr sínar; ég er sannfærður um, að enginn hefði í nokkru öðru landi en Íslandi komist hjá miklum fjárútlátum, sem riðið hefði yfir brú eins glannalega og þeir, sem ég gat um að framan.
Mikill áhugi er nú vaknaður á Íslandi til þess að gjöra brýr og betri vegi, og er það sannarlega lofs vert. En áhuginn er, því miður, að tiltölu jafn-lítill til þess að halda þeim við. Ég hef riðið yfir marga vegarspotta, sem ekki hefði kostað 100 kr. að gjöra við, ef það hefði verið gjört þá þegar. En svo var því frestað 2-3 ár, þangað til það var orðinn mannhætta að fara um veginn, og þá kostaði vegabótin 500-1000 kr. Eins er með brýrnar, sé það ekki bætt í tíma, sem aflögu fer, þá getur viðgjörðarkostnaðurinn margfaldast. Flestir þekkja, hve fljótt járn ryðgar, ef það liggur bert í vætu; er því nauðsynlegt að mála jafnóðum hvern blett á brúnni, sem farfinn slitnar af; en þetta getur dregist, ef ekki er duglegur gæslumaður. Ég vil ekki ásaka yfirvöldin og þá, sem brúnna eiga að gæta, fyrir það, að seint hafi gengið að kítta í rifur á brúartrjánum, svo vatnið ekki komist inn í þau, eða að mála þau, til þess að verja þau fúa; en víst er um það, að ekki er enn búið að festa upp við brúarsporðinn á einni einustu brú norðan- eða austanlands auglýsingu um það, að mönnum sé bannað að fara harðar yfir brúna en fót fyrir fót, eða misbjóða þeim á annan hátt. Ég hef farið nýlega yfir þær allar.
Af því það er svo lítill áhugi á Íslandi á viðhaldi vega og brúa, þá held ég væri vel til fallið, að þingið veitti ákveðna upphæð til viðhalds veganna. Þeim mönnum, sem hafa ferðast yfir landið, mun hafa sárnað, ekki síður en mér, að sjá, hversu nýir vegir verða því nær ófærir á fáum árum vegna viðhaldsleysis.
Hvað hitt atriðið snertir, kostnaðinn við brúargæsluna, þá er hægt að vera fáorður um það, því hver meðalhygginn maður getur séð, að kostnaðurinn t.d. við gæslu á Ölfusárbrúnni þarf ekki að vera stór.
Ef landsstjórnin reisir hús fyrir fé landssjóðsins- eða kaupir hús, sem þegar er upp komið við brúarsporðinn og eigi þarf að kosta fullgert nema 3.000 kr.-, lánar svo húsið leigulaust og gefur manni veitingaleyfi og lausn frá öllum gjöldum til landssjóðs, þá munu margir sækja um þá stöðu, þó þeir eigi að gæta brúarinnar í öllum greinum án frekara endurgjalds, enda er það álitleg staða, einkum ef hann getur keypt land öðruhvoru megin árinnar og fær leyfi til að selja allan þann greiða, er efni hans leyfa; yrði þá kostnaður landssjóðs árlega ekki nema 5% af 3.000 kr. eða 150 kr., því ákveðna leiguliðabót af húsinu fyrir fyrning og skemmdum ætti brúarvörður að greiða. Það yrði líka landinu til sóma, ef góður viðtökustaður væri við brúna, einkum fyrir útlenda ferðamenn.
Íslendingar gjöra allt of lítið til þess, að laða útlendinga til Íslands. Norðmenn verja árlega stórfé til þess, að fá til sína sem flesta útlenda ferðamenn, og jafnvel Danir, sem engin náttúruafbrigði hafa í landi sínu, verja til þess allmiklu fé. En því miður eru Íslendingar á eftir í því, eins og svo mörgu öðru, sem bætt gæti efnahag manna. Útlendingar koma mest til Íslands til þess að sjá Heklu og Geysi, en leiðin þangað frá Reykjavík getur legið yfir Ölvesárbrúna, og væri því hyggilegt af stjórn landsins og þeim sem búa í nánd við þessa leið, að laða útlenda ferðamenn til sín; en því verður best náð með sanngjörnum viðskiptum og ákveðnum föstum áfangastöðum.
Í Noregi eru ákveðnir fastir áfangastaðir fyrir innlenda og útlenda ferðamenn, með 3-6 mílna milli. Húsbóndinn er skyldur til að hafa hús og rúm fyrir tiltekna gestatölu auk þess hesta og smávagna handa gestunum m.m., og þetta verður hann að láta í té fyrir ákveðið verð, en svo er hann laus við öll gjöld til almenningsþarfa og undanþeginn því að senda syni sína til herþjónustu og landvarnar m.m.
Hvað gerir alþingi og landstjórn fyrir þá, sem í þjóðbraut búa og þá sem um þjóðbraut fara?
Ég veit þess eitt dæmi, að maður einn á Suðurlandi, sem bjó í þjóðbraut við fjallveg hefir fengið styrk til þess að standast gestagang og byggja gestaskála; en yfir þessu er þagað, í stað þess að gera það heyrum kunnugt, því það er stjórn landsins til sóma, að bera þannig umhyggju fyrir þörfum ferðamanna; það er sæmd fyrir landið, að styrkt sé til þess, að viðunanlegir viðtökustaðir séu til fyrir ferðamenn, einkum við fjallvegi, og fyllsta réttlæti gagnvart þeim mönnum, sem búa í þjóðbraut og við fjallvegi, að þeim sé veitt einhver ívilnun, fyrir átroðning og beina þann, er þeir veita ferðamönnum dögum saman, til þess að stofna ekki lífi þeirra í hættu í tvísýnu veðri og á illum fjallvegum.
II.
(síðari kafli).
Þegar landssjóður er búinn að leggja margar brýr, annaðhvort að öllu leyti eða að mestum hluta, þá þarf hann að viðhalda þeim að öllu leyti eða að réttri tiltölu, og svo síðan gera þær aftur að nýju, þegar þær eru orðnar affarafé. Hversu mikið gjald verður ekki þetta? Vilja menn leggja þetta gjald á sig og eftirkomendurna, til þess að margir óviðkomandi menn geti fengið gefins ferð yfir flestar stærri ár á landinu? Er ekki nær að mynda brúarsjóði fyrir fargjald ferðamanna, sem taka mætti af viðhaldskostnað og síðan verja til þess að endurreisa brýrnar?
Það er fullkomin þörf á því, að fara að byrja stofnun slíkra sjóða til þarflegra fyrirtækja í landinu, eins og gert er um öll lönd. Það er miklu hentugra en að demba öllu á landssjóð, sem þá getur ekki staðist nema með nýjum álögum á bændur.
Ég hygg, að meiri hluti þingmanna og margir málsmetandi menn hafi óbeit á brúargjaldi; en engu að síður vil ég skýra frá, hver rök álit mitt hefir við að styðjast, og þó menn ekki vilji taka þau til greina, þá getur verið að menn sjái það seinna, að ég hefi ekki svo rangt fyrir mér í þessu efni.
Ég er sannfærður um, að það er bæði sanngjarnt og nauðsynlegt, að taka brúargjald af Ölvesárbrúnni og öllum stærri brúm, sem hér eftir verða gerðar á Íslandi.
Aðalástæðan er sú, að landið er stórt, strjálbyggt og árnar margar, sem brúa þarf, ef veruleg framför á að verða í samgöngum í landinu sjálfu. Það er auðséð, að landssjóði er ofvaxið að leggja brýr þessar allar, og skaðlegt er fyrir landsbúa í ýmsum héruðum að bíða með nauðsynlegar brúargerðir, þar til þingið álítur sér fært að verja svo tugum þúsunda króna skiptir gefins til nýrra brúargerða. Margir menn og hestar geta verið drukknaðir áður en sá tími kemur. Auk þess sé ég ekkert réttlæti í því, að menn á Hornströndum, Langanesi eða undir Jökli séu að leggja fé í landssjóð til þess að menn geti farið kostnaðarlaust yfir Ölvesá í Flóa eða Þjórsá eða Blöndu, og þaðan af síður sé ég ástæðu til þess, að útlendir ferðamenn eða útlendir hesta- og fjárkaupamenn með stóra hópa af hestum og sauðum fari kostnaðarlaust yfir ána á brúnni við Selfoss, þegar margir innlendir þurfa að borga ferjur yfir ána ofar og neðar, og eiga þó á hættu hesta og aðrar eignir.
Mér sýnist, að þeir, sem yfir brúna fara, hafi talsverðan hag í samanburði við þá, sem þurfa að fá ferju, þó þeir þurfi að greiða jafnhátt gjald eins og ferjutollurinn er fyrir ofan og neðan, því þeir komast hjá tímamissi við það, að bíða við ána í krapaförum um vetrartímann og í ófærum vöxtum á vorin. Þeir eru lausir við þá tímatöf, að spretta af hestum og búa upp á aftur, og lausir við alla hættu.
Ég vona, að menn sjái það fyr eða síðar, að þetta er sanngjarnt; en þó tel ég það engan veginn þýðingarmest, heldur hitt, að landssjóði er ofvaxið að leggja allar þær brýr í landinu, sem fyllsta nauðsyn er á að fá sem fyrst, ásamt að viðhalda þeim, og að með þeim hætti komast brýr seinna á árnar.
Mér þætti gaman að því, að fá rökstutt svar upp á það, hvort nokkur ástæða sé til þess, að ferðamenn hefðu á móti því að greiða fargjald fyrir hættulausa og fljóta ferð yfir stórár á brúm, fremur en á ferju, sem bæði er seinlegri og hættumeiri, eða hvort landssjóði, ömtum eða sýslufélögum sé fremur skylt að leggja brýr yfir ár til ókeypis yfirferðar en ferjur. Ef ferjur væru á öllum póstvegum til ókeypis afnota fyrir ferðamenn, þá væri það samkvæmni; en enginn fer fram á það: og því sé ég ekki samkvæmni hjá þeim, sem eru á móti brúargjaldi.
Ég býst við að mér verði svarað því, að það sé umfangsmikið og kostnaðarsamt að heimta brúartoll. Ég svara undir eins fyrirfram nei.
Hvernig fara aðrar þjóðir að með járnbrautargjald og sporvagna?
Því er svo fyrir komið, að eigendurnir gefa út kvittunarmiða - 1 þuml. á lengd og ½ þuml. á breidd - sem er kvittun fyrir því, að ferðamaðurinn hafi greitt fargjaldið, og þessum miða heldur hann þar til ferðinni er lokið. Á líkan hátt ættum vér að fara að. Landstjórnin gefur út 50-100 þúsund af álíka smámiðum, og um leið semur alþingi lög um hegningu fyrir fölsun á þeim, samkvæmt því ef bankaseðlar eru falsaðir eða peningar slegnir og seldir. Þessir miðar eru svo. t. d. hvað Ölvesárbrúna snertir, til sölu í öllum verslunum í Reykjavík, Eyrarbakka og öðrum kauptúnum sunnanlands; sömuleiðis hjá brúarverðinum sjálfum. Miða þessa- eða frímerki - kaupa svo allir ferðamenn, eins og annan varning eða frímerki á sendibréf, og afhenda þau brúarverði, þegar þeir nota brúna. Þannig er farið að á járnbrautarvögnum og sporvögnum um allan heim, og ætti ekki að vera meiri vandi að heimta fargjald hjá 70 þús. manna á Íslandi, en 700.000.000 um öll þau siðuðu lönd. Svik á sölu miða þessara geta varla komið fyrir nema hjá brúarverðinum. Þarf því að velja vandaðan mann til þessa starfa og setja með lögum þunga hegningu fyrir undanbrögð.
Útgáfa þessara brúargjaldsmiða þarf ekki að kosta landssjóð eða aðra eigendur brúnna annað en prentun og sölulaun, því það ætti að vera skylda brúarvarðar, að heimta brúargjaldið, gegn þeim hlunnindum sem að framan eru nefnd.
Ég álít, að hæfilegt fargjald yfir Ölvesárbrú sé 10 a. fyrir lausríðandi mann og 10 a. fyrir klyfjahest, 5 a. fyrir gangandi mann og 5 a. fyrir lausan hest, og 2 a. fyrir sauðkind. Með þessu mundi safnast þó nokkurt fé. Þeir, sem vilja fara yfir brúna frá kl. 11 e. m. til kl. 8 f. m. frá veturnóttum til sumarmála, ættu að greiða tvöfalt gjald, og ætti brúarvörður að njóta helmings þess fjár fyrir ómak sitt, því ekki er sanngjarnt að ákveða brúarverði miklu lengri vinnutíma en öðrum, eða að vaka nótt og dag, en skyldur ætti hann að vera að ljúka brúnni upp hvenær sem menn vilja, enda getur það verið nauðsynlegt, þegar menn þurfa að leita læknis eða eiga önnur brýn erindi. Við þessar aukatekjur bætist svo 10% af öllum þeim brúarfrímerkjum, er brúarvörður selur. 10% mega heita sanngjörn sölulaun fyrir alla aðra, er versla með þau.
Ég hef íhugað, hvort hentugra mundi vera, að brúarvörður eða brúareigandi, hver sem það er, ættu brúarvarðarhúsið, og ég hygg það miklu betra, að brúareigandinn sé eigandi hússins, og enda jarðarskika öðruhvoru megin árinnar nálægt því, til afnota fyrir hesta ferðamanna, svo hægt sé að setja brúarverði stólinn fyrir dyrnar og víkja honum frá, ef hann stendur laklega í stöðu sinni; því þó staðan sé ekki vandasöm, þá er það áríðandi, að maðurinn sé ráðvandur og kurteis og hafi nokkur efni eða lánstraust.
Þó ég sé þeirrar skoðunar, að landssjóður ætti ekki að gefa fé til þess, að brúa stórárnar, eða halda brúnum við, heldur að mynda ætti brúarsjóði, þá kemur mér ekki til hugar, að stjórnendur landssjóðs ættu að vera afskiptalausir af brúargjörðarmálum. Landssjóður ætti að vera aðalhjálparhellan til þess að sem flestar brýr komist sem fyrst á, ekki með því að gefa, heldur með því að lána fé með sanngjarnri leigu og langri afborgun. Hann hefir meira lánstraust en nokkur annar, og á honum hvílir skylda til þess, að styrkja öll þau fyrirtæki, sem miða landinu til framfara og fé þarf til, enda á hann hægra með að leggja fé fram, þegar það á að endurgjaldast, en ef það ætti að hverfa að fullu.
Ég vona, að mönnum skiljist nú fyr eða síðar, að þeir, sem fara yfir brýrnar, eru hinir réttu gjaldendur, en ekki þeir, sem aldrei fara yfir þær, og það landssjóður á miklu hægra að styrkja brúargjörð yfir hættulegar ár, án þess að ný gjöld séu lögð á landsmenn, ef það fé, sem hann leggur til brúnna, er lán, en ekki gjöf.
Ég vona líka að lærðum og leikum skiljist, að það er fullkomlega eins áríðandi að viðhalda vegum og brúm, og hlífa þeim fyrir illri meðferð, eins og að gjöra það hvorttveggja af nýju í upphafi, og að kostnaðurinn við brúargæsluna verður að tiltölu margfalt minni með föstum brúarverði, en sá skaði yrði, sé brúin gæslulaus.
Ritað í febrúarm. 1891.


Ísafold, 25. apríl 1891, 18. árg., 33. tbl., forsíða:
Þorlákur G. Guðmundsson ritar hér langa grein sem fjallar að mestu um brúargæslu og brúargjald og er ósammála Tryggva Gunnarssyni að slíkt sé nauðsynlegt.

Brúargæsla, vegir og brúargjald.
svar til herra Tryggva Gunnarsson
frá Þorláki Guðmundi Guðmundssyni
I.
Ég hefi lesið og lesið aftur og enn aftur í 25. og 26. tbl. Ísafoldar þ.á. frá herra Tryggva Gunnarssyni langa ritgjörð, sem miðar til að sannfæra menn um, að þörf sé á, að setja brúargæslumann við hina væntanlega brú á Ölfusá, og undir eins, hve sanngjarnt það sé, að leggja á brúargjald.
"Sínum augum lítur hver á silfrið."
Eftir því, sem ég hugsa meira um þetta mál, finnst mér að ég verði að fjarlægjast meir og meir skoðun hins heiðraða höfundar í aðalefni málsins.
Fyrsta ástæðan, sem hann kemur með, og sem hann kveðst hafa haft fyrir vopn á mótmælendurna á næstliðnu sumri, er ekki heppilega valin.
Það er allt annað, að sá einstaki leggi fram fé til almenningsþarfa að öðru leyti en því, sem hann geldur lögboðna skatta, er renna í almennan þjóðsjóð, heldur en að hið almenna leggi fram fé til þarfa þeim einstaka, eða þeim mörgu einstöku sem mynda stærri eða smærri heild í mannfélaginu. Hinn einstaki er ekki skyldur að láta af hendi eign sína, nema almenningsþörf krefji, og komi fullt endurgjald fyrir, og það endurgjald verður að takast af almannafé.
Hér er því um tvennt ólíkt að ræða, og skilur jafnmikið og rétt og rangt.
Það mun óþekkt, að minnsta kosti hér á landi, að menn láni grip, hús eða skip, og láti gæslumann fylgja með, til að upp eta meira eða minna af leigunni.
Ég get verið samdóma um það, að ekki sé minna vert að gæta fengins fjár en að afla, en kringumstæðurnar verða þá að vera svo, að kostnaðurinn við gæsluna ekki upp eti þann sparnað sem af gæslunni leiðir.
Þetta sannmæli er eins og flest önnur, að það getur ekki átt við allar kringumstæður.
Ef refir ásækja fé mitt, get ég varist þeim með því, að láta fylgja fénu dýran mann dag og nótt; en það er því að eins hyggilegt, að kostnaðurinn verði ekki meiri en skaði sá, sem refar gera mér; og skal ég síðar sýna, hvern veg verða mundi með gagn og ágóða af brúargæslunni.
Að hin fáu sæluhús hér séu illa hirt, neitar víst enginn; en annað mál er, hvort það mundi borga sig, að setja launaðan mann við hvern fyrir sig af þessum kofum. Það var ekki eingöngu vegna hirðunnar, að sæluhúsvörður var settur á Kolviðarhól, heldur sér í lagi og einkum vegna þess, að þörfin var lengi búin að kalla að; hér þurfti að vera mannabyggð, til að veita mönnum aðhjúkrun og beina á þessum fjölfarna og illviðrasama fjallvegi.
Það virðist vera nokkuð annað um að ræða, þó settir séu gæslumenn og lögregluþjónar við stærstu brýr í heimi, eða víða erlendis, þar sem allt er á þjótandi ferð með gufuafli og umferðin svo mikil, að hér er engu við slíkt að jafna.
Það er ætlun mín, að fáum muni þykja fýsilegt, að ríða hart yfir slíka brú sem þessa, því að áin undir brúnni mun ógna mönnum og vernda brúna fyrir harðri reið betur en nokkurt eftirlit. Að "einhver sólargapi reki marga hesta á harða stökki yfir brúna í grimmdarfrosti", mun aldrei koma fyrir, því breidd brúarinnar gerir líka slíkt naumast hægt. Eigi brúarinnar að vera gætt fyrir harðri reið eða rekstri, svo að meira sé en nafnið tómt, þá er enginn vafi á því, að það þarf að vera lögregluþjónn við hvern brúarsporð.
Hvað segjum við svo, þegar búið er að leggja 10-15 stórbrýr á landinu og komnir eru jafnmargir brúarverðir og helmingi fleiri lögregluþjónar. Þá minnka ekki laun og eftirlaun, og þá mun verða eins og Einar á Þverá sagði - Þá munu álögurnar verða þungar; og ættu brúarverðirnir svo að lifa og laumast mest megnis af veitingum, mundi lítið batna siðferði eða efnahagur manna í nálægum héruðum við brýrnar, og mundi þá eins gott að synda í gamla haftinu.
Þessi brúarvörður þarf að hafa áreiðanlegan aðstoðarmann, eins og vitavörðurinn á Reykjanesi, þegar brúin á að vera opin nótt og dag. Launin verða því að vera allrífleg.
Hverjir mundu það nú helst vera, sem misbyðu brúnni með harðri reið? Það mundu helst vera drykkjumenn. Þeir gætu slegið undir nára, þegar þeir væri komnir út á brúna, og brúarvörður hefði ekki meira af þeim. Oft gæti orðið erfitt að sanna brotið, sem gæti þá kostað málavastur og peningaútlát fyrir landssjóð. Setjum nú samt, að hinn seki maður næðist; ef hann væri þá, eins og slíkir eru oftast, félaus, fengi hann að fara í hegningarhúsið.
Ekki græddi landssjóður á því.
Það er því eins og ég hefi áður sagt, að annaðhvort er að gera ekki neitt, eða hafa lögregluþjóna við hvern brúarsporð.
Að hér sé ofurlítið gert til að viðhalda vegum og brúm, dettur mér ekki í hug að afsaka, því ég hata allan trassaskap, í hverri mynd sem hann birtist, og án þess að leggja fram stórfé mætti gera miklu meira en gert er til viðhalds á vegum og brúm.
Ég skal t. d. nefna hina miklu stóðhópa, sem reknir eru víða um landið og mest af öllu skemma vegi og brýr; og þetta er engri reglu eða eftirliti háð; og það álít ég sjálfsagt að banna slíka stóðrekstra yfir Ölfusárbrúna, nema undir ströngu eftirliti, og mættu þeir gjarnan að auki borga toll, og til þess þarf engan brúarvörð að framkvæma þetta.
Hr. Tr. G. heldur að kostnaður við gæslu á brúnni þurfi ekki að vera mikill.
Ég held allt annað.
Hann ætlar brúarverði að hafa mestmegnis laun af veitingum og greiðasölu, eða með öðrum orðum: af fávisku og munaðargirnd þeirra, sem um veginn fara eða brúna, og hann ætlast til að þetta embætti verði svo feitt, að margir sæki um það. Eftir því á þessi embættismaður að rýja á tvær hendur. Og hvaðan eru svo launin tekin, nema úr þjóðarinnar vasa. Nú má fullyrða, að lítið verði af honum keypt. Þetta er í miðri sveit og margir eins og heim komnir þegar yfir ána er komið. Undanþágur undan landssjóðslögum væri einskisvirði fyrir hann, búlausan mann, því í atvinnuskatt mundi hann trautt komast. Það yrði því að launa honum af brúartollinum eða úr landssjóði.
Ég geng að því vísu, að ölfanga-veitingaleyfi verði aldrei veitt á þessum stað. En af því að selja greiða og hýsa menn, getur enginn þrifist hér, ef hann ekki hefir bú eða eitthvað annað við að styðjast.
Þó að upp væri sett veitingahús við brúna, mundi það ekki færa landið í virðingarskrúða í augum útlendinga, því þeir fara svo fáir þessa leið. Það eru einungis þeir, sem fara til Heklu, þó ekki nema aðra leiðina, og stundum hvoruga.
En það er vegurinn til Geysis, sem fyrst og fremst á að gjöra góðan í því augnamiði að hæna hér að útlendinga, og svo ætti að koma upp sumar-hóteli á Þingvelli og öðru við Geysi.
Það væri mikið þarft að hér yrðu fastákveðnir áfangastaðir, sem keyptir væru fyrir almannafé, öllum vegfarendum til frjálsra afnota. En það mál þarf góðan undirbúning heima í héruðum, og getur ekki vel gengið fyr en búið er að fastákveða aðal-vegina í landinu, og þá er það fyrst, að menn sjá, hvar greiðasölu-og veitingahús eiga að vera.
Því þegir hinn heiðraði höfundur yfir því, fyrst hann veit það, að einn maður hefir fengið fé til að standast gestagang og reisa gestaskála? Það er fróðlegt að fá að vita, hver það fé veitti, og hvaðan það var tekið.
II.
(Síðari kafli).
Það gildir það sama um brýr og vegi, að landssjóður verður að halda hvorutveggju við. Eru það ekki sömu útlát fyrir landssjóð, hvort hann leggur 40.000 kr. til brúar yfir Ölfusá, eða hann leggur 40.000 kr. í póstveg eða fjallveg, sem hann á að ala og annast? Það mætti því eins tolla vegina. Landssjóður er þegar byrjaður á því, að leggja brýr á ýmsar smá-ár á póstvegum. Vel geta 6-8 smærri brýr kostað 40.000 og ef það er rétt, að tolla eina stórbrú, sem þetta hefur kostað, þá er líka rétt, að tolla allar þessar smærri, sem jafnmikið hafa kostað.
Hr. Tr. G. segir: "vilja menn leggja þetta gjald á sig og eftirkomendurna til þess, að margir óviðkomandi geti fengið gefins ferð yfir flestar stórár á landinu?"
Hverjir eru þessir óviðkomandi menn? Það geta þó víst ekki verið aðrir en útlendingar.
Mundi ekki hin núverandi kynslóð vera þakklát feðrum sínum og hinni horfnu kynslóð, ef þeir og hún hefðu eftirlátið mörg þörf stórvirki í landinu, þó að nú þyrfti að halda þeim við? Það er skylda vor að gera allt sem vér vel getum gert fyrir hina komandi kynslóð; en það getur ekki verið skylda vor að ganga berir og skilja eftir blóð í sporunum.
Hr. Tr. G. telur það sanngjarnt, að tolla brúna á Ölfusá og allar stórbrýr, sem gjörðar verða í landinu. En ég tel það ósanngjarnt og óráðlegt.
Það er að elta vissa menn í sérstökum sveitum með nýjum skatti og mynda þar á ofan nýjan embættismannaflokk í landinu, sem ekki mundi verða léttari byrði á eftirkomendum vorum en viðhald og endurreisn á brúnum. Mikið af gjöldum mundi ganga til að launa tollheimtumönnunum, og á sumum stöðum hrykki tollurinn ekki að launa manninum.
Aðalástæðan er sú, að landið er stórt og strjálbyggt og árnar margar, sem brúa þarf. Þetta er ein aðalástæðan á móti tollinum, að þjóðin er á víð og dreif um þetta landflæmi, og þar af leiðir, að umferðin er svo lítil um hverja brú fyrir sig, að það ber sig ekki að tolla þær, nema tollurinn sé svo hár, að hann misbjóði kröftum flestra vegfarenda og fæli þá frá að fara brýrnar.
Það gleður mig, að nú er hr. Tr. G. farinn að sjá, að það er tjón fyrir menn, að fá ekki stórárnar brúaðar fyr en seint og síðar meir, og að það getur orðið mönnum og gripum að fjártjóni.
Hversu mikill framfarastyrkur var það því ekki fyrir austursýslurnar, að brúargjörðin á Ölfusá var tafin í þinginu um heilan tug ára fyrir mótstöðu einstakra manna(!).
Hér er ég þá kominn að því merkilega atriði í ritgjörð hr. Tr. G., að hann sér ekki neitt réttlæti í því, að Hallur á Horni, Auðunn á Öndverðarnesi og Lýður á Langanesi séu að leggja fé í landssjóð til að brúa Ölfusá o. s. frv.
Ég geri ráð fyrir, að þessir þrír karlar, séu friðsamir og fari aldrei í mál á ævinni. Samt verða þeir að borga dómsvaldinu, af því að þeir eru í þjóðfélaginu, en aðrir t.a.m. hér fyrir sunnan, eru oft í málaferlum og þurfa á dómsvaldinu að halda. Þeir Hallur og hans félagar eru heilsugóðir og leita aldrei til læknis, en verða þó að borga þeim.
Er þá rétt, að Öræfasveit, eða Austur-Skaptafellssýsla borgi til strandferðanna?
Höf. virðist þeir, sem brúna fara, hafa talsverðan hag í samanburði við þá, sem á ferju fara. Hér væri of miklu til kostað og fyrir sigri þessa máls of lengi barist, ef hagurinn ekki væri verulegur.
Ég skal leitast við að gera hr. Tr. G. þá ánægju, að rökstyðja það, að ekki er ástæða til að tolla brýrnar fyrir það, að lögferjur hafa verið og eru keyptar af hverjum einstökum, sem hefir þurft að nota þær.
Ef engin sýnileg ráð væru þekkt til að brúa ár, þá væri sjálfsagt, að landssjóður kostaði ferjurnar að öllu leyti á póstvegum og fjallvegum. Hér við bætist, að ferjurnar hverfa af sjálfu sér jafnskjótt og brýrnar komast á, og engin ástæða er til að ætla, að þær framfarir haldi ekki áfram, því það er nú lögboðið að brúa ár og læki svo fljótt að því verður við komið. Skyldi nokkur ástæða vera til að efast um, að ferjurnar á Laugardælum og Kotferju legðust niður, þegar brúin er komin á ána hjá Selfossi?
Ég sé það, að hr. Tr. G. hefir ekki breytt skoðun sinni frá því við vorum saman á þingi á þessu stóra þarfa- og framfaramáli þjóðarinnar, brúamálinu. Hann álítur enn sem fyr, að héruðin eigi að taka lán hjá landssjóði til að brúa stórárnar, því að landssjóði sé ofvaxið að kosta það.
Þetta er þungskilin þjóðbúskaparfræði.
Mér virðist það vera líkt og ef húsbóndi, sem hefði mörg hjú, og þyrfti að láta vinna eitthvert stórvirki, segði: "Þetta verk þarf að gera, en það er ofvaxið öllum mínum hjúum að gjöra það með samtökum og félagsskap, en ég ætla að láta eitt eða tvö gera það; þau geta þá lánað krafta hjá hinum, ef þau hafa ekki afl á því sjálf.

Þjóðólfur, 29. maí 1891, 43. árg., 25. tbl., forsíða:
Menn eru ekki sammála um hvar leggja eigi þjóðveginn um Húnavatnssýslu en hér skýrir séra Stefán M. Jónsson frá skoðunum sínum í langri grein.

Ný aðalpóstleið í Húnavatnssýslu.
eftir Séra Stefán M. Jónsson á Auðkúlu.
I.
Eitt af hinum mörgu málum, er nýafstaðinn sýslunefndarfundur Húnvetninga hafði til meðferðar, var aðalpóstleiðarmálið um sýsluna, - nú í annað sinn fyrir nefndinni. Eins og margir vita, er þetta mál afspringur vegalaganna frá 10. nóv. 1887, sem skipta öllum vegum landsins í aðalpóstvegi, sýsluvegi, fjallvegi og hreppavegi. Aðalpóstvegir eru kostaðir yfir höfuð af landssjóði, sýsluvegir af sýslusjóði og hreppavegir af hreppavegasjóði. Sú er auðsjáanlega hugsun laganna með því að taka aðalpóstvegina yfir höfuð á sína arma, að þeir séu lagðir þannig, að eigi einungis héraðið eða sýslan, sem vegurinn liggur í, hafi gagn af honum, heldur sé hann lagður sem hentugast fyrir þjóðina sem kostar hann og á að nota hann, og póstinn, sem fer með erindi þjóðarinnar, án einkatillits til hagsmuna eins héraðsins fremur en annars. Póstvegirnir eru því sannir þjóðvegir; og vegna þess, að þessi er aðal tilgangur þeirra, segja lögin, að leggja aðra vegi, sýsluvegi, sem sérstaklega eiga að greiða samgöngurnar innansýslu. Auðvitað er ákjósanlegt, þegar gagn þjóðar og héraðsbúa getur komið saman, án þess réttur aðalmálsaðila sé borinn fyrir borð, en þegar það lætur sig ekki gjöra, verður hinn rétthærri að ganga fyrir. Og hver getur verið í vafa um, ef þetta er rétt, að réttur og þarfir þjóðarinnar eigi að ganga fyrir hagsmunum héraðsins, ef ekki verður sameinað. Þessi réttur og þarfir þjóðarinnar næst án efa best með því, að aðalpóstleið í sýslu hverri sé sett í hentugt samband við aðalpóstleið næsta fjórðungs o. s. frv.; og naumast mun það hafa verið hugsun Alþingis með vegalögunum 1887, að landssjóður legði út stórfé, t. d. til þess, að nokkrir hreppar hvers héraðs gætu fengið greiða götu í kauptún sitt, ef þar við ykist óþarfur kostnaður og erfiðleikar á póstferðum landsins um héraðið, en þessa þörf sýslufélagsins eiga sýsluvegirnir einkum að bæta samgönguþörf hreppsfélagsins.
Þó ég sé fjarri því að vera lögfróður, hygg ég að enginn óhlutdrægur maður vilji eða geti neitað því, að þetta, sem ég nú hefi sagt, sé andi vegalaganna, um leið og það er bókstafur þeirra. Og frá þessu sjónarmiði vil ég segja ágrip af sögu aðalpóstleiðarmálsins um austanverða Húnavatnss. frá Giljá að Bólstaðarhlíð, og skoðanir mínar um það mál.
II.
Mál þetta var lagt fyrir sýslunefnd Húnavatnssýslu veturinn 1888, og átti sýslunefndin að segja álit sitt um stefnu vegarins. Sýslunefndin klofnaði í þrennt. Fáeinir aðhylltust að leggja leiðina frá Giljá út á Blönduós og þaðan yfir Blöndu fram allan hinn langa Langadal (Ystaleið). Fáeinir voru á því, að vegurinn lægi, eins og nú, að Reykjum á Reykjabraut, þaðan fram með austanverðu, eða réttara norðanverðu, Svínavatni, yfir Blöndu á Finnstunguvaði og að Hlíð. (Fremsta leið); en þeir, sem þá voru eftir, voru á því, að leggja veginn frá Giljá að Reykjum, þaðan meðfram Svínavatni að Laxá, en þá austur yfir Ásana hjá Tindum, yfir Blöndu á Holtastaðaferju, og þaðan fram Langadal (Miðleið). Þessir miðleiðarmenn réðu úrslitunum með 1 eða 2 atkvæða mun, við hina flokkana samantekna. Þessi úrslit sýslunefndar voru síðan send amtsráðinu; varð þar meiningamunur sá, að einn (Einar í Nesi) varð fyrst á Fremstu leiðinni, en amtmaður og Benedikt Blöndal á miðleiðinni, en enginn á ystu leiðinni. Þá gekk málið til landshöfðingja.
Alþing 1889 veitti 6.000 kr. til að fá vegfróðan mann frá útlöndum til að segja, samkv. vegalögunum, álit sitt um þetta og fleiri vegmál landsins. Hann kom og hafði um 3.000 kr. fyrir starfa sinn sumarið 1889. Vegfræðingur þessi var svenskur, A. Siwerson að nafni, alvanur vegagjörð í Svíaríki, og einkum Noregi, eigi einungis járnbrautarvegum, heldur vegum yfir og eftir hálsum og dölum, þar sem líkt er ástatt og hjá oss; þetta sagði hann mér sjálfur. Valið á manninum virðist því hafa verið heppilegt. Þetta ákvæði laganna um, að vegfróða menn skuli hafa í ráðum, þegar ákveða skal aðalpóstleiðir, virðist bæði viturlegt og gjöra úrskurðarvöldunum hægra fyrir; en einkum sýnist, að það ætti að létta fyrir landshöfðingja í að leggja sinn fullnaðarúrskurð á málið, hafi meiningamunur orðið hjá sýslunefnd eða amtsráði.
Siwerson vegfræðingur sendi í fyrra vetur skýrslu sína til landshöfðingja, með áliti sínu um, hvar hentugast sé að leggja aðalpóstleiðina, og áætlun um kostnað hennar. Útdrátt af þessu áliti og áætlun má lesa í Þjóðólfi nr. 10, 28. febr. 1890. Ystuleiðinni og miðleiðinni kastar hann þar algjörlega, en er eindreginn með því, að leggja veginn meðfram Svínavatni (Fremsta leiðin). Eini kosturinn er hann nefnir á Ystu leiðinni, er brúarstæði á Blöndu á svokölluðum Neðriklifjum, en þessi vegur er 10.340 metr. lengri en fremsta leiðin. Á leiðinn fram Langadalinn af Blönduós yrði vegurinn, að hans sögn, að liggja yfir 5 smáskriður og eina stóra 1). Auk þessa segir hann, að mjög sé hætt við, að Blanda bryti af veginum á 2 stöðum í Laugadal; vegurinn mundi stöðugt liggja undir skemmdum, og viðhald hans kosta stórfé. Miðleiðin er 4.140 metr. lengri en fremsta leiðin. Á miðleiðinni ekkert brúarstæði á Blöndu (hefði mátt bæta við: "ekkert vað"), og sömu ókostir sem á ystu leiðinni, hvað snertir skemmdir á veginum og hættur fyrir hann. Eftir skýrslunni, er fremsta leiðin 1. styst eins og áður er sagt, 2. skriðulaus, 3. hallaminnst, 4. efni nægilegt og auðflutt að veginum, 5. kostnaðarminnst (það munar 26.700 kr. á henni og miðleiðinni, hvað þá á henni og ystu leiðinni.) 6. Á fremstu leiðinni er gott vað á Blöndu. 7. Skammt þar frá góður ferjustaður, og 8. örskammt þar frá mjög gott brúarstæði.
Ef farið væri eftir tillögum vegfræðingsins, eru það 11.400 metr. um 5.7000 faðmar, sem þarf að gjöra til þess að fá besta veg alla leið frá Giljá að Blöndu, því hann ræður til að byrja lítið eitt fyrir sunnan Laxá (fremri), en þangað er allgóður vegur frá Giljá, eins og nú er. En einmitt nærri þessu er ysta leiðin lengri en hin fremsta. Frá Blöndu að Bólstaðarhlíð er væn bæjarleið, og góður vegur eins og er.
Þegar þetta skýlausa álit vegfræðingsins var nú fengið, virtist meiningarmunurinn eiga að vera jafnaður, og hvíla hefði mátt við úrslit hans, sem hlýtur að hafa best vit á þessu. Ef ekkert er eftir á farið að orðum slíkra manna, virðist ákvæði laganna um þá meiningarlaust, og fjárveitingar þingsins til þeirra hlægilegar. En svo er að sjá, sem landshöfðingja vorum hafi enn þótt vandi fyrir sig að ákveða aðalpóstleiðina hér í austursýslunni, því eftir allt þetta, er nú málið látið ganga afturábak, frá landshöfðingja aftur til amtsráðs, frá amtsráði aftur til sýslunefndar til þess að segja álit sitt um álit vegfræðingsins. Það virðist ekki hefði átt að vera vandasamt að gefa þetta álit, þar sem enginn hafði hrakið eitt einasta atriði í skýrslu vegfræðingsins, og enginn af meðferðarmönnum málsins hefir litið í þá fræði, sem vegfræði heitir. Beinast virðist liggja við, að álíta, að hann hefði rétt fyrir sér, og réði til hins hentugasta í máli þessu. Þetta hefir og amtsráðinu eflaust fundist, því nú þegar það í annað sinn fær málið til meðferðar, fellur meiri hluti þess (amtmaður og Einar í Nesi) inn á skoðun Siwersons, og ræður til að aðhyllast fremstu leiðina (í fyrra skiptið lá engin vegfræðingsskoðun fyrir ráðinu). Með þessu viðurkennir amtsráðið, að það standi Siwerson eigi ofar í vegfræðinni.
En nú fyrir fáum dögum kemur málið í annað sinn ofan til sýslunefndar, þar er ekki báglega ástatt, þar úir og grúir af "Ingeniörum", sem ekki eru einungis jafnsnjallir herra Siwerson, heldur svo langt fyrir ofan hann, að í skýrslu hans og áliti er ekki heil brú eftir að þeir hafa meðhöndlað það. Að vísu höfðu þeir ekkert mælt af vegarsvæðunum, ekkert grafið, ekkert reiknað, en það var talað allt í rot. Já það er einkennilegt að sömu sýslunefndarmennirnir, sem 1888 lofuðu mest og best miðleiðina, og töldu henni, bæði í ræðu og riti, flesta kosti fram yfir ystu og fremstu leiðina, þeir kveða nú með einum rómi þá skoðun sína niður, því enginn þeirra vildi nú nýta hana lengur, en samþykja nú allir ystu leiðina, enda er hún nærri 6000 metr. lengri en miðleiðin, og mörgum þúsundum kr. dýrari, hvernig gat þá komið til skoðunar, að aðhyllast þá leið, sem var nærri 1½ mílu styttri, og sparaði marga tugi þúsunda króna, eins og fremsta leiðin gjörir? Hver dirfist nú að segja að Ísland sé fátækt land? Hver dirfist að segja, að hentugra sé að fara stuttan veg en langan, ódýran veg en dýran? Hver dirfist að segja, að skriður séu vegum hættulegar, eða að vatnsföll geti unnið á vegum? Hver dirfist að segja, að Ísland eigi nú engan "Ingeniör"?
III.
Það er svo að sjá, sem sýslunefndarmenn hafi viljað forðast, að vera nokkursstaðar nálægt skoðunum Siwersons, og því hafi þeir yfirgefið hinn fyrri dýrling sinn, miðleiðina, og hörfað út að sjó. (Skaði að engin tillaga lá fyrir um, að láta aðalpóstleiðina liggja út á Skagastr) - Ég játa mig vankunnandi mjög í fræði "Ingeniöra", og voga mér því ekki að rengja eða lítilsvirða álit og áætlanir þessa vegfræðings, og það hefði ég aldrei lagt út í, þó hann hefði ráðið til að aðhyllast aðra leið en Svínavatnsleiðina (fremstu leið), því ég álít sjálfsagt að virða og fara eftir skoðunum þeirra manna, sem hafa full skilyrði fyrir þekkingu sinni, reynslu og lærdómi, meðan skoðanir þeirra eru með öllu óhraktar. En það vill svo vel til, að löngu áður en nokkur vegfræðingur var útnefndur til að fjalla um þetta mál, hafði ég látið í ljósi álit mitt um þessar vegastefnur, og blandast þá eigi hugur um að fremsta leiðin væri alls yfir hentugust. Þessi skoðun mín, sem að eins var byggð á margra ára kunnugleik á vegarsvæðinu og heilbrigðu skyni, en engri vegfærði stendur eigi aðeins óveikluð enn þá, heldur hefur hún nú styrkst ósegjanlega mikið við álit Siwersons. - Ég skammast mín ekki fyrir að segja það, að ég treysti lækninum betur til að tala um og ráðleggja heilt þeim, sem vanheilir eru, en þó 10 eða 11 ólæknisfróðir menn vildu fara og gefa sig við því. Ég treysti lögfróðum manni betur til að gjöra rétt úrslit á "jurdisku" efni, sem menn hafa deilt um, en 10-11 ólögfróðum mönnum.
Af því ég var og er svona mikið barn í vegfræðinni, gat ég ekki fylgst með meðnefndarmönnum mínum í sýslunefndinni, né gefið atkvæði mitt með hinum afar stóra vinkilkrók aðalpóstleiðarinnar út á Blönduós og fram allan Langadal, og sem þá byrjar annan vinkilinn fram við ármót Blöndu og Svartár upp að Hlíð að ógleymdum brattanum, skriðunum, landbrotunum af Blöndu, og hinum voðalegu ísbunkum í Hlíðarskriðu, sem ýkjulaust mestallan veturinn er mjög hættuleg leið, og mun sífellt verða, hversu breiður vegur sem þar kæmi, og sem Blanda gín neðanundir.
Ég man ekki allar þær gullvægu ástæður, sem þessi meiri hluti sýslunefndarinnar færði fyrir ystu leiðar áliti sínu; en það man ég, að á þögn Siwersons um Svartá voru allir hattar hengdir. Svartá á að vera jafnaðarlega mikill farartálmi - Ég leyfi mér að segja, að af öllum sýslunefndarmönnunum, er ég kunnugastur Svartá, og hefi án efa oftast átt yfir hana að sækja af þeim öllum. Eins og ég hefi áður lýst yfir, varð hún mér á 10 árum alls einu sinni að faratálma fyrir vaxtar sakir í vorleysingum. Hvaða vatnsfall, já, hvaða lækur á Íslandi, getur ekki orðið ófær, án þess hann sé kallaður verulegur farartálmi. Úr Svartá rennur mjög fljótt, og aldrei hef ég heyrt þess getið, að hún hafi verið ófær dægri lengur. Að Svartá liggja flatar eyrar, en hvergi í útdalnum háir bakkar til fyrirstöðu að komast að henni. - Svartá leggur yfir höfuð seint vegna kuldavermisvatns, sem í henni er, svo hún er reið lengi vetrar á auðu. Þegar hún ryður sig, hreinryður hún sig vanalega, og aldrei hefi ég séð ruðning til fyrirstöðu á eyrunum. - Það er undarlegt, ef Svartá er mikill farartálmi, að ég skyldi aldrei á 10 árum heyra þess getið, að menn tefðust við hana, en hún er auðvitað engin undantekning allra vatnsfalla frá að geta orðið ófær. Auk margra vaða á Svartá í úrdalnum, er fyrir utan og neðan bæinn Fjós, sem er rétt fyrir sunnan Gilsneiðing (póstleiðina upp á Vatnsskarð), ágætis vað; þar rétt hjá er lygn hylur, sem engum efa er bundið, að sé góður ferjuhylur, og sem oft er á ís, þó áin sé auð annarsstaðar. Ef nú póstur eða ferðamenn einhvern tíma skyldu teppast við Svartá utar, sýnist enginn ógjörningur, en örlítill krókur að fara yfir hana þarna; já ólíklegt að menn kysu það ekki heldur, en að klöngrast Hlíðarskriðu með lífshættu fyrir sig og hesta, og þá eiga eftir Hlíðará, sem sannast sagt er æði mikið hættulegra vatnsfall þó minni sé en Svartá. Það má reiða sig á, að sé Svartá ófær fyrir vorleysingar, er Hlíðará það einnig; og við Hlíðará tepptist oft bæði ég og messufólk; við Hlíðará tepptist póstur að mér ásjáandi, en aldrei við Svartá. Eigi póstleiðin að liggja utan Langadal, verðu brú nauðsynleg á Hlíðará, en getur sparast fyrst um sinn á Svartá. Enda hafa Bólstaðarhlíðarhreppsmenn oft sótt um fé af sýsluvegasjóði til að brúa Hlíðará, og var eitt sinn byrjað á að efna til hennar en við það situr, því að féð fékkst þá ekki. Hjá Hlíðará er hægt að komast ef fremsta leiðin væri tekin, að eins yrði þá að flytja bréfhirðinguna að Botnastöðum, þar sem hún var, eða Gili. - Þess er vert að geta, að fyrir utan mig og 2 menn aðra í sýslunefndinni, sem vel að merkja báðir eru Langdælir, eru allir aðrir ókunnugir Svartá og Hlíðará, margir þeirra hafa aldrei litið þær augum, og jafnvel eigi Blöndu heldur, sumir hafa örsjaldan, sumir aldrei komið að henni. Svona er nú þessi aðalsnagi tryggur.
En hvað gjöra nú þessir ystu leiðarmenn úr Laxá (ytri)? Svar: Ekkert, og þó er hún í sannleika engu minni torfæra en Svartá. Hún kemur úr Laxárvatni, og liggur leiðin yfir hana neðarlega nálægt sjó, á svo grýttu og vondu vaði, að annað eins vað þekki ég hvergi á Svartá, önnur vaðnefna er nokkuð neðar, djúpt með kaststreng í; enda meðan Laxárvatn er að leysa á vorin, er hún tíðum ófær, þar er ekki um marga vegi að velja til yfirferðar, nema að setja á hana brú, rúma brú, þriðju nauðsynlegu brúna til að geta notað ystu leiðina nokkurn veginn hættulaust, og auka kostnaðinn enn um nokkrar þús. króna, nei, enn betur, brú sjálfsagt nauðsynlega yfir Gunnsteinsstaða Síkið (þ. e. kvísl af Blöndu, sem liggur á veginum, djúp og tíðum ófær) það er fjórða brúin, og í fimmta lagi mundi vera oft þörf á brú yfir Auðólfsstaðaá, sem kemur ofan á þveran veginn ofan af Laxárdal.
Um þessa ystu leið hefur herra Siwerson eðlilega talað minnst í skýrslu sinni, af þeirri ástæðu, að honum hefur ekki komið til hugar, að vér yrðum þau börn að kjósa hana, þegar vegamunurinn og aðrir ókostir hennar væru oss kunnir. Enda er þessi ysta leið þannig til komin í fyrstu, að uppástungumaður hennar 1888 ætlaði eins og að ganga fram af mönnum með fjarstæðu sinni, hafandi ekki minnstu von um, að nokkur yrði með sér, en honum sjálfum var hún persónulega þægilegust.

Á fremstu leiðinni er einnig Laxá (fremri), sem kemur úr Svínavatni, segja mótstöðumennirnir. Það er satt, en vaðið á henni er við ós hennar, áður en nokkur sitra rennur í hana, vaðið er lygnt sem pollur, grunnt með sléttum malarbotni, að tala þar um brú er hlægilegt fyrir Íslendinga enn sem stendur.
Annar hattasnagi mótstöðumannanna er, að mig minnir, mismunurinn á brúarkostnaðinum yfir Blöndu útfrá og framfrá. Jú, eftir áætlun Siwersons, er brúin framfrá rúmum 8.000 kr. dýrari en útfrá, en skyldu ekki þær 8.000 kr. nást oftar en einu sinni af mismun vegakostnaðarins? 2)
Þá á vegfræðingurinn ekki að hafa reiknað neitt út, hversu miklu dýrara væri að koma brúarefninu fram eftir en uppá klifinn. Þetta er auðvitað sagt út í hött; en hafi hann gjört áætlun um hvað kostaði að koma brúarefninu fram á klif, þá hefir hann án efa gjört áætlun um kostnaðinn að koma því lengra á leið. Hvorugt er ástæða til að tortryggja - Af Blönduós á að vera í flestum vetrum ómögulegt að aka þungu æki fram í Blöndudal; en sannleikurinn er, að af Ósnum er oft örðugt að aka einmitt upp að klifjum, en úr því þangað er komið, kemur víst enginn sá vetur fyrir, að eigi sé alhægt að aka fram í Blöndudal - og Svartárdal, annaðhvort eftir Blöndu sjálfri, eða flóunum og vötnunum á Ásunum. Reyndar hefir hengibrúarefni aldrei verið ekið þessa leið, en sjálfur hefi ég látið aka þessa leið 1000 pundum korns í einu hingað á heimili mitt, á einum hesti, og gekk það ágætlega vel. Öðru sinni lét ég aka af Ósnum brúartrjánum í hina fyrirhuguðu Hlíðarárbrú. Efninu í Svínavatnskirkju var ekið þessa leið, og fjöldanum af stærstu trjánum í Bólstaðarhlíðarkirkju var ekið af Ósnum. Þetta finnst mér vera fremur til greina takandi, en bláber reynslulaus orð hinna móthverfu.
Þá er einn kostur enn á fremstu leiðinni, sem hvorug hinna á til, en það er Svínavatn, sem er stór hluti leiðarinnar að Blöndu. Flesta vetra liggur það megnið af vetrinum undir ís, og vanalega glærir ísar frá báðum endum þess. Er nú annað eðlilegra, en að bæði póstur og ferðamenn milli fjórðunga, fari Svínavatn að vetrinum, hvar svo sem aðalpóstleiðin liggur um sýsluna? Ég segi nei; enda hefir núverandi póstur sagt, að hann óneyddur færi eigi aðra leið; en að fleygja mörgum tugum þúsunda í veg, sem ekki er farinn af þeim, sem hann er ætlaður, er ekki við vort hæfi. - Ennfremur má geta þess, er um kostnaðinn er að ræða, að 1888 var sú hugsun sýslunefndarinnar, að láta veginn víða liggja eftir fjallshlíðunum í Langadal. Siwerson vegfræðing kom eigi einu sinni til hugar að mæla þar, heldur mældi hann niðri í dalnum á láglendinu. Og með því að nú minnast þessir menn ekkert á fjallshlíðaveg framar, er að sjá, sem þeir álíti þetta þó eigi öðru jafnvitlaust hjá vegfræðingnum, en við þetta eykst kostnaðurinn að stórum mun, því vegurinn liggur þá víða yfir blómlega flæðiengi, sem landssjóður verður fyrst að kaupa samkvæmt lögunum undir veginn, og ég efast ekki um, að Laugdælum þykir hver faðmurinn úr þessum engjum sínum mikils virði sem von er. Á fremstu leiðinni eru að vísu engjar sumsstaðar, en þær eru lítilsvirði í samanburði við Langadalsflæðin, og víða eru á þeirri leið aðeins óræktar og móar, mýrar, holt og melar, sem ekkert verð er í.
Þegar mótstöðumenn mínir í máli þessu í sýslunefndinni eru gjörtæmdir af sennilegum (ekki sönnum) ástæðum fyrir áliti sínu, snúa þeir að lögunum sjálfum, að sýna, hversu óhæfilegt sé að hugsa til akvega eða 6 álna breiðra vega hér hjá oss, og ráða til að leggja að eins klyfjagötur. Ég veit reyndar eigi hverjum þeir félagar mínir ætla að fara eftir þessari ráðleggingu, hvort það er hugsunin, að landshöfðinginn einn breyti nú þegar lögunum og fyrirskipi að leggja klyfjagötur í stað 6 álna breiðra vega eða hvort Húnavatnssýsla ein sé óhæf fyrir akvegi. Yfir höfuð kemur þessi tillaga, eins og nú stendur, eins og úr leggnum. Við höfum eitt sinn lög, sem við eigum að hlýða þar til þeim er breytt. Sök sér hefði verið, ef klyfjagatnafýsnin var ómótstríðanleg, að landshöfðinginn hefði verið beðinn um, að fresta því, að ákveða aðalpóstleiðina, þar til alþing væri búið að breyta lögunum og koma klyfjagötunni á. En séu nú klyfjagötur hentugri en 6 álna breiðir vegir, mega þær þá ekki liggja þar, sem þær eru hentugastar til umferða? Má þá ekki eins leggja klyfjagötu meðfram Svínavatni eins og fram og út Langadal, eru ekki sömu kostir og ókostir beggja leiðanna hvort heldur er klyfjavegur eða akvegur?
Þó nú svo ólíklega kunni að fara, að þessi ysta leið verði gjörð að aðalpóstleið, er ólíklegt að alþing verði fúst til að fleygja peningum alls landsins þannig á glæður, úr því það væri þvert ofan í tillögu amtsráðs og vegfróðra manna (sbr. 6. gr. laga nr. 25, 10. nóv. 1887), sem líkindi væru til að ættu að hafa meira að segja, en meiri hluti einnar sýslunefndar, sem er sannarlega ekki vegfróð; og suma norðanþingmenn hefi ég heyrt segja, að þó vegurinn yrði lagður ofan á Langadal yfir hjá Tindum (hvað þá út á Bl. ós), mundu þeir aldrei fara hann. En yrði ysta leiðin ofan á, þætti mér sjálfsagt, að fleiri sýslufélög landsins vildu fá samskonar aðalpóstleið. T. d. ætti þá aðalpóstleiðin í Skagafjarðarsýslu að leggjast út á Sauðárkrók, já fyrir því væru ótal ástæður gildari en fyrir Blönduósleiðinni hér. Eins ætti þá að leggja aðalpóstleiðina um Þingeyjarsýslu út á Húsavík, en ekki fram um Staði o. s. frv. Út á Húsavík og Sauðárkrók er góður vegur, og sömuleiðis þaðan og norður á við, svo tiltölulega væri lítill kostnaður að koma þeim krókum á, ef nauðsynin krefði; en það er svo merkilegt, að til þess að geta fengið nær 1½ mílu krók á aðalpóstleiðina í Húnavatnssýslu þarf að búa til alveg spánýjan veg sem kostar marga tugi þús króna eftir hinni afarlöngu sveit Langadalnum, og síðan eiga undir von, hvort hann verður farinn eða ekki, og varanlegleikinn mjög vafasamur vegna landslagsins. Það er og einkennilegt að aðalpóstleiðin frá Reykjavík til Akureyrar, og yfir höfuð aðalpóstleiðir landsins, liggja svo krókalaust sem frekast má, svo komist þessi ysta leið hér á, er það eini verulegi krókurinn, og þó er til því nær bein leið nálægt miðbiki sýslunnar, hafandi ótal sannaða kosti framyfir vinklaleiðina.
Á sýslunefndarfundinum 1888 var miðleiðinni talið eitt með öðru það til gildis, að hún lægi um miðja sýslu, nú er það enginn kostur lengur hjá sömu mönnunum, en álitið aftur á móti hentugast að þræða jaðra sýslunnar með ókleyfum kostnaði og þvert ofan í vilja almennings og pósts. Og viti menn, hún er reynd þessi ysta leið, því hér um árið var hún gjörð að aðalpóstleið, en hvað skeði? Póstur heimtaði launabót, almenningur, nema nokkrir Langdælir og Ósverjar óánægðir, og leiðin á næsta ári afmáð sem óhafandi. Á þessu eina ári komst þáverandi póstur tvisvar í lífshættu í ytri Laxá, (fyrir framan Ósinn) sem nú er eigi nefnd sem farartálmi. Og nú væri fróðlegt að fá að vita, til hvers aukapóstar eru settir; mun það ekki einmitt til þess að fara króknana af aðalpóstleiðinni svo aðalpósturinn þurfi ekki að tefja ferðina á því, en geti haldið sem beinast og greiðast.
Yfir höfuð er pósturinn og ferðamennirnir, sem þessi vegur er ætlaður, búnir að sýna, hvar vegurinn á að vera og á ekki að vera, með því að umferð þeirra er öll yfir fremstu leiðina, jafnvel þó nú sé vond yfirferðar, þegar Svínavatn ekki er á ís, en engin eftir hinum leiðunum, síst hinni ystu. Er þetta ekki sama, sem þjóðin, er notar, segi: "Ég vil hvergi hafa aðalpóstleiðina um austurhluta Húnavatnssýslu annarsstaðar en meðfram Svínavatni"? Og er þá ekki hart að segja við hana: "Þú hefur ekkert vit á þessu, þér er miklu betra að krækja um 1½ mílu út að sjó, og þó hálærður vegfræðingur, sem þú kostaðir til 3.000 króna, sé á þínu máli, þá er það allt eintómur misskilningur; þó þú á fremstu leiðinni hafir að velja um gott vað, ferju og ágætt brúarstæði á Blöndu allt hvað hjá öðru, þó leiðin sé styst, ódýrust, varanlegust og eðlilegust, þá er þetta allt fásinna móts við" -- ja móts við hvað? Það virðist varla annað svar til en "að fá að koma á Blönduós".
Það er ekki óeðlilegt, þó sumir ókunnugir héldu að ég berðist í þessa stefnu af því, að ég sé sjálfur í Svínavatnshreppi, og vildi halda mínum hreppi fram; en því til sönnunar, að það sé allt annað en hreppapólitík, sem ræður skoðun minni, læt ég þess getið, að meðan ég var prestur á Bergsstöðum, og hafði enga hugmynd um, að ég yrði í Svínavatnshreppi, eða að veglögunum yrði breytt, lét ég einmitt þessa aðalskoðun í ljósi út af þar til gefnu efni í ísl. blaði; og enn fremur vil ég segja ókunnugum það, að þó aðalpóstleiðin yrði lögð meðfram Svínavatni, hefir sveit mín svo sem ekkert gagn af þeim vegi, að eins örfáir bæir gætu notað hann til kirkju sinnar að Svínavatni á stuttum kafla.
Í febrúar 1891.
1) Hversu margar mundi mega telja eftir nokkur ár? Eigi ólíklegt að þá lægi vegurinn eigi lengur yfir þær, heldur undir þeim, þar sem hann verður að liggja við rætur á snarbröttu fjalli.
2) Ef maður einblínir í þessu máli aðeins á brú yfir Blöndu, og álítur það einu og fyrstu nauðsynina, sem að mínu áliti er alls ekki fyrsta skilyrðið, þar sem 3 lögferjur eru á ánni, þá á maður að einblína á hana þar, sem hún nær best tilgangi sínum, jafnvel þó hún yrði þar nokkuð dýrari, eins og með veginn yfir höfuð, hvað þá þegar gagnseminni sameinast afar mikill peningasparnaður í heild sinni.


Ísafold, 17. júní 1891, 18. árg., 48. tbl., forsíða:
Hér svarar Tryggvi Gunnarsson grein Þorláks Guðmundssonar varðandi brúargæslu og brúargjald á Ölfusárbrú en þeir eru ekki alveg sammála um það mál.

Brúargæsla og brúargjald.
til herra Þorláks Guðmundssonar
frá Tryggva Gunnarssyni
I.
Þú hefir tekið til íhugunar í Ísafold XVIII. 33-34 það sem ég skrifaði í sama blaði um "brúargæslu, vegi og brúargjald". Málefnið er mikilsvert, og getur orðið því til gagns, að það sé skoðað frá tveimur hliðum; auk þess þykir mér vænt um að tala við þig um "landsins gagn og nauðsynjar", eins og í gamla daga, þegar við vorum saman á þingi; við vorum þá oftast á líku máli, og svo fer enn, vona ég, þegar þú hefir hugsað málið betur. Þó þú segist hafa lesið grein mína aftur og aftur, þá verður þú enn að taka hana, eða málefnið til íhugunar.
Það getur verið, að þér eða öðrum lánist í bráð, að fá meiri hluta manna til að álíta brúargjald óþarft og óhentugt; en að þið fáið menn til að álíta nákvæma og duglega gæslu á öllum stærri brúm ónauðsynlega, því trúi ég ekki fyr en ég tek á því. Þetta síðara er aðalatriðið; því ef ekki er haft stöðugt eftirlit, einkum á hengibrúm og járnbrúm, þá endast þær meir en helmingi skemur, og eykur það bæði feykilega útgjöld landssjóðs og getur leitt til þess, að áhugi sá, sem nú er vaknaður til brúargjörða, hverfi aftur. Þetta skilst mönnum fyr eður síðar. Þegar svo langt er komið, að menn eru orðnir sannfærðir um nauðsyn brúargæslunnar, þá leið það af sjálfu sér, að ákveða þarf, hvar taka á kostnaðinn til hennar og viðhalds brúarinnar, og er þá um tvennt að velja, annaðhvort að taka hann af landssjóði eða brúarsjóði, sem myndast af fargjaldi þeirra, er yfir brúna fara. Ég álít það síðarnefnda hentugra og eðlilegra.
Gólfið í brúnni slitnar við það að gengið er á því, naglarnir og uppihöldin slitna í öllum samskeytum við hristinginn af umferðinni, farfinn dettur af, svo járnið stendur bert eftir, og ýmsir fara óvarlega yfir brúna af drykkjuskap, gapaskap og skeytingarleysi. Allt þetta orsakar umferðin, og því segi ég, að það sé eðlilegt, að þeir, sem yfir brúna fara, borgi fyrir það slit og þá gæslu, sem leiðir af yfirferðinni; enda er það tilvinnandi fyrir þá, þegar gætt er að því gagni, sem þeir hafa af notkun brúarinnar.
Hentugra, álít ég að vegfarendur greiði kostnaðinn, en landssjóður ekki, vegna þess, að þá á hann hægra með að leggja styrk til nýrra brúa, án þess að leggja nú gjöld á landsmenn, þegar hann er laus við gjöld til gæslu og viðhalds á þeim brúm, sem lagðar eru.
Það er ekki þér líkt, að ganga fram hjá reynslunni og byggja á hugboði, eins og sumir hinna yngri manna gjöra nú um stundir; en þú verður þó að játa það, að þú hefir ekki reynslu fyrir þér, heldur hugboð í þessu efni. Þú hefir fáar stórbrýr séð, og því síður þekkir þú, hvað til þeirrar framtíðar heyrir, eður hve mikill endingarmunur er á vel hirtri og vanhirtri brú; og svo er um flesta Íslendinga. Til þessa tíma hafa fáar brýr verið til á Íslandi, og lítil reynsla fengin fyrir því, hve lengi þær endast. Þú verður því, svo framarlega sem þú ekki villt fyrirlíta þekking og reynslu, að byggja á venju og reynslu annarra þjóða, sem brýr leggja og brýr hafa haft.
Ég held að fáir núlifandi Íslendingar hafi ferðast meira en ég, þegar lagt er saman það, sem ég hef farið um landið, þvert og endilangt, og svo mun um önnur lönd. Ég hef ekki farið þetta með aftur augun, heldur hef ég veitt því eftirtekt, sem fyrir augun hefir borið, og ég hefi séð það, að meðferð á vegum á Íslandi, er svo, bæði af náttúrunnar og manna völdum, að umsjón og viðhald er nauðsynlegt, og ég hef séð erlendis, að engum kemur til hugar, að láta vegi, brýr eða byggingar vera án gæslu.
Margir hafa borið það fram, bæði á þingi og annarsstaðar, að sanngjarnt væri, að Árnesingar og Rangvellingar fengju brú á kostnað landssjóðs, fyrir það, að þeir hefðu ekkert gagn af póstskipaferðunum í samanburði við menn í öðrum fjórðungum landsins, og þú höggur í sama farið í grein þinni. Þó ég sé þessu ekki í alla staði samþykkur, þá skal ég þó í bráð fallast á, að rétt sé, að suð-austursýslur landsins fái brú, á móti því, að menn austan-, norðan-, og vestanlands hafa gufuskipaferðir. En þá verður þú að halda setningunni með mér til enda, en ekki hætta á miðri leið.
Austfirðingar, norðlendingar og vestfirðingar hafa fengið gufuskip; þetta er satt; en gættu þess, að notkun þess er ekki gefins; ef þeir senda bréf, böggul eða vörur, eða fara sjálfir til næstu hafnar, þá verða þeir að greiða flutningsgjald fyrir það, þegar þeir senda hest eða klyfjar eða fara sjálfir yfir brúna, svo þessi marg-upptekna samlíking á brú og gufuskipi er til stuðnings mínu máli en ekki þínu.
En nú erum við að nálægjast merg málsins, þegar um framfarir er að ræða, og það er: að flestar verklegar framfarir heimsins byggjast ekki á því, að menn njóti þeirra gefins, heldur á því, að þeir sem nota þær borgi fyrir það, svo þær beri sig sjálfar að öllu eða miklu leyti. Stjórnendur landa og stórfélög leggja járnbrautir og fréttaþræði, og smíða stór skip, ásamt mörgu, er til framfara heyrir fyrir þjóðirnar, en því nær allt þetta er gert í þeim tilgangi, að það skuli geta svarað kostnaði fyrr eður síðar. Í einu orði, ríkin og félögin segja við einstaklinginn: "Ég skal greiða för þína, og gjöra ýmsar framfarir þér til léttis, en þú verður að borga fyrir það, ef þú vilt nota það". Ég get ekki séð nokkuð í móti því, að vér semjum okkur að sið annarra þjóða í líku efni.
Ég veit að sönnu, að þú getur minnt mig á, að margar brýr séu erlendis, sem ekkert kostar að fara yfir. Þetta er satt; en þó borga farþegar fargjald fyrir yfirferð af meira en helmingi af öllum þeim brúm, sem til eru, þegar járnbrautarbrýr eru meðtaldar.
Brú er á Jótlandi yfir Limafjörð, sem allir þurfa að borga gjald fyrir, er yfir fara, og í Þýskalandi eru nokkrar brýr, sem greiða þarf gjald fyrir, ef yfir er farið, og svona er víðar.
Ef þú segir það í alvöru, að ekki veiti af lögregluþjónum á hverja brú til að verja þær fyrir illri meðferð, þá hlýtur þú að álíta, að umferðin um brýrnar verði skaðlega skeytingarlaus, og þá getur þú ekki lengi verið mótfallinn brúargæslu, án þess að lenda í mótsögn.
Um kostnað við brúargæsluna höfum við mjög ólíka skoðun. Þú álítur brúargjald þunga byrði á núlifandi mönnum og eftirkomendunum; en ég álít góða brúargæslu og daglegt viðhald stóran ágóða fyrir hvorutveggju, og þó einkum fyrir eftirkomendurna: ágóðinn kemur fram í því, að brýrnar endast miklu lengur, svo þegar við kveðjum, þá verður hægt að afhenda eftirkomendunum góðar brýr, í staðinn fyrir ónýtar brýr, ef þær verða gæslulausar.
Þegar þú ert að fárast yfir kostnaðinum, þá getur þú ekki þess, að það fé, sem gengur til brúargæslunnar, verður kyrrt í landinu sjálfu. Það eru ekki útlendingar sem sjúga það fé út úr landinu; og mikið er það, ef slíkt ætti að vera tilfinnanlegt fyrir alla þá, sem yfir brúna fara, að greiða það gjald, sem ein fjölskylda landsins eigin börnum þarf sér til framfæris, þegar hún aftur á móti daglega lítur eftir því, að brúin sé í góðu standi til yfirferðar og starfar að betri ending brúarinnar.
Annað er það, sem við höfum alveg gagnstæða skoðun á. Þú segir; "Aðalástæðan á móti tollinum er sú, að landið er stórt og strjálbyggt og árnar margar, sem brúa þarf." Ég segi: af því landið er stórt og strjálbyggt og árnar margar, sem brúa þarf, þá verður landssjóði um megn án nýrra álaga á landsmenn að leggja allar þessar brýr og viðhalda þeim, nema létt sé undir með honum , að minnsta kosti hvað gæslu og viðhald snertir, með gjaldi því, er þeir greiða, sem yfir brýrnar fara.
Nú verða aðrir að dæma um þetta milli okkar.
Til skýringar vil ég setja hér eitt dæmi.
Að 30 árum liðnum hafa komið inn 40.000 kr. í fargjöldum. Þar af er meiri hlutinn eyddur til gæslu og viðhalds brúarinnar, en með sömu meðferð getur hún staðið önnur 30 ár án aðalaðgjörðar, og allir þeir sem greitt hafa gjaldið standa jafnréttir. Önnur brú jafngóð hefur staðið í 30 ár án daglegrar gæslu og án brúargjalds; þá er landssjóður búinn að greiða í aðgjörðir 10.000 kr. og brúin alveg ónýt, svo þá þarf að endurreisa hana. Dæmi þessi má setja upp á marga vegu, en ég held að þessi ágiskan sé ekki fjarri sanni.
Ég hef hér að framan minna talað um brúargæslu en brúargjald; orsökin er sú, að ég tel sjálfsagt, að flestir skynsamir hirðumenn álíti brúargæslu ómissandi, einkum á járnbrautum og hengibrúm. Það vill svo vel til, að flestir menn hafa veitt því eftirtekt, hve járn ryðgar fljótt, og verður ónýtt þegar það liggur úti í vætu, og hve nauðsynlegt það er, að vernda járnið með farva eða fitu fyrir verkunum loftsins. Það er ekki einungis, að járn verður ónýtt af ryði á fáum árum, heldur fúnar og tré á stuttum tíma, ef það er ekki málað eður tjargað. Í brúnni á Ölvesá verða meira en 100 tylftir af plönkum; það kostar líka peninga, ef kaupa þarf nýtt gólf vegna fúa, eftir fá ár.
Þú kallar brúargjaldið "nýjar álögur á sérstakar sveitir". Þetta er misskilningur. Brúargjaldið kemur í stað ferjutollana, svo þeir sem áður fóru yfir Ölvesá á ferju, greiða nú minna en áður, þegar þeir fara yfir ána á brúnni, og svo bætist þar við, að þeir komast allt af tafarlaust leiðar sinnar og eiga hvorki hesta eða varning á hættu.
Að allir þurfi að leggja til löggæsluvaldsins í landinu, að tiltölu réttri, er eðlilegt; því lagaverndin er jöfn fyrir alla í þjóðfélaginu. Friðsemdarmennirnir "Hallur á Horni og Lýður á Langanesi" sitja báðir jafnt í skjóli laganna; lögin hindra óróaseggina frá því að raska friði þeirra; lögin eru öllum jöfn; en brúin á Ölvesá verður þung á vögnunum til að flytja hana um allt land þegar einhver vill komast yfir áarsprænu. Dæmi þitt á því ekki vel við, þó það sé skemmtilegt.
Þú talar um "að óþekkt sé að menn láti gæslumenn fylgja þó þeir láni grip, hús eða skip" og ef "refar ásækja fé þitt" að "landssjóður græði ekki á því, þó menn séu settir í hegningarhúsið", að brúarvörðurinn, ef hann hefir veitingar "rýi á tvær hendur úr vasa þjóðarinnar", að "hótel eigi að vera á Þingvelli og við Geysi en muni verða siðum spillandi, ef það standi við Ölvesábrú", að "það sé ekki skylda vor að ganga berir fyrir eftirkomandi kynslóðum og skilja blóðið eftir í sporunum", sem sé fyrir brúargjaldið!!, "að ef engin sýnileg ráð væru þekkt til þess, að brúa ár, þá væri sjálfsagt að landssjóður kostaði ferjurnar að öllu leyti á póstvegum og fjallvegum".
Ég skal að eins geta þess, að langur tími mun líða þar til Jökulsá á Fjöllum og í Axarfirði verður brúuð nálægt póstveginum, sömuleiðis Eyjafjarðará, Héraðsvötnin og líklega Hvítá í Borgarfirði. Væri ekki best að fara að byrja á því, að gefa mönnum á kostnað landssjóðsins ókeypis ferjur á póstvegum yfir þessar stórár?
Að öðru leyti ætla ég ekki að svara ofannefndu, til þess að flytja ekki umræðurnar út í smámuni frá aðalatriðunum, og líka vegna kunningsskapar við höfundinn; því mér finnst sumt af því nokkuð óheppilegt.
Eigum við ekki, gamli vin, að koma okkur saman um, að koma þessu yfir á prentarana, og kalla þetta eina stóra prentvillu?
Jæja, þó við getum ekki orðið sammála um það, þá gjörir það minna til; hitt er meira vert, ef okkur tekst að sannfæra menn um að, að gæsla á brúm sé ómissandi, og brúargjald sé eðlilegt hjálparmeðal til þess, að sem flestar brýr komist sem fyrst á, og að þeirra verði vel gætt.
Að endingu skal ég segja þér í allri vinsemd, að auk þess sem þig vantar reynslu með brýr, þá vantar þig þekking til að skrifa um þetta mál. Ef til vill veistu, hver byggingarmunur er á fastri brú og hengibrú, en alls ekki þekkir þú, hvernig uppihöld og ýmsir partar eru samansettir, sem mæta mestum núningi í hengibrúm, eður hversu mikið slit orsakast af miklum hristingi, eður hversu mikils það er vert, að aftra öllum óþarfa hristingi og verja járn og tré sem best fyrir áhrifum loftsins. Ég vil því ráða þér til í bróðerni, að hætta þér ekki djúpt í næstu grein, því hvað gæsluna snertir að minnsta kosti, þá hefir þú í móti þér hvern einasta mann, sem hefir grundaða þekkingu á brúarsmíði og vill landi okkar vel.


Ísafold, 24. júní 1891, 18. árg., 50. tbl., forsíða:
Jens Pálsson segir samgöngumálið vera landsins mikilvægasta framtíðarmál.

Hið mesta velferðarmál.
Landsins mikilvægasta framtíðarmál og mesta velferðarmálið, sem rætt verður á næsta þingi er án efa samgöngumálið, af því að verulegar og fljótar framfarir þjóðarinnar í dugnaði, menning og velmegun eru komnar undir bættum samgöngum fremur en öðru, sem er á valdi næsta þings. Dugandi samgöngubætur hafa beinni og fljótari áhrif á þjóðarhaginn heldur en jafnvel hin æskilegasta stjórnarskrábreyting mundi geta haft í bráðina.
Hinar allra minnstu kröfur sem gjöra má til þingsins í þessu máli eru þessar:
1. Að póstleiðum sé svo fjölgað, að engan tíma árs líði meira en mánuður milli póstferða nokkursstaðar á landinu. Það er sannarlega hneyksli, að bréfaskipti manna með póstum skuli vera því sem næst heft að sumrinu, og að heilar sýslur landsins skuli ekki geta með póstum fengið fréttir af þinginu frá því þing er að eins sett og til þingloka.
2. Að landið haldi úti að minnsta kosti gufuskipi, er stöðuglega sé í strandferðum þá mánuði ársins, er tiltækilegir þykja til þess.
Strandferðirnar sem vér höfum eru of fáar og óhagkvæmar, af því þeim ekki til hlítar hagað eftir vorum þörfum; vér þörfnumst strandferða, sem hagað sé eingöngu eftir ferða- og flutningaþörfum vorum. -
Til þess að reisa sér ekki hurðarás um öxl, gæti landið í þessu skyni tekið að eins eitt lítið gufuskip á leigu, og látið það stöðugt vera á ferðinni t. d. 7 mánuði árlega. Sé gjört ráð fyrir skipi er hafi 100 farþega rúm og beri 50 smálestir af flutningsvöru, þá kostar það (þ.e. skipið, skipahöfnin og kolin) hér um bil £ 320 (=5.760 kr.) um mánuð hvern, eða í 7 mánuði 40.320., reiknað eftir verðlagi því, sem nú er á skipaleigum og kolum erlendis.
Slíkt skip gæti miklu áorkað og verulega bætt úr hinu óþolandi samgönguleysi. Kostnaðurinn, liðugar 40.000 krónur árlega, ætti ekki að vera landssjóði ofvaxinn, því upp í hann mundu fást drjúgar tekjur bæði fyrir mannflutninga og vöruflutninga, þótt hvortveggi flutningurinn væri gjörður mun ódýrari en vér höfum átt að venjast, og svo má verja til þessa þeim 18.000 króna, sem nú er varið til þeirra strandferða, sem vér höfum átt við að búa.
3. Að landssjóður styðji að einhverju leyti þær tilraunir, sem einstakir menn eða félög gjöra til að koma upp gufubátum til umferða á einstökum flóum og fjörðum.
4. Að þingið annaðhvort breyti gagngjört hinum gildandi vegalögum, eður nemi þau úr gildi og semji önnur nú í þeirra stað.
Það hefir verið sýnt fram á það ýtarlega í Ísafold, að hin núgildandi vegalög eru yfir höfuð óhagfelld og í sumum atriðum fráleit. Aðalgalli þeirra er sá, að frumstefna þeirra er skökk. Aðalpóstvegirnir, sem liggja víðast um þver héruð, en annars yfir fjöll og firnindi og jökulsársanda, eru í lögum þessum hafðir í fyrirrúmi fyrir öðrum vegum; þá á að leggja sem akvegi og landssjóður að kosta þá. Þetta er röng stefna í lögunum; þar á þvert á móti að leggja akvegina, sem flutningsmagnið er mest, og þess vegna einnig flutningsþörfin brýnust.
Gjörum ráð fyrir, að vér mættum verja 4 til 5 milljónum króna til þess að leggja akvegi á öllum aðalpóstleiðum, og minna mundu þeir ekki kosta, þótt jökulsársandarnir í Skaptafellssýslum væru undanskildir, (en um þá mun tæpast unnt að leggja akveg, þótt til þess væri varið hundruðum milljóna króna), gjörum og ráð fyrir að aðalpóstvegirnir væru komnir upp og yrði svo við haldið með ærnum kostnaði, - samt sem áður yrðu aðflutningar bænda í flestum héruðum landsins jafn-erfiðir eftir sem áður. Í hinum gildandi vegalögum er ekki tekið tilhlýðilega til greina, hvar skór vegaleysisins kreppir óþyrmilegast að. Þess vegna þarf að breyta þeim í þá átt, að akvegir þeir, sem gjörðir verða fyrst um sinn, verði miðaðir við flutningsmagn og flutningaþörf almennings, og liggi þess vegna upp eftir héruðum frá höfnum þeim, er vöruflutningsstraumarnir að og frá landi liggja um, en sjórinn sé notaður til ferða og flutninga hvar sem því verður við komið, af því að hann er sú braut, sem ekkert kostar og aldrei þarf að gjöra við. Öðrum vegum ætti fyrst um sinn að halda við samkvæmt notkun þeirra sem reiðvegum eða lestavegum, en brúa torfærar ár eftir föngum.
5. Að þingið af ýtrasta megni stuðli að því, að málþráður verði sem fyrst lagður til Íslands.
p.t. Reykjavík 23. júní 1891.
Jens Pálsson.


Ísafold, 24. júní 1891, 18. árg., 50. tbl., bls. 199:
Hér er sagt frá þingmálafundi Kjósar- og Gullbringusýslubúa sem vilja láta setja toll á Ölfusárbrúna.

Þingmálafundur Kjósar- og Gullbringusýslubúa.
Hann var haldinn 20. þ. m., í Hafnarfirði, eftir fundarboði þingmannanna, og mjög slælega sóttur; alls 1 (einn) maður úr suðurhreppum sýslunnar, fyrir sunnan Hafnarfjörð, tveir úr Kjósarsýslu, báðir úr Mosfellssveit, 3 Seltirningar, og 12-14 úr Garða- og Bessastaðahreppum, þar á meðal Hafnarfjarðar verslunarstað, að þingmönnum meðtöldum.
.....
4. Brúartollar. Fundurinn vildi láta leggja toll á Ölfusárbrúna og allar þær stórbrýr, er gerðar kynnu að verða á landssjóðs kostnað.


Ísafold, 11. júlí 1891, 18. árg., 55. tbl., forsíða:
Þorlákur Guðmundsson andmælir Tryggva Gunnarssyni varðandi brúartoll á Ölfusárbrú og vill meina að brúin þurfi ekki fastan brúarvörð.

Enn um brúartoll.
Þó vér hvorki biðjum, né bjóðum, fáum vér oft það sem vér viljum.
Hr. Tryggvi Gunnarsson hefir í 48. tbl. Ísafoldar 17. júní þ.á. sagt, að ég verði enn að taka hina fyrri grein hans um brúargæslu til íhugunar. Ég get ekki þekkt, að ég hafi neitt gott af að lesa þessa ritgjörð hans oftar en ég er búinn, og má vera að mér takist ekki heldur að sannfæra hann.
En þó okkur ekki takist að sannfæra hvor annan um það, sem okkur hér ber á milli, þá er ekki óhugsandi, að við getum sannfært fleiri eða færri nær eða fjær um það, hvort hyggilegra sé, að setja fastan brúarvörð við Ölvesárbrúna og tolla hana, eða hafa eftirlitið lauslegt og tolla hana ekki.
Það sem okkur hér ber á milli, er ekki annað en það, að hann vill hafa lengjuna breiða, en ég við hafa hana mjóa og ná sama tilgangi, hvað endingu á brúnni við kemur. Mér hefir aldrei dottið í hug að halda því fram, að brúargæsla væri óþörf. Þvert á móti hefi ég verið honum samdóma um það, að hirða á brúm og vegum og viðhald hafi ekki verið í því lagi, sem það hefði átt að vera og vel getað verið, - án þess þó að setja fasta gæslumenn. Það eru eins miklar ástæður til að hugsa og segja, að þó nú væri sett föst brúargæsla og lagður á brúartollur, og eftir lengri eða skemmri tíma yrði það niðurstaðan, þó brúin nú ekki verði tolluð, að tolla hana og hafa fastan brúarvörð. Það hefir ólíklega verið spáð og þó ræst. Og það mun samkvæmara framfarastefnu tímans, að gera allar samgöngur sem léttastar og greiðastar.
Að gólfið í brúnni slitni o. fl., verður óumflýjanlegt, úr því að hún er gerð til almennra afnota, og fúnaði jafnt þó engin skepna stigi fæti á hana, og enginn brúarvörður getur varnað því.
Það getur þó ekki verið hugsunin, að brúarvörðurinn eigi að teyma undir hverjum manni.
Nú vita það allir, að einn maðurinn fer harðara en annar, án þess að sagt verði að hann fari ógætilega, einn hesturinn er harðari í sporum en annar, hvort sem honum er riðið eða hann er rekinn eða hann er teymdur. Færi nú brúarvörður að gerast mjög smámunalegur í þessu, mundi hann fljótt verða óvinsæll, og staðan yrði honum allt annað en þægileg.
Til að mála brúna, sjá allir að ekki þarf fastan mann, því ekki getur komið til þess, hvernig sem á stendur, að mála hana oftar en tvisvar á sumri, enda væri tilgangslaust að gera það á vetrum. Þó það ætti að sópa hana á hverjum degi og þvo hana á hverju laugardagskvöldi, þá gæti bóndinn á Selfossi séð um það.
Við göngum nú báðir jafnt fram hjá reynslunni í þessu efni - þar sem þetta er nú fyrsta brú í sinni röð, sem lögð er hér á landi. Hefði Ölvesá og Þjórsá báðar verið brúaðar undir eins, svo verið settur fastur brúarvörður við aðra, en hinnar gætt lauslega, þá væri það fyrst eftir 10 ár eða lengri tíma, að sjá hefði mátt, hver munurinn var. Hann vill byggja allt á erlendri reynslu. Við því hættir mörgum, sem lengi hafa verið erlendis - og getur oft verið gott en stundum viðsjált. Við höfum marga fallega flíkina fengið bæði frá Dönum og öðrum þjóðum, en betra hefir verið að sníða margar af þeim upp, ef vel átti að fara.
Ekki skal ég gera lítið úr verklegri þekkingu hans, reynsluvísindum og ferðafrægð, og kemur honum nú allt þetta í góðar þarfir, og getur þurft á öllu því að halda, áður þessu verki sé lokið. Ég vildi að hann hefði bæði heiður og hag af brúarsmíðinu. Verði brúin traust gerð, verður það honum til sóma, og er hann þá líka vel að því kominn, þó hann hefði hag af samningnum.
Ein brú, allt svo góður gripur hún er fyrir austursýslurnar, vegur lítið á móti þeim þægindum, sem gufuskipaferðirnar veita þeim, er þær geta notað, þó að brúin sé ótolluð og fargjald verði að greiða fyrir menn og muni, sem með gufuskipum er flutt.
Hann játar það, að í öllum löndum séu margar brýr, sem ekki séu tollaðar, því má þá ekki eins taka það sér til fyrirmyndar til að byrja með hér?
Það er fullkomin alvara mín, að ekki veiti af að hafa lögregluþjón við hvorn brúarsporð. Hann segir sjálfur, að svo sé það í öðrum löndum, og hann vill steypa þetta allt í erlendu móti, svo það eru í rauninni hans orð, en ekki mín.
En svo eru ástæður mínar fyrir, að þessa þyrfti hér, með öllu óhraktar, ef brot ættu sér stað og sektirnar ættu að nást. En nú sannfærist ég æ betur og betur um, að brot í þessu efni vart munu eiga sér stað, því svo viturlega mun fyrir séð, að brúin ekki sé of breið, og handriðin ekki of há, svo hún leyfir ekki að þar sé dansað eða farið í kappreið. Ég segi því enn sem fyr, að brúin mun best gæta sín sjálf, hvað það atriði snertir.
Þá að féð verði kyrrt í landinu, vil ég ekki búa til ný embætti að óþörfu einungis handa einni fjölskyldu til að lifa á, enda er nú á tímum engin trygging fyrir því, að menn ekki fari af landi burt með féð, sem þeir hafa grætt á feitum embættum eða á annan hátt, eins og selstöðukaupmenn.
Við erum nú að vísu vanir því, að verða að taka fé úr vasa margra barnanna, og leggja einni fjölskyldu; en ekki er ráð að fjölga eymdum vorum í því efni.
Töludæmi hans er, eins og hann sjálfur játar, að það má setja slík dæmi á marga vegu. Það má eins vel segja, meðan að alla reynslu vantar hér í þessu efni, að brú, sem staðið hefir í 30 ár, haft fastan brúarvörð og búið er að kosta til beinlínis í laun, auk viðhalds, 30-40.000 kr., sé eða verði ekki neitt betri en önnur jafngömul, sem ekki hefir haft nema lauslegt eftirlit og ekki hefir verið til kostað nema 6.000 kr. eða 200 kr. á ári.
Eins og brýr og vegir ekki verða fluttir um allt land, eins eru hinir æðri dómstólar, að það verður að brúka þá á sínum stað. En svo eru vegir gerðir fyrir mennina, en mennirnir ekki fyrir vegina. Ef að Hallur á Horni þarf að fara yfir brúna á Ölvesá, á hann ekki að þurfa að borga brúartoll, hvort hann hefir greitt nokkuð eða ekki neitt í landssjóð. Þetta dugar ekki að mæla á hreppakvarða.
Hann hefir nú gert mér svo hægt fyrir að svara með því einungis að telja upp mest af ástæðum mínum. Þetta er nú líklega gert af góðmennsku og vorkunnsemi við mína veiku krafta. Það segir sig sjálft, að allir geta ekki jafnfljótt fengið bót meina sinna, hvað samgöngurnar snertir.
Ekki get ég haft samkomulag við hann um það að koma neinu af því sem ég hef skrifað um þetta mál, yfir á prentarana, því það er ekki minn vani og á ekki við mitt skap. Geti ég ekki varið það sjálfur eða það verji sig sjálft, þá falli það á mig.
Ég skal ekki hót afsaka þekkingarleysi mitt í þessu efni; en eins og ég hefi áður tekið fram, vantar hann reynslu og þekkingu með slíka brú sem þessa hér á landi.
Þar sem hann segir að mig vanti þekkingu á því, hvernig verja eigi járn og tré fyrir áhrifum loftsins, þá þakka ég fyrir kenninguna, en tek hana ekki til greina; - Það er víst að fjöldi manna hér á landi þekkir það eins vel og hann, og ég hefi talað við marga slíka menn, svo að ég hefi ljósa hugmynd um það.
Ef gert er ráð fyrir, að enginn nema hann einn hafi grundaða þekkingu á húsasmíði og vilji landinu vel, þá hefi ég hann allan og einn á móti mér. Svo mun ég að mestu gefa honum eftir síðasta orðið í þessu máli, því ég er ekki vanur að leggja mál í langvinnar þrætur, hvort sem ég á við rauða eða hvíta.


Þjóðólfur, 17. júlí 1891, 43. árg., 32. tbl., bls. 134:
Hér er skýrt frá þingmannafrumvörpum er varða samgöngumál.

Alþingi.
III.
Þingmannafrumvörp þessi hafa við bæst síðan seinast:
....
Samgöngufrumvarp: séra Jens ákveður, að landssjóður skuli halda úti á sinn kostnað gufuskipi í strandferðum við landið ár hvert eigi skemur en 7 mánuði; skipið skal landssjóður leigja. Landsh. á eftir tillögum Alþingis að semja ferðaáætlun þess, skipa framkvæmdarstjóra, til að stjórna strandferðunum, en sameinað alþingi kýs meðráðamenn hans.
Allir vegir á landinu eiga að vera: 1. aðalflutningabrautir upp frá kaupstöðum og helstu hafnstöðum, og skal landssjóður kosta þá og láta þá sitja fyrir öðrum vegum; 2. aðalpóstvegur, 3. fjallvegir, sem landssjóður skal einnig kosta báða, 4. sýsluvegir og 5. hreppavegir. Nefnd: Jens P., Sk. Thor., Sig. St., Þorv. Kjer. og Árni Jónsson.


Þjóðólfur, 31. júlí 1891, 43. árg., 35. tbl., bls. 147:
Samkvæmt viðaukalögum má verja allt að 2.000 kr. til að styrkja Ölfusárbrú með hliðarstrengjum.

Lög afgreidd frá alþingi.
V. Viðaukalaga við lög um brúargjörð á Ölvesá 3. maí 1889.
Í viðbót við þær 40.000 kr., sem verja má úr landssjóði samkvæmt lögum 3. maí 1889 til brúargjörðar á Ölvesá, má ennfremur verja úr landssjóði allt að 2.000 kr. til að styrkja brúna með hliðarstrengjum.
........


Ísafold, 5. ágúst 1891, 18. árg., 62. tbl., forsíða:
Tryggvi Gunnarsson lýsir enn einu sinni skoðun sinni á nauðsyn brúargæslu á Ölfusárbrú og segir það fullkomlega eins nauðsynlegt að verja hengibrýr fyrir óþarfa hristingi, eins og að mála járnið og tjarga tréð.

Ofurlítil ádrepa.
Svo langt er þá komið áleiðis, að alþingismaður Þorlákur Guðmundsson álítur brúargæslu nauðsynlega; fleiri vantrúaðir munu koma á eftir; að eins þyki honum að ég risti "lengjuna breiða"; hann vill hafa hana "mjóa", en þá á hann eftir að sýna almenningi, hve stór breiddarmunurinn er.
Líklega setur landshöfðingi reglur fyrir gæslunni á Ölvesárbrúnni - ef gæslan annars verður nokkur -, hvort heldur bændurna á Selfossi, eða reglulegur brúarvörður verður fenginn til að gæta hennar. Þar verður sjálfsagt gert að skyldu að gæta brúarinnar fyrir ryði og fúa, sem framast er unnt, og enn fremur verja hana fyrir skeytingarlausri og skaðlegri umferð vegfarenda m.fl. m.fl. Ég hef áður sagt, að það er fullkomlega eins nauðsynlegt að verja hengibrýr fyrir óþarfa hristingi, eins og að mála járnið og tjarga tréð.
Hve mikið vilja nú bændurnir á Selfossi hafa fyrir daglegt eftirlit á brúnni, samkvæmt þessum skilmálum? Og fyrir hve mikið vill reglulegur brúarvörður taka að sér þennan starfa? Sá sem annaðhvort hefir greiðasölu eða handverk við hliðina sér til framfærslu. Hvort hefir landið meiri trygging fyrir dyggilegri gæslu, þegar sá maður lítur eftir brúnni, sem stöðugt getur verið við brúarsporðinn, eður ef bændur verða settir til þess, sem þurfa að vera á engjum og í ferðalagi, og að öðru leyti sinna búi sínu?
Tryggingin er augljós, að mér virðist; en hve mikill munur er á kostnaðinum, er ekki hægt að sanna, fyr en vissa er fengin fyrir því, hversu mikið bændurnir á Selfossi vilja hafa fyrir það, að taka að sér þetta starf, og svo landshöfðingi á hina hliðina hefir auglýst, að hæfur maður geti fengið þessa stöðu fyrir ákveðin laun.
Þegar þetta er fengið, er hægt að meta breiddarmuninn á "lengjunum", en um leið þarf að gæta þess, hvort verðmunurinn samsvarar gæðamuninum.
Fyrir mitt leyti er ég sannfærður um, að hr. alþm. Þ. G. hefir gjört kjósendum sínum og öðrum landsmönnum fremur óleik en gagn með andófi sínu gegn því, að þeir, sem nota stórbrýr, greiði fyrir slit, gæslu og skemmdir á þeim. Ef þingið fylgir nú hans skoðunum og leggur á landssjóð kostnaðinn við gæslu og viðhald á Ölvesárbrúnni, þá verður að mæla á sama mælikvarða fyrir aðrar brýr, sem komnar eru og koma munu, og er þá ekki ólíklegt, að dragast muni nokkur ár, sem nauðsynlegt er að brúa sem fyrst. En ef þingið þar á móti hlífir landssjóði við þessum gæslu- og viðhaldskostnaði, þá er þess að gæta, að þingið hefir ekki veitt nema 40.000 kr. til brúarinnar, en 20.000 hafa nokkur nálæg héruð lagt til þess frá sér gegn endurborgun á láni þessu til landssjóðs; er því sjálfsagt, að kostnaði við gæslu og viðhald verður jafnað annaðhvort að öllu leyti eða að þriðjungi að minnsta kosti á nefnd héruð, ef brúargjald verður ekki tekið.
Þegar svo er búið að leggja brú á Þjórsá, með sömu kjörum og Ölvesárbrúna, með 20.000 kr. tillagi frá sömu héruðum, svo íbúar þeirra þurfa að endurborga 40.000 kr. lán fyrir báðar brýrnar, og gæslu og viðhald að auki, þá getur svo farið, þegar fram líða stundir, að einhverjir þeirra fari að kveinka sér og þakka hr. Þ. G. fyrir frammistöðuna og segja: "Það var eigi svo vitlaust, sem hann Tryggvi sagði; ég held réttast sé, að við losum okkur við nokkuð af þessum miklu gjöldum, og látum þá borga, sem slíta og skemma brúna okkar".
Það er skaði, að margir eru nærsýnir, en ekki fjarsýnir; ekki segi ég, að hr. Þ. G. sé þar á meðal, en eigi veitti af góðum augnlækni í sumum málum, sem meðhöndluð eru hér á landi núna.
Ég hef skrifað svo mikið um þetta brúarmál, að sumum lesendum þessa blaðs er ef til vill farið að leiðast; en það hef ég gert vegna þess, að blöðin flytja mörg mál, sem eru ómerkilegri en samgöngu- og brúarmál Íslands, sama árið sem afhent verður til almennra afnota stærsta brúin, er smíðuð verður á Íslandi á þessari 19. öld, líklega.
Alþm. Þ. G. hefir sagt, að þingið ætti að veita fé af landssjóði til að leggja allar brýr, sem lagðar verða, og þar á eftir að halda þeim við til gefins afnota, og hann hefir enda stungið árinni svo djúpt, að landssjóður ætti að greiða ferjutoll yfir ár á póstvegum. En þingið virðist til þessa tíma hafa haft gagnstæða skoðun. Hvað verður hér eftir, er óráðin gáta.
Fyrsta brúin af þeim stærri, sem lögð hefir verið næstl. 20 ár, var gefin af "prívat" manni; önnur brúin var lögð yfir Jökulsá á Jökuldal með sjóði þeim, er gamla brúin átti; þriðja brúin, sú er lögð var yfir Skjálfandafljót, var gerð fyrir 20.000 kr. lán, sem alþingi veitti af landssjóði, á kostnað nálægra héraða; fjórða brúin, sem nú er verið að leggja yfir Ölvesá, er að þriðjungi gerð á kostnað nálægra héraða, og tvo þriðjunga hefir landssjóður lagt til, af því fyrirtækið var svo stórt, að nefndum héruðum var það ofvaxið. Smábrýr hafa verið lagðar í Skagafirði, Eyjafirði, Þingeyjarsýslu og víðar með samskotum og sýslutillagi.
Allt þetta sýnir, að þingið hefir ekki til þessa tíma álitið sér skylt eða fært að veita fé til að brúa ár, svo ef það heldur áfram sömu stefnu, að styðja það að eins með lánum, og fjárstyrk einu sinni fyrir allt, þegar gjöra á stórbrýr, þá verður það jafnframt að hlutast til um, að fé fáist til að standast kostnaðinn við gæslu og viðhald brúnna, og enn fremur, hvernig gæslunni skuli hagað.
Sá er gallinn á því, ef sú stefna verður tekin, að fela gæsluna þeim manni, er næst býr brúnum, að oft getur staðið svo á, að bæir séu eigi í nálægð, eður þeir, er næst búa, séu manna ófærastir til að sjá um sitt og annarra fé.
Herra Þ. G. sér, að ég hef skrifað almennt um þetta mál í þetta sinn, og ekki svarað grein hans í Ísaf. XVIII. 55. Þar með er ekki sagt, að ég lítilsvirði grein hans eða þyki hún ekki góð; ef til vill væri það ofsagt, að hún væri nokkuð lin undir fæti, þegar á er reynt.
Brúin er jafnbreið og uppdráttur sá var, er lá fyrir þinginu, þegar það veitti 40.000 kr. til brúargerðarinnar, en sumum er betur gefið að sjá eftir á heldur en á undan. Handriðin eru á sömu hæð sem almennt er á brúm erlendis; en það er nú ef til vill, eitt af þessum skaðlegu útlendu skoðunum, þar sem ég er að vitna til þess, sem aðrar þjóðir gera, en ég álít, að í verklegum efnum séum við Íslendingar langt á eftir öðrum þjóðum, og megum þakka fyrir að læra af þeim.
Í júlímán. 1891.
Tr. Gunnarsson.


Ísafold, 12. ágúst 1891, 18. árg., 64. tbl., forsíða:
Gaman væri að geta farið viðstöðulaust yfir nýju Ölfusárbrúna og aðrar brýr en hætt við óheyrilegum viðhaldskostnaði ef þær væru gæslulausar.

Brúartollsmálið.
Það er gaman að geta farið Ölfusárbrúna nýju og aðrar væntanlegar brýr yfir stórár landsins alveg viðstöðu- og tafarlaust og alveg eftirlitslaust, alveg afskiptalaust um, hversu hirðulauslega eða gapalega sem brúin er notuð. Það er bæði gaman og frjálslegt, - já, smellandi f-r-r-r-jálslegt. Það er skemmtilegt, að komast hjá gjöldum, smáum og stórum, og óviðjafnalega ánægjulegt, að geta látið landssjóð borga fyrir sig. Vitanlega er enginn samjöfnuður á því, að gjalda 10 a. í brúartoll og geta fyrir það komist hiklaust og þurrum fótum yfir stórkostlegt vatnsfall, eða að greiða 25 a. í ferjutoll og hafa þar á ofan langa töf og verða að sundleggja hestum sínum, með talsverðri hættu oft og tíðum; en þó er betra sem betra er, að hafa hin miklu þægindi, sem brúin veitir, og þurfa alls ekkert fyrir að gjalda.
Þannig horfir málið við frá þeirra sjónarmiði, er brúna eiga að nota.
En - gamanið er minna fyrir hina, sem eiga að "borga gildið", þ.e. bera kostnaðinn af ótolluðum og gæslulausum brúm yfir stórár landsins. Því það fer saman, að þær séu ótollaðar og gæslulausar. Stendur svo á því, að nákvæmri, daglegri gæslu verður ekkert úr, þegar til framkvæmdanna kemur, nema þar sé samfara tollheimta. Tollheimtan krefst stöðugrar návistar tollheimtu- og gæslumannsins við brúna eða á henni, hvenær sem um hana er farið, og með því einu móti er hægt að afstýra harðri reið eða annarri ógætilegri meðferð á rúnni. Án tollheimtu yrði það eftirlit naumast trútt, þótt launað væri allvel á annan hátt. En öðruvísi gæslu en stöðugrar, daglegrar gæslu er hégómi eða þá að minnsta kosti óþarfi að kosta fé til að neinum mun. Því slík gæsla getur eigi náð lengra en að segja til, ef fúi eða ryð sést á brúnni. Það geta næstu búendur auðvitað gert- lengra getur þeirra eftirliti ekki náð - fyrir peninga; en slíkt eftirlit er heldur ekki nein ofætlun fyrir næsta yfirvald, sýslumann eða þá hreppstjóra, sem mundu eiga þar leið um eða nærri nokkrum sinnum á ári, og meira þarf ekki til þess. Toll-leysið og gæsluleysið er, hvað Ölfusárbrúna snertir, gaman-laust fyrir sýslusjóði Árnesinga og Rangvellinga, sem verða að svara út árlega stórfé í afborgun og vexti af láni til brúarinnar, án þess að fá einn eyri í tekjur af brúnni, og þar að auki að taka sinn þátt í viðhaldskostnaðinum; það er gamanlaust fyrir íbúa Suðuramtsins, sem eiga að endurgjalda helming lánsins og ávaxta, úr jafnaðarsjóði, þótt ekkert gagn hafi af brúnni margir hverjir, heilar sýslur, er þarfnast brúa hjá sér og fá ekki; það er gamanlaust fyrir landssjóð, sem lagt hefir nú til gefins 42.000 kr. til brúar þessarar, má búast við að þurfa einnig að taka þátt í viðhaldskostnaðinum og loks á sínum tíma að gefa aftur stórfé til þess að endurreisa brúna, þegar þar að kemur, fyr eða síðar. Landssjóður, sem enn á eftir óbrúaðar flestar stórár á landinu og hefir þar að auki í nógu mörg horn að líta önnur.
í stað þess að með tolli, mjög vægum tolli, og þar með fylgjandi brúargæslu hefði mátt safna sjóði, er staðið gæti straum af þessum kostnaði, ef til vill öllum eða mestöllum.
Hún er ekki á neinum rökum byggð, sú mótbára, að gæslukostnaðurinn, laun brúarvarðarins, muni vinna upp megnið af brúartollstekjunum. Eða hvaða laun hefir sæluhúsvörðurinn á Kolviðarhóli. Það er smátt, og hafa þó jafnan orði fullnýtir menn til að sækja um þá sýslu, en hálfu örðugra til bjargar með alla hluti og aðdrátta þar upp á heiði en í miðri byggð í blómlegri sveit, þar sem að öllum líkindum mundi upp rísa dálítið þorp með tímanum, þar sem eigi einungis einn maður, heldur jafnvel margir mundu geta haft allgóðan atvinnuauka af því að sinna margvíslegum þörfum ferðamana.
Það er naumast hyggilegt af þingi og stjórn, að skella skolleyrum við ráðum og tillögum þess manns, er langfremst getur af þekkingu um það talað, hins góðfræga forstöðumanns þessa langmesta samgöngumannvirkis hér á landi, hr. Tr. G. Það er naumast hyggilegt fyrir landssjóðs hönd, að drepa hendi við þeim fjárstyrk, er fá má upp úr brúartolli, án þess að nokkur geti með neinum rökum borið sig illa yfir þeirri álögu, sem yrði að minnsta kosti helmingi lægri en ferjutollur er nú.
Það er hégómi að vitna í það, þótt brúartollar séu fátíðir nú orðið í öðrum löndum. Því þar eru flestar brýr ekki annað en partur af járnbraut, sem eigendur hennar (járnbrautarinnar) taka af fulla vöxtu og viðhaldskostnað með álagi á fargjald og flutningskaup með járnbrautarlestunum. Auk þess verðum vér að sníða oss stakk eftir vorum smáa vexti. Hafi aðrar þjóðir, meðan fátækar voru eins og vér, og þó ekki jafnfátækar, þóst þurfa að láta þá, sem notuðu kostnaðarsöm mannvirki, gjalda eitthvað eftir þau, til þess að létta byrði á almenningi, hví skyldi oss þá láandi, þótt vér gerðum slíkt hið sama.


Ísafold, 15. ágúst 1891, 18. árg., 65. tbl., bls. 259:
Í fjáraukalögum eru veittar 5.000 kr. til vegarins frá Ingólfsfjalli niður að Ölfusárbrú.

Alþingi.
XIX.
Afgreidd lög frá Alþingi frá því síðast:
XVIII. Fjáraukalögin fyrir árin 1890 og 1891. Veitt alls um 12.600 kr. Þar af til vegarins frá Ingólfsfjalli niður að Ölfusárbrúnni (sem nú er verið að leggja) 5.000 kr.; til fjallvega (vegagjörðar á Mosfellsheiði 1891) 2.500 kr.; styrkur til gufubátsferða á Faxaflóa sumarið 1891 3.000 kr.; til bráðabyrgðauppbótar fátækum brauðum 1891 (Sauðlauksdal) 250 kr.; til tímakennslu í lærða skólanum (í sjúkdómsforföllum adjunkts B. Jenssonar) 768 kr.; til aðgjörðar á skólahúsinu á Möðruvöllum 500 kr.; styrkur handa einum manni (stúdent Karl Nikulássyni) til að búa sig undir að verða dýralæknir hér á landi 300 kr.

Ísafold, 26. ágúst 1891, 18. árg., 68. tbl., bls. 271:
Alþingi vill láta vegfræðing gera áætlun um brúargerð á Lagarfljóti og á Jökulsá í Öxarfirði.

Þingsályktanir.
Þessar hafa verið samþykktar og afgreiddar til landshöfðingja frá því síðast.
XIV. Um undirbúning til brúargerða.
Neðri deild Alþingis ályktar að skora á landshöfðingja að hlutast til um, að vegfræðingur verði látinn skoða brúarstæði á Lagarfljóti og á Jökulsá í Öxarfirði, og gera áætlun um kostnað við brúargerðina.


Ísafold, 2. sept. 1891, 18. árg., 70. tbl., bls. 278:
Gert er ráð fyrir miklum mannfjölda við vígslu Ölfusárbrúar.

Ölfusárbrúin.
Ölfusárbrúin stendur til að verði vígð eða opnuð af landshöfðingja þriðjudag 8. þ.m. kr. 2. Athöfninni mun fylgja lúrablástur, undir stjórn hr. Helga Helgasonar, og kvæði sungin ný, eitt eða fleiri; enn fremur prýtt með blæjum beggja vegna. Gera má ráð fyrir miklum mannfjölda þar samankominn, og er ætlast til að allur sá múgur gangi í prósessíu yfir brúna, er hún er opnuð. Þangað til verður girt fyrir báða enda hennar með strengjum. Vígslan mun fara fram austan megin árinnar (Selfossmegin), og verða þá aðkomumenn að láta ferja sig yfir um þangað, sem sunnan að koma eða vestan, ef þeir vilja vera viðstaddir. En hesta sína geta þeir skilið eftir vestan megin árinnar, enda slæmur sundstaður fyrir þá hjá Selfossi, þótt gott sé að ferja þar og sjálfsagt nóg um ferjubáta, er notaðir hafa verið við brúarsmíðið í sumar.
Mikið láta þeir, er séð hafa brúna uppkomna, þessa daga, yfir styrkleika hennar og fegurð.


Ísafold, 2. sept. 1891, 18. árg., 70. tbl., bls. 278:
Nú er komin brú á Leirvogsá.

Brú á Leirvogsá.
Sú brú er nú fullger fyrir nokkru, milli bæjanna Leirvogstungu í Mosfellssveit og Varmalands í Kjalarneshrepp. Það er trébrú, um 22 álnir á lengd og 4 á breidd, og nær 2 álna háu riði til beggja handa. Brúarsporðarnir liggja á grjótstöplum, 6 álna háum og 6 álna breiðum að framan; eru þeir sérlega vel hlaðnir úr höggnu grjóti og vel felldu, en ólímdir, - eins og Norðmenn hafa kennt að hlaða brúarstöpla; hefir Erlendur Zakaríasson staðið fyrir því verki að mestu leyti, en Þorkell Gíslason smíðað sjálfa brúna. Brúin er gerð á landssjóðs kostnað - á aðalpóstleið - og mun kosta nálægt 3.000 kr.


Þjóðólfur, 4. sept. 1891, 43. árg., 41. tbl., forsíða:
Hér er sagt frá lögum og þingsályktunartillögu varðandi samgöngumál.

Alþingi.
XII.
Þjóðólfur hefur, þegar þetta blað er út komið, flutt greinilegar fréttir um úrslit málanna á þinginu, flutt flest lögin orðrétt og þingsályktanir sömuleiðis flestar orðréttar.
Lög afgreidd frá alþingi.
........
XXX. Lög um brýrnar á Skjálfandafljóti.
Endurborgun sú af láni úr landssjóði til Skjálfandafljótsbrúnna með vöxtum, sem eftir lögum 27. febr. 1880 3. gr. hvíldi á jafnaðarsjóði norður- og austuramtsins, sýslusjóði Suður-Þingeyjarsýslu og sýsluvegasjóðum Suður- og Norður-Þingeyjarsýslu, fellur niður um helming frá þeim tíma, er þessi öðlast gildi.
XVIL. Um undirbúning til brúargerða:
Neðri deild Alþingis ályktar, að skora á landshöfðingja að hlutast til um, að vegfræðingur verði látinn skoða brúarstæði á Lagarfljóti og Jökulsá í Öxarfirði, og gera áætlun um kostnað við brúargerðina.


Ísafold, 5. sept. 1891, 18. árg., 71. tbl., bls. 282:
Verið er að undirbúa hátíðarhöldin vegna vígslu Ölfusárbrúarinnar.

Ölfusárbrúin.
Vistaflutningur og "hressingar" ganga nú héðan austur að brúarstæði, til þess að hinn væntanlegi mannfjöldi þar vígsludaginn þurfi eigi að fasta. Líklega koma og einhverjar byrgðir frá Eyrarbakka, þar sem svo skammt er á milli. Til kl. 11 f. h. á þriðjudaginn (8. þ. m.) er mælt með að aðkomumenn vestan að og sunnan muni eiga kost á að nota brúna austur yfir, gangandi, eftir ráðstöfun hr. Tryggva Gunnarssonar, og verði hún að eins lokuð upp frá því kl. 2, að hún verður opnuð fyrir fullt og allt, til umferðar fyrir menn og skepnur.


Ísafold, 9. sept. 1891, 18. árg., 72. tbl., forsíða:
Hér er sagt frá vígslu Ölfusárbrúarinnar.

Vígð Ölfusárbrúin.
Vígsludagurinn. Veðrið. Aðsóknin.
Aðalfólkstraumurinn hér sunnan að austur yfir fjall til að vera við vígslu brúarinnar var í fyrra dag, í fögru verði, glaða sólskini meiri hluta dags. Hver hópurinn leiddi annan úr garði, sumir örsmáir, sumir heilar fylkingar. Eigi skein að vísu á gullroðna hjálma né steinda skildi, en glæsileg mun mörg kvennasveitin hafa þótt á að líta, og fagurt blikuðu lúðrarnir hins ótrauða söngflokks Helga Helgasonar, er lagði á sig þessa för kauplaust að vanda og ótilkvaddur, "fyrir fólkið"
Fátt manna kom þann dag að brúarstæðinu úr nærsveitunum austan fjalls. Tímanum var svo hagað, að víðast mátti ná heiman að frá sér að morgni, og margir voru svo forsjálir, að vilja sjá, hvernig veður réðist sjálfan vígsludaginn, áður en þeir legðu í skemmtiför þessa. Því jafnan er á tvær hættur að tefla um almennar skemmtanir og viðhöfn undir beru lofti. Sé lán með og veðrið leiki í lyndi, taka þær fram hverjum skemmtunum öðrum, sem almenningur hér á kost á að njóta, en bregðist það, verður annað upp á teningnum; hrakningur á mönnum og skepnum og lítið annað.
Hér sunnan fjalls var að vísu eigi bjart veður að morgni, í gærmorgun, en allt útlit fyrir uppihald, sem og raun varð á. Hér settust því engir aftur veðursins vegna í gærmorgun, þeir er höfðu ætlað sér að láta morguninn duga, sem og vel tókst; voru komnir sumir austur að brú stundu fyrir hádegi, þeir er höfðu lagt af stað kl. 5 eða þar um bil. En austan fjalls var þunga-rigning þegar frá morgni, sem á gerðist, er á daginn leið, og var heillirigning síðari partinn, fram á nótt, sjálfsagt hin mesta, er komið hefir á sumrinu, en hægð var, ýmist logn eða því sem næst.
Þrátt fyrir það sótti fjöldi manns að brúarstæðinu úr nágrenninu við það, einkum af Eyrarbakka, og allmargt jafnvel austan yfir Þjórsá. Nýir og nýir hópar komu í ljósmál fram úr dimmunni af regnúðanum jafnt og þétt, fram til hins ákveðna vígslutíma (kl. 2); sumir náðu eigi messu. Eftir kl. 11 rúmlega var engum hleypt yfir brúna, og urðu menn að láta ferja sig upp frá því, þar á meðal landshöfðingi og sá hópur allur, er honum fylgdi. Mannsöfnuðurinn varð á endanum full 1700, eflaust hin mesti mannsöfnuður, er nokkurn tíma hefir verið saman kominn í einum hóp hér á landi, utan höfuðstaðarins að minnsta kosti. En á 3. þús. eitthvað, heldur meira en minna líklega, hefði hann sjálfsagt komist ef veðrið hefði gengið að óskum.
Vígsluathöfnin
byrjaði, eins og til stóð kl. 2. Var strengjum fest fyrir báða enda brúarinnar sjálfrar þangað til og maður settur til gæslu við hvorn. Þá gekk landshöfðingi upp á vegarpallinn sunnan við brúna þar sem er trérið á báðar hendur; var rauður dúkur breiddur yfir kafla af riðinu að vestanverðu og veifur reistar þar á tvær hliðar. Var sá umbúnaður hafður í ræðupalls stað, og fór vel; hæðin allmikil, á að giska 6-7 álnir. Þar staðnæmdist landshöfðingi og hornasöngflokkurinn að baki hans. Þá var hafinn hornablásturinn, nýtt lag, eftir Helga Helgason, við kvæði það, er landritari Hannes Hafstein hafði ort og hér fer á eftir. Hafði því verið útbýtt prentuðu á undan, ásamt laginu. Síðan var kvæðið sungið til enda. Að því búnu tók landshöfðingi til máls. - Kvæðið nefnist
Brúardrápa
sungin við afhending hengibrúarinnar yfir Ölfusá.

Þunga sigursöngva
söng hér elfan löngum,
byst fann skemmtan besta
banna ferðir manna.
Annan söng nú ítar vaskir kveði,
upp skal hefja róm með von og gleði
Nú er móðan ekki einvöld lengur,
einvald hennar binda traustar spengur.

Hátt á bökkum bröttum
byggðir eru og tryggðir
synir stáls og steina
sterkir mjög að verki;
standa´á bergi studdir magni´og prýði,
strengja sér á herðum gjörva smíði,
tengja sveit við sveit, þótt aldan undir
ófær brjótist fram um klett og grundir.

Vakni von, og kvikni
varmur neisti´í barmi
mest er mann-verk treystum
móðurjarðar góðu.
Tjáir ei við hrepptan hag að búa,
hér á foldu þarf svo margt að brúa:
jökulár á landi og í lundu-
lognhyl margan bæði´í sál og grundu.

Sannar afrek unnið:
andinn sigrar vanda;
tengja traustir strengir
tvístrað láðið áður.
Tengjum þannig tvístruð öfl og megin.
Trausti, dáð og framkvæmd greiðum veginn.
Heilar vinni hendur jafnt og andi.
Hefjum brúargjörð á andans landi.

Vakni von, og kvikni
varmur neisti´í barmi.-
Vilji, von og elja
vinnu saman inni.
Þá mun rísa brú til betri tíða,
brú til vonarlanda frónskra lýða,
brú til frelsis, brú til mennta-hæða,
brú til mannfélagsins æðstu gæða.

Heill sé hug og snilli,
heill sé ráði' og dáðum.
Heill sé lönd og anda,
heiður um foldu breiðist.
Líti sól hver sæmd og nýjar tryggðir,
sveipi gæfan fósturjarðar byggðir.
Blessist framkvæmd, blómgist sviti lýða.
Brúin rísi fram til nýrra tíða.

Ræða landshöfðingja.
Það er hátíðlegt tækifæri, er afhenda skal til almennra og frjálsra afnota hið langmesta samgöngumannvirki, er gjört hefur verið á þessu landi, ekki einungis á þessari öld, heldur alla tíð síðan land byggðist, hina fyrstu járnbrú hér á landi, yfir eitt af landsins mestu vatnsföllum.
Það er almennt viðurkennt orðið fyrir löngu, að samgönguleysi er eitt hið versta þjóðarmein, hinn rammasti slagbrandur fyrir bæði andlegum og veraldlegum framförum. Enda var það eitt hið fyrsta verk Alþingis, eftir að það fékk löggjafar- og fjárveitingarvald, að veita allmikið fé bæði til vegabóta og gufuskipaferða (15.000 + 30.000 kr.).
Var það þegar mikil framför frá því sem áður var, einkum strandferðirnar, sem áður voru alls engar.
En, eins og menn vita, geta eigi allir fjórðungar landsins haft bein not strandferðanna, sakir hafnleysis. Það er hér um bil öll suðurbyggð landsins; þar er engin höfn, er því nafni geti heitið, alla leið frá Reykjanesi austur að Lónsheiði. Hvergi á landinu er því eins nauðsynlegt að koma á greiðum og góðum samgöngum á landi.
Værum vér staddir upp á fjalli því, er hér er oss næst, Ingólfsfjalli, og bjart væri veður, mundi blasa við sjónum vorum hið stærsta sléttlendi þessa lands, hinar frjósömustu og blómlegustu sveitir þess.
Þetta sléttlendi er það, sem jarðfræðingar nefna Geysis-dal. Það er þeirra kenning, og engin ástæða til hana að rengja, að fyrir ævalöngu, ef til vill svo þúsundum alda skiptir áður en land vort fannst og byggðist, hafi hér verið sjór, flói mikill, annar Faxaflói, með eigi allfáum eyjum á víð og dreif. Þessar eyjar köllum vér nú Brúfell, Mosfell, Hestfjall, Vörðufell o. s. frv. Þegar forfeður vorir reistu sér byggðir og bú hér fyrir rúmum 1000 árum, var flói þessi orðinn að þurru, grónu landi fyrir ævalöngu, og eyjarnar að fjöllum og hæðum. Það eru mikil umskipti, stórkostleg bylting, og má segja um það eins og skáldið; "Gat ei nema guð og eldur, gert svo dýrðlegt furðuverk". Þar sem öldur Atlantshafs léku um áður, þar sáu þeir, forfeður vorir,
"um grænar grundir líða
skínandi ár að ægi blám",
og mestar þeirra Þjórsá og Ölfusá, er verið hafa ferjuvötn síðan hér um bil alla leið milli fjalls og fjöru.
Á þessu sléttlendi eiga nú heima rúm 10.000 manna. En það hafa útlendir náttúrufræðingar fullyrt, að væri það land orðið vel ræktað, mýrarnar ristar fram, þúfur sléttaðar og móarnir uppstungnir o. s. frv., þá mundi hér á þessu svæði getað lifað allt það fólk, er nú byggir þetta land, um 70.000 manna, og lifað góðu lífi. Eru þetta fráleitt neinar öfgar, því til þess þarf eigi meira þéttbýli en svo, að 1000 manns komi á ferh.mílu hverja, og þykir það ekki mikið þéttbýli annarsstaðar, enda eru ekki nema 3 lönd hér í álfu önnur en Ísland svo strjálbyggð, að eigi komi meira en það á hverja ferh.mílu.
En til þess þarf margt að breytast og miklum umbótum að taka. Fyrst og fremst þarf til þess vegi og brýr, brýr yfir árnar og akvegi milli þeirra og fram og aftur um alla byggðina.
Það sem æðarnar eru fyrir líkama mannsins, það eru vegir og brýr yfir landið.
Eftir því sem landslagi hagar hér, þurfa brýrnar að koma á undan vegunum. Þegar þær eru komnar, mun ganga greitt eða greiðara miklu að koma á vegunum.
Fyrsta skilyrði fyrir því, að þessi hluti landsins einkanlega geti öðlast þá blómgun, náð þeirri ákvörðun, sem skaparinn hefir ætlast til ,eru því nægar og góðar brýr og nógir og góðir vegir.
Þá rakti landshöfðingi sögu brúarmálsins, viðlíka ýtarlega og gert er hér síðar í blaðinu, og er þeim kafla ræðunnar sleppt hér.
Eftir það lauk hann máli sínu hér um bil á þessa leið.
Ég leyfi mér að lokum í nafni þjóðarinnar og fyrir landstjórnarinnar hönd að votta öllum þeim alúðarþakkir, er að því hafa unnið, að koma þessu mikla og mjög svo nauðsynlega mannvirki til framkvæmdar: fjárveitingarvaldinu, bæði alþingi, hlutaðeigandi sýslunefndum og amtsráði suðuramtsins: alþingismönnum þeim, er sérstaklega hafa fyrir því barist og eigi þreyst að knýja á, þangað til upp var lokið; hinum útlendu smiðum, er sjálfa járnbrúna hafa gert, hinum innlendu smiðum og verkamönnum og öðrum, er að fyrirtækinu hafa unnið á ýmsan hátt; og síðast en eigi síst að alframkvæmdamanni fyrirtækisins, Tryggva kaupstjóra Gunnarssyni, fyrir þá miklu atorku og elju, þrek og þol, er hann hefir sýnt við þetta fyrirtæki frá upphafi til enda, svo mikil óþægindi og erfiðleika sem hann hefir átt við að stríða; og fyrir þá framúrskarandi ósérplægni og sjálfsafneitun, er hefir einkennt alla framkomu hans í þessu máli.
Það er algengast, að hið fyrsta sem þeir gjöra flestir, er nefnt er við að standa fyrir viðlíka meiri háttar mannvirkjum og þetta er, það er, að leggja niður fyrir sér, hve mikinn gróða þeir muni geta haft upp úr því handa sjálfum sér. Þessi maður, hr. Tr. G., hefir tekið þetta að sér með allt annarri hugsun. Ég get ímyndað mér, að hann hafi sagt við sjálfan sig eitthvað á þessa leið: "Ég sé mikið vel, að hag get ég ekki haft af því fyrir sjálfan mig, heldur öllu heldur talsverðan skaða. En ráðist ég ekki í það, verður ekkert úr því. Ég vil gjöra það vel, svo trútt og dyggilega, sem ég hef framast vit á og megn til, og hirði eigi um, þótt talsvert fé fari til þess úr mínum vasa, ef því er að skipta, að eins að verkið verði svo af hendi leyst, að það verði mér til sóma, og umfram allt landinu til gangs og sóma". Þannig ímynda ég mér að hann hafi hugsað, eða ég ræð það, réttara sagt, af allri framkomu hans í þessu máli. Og um það munu allir samdóma, er nú hafa séð brúna upp komna, að "verkið lofi meistarann". Hann hefir með því reist sér þann minnisvarða, er lengi mun geymast með innilegu þakklæti í brjósti hlutaðeigandi héraðsbúa, fyrir þessa gersemi, er þeir fá sér afhenta til frjálsra afnota í dag.
Í goðafræði vorri er getið um merkilega gersemi, hringinn Draupni, er hafði þá náttúru, að 9. hverja nótt drupu af honum 8 hringir jafnhöfgir. Óskum þess, að sama náttúra fylgi þessari gersemi vorri, að af henni drjúpi á skömmum tíma viðlíka margar brýr jafngóðar fyrir þau vatnsföll landsins, er þess þarfnast mest.
Biðjum þá að lokum guð að blessa brúna og alla þá ávexti, er hún getur borið, ef vér kunnum til að gæta. Biðjum hann að gefa þjóðinni í dug og dáð, áræði og framtakssemi til að halda áfram því sem vel er byrjað með þessu fyrirtæki, svo að það marki nýtt tímabil í viðburðum hennar til samgöngubóta og öðrum samkynja fyrirtækjum þjóðinni til hagsældar.
Að svo mæltu lýsi ég brúna opna og heimila til almennrar notkunar og frjálsrar umferðar.
Því miður er ræðuágrip þetta ekki svo nákvæmt, sem vera hefði átt, með því lítið næði var til að rita það upp jafnóðum og það var mælt af munni fram blaðalaust. Því drjúgum rigndi meðan á ræðuhaldinu stóð, þótt meira yxi úrkoman síðar.
Prósessían.
Eftir það gengu þeir landshöfðingi og hr. Tryggvi Gunnarsson vestur yfir brúna í broddi fylkingar og múgurinn allur á eftir, 3-4 samsíða, karlar og konur, ungir og gamlir. Fjórir voru fengnir til að telja, og töldu á 16. hundrað. Voru þá eftir ýmsir smá-hópar og einstakir menn á strjálingi hingað og þangað nokkuð frá brúnni, eða inni í tjöld og brúarsmíðahúsinu (Tryggvaskála), vegna úrfellisins, og var giskað á, að það mundi nema nær 2 hundruðum.
Það tók all-langan tíma að mannfjöldinn kæmist yfir brúna. Gekk fylkingin góðan spöl upp frá henni að vestanverðu og dreifði sér síðan um hæð, er þar er, og fögur er útsjón af í góðu veðri. Þar reyndu þeir Helgi Helgason og hans menn að skemmta mönnum með hornablæstri; en veðrið meinaði það mjög. Síðan fóru menn að smátínast austur yfir aftur, athafna sig og skoða brúna í krók og kring.
Lýsing brúarinnar.
Lengdin járnbrúarinnar sjálfrar er um 180 álnir. Þar af eru 120 álnir yfir um sjálfa ána, milli aðalstöplanna, en 60 yfir haf það, er milli er aðalstöpulsins á eystri bakkanum og akkerisstöpulsins þeim megin.
Breiddin er 4 álnir.
Járnrið er beggja vegna, með 3 landböndum, og nær meðalmanni því nær undir hendur.
Hæðin frá brúnni niður að vatnsfletinum, þegar ekki er vöxtur í ánni, er 12 álnir.
Brúin er hengibrú, eins og menn vita, þ. e. brúin sjálf hengd með uppstöndurum af járni neðan í þrjá járnstrengi hvers vegar. Járnstrengir þessir eru alldigrir, og strengdir yfir tvo stöpla við hvorn brúarsporð, 20 álna háa alls að austanverðu, og er neðri hlutinn, 9½ alin, úr vel límdu og vel höggnu grjóti, en efri hlutinn ferföld járnsúla eða súlnagrind, og haft á milli þeirra að ofan. Austanmegin eru járnsúlurnar jafnháar, en neðri hlutinn ekki nema 1 álnar hleðsla, með því þar er hár klettur undir.
Járnstrengurinn, er brúnni halda uppi þandir eru yfir nýnefnda stöpla (járnsúlurnar), er fest í akkeri til beggja enda, en það eru klettar af manna höndum gjörðir, þ. e. hlaðnir úr grjóti og grjótsteypu og rammlega límdir. Neðst í þeim klettum eru járnspengur þversum, er strengjaendunum er brugðið um.
Allt járnið í brúnni er um 50 smálestir að þyngd, eða sama sem 100.000 pd. Þar að auki er í brúnni, gólfinu á henni, 100 tylftir af plönkum, og 72 stórtré undir þeim, ofan á járnslánum og járnbitunum. Plankagólfið er tvöfalt.
Um traustleika brúarinnar er það að segja, að það er ætlast til að hún beri járnbrautarlest, en til þess má vera á henni í ein 50 punda þungi á hverju ferh.feti. Geri maður meðalmanns þyngd 144 pd., mega eftir því standa á brúnni í einu 1000 manns, svo óhætt sé í alla staði.
Út frá brúnni liggur á báða vegu vegargarður eða mjög upphækkaður vegur út á jafnsléttu, og þar á sund í einum stað að austanverðu, 15 álna breitt, með trébrú yfir. Er það gert til rennslis fyrir ána í aftaka vatnavöxtum, ásamt 60 álna sundinu milli stöpuls og akkeris, sem fyr er getið.
Umferð um brúna á eftir.
Skömmu eftir prósessíuna var tekið til að fara með hesta yfir brúna fram og aftur, bæði lestir og lausa hesta, og von bráðar ríðandi. Ægði þá öllu saman í einu á brúnni, ríðandi mönnum og gangandi, ungum og gömlum, konum og körlum, lausum hestum og klyfjahestum. Hált var á henni af rigningunni, og bar það til, að laus hestur datt á henni miðri, en stóð jafngóður upp og meiddi engan, þó mannmargt væri. Og er frá leið nokkuð, sást maður þeysa hana endilanga á allhörðum spretti, harða-skeiði. tóku fleiri það hreystisverk(!) sér til fyrirmyndar, víst bæði kenndir og ókenndir. Yfir höfuð var eigi hræðslu að sjá nema á einstöku manni, helst börnum og gamalmennum, er tveir menn leiddu þá á milli sín eftir miðri brúnni. Sér að vísu í grængolandi iðuna 12 álnir undir brúnni; en svo traust finnst mönnum hún og riðin beggja vegna, að fletir ganga öruggir þegar í stað.
Múgurinn býst til brottferðar og tvístrast.
Hefði veður leyft, stóð til að skemmt yrði mannfjöldanum fram eftir deginum með söng og ræðuhaldi. En það voru engin viðlit, því veður spilltist æ meir og meir. Þóttist hver hreppnastur, er fyrst komst burtu úr þeirri þvögu og leirleðju, er menn óðu út í og inni nærri því. Skorti eigi alla þá aðhlynningu af hálfu hr. Tryggva Gunnarssonar og hans manna, sem og Gunnars bónda á Selfossi, hvað húsaskjól snertir og þess háttar, er hægt var í té að láta. En sem nærri má geta, hrukku húsakynnin skammt. Sama er að segja um gestgjafa Einar Zöega, er hafði reist mörg tjöld (4) á árbakkanum, þar sem hann veitti mat og drykk eftir föngum, þangað flutt með ærum kostnaði og fyrirhöfn.
Mundi þetta hafa orðið einhver hin fegursta og mikilfenglegasta þjóðhátíð, ef öðruvísi hefði til tekist með veðrið.
Það leyndi sér ekki á svip og tali viðstaddra héraðsbúa, hvað vænt þeim þótti um hina nýfengnu "gersimi", brúna sína, blessuðu hana í hverju orði og aðalhöfund hennar, hann Tryggva sinn. Við lítilsháttar skilnaðarskál í "Skálanum" hafði og verið mælt fyrir minni brúarsmiðsins enska, Mr. Vaughans frá Newcastle, er farinn er heim til sín fyrir nokkru, og sömuleiðis ingenieurs Ripperda, er haft hefir umsjón með brúargerðinni í sumar af hálfu K. hafnarstjórnarinnar, og verður samferða Tryggva norður þessa daga til þess að fá far þaðan heimleiðis.
Saga Ölfusárbrúarinnar.
Það er sögulegt, að Ölfusárbrúin á sér sögu, nær 20 ára sögu, þó að hún , brúin, fæddist eigi fyr á þessu ári, og ekki hafi þurft nema part úr tveimur sumrum til að leggja hana. Slíkan tíma hefir undirbúningurinn tekið, eða réttara sagt umhugsunin um hvort þorandi væri eða ekki þorandi að leggja í annað eins stórræði og að brúa þetta eina af megin-vatnsföllum landsins. Framan af voru þau raunar höfð tvö í takinu í senn, þ.e. að segja í umhugsuninni og ráðagjörðunum. Það var þá fyrst, er lækkuð voru seglin - þessi háu segl, eða hitt þó heldur-, það var þá fyrst, er sleppt var að hugsa um að brúa nema aðra ána að sinni, er málið náði fram að ganga, og þó við illan leik.
Undirbúningssaga Ölfusárbrúarinnar er því raunasaga aumkunarverðs áræðisleysis og smásálarskapar. Vér höfum þá örugga von og sannfæringu, að landið eigi þá framtíð fyrir höndum, að komandi kynslóðir muni eiga bágt með að skilja í jafnlítil-sigldum hugsunarhætti, sem að þurfa fram undir tuttugu ár til að hugsa sig um að brúa eina á, fyrir ekki meira fé en 60-70.000 kr.
Vera má, að einhverja óvenju-háfleyga og stórhuga framfaramenn hafi dreymt um brú á Þjórsá og Ölfusá fyrir einum mannsaldri eða svo. En upp vita menn eigi til að því hafi verið stunið í heyranda hljóði fyr en nú fyrir 19 árum. Þá var stungið upp á því á almennum sýslufundi á Stórólfshvoli í Rangárvallasýslu, af síra Hannesi sál. Stephensen, er þá var prestur í Fljótshlíðarþingum (¿ 1882). Fundurinn ákvað, að kjósa 1 mann fyrir hvern hrepp í sýslunni til að ganga í nefnd til að framfylgja málinu bæði innan héraðs og utan, og skutu jafnframt saman nokkru fé, 110 rd. (220 kr.), "er skyldu vera til taks, ef á lægi eða nefndin krefði". Formaður þeirrar 9 manna nefndar var Sighv. alþm. Árnason, er á því láni að fagna að sjá það mál loks farsællega til lykta leitt, að því er Ölfusárbrúna snertir. Af öðrum nefndarmönnum má nefna síra Ísleif Gíslason, Sigurð dbrm. Magnússon á Skúmstöðum og Jón hreppstj. Hjörleifsson í Skógum. Af hinum eru fyrir víst 3 dánir, prestarnir Hannes Stephensen, Skúli Gíslason og Sveinbjörn Guðmundsson.
Nefndin átti fund og með sér mánuði síðar en hún var kosin, og "komst að þeirri niðurstöðu, að fyrst lægi fyrir að fá vissu fyrir því, hvort fyrirtækið væri mögulegt eða ekki, og ákvað að leita atkvæða landsstjórnarinnar og biðja hana að útvega verkfróðan mann til að skoða brúarstæði á ánum og gera áætlun um kostnaðinn". Leitað var síðan samkomulags og fylgis Árnesinga um mál þetta, og var þar engin fyrirstaða. Sama haust var svo stiftamanni (Hilmari Finsen) ritað um málið, og fékk hann því til vegar komið, að hinn eftiræskti verkfræðingur væri sendur hingað þegar um vorið eftir.
Það var Windfeldt-Hansen, kand.í verkfræði. Hann átti þar að auki að rannsaka, hvort hægt væri að gera höfn við Dyrhólaey; en það leist honum ófært. Hitt var hann þegar sannfærður um, að vel mætti brúa árnar báðar, og gerði nákvæma áætlun um tilhögun á báðum brúnum og kostnað til þess. Brúarstæði á Ölfusá leist honum best hjá Selfossi, þar sem brúin er nú upp komin; en á Þjórsá hafa aðrir fundið hentugri brúarstæði síðan, þótt enn sé óráðið, hvert þeirra verður valið. Kostnaðaráætlun hans fyrir Ölfusárbrúna var 80.000 kr. - Samskotin á Stórólfshvolsfundinum, þessir 110 rd., fóru í ferðakostnað W.H., að viðbættum nokkrum hundruðum rdla úr jafnaðarsjóði, vegasjóði suðuramtsins og landssjóði.
Ári síðar en W.H. ritaði skýrslu sína, kom hið löggefandi og fjárráðandi alþingi saman í fyrsta sinn, 1875; en eigi hafði áskorun til alþingismanna Árnesinga og Rangvellinga um að fá landstjórnina til að taka málið að sér og leggja fé til brúnna neinn árangur í það sinn.
Til næsta þings komu bænarskrár úr báðum sýslunum, um 168.000 kr. fjárveitingu úr landssjóði til að gera báðar brýrnar, samkvæmt áætlun Windfeldt Hansens; en fellt var málið á því þingi.
Tveim árum síðar (1879) komst svo langt, að þingið samþykkti lög um brúargjörð á báðum ánum, Þjórsá og Ölfusá, og veitti til þess 100.000 kr. vaxtalaust lán, er borgast skyldi á 40 árum, af sýslusjóðum 4 næstu sýslna og bæjarsjóði Reykjavíkur. Landstjórnin átti að sjá um framkvæmd fyrirtækisins. Hún spurði sig fyrir í Skotlandi, Danmörku og Svíþjóð, og fékk mikið af tilboðum og áætlunum, en þótti sitt að hverri áætluninni, - smíðið ekki nógu traust eftir sumum tilboðunum, en í sumum meira sett upp en fjárveitingin (100.000 kr.). Gat því ekkert orðið úr framkvæmdum og lögin náðu eigi staðfestingu.
Þessi málalok voru tilkynnt þinginu 1881, og þótti þá ekki árennilegt að eiga frekara við það þá um hæl. En á næsta þingi, 1883, var málið tekið aftur í neðri deild og vasklega flutt þar af þingmönnum Árnesinga, þeim Magnúsi próf. Andréssyni og Þorláki Guðmundssyni- er hefir verið manna þrautseigastur við það-. Var þá að eins hugsað um aðra brúna, þá á Ölfusá, og farið fram á 80.000 kr. úr landssjóði til hennar að gjöf, en ekki láni; það skildi frá því árinu áður hafði verið, og fyrir það féll málið á þingi í það sinn.
Á næsta þingi 1885, var því meðal annars hreift með fyrirspurn, af Sighv. Árnasyni; en 1887 náði það loks fram að ganga í lagaformi, og staðfesti konungur loks þau lög 2 árum síðar, vorið 1889. Voru þá aðeins ætlaðar 60.000 kr. til brúargjörðarinnar, með því að Hovdenak hafði þá komið með nýja áætlun, er taldi það allt að því nóg, mest vegna ódýrleika á járni um þær mundir. Af þessum 60.000 gaf landssjóður 40.000, en lánaði hitt, helminginn (10.000) sýslunefndunum í Árnessýslu og Rangárvalla, og hinn helminginn jafnaðarsjóði suðuramtsins-, gegn endurborgun með ársvöxtum á 45 árum.
Nærri lá, að lög þessi yrðu árangurslaus. Stjórnin sendi áskoranir í ýmsar áttir um að taka að sér brúarsmíð fyrir hina ákveðnu fjárupphæð, en allra-lægsta tilboð var 65.000 kr.; hin kring um 70.000.- Þá var það, að Tryggvi Gunnarsson, er áður hafði annast hið langhelsta brúarsmíði hér á landi annað, Skjálfandafljótsbrúna, fyrir 20.000 kr., bjargaði málinu, fyrir bænastað þeirra, er annast var um það, og réðst í að reyna að koma brúnni upp, hengibrú, fyrir hina ákveðnu upphæð. Mundi fyrirtækið að öðrum kosti hafa farist fyrir enn sem fyr, og fer eigi tvennum sögum um það, að hann hefir að vonum gert sér mikinn sóma og landinu gagn að því skapi með stakri alúð og samviskusemi hvað snertir allan frágang á þessu merkilegasta mannvirki, er hér hefir gert verið, þrátt fyrir það, þótt hann sæi skjótt fyrir mikinn óhag af því fyrir sig, vegna mikillar verðhækkunar á brúarefninu (járninu) meðal annars.


Þjóðólfur, 11. sept 1891, 43. árg., 42. tbl., forsíða:
Ölfusárbrúin hefur nú verið vígð og segir hér frá hátíðarhöldunum. Brúnni er lýst og aðdraganda brúargerðarinnar.

Ölvesárbrúin.
Eins og til stóð, var Ölvesárbrúin vígð á þriðjudaginn var. Þrátt fyrir allmikla rigningu þá um daginn hafði til vígslunnar safnast mikill manngrúi úr nálægum héruðum, Árnes- og Rangárvallasýslum, Kjósar-og Gullbringusýslu, Reykjavík og enda víðar að. Brúin var opin til kl. 11 um daginn; þeir sem komu eftir þann tíma vestan að ánni, voru því ferjaðir austur yfir, því austanmegin árinnar fór vígslan fram. Brúin var skreytt fánum og blæjum á báða bóga.
Klukkan rúmlega 2 safnaðist manngrúinn að brúnni, en upp á brúarsporðinn að austanverðu gekk landshöfðingi, frú hans, Tr. Gunnarsson og nokkrir fleiri, svo sem nokkrir embættismenn og heldri manna frúr, þingmenn, hornleikendur og söngmenn. Vígsluathöfnin byrjaði síðan með því, að sungin var uppi á brúarsporðinum með nýju lagi eftir kaupmann Helga Helgason þessi,

Brúardrápa
eftir landritara Hannes Hafstein.
Þunga sigursöngva
söng hér elfan löngum,
byst fann skemmtan besta
banna ferðir manna.
Annan söng nú ýtar vaskir kveði,
upp skal hefja róm með von og gleði
Nú er móðan ekki einvöld lengur,
einvald hennar binda traustar spengur.

Hátt á bökkum bröttum
byggðir eru og tryggðir
synir stáls og steina
sterkir mjög að verki;
standa á bergi studdir magni´og prýði,
strengja sér á herðum gjörva smíði,
tengja sveit við sveit, þótt aldan undir
ófær brjótist fram um klett og grundir.

Vakni von, og kvikni
varmur neisti´ í barmi
mest er mann-verk treystum
móðurjarðar góðu.
Tjáir ei við hrepptan hag að búa,
hér á foldu þarf svo margt að brúa:
jökulár á landi og í lundu-
lognhyl margan bæði´ í sál og grundu.
Sannar afrek unnið:
andinn sigrar vanda;
tengja traustir strengir
tvístrað láðið áður.
Tengjum þannig tvístruð öfl og megin.
Trausti, dáð og framkvæmd greiðum veginn.
Heilar vinni hendur jafnt og andi.
Hefjum brúargjörð á andans landi.

Vakni von, og kvikni
varmur neisti´ í barmi.-
Vilji, von og elja
vinnu saman inni.
Þá mun rísa brú til betri tíða,
brú til vonarlanda frónskra lýða,
brú til frelsis, brú til mennta-hæða,
brú til mannfélagsins æðstu gæða.

Heill sé hug og snilli,
heill sé ráði' og dáðum.
Heill sé lönd og anda,
heiður um foldu breiðist.
Líti sól hver sæmd og nýjar tryggðir,
sveipi gæfan fósturjarðar byggðir.
Blessist framkvæmd, blómgist sviti lýða.
Brúin rísi fram til nýrra tíða.

Ræða landshöfðingja.
Þegar búið var að syngja brúardrápuna hélt landshöfðingi ræðu. Hann talaði fyrst um, hve hátíðlegt tækifæri það væri, sem safnað hefði þangað öllum þeim mannfjölda, sem þar var saman kominn, þar sem nú ætti að opna til almennings nota Ölvesárbrúna, sem væri mesta samgöngumannvirki, sem unnið hefði verið hér á landi síðan landið byggðist, fór þar næst nokkrum orðum um, að samgöngutorfærur landsins væru hinn mesti slagbrandur fyrir framförum þess. Þetta hefði fyrsta löggjafandi alþingi kannast við og álitið eitt af því nauðsynlegasta fyrir landið að bæta samgöngur þess; það hefði því veitt allmikið fé til strandferða og vegabóta. En allir hlutar landsins gætu eigi notað strandferðirnar. Á allri strandlengjunni frá Reykjanesi austur fyrir Lónsheiði væri hafnaleysið því til fyrirstöðu, að þar gætu verið gufuskipaferðir; samgöngur þar því eingöngu á landi; því brýn nauðsyn að allir leggist á eitt að bæta samgöngur á þessu svæði.
Ef maður væri kominn í björtu veðri upp á Ingólfsfjall, sem væri hér á bak við héraðið, blasti við manni eigi aðeins hið stærsta, heldur einnig hið frjósamasta sléttlendi landsins. Útlendir jarðfræðingar kölluðu það Geysis-dalinn og kenndu oss, að það hefði þúsundum ára áður en landið byggðist verið fjörður eða flói, sem gengið hefði inn í landið, með smáeyjum, sem nú væru fellin upp af undirlendinu, t. d. Brúfell, Mosfell, Hestfjall, Vörðufell o. s. frv. Þegar þetta væri borið saman við það, sem var, er forfeður vorir settust hér að, og það sem nú er, gæti maður tekið undir með skáldinu, sem kvað
"gat ei nema guð og eldur
gert svo dýrðlegt furðuverk".
Þar sem áður var flói, þar sáu forfeður vorir
"Um grænar grundir líða
skínandi ár að ægi blám"
og þeirra mestar Þjórsá og Ölvesá.
Á þessu undirlendi búa nú um 10.000 manna. Útlendingar fullyrtu, að ef allt þetta svæði væri yrkt, eins og best mætti, þá gætu búið þar allir íbúar landsins, 70.000, það væri um 1.000 á ferhyrningsmílunni, og væri það ekki margt, eftir því sem gerðist víðast í útlöndum. En til þess þyrfti margt að breytast, meðal annars brýr að koma á árnar og akvegir eftir héraðinu, vegirnir yrðu að laga sig eftir brúnum, brýrnar yrðu að koma fyrst, vegirnir mundu þá fljótt koma. - Eftir það rakti hann sögu brúarmálsins, er vér sleppum hér, en drepum á síðar í blaðinu.
Þar næst þakkaði landsh. fyrir hönd landsstjórnarinnar öllum, sem að því hafa stutt að fá þessu mikilverða mannvirki framgengt: fjárveitingarvaldinu, bæði alþingi, hlutaðeigandi sýslunefndum og amtsráði Suðuramtsins; alþingismönnum, sem barist hafa fyrir því, hinum útlendu og innlendu smiðum, og öðrum, er að fyrirtækinu hafa unnið, og síðast en ekki síst aðalframkvæmdarmanninum Tryggva Gunnarssyni og fór mörgum lofsorðum um framkomu hans við þetta fyrirtæki, og kvað hann með því hafa reist sér þann minnisvarða, er lengi mundi halda minningu hans á lofti.
Síðan minntist hann á hringinn Draupni sem hafði þá náttúru, að níundu hverja nótt drupu af honum 8 hringir jafnhöfgir og óskaði, að á líkan hátt drypi af þessari brú innan skamms álíka margar brýr yfir þær ár landsins, er valda mestum farartálma.
Eftir að fór hann nokkrum blessunar- og bænarorðum um brúna og framtíð þjóðarinnar og lýsti að lyktum yfir að brúin væri opin og heimil til umferðar hverjum sem vildi.
Prósessían.
Þegar landshöfðingi hafði lokið ræðu sinni, gengu menn í prósessíu yfir brúna. Fór hornleikendaflokkur Helga kaupmanns Helgasonar fyrir og lék á horn. Þá kom landshöfðingi, frú hans, Tr. Gunnarsson og síðan hver af öðrum. Fjórir menn tóku að sér að telja þá, sem færu yfir brúna, og voru þeir rúmlega 1500 að tölu; tilætlunin var, að allir, sem viðstaddir voru, gengu í prósessíunni yfir brúna, en það varð þó ekki. Margir voru, sem eigi gerðu það, og giskuðu menn á, að þeir hefðu verið að minnsta kosti 200 til 300, og sumir héldu enda, að þeir hefðu verið fleiri, svo að það má fullyrða, að alls hafi verið viðstaddir um 1800 manna.
Lýsing á brúnni.
Brúin er hengibrú, sem hangir neðan í snúrum, margþættum og digrum járnstrengjum, sem þandir eru yfir ána, þrír á hvora hlið. Járnstrengir þessir hvíla á stöplum beggja megin árinnar; eru þeir að neðan hlaðnir úr grjóti og múraðir, en ofan á grjótstöplunum eru 11½ al. háir járnstöplar eða stólpagrindur, og á þeim hvíla uppihaldsstrengirnir. Að vestanverðu er hamar, sem hærra ber á en að austanverðu; vestan megin er grjótstöpullinn því lægri um 2 áln. á hæð, að lengd 12 áln. og breidd 6 álnir. Austan megin er grjótstöpullinn 9½ al. á hæð, 14 álnir á lengd og 6 álnir á breidd. 60 álnir á landi upp frá þeim stöpli er annar grjótstöpull, 8 ál. á hæð og stór um sig, hlaðinn eða öllu heldur steyptur utan um akkeri, sem endarnir á uppihaldsstrengjunum eru festir í. Að vestanverðu eru tveir sams konar grjótstöplar steyptir utan um akkerin þeim megin. Úr uppihaldsstrengjunum ganga niður í brúarkjálkanna, sem eru úr járni, eru járnslár margar og yfir þær er lagt gólfið úr plönkum; gólfið er hið eina, sem er úr tré, en að öðru leyti er öll brúin úr járni. Járnið í henni vegur um 100.000 pund, en í gólfið þurftu 100 tylftir af plönkum, og 72 tré. Brúin á að geta borið 144.000 pd.
Ölvesá er 112 álnir á breidd, þar sem brúin er; stöplarnir sem uppihaldsstrengirnir hvíla á, eru ekki fast fram á árbakkanum, að austanverðu 3 álnir frá brúninni; auk þess heldur brúin áfram af þeim stöpli austanmegin árinnar 60 álnir frá honum á land upp yfir á akkeraklettinn; er það gjört, af því að áin flæðir þar oft langt á land upp og mundi því oft verða ófært að brúnni þeim megin, ef brúin næði eigi nema rétt yfir ána, eða ef trébrú væri höfð þar yfir bakkann, mundi áin brjóta hana af. Alls er hengibrúin þannig 180 álnir danskar. Auk þess er um 20 álna löng trébrú austur af henni. Brúin er 4 álnir á breidd; beggja megin er 2 álna hátt handrið úr járni. Hengibrúin er öll máluð rauð, en trébrúin austur af hvítmáluð. Frá brúnni eru 20 álnir niður að vatninu og veltur áin þar fram jökullituð og ægileg. Var ekki trútt um, að sumum ógaði við að ganga yfir brúna og líta niður í grængolandi hyldýpið, og það því fremur, sem brúin dúar undi fæti og sveigist til hliðanna, ef hvasst er, en þennan hliðarslátt á að taka af henni með hliðarstrengjum, sem eiga að koma að ári og veittar voru til 3.000 kr. á þinginu í sumar.
Kostnaðurinn o. fl.
60.000 kr. hafa verið lagðar til brúarinnar, þar af 40.000 kr. sem beinn styrkur úr landssjóði og 20.000 kr. sömuleiðis úr landssjóði sem lán til sýslufélaga Árnes- og Rangárvallasýslu og jafnaðarsjóðs Suðuramtsins, er þau eiga að endurborga á 45 árum. Fyrir þessar 60.000 kr. tók kaupstjóri Tryggvi Gunnarsson að sér að koma upp brúnni; aðrir buðust ekki til þess fyrir svo lítið. Ef allt hefði gengið eftir óskum og engin óhöpp komið fyrir, hefði hann vel staðið sig við það. En ýms atvik og örðugleikar við þetta fyrirtæki hafa valdið því, að hann hefur haft af því nokkurn skaða, hve mikinn er oss ekki kunnugt.
Brúin er smíðuð í Englandi og flutt hingað til lands alsmíðuð í sættri og smærri stykkjum. Járnið í brúna varð nokkrum þúsundum króna dýrara, en ef það hefði verið keypt svo sem hálfu ári áður, og mun það hafa verið drætti eða seinlæti frá stjórnarinnar hálfu að kenna, að járnið varð eigi keypt, er það var í lægra verði. Brúin kom á gufuskipi frá Englandi í fyrra sumar og átti það að leggja hana af sér á Eyrarbakka, en þá leyfði eigi veður skipinu að leggjast þar að, svo að það varð að flytja hana til Reykjavíkur; varð því að leigja skip með hana austur á Eyrarbakka, sem var mikill kostnaðarauki. Í vetur var svo brúnni ekið frá Eyrarbakka að brúarstæðinu, og gekk það allt vel. Í fyrra sumar var Tryggvi Gunnarsson alllengi með nokkra menn við brúarstæðið að hlaða stöplana beggja megin árinnar. En í sumar hafa með Tryggva Gunnarssyni verið til þess að koma henni á ána tveir útlendir ingeniörar, annar danskur, Riperda að nafni, til umsjónar frá stjórnarinnar hálfu, en hinn enskur, Vaughan að nafni, ásamt 6 enskum verkamönnum, sem allir komu hingað snemma í júní og fóru ásamt Vaughan aftur með Lauru seint í f. m., en Riperda er hér enn.
Öllum, sem til þekkja, kemur saman um, að Tr. Gunnarsson hafði látið sér einkar annt um, að þetta verk yrði vel af hendi leyst, brúin sem tryggust og rammbyggilegust. Hann hefur og sýnt það með blaðagreinum sínum um brúarvörð, að honum er annt um, að brúin mætti ekki illri meðferð og að hún endist sem lengst. Ætti það, þótt enginn verði brúarvörðurinn, með öðru fleiru að vera mönnum áminning um að ríða eigi hart yfir brúna, skemma hana ekki og fara að öðru leyti sem gætilegast með hana, enda ætti slíkt að vera hverjum manni ljúft af sjálfsdáðum, er þeir athuga, hversu nytsamleg brúin er og hve mikið hún hefur kostað.
Vegurinn að brúnni.
Alfaravegurinn austur hefur hingað til legið annarstaðar að Ölvesá en þar sem brúin er nú komin á hana. Þess vegna varð að leggja veg að brúnni að vestanverðu; hefur verið byrjað á því í sumar; vagnvegur góður er kominn kippkorn frá Ingólfsfjalli áleiðis að brúnni, og verður þeim vegi lokið að ári; til þeirrar vegagjörðar voru veittar 5.000 kr. með fjáraukalögum á þinginu í sumar.
Um 20 ár
hefur þetta brúarmál verið á dagskrá heima í héraði og á alþingi. Fyrir 20 árum hér um bil var í Árnes- og Rangárvallasýslum farið að hreyfa því að koma brúm á Þjórsá og Ölvesá. Á sýslufundi að Stórólfshvoli 21. maí 1872 kom séra Hannes heitinn Stephensen fram með uppástungu um það; var þá kosin 9 manna nefnd til þess að greiða fyrir málinu; var alþingismaður Sighvatur Árnason formaður nefndarinnar (sjá skýrslu hans um þetta í Þjóðólfi 8. febr. 1873). Nefnd þessi stofnaði til samskota, til þess að minnsta kosti að standast kostnað við að fá útlendan ingeniör til að skoða brúarstæðin. Nefndin fékk því til leiðar komið, að stjórnin sendi hingað ingeniör danskan, Vindfeldt Hansen, til þess að skoða brúarstæðin. Brúarstæði á Þjórsá taldi hann best miðja vega milli bæjanna Urriðafoss og Þjótanda, en á Ölvesá rétt fyrir ofan Selfoss, þar sem brúin nú er komin, og áætlaði kostnaðinn við Ölvesárbrúna 80.000 kr., en Þjórsárbrúna 88.000 kr. Sjóðurinn, sem safnast hafði, gekk til kostnaðarins við skoðunargjörðina.
Inn á þing komst málið 1877, þá komu fram bænarskrár um að þingið legði 168 þús. kr. til að byggja báðar brýrnar. En þá var það fellt á þinginu. Á þingi 1879 komu enn bænarskrár til þingsins um að fá 100.000 kr. til beggja brúnna sem vaxtalaust lán, er skyldi endurborgast á 40 árum af sýslusjóðum fjögra næstu sýslnanna og bæjarsjóði Reykjavíkur. Þetta varð að lögum á þinginu. En þá kom stjórnin með lagasynjunar-vöndinn til að hirta Íslendinga með, sem vildu byggja brýr fyrir sína eigin peninga, og synjaði því lögunum staðfestingar. Á þingi 1883 var farið fram á 80.000 kr. fjárveitingu til Ölvesárbrúarinnar, en Þjórsárbrúin ekki nefnd, en það var fellt á því þingi. Á þingi 1885 varð heldur ekki neitt ágengt En á þingi 1887 voru samþykkt lög um Ölvesárbrúna, og með þeim veittar fjárupphæðir þær, sem áður eru nefndar. Stjórnin staðfesti lögin ekki fyr en 3. maí 1889 og gerði í s. m. samninginn við Tryggva Gunnarsson, sem síðan tók til óspilltra málanna og hefur nú komið brúnni á Ölvesá, eins og áður er frá skýrt.
Fyrirtæki þetta hefur þannig átt erfitt uppdráttar, eins og oft á sér stað, þótt um nauðsynjafyrirtæki sé að ræða; þau verða flest, áður en þeim verður framgengt, að ganga í gegn um margs konar mótmæla. En það er ekki vert að æðrast yfir slíku, heldur gleðjast yfir, að þetta fyrirtæki er til lykta leitt, og samfagna héraðsbúum þeim, sem þess eiga helst að njóta, og þeim mönnum, sem mest hafa fyrir því barist.


Ísafold, 12. sept. 1891, 18. árg., 73. tbl., bls. 290:
Ingeniör Ripperda hefur nú skoðað brúarstæði á Þjórsá að tilhlutun landshöfðingja.

Brú á Þjórsá.
Samkvæmt áskorun Alþingis í sumar hefir að tilhlutun landshöfðingja ingeniör Ripperda skoðað brúarstæði á Þjórsá, og er mælt, að hann sé eindregið á því, að það sé lang-líklegast þar, sem Tryggvi Gunnarsson benti á, en það er á milli þeirra brúarstæða, er þeir Windfeldt Hansen og Hovenak höfðu viljað velja, sitt hvor. Öll eru þessi brúarstæði á sama svæði, heldur litlu, milli bæjanna Urriðafoss og Þjótanda.


Austri, 30. sept 1891, 1. árg., 6. tbl., bls. 22:
Halda á sameiginlegan sýslufund beggja Múlasýsla og ræða m.a. vegagerð á Seyðisfjarðarheiði sem mörgum finnst tímabær.

Sameinaður sýslufundur.
Úr báðum Múlasýslum verður haldinn á Egilsstöðum 8. þ.m. og á þar að ræða þrjú mál, er varða Austurumdæmið mikils: nefnil. vegagjörð á Seyðisfjarðarheiði, gufubátaferðir á Austfjörðum og flutning höfuðpóststöðvanna frá Höfða. Skulum vér leyfa oss, að fara nokkrum orðum um þessi mikilsvarðandi málefni.
Það er, hvað hina fyrirhuguðu vegagjörð á Seyðisfjarðarheiði snertir, mjög heppilegt, að landsstjórnin mundi þó loksins eftir því, að Austurland þyrfti vegabóta við ekki síður en hinir fjórðungar landsins, því hingað til hefir það mjög farið þeirra á mis og verið stórum haft útundan og að olnbogabarni, hvað vegabætur áhrærir, að minnsta kosti á móts við Suður- og Norðurland, því á allri póstleiðinni að norðan og hingað á Seyðisfjörð hafa engar vegabætur verið gjörðar hér eystra, svo að nokkru sé teljandi, ekki einu sinni á hinum fjölfarnasta þjóð- og póstvegi landsins, hinni illræmdu Seyðisfjarðarheiði, sem er fjallvegur milli tveggja sýslna að langstærsta kaupstað þessa landsfjórðungs; en það munu nálægt tíu ár síðan byrjað var á póstveginum yfir Vaðlaheiði og Öxnadalsheiði, sem nú er fyrir löngu lokið við, og er þó Seyðisfjarðarheiði miklu lengri og verri yfirferðar en þær, enda hefir margur mátt á því kenna og orðið oft að manntjóni.
Þegar nú á loks að byrja á því nauðsynjaverki að leggja veg yfir heiðina, þá ætti það ekki að lenda í káki einu, eins og vegagjörðin á Vestdalsheiði, þar sem mörgum hundruðum króna var eitt til einskis, heldur ætti nú að leggja góðan upphækkaðan veg yfir alla heiðina, sem gæti verið til frambúðar og sjá svo um að vegurinn upp á heiðina beggja megin yrði miklu betur sniðskorinn en nú á sér stað. Til vegarins yfir Vaðlaheiði, sem þó er meira en helmingi styttri, mun hafa farið nálægt 10.000 kr. Og þá þyrfti sjálfsagt 20.000 kr. til þess að gjöra góðan og vel varðaðan veg yfir Seyðisfjarðarheiði. Væri þeim peningum nokkru betur varið á svo fjölförnum þjóðvegi sem Fjarðarheiði er, en e. 15.000 kr. til vegar á norðurhluta Grímstunguheiðar, sem mest er farinn af kaupafólki og gangnamönnum. Austlendingar hafa réttláta og fulla heimting á því, að hinn fjölfarnasti þjóðvegur þeirra og aðalviðskipta- og kaupstaðarleið verði nú loksins gjörð svo, að það verði ekki lengur lífsháski fyrir menn og skepnur að fara hana. Vegna vetrarferðanna þyrfti og sæluhús á heiðinni. Með því mundi margt mannslíf sparast.
Hvað gufubátsferðunum hér á Austfjörðum viðvíkur mun það öllum ljóst, að þær hljóta að efla betri og auðveldari samgöngur, og létta vöruflutninga, greiða fyrir öllum viðskiptum manna í milli á þessum landsfjórðungi, efla sjávarútveginn, með því yrði miklu hægra að ná beitu þangað sem hana vantaði o. m. fl. svo það væri vissulega tilvinnandi fyrir sýslufélög landsfjórðungs þessa, að styðja svo gott mál með hæfilegum fjárframlögum. - En vér viljum innilega óska, að hinir háttvirtu fundarmenn verði þess minnugir, að Norðurþingeyjarsýsla heyrir nú líka Austuramtinu til samkvæmt yfirlýstum vilja sýslunefndarinnar; en Norðurþingeyjarsýsla er sá hluti landsins, sem einna harðast er leikinn, með því að þar í sýslu koma strandferðaskipin hvergi við, og eru þar þó allgóðar sumarhafnir, bæði Þórshöfn og Raufarhöfn, en sýslan sjálf mjög afskekkt, víðlend og víða vondir fjallvegir, en víðast landgæði og sveitir góðar, sem mundu taka hinum mestu framförum við betri samgöngur. Það má því heita lífsspursmál fyrir Norðurþingeyinga að verða aðnjótandi að gufubátsferðum og mundi líka hagnaður fyrir hina hluta amtsins að geta skipst vörum á við þá. Teljum vér víst, að sú sýsla mundi eigi skorast undan að leggja til þeirra að sínum hluta, því það hyggjum vér mjög svo óvíst að reiða sig nokkuð á að saman gangi með erlendum félögum nálægt þeirri ferðaáætlun Alþingis er hér fer að framan, þar eð alþingi hafði ekki vit á að ganga að tilboði O. Wathne.
Það er auðséð að Austurskaptafellssýsla lægi eðlilegast við gufubátaferðum hér frá Austfjörðum, og er það ein ástæðan af þeim mörgu fyrir sameiningu hennar við Austuramtið, sem vonandi er að umboðsstjórnin verði ekki andstæð til lengdar gegn marg auglýstum vilja Austurskaftfellinga og á móti hagsmunum sýslunnar og fornri fjórðungaskipun landsins, er þótti hagfelld þá er hagur landsins stóð með mestum blóma.
Þriðja málið, er liggur fyrir þessum sameiginlega sýslufundi, er flutningur aðalpóststöðvanna hér austanlands frá Höfða.
Finnst oss þá góðar og gildar ástæður mæla með að flytja þær hingað á Seyðisfjörð, sem er langfjölmennasta kauptún á Austurlandi, rekur langmesta verslun og önnur viðskipti við uppsveitir og hefir hinar greiðustu og flestu samgöngur við útlönd af öllum kaupstöðum landsins. Hið núverandi fyrirkomulag er alveg óhafandi, því hálfan hluta ársins, og það einmitt þann hlutann, er öll viðskipti manna eru mest, á vorin og sumrin, fer sunnanpósturinn ekki lengra en að Höfða, en ekki er svo mikið sem aukapóstur sendur á Seyðisfjörð. Verða því bréfin að bíða norðanpósts vikunum saman á Höfða til þess að komast til skila hingað, eða menn fá þau þaðan ábyrgðarlaus og á skotspæni og geta átt á hættu að tapa þeim peningum og peningavirði, án þess að eiga tilkall til skaðabóta. En að öðrum kosti verður að kosta mann gagngjört héðan eftir bréfunum við hverja sunnanpóstskomu, vor og sumar, nær þingmannaleið héðan upp að Höfða; og senda mann héðan sömu leið, ef menn þurfa að koma bréfum og sendingum á sunnanpóstinn. Er vonandi allir skynberandi menn sjái, hve afleitt og ranglátt hið núverandi fyrirkomulag er og leggist á eitt til að bæta úr því með að flytja aðalpóststöðvarnar frá Höfða og hingað á Seyðisfjörð.
Aukapósturinn til Vopnafjarðar ætti og að ganga héðan upp yfir Vesturdalsheiði yfir Eiða og Bót og sömu leið til Vopnafjarðar og verið hefur. Það stendur líkt á með hann og sunnanpóstinn. Ef menn þurfa að koma bréfi á hann, þá þarf að senda með það gagngjört að Höfða, því hann fer strax þaðan eftir komu norðanpóstsins. Að láta aukapóstinn til Vopnafjarðar fara héðan væri og mikill hagnaður fyrir allan norðurhluta þessarar sýslu og Þingeyinga, þar sem strandferðaskipin koma miklu sjaldnar við, bæði á Vopnafirði og Húsavík en hér, þar sem líka má á sumrum heita nær því daglegar samgöngur við útlönd, sem ekki geta komið þessum héruðum að notum, er aukapóststöðvarnar eru nær þingmannaleið frá viðkomustað skipanna langt upp í sveit!!!
Þó að aðalpóststöðvarnar væru fluttar hingað og aukapósturinn til Vopnafjarðar legði upp héðan, þá væri víst óhjákvæmilegt, að hafa póstafgreiðslustað á Völlunum til afgreiðslu aukapóstanna upp í Fljótsdal og að Hjaltastað, sem ætti líka að ganga niður í Borgarfjörð, og svo virðist nægja að hafa aukapóst til Eskifjarðar og suðurfjarðanna.
Með því fyrirkomulagi, er vér höfum leyft oss að stinga hér upp á sparaðist póstsjóðnum líka töluvert fé, með því að hafa aðeins bréfhirðing á Eskifirði og losast við biðpeninga norðanpóstsins á Höfða á meðan hann bíður þar eftir sunnanpósti, sem nú er orðinn stöðugur útgjaldaliður, en alþýða fengi miklu hagkvæmari póstleiðir og betri samgöngur hér austanlands. Það virðist örðugt að neita því, að það sé ranglátt að menn þurfi að senda 2 hraðboða héðan við hverja póstferð til að taka og flytja frímerkt bréf til og frá Höfða á sunnanpóstinn, og aðra tvo til þess að hafa gagn af Vopnafjarðarpóstinum. En það getur orðið ómetanlegt tjón að því, að útlend bréf, er hingað koma með gufuskipunum, liggi hér lengi. Og loks finnst oss það nær pósthneyksli, að sýslumaðurinn í Norðurmúlasýslu geti ekki staðið í neinu reglulegu póstsambandi við nær helming af sýslu sinni fyrir þetta fráleita fyrirkomulag, heldur verður hann sem aðrir að senda gagngjört upp á eigin kostnað með frímerkt embættisbréf sín að Höfða! Þetta mun vera eins dæmi hér á landi, að sýslumaður þurfi að senda nær þingmannaleið fyrir ærna peninga til þess að koma embættisbréfum sínum ekki einungis á aðalpóstinn, heldur líka á sjálfan aukapóst sýslunnar!! Finnst oss sem þetta kóróni hið óhagkvæma núverandi fyrirkomulag með aðalpóststöðvarnar upp í Héraði og aukapóst þaðan til Vopnafjarðar.


Ísafold, 17. okt. 1891, 18. árg., 83. tbl., forsíða:
Hér er fjallað um vegagerð frá Ölfusárbrú og upp að Ingólfsfjalli og er þetta sagður dýrasti vegaspotti sem lagður hefur verið á landinu og að sama skapi vandaður. Ekki eru menn þó sáttir við vegastæðið og finnst kominn tíma til að fá fastan vandlega valinn verkfræðing, útlendan eða innlendan til að stjórna vegagerð landsins.

Vegagjörð upp frá Ölfusárbrúnni.
Til þess að Ölfusárbrúin yrði notuð undir eins tálmunarlaust, þurfti að gjöra ferðamönnum fært yfir vegleysu þá, mýri og móa, sem er á milli alfaravegarins meðfram Ingólfsfjalli og brúarsporðsins vestari, eins og skýrt var frá í Ísafold í fyrra. En úr því svo var, þótti réttast að gjöra þar þegar fullkominn veg, góða akbraut, eins og hinir nýju vegarkaflar hafa verið hafðir, er lagðir hafa verið á landssjóðs kostnað hin síðari árin, frá því lærðir vegfræðingar fóru að skipta sér af því. Fyrir því var að undirlagi lands-höfðingja vegarstæði um þetta pláss skoðað. Í vetur sem leið, af Erlendi Zakaríassyni, og tekið til starfa á miðju sumri, skömmu eftir að alþingi var sett og fengið vilyrði þingmanna fyrir áætlaðri fjárveitingu til vegarspotta þessa. Hefir verkinu síðan verið haldið áfram til skamms tíma, eða 10. þ. m., er því var að fullu lokið, en byrjað var það 7. júlí. Verkstjóri hefir Erlendur Zakaríasson verið, og segja þeir, sem séð hafa, veginn mjög vel af hendi leystan; enda er þetta eigi fyrsti vegurinn, sem Erlendur hefir gert og gert vel.
En vegarspotti þessi er að líkindum einhver hinn dýrasti, er hér hefir gerður verið. Hann er rétt viðlíka á lengd og ráð var fyrir gjört í áætluninni, og kunnugir vita, að ekki er um miklar torfærur að tefla á því svæði, er hann liggur um. Mundu því flestir hafa fortekið, að faðmurinn af honum mundi geta kostað stórum meira en á var ætlað, 4 kr., eða um 5.000 kr. vegurinn allur. En raunin mun hafa orðið sú, að vegurinn kosti þriðjung meir, eitthvað á 8. þúsund, líklega nær 8 en 7 þúsundum. Unnu að honum um 30 manna til jafnaðar hér um bil 80 virka daga, með 8-10 hestum og 4-5 vögnum, auk mikilla vinnutóla annarra (100 planka til að aka eftir o. s. frv., m. m.). Í stað 4 kr. kostaði vegurinn 10. kr. faðmurinn á einum kafla, eigi allstuttum, um 150 faðma, en á sumum köflum öðrum 6-7 faðma. Lengd vegarins alls er 1322 faðmar.
Þá er nú eigi tiltökumál, þótt slíkar áætlanir standi engan veginn fyllilega heima. En að svona stórkostleg skekkja skuli geta átt sér stað, það er eitthvað bogið, nú þegar búið er þó í mörg ár að fást við slíkar áætlanir og leggja vegi eftir þeim. Annaðhvort hlýtur sú iðn enn að vera í furðu mikilli bernsku hjá oss, eða þá að hér er um slysalega handvömm að tefla.
Það mun ekki leyna sér, að þetta, sem síðar var nefnt, hafi hreppt vegargjörð þá er hér ræðir um.
Eftir uppástungu Erl. Zak. átti vegurinn að liggja nokkuð á snið upp frá brúnni út á við upp undir fjallið. Með þeirri stefnu mælti þegar það atriðið, að þá styttist vegurinn með fjallinu nokkuð, en hann verður að gjöra að akvegi fyr eða síðar, og er þá hreinn gróði hver faðmur, sem sparast af honum, að öðru jöfnu. Því lengra en að brúarveginum þarf eigi þjóð-vegurinn með fjallinu ekki að ná nokkurn tíma; framhald hans kemur eigi að notum nema örfáum bæjum lengra upp með því. Þar að auki var mikið jafnlent á þessu svæði, svo að hvergi þurfti að grafa niður né hækka upp svo teljandi væri, til þess að fá veginn hæfilega jafnsléttan. Loks hagar svo til, að þótt vegurinn þannig lagður kæmi talsvert utar saman við Ingólfsfjallsveginn heldur en ef stefnt var þverbeint frá brúnni upp undir fjallið, þá hefði hann samt eigi orðið hóti lengri, heldur jafnvel nokkrum föðmum styttri, 1300 faðmar í stað 1322. Og geri maður 400 faðma langt bilið með fjallinu milli þessara tveggja vegarstefna, þá er það, að kjósa hina eystri, beint upp undir fjallið, sama sem að láta landssjóð kosta 1722 faðma veg þar, sem komast mátti af með 1300 faðma.
Hver stefnan giska menn nú á að kosin hafi verið á endanum?
Hver nema einmitt sú sem ver gegndi, hin eystri, sem skapar landssjóði á að giska 1732 faðma vegarlengd til lagningar að upphafi og síðan til viðhalds um aldur og æfi, í stað 1300.
Vitanlega getur svo staðið á og stendur margsinnis svo á, að betri er krókur en kelda, að betri er meiri vegalengd, vegna miklu greiðara vegarstæðis þar og þar af leiðandi kostnaðarminni að öllu samtöldu, þrátt fyrir lengdarmuninn. En því fer svo fjarri, að slíku væri hér til að dreifa, að eystra vegarstæðið var einmitt miklu ógreiðara, miklu torfærumeira, sem sýnir sig best á því, hve dýrt hefir orðið að leggja þar veginn, um mikinn kafla af því að minnsta kosti. Þar er sem sé mishæðótt, svo grafa þurfi stórum niður veginn sumsstaðar og hækka upp þess á milli, en sumsstaðar kviksyndis-dý og -fen, er gerði vegarvinnuna afar-erfiða og kostnaðarsama.
En hverjum gátu orðið svona mislagðar hendur í eigi meira vandamáli en þetta virðist hafa verið?
Svo ógeðfellt sem það er að hallmæla manni á bak, en svo má það heita, að rita um hann ámæli á honum ókunna tungu í fjarlægu landi, það verður að segja hverja sögu eins og hún gengur. Sagan er þá sú, að það var hinn danski verkfræðingur. v. Ripperda, er Kaupmannahafnarstjórnardeildin hafði útvalið til umsjónar af sinni hálfu við Ölfusárbrúarsmíðið í sumar, - það var hann, er réð þessari óhappabreytingu á vegarstefnunni, mældi hinn nýja veg og sagði fyrir um alla tilhögun á honum. Hafði landshöfðingja að sögn verið boðin hans liðveisla til að segja fyrir um vegagjörð þar, sem hann næði til frá brúnni í sumar, kostnaðarlaust, með því að hann hafði fullt kaup frá öðrum hvort sem var. Hefir landshöfðingi að líkindum eigi þóst mega eða viljað hafna svo góðu boði, þar sem hann hafði og engan lærðan verkfræðing sér við hönd.
Hvað hann hefir haft fyrir sér, er hann hafnaði vegarstefnu Erlendar, og færði sig svona langt austur á við, af jafnlendi á óslétt land, fenjótt og dýótt, mun flestum óljóst. Því látum svo vera, að honum hafi verið talin ranglega trú um, frá mönnum, er af sérplægnisástæðu var ekki sama hvar vegurinn var, að hann lægi miklu fremur undir vatnságangi og snjóa á vetrum á vestari staðnum, fram hjá Árbæ, þá var honum eigi ofætlun, að sjá hið rétta, að sjá það sem kunnugum ber saman um, að álíkt er um snjóþyngsli og þ.h. á báðum stöðunum, en jafnlendið og sérhvað annað, er áður hefir talið verið, mælti með Árbæjarstefnunni. Þar við bættust svo býsna miklar hallajafna-reikningsvillur hjá honum, er aukið hefðu enn kostnaðinn mikið, ef þær hefðu fengið að standa. Loks sparaðist þó nokkur hundruð króna kostnaður fyrir það, að horfið var frá vegarstefnu hans, er niður eftir dró, niður fyrir mýrina, eftir að landshöfðingi var búinn að sjá hana, þegar hann kom austur að vígja brúna, og leist eigi betur á en svo, að sögn; enda kom hinn útlendi verkfræðingur eigi nærri verkinu upp frá því.
Tvö-þrjú þúsund krónur er reyndar eigi mikið fé í sjálfu sér, og vitaskuld er alls eigi við að búast, að ekki vilji til því líkur halli við og við á nokkuð stórum fyrirtækjum, er sjá má eftir á, að hægt hefði verið að komast hjá. En það er mikið fé þar, sem lítið er af að taka og ekki meiri en aðalupphæðin er; allur kostnaðurinn til þessa ofurlitla vegarspotta.
Lærdómurinn, sem leiða má út úr þessu óhappi, þessari handvömm, - hann er sá, sem Ísafold hefir margsinnis vikið á, hvílík ráðleysa það er, að ætla sér að bjargast að föngum til með verkfróðra aðstoð við mannvirki á almennings kostnað, í stað þess að hafa hér fastan vandlega valinn verkfræðing, útlendan eða innlendan, mann, sem ekki þarf að fara hót eftir annarra sögusögn, og hefir von bráðara í huganum greinilegt yfirlit yfir, hvernig vegir eigi að liggja um landið, og framfylgir því, svo eigi þurfi að vera að hlaupa í vegargjörð hingað og þagnað að handa hófi, án þess að vita, hvernig þeir molar falla í aðalbygginguna, né annað, sem vita þarf og leggja niður fyrir fram, eigi nokkurn tíma að fást sæmileg trygging fyrir því, að vegabótafé landsins eigi varpað á glæ fyrir ráðleysu og handvömm.
Aðfengnir verkfræðingar um stuttan tíma eru harla gagnslitlir á við það sem þeir geta orðið, og hljóta að verða, séu þeir vel valdir, ef þeir ílengjast hér. Takist valið heppilega, svo sem segja má vafalaust um þá Hovdenak og Siwertson, þá eru þeir tapaðir óðara en þeir fara að kynnast, í stað þess að þá ríður hvað mest á að halda í slíka menn. Takist það miður, geta þeir orðið til tjóns og ekki annars. En því oftar sem þarf að vera að útvega slíka menn, því hættara er við að valið misheppnist. Enda er þeim, sem ráða eiga, ætlandi að leggja sig betur í framkróka um valið, er það á að verða til frambúðar, auk þess sem þá má til frekari varúðar ráða manninn að eins til bráðabirgða fyrst um sinn og festa hann eigi í embættinu nema hann reynist vel.

Austri, 20. okt. 1891, 1. árg., 8. tbl., bls. 31:
Hér segir Austri frá vígslu Ölfusárbrúar.

Ölfusárbrúin.
Þann 8. f. mán vígði landshöfðingi Magnús Stephensen brúna að viðstöddum fjölda fólks með mikilli viðhöfn og hélt snjalla vígsluræðu eftir að sungið hafði verið vígslukvæði eftir landritara Hannes Hafstein með nýju lagi eftir Helga Helgason. Var og blásið á horn. Brúin er 120 álna löng milli stólpanna beggja megin árinnar; en að austanverðu varð að lengja brúna um 60 álnir, svo fært yrði að aðalbrúnni á vatnavöxtum. Brúin er hengibrú, er hangir í margþættum afar sterkum járnstrengjum sem festir eru um brúarstólpana og þaðan í akkeri sem múruð eru niður báðum megin nokkuð fyrir ofan stólpana. Brúarkjálkarnir hanga í mörgum járnböndum neðan í brúarstrengjunum og úr kjálkunum ganga þverslár margar, og er allt þetta úr járni. En ofan í þessar slár er sjálft brúargólfið lagt úr plönkum. Allt til brúarinnar er smíðað á Englandi og yfirsmiðurinn enskur. En kaupstjóri Tryggvi Gunnarsson hefir byggt brúna fyrir 60.000 kr. Bauðst enginn til að gjöra það fyrir svo lítið, enda mun hann hafa skaðast á því fyrirtæki um margar þúsundir króna, kostað líka að ýmsu leyti meira til, en hann var skyldugur samkvæmt samningi.


Austri, 30. okt. 1891, 1. árg., 9. tbl., forsíða:
Til stóð að halda sameiginlegan sýslufund Múlasýsla en fáir mættu úr Suður-Múlasýslu. Voru því málin aðeins rædd frá hálfu Norður-Múlasýslu og ályktað m.a. um veg yfir Fjarðarheiði.

Sýslufundurinn.
Ár 1891 fimmtudaginn 8. október var sýslunefndarfundur fyrir Norður-Múlasýslu haldinn að Egilsstöðum á Völlum samkv. áskorun meiri hluta sýslunefndarmanna. Var svo til ætlast samkv. áskorun þessari að fundurinn væri sameinaður fyrir báðar Múlasýslur, en af sýslunefndarmönnunum úr Suður-Múlasýslu eru aðeins mættir sýslunefndarmennirnir úr Skeggjastaðahreppi, Vopnafj.hr., Hlíðarhreppi, Fellahr. Fjótsdhr. Tunguhreppi, Hjaltastaðahr., Loðmundarfjarðarhreppi, og varð því eigi haldinn sameinaður sýslufundur fyrir báðar Múlasýslur. En þó að þau málefni, er gáfu tilefni til fundarins, vörðuðu báðar Múlasýslur, var það gjört að samþykkt, að ræða þau frá hálfu sýslunefndar Norður-Múlasýslu.
Var svo tekið til umræðu:
1. Um gufubátsferðir á Austfjörðum og hluttekning sýslufélagsins í þeim kostnaði, er þær mundu hafa í för með sér, gagnvart styrk þeim, er veittur er á fjárlögunum fyrir 1892-93 úr landssjóði.
Eftir nokkrar umræður var samþykkt í einu hljóði svohljóðandi ályktun:
Sýslunefndin samþykkir, að styrkur sá, er veittur er á fjárlögunum fyrir 1892 og 93 (6.000 kr. fyrir bæði árin) til gufubátsferða á Austfjörðum, verði veittur sveitafélögunum á Fljótsdalshéraði til að koma á gufubátsferðum um Lagarfljótsós og ákveður að leggja fram 1.000 kr. úr sýslusjóði Norður-Múlasýslu til þess fyrirtækis fyrir bæði árin, þó með því skilyrði, að eigi verði lögð frekari byrði á sýslufélagið til þess fyrirtækis þessi 2 ár.
2. Um vegagjörð á Fjarðarheiði.
Eftir nokkrar umræður var samþykkt í einu hljóði: Að skora á landsstjórnina, að veita næsta ár af því fé, er veitt er á fjárlögunum til vegagjörða, 5.000 kr. til vegagjörðar á póstleiðinni um Fjarðarheiði af Fjarðaröldu upp til sýslumóta.
3. Um kaup á trébrú þeirri, er kaupm. O. Wathne hefir látið byggja yfir Fjarðará í Seyðisfirði.
Eftir nokkrar umræður var samþykkt í einu hljóði þessi ályktun:
Sýslunefndin tjáir sig fúsa til, að taka einhvern þátt í að borga brúna yfir Fjarðará ef Suður-Múlasýsla, Seyðisfjarðarhreppur, kaupm. O. Wathne og pöntunarfélag Fljótsdalshéraðs taka einnig þátt í borguninni, en sér sér ekki fært að tiltaka neina upphæð, fyr en brúin er virt af óvilhöllum virðingarmönnum.
........


Ísafold, 25. nóv. 1891, 18. árg., 94. tbl., forsíða:
Enn vantar brú á Hvítá í Borgarfirði og er greinarhöfundur mjög óhress með það.

Aðalbrú á Hvítá í Borgarfirði.
Einstök fyrirmunun má það heita, að enn skuli vanta aðalbrú, þjóðleiðarbrú, á Hvítá í Borgarfirði, ferjuvatn, sem þrír landfjórðungar eiga leið yfir til höfuðstaðar landsins, eina ferjuvatnið í öllum Vestfirðinga fjórðungi, og þó að eins á takmörkum hans. Þar að auki klýfur á þessi að endilöngu eitt með fjölbyggðustu héruðum landsins, sem nú er eitt lögsagnarumdæmi.
Ókunnugir hljóta að ímynda sér, að mjög mikill vandi og lítt kleifur kostnaður muni vera að brúa þá á. Þeir hugsa sjálfsagt, að það muni kosta marga tugi þúsunda; annars mundu héraðsbúar sjálfir löngu búnir að leggja slíka brú.
Þeir væru og líklegast búnir að því nú, ef eigi væri vegalögin frá 1887, er vörpuðu öllum slíkum fyrirtækjum á landssjóð, með öðrum torfærum á aðalpóstleið; því aðalbrú á Hvítá verður að vera á póstleið og þjóðleið.
Þeir hafa, eða réttara sagt 2-3 sveitir, brúað ána, eins og kunnugt er, í sumar, en langt úr þjóðleið, á Barnafossi, mest fyrir fjárrekstra, en þó svo vel, að fara má þá brú með klyfjaburð.
Vandinn og kostnaðurinn að brúa Hvítá á fyrirhugaðri þjóðleið að henni og frá er sem sé svo ótrúlega lítill, að jafnvel fátæk sýslufélög hafa lagt á sinn kostnað hálfu dýrri brýr, já margfalt dýrri.
Í sumar var lögð á landssjóðs kostnað brú á smásprænu eina skammt héðan, er fáir hafa heyrt nefnda utanhrepps; hún heitir Leirvogsá. Það mun hafa kostað um 3.000 kr., brúin sjálf og steinstöplarnir undir brúarsporðana beggja vegna. Og það er einstaklega traust og vel gerð brú. Hún er líka að eins 22 álnir á lengd.
Hvað er það að miða við annað eins höfuðvatnsfall og Hvítá í Borgarfirði! - munu menn segja.
Jú, viti menn!
Leirvogsárfarvegurinn er 22 álnir á breidd á brúarstæðinu.
Hvítárfarvegurinn er á hinu fyrirhugaða aðalbrúarstæði er, - hann er fjórðungi mjórri. Hann er ekki nema 17-18 álnir á breidd!
Og þessi ósköp hafa menn látið sér í augum vaxa allt til þessa dags, í mörg hundruð ár!
Auðvitað höfðu formenn brú á Hvítá á þessum stað, sem lesa má í Sturlungu og víðar. En vitanlega hlaut hún að takast af undir eins og hún fúnaði, eftir íslenskri manndáð á 14. og 15. öld. Að koma henni á aftur, - slíkt fyrirtæki hefir þjóðin sem sagt eigi hætt sér út í þau 6-700 ár, sem síðan eru liðin.
Þetta ægilega stórvirki kostar líklega 3000 kr.! Það kostar hálf, hálf eins árs eftirlaun eins embættismanns, eða lítið meira.
"Miklar hetjur erum við, Hrólfur minn!" Miklir garpar erum vér, Íslendingar.
Menn halda sjálfsagt að þessi kostanaráætlun nái engri átt.
En því skyldi það vera?
Brúin á Barnafossi kostaði eigi 2.000 kr., og er þó 4 álnum lengri en hin brúin þarf að vera, hjá Kláffossi. En af því það á að vera aðalbrú, er hæfilegt að ætlast til, að hún sé höfð þeim mun veigameiri, að trésmíðið, brúin sjálf, verði samt eins dýrt, - þó að miklu skemmra sé að flytja efnið og þó að mikill viður og talsverður smíðakostnaður hafi farið í kvíar úr frá báðum brúarsporðunum á Barnafossi, vegna gljúfrahættunnar þar. Þá eru samt meira en 1.000 kr. eftir, og þær eru ætlaðar í grjótvinnu undir brúarsporðana, stöpul eða stöpla. Hún var engin við Barnafoss; brúin liggur á gljúfurbörmunum; gljúfrin eru nógu djúp til þess.
Það mun þurfa lítið sem ekkert að hlaða undir brúna á Kláffossi nema öðrum megin. Norðmenn hafa nú kennt íslenskum vegagjörðamönnum að hlaða brúarstöpla án steinlíms, og það vel rammbyggilega, sem sjá má á Hólmsbrúnni og Leirvogsbrúnni. Til þess þarf vitanlega hentugt grjót, það er; grjót, sem kljúfa má eða höggva. Bresti það á þeim stað eða þar nærri, mun verða að hafa steinlím, og eykur það kostnaðinn nokkuð, en eigi stórkostlega. Enda ætti ekki að líða yfir neinn, þótt kostnaðurinn kæmist eitthvað fram úr þessu, sem hér er nefnt. Að hann þurfi að fara fram úr 4.000 kr., það er að minnsta kosti lítt hugsandi.
Ýmsir munu hafa heyrt getið um allt öðruvísi lagaða áætlun um brúarkostnaðinn hjá Kláffossi. Þeir munu hafa heyrt nefndar 10.000 í stað 3 eða 4, og það eftir vitring í þeim efnum, hálærðan vegfræðing. Hér skal og eigi dirfst að rengja einn staf í þeirri áætlun. Munurinn er sá, að hann (Siwerson) á við járnbrú, en hér er gert ráð fyrir trébrú.
En að hafa járnbrú yfir Hvítá hjá Kláffossi er bersýnileg þarfleysa. Aðalreglan með járnbrýr og trébrýr virðist annars vera sú, að hafa stórbrýr, brýr yfir langt haf, úr járni, en smábrýr úr tré. En mundi þessi Hvítárbrú hjá Kláffossi geta kallast stórbú á nokkru byggðu bóli? Eða því skyldi hún, 17 álna lögn, eiga að nefnast stórbrú, og vera smíðuð úr járni, en 20, 30 eða jafnvel 40 álna brýr á öðrum ám heita smábrýr og hafðar úr tré, eins og altíðkanlegt er, hvor sem þær eru í þjóðbraut (aðalpóstleið) eða eigi? Er það af því, að Hvítá þessi er fræg, mikils háttar, göfug á, sem skilur landsfjórðunga?
Þessu mun svarað svo, að það sé betra sem betra er, að hafa brýr úr járni en tré.
Getur vel verið, - ef, efnin leyfa.
En meðan landið á svo í vök að verjast með fjárhaginn sem það á, og getur ekki framkvæmt hundraðasta partinn af því, sem það bráðþarfnast fyrir, og fyrir þá sök lætur sér duga smábrýr af tré, sem vel má fara - það gera jafnvel efnaðri þjóðir -, á meðan er hégóma-tiktúra að láta sér vandara um eina á annarri fremur, eða eina smábrú af mörgum.
Vextir og vaxtavextir af kostnaðarmuninum á járnbrú og trébrú er miklu, miklu meiri en viðhaldskostnaðurinn á trébrúnni, að fyrningu meðtalinni eða endursmíðun trébrúarinnar í hvert sinn sem þess þarf. Er því mun hyggilegra, að spara sér þann kostnaðarauka, þegar það er hægt, þ. e. brúin eigi svo stór, að nauðsyn beri til fyrir styrkleika sakir, að hafa hana úr járni. Fyrir oss, jafnfélausa og jafn skammt áleiðis komna að brúa ár og læki á landinu, er einsætt að hafa þá reglu, að brúa heldur 3 ár, en 1 fyrir sama fé. Vér þurfum eigi að brúa þessar 3 ár illa fyrir því. Munurinn er sá, að viðhaldið er meira á trébrúnum, er til lengdar lætur, en það á niðjum vorum eigi að vera nein ofætlun.
Það er hneyksli, að láta Hvítá þessa vera óbrúaða lengur. En það verður hún samt sjálfsagt mörg ár enn, ef ekki má gera það öðruvísi en með járnbrú, og ef endilega á að leggja dýran akveg að brúarstæðinu beggja vegna samsumars. Þá verður sjálfsagt að bíða eftir sérstaklegri fjárveiting þingsins til þess; en þá verður farið að metast um, hver áin af mörgum skuli ganga fyrir; aðrir landsfjórðungar eða þeirra þingmenn halda þá fram hver sinni á. Getur þá svo farið, að Hvítá verði að bíða von og úr viti með því móti.
Í stað þess að með hinu mótinu mætti brúa ána nú þegar á næsta sumri. Enginn færi að metast um það, þó að varið væri 3.000 kr. af þess árs vegabótafé (30.000) til jafnáríðandi og merkilegrar samgöngubótar, úr því að enginn fékkst um aðra eins fjárbrúkun við Leirvogsána í sumar.
Til vegabóta við brúna þarf naumast öðru til að kosta í bráðina, en að gera vel fært með hesta yfir mýrina vestan árinnar, og getur það eigi miklu numið.
Þess má geta, ókunnugum til skýringar að Kláffoss-brúarstæðið, sem er skammt fyrir neðan Síðumúla, má heita í beinni stefnu frá Varmalækjarmelum upp í Norðurárdal þar, sem vegir skiptast norður í land og vestur, og sjá allir, að sú vegarstefna lengir eigi, heldur styttir til muna þjóðveginn, langferðamannaveginn, yfir Borgarfjörðinn. Hvað héraðsmenn sjálfa snertir, þá eru það að eins neðstu sveitirnar við ána, sem eigi hafa gagn af brúnni sín á milli, og svo Mýramenn og kann ske Snæfellingar eða þeir sem þangað eiga erindi sunnan yfir. En Mýramenn liggja við sjó og nota hann mest til ferða og flutninga. Og að fara að kosta upp á brú hinna vegna neðar á ánni, brú, sem hlyti að verða sjálfsagt meira en tífalt dýrari en á Kláffossi, það væri hin mesta fjarstæða, og er furða, að slíkt skuli hafa verið tekið í mál. Auk þess er einmitt þar niður frá vað á ánni, alfært fyrir kunnuga meiri hluta sumars.


Ísafold, 5. des. 1891, 18. árg., 97. tbl., bls. 186:
Hér er sagt frá vegagerð í Húnavatnssýslu en þar hefur verið unnið á nokkrum köflum milli Miðfjarðarár og Stóru-Giljár.

Vegagjörð í Húnavatnssýslu.
Aðal-landssjóðs-vegagjörðin í sumar sem leið, 1891, fór fram á nokkrum köflum aðalpóstleiðarinnar milli Miðfjarðarár og Stóru-Giljár í Húnavatnssýslu, og var verkstjóri Páll Jónsson vegfræðingur, er verið hefir nokkur ár í Noregi að fullnuma sig í vegagjörð, bæði bóklega og verklega. Var byrjað á vinnunni í miðjum júní og haldið áfram til septemberloka. Mannaflinn var 27 að tölu lengst af, að verkstjóra meðtöldum, sem gekk til vinnu eins og aðrir. Í vinnunni voru og hafðir 8 hestar, og 4 kerrur.
Á Miðfjarðarhálsi var langmest unnið: lagður þar nýr vegur um 3.400 faðma, frá Káradalslæk (suður frá Sporði) vestur um Sellæk, er fellur í Miðfjarðarvatn. Það kvað vera mjög vandaður og vel gerður vagnvegur, og halli hvergi meiri en 1:15, og það aðeins á einum stað.
Þar að auki var gert við eða lagðir smáspottar á 4-5 stöðum á téðum vegi, svo sem 25 faðma spotti nýr norðanvert við Dalsá í Víðidal; 174 faðma löng brú fyrir vestan Gröf í Víðidal umbætt, gerð 6 álna breið og ræsi gerð næg í gegn um hana og borið ofan í ; gjört við brú fyrir sunnan Hólabak; loks gert mikið við veginn frá Skriðuvatni út fyrir neðan Brekkukot í Sveinsstaðahreppi, meira en 2300 faðma, einkanlega á Axlarbölu, 300 faðma löngum kafla, gert mikið við tvær langar brýr þar, m. m.


Ísafold, 16. des. 1891, 18. árg., 100. tbl., forsíða:
Hér er fjallað um veginn frá Ölfusárbrú að Ingólfsfjalli og vill sr. Ísleifur Gíslason taka á sig ábyrgðina á vegstæðinu. Ritstjóri Ísafoldar er honum ekki sammála.

Meira um vegagjörð upp frá Ölfusárbrúnni.
Eftirfarandi grein frá hr. Ísleifi presti Gíslasyni í Arnarbæli, sem riturð er í leiðréttingarskyni við greinina í Ísaf. 17. okt. þ. á., gjörir raunar eigi nema staðfestir það sem þar er sýnt fram á; að vegur þessi hafi orðið slysalega dýr, fyrir óheppni eða handvömm þess eða þeirra, er fyrir honum áttu að ráða, og var því haldið fram í áminnstri grein, að ábyrgðin hvíldi á hinum danska vegfræðing, er hafði tekið að sér að ákveða vegarstefnuna og mæla og afmarka vegarstæðið. Nú vill prestur taka á sig nokkuð af þessari ábyrgð, sem sé að því er snertir færsluna á vegarstefnunni, og er það að vísu drengilega gjört, en það getur naumast tekist gilt. Hvorki prest (hinn heiðr. höf,) né aðra ber að skoða öðruvísi en ábyrgðarlausa ráðanauta hans. Þeir kunna að hafa sagt honum eitt hver, eins og gjörist, en hann var að skera úr, eftir sinni vegfræðisþekkingu, og hún hlaut að vera einhlít til þess að sjá, að misráðið var, að velja það vegarstæði, sem hann gerði, eins og reynslan sýndi. Dýjamergðina er, að kunnugra vitni, áhöld um á báðum vegastefnunum, og snjóþyngsli slíkt hið sama, en mesti munur á því, hve vegarstæði Erlendar Zakaríassonar er jafnlendara og þar að auki ágætur ofaníburður þar á hentugasta stað. Það sem prestur telur löst á vestri vegarstefnunni, að vegurinn hefði ofan til orðið að liggja utan í lágri brún eða dálitlum halla, það munu þeir, er til réttrar vegagjörðar þekkja, vilja kalla kost; því þá er miklu hægra en ella að veita vatni frá veginum, og þó að nokkur smáræsi þurfi gegnum hann til þess, þá eru þau marfalt ómaks-og kostnaðarminni en niðurgröftur (gegn um mishæðir) og verja veginn þar að auki miklu betur en skurðir fram með honum .
Hinn heiðraði höf. berst alveg við skuggann sinn, þar sem hann er að bera af sér athugasemdina um sérplægnisástæðu fyrir vegarstefnubreytingunni. Kunnugir vissu, að hann býr of fjarri til þess, að slíkt væri einu sinni hugsanlegt, en ókunnugir vissu eigi, að hann hefði nærri þessu vegagjörðarráðabruggi komið. Var því engin leið að því, að neinn grunur gæti á hann fallið, auk þess sem hann er of valinkunnur maður til þess, að þess háttar grunur færi að taka heim á honum alveg út í bláinn.
Í greininni í Ísaf í haust var giskað á, að kostnaðurinn við vegarspotta þessa mundi hafa komið 2-3.000 fram yfir áætlun eða með öðrum orðum hlaupið fram um 50%. Nú munu menn vera orðnir það nær, að líklegra er það þokist nær 100%, þ. e. að kostnaðurinn hafi orðið 9-10.000 kr., í stað 5.000. Og það sjá allir að er stórhneyksli, á ekki lengri vegarkafla en þetta er eða vandameiri, - einir 1300 faðmar, yfir torfærulitla mýri og sumt móa- og melholt. - Vitanlega er til lítils að fást um orðinn hlut, er eigi verður aftur tekinn. En "til þess eru víti til að varast þau", og var það auðvitað tilgangurinn með greininni í haust, er þessi eftirfarandi grein gjörir fremur að styrkja en veikja, ef rétt er að gáð. - Til hægriverka höfum vér skotið inn í hana smá athugasemdum á stöku stað, milli hornklofa.

* * *
Það hefir dregist fyrir mér þangað til nú, að gjöra nokkrar athugasemdir við ritstjórnargrein í 83. tölublaði Ísafoldar um "vegargjörð upp frá Ölfusárbrúnni", og biðja yður, herra ritstjóri, að veita þeim viðtöku í blað yðar. Ég finn mér því fremur skylt, að leiðrétta það, sem mér virðist vera mishermt í þessari grein, þar sem ég var að nokkru leyti viðriðinn breytingu þá á vegarstefnunni, er verkfræðingur v. Ripperda gjörði frá uppástungu Erlendar verkstjóra Zakaríassonar, með því að ég sem nokkurn veginn kunnugur maður hér í sveitinni, bæði sumar og vetur, var kvaddur til að vera með hr. Ripp. og gefa honum nauðsynlegar upplýsingar, er hann ákvæði vegarstefnuna. Þegar taka skyldi ákvörðun um stefnuna, fórum við fyrst eftir því svæði, er Erl. Zak. hafði í fyrra vetur talið tiltækilegast fyrir veginn, og er mýrinni þar svo varið, þegar lengra dregur upp eftir henni, nær fjallinu, að þar sem að vegurinn hefði átt að liggja, utan í lágri brún, er einlægt dýjakerfi [ekki meira en á hinum veginum], og hleðst þar upp í frostum margra feta þykkur ís, og í leysingum hefði vatnsrennsli allt stefnt á þveran veginn og útheimt fjölda af vatnsrennum og timburbrúm [áður svarað]. Þetta var E.Z. ekki fyllilega kunnugt um, er hann ákvað sína vegarstefnu, því að bæði var þá auð jörð, og sá, sem með honum var til leiðbeiningar, ekki svo kunnugur sem skyldi á þessum stöðvum [það var þó vel greindur bóndi af næstu bæjum]. Verkfræðingnum leist þegar mjög illa á, að leggja veginn um þetta svæði, og því fremur, er ég skýrði honum frá, hversu þar væri umhorfs á vetrum og í vorleysingum [ekki hóti lakara en á eystri leiðinni, að ókunnugra manna vitni]. Þá fór ég með honum nokkru austar yfir mýrina, þar sem hún er hæst og halli er yfir höfuð jafn í sömu stefnu, sem vegurinn átti að liggja, og kvaðst hann þá í engum vafa um, að þessi stefna væri stórum heppilegri, úr því að ekki væri að ræða um beina stefnu eftir endilangri mýrinni að "Kögunarhól" í stefnu á "Kambaveginn"; en það var svo mikið og dýrt verk, að hvorki var líklegt að fé fengist til þess, og var ekki tími til að ljúka því á þessu sumri; það lá því ekki fyrir, heldur hitt, að gjöra sem fyrst veg frá brúnni, þar sem tiltækilegast væri, upp á hinn gamla veg með fram Ingólfsfjalli. Þeir sem kunnugir eru þessum stöðvum, sérstaklega á vetrum og í vorleysingum, geta því naumast betur séð, en að hér hafi einmitt verið "betri (lítill) krókur en kelda", og að hr. R. sé í þessu efni, hvað vegarstefnuna snertir, alls eigi ámælisverður, þar sem hann gjörði sér far um, að leita sér allra þeirra upplýsinga er föng voru á, áður en hann ákvað stefnuna [en óheppinn með að nota "upplýsingarnar"]. Annað mál er það, að ekki verður betur séð, en að honum hafi missést í því, að binda sig of mjög við þráðbeina stefnu á veginum yfir mýrina, og því lagði hann fyrir, að grafa gegn um tvo mýrarbala, þær einu mishæðir, sem eru á mýrinni á þessum vegi [en því miður svo slæmar, að það hleypti kostnaðinum gífurlega fram], og við það lenti, er svo djúpt var grafið niður, í þessum "dýjum og fenjum", sem greinin getur um, því annars eru þar engin dý, að heita má [annað fannst vegagjörðarmönnunum]; og það voru einmitt þessir tveir kaflar, sem gjörðu veginn svo óvanalega dýran; en hjá því hefði mátt sneiða, sjálfsagt á öðrum staðnum og að líkindum á báðum stöðunum, með því að hafa litla bugðu á veginum. Eins verður það ekki fegrað, að ýmsir krókar voru ákveðnir af honum á veginum um holtin og móana næst brúnni, sem ekki varð annað séð en að væru óþarfir, en til talsverða kostnaðarauka, enda var horfið frá þeirri stefnu, er betur fór, eftir að landshöfðingi hafði verið á ferðinni.
Þar sem greinin nefnir vegarstefnu Erl. Zack. sem liggjandi "fram hjá Árbæ", þá er það alveg rangt [hártogun er að kveða svo ríkt að orði]; hans stefna kemur hvergi nærri þeim bæ [nær en hin]; þvert á móti verður hún því nær alveg samferða stefnu v. Ripp. Hinn nýi vegur liggur að fjallinu þar, sem það liggur lengst til suðurs (næst Ölvesárbrúnni), og verður þá ekki vel skiljanlegt, hvernig sá vegur, sem lægi meira skáhalt til vinstri handar (vegarstefnu E. Z.) og sem lægi að fjallinu eftir að það er farið að beygjast lítið eitt til útnorðurs, ætti að geta verið 20 föðmum styttri en sá, sem liggur þverara að fjallinu, en báðar stefnurnar liggja, eins og áður er sagt, fyrst um sinn saman á hinum endanum (frá brúnni). Auðvitað hef ég ekki mælt þetta nema með augunum; en mér er óskiljanlegt annað en að hér hljóti í greininni að vera "hausavíxl", sem menn kalla, eða vel það, og breytist þá reikningurinn talsvert við það [nei, engin hausavíxl; báðar vegalengdir mældar reglulega með mælisnúru, en ekki tómum augunum; eystri leiðin er svo mislend, og það gjörir hana lengri]; og auk þess mun bæði vera vel í lagt með vegalengdina á þessum spotta með fjallinu, þar sem hún er talin 400 faðmar [ekki fullyrt, en áætlað; er áreiðanlega nær 4 en 3 hundr. föðm.], og þar heldur ekki stórkostlega erfitt með vegargjörð eða viðhald, þar sem íburður er alveg við hendina.
Sú tilgáta í greininni, að vegfræðingnum hafi af, sérplægnisástæðum, verið ranglega talin trú um", að vegarstefna E. Z. væri ýmsum annmörkum bundin, getur eftir kringumstæðum ekki vel komist að. Hér var engum til að dreifa nema mér; því v. Ripp, leitaði ekki upplýsinga nema hjá mér, og skildi ekki aðra en mig í það sinn. En nú vill svo óheppilega til, að ég hef alls engin not af þessum vegi fyrir sjálfan mig, í hvorri stefnunni sem hann hefði legið, og get ekki haft tækifæri til að fara hann, nema með því að gjöra mér mjög bagalegan krók, sem þó hefði verið fylgt. Land á ég heldur ekki nálægt þessum stöðvum, og því gat ég ekki "talið honum ranglega trú um" neitt, af ótta við jarðraskir eða öðru þvílíku óhagræði. En þótt ég hefði verið landeigandi, hefði ég samt mátt þakka fyrir, að vegurinn væri lagður um þetta svæði, því við það hefði máske orðið þurrkað upp eitthvað af dýjunum, sem á því liggja [allir því miður ekki svo hyggnir].
Ég vona, að þegar þér, herra ritstjóri, kynnið yður betur þetta mál [þarf ekki að gjöra það betur], verðið þér mér samdóma um, að hér sé ekki um annað eins voðaefni að ræða og greinin yðar gefur í skyn [seint um skör fram fundið að vanhyggjueyðslu á almannafé]. aðalmisfellan á þessari vegargjörð er gröfturinn gegn um mýrarbalana, sem jók kostnaðinn svo mjög [og mjög langt að sækja ofaníburð ofan til í miðri mýrinni, rétt hjá árbæjarstekk]; en að öðru leyti virðist vel viðunandi þessi litli krókur upp að fjallinu, sem líka var nærfellt hinn sami eftir stefnu E. Z., og þetta því fremur, ef veginum verður framhaldið frá Ingólfsfjalli (við "Kögunarhól") hér um bil í beina stefnu á "Kambaveginn".
Arnarbæli 28. nóv. 1891. Virðingarfyllst.
Ísl. Gíslason.




Tenging í allt blaðaefni ársins 1891

Ísafold, 17. jan. 1891, 18. árg., 5. tbl., forsíða:
Brynjólfur Jónsson skrifar um póstveginn í Árnessýslu og mótmælir hugmyndum “m-g” í þeim efnum.

Póstvegurinn í Árnessýslu.
Í staðinn fyrir að svara "m-g" orði til orðs, vil ég biðja lesendur Ísafoldar að bera vandlega saman greinir hans og mína. Ég get ekki séð, að hann hafi hrakið neitt í henni. Spurningarnar hans fara utan við merginn málsins, og það, sem hann segir um Hraunsá, er ónákvæmt: hún var ófær daginn sem flóðið var mest, en ferjað yfir hana daginn eftir. Það er líka auðséð á síðari grein "m-g´s", að hann hefir að nokkru leyti látið sannfærast, líklega bæði af grein minni og af því að pósturinn tepptist við Sandhólaferju í vetur.
Nú get ég því verið stuttorður, og skal að eins líta á aðalspursmálið, sem er þetta:
Er það samgöngumáli sýslunnar í hag, eða óhag, að fallast á tillögu "m-g´s"?
Svo hagar til, að aðalstraumar umferðarinnar um sýsluna austan Ölfusár eru eftir 4 aðalvegum: Eyrarbakkavegi, milli Óseyrar og Sandhólaferju; Ásavegi, milli uppsveita og Eyrarbakka; Hraungerðisvegi, milli uppsveita og Ölfusár ferjustaða, eða milli brúanna tilvonandi ("uppsveitir" eru báðum megin Þjórsár); og Melavegi, milli Ölfusár (ferjustaða eða brúar) og Eyrarbakka. Þar er umferðin einna minnst, og þó eigi lítil. Allir, sem fara um Ölfusárbrú, hljóta annaðhvort að fara Hraungerðisveg eða Melaveg; og eftir því sem til hagar, hlýtur meiri hlutinn að fara Hraungerðisveg. Þar er mjög mikil umferð, hvað sem "m-g" segir, og hlýtur að verða svo lengi, sem uppsveitamenn hafa viðskipti við kaupstaði og útver við Faxaflóa. Og þau viðskipti hafa ekki minnkað að sama skapi sem viðskipti við Eyrarbakka hafa aukist, síðan einokunin var rofin þar og síðan farið var að hafa lóð til fiskiveiða þar. En viðskiptalífið hefir mikið glæðst síðan. Um slíkt þótti mér ekki þörf að orðlengja; það er ekki mergurinn málsins. Hann er sá; að allir þessir vegir eru nauðsynlegir og þurfa að vera í góðu lagi. Hraungerðisvegurinn er póstvegur (þó ekki allur fyr, en Þjórsárbrúin kemur); en hinir allir, ásamt mörgum öðrum, hvíla eingöngu á sýsluvegasjóðnum. Nú er vegasjóðurinn ekki einungis fátækur, heldur í stórskuld eftir Melabrúna; er mikill og tilfinnanlegur brestur á því, að hann geti fullnægt þörfum sýsluveganna. En nú vill "m-g", að hann hafi skipti: láti landssjóð taka við Melaveginum, þar sem af er hið harðasta, en taki aftur að sér Hraungerðisveginn, þar sem hvað mest er ógjört: það sem þar er búið að gjöra, er varla nema byrjun. Slík skipti mundu því auka vandræði vegasjóðsins að miklum mun, og það yrði því meiri brestur eftir en áður á því, að vegasjóðurinn gæti fullnægt þörfum sýsluveganna.
Vert er að taka það fram, að vegarkaflinn, sem búið er að gjöra á Hraungerðisvegi, hefir orðið fyrir árflóði og ekki sakað, því hann var klakaður, en slík árflóð koma aldrei þegar jörð er þíð, þó þau komi, sem ég hefi aldrei fortekið.
En þó landssjóður tæki að sér Melaveg og Eyrarbakkaveg, þá mundi hann að eins kosta til viðhalds brúanna þar, en ekki gjöra þá að akvegum að sinni. Þar er alstaður með sjónum torfærulaust fyrir hesta, þó víða sé grýtt eftir sjóganginn sem þar er eigi sjaldgæfur. En ætti að leggja þar akveg, yrði fyrst að tryggja hann með öflugum sjógarði alla leið frá Baugstaðasíki að Óseyrarferjustað. Ég er nú engan veginn vonlaus um, að þetta verði gjört með tímanum, t. a. m. þegar búið er að bæta Eyrarbakkahöfn og gjöra hana frjálsa; því fátt er líklegra til að hafa stórvægilegar framfarir í för með sér, bæði fyrir Eyrarbakka og nærhéruðin. En meðan ekki er fyrir akvegi að gangast, sé ég ekki betur en að ferðamönnum megi standa á sama, hvort vegurinn heitir póstvegur eða ekki; eins og Eyrarbakkamönnum mun mega standa á sama, hvort það er póststöð eða bréfhirðing; þeir senda flestöll bréf sín með öðrum ferðum.
Í þeirri von, að ég þurfi ekki oftar að taka til máls í þessu máli, vil ég gleðja "m-g" með því, að ef búið væri að brúa báðar árnar, ef Hraungerðisvegurinn væri kominn í það lag, sem þörf er og, og ef vissa væri fyrir því, að akvegur yrði lagður frá Eyrarbakka til brúanna beggja, þá mundi ég ekki álíta tillögu hans háskalega fyrir samgöngumál vor. Vill hann nú ekki láta hana bíða eftir þessu? Vilji hann það ekki, er hætt við, að fleirum en mér detti í hug, að sá fiskur liggi undir steini, sem ekki er lagaður til að greiða fyrir Þjórsárbrúnni eða samgöngunum yfir höfuð.
Brynjólfur Jónsson.


Ísafold, 21. jan. 1891, 18. árg., 6. tbl., forsíða:
Hér er fjallað um hvað þyrfti að gera í vegagerð næsta sumar.

Vegagjörð á sumri komanda.
Nú hefir í nokkur ár undanfarin verið unnið af landssjóðs hálfu langmest eða því nær eingöngu að þjóðvegum í nánd við höfuðstaðinn, einkum Hellisheiðarvegi, og þar næst Mosfellsheiði.
Gjöra má ráð fyrir, að ýmsum muni þykja sú ráðmennska landsstjórnarinnar kenna hlutdrægni til hagsmuna fyrir höfuðstaðinn. Sumir hafa meira að segja látið sér um munn fara, að höfðingjarnir í Reykjavík hugsi ekki um annað en að útvega góða vegi handa sjálfum sér að skemmta sér á í útreiðum og smáskjökti til næstu héraða. Til þess eyði þeir fé landsins, og láti önnur héruð sitja alveg á hakanum. Hinir eru þó eflaust fleiri, og það þeir, sem best kunna að skynja, er vita, að góðir vegir nærri höfuðstað landsins eru eigi síður gerðir fyrir þá, sem þar sækja að sí og æ árið um kring, heldur en hina, er þaðan bregða sér eitthvað stöku sinnum - með öðrum orðum, að móts við hvern höfðingja eða heldri mann úr Reykjavík, er notar hina nýju vegi þar í grennd lítils háttar, koma tuttugu sveitamenn, er nota þá eigi miður hver um sig, og það til nauðsynja sinna, í kaupstaðinn eða í erindagjörðum við höfðingja í Reykjavík í sínar þarfir. Með því að Reykjavík er langmestur bær á landinu, 5-6 sinnum stærri (fólksmeiri) en stærstu kaupstaðir aðrir, liggur í augum uppi, að þangað muni meiri aðsókn en til nokkurs staðar annars á landinu. En þar sem mest er umferðin, verða góðir vegir að mestum notum. Er því síður en svo, að nein hlutdrægni þurfi því að valda, að unnið hefir verið að vegagjörð í nánd við Reykjavík fremur en annarsstaðar. Stendur auk þess svo á um þá tvo vegi, er mest hefir verið unnið að hér, og áður eru nefndir, að þeir eru báðir kaupstaðarvegir fyrir allmikla byggð landsins, þá er eigi getur haft strandferðanna not sakir hafnleysis, en annar þar á ofan hinn fjölfarnasti vegur á landinu af útlendum ferðamönnum, en af þeim hafa landsmenn talsverða hagsmuni, og hefðu stórum meiri, ef vegaleysi og léleg aðhlynning á ferðum hér fældi þá ekki einmitt frá að leggja hingað leiðir sínar. Enn má og nefna það, að frá höfuðstaðnum er langhelst svo um, að hið nýja vinnulag og verkkunnátta, er hingað hefir færst með hinni útlendu vegagjörð, dreifst út um landið.
Enn eru samt hinir nýju vegir í grennd við höfuðstaðinn ekki nema vegarstúfar. Hvorugur þeirra nær nema hálfa leið milli byggða eða fyrirhugaðra endastöðva þeirra í næstu byggðalögum; og er öllum sýnilegt að ekki verða þeirra hálf not, meðan svo stendur. Hefði því mesta nauðsyn verið, að reyna að halda vegum þessum áfram og fullgjöra þá, áður en tekið væri til verulegrar vegagjörðar annarsstaðar. Útlendingar mundu kalla það bersýnilega ráðleysu, að hætta við þá á miðri leið. Mundu og naumast innlendir valdamenn eða löggjafar hafa látið sér það til hugar koma, þrátt fyrir nokkurn héraðaríg og dálitla amasemi við höfuðstaðinn á stundum, ef vegaféð úr landssjóði væri eigi hvort sem er mikils til of lítið til að ljúka við þessar eða aðrar vegagjörðir, sem nokkuð kveður að, öðruvísi en á ævalöngum tíma. Það er með öðrum orðum, að hefði átt að halda áfram og hætta eigi fyr en Mosfellsheiðarvegur og Hellisheiðarvegur voru fullgerðir alla leið, þá hefði aðrir landsfjórðungar orðið að bíða tíu ár enn eftir því, að nokkur skapaður hlutur væri gerður til að bæta þjóðvegi öðruvísi en með bráðabyrgðakáki, ruðningum o. s. frv.
Það er þá fyrst, er landssjóður er orðinn því vaxinn og þingmenn svo stórhuga, að verja má 50 til 100.000 kr. á ári til vegagjörða - það er þá fyrst, að verulegt skrið getur komist á vegalagning um landið. Þá fyrst er hægt að fullgera aðra eins vegi og þá, er hér hafa nefndir verið, á eigi mjög löngum tíma, og sinna þó öðrum landsfjórðungum að nokkrum mun.
Nema ef sérstaklegar ástæður hefðu svo mikil áhrif á þingið, að það vildi leggja fram fé aukreitis handa einhverjum ákveðnum vegi, svo sem t.d. Mosfellsheiðarveginum, til þess að reyna að auka með því aðstreymi útlendra ferðamanna til landsins, eða vegna brúarinnar yfir Ölfusá: að gera almennilega fært að henni undir eins og hún kemst á, að sumri.
Á sumri komanda fer því aðalvegavinnan af landssjóðs hálfu að sögn fram ekki hér syðra, heldur fyrir norðan, á aðalpóstleiðinni um Húnavatnssýslu, þar sem hún þarfnast þess mest.
Verði nokkuð gert hér, þá er það að ljúka við ofaníburð í Svínahraunsveginn, það sem eftir var í fyrra, á kafla í sjálfu hrauninu, og ef til vill að brúa eina litla á skammt frá Reykjavík, á leið póstanna norður og vestur. Það er Leirvogsá, sem getur orðið mikið slæm torfæra, þótt lítil sé fremur. Erlendur Zakaríasson hefir verið látinn mæla brúarstæðið nýlega og gera áætlun um kostnaðinn, líklega í því skyni, að tekið verði til starfa í vor. Er gjört ráð fyrir trébrú, 21½ al. á lengd, og 5-6½ álna háir steinstöplar undir endunum, en 5 álnir á breidd og 7-8 álnir á lengd. Lauslega áætlaður kostnaður 1.700 kr.
Minnst var á í sumar er leið í þessu blaði, að brýna nauðsyn bæri til að gera veg frá brúarstæðinu hérna megin Ölfusár beina leið upp undir Ingólfsfjall, á þjóðveginn þar, jafnskjótt sem brúin væri á komin, með því að hún gæti eigi komið að fullum notum að öðrum kosti, og meira að segja allar líkur til, að margir kysu heldur að fara á ferju yfir ána eins eftir sem áður, heldur en að tefja sig og þreyta á því að brjótast yfir vegleysu og kviksyndi að brúnni. Nú hefir landshöfðingi látið fyrir skemmstu mæla vegalengdina frá brúarsporðinum væntanlegum upp undir Ingólfsfjall, líklega í því skyni, að fá bætt úr áminnstum annmarka við notkun brúarinnar hið bráðasta að auðið er. Skýrir maður sá, er það gerði, Erlendur Zakaríasson svo frá, að vegalengdin sé alls 1300 faðmar, og er fjórðung vegar (350 faðmar) yfir móa að fara og holt, en hitt mýri, 950 faðmar; en mýrar þykja nú orðið allgott vegarstæði, þótt áður þættu hið versta, meðan vankunnáttan sat í öndvegi. Halli er góður á kafla þessum, og því hægt um frárennsli. En langt þarf nokkuð að sækja góðan ofaníburð, allt að 600 föðm. lengst, og fyrir þá skuld mest er búist við að 4 kr. muni kosta hver faðmur í vegi þessum. En fyrir því er fengin full reynsla, að óhyggilegt er að vera mjög spar á ofaníburð, hvort heldur er að vöxtum eða gæðum.
Með fram Ingólfsfjalli er allgóður vegur mikið af leiðinni undir heiðina, Hellisheiði, er herfilegur úr því lengst af alla leið að Kolviðarhól og Svínahrauni.
Þess hefir verið áður getið, að mjög mikið er eftir ógjört af Mosfellsheiðarveginum beggja vegna, þótt lokið sé við há-heiðina, sjálfan fjallveginn, sem svo er kallaður, og landssjóður á að kosta samkvæmt vegalögunum nýju. Eru það sýslusjóðirnir í Árnessýslu og Gullbringu- og Kjósarsýslu, sem eiga að bera kostnað af því sem ógert er af vegi þessum, en það er sama sem að hafa þar vegleysu eða því sem næst um aldur og æfi; sjóðir þessir hafa í svo mörg horn að líta önnur og nær sér, og eru þeim auk þess stórkostlegar vegabætur langt um megn, jafnvel á ævalöngum tíma.
Það er ósagt látið, hvort landsstjórnin hefir annað í huga með þennan veg, fyr eða síðar. En geta má þess, að landshöfðingi hefir í haust látið Erlend Zakaríasson rannsaka nokkuð vegarstæði til framhalds Mosfellsheiðarvegi að sunnanverðu, frá heiðabrúninni fyrir ofan Seljadal efri á þjóveginn austan yfir Hellisheiði. Er þar um tvennt að velja: að halda hina gömlu leið niður Seljadali allt þar til er vegir koma saman skammt fyrir ofan Árbæ, eða að stytta sér leið með því að nota hinn nýja þjóðveg austur yfir fjall (Hellisheiðarveg) spölkorn upp fyrir Hólm og leggja þaðan nýjan veg eftir holta- og melbörðunum sunnan með Seljadölum upp á Borgarhólamel, þ.e. þar sem fjallvegurinn gamli tekur við. Er síðari kosturinn vitanlega langt um ákjósanlegri, sé þar engin veruleg fyrirstaða. Hann er nokkuð í þá áttina, er haldið hefir verið fram margsinnis í þessu blaði: að nota sem lengst sameiginlegan veg fyrir báðar heiðarnar, Mosfellsheiði og Hellisheiði, upp fyrir Lyklafell; en það ráð var því miður eigi í tíma tekið, svo sem kunnugt er.
Munurinn á því, að halda gamla veginum ofan Seljadalina, og að leggja nýjan veg niður með þeim að austan og sunnan, er nú sá, eftir skýrslu Erlendar, að gamli vegurinn, milli Borgarhólamels og Seláss, fyrir ofan Árbæ, er 10.200 faðmar á lengd, en hinn nýi, frá Borgarhólmamel ofan í Gjótulág, þar sem vegirnir eiga að koma saman fyrir ofan Hólm, ekki nema 7.200 faðmar. Þar við bætist, að á hinni nýju leið er landslag heldur sléttlent og þurrt; þar er hálent, svo vegur ver sig vel, og vatnsrennsli mjög lítið. En á gamla veginum er svo mikið um vatnsrennsli, stærri og smærri, og sumsstaðar kaldavermsl, að þar þarf 4 brýr og 16 rennur; þar er og all-hæðótt og lautótt, og fannasamt mjög á vetrum. Ætlar Erlendur, að sá munur muni valdið geta allt að helmings-mun á kostnaði, þannig, að vegurinn niður Seljadal o.s.frv. kosti 4-5 kr. faðmurinn, en eftir syðri leiðinni ekki nema 2 kr. 60 a. Ætti eftir því allur vegarkaflinn syðri leiðina að kosta 18.720 kr., en hina nyrðri 40.800 kr. með 4 króna verði á faðminum, en 51.000 kr. með 5 kr. verði. Það er því mikið meira en helmings-sparnaður, að hætta við gamla veginn (Seljadalsveginn) og taka upp syðri leiðina.
Þann einn ókost telja menn á syðri leiðinni, að þar er illt um áfangastaði. En við því segja menn auðgert með því að ryðja ómerkilega braut niður í Neðri-Seljadalinn, 800 faðma langa, og getur eigi mikið kostað, en vel fært ofan í Efri-Seljadal sunnan af hinum fyrirhugaða vegi, og auk þess smádalir uppi á heiðinni, sem gætu verið áfangastaðir (Rótardalir og Hrossadalir).
Talsvert hefir verið kostað til vegabóta eftir Seljadalnum eða -dölunum fyrir eigi mörgum árum, og stóðu fyrir því vorir eldri, innlendu vegameistarar, einn eða fleiri. Þarf þá ekki frekara því verki að lýsa, og engar áhyggjur að bera út af því, að þar sé merkilegt mannvirki lagt fyrir óðal, ef sá vegur legðist niður.


Þjóðólfur, 23. janúar 1891, 43. árg., 4. tbl., forsíða:
“Vegagjörðarmaður” skrifar um miður heppilegt fyrirkomulag vegagerðar hér á landi.

Nokkur orð um vegagjörð.
Hingað til hefur vegagjörð hér á landi verið hagað þannig, að sinn vegspottinn hefur verið gerður hvert árið, eitt árið á þessum stað, hitt árið á öðrum stað. Þessi skipting er mjög óheppileg; notin verða svo lítil að þessum vegspottum, sem unnið er að hér og hvar; stefnuleysi og ósamkvæmni kemur fram í verkinu, vegagjörðin verður miklu dýrari en ella, því að flutningur á verkfærum fram og aftur og öllu, sem til verksins heyrir, kostar ótrúlega mikið, þar sem allt verður að flytja á hestum, en engu verður ekið á vögnum. Ef aftur á móti væri haldið áfram sama veginum ár eftir ár, hyrfi því nær allur þessi flutningskostnaður. Þegar áhöldin hafa einu sinni verið flutt þangað, færi flutningurinn úr því fram jafnframt því sem verkið væri unnið. Það er því mín skoðun, að halda ætti áfram sama veginum ár eftir ár, þangað til hann er búinn. Þetta ætti að geta orðið að minnsta kosti með tvo aðalvegi í senn. En auk þess ætti þá að gera vegspotta hingað og þangað, þar sem mest á liggur.
Að halda þannig áfram tveim aðalvegum samfleytt ár eftir ár, er þó auðvitað ekki mögulegt, nema þingið veiti meira fé til vegagjörða, en það hefur hingað til gert, en það ætti þingið að geta, er nýju tollarnir eru farnir að hafa áhrif á fjárhaginn. Það eru sérstaklega tveir aðalvegir, sem að mínu áliti ættu helst að sitja fyrir, fyrst áframhaldið af Svínahraunsveginum austur fyrir Hellisheiði, sem nauðsynlegt væri að héldi áfram, til að setja austursýslurnar í samband við Reykjavík og sjávarsveitirnar fram með Faxaflóa. Þessi vegur er víst einhver fjölfarnasti vegur á landinu, þar sem að honum liggja 3 sýslur, sem mjög lítið geta notað sjóleiðina sökum hafnaleysis.
Hinn vegurinn er norður-póstleiðin, sem ekki væri vanþörf á þótt eitthvað væri gjört við.
Það er því mín tillaga, að næsta þing veiti 60-70.000 kr. alls til vegagjörða á næsta fjárhagstímabili, þar af til áðurnefndra tveggja aðalvega 20-25.000 kr. til hvors þeirra. Þá mætti vinna nokkurn veginn tafarlaust að áframhaldinu ár eftir ár. Það sem eftir væri af peningum, gæti svo gengið til vegagjörðar, þar sem brýnust nauðsyn væri til að leggja eða gjöra við veg, sem landssjóður ætti að kosta. Eftir næsta fjárhagstímabil gæti vel verið, að þingið sæi sér fært að leggja nokkuð meira til vegagjörða, svo að byrjað yrði á þriðja staðnum fyrir alvöru.
Í sambandi við þetta á Mosfellsheiðarveginn. Yfir sjálfa heiðina er nú kominn allgóður vegur vestan frá Leirdalsrás austur að Þrívörðum, skammt fyrir ofan Vilborgarkeldu, en þaðan frá og austur úr á Árnessýsla að kosta veginn, með því að það er sýsluvegur Árnessýslu, en frá Leirdalsrás og niður úr á Gullbringusýsla að kosta hann, af því að það er sýsluvegur Gullbringusýslu, en það er víst, að sýslurnar fara seint eða aldrei að kosta þennan veg, allra síst Gullbringusýsla, sem ekkert beinlínis gagn hefur af veginum, þessi vegur þyrfti þá að koma, sem allra fyrst, því að fyrst og fremst er mikil umferð um hann úr efri partinum af Árnessýslu og að norðan og flestallir útlendir ferðamenn nota hann, sérstaklega þeir, sem fara til Þingvalla, Geysis og Heklu. Ef góður vegur væri alla þessa leið, gæti það orðið heldur til að laða útlendinga hingað til lands, sem væri mikilsvert, því að það eru ekki svo litlir peningar, sem þeir skilja hér eftir fyrir hestalán, greiða og ýmislegt fleira. Mér þætti því heppilegast, að þessi vegur að minnsta kosti og jafnvel allir aðalvegir, þótt ekki séu póstvegir, kæmust undir stjórn landsstjórnarinnar og landssjóður kostaði þá að miklu leyti, en sýslusjóður í þeirri sýslu, sem vegurinn væri gjörður í, legði þó nokkuð til, eftir því sem þingið ákvæði nánara um hvern veg fyrir sig.
Vegagjörðarmaður.


Ísafold, 28. jan. 1891, 18. árg., 8. tbl., bls. 31:
Brúarstrengirnir í Ölfusárbrúna eru komnir upp að Selfossi.

Ölfusárbrúin.
Af brúarflutningnum er það að segja, að nú eru allir brúarstrengirnir komnir upp að Selfossi, ásamt mörgu öðru af brúarefninu. Þó eru enn eftir ódregin nál. 10 stykki, er vega um 500 pund, og auk þess mörg smærri. (Þannig skrifað af Eyrarbakka 26. þ.m.).


Þjóðólfur, 2. feb. 1891, 43. árg., 6. tbl., bls. 24:
Nú eru öll stykkin í Ölfusárbrúna komin að brúarstæðinu.

Um Ölvesárbrúna.
Um Ölvesárbrúna er oss skrifað 29. f. m. úr Árnessýslu: "Brúin er öll komin að brúarstæðinu, öll smærri stykki hafa verið látin inn í húsið, sem er þar, en það, sem illt er að hreyfa, er haft úti Aksturinn hefur gegnið ágætlega og sýndu menn hér góð samtök og dugnað í því verki; nú seinustu dagana voru 50 til 60 menn við aksturinn. Flest brúarstykkin eru 160 til 600 pd. að þyngd og þar yfir, að undanteknum strengjunum, sem eru 6000 til 7000 pd. 34 menn þurfti til að draga þyngstu strengina, en hinir minni voru hafðir tveir á í einu og drógu þá fleiri; strengirnir voru hafðir tvöfaldir á sleðunum og hver sleðinn aftan í öðrum með þriggja álna millibili, og á þann hátt veittist fremur létt að draga þá".


Ísafold, 14. feb. 1891, 18. árg., 13. tbl., bls. 51:
Hér er sagt frá vegagerðinni milli Reykjavíkur og “fiskimannahverfis þess í landi bæjarins suður við Skerjafjörð, er Kaplaskjól nefnist”.

Vegargjörð á vetrardag.
Það er vottur um frábært vetrarfar og að öðru leyti í frásögur færandi, að frá því um veturnætur og nú fram í þorra-byrjun var gerður nýr vegur frá rótum milli Reykjavíkur og fiskimannahverfis þess í landi bæjarins suður við Skerjafjörð, er Kaplaskjól nefnist. Þar er mýri á milli allbreið, ófær yfirferðar, og þurfti að fara langan krók austur fyrir hana til þess að komast til bæjarins sunnan að, og þó um vegleysu. Hinn nýi vegur er vandaður vagnvegur, 6 álna breiður og 640 álna langur alls. Yfir mýrina eru vegarjaðrarnir hlaðnir úr grashnausum, en grjót lagt utan á þá, er upp úr mýrinni dregur, en hleðsla þar sem byggðin tekur við inni í bænum, yfir Selsholt.
Vegargjörð þessi er mikið vel vönduð, öllu betur en á hinum nýju þjóðvegum hér í grennd að tvennu leyti: 1., ofaníburður miklu meiri, sumsstaðar hálfu þykkri en vanalegt hefir verið, með því reynslan hefir sýnt, að ofaníburður hefir verið hafður heldur þunnur víðast hvar; 2., skurðir meðfram veginum hafðir talsvert fjær: hafður nær 3 álna (69 þml.) breiður bekkur utan með veginum í mýrinni, frá vegarjaðrinum neðanverðum út að skurðunum beggja vegna. Reynslan hefir kennt það hér, að vegirnir liggja undir skemmdum, ef skurðirnir eru hafðir öllu nær en það.
Að vegavinnu þessari unnu nær eingöngu verkfærir þurfamenn bæjarins, undir forustu okkar efnilega og ötula vegavinnustjóra Erlendar Zakaríassonar, er stikaði veginn og sagði fyrir verkum, en hafði undir sér 3-4 flokksformenn, eins og siður er til og vel greiðir fyrir verkum. Verkmenn voru rúmir 30 framan af, en tæpir tuttugu upp á síðkastið. Dýrara varð verkið fyrir það, að eigi voru tök á að hafa hesta til að aka ofaníburði.
Kostað hefir vegur þessi alls um 3.300 kr., eða um 5. kr. faðmurinn. Er þegar gerð grein fyrir, hvað valdið hefir dýrleikanum. Veðráttu verður varla um það kennt; hún gerði svo sem engan verulegan tálma, nema helst rigningarnar í haust, og verkfall varð eigi hennar vegna nema örfáa daga alls, naumast fleiri en gerist á sumardag vegna rigninga. Kaup var haft lágt, 16-20 a. um kl.-stundina, nema verkstjóranna nokkuð hærra. Meiri hluta kostnaðarins mundi hafa orðið að leggja þurfamönnum þeim, er að vegunum unnu, úr bæjarsjóði hvort sem var, þótt þeir hefðu ekkert unnið, en talsvert gelst upp í leigu fjár þess, er í veginn hefir lagt verið, með eftirgjaldi eftir túnræktarbletti o. fl., er menn föluðu fram með honum jafnskjótt sem hann var lagður.


Þjóðólfur, 20. feb. 1891, 43. árg., 9. tbl., forsíða:
Björn Bjarnason jarðyrkjumaður álítur greiðar samgöngur hið mesta nauðsynjamál og er þeirrar skoðunar að nú þurfi að stofna “embætti samgangnamálastjóra” og fá íslenskan verkfræðing til að stjórna vegagerð hér á landi. Þá lætur hann í ljósi skoðanir sínar á ýmsum einstökum vegamálum.

Samgangnamál.
Eftir Björn Bjarnason, jarðyrkjumann.
I.
Flestir, sem um "landsins gagn og nauðsynjar" hugsa, munu nú orðið viðurkenna hversu lífsnauðsynlegar greiðar samgöngur eru - álíka nauðsynlegar fyrir þjóðlífið, eins og æðarnar fyrir líkamann. Óhætt að dæma um þjóðlífið eftir samgöngunum. Dauflegt ástand hjá oss með hvorttveggja. En fyrsta stig til framfaranna er að sjá og viðurkenna, hvað bótavant sé, og á það stig mun nú samgangnamálið komið hér. "Lítið er smátt og stutt er skammt".
Og þá er næst að koma sér niður á, hvernig eigi að koma því til framkvæmda, sem gjöra þarf. Um það eru víst enn mjög skiptar skoðanir , hvað samgangnamálið snertir. Að vísu mun það nú orðið ljóst, landsstjórninni að minnsta kosti, að það, sem gjört verður að vegarbótum á landi, verði að gjöra eftir verkfræðilegum reglum, hvað vinnuna snertir. En það er ekki einhlýtt, að vegurinn sé vel byggður, hann þarf að vera hagkvæmlega lagður; en það er ekki landstjórnarinnar meðfæri að ráða neinu eða ákveða um það.
Í hitt-ið-fyrra vildi ég sýna fram á það í ritgjörð um "samgöngumál" (í Þjóðólfi, 25., 27. og 29. tbl.), að eina ráðið til að fá vegabæturnar gjörðar með reglu og samkvæmi (systematiskt) væri að fá forstöðu þeirra í hendur verkfræðingi, sem helst ætti að vera innlendur maður, og hafa svo viðunanleg kjör, að hann gæti algjörlega lifað fyrir þann starfa sinn. Í sumar tók blaðið Ísafold - sem oft þykir fara furðu nærri um hugsunarhátt landsstjórnarinnar - alveg í sama strenginn. Ég gæti því trúað, að mönnum þeim, er nú hafa á hendi yfirumsjón með vegagjörð hér á landi, væri kærast að losast sem fyrst við þann starfa. Má ef til vill búast við, að til Alþingis að sumri komi tillaga frá stjórninni um stofnun samgangnamálastjóraembættis á Íslandi.
En þá er einkar-áríðandi, að þingið, og þjóðin í heild, hafi opnað augun og séð nauðsynina í þessu efni, svo að það kasti eigi frá sér þeirri perlu (-því perla væri það fágæt og dýrmæt úr þeirri átt-), gleðilegum vott um umhyggju fyrir lífsglæðing og framförum hjá þjóð vorri.
En því miður er ég smeikur um, að framfarirnar séu enn eigi skriðnar svo langt fram, að þetta sé orðið almennt viðurkennt. Menn munu hugsa, að það sé "húmbúg" eða heimska að hafa sérstakan embættismann til að sjá um vegabætur! Og þó er það einungis hyggileg "vátrygging" veganna (eins og Ísafold tók fram). Ég þori að fullyrða, að þessi ár (5-6), sem fengist hefur verið við reglulega vegagjörð hér á landi, hefur það kostað miklu meiri fjárútlát fyrir landið að hafa ekki slíkan mann, en þó hann hefði verið með 3-4.000 kr. launum árlega. Þetta mætti sanna reikningslega, en það kostar nokkurt ómak, og verð ég þess vegna að sleppa því að sinni.
Meðan svona stendur, meðan hæfan forstöðumann vantar, verður öll vegalagning hjá oss frumstefnulaus og á reiki. Er þá hætt við að þeir, sem atkvæði geta haft um vegamál, neyti þess, samkvæmt sveitapólitískum reglum, til að toga einhvern brúarstúf í sína átt. Og landsstjórnin á úr vöndu að ráða, þar sem ekkert áreiðanlegt er til að styðjast við, vegalöggjöfin ófullkomin o. fl. o. fl.
Að fá útlending til að bregða sér hingað stund úr sumri, er nauða-þýðingarlítið; maðurinn þarf að búa hér og vera eða verða gagn-kunnugur náttúru landsins og loftslagi. Hann þarf að ferðast vetur og sumar um þá staði, þar sem veg á að leggja, og kynna sér öll náttúru-umbrot og byltingar, af viðtali við kunnuga menn, þar sem eftirtekt og kunnugleiki hans sjálfs eigi nær til. Við að byggja brýr og vegi þarf að taka tillit til svo margs, sem útlendingur hefur eigi hugmynd um, þó hann dvelji hér hluta úr sumri.
Jafnvel þó þess sé öll þörf og meir en mál að fá sem fyrst mest og verulegast framhald á framkvæmdum til samgangnabóta, mundi þó betra að biðloka við eða fara sér hægt 2-3 ár enn, meðan verið væri að búa til eða útvega "samgangnamálaráðgjafa" - því undirbúningstíma þarf til þess - en úr því ætti að taka til óspilltra málanna.
II.
Þó ég geri mér nú bestu vonir um, að farið verði að gjöra gangskör að því, að útvega hæfan verkfræðing til að vega samgöngumálum vorum og vegagjörð forstöðu, er ég ekki alveg viss um, að það verði svo fljótt. Allar vonir geta brugðist. Ég vil þá leyfa mér að láta enn uppi álit mitt um nokkur atriði í samgangnamáli voru, er ég vil biðja menn að athuga.
Eins og oft hefur verið tekið fram, væru það hinar auðveldustu, fljótustu og verulegustu samgangnabætur, ef gufuskipaferðum kring um landið og inn á firðina yrði komið á, svo að verulegu gagni kæmi. Að undanteknum nokkrum hluta suðurstrandarinnar, má svo telja, að hvergi sé lengra en dagleið til næstu hafnar. Væri nú sævarsamgöngunum komið í það horf, að eimskip kæmi 1-4 sinnum í mánuði á hverja höfn við landið allt árið, þegar ís eigi hindraði, má geta nærri, hver ómetanlegur léttir það væri fyrir samgöngur og öll viðskipti landsmanna. Sjóveginn, þennan aðalveg landsins, þarf lítið að bæta, að eins með leiðarmælingum, leiðarljósum og bryggjum, þar sem þeim má við koma. Og svo vantar algjörlega flutnings-áhöldin, skipin; en þau mætti að sumu leyti fá lánuð (leigð) hjá nágrönnunum fyrst í stað - ekki hjá (sameinaða) okurkarlinum í Höfn, heldur hverjum sem best kjör byði.
Landvegina má skoða sem aukavegi, eða sem greinar á þessum aðalvegi, sjónum, og því að byggja þá út frá honum á ýmsum stöðum inn í fjölbyggðustu héruðin. En gott væri að geta tengt þau saman með einum landvegi kringum landið, jafnóðum og ástæður leyfðu.
Þetta er sú frumregla (system), sem byggja bæri á allar framkvæmdir til umbóta á samgöngunum hjá oss.
Hvað viðvíkur samgöngum á sjó, skal ég hér aðeins taka það fram, að ég álít ástand það, sem þær nú eru í, svo ófullkomið og óhagkvæmt, að það mætti telja frámunalegt rænuleysi, ef eigi væri reynt hið bráðasta að bæta úr því, í hið minnsta að leita fyrir sér um hagkvæmari skipaleigu-samning en nú er við að búa. Til mælinga og annarra umbóta á sjóleiðinni þyrfti að leggja fé á hverju ári fyrst um sinn. Það greiðir fyrir gufuskipaferðunum.
Annars óska ég að forkólfar gufuskipamálsins þreytist eigi á að halda því vakandi, og reyna að ýta því fram á leið.
"Vegagjörðarmaður" hefur nýlega ritað í "Þjóðólf" (4. tbl. þ. á.) um vegagjörð. Hann álítur "að halda ætti áfram sama veginum ár eftir ár þangað til hann er búinn" og telur til þess helstu landspóstvegina austur og norður (frá Reykjavík). Þetta væri auðvitað æskilegt, og ástæður hans eru að sumu leyti góðar; en sá hankur er á því, að fyrst um sinn lenti þá allar vegabæturnar því nær á einum stað, Suðurlandi, og svo gleyptu þessir tveir vegir allt samgangnabótaféð, ef þeim ætti nokkuð verulega áfram að miða; en hvorttveggja mundi óvinsælt í öðrum hlutum landsins, enda að mínu áliti ekki rétt, samkv. frumreglunum hér að ofan. Ég álít, að fyrst ætti að leggja vegi frá kauptúnum, höfnum eða lendingum við sjó inn í landsveitirnar, sem síst geta notað sjóinn til vöruflutninga, þó með nokkru tilliti til þess, að landpóstarnir gætu notað vegkafla þessa, og að þeir síðan yrðu samtengdir, er fram liðu stundir.
Væri þessari reglu fylgt, ávallt byrjað frá höfn - áfangastað á sjóveginum - mætti flytja vagna, vinnutól öll og brúarefni á skipi að upphafsenda vegarins og er þar með verkfæraflutningskostnaðar-ástæða "vegagjörðarmannsins" að mestu fallin.
Húnavatnssýslu-kaflann fyrirhugaða ætti þannig að byrja frá Hrútafirði gagnvart Borðeyri eða frá Miðfjarðarbotni og halda þaðan austur eftir héraðinu. Ætti svo austurendi vegarins, eða armur af honum að ná til sjávar við Blönduós eða annan hentugan stað þar nálægt (eða þá byrja þaðan).
Kaflinn yfir Borgarfjarðarsýslu gæti byrjað við Hrafnabjargahöfn eða annan hentugan stað við Hvalfjörð, og endað við brú yfir Hvítá. Armur af honum sunnanverðum væri gott að næði út á Akranes.
Mýrarsýslu-kaflinn frá Borgarnesi í báðar áttir austur (að Hvítárbrú) og vestur eftir Mýrunum.
Árnessýslu-kaflinn frá Eyrarbakka austur á við að Þjórsárbrú með samtengingararmi fyrir Ölfversárbrú vestur á við, móti Svínahraunsveginum.
Á líkan hátt norðanlands og austan.
Landssjóður ætti að leggja fram fé til vegagjörðanna, en sýslufélögin afborga það að meiru eða minnu leyti, þar sem vegirnir væru ekki á aðalpóstleið (væru aðeins héraðsvegir, t. d. Akraness-armurinn).
III.
Fátt er óþakklátlegar þegið en aðfinningar. Er það og eðlilegt, því þær eru oft óþægilegar. En nauðsynlegar geta þær þó verið.
Árið 1882 ritaði ég fyrst um vegabætur (í Ísaf.) og fann að vegagjörð þeirri, er þá var farin að tíðkast, sérstaklega "Kambaveginum" fræga. Undirtektirnar urðu þá svar frá einum af "vorum eldri innlendu vegameisturum" (auðvitað kryddað með persónulegum móðgunaryrðum, eins og oftítt er hjá oss, þegar um almenn mál er að ræða 1). En nú í sumar síðastl., eftir 8 ár rúm, slær Ísaf. á sama strenginn og ég 1882 (í 64. tb.: "Vegagjörðarátak - dýrt kennslukaup").
Mér þykir of vænt um þennan litla vísi til framfara í vegagjörð hjá oss, vegastúfinn frá Reykjavík uppí Svínahraun, til þess að fara nú að finna að honum. Einungis skaði, að hann liggur að mestu í óbyggð, svo hann verður eigi að notum til vagnferða fyrir landsmenn, eða til að hvetja til að taka upp vagna, fyr en ef hann kæmist austur yfir fjallið.
En Mosfellsheiðarveginn álít ég algjörlega vanhugsað fyrirtæki. Skal ég reyna að gjöra grein fyrir því áliti mínu.
Ætla mátti, að Svínahraunsvegagjörðin hefði nógsamlega kennt mönnum, hve fráleitt það er, að byrja slíka vegagjörð frá fjalli, og verða þannig að flytja allt til vegagjörðarinnar á hestabökum, í stað þess að byrja frá sjó og nota vagnflutning jafnóðum eftir veginum. Slíkt gengur næst því að heita óvita-fjárvarsla. Betra væri, að láta slíka fjallvegastúfa "bíða betri tíða", en verja heldur þeim krónunum til að vega sveitirnar.
Þá er vegarstefnan til að vegleggja miðja heiðina, í líka stefnu og gamli götustígurinn lá, vegurinn varðaður, sæluhús byggt - en þegar til kemur, er ómælt og ákveðið hvar vegurinn á að liggja til byggða! Ísaf. (XVIII. 6.) segir, að fyrst í haust hafi verið rannsakað nokkuð vegarstæði til framhalds þeim vegi suður á við. Niðurstaðan verðu sú, að tiltækilegast muni vera að leggja veginn á byggðabaki alla leið ofan í Gjótulá. Þangað til hefur vegurinn þá aðalstefnu, frá Þingvöllum - til Grindavíkur! - Þó játa ég, að þetta mundi nú ráðlegast, úr því sem komið er með Hellisheiðarveginn, ef Mosfellsheiðar-vegurinn væri rétt lagður og honum ætti þannig að framhalda. En svo álít ég ekki.
Leggi maður réttstiku á uppdrátt Íslands, sést, að bein lína milli Þingvalla og Reykjavíkur fellur fyrir norðan Leirvogsvatn á Mosfellsheiði, og ofan Mosfellsdalinn sunnan vert við Mosfell og Leirvogstungu. Kemur þessi stefna saman við Svínaskarðsveginn (norðurpóstleiðina) hjá Mosfelli. Þessa aðalstefnu hygg ég rétt hefði verið að velja fyrir Mosfellsheiðar veginn. - Að vísu byggist vegurinn á þessari leið suður á við úr því niður að Varmá kemur; en það er óhjákvæmilegur bugur fyrir Grafarvog; þar liggur vegurinn eftir miðri, þéttbyggðri sveit og samleiðis aðal landpóstveginum norður og vestur.
Hvenær sem farið verður að tengja saman suðurland og norður- og vesturland með landvegi, verður vegur lagður frá Reykjavík norður að Hvalfjarðarbotni. Beinasta leiðin mun þá vera um Svínaskarð; og sænski vegfræðingurinn, sem hér kom í fyrra sumar, hefur sjálfsagt farið þá leið, því hann gjörir ráð fyrir - af ókunnugleika eðlilega - að veginn eigi eða verði þar að leggja. Hyggur að það "megi takast", en árennilegt virðist honum það ekki.
Mitt álit er, að vegurinn eigi alls ekki að liggja um Svínaskarð, og það því síður, sem völ er á miklu betri leið lítið eða ekki lengri. Á Svínaskarðsvegi mundi frá Skeggjastöðum að Laxá þurfa 6-7 stærri brýr og fjölda smærri rennur, auk þess sem hinar snarbröttu skriðuhlíðar í dölunum beggja vegna skarðsins, mundu sí og æ brjóta brýr og rennur og hlaupa fram með kafla úr veginum. Skarðið oft bráð-ófært á vegum.
Norður-landpóstveginn frá Reykjavík að Hvalfirði stika ég þannig:
Vegamót í sneiðingunni fyrir ofan Elliðaárbrýrnar; þaðan stefna sunnan í Keldnaholti; yfir Úlfarsá neðan við Lambhagavað; stefna ofan við Hamrahlíðarbæ; að vestan við Lágafellið; ausan við Varmárurð; yfir Varmá í Ullarnesi; fyrir ofan Böðvarshaga og þar yfir Köldukvísl á brúarstæði; (þaðan stuttur auka-armur eftir sléttum mel að Leirvogsárbrú); frá Köldukvíslarbrú upp dalinn neðan við Hrísbrú og Mosfell, norðan Laxness, sunnan Skógarbringur og Efri-Sog; yfir Leirvogsá fyrir neðan vatnið; norðan við vatnið; austur hjá Fellsenda; ofan Kjósina vestan Laxár, og yfir hana á hinum fornu brúarhlöðum eða ofar; yfir Reynivallaháls hjá Sandfelli, nálægt götunni sem nú er, allt að Fossá.
Frá Fossá mætti til bráðabyrgða ferja vagnflutning yfir fjörðinn að Hrafnabjörgum. Landvegarkaflinn þar á milli yrði - að Svínaskarði slepptu - óefað hin torunnasti og kostnaðarsamasti á landvegarhringnum, að undanteknum sandvötnunum í Skaptafellssýslum (7 ár: 1. Fossá, 2. Brynjudalsá, 3. Botnsá, 4. Brunná, 5. Bláskeggsá, 6. Sandsá, 7. Skarðsá og urmull af giljum og rásum, og sæbrattar skriðuhlíðar og klettahöfðar á milli).
Frá Fellsenda ætti svo Þingvallasveitarvegurinn, nyrðri vegurinn til Árnessýslu, að liggja skemmstu leið til Þingvalla. Skal ég þó geta þess, að ég er ekki alveg viss um, hvort vegirnir ættu að fylgjast austur fyrir Sandfellin eða skilja vestan vert að þau. Til að ákveða það, þarf að mæla og reikna út báðar leiðirnar.
Kostirnir við að leggja vegina þessa leið eru:
1. Vegarstæðið allstaðar gott; jarðvegurinn umbrotslaus, hallinn mjög lítill, brýr fáar, brúarstæðin trygg og góð, torfærur engar aðrar.
2. Beinasta og stysta leið, sem gjörandi er að leggja veg um frá Reykjavík að Hvalfjarðarbotni og norðan Þingvallavatn.
3. Spara má allan kostnað framvegis við hinn lagða Mosfellsheiðarveg og framhald hans vestur á við. (Frá Fellsenda er lítið lengra austur af heiðinni en frá Vilborgarkeldu, þar sem vegurinn nú endar).
4. Vegurinn liggur næstum alla leið í byggð (heiðarvegurinn syðri er c. 5-fallt lengri milli byggða), kemur að notum upp-Kjósinni, sem síst getur notað sjóveginn, og Stýflisdalsbæjunum í Þingvallasveit. Áfangastaðir góðir.
Leið þessi er tíðfarin á vetrum bæði á norðurleiðinni, þegar Svínaskarð er ófært sökum harðfennis, ófærðar eða hálku, og á austurleiðinni, þegar Þingvallavatn er autt. En þegar leggja á "mac-admiseraðra" 2) vegi, er hið eina skynsamlega tillit, sem tekið verður til stefnu fyrri vega það, hvar farið er á vetrum undir ýmsum kringumstæðum.
Þeir, sem ekki geta fallist á þetta álit mitt, vona ég að færi gagnrök móti því hið fyrsta; ella verð ég að álíta, að það sé þegjandi viðurkennt. Og ég hika jafnvel ekki við að lýsa yfir því, að ég ætla, nú þegar eða að 8 árum, þá 80 árum liðnum.
Bæði Mosfellsheiðarvegurinn og fleira af því litla, sem gjört hefur verið fyrir samgöngurnar hjá oss, ber vott um hryggilega vanhögun. Sama, hvort það er lagaleysi eða þekkingarleysi að kenna; úr því þarf að bæta hið bráðast. - Eftirlit og viðhald á því, sem gjört er, vantar. Sumt aldrei fullgjört, og spillist því brátt. Á brýrnar vantar hlífarborð, sem endurnýja megi jafnóðum og þau slitna, án þess að rifta brúnni. Á brúarstöplana vantar handriði; svo þétt, að fénaður falli ekki gegn um þau. Sumsstaðar liggur vegáburðurinn fram á brúarsporðana, varnar þeim að þorna og feyir þá. Sumsstaðar renna lækir eftir götunum fram á brúna! (Fossárbrú). Hin litla Varmárbrú ekki fullgjör enn eftir nokkur (4-5?) ár. - Hjallur sá eða bátur þykir vanhirtur, sem ekki er málaður eða bikaður iðulega, en um brú - nokkur þúsunda króna virði - þykir það ekki tiltökumál, þó ekkert sé gjört til að verja hana eyðileggingu af áhrifum lofts og vatns. Allt þetta ætti vegfræðingurinn að sjá um. Hann gæti haft nóg að starfa.
1) Embættismaður sá, er þá átti nánast hlut að máli, minnti mig á það síðar eftir að hann var kominn í annað embætti, þegar ég sótti um veðlán úr sjóði, er stóð undir hans stjórn, að ég hefði verið "svo djarfur" að finna að gjörðum hans, kvað mig nú skyldu þess gjalda og synjaði mér lánsins af þeirri ástæðu!
2) Englendingurinn Mac Adam kenndi fyrstur (1835) reglur þær fyrir vegagjörð, sem nú er farið eftir.


Ísafold, 25. feb. 1891, 18. árg., 16. tbl., bls. 62:
Menn eru ekki sammála um hvar leggja eigi aðalpóstveginn um Húnavatnssýslu.

Aðalpóstleið um Húnavatnssýslu.
Það mál var rætt á sýslufundi Húnvetninga í vetur, eins og hér segir, úr bréfi að norðan 10. þ.m.: "Eins og kunnugt er hefir menn mjög greint á um það, hvar heppilegast mundi að leggja aðalpóstveginn um austursýsluna, hvort heldur frá Stórugiljá um Reyki, fram með Svínavatni að austanverðu, og yfir um Blöndu á Tunguvaði, eða frá Stórugiljá um Blönduós fram Langadal. Fremri leiðin er að vísu beinni og mun þar af leiðandi lítið eitt skemmri, og þessi kostur hennar nægði til þess, að hinn útlendi vegfræðingur, sem átti að segja álit sitt í þessu efni, áleit rétt að gjöra hana að aðalpóstleið.
Þeir ókostir fundust honum víst ekki nema smáræði, að hér er um ekkert hentugt brúarstæði að ræða á Blöndu, og ómögulegt er að gjöra greiðan veg á þessari leið, nema með þeim stórkostnaði, sem álíta má lítt kljúfandi fyrir landssjóð, eins og fjárhagurinn er nú, og í mörg horn er að líta. Einnig er ekki að sjá, að hann hafi gjört mikið úr Svartá sem farartálma, er oft reynist hið versta vatnsfall. En þegar litið er á, að vegfræðingurinn var erlendur maður, lítt kunnugur öllum högum þjóðarinnar, er það afsakanlegt, þótt miður tækist en skyldi með þessa álitagjörð hans. Hitt gegnir fremur furðu, að meiri hluti amtsráðsins skyldu verða honum samdóma, þrátt fyrir upplýsingar minni hlutans í málinu, umboðsmanns B. G. Blöndals, sem vitanlega er gagnkunnugur leiðinni, og mælti mjög á móti áliti vegfræðingsins.
Þegar nú mál þetta kom fyrir sýslunefndina, varð það samhljóða álit allra sýslunefndarmanna, nema sýslunefndarmannsins úr Svínavatnshreppi, að póstleiðin skyldi leggjast um Blönduós og fram Langadal, og mun sú ályktun í samræmi við eindregið álit, ósk og vilja allra sýslubúa, nema Svínavatns-hreppsmanna einna, sem auðvitað þætti það mjög æskilegt, að aðalpóstleiðin lægi um sveit þeirra. En það eru ekki aðeins allflestir sýslubúar, sem eru þeirrar skoðunar, að best eigi við í alla staði, að póstleiðin liggi um Blönduós, heldur og margir merkir utanhéraðsmenn, sem gagnkunnugir eru hér í sýslu; og ástæðurnar fyrir því eru fyrst og fremst, að vegurinn er svo góður á þeirri leið, að það yrði margfalt minni kostnaður, að gjöra hann að góðri póstleið, heldur en hina fyrrnefndu syðri leið. Í öðru lagi er skammt frá Blönduós eitthvert hið ágætasta brúarstæði á Blöndu, sem til er. Í þriðja lagi virðist það eiga vel við, að póstleiðin liggi um Blönduós, þar sem hann er hinn fjölfarnasti staður sýslunnar, og má með réttu nefnast miðdepill hennar, að því er snertir samgöngur og viðskipti sýslubúa. Margt er það fleira, sem mælir með því, að Blönduósleiðin verðu aðalpóstleið, og þar sem vegalengdarmunur er næsta lítill á henni og hinni fremri leið, búast menn við æskilegum úrslitum í þessu máli, samkvæmt tillögum sýslunefndarinnar, einkum þar sem landshöfðingi vor hefir nú sjálfur séð þessar umræddu leiðir, og þarf ekki að byggja það á sögusögn vegfræðingsins né annarra, hvað muni kostnaðarminnst og sýslubúum hagfelldast í þessu tilliti.


Ísafold, 28.mars 1891, 18. árg., 25. tbl., forsíða:
Tryggvi Gunnarsson telur nauðsynlegt að innheimt verði brúargjald á “Ölvesárbrúnni” enda verði brúargæsla viðhöfð til að vernda hana frá illri meðferð manna.

Brúargæsla, vegir og brúargjald.
eftir Tryggva Gunnarsson
I.
Margir sögðu við mig síðastliðið sumar, að þeim fyndist það bæði of dýrt og óþarft, að hafa gæslumann við brúna á Ölvesá, þegar hún er komin yfir hana.
Ég svaraði þeim því, að það væri þá nokkuð ólíkt með þessa brú og flesta aðra hluti; því fáir mundu þeir eigendur, sem vildu lána bát sinn eða smákofa almenningi til afnota án gæslumanns, auk heldur skip, stórhýsi eða byggingar, sem kosta mörg þúsund krónur.
Ég held þessir menn hafi gleymt því, "að eigi er minna um vert að gæta fengins fjár en afla þess". Sunnlendingar muna líklega hvernig gekk með sæluhúsið á Kolviðarhóli, meðan enginn var til að gæta þess; og margir, sem ferðast hafa til Austurlandsins, hafa séð sæluhúsið við Jökulsá.
Ég hef líka, eins og margir aðrir, séð meðferðina á brúm þeim, sem þegar eru komnar upp á norður- og austurlandi. Einu sinni var ég á ferð með mörgum öðrum, og komum við að brú, sem nýbúið var að leggja yfir á; nokkrir kvenmenn voru í hópnum, og höfðu þær orð á því, að þær mundi sundla, er þær færu yfir brúna. "En sú hræðsla", sögðu nokkrir unglingar, sem voru í hópnum; "við skulum sýna ykkur hvort við erum smeykir" og svo skelltu þeir undir nára og fóru á harða stökki, í kappreið, yfir brúna. Í annað sinn var ég á ferð með öðrum og rákum við á undan okkur um 200 hesta lausa. Þegar að brúnni kom, fór fylgdarmaðurinn að herða reiðina og ætlaði að reka hestana á harða stökki yfir brúna, en ég komst fram fyrir hestana og vítti hann harðlega. Það er lítið hugrekki sýnt með því, þótt hart sé riðið yfir brýrnar, en það er bæði gapsháttur og fáfræði.
Brúin yfir fjörðinn Firth of Forth á Skotlandi er hin stærsta og dýrasta brú, sem enn hefir verið gjörð; mig minnir að hún kostaði 7 milljónir punda sterling. Þegar hún var vígð, var mælt fyrir minni brúarsmiðsins og gjörði það frægur byggingameistari; hann sagði að með stórsmíð þessu hefði hann gjört landi sínu hið þarfasta verk, ef brúarinnar væri gætt; en væri það trassað, þá væru öllu þessu mikla fé varpað í sjóinn.
Og þetta er eflaust satt
Hver maður með dálítilli umhugsun hlýtur að sjá, að hve sterk sem brúin er, þá hlýtur hún að skemmast í öllum samskeytum við mikinn hristing, þó lítið sé í hvert skipti; en safnast þegar saman kemur, þá tímar líða. Hristingur á járnbrúm er þó langtum skaðlegri en á trébrúm, því járnið hefir þann eiginlegleika, að það hrekkur eins og gler í frosti. Hér í Danmörku var í vetur um tíma 4-8 stiga frost, og þá leið varla sá dagur, að járnteinar þeir, er gufuvagnarnir runnu á, brotnuðu ekki á 3-4 stöðum, þótt þeir lægju á sterkum trjám og sléttum grundvelli, hvað þá ef .þeir hefðu legið á huldu eins og brúin á Ölfusá. Mörg þús. naglar verða í brúnni, sem allir hljóta að slitna lítið eitt í hvert skipti, sem núningur fram kemur við mikinn hristing, og þar af leiðandi endast skemur.
Landssjóður hefir lagt til brúarinnar, sem öll er úr járni 40.000 kr., og Sunnlendingar 20.000 kr. Væri það þá ekki hörmulegt, ef einhver sólargapi af monti og heimsku skemmdi hann og bryti niður, með því að reka marga hesta yfir hana á harða stökki í grimmdarfrosti, svo ærið fé þyrfti til þess að kosta, að gjöra við hana aftur? Mér þætti þá gaman að eiga til við þá menn, sem ég nefndi í upphafi greinarinnar, og spyrja þá, hvort það hefði ekki verið kostnaðarminna að hafa gæslumann við brúna, til þess að vernda hana fyrir illri meðferð manna og áhrifum loftsins.
Hvar sem farið er um útlönd, standa lögregluþjónar við báða brúarsporða á öllum stærri brúm, og skrifa upp til sekta alla þá, er fara með hesta yfir brýrnar harðara en fót fyrir fót, enda þótt þær séu 10 sinnum sterkari en Íslendingar hafa efni á að gjöra brýr sínar; ég er sannfærður um, að enginn hefði í nokkru öðru landi en Íslandi komist hjá miklum fjárútlátum, sem riðið hefði yfir brú eins glannalega og þeir, sem ég gat um að framan.
Mikill áhugi er nú vaknaður á Íslandi til þess að gjöra brýr og betri vegi, og er það sannarlega lofs vert. En áhuginn er, því miður, að tiltölu jafn-lítill til þess að halda þeim við. Ég hef riðið yfir marga vegarspotta, sem ekki hefði kostað 100 kr. að gjöra við, ef það hefði verið gjört þá þegar. En svo var því frestað 2-3 ár, þangað til það var orðinn mannhætta að fara um veginn, og þá kostaði vegabótin 500-1000 kr. Eins er með brýrnar, sé það ekki bætt í tíma, sem aflögu fer, þá getur viðgjörðarkostnaðurinn margfaldast. Flestir þekkja, hve fljótt járn ryðgar, ef það liggur bert í vætu; er því nauðsynlegt að mála jafnóðum hvern blett á brúnni, sem farfinn slitnar af; en þetta getur dregist, ef ekki er duglegur gæslumaður. Ég vil ekki ásaka yfirvöldin og þá, sem brúnna eiga að gæta, fyrir það, að seint hafi gengið að kítta í rifur á brúartrjánum, svo vatnið ekki komist inn í þau, eða að mála þau, til þess að verja þau fúa; en víst er um það, að ekki er enn búið að festa upp við brúarsporðinn á einni einustu brú norðan- eða austanlands auglýsingu um það, að mönnum sé bannað að fara harðar yfir brúna en fót fyrir fót, eða misbjóða þeim á annan hátt. Ég hef farið nýlega yfir þær allar.
Af því það er svo lítill áhugi á Íslandi á viðhaldi vega og brúa, þá held ég væri vel til fallið, að þingið veitti ákveðna upphæð til viðhalds veganna. Þeim mönnum, sem hafa ferðast yfir landið, mun hafa sárnað, ekki síður en mér, að sjá, hversu nýir vegir verða því nær ófærir á fáum árum vegna viðhaldsleysis.
Hvað hitt atriðið snertir, kostnaðinn við brúargæsluna, þá er hægt að vera fáorður um það, því hver meðalhygginn maður getur séð, að kostnaðurinn t.d. við gæslu á Ölfusárbrúnni þarf ekki að vera stór.
Ef landsstjórnin reisir hús fyrir fé landssjóðsins- eða kaupir hús, sem þegar er upp komið við brúarsporðinn og eigi þarf að kosta fullgert nema 3.000 kr.-, lánar svo húsið leigulaust og gefur manni veitingaleyfi og lausn frá öllum gjöldum til landssjóðs, þá munu margir sækja um þá stöðu, þó þeir eigi að gæta brúarinnar í öllum greinum án frekara endurgjalds, enda er það álitleg staða, einkum ef hann getur keypt land öðruhvoru megin árinnar og fær leyfi til að selja allan þann greiða, er efni hans leyfa; yrði þá kostnaður landssjóðs árlega ekki nema 5% af 3.000 kr. eða 150 kr., því ákveðna leiguliðabót af húsinu fyrir fyrning og skemmdum ætti brúarvörður að greiða. Það yrði líka landinu til sóma, ef góður viðtökustaður væri við brúna, einkum fyrir útlenda ferðamenn.
Íslendingar gjöra allt of lítið til þess, að laða útlendinga til Íslands. Norðmenn verja árlega stórfé til þess, að fá til sína sem flesta útlenda ferðamenn, og jafnvel Danir, sem engin náttúruafbrigði hafa í landi sínu, verja til þess allmiklu fé. En því miður eru Íslendingar á eftir í því, eins og svo mörgu öðru, sem bætt gæti efnahag manna. Útlendingar koma mest til Íslands til þess að sjá Heklu og Geysi, en leiðin þangað frá Reykjavík getur legið yfir Ölvesárbrúna, og væri því hyggilegt af stjórn landsins og þeim sem búa í nánd við þessa leið, að laða útlenda ferðamenn til sín; en því verður best náð með sanngjörnum viðskiptum og ákveðnum föstum áfangastöðum.
Í Noregi eru ákveðnir fastir áfangastaðir fyrir innlenda og útlenda ferðamenn, með 3-6 mílna milli. Húsbóndinn er skyldur til að hafa hús og rúm fyrir tiltekna gestatölu auk þess hesta og smávagna handa gestunum m.m., og þetta verður hann að láta í té fyrir ákveðið verð, en svo er hann laus við öll gjöld til almenningsþarfa og undanþeginn því að senda syni sína til herþjónustu og landvarnar m.m.
Hvað gerir alþingi og landstjórn fyrir þá, sem í þjóðbraut búa og þá sem um þjóðbraut fara?
Ég veit þess eitt dæmi, að maður einn á Suðurlandi, sem bjó í þjóðbraut við fjallveg hefir fengið styrk til þess að standast gestagang og byggja gestaskála; en yfir þessu er þagað, í stað þess að gera það heyrum kunnugt, því það er stjórn landsins til sóma, að bera þannig umhyggju fyrir þörfum ferðamanna; það er sæmd fyrir landið, að styrkt sé til þess, að viðunanlegir viðtökustaðir séu til fyrir ferðamenn, einkum við fjallvegi, og fyllsta réttlæti gagnvart þeim mönnum, sem búa í þjóðbraut og við fjallvegi, að þeim sé veitt einhver ívilnun, fyrir átroðning og beina þann, er þeir veita ferðamönnum dögum saman, til þess að stofna ekki lífi þeirra í hættu í tvísýnu veðri og á illum fjallvegum.
II.
(síðari kafli).
Þegar landssjóður er búinn að leggja margar brýr, annaðhvort að öllu leyti eða að mestum hluta, þá þarf hann að viðhalda þeim að öllu leyti eða að réttri tiltölu, og svo síðan gera þær aftur að nýju, þegar þær eru orðnar affarafé. Hversu mikið gjald verður ekki þetta? Vilja menn leggja þetta gjald á sig og eftirkomendurna, til þess að margir óviðkomandi menn geti fengið gefins ferð yfir flestar stærri ár á landinu? Er ekki nær að mynda brúarsjóði fyrir fargjald ferðamanna, sem taka mætti af viðhaldskostnað og síðan verja til þess að endurreisa brýrnar?
Það er fullkomin þörf á því, að fara að byrja stofnun slíkra sjóða til þarflegra fyrirtækja í landinu, eins og gert er um öll lönd. Það er miklu hentugra en að demba öllu á landssjóð, sem þá getur ekki staðist nema með nýjum álögum á bændur.
Ég hygg, að meiri hluti þingmanna og margir málsmetandi menn hafi óbeit á brúargjaldi; en engu að síður vil ég skýra frá, hver rök álit mitt hefir við að styðjast, og þó menn ekki vilji taka þau til greina, þá getur verið að menn sjái það seinna, að ég hefi ekki svo rangt fyrir mér í þessu efni.
Ég er sannfærður um, að það er bæði sanngjarnt og nauðsynlegt, að taka brúargjald af Ölvesárbrúnni og öllum stærri brúm, sem hér eftir verða gerðar á Íslandi.
Aðalástæðan er sú, að landið er stórt, strjálbyggt og árnar margar, sem brúa þarf, ef veruleg framför á að verða í samgöngum í landinu sjálfu. Það er auðséð, að landssjóði er ofvaxið að leggja brýr þessar allar, og skaðlegt er fyrir landsbúa í ýmsum héruðum að bíða með nauðsynlegar brúargerðir, þar til þingið álítur sér fært að verja svo tugum þúsunda króna skiptir gefins til nýrra brúargerða. Margir menn og hestar geta verið drukknaðir áður en sá tími kemur. Auk þess sé ég ekkert réttlæti í því, að menn á Hornströndum, Langanesi eða undir Jökli séu að leggja fé í landssjóð til þess að menn geti farið kostnaðarlaust yfir Ölvesá í Flóa eða Þjórsá eða Blöndu, og þaðan af síður sé ég ástæðu til þess, að útlendir ferðamenn eða útlendir hesta- og fjárkaupamenn með stóra hópa af hestum og sauðum fari kostnaðarlaust yfir ána á brúnni við Selfoss, þegar margir innlendir þurfa að borga ferjur yfir ána ofar og neðar, og eiga þó á hættu hesta og aðrar eignir.
Mér sýnist, að þeir, sem yfir brúna fara, hafi talsverðan hag í samanburði við þá, sem þurfa að fá ferju, þó þeir þurfi að greiða jafnhátt gjald eins og ferjutollurinn er fyrir ofan og neðan, því þeir komast hjá tímamissi við það, að bíða við ána í krapaförum um vetrartímann og í ófærum vöxtum á vorin. Þeir eru lausir við þá tímatöf, að spretta af hestum og búa upp á aftur, og lausir við alla hættu.
Ég vona, að menn sjái það fyr eða síðar, að þetta er sanngjarnt; en þó tel ég það engan veginn þýðingarmest, heldur hitt, að landssjóði er ofvaxið að leggja allar þær brýr í landinu, sem fyllsta nauðsyn er á að fá sem fyrst, ásamt að viðhalda þeim, og að með þeim hætti komast brýr seinna á árnar.
Mér þætti gaman að því, að fá rökstutt svar upp á það, hvort nokkur ástæða sé til þess, að ferðamenn hefðu á móti því að greiða fargjald fyrir hættulausa og fljóta ferð yfir stórár á brúm, fremur en á ferju, sem bæði er seinlegri og hættumeiri, eða hvort landssjóði, ömtum eða sýslufélögum sé fremur skylt að leggja brýr yfir ár til ókeypis yfirferðar en ferjur. Ef ferjur væru á öllum póstvegum til ókeypis afnota fyrir ferðamenn, þá væri það samkvæmni; en enginn fer fram á það: og því sé ég ekki samkvæmni hjá þeim, sem eru á móti brúargjaldi.
Ég býst við að mér verði svarað því, að það sé umfangsmikið og kostnaðarsamt að heimta brúartoll. Ég svara undir eins fyrirfram nei.
Hvernig fara aðrar þjóðir að með járnbrautargjald og sporvagna?
Því er svo fyrir komið, að eigendurnir gefa út kvittunarmiða - 1 þuml. á lengd og ½ þuml. á breidd - sem er kvittun fyrir því, að ferðamaðurinn hafi greitt fargjaldið, og þessum miða heldur hann þar til ferðinni er lokið. Á líkan hátt ættum vér að fara að. Landstjórnin gefur út 50-100 þúsund af álíka smámiðum, og um leið semur alþingi lög um hegningu fyrir fölsun á þeim, samkvæmt því ef bankaseðlar eru falsaðir eða peningar slegnir og seldir. Þessir miðar eru svo. t. d. hvað Ölvesárbrúna snertir, til sölu í öllum verslunum í Reykjavík, Eyrarbakka og öðrum kauptúnum sunnanlands; sömuleiðis hjá brúarverðinum sjálfum. Miða þessa- eða frímerki - kaupa svo allir ferðamenn, eins og annan varning eða frímerki á sendibréf, og afhenda þau brúarverði, þegar þeir nota brúna. Þannig er farið að á járnbrautarvögnum og sporvögnum um allan heim, og ætti ekki að vera meiri vandi að heimta fargjald hjá 70 þús. manna á Íslandi, en 700.000.000 um öll þau siðuðu lönd. Svik á sölu miða þessara geta varla komið fyrir nema hjá brúarverðinum. Þarf því að velja vandaðan mann til þessa starfa og setja með lögum þunga hegningu fyrir undanbrögð.
Útgáfa þessara brúargjaldsmiða þarf ekki að kosta landssjóð eða aðra eigendur brúnna annað en prentun og sölulaun, því það ætti að vera skylda brúarvarðar, að heimta brúargjaldið, gegn þeim hlunnindum sem að framan eru nefnd.
Ég álít, að hæfilegt fargjald yfir Ölvesárbrú sé 10 a. fyrir lausríðandi mann og 10 a. fyrir klyfjahest, 5 a. fyrir gangandi mann og 5 a. fyrir lausan hest, og 2 a. fyrir sauðkind. Með þessu mundi safnast þó nokkurt fé. Þeir, sem vilja fara yfir brúna frá kl. 11 e. m. til kl. 8 f. m. frá veturnóttum til sumarmála, ættu að greiða tvöfalt gjald, og ætti brúarvörður að njóta helmings þess fjár fyrir ómak sitt, því ekki er sanngjarnt að ákveða brúarverði miklu lengri vinnutíma en öðrum, eða að vaka nótt og dag, en skyldur ætti hann að vera að ljúka brúnni upp hvenær sem menn vilja, enda getur það verið nauðsynlegt, þegar menn þurfa að leita læknis eða eiga önnur brýn erindi. Við þessar aukatekjur bætist svo 10% af öllum þeim brúarfrímerkjum, er brúarvörður selur. 10% mega heita sanngjörn sölulaun fyrir alla aðra, er versla með þau.
Ég hef íhugað, hvort hentugra mundi vera, að brúarvörður eða brúareigandi, hver sem það er, ættu brúarvarðarhúsið, og ég hygg það miklu betra, að brúareigandinn sé eigandi hússins, og enda jarðarskika öðruhvoru megin árinnar nálægt því, til afnota fyrir hesta ferðamanna, svo hægt sé að setja brúarverði stólinn fyrir dyrnar og víkja honum frá, ef hann stendur laklega í stöðu sinni; því þó staðan sé ekki vandasöm, þá er það áríðandi, að maðurinn sé ráðvandur og kurteis og hafi nokkur efni eða lánstraust.
Þó ég sé þeirrar skoðunar, að landssjóður ætti ekki að gefa fé til þess, að brúa stórárnar, eða halda brúnum við, heldur að mynda ætti brúarsjóði, þá kemur mér ekki til hugar, að stjórnendur landssjóðs ættu að vera afskiptalausir af brúargjörðarmálum. Landssjóður ætti að vera aðalhjálparhellan til þess að sem flestar brýr komist sem fyrst á, ekki með því að gefa, heldur með því að lána fé með sanngjarnri leigu og langri afborgun. Hann hefir meira lánstraust en nokkur annar, og á honum hvílir skylda til þess, að styrkja öll þau fyrirtæki, sem miða landinu til framfara og fé þarf til, enda á hann hægra með að leggja fé fram, þegar það á að endurgjaldast, en ef það ætti að hverfa að fullu.
Ég vona, að mönnum skiljist nú fyr eða síðar, að þeir, sem fara yfir brýrnar, eru hinir réttu gjaldendur, en ekki þeir, sem aldrei fara yfir þær, og það landssjóður á miklu hægra að styrkja brúargjörð yfir hættulegar ár, án þess að ný gjöld séu lögð á landsmenn, ef það fé, sem hann leggur til brúnna, er lán, en ekki gjöf.
Ég vona líka að lærðum og leikum skiljist, að það er fullkomlega eins áríðandi að viðhalda vegum og brúm, og hlífa þeim fyrir illri meðferð, eins og að gjöra það hvorttveggja af nýju í upphafi, og að kostnaðurinn við brúargæsluna verður að tiltölu margfalt minni með föstum brúarverði, en sá skaði yrði, sé brúin gæslulaus.
Ritað í febrúarm. 1891.


Ísafold, 25. apríl 1891, 18. árg., 33. tbl., forsíða:
Þorlákur G. Guðmundsson ritar hér langa grein sem fjallar að mestu um brúargæslu og brúargjald og er ósammála Tryggva Gunnarssyni að slíkt sé nauðsynlegt.

Brúargæsla, vegir og brúargjald.
svar til herra Tryggva Gunnarsson
frá Þorláki Guðmundi Guðmundssyni
I.
Ég hefi lesið og lesið aftur og enn aftur í 25. og 26. tbl. Ísafoldar þ.á. frá herra Tryggva Gunnarssyni langa ritgjörð, sem miðar til að sannfæra menn um, að þörf sé á, að setja brúargæslumann við hina væntanlega brú á Ölfusá, og undir eins, hve sanngjarnt það sé, að leggja á brúargjald.
"Sínum augum lítur hver á silfrið."
Eftir því, sem ég hugsa meira um þetta mál, finnst mér að ég verði að fjarlægjast meir og meir skoðun hins heiðraða höfundar í aðalefni málsins.
Fyrsta ástæðan, sem hann kemur með, og sem hann kveðst hafa haft fyrir vopn á mótmælendurna á næstliðnu sumri, er ekki heppilega valin.
Það er allt annað, að sá einstaki leggi fram fé til almenningsþarfa að öðru leyti en því, sem hann geldur lögboðna skatta, er renna í almennan þjóðsjóð, heldur en að hið almenna leggi fram fé til þarfa þeim einstaka, eða þeim mörgu einstöku sem mynda stærri eða smærri heild í mannfélaginu. Hinn einstaki er ekki skyldur að láta af hendi eign sína, nema almenningsþörf krefji, og komi fullt endurgjald fyrir, og það endurgjald verður að takast af almannafé.
Hér er því um tvennt ólíkt að ræða, og skilur jafnmikið og rétt og rangt.
Það mun óþekkt, að minnsta kosti hér á landi, að menn láni grip, hús eða skip, og láti gæslumann fylgja með, til að upp eta meira eða minna af leigunni.
Ég get verið samdóma um það, að ekki sé minna vert að gæta fengins fjár en að afla, en kringumstæðurnar verða þá að vera svo, að kostnaðurinn við gæsluna ekki upp eti þann sparnað sem af gæslunni leiðir.
Þetta sannmæli er eins og flest önnur, að það getur ekki átt við allar kringumstæður.
Ef refir ásækja fé mitt, get ég varist þeim með því, að láta fylgja fénu dýran mann dag og nótt; en það er því að eins hyggilegt, að kostnaðurinn verði ekki meiri en skaði sá, sem refar gera mér; og skal ég síðar sýna, hvern veg verða mundi með gagn og ágóða af brúargæslunni.
Að hin fáu sæluhús hér séu illa hirt, neitar víst enginn; en annað mál er, hvort það mundi borga sig, að setja launaðan mann við hvern fyrir sig af þessum kofum. Það var ekki eingöngu vegna hirðunnar, að sæluhúsvörður var settur á Kolviðarhól, heldur sér í lagi og einkum vegna þess, að þörfin var lengi búin að kalla að; hér þurfti að vera mannabyggð, til að veita mönnum aðhjúkrun og beina á þessum fjölfarna og illviðrasama fjallvegi.
Það virðist vera nokkuð annað um að ræða, þó settir séu gæslumenn og lögregluþjónar við stærstu brýr í heimi, eða víða erlendis, þar sem allt er á þjótandi ferð með gufuafli og umferðin svo mikil, að hér er engu við slíkt að jafna.
Það er ætlun mín, að fáum muni þykja fýsilegt, að ríða hart yfir slíka brú sem þessa, því að áin undir brúnni mun ógna mönnum og vernda brúna fyrir harðri reið betur en nokkurt eftirlit. Að "einhver sólargapi reki marga hesta á harða stökki yfir brúna í grimmdarfrosti", mun aldrei koma fyrir, því breidd brúarinnar gerir líka slíkt naumast hægt. Eigi brúarinnar að vera gætt fyrir harðri reið eða rekstri, svo að meira sé en nafnið tómt, þá er enginn vafi á því, að það þarf að vera lögregluþjónn við hvern brúarsporð.
Hvað segjum við svo, þegar búið er að leggja 10-15 stórbrýr á landinu og komnir eru jafnmargir brúarverðir og helmingi fleiri lögregluþjónar. Þá minnka ekki laun og eftirlaun, og þá mun verða eins og Einar á Þverá sagði - Þá munu álögurnar verða þungar; og ættu brúarverðirnir svo að lifa og laumast mest megnis af veitingum, mundi lítið batna siðferði eða efnahagur manna í nálægum héruðum við brýrnar, og mundi þá eins gott að synda í gamla haftinu.
Þessi brúarvörður þarf að hafa áreiðanlegan aðstoðarmann, eins og vitavörðurinn á Reykjanesi, þegar brúin á að vera opin nótt og dag. Launin verða því að vera allrífleg.
Hverjir mundu það nú helst vera, sem misbyðu brúnni með harðri reið? Það mundu helst vera drykkjumenn. Þeir gætu slegið undir nára, þegar þeir væri komnir út á brúna, og brúarvörður hefði ekki meira af þeim. Oft gæti orðið erfitt að sanna brotið, sem gæti þá kostað málavastur og peningaútlát fyrir landssjóð. Setjum nú samt, að hinn seki maður næðist; ef hann væri þá, eins og slíkir eru oftast, félaus, fengi hann að fara í hegningarhúsið.
Ekki græddi landssjóður á því.
Það er því eins og ég hefi áður sagt, að annaðhvort er að gera ekki neitt, eða hafa lögregluþjóna við hvern brúarsporð.
Að hér sé ofurlítið gert til að viðhalda vegum og brúm, dettur mér ekki í hug að afsaka, því ég hata allan trassaskap, í hverri mynd sem hann birtist, og án þess að leggja fram stórfé mætti gera miklu meira en gert er til viðhalds á vegum og brúm.
Ég skal t. d. nefna hina miklu stóðhópa, sem reknir eru víða um landið og mest af öllu skemma vegi og brýr; og þetta er engri reglu eða eftirliti háð; og það álít ég sjálfsagt að banna slíka stóðrekstra yfir Ölfusárbrúna, nema undir ströngu eftirliti, og mættu þeir gjarnan að auki borga toll, og til þess þarf engan brúarvörð að framkvæma þetta.
Hr. Tr. G. heldur að kostnaður við gæslu á brúnni þurfi ekki að vera mikill.
Ég held allt annað.
Hann ætlar brúarverði að hafa mestmegnis laun af veitingum og greiðasölu, eða með öðrum orðum: af fávisku og munaðargirnd þeirra, sem um veginn fara eða brúna, og hann ætlast til að þetta embætti verði svo feitt, að margir sæki um það. Eftir því á þessi embættismaður að rýja á tvær hendur. Og hvaðan eru svo launin tekin, nema úr þjóðarinnar vasa. Nú má fullyrða, að lítið verði af honum keypt. Þetta er í miðri sveit og margir eins og heim komnir þegar yfir ána er komið. Undanþágur undan landssjóðslögum væri einskisvirði fyrir hann, búlausan mann, því í atvinnuskatt mundi hann trautt komast. Það yrði því að launa honum af brúartollinum eða úr landssjóði.
Ég geng að því vísu, að ölfanga-veitingaleyfi verði aldrei veitt á þessum stað. En af því að selja greiða og hýsa menn, getur enginn þrifist hér, ef hann ekki hefir bú eða eitthvað annað við að styðjast.
Þó að upp væri sett veitingahús við brúna, mundi það ekki færa landið í virðingarskrúða í augum útlendinga, því þeir fara svo fáir þessa leið. Það eru einungis þeir, sem fara til Heklu, þó ekki nema aðra leiðina, og stundum hvoruga.
En það er vegurinn til Geysis, sem fyrst og fremst á að gjöra góðan í því augnamiði að hæna hér að útlendinga, og svo ætti að koma upp sumar-hóteli á Þingvelli og öðru við Geysi.
Það væri mikið þarft að hér yrðu fastákveðnir áfangastaðir, sem keyptir væru fyrir almannafé, öllum vegfarendum til frjálsra afnota. En það mál þarf góðan undirbúning heima í héruðum, og getur ekki vel gengið fyr en búið er að fastákveða aðal-vegina í landinu, og þá er það fyrst, að menn sjá, hvar greiðasölu-og veitingahús eiga að vera.
Því þegir hinn heiðraði höfundur yfir því, fyrst hann veit það, að einn maður hefir fengið fé til að standast gestagang og reisa gestaskála? Það er fróðlegt að fá að vita, hver það fé veitti, og hvaðan það var tekið.
II.
(Síðari kafli).
Það gildir það sama um brýr og vegi, að landssjóður verður að halda hvorutveggju við. Eru það ekki sömu útlát fyrir landssjóð, hvort hann leggur 40.000 kr. til brúar yfir Ölfusá, eða hann leggur 40.000 kr. í póstveg eða fjallveg, sem hann á að ala og annast? Það mætti því eins tolla vegina. Landssjóður er þegar byrjaður á því, að leggja brýr á ýmsar smá-ár á póstvegum. Vel geta 6-8 smærri brýr kostað 40.000 og ef það er rétt, að tolla eina stórbrú, sem þetta hefur kostað, þá er líka rétt, að tolla allar þessar smærri, sem jafnmikið hafa kostað.
Hr. Tr. G. segir: "vilja menn leggja þetta gjald á sig og eftirkomendurna til þess, að margir óviðkomandi geti fengið gefins ferð yfir flestar stórár á landinu?"
Hverjir eru þessir óviðkomandi menn? Það geta þó víst ekki verið aðrir en útlendingar.
Mundi ekki hin núverandi kynslóð vera þakklát feðrum sínum og hinni horfnu kynslóð, ef þeir og hún hefðu eftirlátið mörg þörf stórvirki í landinu, þó að nú þyrfti að halda þeim við? Það er skylda vor að gera allt sem vér vel getum gert fyrir hina komandi kynslóð; en það getur ekki verið skylda vor að ganga berir og skilja eftir blóð í sporunum.
Hr. Tr. G. telur það sanngjarnt, að tolla brúna á Ölfusá og allar stórbrýr, sem gjörðar verða í landinu. En ég tel það ósanngjarnt og óráðlegt.
Það er að elta vissa menn í sérstökum sveitum með nýjum skatti og mynda þar á ofan nýjan embættismannaflokk í landinu, sem ekki mundi verða léttari byrði á eftirkomendum vorum en viðhald og endurreisn á brúnum. Mikið af gjöldum mundi ganga til að launa tollheimtumönnunum, og á sumum stöðum hrykki tollurinn ekki að launa manninum.
Aðalástæðan er sú, að landið er stórt og strjálbyggt og árnar margar, sem brúa þarf. Þetta er ein aðalástæðan á móti tollinum, að þjóðin er á víð og dreif um þetta landflæmi, og þar af leiðir, að umferðin er svo lítil um hverja brú fyrir sig, að það ber sig ekki að tolla þær, nema tollurinn sé svo hár, að hann misbjóði kröftum flestra vegfarenda og fæli þá frá að fara brýrnar.
Það gleður mig, að nú er hr. Tr. G. farinn að sjá, að það er tjón fyrir menn, að fá ekki stórárnar brúaðar fyr en seint og síðar meir, og að það getur orðið mönnum og gripum að fjártjóni.
Hversu mikill framfarastyrkur var það því ekki fyrir austursýslurnar, að brúargjörðin á Ölfusá var tafin í þinginu um heilan tug ára fyrir mótstöðu einstakra manna(!).
Hér er ég þá kominn að því merkilega atriði í ritgjörð hr. Tr. G., að hann sér ekki neitt réttlæti í því, að Hallur á Horni, Auðunn á Öndverðarnesi og Lýður á Langanesi séu að leggja fé í landssjóð til að brúa Ölfusá o. s. frv.
Ég geri ráð fyrir, að þessir þrír karlar, séu friðsamir og fari aldrei í mál á ævinni. Samt verða þeir að borga dómsvaldinu, af því að þeir eru í þjóðfélaginu, en aðrir t.a.m. hér fyrir sunnan, eru oft í málaferlum og þurfa á dómsvaldinu að halda. Þeir Hallur og hans félagar eru heilsugóðir og leita aldrei til læknis, en verða þó að borga þeim.
Er þá rétt, að Öræfasveit, eða Austur-Skaptafellssýsla borgi til strandferðanna?
Höf. virðist þeir, sem brúna fara, hafa talsverðan hag í samanburði við þá, sem á ferju fara. Hér væri of miklu til kostað og fyrir sigri þessa máls of lengi barist, ef hagurinn ekki væri verulegur.
Ég skal leitast við að gera hr. Tr. G. þá ánægju, að rökstyðja það, að ekki er ástæða til að tolla brýrnar fyrir það, að lögferjur hafa verið og eru keyptar af hverjum einstökum, sem hefir þurft að nota þær.
Ef engin sýnileg ráð væru þekkt til að brúa ár, þá væri sjálfsagt, að landssjóður kostaði ferjurnar að öllu leyti á póstvegum og fjallvegum. Hér við bætist, að ferjurnar hverfa af sjálfu sér jafnskjótt og brýrnar komast á, og engin ástæða er til að ætla, að þær framfarir haldi ekki áfram, því það er nú lögboðið að brúa ár og læki svo fljótt að því verður við komið. Skyldi nokkur ástæða vera til að efast um, að ferjurnar á Laugardælum og Kotferju legðust niður, þegar brúin er komin á ána hjá Selfossi?
Ég sé það, að hr. Tr. G. hefir ekki breytt skoðun sinni frá því við vorum saman á þingi á þessu stóra þarfa- og framfaramáli þjóðarinnar, brúamálinu. Hann álítur enn sem fyr, að héruðin eigi að taka lán hjá landssjóði til að brúa stórárnar, því að landssjóði sé ofvaxið að kosta það.
Þetta er þungskilin þjóðbúskaparfræði.
Mér virðist það vera líkt og ef húsbóndi, sem hefði mörg hjú, og þyrfti að láta vinna eitthvert stórvirki, segði: "Þetta verk þarf að gera, en það er ofvaxið öllum mínum hjúum að gjöra það með samtökum og félagsskap, en ég ætla að láta eitt eða tvö gera það; þau geta þá lánað krafta hjá hinum, ef þau hafa ekki afl á því sjálf.

Þjóðólfur, 29. maí 1891, 43. árg., 25. tbl., forsíða:
Menn eru ekki sammála um hvar leggja eigi þjóðveginn um Húnavatnssýslu en hér skýrir séra Stefán M. Jónsson frá skoðunum sínum í langri grein.

Ný aðalpóstleið í Húnavatnssýslu.
eftir Séra Stefán M. Jónsson á Auðkúlu.
I.
Eitt af hinum mörgu málum, er nýafstaðinn sýslunefndarfundur Húnvetninga hafði til meðferðar, var aðalpóstleiðarmálið um sýsluna, - nú í annað sinn fyrir nefndinni. Eins og margir vita, er þetta mál afspringur vegalaganna frá 10. nóv. 1887, sem skipta öllum vegum landsins í aðalpóstvegi, sýsluvegi, fjallvegi og hreppavegi. Aðalpóstvegir eru kostaðir yfir höfuð af landssjóði, sýsluvegir af sýslusjóði og hreppavegir af hreppavegasjóði. Sú er auðsjáanlega hugsun laganna með því að taka aðalpóstvegina yfir höfuð á sína arma, að þeir séu lagðir þannig, að eigi einungis héraðið eða sýslan, sem vegurinn liggur í, hafi gagn af honum, heldur sé hann lagður sem hentugast fyrir þjóðina sem kostar hann og á að nota hann, og póstinn, sem fer með erindi þjóðarinnar, án einkatillits til hagsmuna eins héraðsins fremur en annars. Póstvegirnir eru því sannir þjóðvegir; og vegna þess, að þessi er aðal tilgangur þeirra, segja lögin, að leggja aðra vegi, sýsluvegi, sem sérstaklega eiga að greiða samgöngurnar innansýslu. Auðvitað er ákjósanlegt, þegar gagn þjóðar og héraðsbúa getur komið saman, án þess réttur aðalmálsaðila sé borinn fyrir borð, en þegar það lætur sig ekki gjöra, verður hinn rétthærri að ganga fyrir. Og hver getur verið í vafa um, ef þetta er rétt, að réttur og þarfir þjóðarinnar eigi að ganga fyrir hagsmunum héraðsins, ef ekki verður sameinað. Þessi réttur og þarfir þjóðarinnar næst án efa best með því, að aðalpóstleið í sýslu hverri sé sett í hentugt samband við aðalpóstleið næsta fjórðungs o. s. frv.; og naumast mun það hafa verið hugsun Alþingis með vegalögunum 1887, að landssjóður legði út stórfé, t. d. til þess, að nokkrir hreppar hvers héraðs gætu fengið greiða götu í kauptún sitt, ef þar við ykist óþarfur kostnaður og erfiðleikar á póstferðum landsins um héraðið, en þessa þörf sýslufélagsins eiga sýsluvegirnir einkum að bæta samgönguþörf hreppsfélagsins.
Þó ég sé fjarri því að vera lögfróður, hygg ég að enginn óhlutdrægur maður vilji eða geti neitað því, að þetta, sem ég nú hefi sagt, sé andi vegalaganna, um leið og það er bókstafur þeirra. Og frá þessu sjónarmiði vil ég segja ágrip af sögu aðalpóstleiðarmálsins um austanverða Húnavatnss. frá Giljá að Bólstaðarhlíð, og skoðanir mínar um það mál.
II.
Mál þetta var lagt fyrir sýslunefnd Húnavatnssýslu veturinn 1888, og átti sýslunefndin að segja álit sitt um stefnu vegarins. Sýslunefndin klofnaði í þrennt. Fáeinir aðhylltust að leggja leiðina frá Giljá út á Blönduós og þaðan yfir Blöndu fram allan hinn langa Langadal (Ystaleið). Fáeinir voru á því, að vegurinn lægi, eins og nú, að Reykjum á Reykjabraut, þaðan fram með austanverðu, eða réttara norðanverðu, Svínavatni, yfir Blöndu á Finnstunguvaði og að Hlíð. (Fremsta leið); en þeir, sem þá voru eftir, voru á því, að leggja veginn frá Giljá að Reykjum, þaðan meðfram Svínavatni að Laxá, en þá austur yfir Ásana hjá Tindum, yfir Blöndu á Holtastaðaferju, og þaðan fram Langadal (Miðleið). Þessir miðleiðarmenn réðu úrslitunum með 1 eða 2 atkvæða mun, við hina flokkana samantekna. Þessi úrslit sýslunefndar voru síðan send amtsráðinu; varð þar meiningamunur sá, að einn (Einar í Nesi) varð fyrst á Fremstu leiðinni, en amtmaður og Benedikt Blöndal á miðleiðinni, en enginn á ystu leiðinni. Þá gekk málið til landshöfðingja.
Alþing 1889 veitti 6.000 kr. til að fá vegfróðan mann frá útlöndum til að segja, samkv. vegalögunum, álit sitt um þetta og fleiri vegmál landsins. Hann kom og hafði um 3.000 kr. fyrir starfa sinn sumarið 1889. Vegfræðingur þessi var svenskur, A. Siwerson að nafni, alvanur vegagjörð í Svíaríki, og einkum Noregi, eigi einungis járnbrautarvegum, heldur vegum yfir og eftir hálsum og dölum, þar sem líkt er ástatt og hjá oss; þetta sagði hann mér sjálfur. Valið á manninum virðist því hafa verið heppilegt. Þetta ákvæði laganna um, að vegfróða menn skuli hafa í ráðum, þegar ákveða skal aðalpóstleiðir, virðist bæði viturlegt og gjöra úrskurðarvöldunum hægra fyrir; en einkum sýnist, að það ætti að létta fyrir landshöfðingja í að leggja sinn fullnaðarúrskurð á málið, hafi meiningamunur orðið hjá sýslunefnd eða amtsráði.
Siwerson vegfræðingur sendi í fyrra vetur skýrslu sína til landshöfðingja, með áliti sínu um, hvar hentugast sé að leggja aðalpóstleiðina, og áætlun um kostnað hennar. Útdrátt af þessu áliti og áætlun má lesa í Þjóðólfi nr. 10, 28. febr. 1890. Ystuleiðinni og miðleiðinni kastar hann þar algjörlega, en er eindreginn með því, að leggja veginn meðfram Svínavatni (Fremsta leiðin). Eini kosturinn er hann nefnir á Ystu leiðinni, er brúarstæði á Blöndu á svokölluðum Neðriklifjum, en þessi vegur er 10.340 metr. lengri en fremsta leiðin. Á leiðinn fram Langadalinn af Blönduós yrði vegurinn, að hans sögn, að liggja yfir 5 smáskriður og eina stóra 1). Auk þessa segir hann, að mjög sé hætt við, að Blanda bryti af veginum á 2 stöðum í Laugadal; vegurinn mundi stöðugt liggja undir skemmdum, og viðhald hans kosta stórfé. Miðleiðin er 4.140 metr. lengri en fremsta leiðin. Á miðleiðinni ekkert brúarstæði á Blöndu (hefði mátt bæta við: "ekkert vað"), og sömu ókostir sem á ystu leiðinni, hvað snertir skemmdir á veginum og hættur fyrir hann. Eftir skýrslunni, er fremsta leiðin 1. styst eins og áður er sagt, 2. skriðulaus, 3. hallaminnst, 4. efni nægilegt og auðflutt að veginum, 5. kostnaðarminnst (það munar 26.700 kr. á henni og miðleiðinni, hvað þá á henni og ystu leiðinni.) 6. Á fremstu leiðinni er gott vað á Blöndu. 7. Skammt þar frá góður ferjustaður, og 8. örskammt þar frá mjög gott brúarstæði.
Ef farið væri eftir tillögum vegfræðingsins, eru það 11.400 metr. um 5.7000 faðmar, sem þarf að gjöra til þess að fá besta veg alla leið frá Giljá að Blöndu, því hann ræður til að byrja lítið eitt fyrir sunnan Laxá (fremri), en þangað er allgóður vegur frá Giljá, eins og nú er. En einmitt nærri þessu er ysta leiðin lengri en hin fremsta. Frá Blöndu að Bólstaðarhlíð er væn bæjarleið, og góður vegur eins og er.
Þegar þetta skýlausa álit vegfræðingsins var nú fengið, virtist meiningarmunurinn eiga að vera jafnaður, og hvíla hefði mátt við úrslit hans, sem hlýtur að hafa best vit á þessu. Ef ekkert er eftir á farið að orðum slíkra manna, virðist ákvæði laganna um þá meiningarlaust, og fjárveitingar þingsins til þeirra hlægilegar. En svo er að sjá, sem landshöfðingja vorum hafi enn þótt vandi fyrir sig að ákveða aðalpóstleiðina hér í austursýslunni, því eftir allt þetta, er nú málið látið ganga afturábak, frá landshöfðingja aftur til amtsráðs, frá amtsráði aftur til sýslunefndar til þess að segja álit sitt um álit vegfræðingsins. Það virðist ekki hefði átt að vera vandasamt að gefa þetta álit, þar sem enginn hafði hrakið eitt einasta atriði í skýrslu vegfræðingsins, og enginn af meðferðarmönnum málsins hefir litið í þá fræði, sem vegfræði heitir. Beinast virðist liggja við, að álíta, að hann hefði rétt fyrir sér, og réði til hins hentugasta í máli þessu. Þetta hefir og amtsráðinu eflaust fundist, því nú þegar það í annað sinn fær málið til meðferðar, fellur meiri hluti þess (amtmaður og Einar í Nesi) inn á skoðun Siwersons, og ræður til að aðhyllast fremstu leiðina (í fyrra skiptið lá engin vegfræðingsskoðun fyrir ráðinu). Með þessu viðurkennir amtsráðið, að það standi Siwerson eigi ofar í vegfræðinni.
En nú fyrir fáum dögum kemur málið í annað sinn ofan til sýslunefndar, þar er ekki báglega ástatt, þar úir og grúir af "Ingeniörum", sem ekki eru einungis jafnsnjallir herra Siwerson, heldur svo langt fyrir ofan hann, að í skýrslu hans og áliti er ekki heil brú eftir að þeir hafa meðhöndlað það. Að vísu höfðu þeir ekkert mælt af vegarsvæðunum, ekkert grafið, ekkert reiknað, en það var talað allt í rot. Já það er einkennilegt að sömu sýslunefndarmennirnir, sem 1888 lofuðu mest og best miðleiðina, og töldu henni, bæði í ræðu og riti, flesta kosti fram yfir ystu og fremstu leiðina, þeir kveða nú með einum rómi þá skoðun sína niður, því enginn þeirra vildi nú nýta hana lengur, en samþykja nú allir ystu leiðina, enda er hún nærri 6000 metr. lengri en miðleiðin, og mörgum þúsundum kr. dýrari, hvernig gat þá komið til skoðunar, að aðhyllast þá leið, sem var nærri 1½ mílu styttri, og sparaði marga tugi þúsunda króna, eins og fremsta leiðin gjörir? Hver dirfist nú að segja að Ísland sé fátækt land? Hver dirfist að segja, að hentugra sé að fara stuttan veg en langan, ódýran veg en dýran? Hver dirfist að segja, að skriður séu vegum hættulegar, eða að vatnsföll geti unnið á vegum? Hver dirfist að segja, að Ísland eigi nú engan "Ingeniör"?
III.
Það er svo að sjá, sem sýslunefndarmenn hafi viljað forðast, að vera nokkursstaðar nálægt skoðunum Siwersons, og því hafi þeir yfirgefið hinn fyrri dýrling sinn, miðleiðina, og hörfað út að sjó. (Skaði að engin tillaga lá fyrir um, að láta aðalpóstleiðina liggja út á Skagastr) - Ég játa mig vankunnandi mjög í fræði "Ingeniöra", og voga mér því ekki að rengja eða lítilsvirða álit og áætlanir þessa vegfræðings, og það hefði ég aldrei lagt út í, þó hann hefði ráðið til að aðhyllast aðra leið en Svínavatnsleiðina (fremstu leið), því ég álít sjálfsagt að virða og fara eftir skoðunum þeirra manna, sem hafa full skilyrði fyrir þekkingu sinni, reynslu og lærdómi, meðan skoðanir þeirra eru með öllu óhraktar. En það vill svo vel til, að löngu áður en nokkur vegfræðingur var útnefndur til að fjalla um þetta mál, hafði ég látið í ljósi álit mitt um þessar vegastefnur, og blandast þá eigi hugur um að fremsta leiðin væri alls yfir hentugust. Þessi skoðun mín, sem að eins var byggð á margra ára kunnugleik á vegarsvæðinu og heilbrigðu skyni, en engri vegfærði stendur eigi aðeins óveikluð enn þá, heldur hefur hún nú styrkst ósegjanlega mikið við álit Siwersons. - Ég skammast mín ekki fyrir að segja það, að ég treysti lækninum betur til að tala um og ráðleggja heilt þeim, sem vanheilir eru, en þó 10 eða 11 ólæknisfróðir menn vildu fara og gefa sig við því. Ég treysti lögfróðum manni betur til að gjöra rétt úrslit á "jurdisku" efni, sem menn hafa deilt um, en 10-11 ólögfróðum mönnum.
Af því ég var og er svona mikið barn í vegfræðinni, gat ég ekki fylgst með meðnefndarmönnum mínum í sýslunefndinni, né gefið atkvæði mitt með hinum afar stóra vinkilkrók aðalpóstleiðarinnar út á Blönduós og fram allan Langadal, og sem þá byrjar annan vinkilinn fram við ármót Blöndu og Svartár upp að Hlíð að ógleymdum brattanum, skriðunum, landbrotunum af Blöndu, og hinum voðalegu ísbunkum í Hlíðarskriðu, sem ýkjulaust mestallan veturinn er mjög hættuleg leið, og mun sífellt verða, hversu breiður vegur sem þar kæmi, og sem Blanda gín neðanundir.
Ég man ekki allar þær gullvægu ástæður, sem þessi meiri hluti sýslunefndarinnar færði fyrir ystu leiðar áliti sínu; en það man ég, að á þögn Siwersons um Svartá voru allir hattar hengdir. Svartá á að vera jafnaðarlega mikill farartálmi - Ég leyfi mér að segja, að af öllum sýslunefndarmönnunum, er ég kunnugastur Svartá, og hefi án efa oftast átt yfir hana að sækja af þeim öllum. Eins og ég hefi áður lýst yfir, varð hún mér á 10 árum alls einu sinni að faratálma fyrir vaxtar sakir í vorleysingum. Hvaða vatnsfall, já, hvaða lækur á Íslandi, getur ekki orðið ófær, án þess hann sé kallaður verulegur farartálmi. Úr Svartá rennur mjög fljótt, og aldrei hef ég heyrt þess getið, að hún hafi verið ófær dægri lengur. Að Svartá liggja flatar eyrar, en hvergi í útdalnum háir bakkar til fyrirstöðu að komast að henni. - Svartá leggur yfir höfuð seint vegna kuldavermisvatns, sem í henni er, svo hún er reið lengi vetrar á auðu. Þegar hún ryður sig, hreinryður hún sig vanalega, og aldrei hefi ég séð ruðning til fyrirstöðu á eyrunum. - Það er undarlegt, ef Svartá er mikill farartálmi, að ég skyldi aldrei á 10 árum heyra þess getið, að menn tefðust við hana, en hún er auðvitað engin undantekning allra vatnsfalla frá að geta orðið ófær. Auk margra vaða á Svartá í úrdalnum, er fyrir utan og neðan bæinn Fjós, sem er rétt fyrir sunnan Gilsneiðing (póstleiðina upp á Vatnsskarð), ágætis vað; þar rétt hjá er lygn hylur, sem engum efa er bundið, að sé góður ferjuhylur, og sem oft er á ís, þó áin sé auð annarsstaðar. Ef nú póstur eða ferðamenn einhvern tíma skyldu teppast við Svartá utar, sýnist enginn ógjörningur, en örlítill krókur að fara yfir hana þarna; já ólíklegt að menn kysu það ekki heldur, en að klöngrast Hlíðarskriðu með lífshættu fyrir sig og hesta, og þá eiga eftir Hlíðará, sem sannast sagt er æði mikið hættulegra vatnsfall þó minni sé en Svartá. Það má reiða sig á, að sé Svartá ófær fyrir vorleysingar, er Hlíðará það einnig; og við Hlíðará tepptist oft bæði ég og messufólk; við Hlíðará tepptist póstur að mér ásjáandi, en aldrei við Svartá. Eigi póstleiðin að liggja utan Langadal, verðu brú nauðsynleg á Hlíðará, en getur sparast fyrst um sinn á Svartá. Enda hafa Bólstaðarhlíðarhreppsmenn oft sótt um fé af sýsluvegasjóði til að brúa Hlíðará, og var eitt sinn byrjað á að efna til hennar en við það situr, því að féð fékkst þá ekki. Hjá Hlíðará er hægt að komast ef fremsta leiðin væri tekin, að eins yrði þá að flytja bréfhirðinguna að Botnastöðum, þar sem hún var, eða Gili. - Þess er vert að geta, að fyrir utan mig og 2 menn aðra í sýslunefndinni, sem vel að merkja báðir eru Langdælir, eru allir aðrir ókunnugir Svartá og Hlíðará, margir þeirra hafa aldrei litið þær augum, og jafnvel eigi Blöndu heldur, sumir hafa örsjaldan, sumir aldrei komið að henni. Svona er nú þessi aðalsnagi tryggur.
En hvað gjöra nú þessir ystu leiðarmenn úr Laxá (ytri)? Svar: Ekkert, og þó er hún í sannleika engu minni torfæra en Svartá. Hún kemur úr Laxárvatni, og liggur leiðin yfir hana neðarlega nálægt sjó, á svo grýttu og vondu vaði, að annað eins vað þekki ég hvergi á Svartá, önnur vaðnefna er nokkuð neðar, djúpt með kaststreng í; enda meðan Laxárvatn er að leysa á vorin, er hún tíðum ófær, þar er ekki um marga vegi að velja til yfirferðar, nema að setja á hana brú, rúma brú, þriðju nauðsynlegu brúna til að geta notað ystu leiðina nokkurn veginn hættulaust, og auka kostnaðinn enn um nokkrar þús. króna, nei, enn betur, brú sjálfsagt nauðsynlega yfir Gunnsteinsstaða Síkið (þ. e. kvísl af Blöndu, sem liggur á veginum, djúp og tíðum ófær) það er fjórða brúin, og í fimmta lagi mundi vera oft þörf á brú yfir Auðólfsstaðaá, sem kemur ofan á þveran veginn ofan af Laxárdal.
Um þessa ystu leið hefur herra Siwerson eðlilega talað minnst í skýrslu sinni, af þeirri ástæðu, að honum hefur ekki komið til hugar, að vér yrðum þau börn að kjósa hana, þegar vegamunurinn og aðrir ókostir hennar væru oss kunnir. Enda er þessi ysta leið þannig til komin í fyrstu, að uppástungumaður hennar 1888 ætlaði eins og að ganga fram af mönnum með fjarstæðu sinni, hafandi ekki minnstu von um, að nokkur yrði með sér, en honum sjálfum var hún persónulega þægilegust.

Á fremstu leiðinni er einnig Laxá (fremri), sem kemur úr Svínavatni, segja mótstöðumennirnir. Það er satt, en vaðið á henni er við ós hennar, áður en nokkur sitra rennur í hana, vaðið er lygnt sem pollur, grunnt með sléttum malarbotni, að tala þar um brú er hlægilegt fyrir Íslendinga enn sem stendur.
Annar hattasnagi mótstöðumannanna er, að mig minnir, mismunurinn á brúarkostnaðinum yfir Blöndu útfrá og framfrá. Jú, eftir áætlun Siwersons, er brúin framfrá rúmum 8.000 kr. dýrari en útfrá, en skyldu ekki þær 8.000 kr. nást oftar en einu sinni af mismun vegakostnaðarins? 2)
Þá á vegfræðingurinn ekki að hafa reiknað neitt út, hversu miklu dýrara væri að koma brúarefninu fram eftir en uppá klifinn. Þetta er auðvitað sagt út í hött; en hafi hann gjört áætlun um hvað kostaði að koma brúarefninu fram á klif, þá hefir hann án efa gjört áætlun um kostnaðinn að koma því lengra á leið. Hvorugt er ástæða til að tortryggja - Af Blönduós á að vera í flestum vetrum ómögulegt að aka þungu æki fram í Blöndudal; en sannleikurinn er, að af Ósnum er oft örðugt að aka einmitt upp að klifjum, en úr því þangað er komið, kemur víst enginn sá vetur fyrir, að eigi sé alhægt að aka fram í Blöndudal - og Svartárdal, annaðhvort eftir Blöndu sjálfri, eða flóunum og vötnunum á Ásunum. Reyndar hefir hengibrúarefni aldrei verið ekið þessa leið, en sjálfur hefi ég látið aka þessa leið 1000 pundum korns í einu hingað á heimili mitt, á einum hesti, og gekk það ágætlega vel. Öðru sinni lét ég aka af Ósnum brúartrjánum í hina fyrirhuguðu Hlíðarárbrú. Efninu í Svínavatnskirkju var ekið þessa leið, og fjöldanum af stærstu trjánum í Bólstaðarhlíðarkirkju var ekið af Ósnum. Þetta finnst mér vera fremur til greina takandi, en bláber reynslulaus orð hinna móthverfu.
Þá er einn kostur enn á fremstu leiðinni, sem hvorug hinna á til, en það er Svínavatn, sem er stór hluti leiðarinnar að Blöndu. Flesta vetra liggur það megnið af vetrinum undir ís, og vanalega glærir ísar frá báðum endum þess. Er nú annað eðlilegra, en að bæði póstur og ferðamenn milli fjórðunga, fari Svínavatn að vetrinum, hvar svo sem aðalpóstleiðin liggur um sýsluna? Ég segi nei; enda hefir núverandi póstur sagt, að hann óneyddur færi eigi aðra leið; en að fleygja mörgum tugum þúsunda í veg, sem ekki er farinn af þeim, sem hann er ætlaður, er ekki við vort hæfi. - Ennfremur má geta þess, er um kostnaðinn er að ræða, að 1888 var sú hugsun sýslunefndarinnar, að láta veginn víða liggja eftir fjallshlíðunum í Langadal. Siwerson vegfræðing kom eigi einu sinni til hugar að mæla þar, heldur mældi hann niðri í dalnum á láglendinu. Og með því að nú minnast þessir menn ekkert á fjallshlíðaveg framar, er að sjá, sem þeir álíti þetta þó eigi öðru jafnvitlaust hjá vegfræðingnum, en við þetta eykst kostnaðurinn að stórum mun, því vegurinn liggur þá víða yfir blómlega flæðiengi, sem landssjóður verður fyrst að kaupa samkvæmt lögunum undir veginn, og ég efast ekki um, að Laugdælum þykir hver faðmurinn úr þessum engjum sínum mikils virði sem von er. Á fremstu leiðinni eru að vísu engjar sumsstaðar, en þær eru lítilsvirði í samanburði við Langadalsflæðin, og víða eru á þeirri leið aðeins óræktar og móar, mýrar, holt og melar, sem ekkert verð er í.
Þegar mótstöðumenn mínir í máli þessu í sýslunefndinni eru gjörtæmdir af sennilegum (ekki sönnum) ástæðum fyrir áliti sínu, snúa þeir að lögunum sjálfum, að sýna, hversu óhæfilegt sé að hugsa til akvega eða 6 álna breiðra vega hér hjá oss, og ráða til að leggja að eins klyfjagötur. Ég veit reyndar eigi hverjum þeir félagar mínir ætla að fara eftir þessari ráðleggingu, hvort það er hugsunin, að landshöfðinginn einn breyti nú þegar lögunum og fyrirskipi að leggja klyfjagötur í stað 6 álna breiðra vega eða hvort Húnavatnssýsla ein sé óhæf fyrir akvegi. Yfir höfuð kemur þessi tillaga, eins og nú stendur, eins og úr leggnum. Við höfum eitt sinn lög, sem við eigum að hlýða þar til þeim er breytt. Sök sér hefði verið, ef klyfjagatnafýsnin var ómótstríðanleg, að landshöfðinginn hefði verið beðinn um, að fresta því, að ákveða aðalpóstleiðina, þar til alþing væri búið að breyta lögunum og koma klyfjagötunni á. En séu nú klyfjagötur hentugri en 6 álna breiðir vegir, mega þær þá ekki liggja þar, sem þær eru hentugastar til umferða? Má þá ekki eins leggja klyfjagötu meðfram Svínavatni eins og fram og út Langadal, eru ekki sömu kostir og ókostir beggja leiðanna hvort heldur er klyfjavegur eða akvegur?
Þó nú svo ólíklega kunni að fara, að þessi ysta leið verði gjörð að aðalpóstleið, er ólíklegt að alþing verði fúst til að fleygja peningum alls landsins þannig á glæður, úr því það væri þvert ofan í tillögu amtsráðs og vegfróðra manna (sbr. 6. gr. laga nr. 25, 10. nóv. 1887), sem líkindi væru til að ættu að hafa meira að segja, en meiri hluti einnar sýslunefndar, sem er sannarlega ekki vegfróð; og suma norðanþingmenn hefi ég heyrt segja, að þó vegurinn yrði lagður ofan á Langadal yfir hjá Tindum (hvað þá út á Bl. ós), mundu þeir aldrei fara hann. En yrði ysta leiðin ofan á, þætti mér sjálfsagt, að fleiri sýslufélög landsins vildu fá samskonar aðalpóstleið. T. d. ætti þá aðalpóstleiðin í Skagafjarðarsýslu að leggjast út á Sauðárkrók, já fyrir því væru ótal ástæður gildari en fyrir Blönduósleiðinni hér. Eins ætti þá að leggja aðalpóstleiðina um Þingeyjarsýslu út á Húsavík, en ekki fram um Staði o. s. frv. Út á Húsavík og Sauðárkrók er góður vegur, og sömuleiðis þaðan og norður á við, svo tiltölulega væri lítill kostnaður að koma þeim krókum á, ef nauðsynin krefði; en það er svo merkilegt, að til þess að geta fengið nær 1½ mílu krók á aðalpóstleiðina í Húnavatnssýslu þarf að búa til alveg spánýjan veg sem kostar marga tugi þús króna eftir hinni afarlöngu sveit Langadalnum, og síðan eiga undir von, hvort hann verður farinn eða ekki, og varanlegleikinn mjög vafasamur vegna landslagsins. Það er og einkennilegt að aðalpóstleiðin frá Reykjavík til Akureyrar, og yfir höfuð aðalpóstleiðir landsins, liggja svo krókalaust sem frekast má, svo komist þessi ysta leið hér á, er það eini verulegi krókurinn, og þó er til því nær bein leið nálægt miðbiki sýslunnar, hafandi ótal sannaða kosti framyfir vinklaleiðina.
Á sýslunefndarfundinum 1888 var miðleiðinni talið eitt með öðru það til gildis, að hún lægi um miðja sýslu, nú er það enginn kostur lengur hjá sömu mönnunum, en álitið aftur á móti hentugast að þræða jaðra sýslunnar með ókleyfum kostnaði og þvert ofan í vilja almennings og pósts. Og viti menn, hún er reynd þessi ysta leið, því hér um árið var hún gjörð að aðalpóstleið, en hvað skeði? Póstur heimtaði launabót, almenningur, nema nokkrir Langdælir og Ósverjar óánægðir, og leiðin á næsta ári afmáð sem óhafandi. Á þessu eina ári komst þáverandi póstur tvisvar í lífshættu í ytri Laxá, (fyrir framan Ósinn) sem nú er eigi nefnd sem farartálmi. Og nú væri fróðlegt að fá að vita, til hvers aukapóstar eru settir; mun það ekki einmitt til þess að fara króknana af aðalpóstleiðinni svo aðalpósturinn þurfi ekki að tefja ferðina á því, en geti haldið sem beinast og greiðast.
Yfir höfuð er pósturinn og ferðamennirnir, sem þessi vegur er ætlaður, búnir að sýna, hvar vegurinn á að vera og á ekki að vera, með því að umferð þeirra er öll yfir fremstu leiðina, jafnvel þó nú sé vond yfirferðar, þegar Svínavatn ekki er á ís, en engin eftir hinum leiðunum, síst hinni ystu. Er þetta ekki sama, sem þjóðin, er notar, segi: "Ég vil hvergi hafa aðalpóstleiðina um austurhluta Húnavatnssýslu annarsstaðar en meðfram Svínavatni"? Og er þá ekki hart að segja við hana: "Þú hefur ekkert vit á þessu, þér er miklu betra að krækja um 1½ mílu út að sjó, og þó hálærður vegfræðingur, sem þú kostaðir til 3.000 króna, sé á þínu máli, þá er það allt eintómur misskilningur; þó þú á fremstu leiðinni hafir að velja um gott vað, ferju og ágætt brúarstæði á Blöndu allt hvað hjá öðru, þó leiðin sé styst, ódýrust, varanlegust og eðlilegust, þá er þetta allt fásinna móts við" -- ja móts við hvað? Það virðist varla annað svar til en "að fá að koma á Blönduós".
Það er ekki óeðlilegt, þó sumir ókunnugir héldu að ég berðist í þessa stefnu af því, að ég sé sjálfur í Svínavatnshreppi, og vildi halda mínum hreppi fram; en því til sönnunar, að það sé allt annað en hreppapólitík, sem ræður skoðun minni, læt ég þess getið, að meðan ég var prestur á Bergsstöðum, og hafði enga hugmynd um, að ég yrði í Svínavatnshreppi, eða að veglögunum yrði breytt, lét ég einmitt þessa aðalskoðun í ljósi út af þar til gefnu efni í ísl. blaði; og enn fremur vil ég segja ókunnugum það, að þó aðalpóstleiðin yrði lögð meðfram Svínavatni, hefir sveit mín svo sem ekkert gagn af þeim vegi, að eins örfáir bæir gætu notað hann til kirkju sinnar að Svínavatni á stuttum kafla.
Í febrúar 1891.
1) Hversu margar mundi mega telja eftir nokkur ár? Eigi ólíklegt að þá lægi vegurinn eigi lengur yfir þær, heldur undir þeim, þar sem hann verður að liggja við rætur á snarbröttu fjalli.
2) Ef maður einblínir í þessu máli aðeins á brú yfir Blöndu, og álítur það einu og fyrstu nauðsynina, sem að mínu áliti er alls ekki fyrsta skilyrðið, þar sem 3 lögferjur eru á ánni, þá á maður að einblína á hana þar, sem hún nær best tilgangi sínum, jafnvel þó hún yrði þar nokkuð dýrari, eins og með veginn yfir höfuð, hvað þá þegar gagnseminni sameinast afar mikill peningasparnaður í heild sinni.


Ísafold, 17. júní 1891, 18. árg., 48. tbl., forsíða:
Hér svarar Tryggvi Gunnarsson grein Þorláks Guðmundssonar varðandi brúargæslu og brúargjald á Ölfusárbrú en þeir eru ekki alveg sammála um það mál.

Brúargæsla og brúargjald.
til herra Þorláks Guðmundssonar
frá Tryggva Gunnarssyni
I.
Þú hefir tekið til íhugunar í Ísafold XVIII. 33-34 það sem ég skrifaði í sama blaði um "brúargæslu, vegi og brúargjald". Málefnið er mikilsvert, og getur orðið því til gagns, að það sé skoðað frá tveimur hliðum; auk þess þykir mér vænt um að tala við þig um "landsins gagn og nauðsynjar", eins og í gamla daga, þegar við vorum saman á þingi; við vorum þá oftast á líku máli, og svo fer enn, vona ég, þegar þú hefir hugsað málið betur. Þó þú segist hafa lesið grein mína aftur og aftur, þá verður þú enn að taka hana, eða málefnið til íhugunar.
Það getur verið, að þér eða öðrum lánist í bráð, að fá meiri hluta manna til að álíta brúargjald óþarft og óhentugt; en að þið fáið menn til að álíta nákvæma og duglega gæslu á öllum stærri brúm ónauðsynlega, því trúi ég ekki fyr en ég tek á því. Þetta síðara er aðalatriðið; því ef ekki er haft stöðugt eftirlit, einkum á hengibrúm og járnbrúm, þá endast þær meir en helmingi skemur, og eykur það bæði feykilega útgjöld landssjóðs og getur leitt til þess, að áhugi sá, sem nú er vaknaður til brúargjörða, hverfi aftur. Þetta skilst mönnum fyr eður síðar. Þegar svo langt er komið, að menn eru orðnir sannfærðir um nauðsyn brúargæslunnar, þá leið það af sjálfu sér, að ákveða þarf, hvar taka á kostnaðinn til hennar og viðhalds brúarinnar, og er þá um tvennt að velja, annaðhvort að taka hann af landssjóði eða brúarsjóði, sem myndast af fargjaldi þeirra, er yfir brúna fara. Ég álít það síðarnefnda hentugra og eðlilegra.
Gólfið í brúnni slitnar við það að gengið er á því, naglarnir og uppihöldin slitna í öllum samskeytum við hristinginn af umferðinni, farfinn dettur af, svo járnið stendur bert eftir, og ýmsir fara óvarlega yfir brúna af drykkjuskap, gapaskap og skeytingarleysi. Allt þetta orsakar umferðin, og því segi ég, að það sé eðlilegt, að þeir, sem yfir brúna fara, borgi fyrir það slit og þá gæslu, sem leiðir af yfirferðinni; enda er það tilvinnandi fyrir þá, þegar gætt er að því gagni, sem þeir hafa af notkun brúarinnar.
Hentugra, álít ég að vegfarendur greiði kostnaðinn, en landssjóður ekki, vegna þess, að þá á hann hægra með að leggja styrk til nýrra brúa, án þess að leggja nú gjöld á landsmenn, þegar hann er laus við gjöld til gæslu og viðhalds á þeim brúm, sem lagðar eru.
Það er ekki þér líkt, að ganga fram hjá reynslunni og byggja á hugboði, eins og sumir hinna yngri manna gjöra nú um stundir; en þú verður þó að játa það, að þú hefir ekki reynslu fyrir þér, heldur hugboð í þessu efni. Þú hefir fáar stórbrýr séð, og því síður þekkir þú, hvað til þeirrar framtíðar heyrir, eður hve mikill endingarmunur er á vel hirtri og vanhirtri brú; og svo er um flesta Íslendinga. Til þessa tíma hafa fáar brýr verið til á Íslandi, og lítil reynsla fengin fyrir því, hve lengi þær endast. Þú verður því, svo framarlega sem þú ekki villt fyrirlíta þekking og reynslu, að byggja á venju og reynslu annarra þjóða, sem brýr leggja og brýr hafa haft.
Ég held að fáir núlifandi Íslendingar hafi ferðast meira en ég, þegar lagt er saman það, sem ég hef farið um landið, þvert og endilangt, og svo mun um önnur lönd. Ég hef ekki farið þetta með aftur augun, heldur hef ég veitt því eftirtekt, sem fyrir augun hefir borið, og ég hefi séð það, að meðferð á vegum á Íslandi, er svo, bæði af náttúrunnar og manna völdum, að umsjón og viðhald er nauðsynlegt, og ég hef séð erlendis, að engum kemur til hugar, að láta vegi, brýr eða byggingar vera án gæslu.
Margir hafa borið það fram, bæði á þingi og annarsstaðar, að sanngjarnt væri, að Árnesingar og Rangvellingar fengju brú á kostnað landssjóðs, fyrir það, að þeir hefðu ekkert gagn af póstskipaferðunum í samanburði við menn í öðrum fjórðungum landsins, og þú höggur í sama farið í grein þinni. Þó ég sé þessu ekki í alla staði samþykkur, þá skal ég þó í bráð fallast á, að rétt sé, að suð-austursýslur landsins fái brú, á móti því, að menn austan-, norðan-, og vestanlands hafa gufuskipaferðir. En þá verður þú að halda setningunni með mér til enda, en ekki hætta á miðri leið.
Austfirðingar, norðlendingar og vestfirðingar hafa fengið gufuskip; þetta er satt; en gættu þess, að notkun þess er ekki gefins; ef þeir senda bréf, böggul eða vörur, eða fara sjálfir til næstu hafnar, þá verða þeir að greiða flutningsgjald fyrir það, þegar þeir senda hest eða klyfjar eða fara sjálfir yfir brúna, svo þessi marg-upptekna samlíking á brú og gufuskipi er til stuðnings mínu máli en ekki þínu.
En nú erum við að nálægjast merg málsins, þegar um framfarir er að ræða, og það er: að flestar verklegar framfarir heimsins byggjast ekki á því, að menn njóti þeirra gefins, heldur á því, að þeir sem nota þær borgi fyrir það, svo þær beri sig sjálfar að öllu eða miklu leyti. Stjórnendur landa og stórfélög leggja járnbrautir og fréttaþræði, og smíða stór skip, ásamt mörgu, er til framfara heyrir fyrir þjóðirnar, en því nær allt þetta er gert í þeim tilgangi, að það skuli geta svarað kostnaði fyrr eður síðar. Í einu orði, ríkin og félögin segja við einstaklinginn: "Ég skal greiða för þína, og gjöra ýmsar framfarir þér til léttis, en þú verður að borga fyrir það, ef þú vilt nota það". Ég get ekki séð nokkuð í móti því, að vér semjum okkur að sið annarra þjóða í líku efni.
Ég veit að sönnu, að þú getur minnt mig á, að margar brýr séu erlendis, sem ekkert kostar að fara yfir. Þetta er satt; en þó borga farþegar fargjald fyrir yfirferð af meira en helmingi af öllum þeim brúm, sem til eru, þegar járnbrautarbrýr eru meðtaldar.
Brú er á Jótlandi yfir Limafjörð, sem allir þurfa að borga gjald fyrir, er yfir fara, og í Þýskalandi eru nokkrar brýr, sem greiða þarf gjald fyrir, ef yfir er farið, og svona er víðar.
Ef þú segir það í alvöru, að ekki veiti af lögregluþjónum á hverja brú til að verja þær fyrir illri meðferð, þá hlýtur þú að álíta, að umferðin um brýrnar verði skaðlega skeytingarlaus, og þá getur þú ekki lengi verið mótfallinn brúargæslu, án þess að lenda í mótsögn.
Um kostnað við brúargæsluna höfum við mjög ólíka skoðun. Þú álítur brúargjald þunga byrði á núlifandi mönnum og eftirkomendunum; en ég álít góða brúargæslu og daglegt viðhald stóran ágóða fyrir hvorutveggju, og þó einkum fyrir eftirkomendurna: ágóðinn kemur fram í því, að brýrnar endast miklu lengur, svo þegar við kveðjum, þá verður hægt að afhenda eftirkomendunum góðar brýr, í staðinn fyrir ónýtar brýr, ef þær verða gæslulausar.
Þegar þú ert að fárast yfir kostnaðinum, þá getur þú ekki þess, að það fé, sem gengur til brúargæslunnar, verður kyrrt í landinu sjálfu. Það eru ekki útlendingar sem sjúga það fé út úr landinu; og mikið er það, ef slíkt ætti að vera tilfinnanlegt fyrir alla þá, sem yfir brúna fara, að greiða það gjald, sem ein fjölskylda landsins eigin börnum þarf sér til framfæris, þegar hún aftur á móti daglega lítur eftir því, að brúin sé í góðu standi til yfirferðar og starfar að betri ending brúarinnar.
Annað er það, sem við höfum alveg gagnstæða skoðun á. Þú segir; "Aðalástæðan á móti tollinum er sú, að landið er stórt og strjálbyggt og árnar margar, sem brúa þarf." Ég segi: af því landið er stórt og strjálbyggt og árnar margar, sem brúa þarf, þá verður landssjóði um megn án nýrra álaga á landsmenn að leggja allar þessar brýr og viðhalda þeim, nema létt sé undir með honum , að minnsta kosti hvað gæslu og viðhald snertir, með gjaldi því, er þeir greiða, sem yfir brýrnar fara.
Nú verða aðrir að dæma um þetta milli okkar.
Til skýringar vil ég setja hér eitt dæmi.
Að 30 árum liðnum hafa komið inn 40.000 kr. í fargjöldum. Þar af er meiri hlutinn eyddur til gæslu og viðhalds brúarinnar, en með sömu meðferð getur hún staðið önnur 30 ár án aðalaðgjörðar, og allir þeir sem greitt hafa gjaldið standa jafnréttir. Önnur brú jafngóð hefur staðið í 30 ár án daglegrar gæslu og án brúargjalds; þá er landssjóður búinn að greiða í aðgjörðir 10.000 kr. og brúin alveg ónýt, svo þá þarf að endurreisa hana. Dæmi þessi má setja upp á marga vegu, en ég held að þessi ágiskan sé ekki fjarri sanni.
Ég hef hér að framan minna talað um brúargæslu en brúargjald; orsökin er sú, að ég tel sjálfsagt, að flestir skynsamir hirðumenn álíti brúargæslu ómissandi, einkum á járnbrautum og hengibrúm. Það vill svo vel til, að flestir menn hafa veitt því eftirtekt, hve járn ryðgar fljótt, og verður ónýtt þegar það liggur úti í vætu, og hve nauðsynlegt það er, að vernda járnið með farva eða fitu fyrir verkunum loftsins. Það er ekki einungis, að járn verður ónýtt af ryði á fáum árum, heldur fúnar og tré á stuttum tíma, ef það er ekki málað eður tjargað. Í brúnni á Ölvesá verða meira en 100 tylftir af plönkum; það kostar líka peninga, ef kaupa þarf nýtt gólf vegna fúa, eftir fá ár.
Þú kallar brúargjaldið "nýjar álögur á sérstakar sveitir". Þetta er misskilningur. Brúargjaldið kemur í stað ferjutollana, svo þeir sem áður fóru yfir Ölvesá á ferju, greiða nú minna en áður, þegar þeir fara yfir ána á brúnni, og svo bætist þar við, að þeir komast allt af tafarlaust leiðar sinnar og eiga hvorki hesta eða varning á hættu.
Að allir þurfi að leggja til löggæsluvaldsins í landinu, að tiltölu réttri, er eðlilegt; því lagaverndin er jöfn fyrir alla í þjóðfélaginu. Friðsemdarmennirnir "Hallur á Horni og Lýður á Langanesi" sitja báðir jafnt í skjóli laganna; lögin hindra óróaseggina frá því að raska friði þeirra; lögin eru öllum jöfn; en brúin á Ölvesá verður þung á vögnunum til að flytja hana um allt land þegar einhver vill komast yfir áarsprænu. Dæmi þitt á því ekki vel við, þó það sé skemmtilegt.
Þú talar um "að óþekkt sé að menn láti gæslumenn fylgja þó þeir láni grip, hús eða skip" og ef "refar ásækja fé þitt" að "landssjóður græði ekki á því, þó menn séu settir í hegningarhúsið", að brúarvörðurinn, ef hann hefir veitingar "rýi á tvær hendur úr vasa þjóðarinnar", að "hótel eigi að vera á Þingvelli og við Geysi en muni verða siðum spillandi, ef það standi við Ölvesábrú", að "það sé ekki skylda vor að ganga berir fyrir eftirkomandi kynslóðum og skilja blóðið eftir í sporunum", sem sé fyrir brúargjaldið!!, "að ef engin sýnileg ráð væru þekkt til þess, að brúa ár, þá væri sjálfsagt að landssjóður kostaði ferjurnar að öllu leyti á póstvegum og fjallvegum".
Ég skal að eins geta þess, að langur tími mun líða þar til Jökulsá á Fjöllum og í Axarfirði verður brúuð nálægt póstveginum, sömuleiðis Eyjafjarðará, Héraðsvötnin og líklega Hvítá í Borgarfirði. Væri ekki best að fara að byrja á því, að gefa mönnum á kostnað landssjóðsins ókeypis ferjur á póstvegum yfir þessar stórár?
Að öðru leyti ætla ég ekki að svara ofannefndu, til þess að flytja ekki umræðurnar út í smámuni frá aðalatriðunum, og líka vegna kunningsskapar við höfundinn; því mér finnst sumt af því nokkuð óheppilegt.
Eigum við ekki, gamli vin, að koma okkur saman um, að koma þessu yfir á prentarana, og kalla þetta eina stóra prentvillu?
Jæja, þó við getum ekki orðið sammála um það, þá gjörir það minna til; hitt er meira vert, ef okkur tekst að sannfæra menn um að, að gæsla á brúm sé ómissandi, og brúargjald sé eðlilegt hjálparmeðal til þess, að sem flestar brýr komist sem fyrst á, og að þeirra verði vel gætt.
Að endingu skal ég segja þér í allri vinsemd, að auk þess sem þig vantar reynslu með brýr, þá vantar þig þekking til að skrifa um þetta mál. Ef til vill veistu, hver byggingarmunur er á fastri brú og hengibrú, en alls ekki þekkir þú, hvernig uppihöld og ýmsir partar eru samansettir, sem mæta mestum núningi í hengibrúm, eður hversu mikið slit orsakast af miklum hristingi, eður hversu mikils það er vert, að aftra öllum óþarfa hristingi og verja járn og tré sem best fyrir áhrifum loftsins. Ég vil því ráða þér til í bróðerni, að hætta þér ekki djúpt í næstu grein, því hvað gæsluna snertir að minnsta kosti, þá hefir þú í móti þér hvern einasta mann, sem hefir grundaða þekkingu á brúarsmíði og vill landi okkar vel.


Ísafold, 24. júní 1891, 18. árg., 50. tbl., forsíða:
Jens Pálsson segir samgöngumálið vera landsins mikilvægasta framtíðarmál.

Hið mesta velferðarmál.
Landsins mikilvægasta framtíðarmál og mesta velferðarmálið, sem rætt verður á næsta þingi er án efa samgöngumálið, af því að verulegar og fljótar framfarir þjóðarinnar í dugnaði, menning og velmegun eru komnar undir bættum samgöngum fremur en öðru, sem er á valdi næsta þings. Dugandi samgöngubætur hafa beinni og fljótari áhrif á þjóðarhaginn heldur en jafnvel hin æskilegasta stjórnarskrábreyting mundi geta haft í bráðina.
Hinar allra minnstu kröfur sem gjöra má til þingsins í þessu máli eru þessar:
1. Að póstleiðum sé svo fjölgað, að engan tíma árs líði meira en mánuður milli póstferða nokkursstaðar á landinu. Það er sannarlega hneyksli, að bréfaskipti manna með póstum skuli vera því sem næst heft að sumrinu, og að heilar sýslur landsins skuli ekki geta með póstum fengið fréttir af þinginu frá því þing er að eins sett og til þingloka.
2. Að landið haldi úti að minnsta kosti gufuskipi, er stöðuglega sé í strandferðum þá mánuði ársins, er tiltækilegir þykja til þess.
Strandferðirnar sem vér höfum eru of fáar og óhagkvæmar, af því þeim ekki til hlítar hagað eftir vorum þörfum; vér þörfnumst strandferða, sem hagað sé eingöngu eftir ferða- og flutningaþörfum vorum. -
Til þess að reisa sér ekki hurðarás um öxl, gæti landið í þessu skyni tekið að eins eitt lítið gufuskip á leigu, og látið það stöðugt vera á ferðinni t. d. 7 mánuði árlega. Sé gjört ráð fyrir skipi er hafi 100 farþega rúm og beri 50 smálestir af flutningsvöru, þá kostar það (þ.e. skipið, skipahöfnin og kolin) hér um bil £ 320 (=5.760 kr.) um mánuð hvern, eða í 7 mánuði 40.320., reiknað eftir verðlagi því, sem nú er á skipaleigum og kolum erlendis.
Slíkt skip gæti miklu áorkað og verulega bætt úr hinu óþolandi samgönguleysi. Kostnaðurinn, liðugar 40.000 krónur árlega, ætti ekki að vera landssjóði ofvaxinn, því upp í hann mundu fást drjúgar tekjur bæði fyrir mannflutninga og vöruflutninga, þótt hvortveggi flutningurinn væri gjörður mun ódýrari en vér höfum átt að venjast, og svo má verja til þessa þeim 18.000 króna, sem nú er varið til þeirra strandferða, sem vér höfum átt við að búa.
3. Að landssjóður styðji að einhverju leyti þær tilraunir, sem einstakir menn eða félög gjöra til að koma upp gufubátum til umferða á einstökum flóum og fjörðum.
4. Að þingið annaðhvort breyti gagngjört hinum gildandi vegalögum, eður nemi þau úr gildi og semji önnur nú í þeirra stað.
Það hefir verið sýnt fram á það ýtarlega í Ísafold, að hin núgildandi vegalög eru yfir höfuð óhagfelld og í sumum atriðum fráleit. Aðalgalli þeirra er sá, að frumstefna þeirra er skökk. Aðalpóstvegirnir, sem liggja víðast um þver héruð, en annars yfir fjöll og firnindi og jökulsársanda, eru í lögum þessum hafðir í fyrirrúmi fyrir öðrum vegum; þá á að leggja sem akvegi og landssjóður að kosta þá. Þetta er röng stefna í lögunum; þar á þvert á móti að leggja akvegina, sem flutningsmagnið er mest, og þess vegna einnig flutningsþörfin brýnust.
Gjörum ráð fyrir, að vér mættum verja 4 til 5 milljónum króna til þess að leggja akvegi á öllum aðalpóstleiðum, og minna mundu þeir ekki kosta, þótt jökulsársandarnir í Skaptafellssýslum væru undanskildir, (en um þá mun tæpast unnt að leggja akveg, þótt til þess væri varið hundruðum milljóna króna), gjörum og ráð fyrir að aðalpóstvegirnir væru komnir upp og yrði svo við haldið með ærnum kostnaði, - samt sem áður yrðu aðflutningar bænda í flestum héruðum landsins jafn-erfiðir eftir sem áður. Í hinum gildandi vegalögum er ekki tekið tilhlýðilega til greina, hvar skór vegaleysisins kreppir óþyrmilegast að. Þess vegna þarf að breyta þeim í þá átt, að akvegir þeir, sem gjörðir verða fyrst um sinn, verði miðaðir við flutningsmagn og flutningaþörf almennings, og liggi þess vegna upp eftir héruðum frá höfnum þeim, er vöruflutningsstraumarnir að og frá landi liggja um, en sjórinn sé notaður til ferða og flutninga hvar sem því verður við komið, af því að hann er sú braut, sem ekkert kostar og aldrei þarf að gjöra við. Öðrum vegum ætti fyrst um sinn að halda við samkvæmt notkun þeirra sem reiðvegum eða lestavegum, en brúa torfærar ár eftir föngum.
5. Að þingið af ýtrasta megni stuðli að því, að málþráður verði sem fyrst lagður til Íslands.
p.t. Reykjavík 23. júní 1891.
Jens Pálsson.


Ísafold, 24. júní 1891, 18. árg., 50. tbl., bls. 199:
Hér er sagt frá þingmálafundi Kjósar- og Gullbringusýslubúa sem vilja láta setja toll á Ölfusárbrúna.

Þingmálafundur Kjósar- og Gullbringusýslubúa.
Hann var haldinn 20. þ. m., í Hafnarfirði, eftir fundarboði þingmannanna, og mjög slælega sóttur; alls 1 (einn) maður úr suðurhreppum sýslunnar, fyrir sunnan Hafnarfjörð, tveir úr Kjósarsýslu, báðir úr Mosfellssveit, 3 Seltirningar, og 12-14 úr Garða- og Bessastaðahreppum, þar á meðal Hafnarfjarðar verslunarstað, að þingmönnum meðtöldum.
.....
4. Brúartollar. Fundurinn vildi láta leggja toll á Ölfusárbrúna og allar þær stórbrýr, er gerðar kynnu að verða á landssjóðs kostnað.


Ísafold, 11. júlí 1891, 18. árg., 55. tbl., forsíða:
Þorlákur Guðmundsson andmælir Tryggva Gunnarssyni varðandi brúartoll á Ölfusárbrú og vill meina að brúin þurfi ekki fastan brúarvörð.

Enn um brúartoll.
Þó vér hvorki biðjum, né bjóðum, fáum vér oft það sem vér viljum.
Hr. Tryggvi Gunnarsson hefir í 48. tbl. Ísafoldar 17. júní þ.á. sagt, að ég verði enn að taka hina fyrri grein hans um brúargæslu til íhugunar. Ég get ekki þekkt, að ég hafi neitt gott af að lesa þessa ritgjörð hans oftar en ég er búinn, og má vera að mér takist ekki heldur að sannfæra hann.
En þó okkur ekki takist að sannfæra hvor annan um það, sem okkur hér ber á milli, þá er ekki óhugsandi, að við getum sannfært fleiri eða færri nær eða fjær um það, hvort hyggilegra sé, að setja fastan brúarvörð við Ölvesárbrúna og tolla hana, eða hafa eftirlitið lauslegt og tolla hana ekki.
Það sem okkur hér ber á milli, er ekki annað en það, að hann vill hafa lengjuna breiða, en ég við hafa hana mjóa og ná sama tilgangi, hvað endingu á brúnni við kemur. Mér hefir aldrei dottið í hug að halda því fram, að brúargæsla væri óþörf. Þvert á móti hefi ég verið honum samdóma um það, að hirða á brúm og vegum og viðhald hafi ekki verið í því lagi, sem það hefði átt að vera og vel getað verið, - án þess þó að setja fasta gæslumenn. Það eru eins miklar ástæður til að hugsa og segja, að þó nú væri sett föst brúargæsla og lagður á brúartollur, og eftir lengri eða skemmri tíma yrði það niðurstaðan, þó brúin nú ekki verði tolluð, að tolla hana og hafa fastan brúarvörð. Það hefir ólíklega verið spáð og þó ræst. Og það mun samkvæmara framfarastefnu tímans, að gera allar samgöngur sem léttastar og greiðastar.
Að gólfið í brúnni slitni o. fl., verður óumflýjanlegt, úr því að hún er gerð til almennra afnota, og fúnaði jafnt þó engin skepna stigi fæti á hana, og enginn brúarvörður getur varnað því.
Það getur þó ekki verið hugsunin, að brúarvörðurinn eigi að teyma undir hverjum manni.
Nú vita það allir, að einn maðurinn fer harðara en annar, án þess að sagt verði að hann fari ógætilega, einn hesturinn er harðari í sporum en annar, hvort sem honum er riðið eða hann er rekinn eða hann er teymdur. Færi nú brúarvörður að gerast mjög smámunalegur í þessu, mundi hann fljótt verða óvinsæll, og staðan yrði honum allt annað en þægileg.
Til að mála brúna, sjá allir að ekki þarf fastan mann, því ekki getur komið til þess, hvernig sem á stendur, að mála hana oftar en tvisvar á sumri, enda væri tilgangslaust að gera það á vetrum. Þó það ætti að sópa hana á hverjum degi og þvo hana á hverju laugardagskvöldi, þá gæti bóndinn á Selfossi séð um það.
Við göngum nú báðir jafnt fram hjá reynslunni í þessu efni - þar sem þetta er nú fyrsta brú í sinni röð, sem lögð er hér á landi. Hefði Ölvesá og Þjórsá báðar verið brúaðar undir eins, svo verið settur fastur brúarvörður við aðra, en hinnar gætt lauslega, þá væri það fyrst eftir 10 ár eða lengri tíma, að sjá hefði mátt, hver munurinn var. Hann vill byggja allt á erlendri reynslu. Við því hættir mörgum, sem lengi hafa verið erlendis - og getur oft verið gott en stundum viðsjált. Við höfum marga fallega flíkina fengið bæði frá Dönum og öðrum þjóðum, en betra hefir verið að sníða margar af þeim upp, ef vel átti að fara.
Ekki skal ég gera lítið úr verklegri þekkingu hans, reynsluvísindum og ferðafrægð, og kemur honum nú allt þetta í góðar þarfir, og getur þurft á öllu því að halda, áður þessu verki sé lokið. Ég vildi að hann hefði bæði heiður og hag af brúarsmíðinu. Verði brúin traust gerð, verður það honum til sóma, og er hann þá líka vel að því kominn, þó hann hefði hag af samningnum.
Ein brú, allt svo góður gripur hún er fyrir austursýslurnar, vegur lítið á móti þeim þægindum, sem gufuskipaferðirnar veita þeim, er þær geta notað, þó að brúin sé ótolluð og fargjald verði að greiða fyrir menn og muni, sem með gufuskipum er flutt.
Hann játar það, að í öllum löndum séu margar brýr, sem ekki séu tollaðar, því má þá ekki eins taka það sér til fyrirmyndar til að byrja með hér?
Það er fullkomin alvara mín, að ekki veiti af að hafa lögregluþjón við hvorn brúarsporð. Hann segir sjálfur, að svo sé það í öðrum löndum, og hann vill steypa þetta allt í erlendu móti, svo það eru í rauninni hans orð, en ekki mín.
En svo eru ástæður mínar fyrir, að þessa þyrfti hér, með öllu óhraktar, ef brot ættu sér stað og sektirnar ættu að nást. En nú sannfærist ég æ betur og betur um, að brot í þessu efni vart munu eiga sér stað, því svo viturlega mun fyrir séð, að brúin ekki sé of breið, og handriðin ekki of há, svo hún leyfir ekki að þar sé dansað eða farið í kappreið. Ég segi því enn sem fyr, að brúin mun best gæta sín sjálf, hvað það atriði snertir.
Þá að féð verði kyrrt í landinu, vil ég ekki búa til ný embætti að óþörfu einungis handa einni fjölskyldu til að lifa á, enda er nú á tímum engin trygging fyrir því, að menn ekki fari af landi burt með féð, sem þeir hafa grætt á feitum embættum eða á annan hátt, eins og selstöðukaupmenn.
Við erum nú að vísu vanir því, að verða að taka fé úr vasa margra barnanna, og leggja einni fjölskyldu; en ekki er ráð að fjölga eymdum vorum í því efni.
Töludæmi hans er, eins og hann sjálfur játar, að það má setja slík dæmi á marga vegu. Það má eins vel segja, meðan að alla reynslu vantar hér í þessu efni, að brú, sem staðið hefir í 30 ár, haft fastan brúarvörð og búið er að kosta til beinlínis í laun, auk viðhalds, 30-40.000 kr., sé eða verði ekki neitt betri en önnur jafngömul, sem ekki hefir haft nema lauslegt eftirlit og ekki hefir verið til kostað nema 6.000 kr. eða 200 kr. á ári.
Eins og brýr og vegir ekki verða fluttir um allt land, eins eru hinir æðri dómstólar, að það verður að brúka þá á sínum stað. En svo eru vegir gerðir fyrir mennina, en mennirnir ekki fyrir vegina. Ef að Hallur á Horni þarf að fara yfir brúna á Ölvesá, á hann ekki að þurfa að borga brúartoll, hvort hann hefir greitt nokkuð eða ekki neitt í landssjóð. Þetta dugar ekki að mæla á hreppakvarða.
Hann hefir nú gert mér svo hægt fyrir að svara með því einungis að telja upp mest af ástæðum mínum. Þetta er nú líklega gert af góðmennsku og vorkunnsemi við mína veiku krafta. Það segir sig sjálft, að allir geta ekki jafnfljótt fengið bót meina sinna, hvað samgöngurnar snertir.
Ekki get ég haft samkomulag við hann um það að koma neinu af því sem ég hef skrifað um þetta mál, yfir á prentarana, því það er ekki minn vani og á ekki við mitt skap. Geti ég ekki varið það sjálfur eða það verji sig sjálft, þá falli það á mig.
Ég skal ekki hót afsaka þekkingarleysi mitt í þessu efni; en eins og ég hefi áður tekið fram, vantar hann reynslu og þekkingu með slíka brú sem þessa hér á landi.
Þar sem hann segir að mig vanti þekkingu á því, hvernig verja eigi járn og tré fyrir áhrifum loftsins, þá þakka ég fyrir kenninguna, en tek hana ekki til greina; - Það er víst að fjöldi manna hér á landi þekkir það eins vel og hann, og ég hefi talað við marga slíka menn, svo að ég hefi ljósa hugmynd um það.
Ef gert er ráð fyrir, að enginn nema hann einn hafi grundaða þekkingu á húsasmíði og vilji landinu vel, þá hefi ég hann allan og einn á móti mér. Svo mun ég að mestu gefa honum eftir síðasta orðið í þessu máli, því ég er ekki vanur að leggja mál í langvinnar þrætur, hvort sem ég á við rauða eða hvíta.


Þjóðólfur, 17. júlí 1891, 43. árg., 32. tbl., bls. 134:
Hér er skýrt frá þingmannafrumvörpum er varða samgöngumál.

Alþingi.
III.
Þingmannafrumvörp þessi hafa við bæst síðan seinast:
....
Samgöngufrumvarp: séra Jens ákveður, að landssjóður skuli halda úti á sinn kostnað gufuskipi í strandferðum við landið ár hvert eigi skemur en 7 mánuði; skipið skal landssjóður leigja. Landsh. á eftir tillögum Alþingis að semja ferðaáætlun þess, skipa framkvæmdarstjóra, til að stjórna strandferðunum, en sameinað alþingi kýs meðráðamenn hans.
Allir vegir á landinu eiga að vera: 1. aðalflutningabrautir upp frá kaupstöðum og helstu hafnstöðum, og skal landssjóður kosta þá og láta þá sitja fyrir öðrum vegum; 2. aðalpóstvegur, 3. fjallvegir, sem landssjóður skal einnig kosta báða, 4. sýsluvegir og 5. hreppavegir. Nefnd: Jens P., Sk. Thor., Sig. St., Þorv. Kjer. og Árni Jónsson.


Þjóðólfur, 31. júlí 1891, 43. árg., 35. tbl., bls. 147:
Samkvæmt viðaukalögum má verja allt að 2.000 kr. til að styrkja Ölfusárbrú með hliðarstrengjum.

Lög afgreidd frá alþingi.
V. Viðaukalaga við lög um brúargjörð á Ölvesá 3. maí 1889.
Í viðbót við þær 40.000 kr., sem verja má úr landssjóði samkvæmt lögum 3. maí 1889 til brúargjörðar á Ölvesá, má ennfremur verja úr landssjóði allt að 2.000 kr. til að styrkja brúna með hliðarstrengjum.
........


Ísafold, 5. ágúst 1891, 18. árg., 62. tbl., forsíða:
Tryggvi Gunnarsson lýsir enn einu sinni skoðun sinni á nauðsyn brúargæslu á Ölfusárbrú og segir það fullkomlega eins nauðsynlegt að verja hengibrýr fyrir óþarfa hristingi, eins og að mála járnið og tjarga tréð.

Ofurlítil ádrepa.
Svo langt er þá komið áleiðis, að alþingismaður Þorlákur Guðmundsson álítur brúargæslu nauðsynlega; fleiri vantrúaðir munu koma á eftir; að eins þyki honum að ég risti "lengjuna breiða"; hann vill hafa hana "mjóa", en þá á hann eftir að sýna almenningi, hve stór breiddarmunurinn er.
Líklega setur landshöfðingi reglur fyrir gæslunni á Ölvesárbrúnni - ef gæslan annars verður nokkur -, hvort heldur bændurna á Selfossi, eða reglulegur brúarvörður verður fenginn til að gæta hennar. Þar verður sjálfsagt gert að skyldu að gæta brúarinnar fyrir ryði og fúa, sem framast er unnt, og enn fremur verja hana fyrir skeytingarlausri og skaðlegri umferð vegfarenda m.fl. m.fl. Ég hef áður sagt, að það er fullkomlega eins nauðsynlegt að verja hengibrýr fyrir óþarfa hristingi, eins og að mála járnið og tjarga tréð.
Hve mikið vilja nú bændurnir á Selfossi hafa fyrir daglegt eftirlit á brúnni, samkvæmt þessum skilmálum? Og fyrir hve mikið vill reglulegur brúarvörður taka að sér þennan starfa? Sá sem annaðhvort hefir greiðasölu eða handverk við hliðina sér til framfærslu. Hvort hefir landið meiri trygging fyrir dyggilegri gæslu, þegar sá maður lítur eftir brúnni, sem stöðugt getur verið við brúarsporðinn, eður ef bændur verða settir til þess, sem þurfa að vera á engjum og í ferðalagi, og að öðru leyti sinna búi sínu?
Tryggingin er augljós, að mér virðist; en hve mikill munur er á kostnaðinum, er ekki hægt að sanna, fyr en vissa er fengin fyrir því, hversu mikið bændurnir á Selfossi vilja hafa fyrir það, að taka að sér þetta starf, og svo landshöfðingi á hina hliðina hefir auglýst, að hæfur maður geti fengið þessa stöðu fyrir ákveðin laun.
Þegar þetta er fengið, er hægt að meta breiddarmuninn á "lengjunum", en um leið þarf að gæta þess, hvort verðmunurinn samsvarar gæðamuninum.
Fyrir mitt leyti er ég sannfærður um, að hr. alþm. Þ. G. hefir gjört kjósendum sínum og öðrum landsmönnum fremur óleik en gagn með andófi sínu gegn því, að þeir, sem nota stórbrýr, greiði fyrir slit, gæslu og skemmdir á þeim. Ef þingið fylgir nú hans skoðunum og leggur á landssjóð kostnaðinn við gæslu og viðhald á Ölvesárbrúnni, þá verður að mæla á sama mælikvarða fyrir aðrar brýr, sem komnar eru og koma munu, og er þá ekki ólíklegt, að dragast muni nokkur ár, sem nauðsynlegt er að brúa sem fyrst. En ef þingið þar á móti hlífir landssjóði við þessum gæslu- og viðhaldskostnaði, þá er þess að gæta, að þingið hefir ekki veitt nema 40.000 kr. til brúarinnar, en 20.000 hafa nokkur nálæg héruð lagt til þess frá sér gegn endurborgun á láni þessu til landssjóðs; er því sjálfsagt, að kostnaði við gæslu og viðhald verður jafnað annaðhvort að öllu leyti eða að þriðjungi að minnsta kosti á nefnd héruð, ef brúargjald verður ekki tekið.
Þegar svo er búið að leggja brú á Þjórsá, með sömu kjörum og Ölvesárbrúna, með 20.000 kr. tillagi frá sömu héruðum, svo íbúar þeirra þurfa að endurborga 40.000 kr. lán fyrir báðar brýrnar, og gæslu og viðhald að auki, þá getur svo farið, þegar fram líða stundir, að einhverjir þeirra fari að kveinka sér og þakka hr. Þ. G. fyrir frammistöðuna og segja: "Það var eigi svo vitlaust, sem hann Tryggvi sagði; ég held réttast sé, að við losum okkur við nokkuð af þessum miklu gjöldum, og látum þá borga, sem slíta og skemma brúna okkar".
Það er skaði, að margir eru nærsýnir, en ekki fjarsýnir; ekki segi ég, að hr. Þ. G. sé þar á meðal, en eigi veitti af góðum augnlækni í sumum málum, sem meðhöndluð eru hér á landi núna.
Ég hef skrifað svo mikið um þetta brúarmál, að sumum lesendum þessa blaðs er ef til vill farið að leiðast; en það hef ég gert vegna þess, að blöðin flytja mörg mál, sem eru ómerkilegri en samgöngu- og brúarmál Íslands, sama árið sem afhent verður til almennra afnota stærsta brúin, er smíðuð verður á Íslandi á þessari 19. öld, líklega.
Alþm. Þ. G. hefir sagt, að þingið ætti að veita fé af landssjóði til að leggja allar brýr, sem lagðar verða, og þar á eftir að halda þeim við til gefins afnota, og hann hefir enda stungið árinni svo djúpt, að landssjóður ætti að greiða ferjutoll yfir ár á póstvegum. En þingið virðist til þessa tíma hafa haft gagnstæða skoðun. Hvað verður hér eftir, er óráðin gáta.
Fyrsta brúin af þeim stærri, sem lögð hefir verið næstl. 20 ár, var gefin af "prívat" manni; önnur brúin var lögð yfir Jökulsá á Jökuldal með sjóði þeim, er gamla brúin átti; þriðja brúin, sú er lögð var yfir Skjálfandafljót, var gerð fyrir 20.000 kr. lán, sem alþingi veitti af landssjóði, á kostnað nálægra héraða; fjórða brúin, sem nú er verið að leggja yfir Ölvesá, er að þriðjungi gerð á kostnað nálægra héraða, og tvo þriðjunga hefir landssjóður lagt til, af því fyrirtækið var svo stórt, að nefndum héruðum var það ofvaxið. Smábrýr hafa verið lagðar í Skagafirði, Eyjafirði, Þingeyjarsýslu og víðar með samskotum og sýslutillagi.
Allt þetta sýnir, að þingið hefir ekki til þessa tíma álitið sér skylt eða fært að veita fé til að brúa ár, svo ef það heldur áfram sömu stefnu, að styðja það að eins með lánum, og fjárstyrk einu sinni fyrir allt, þegar gjöra á stórbrýr, þá verður það jafnframt að hlutast til um, að fé fáist til að standast kostnaðinn við gæslu og viðhald brúnna, og enn fremur, hvernig gæslunni skuli hagað.
Sá er gallinn á því, ef sú stefna verður tekin, að fela gæsluna þeim manni, er næst býr brúnum, að oft getur staðið svo á, að bæir séu eigi í nálægð, eður þeir, er næst búa, séu manna ófærastir til að sjá um sitt og annarra fé.
Herra Þ. G. sér, að ég hef skrifað almennt um þetta mál í þetta sinn, og ekki svarað grein hans í Ísaf. XVIII. 55. Þar með er ekki sagt, að ég lítilsvirði grein hans eða þyki hún ekki góð; ef til vill væri það ofsagt, að hún væri nokkuð lin undir fæti, þegar á er reynt.
Brúin er jafnbreið og uppdráttur sá var, er lá fyrir þinginu, þegar það veitti 40.000 kr. til brúargerðarinnar, en sumum er betur gefið að sjá eftir á heldur en á undan. Handriðin eru á sömu hæð sem almennt er á brúm erlendis; en það er nú ef til vill, eitt af þessum skaðlegu útlendu skoðunum, þar sem ég er að vitna til þess, sem aðrar þjóðir gera, en ég álít, að í verklegum efnum séum við Íslendingar langt á eftir öðrum þjóðum, og megum þakka fyrir að læra af þeim.
Í júlímán. 1891.
Tr. Gunnarsson.


Ísafold, 12. ágúst 1891, 18. árg., 64. tbl., forsíða:
Gaman væri að geta farið viðstöðulaust yfir nýju Ölfusárbrúna og aðrar brýr en hætt við óheyrilegum viðhaldskostnaði ef þær væru gæslulausar.

Brúartollsmálið.
Það er gaman að geta farið Ölfusárbrúna nýju og aðrar væntanlegar brýr yfir stórár landsins alveg viðstöðu- og tafarlaust og alveg eftirlitslaust, alveg afskiptalaust um, hversu hirðulauslega eða gapalega sem brúin er notuð. Það er bæði gaman og frjálslegt, - já, smellandi f-r-r-r-jálslegt. Það er skemmtilegt, að komast hjá gjöldum, smáum og stórum, og óviðjafnalega ánægjulegt, að geta látið landssjóð borga fyrir sig. Vitanlega er enginn samjöfnuður á því, að gjalda 10 a. í brúartoll og geta fyrir það komist hiklaust og þurrum fótum yfir stórkostlegt vatnsfall, eða að greiða 25 a. í ferjutoll og hafa þar á ofan langa töf og verða að sundleggja hestum sínum, með talsverðri hættu oft og tíðum; en þó er betra sem betra er, að hafa hin miklu þægindi, sem brúin veitir, og þurfa alls ekkert fyrir að gjalda.
Þannig horfir málið við frá þeirra sjónarmiði, er brúna eiga að nota.
En - gamanið er minna fyrir hina, sem eiga að "borga gildið", þ.e. bera kostnaðinn af ótolluðum og gæslulausum brúm yfir stórár landsins. Því það fer saman, að þær séu ótollaðar og gæslulausar. Stendur svo á því, að nákvæmri, daglegri gæslu verður ekkert úr, þegar til framkvæmdanna kemur, nema þar sé samfara tollheimta. Tollheimtan krefst stöðugrar návistar tollheimtu- og gæslumannsins við brúna eða á henni, hvenær sem um hana er farið, og með því einu móti er hægt að afstýra harðri reið eða annarri ógætilegri meðferð á rúnni. Án tollheimtu yrði það eftirlit naumast trútt, þótt launað væri allvel á annan hátt. En öðruvísi gæslu en stöðugrar, daglegrar gæslu er hégómi eða þá að minnsta kosti óþarfi að kosta fé til að neinum mun. Því slík gæsla getur eigi náð lengra en að segja til, ef fúi eða ryð sést á brúnni. Það geta næstu búendur auðvitað gert- lengra getur þeirra eftirliti ekki náð - fyrir peninga; en slíkt eftirlit er heldur ekki nein ofætlun fyrir næsta yfirvald, sýslumann eða þá hreppstjóra, sem mundu eiga þar leið um eða nærri nokkrum sinnum á ári, og meira þarf ekki til þess. Toll-leysið og gæsluleysið er, hvað Ölfusárbrúna snertir, gaman-laust fyrir sýslusjóði Árnesinga og Rangvellinga, sem verða að svara út árlega stórfé í afborgun og vexti af láni til brúarinnar, án þess að fá einn eyri í tekjur af brúnni, og þar að auki að taka sinn þátt í viðhaldskostnaðinum; það er gamanlaust fyrir íbúa Suðuramtsins, sem eiga að endurgjalda helming lánsins og ávaxta, úr jafnaðarsjóði, þótt ekkert gagn hafi af brúnni margir hverjir, heilar sýslur, er þarfnast brúa hjá sér og fá ekki; það er gamanlaust fyrir landssjóð, sem lagt hefir nú til gefins 42.000 kr. til brúar þessarar, má búast við að þurfa einnig að taka þátt í viðhaldskostnaðinum og loks á sínum tíma að gefa aftur stórfé til þess að endurreisa brúna, þegar þar að kemur, fyr eða síðar. Landssjóður, sem enn á eftir óbrúaðar flestar stórár á landinu og hefir þar að auki í nógu mörg horn að líta önnur.
í stað þess að með tolli, mjög vægum tolli, og þar með fylgjandi brúargæslu hefði mátt safna sjóði, er staðið gæti straum af þessum kostnaði, ef til vill öllum eða mestöllum.
Hún er ekki á neinum rökum byggð, sú mótbára, að gæslukostnaðurinn, laun brúarvarðarins, muni vinna upp megnið af brúartollstekjunum. Eða hvaða laun hefir sæluhúsvörðurinn á Kolviðarhóli. Það er smátt, og hafa þó jafnan orði fullnýtir menn til að sækja um þá sýslu, en hálfu örðugra til bjargar með alla hluti og aðdrátta þar upp á heiði en í miðri byggð í blómlegri sveit, þar sem að öllum líkindum mundi upp rísa dálítið þorp með tímanum, þar sem eigi einungis einn maður, heldur jafnvel margir mundu geta haft allgóðan atvinnuauka af því að sinna margvíslegum þörfum ferðamana.
Það er naumast hyggilegt af þingi og stjórn, að skella skolleyrum við ráðum og tillögum þess manns, er langfremst getur af þekkingu um það talað, hins góðfræga forstöðumanns þessa langmesta samgöngumannvirkis hér á landi, hr. Tr. G. Það er naumast hyggilegt fyrir landssjóðs hönd, að drepa hendi við þeim fjárstyrk, er fá má upp úr brúartolli, án þess að nokkur geti með neinum rökum borið sig illa yfir þeirri álögu, sem yrði að minnsta kosti helmingi lægri en ferjutollur er nú.
Það er hégómi að vitna í það, þótt brúartollar séu fátíðir nú orðið í öðrum löndum. Því þar eru flestar brýr ekki annað en partur af járnbraut, sem eigendur hennar (járnbrautarinnar) taka af fulla vöxtu og viðhaldskostnað með álagi á fargjald og flutningskaup með járnbrautarlestunum. Auk þess verðum vér að sníða oss stakk eftir vorum smáa vexti. Hafi aðrar þjóðir, meðan fátækar voru eins og vér, og þó ekki jafnfátækar, þóst þurfa að láta þá, sem notuðu kostnaðarsöm mannvirki, gjalda eitthvað eftir þau, til þess að létta byrði á almenningi, hví skyldi oss þá láandi, þótt vér gerðum slíkt hið sama.


Ísafold, 15. ágúst 1891, 18. árg., 65. tbl., bls. 259:
Í fjáraukalögum eru veittar 5.000 kr. til vegarins frá Ingólfsfjalli niður að Ölfusárbrú.

Alþingi.
XIX.
Afgreidd lög frá Alþingi frá því síðast:
XVIII. Fjáraukalögin fyrir árin 1890 og 1891. Veitt alls um 12.600 kr. Þar af til vegarins frá Ingólfsfjalli niður að Ölfusárbrúnni (sem nú er verið að leggja) 5.000 kr.; til fjallvega (vegagjörðar á Mosfellsheiði 1891) 2.500 kr.; styrkur til gufubátsferða á Faxaflóa sumarið 1891 3.000 kr.; til bráðabyrgðauppbótar fátækum brauðum 1891 (Sauðlauksdal) 250 kr.; til tímakennslu í lærða skólanum (í sjúkdómsforföllum adjunkts B. Jenssonar) 768 kr.; til aðgjörðar á skólahúsinu á Möðruvöllum 500 kr.; styrkur handa einum manni (stúdent Karl Nikulássyni) til að búa sig undir að verða dýralæknir hér á landi 300 kr.

Ísafold, 26. ágúst 1891, 18. árg., 68. tbl., bls. 271:
Alþingi vill láta vegfræðing gera áætlun um brúargerð á Lagarfljóti og á Jökulsá í Öxarfirði.

Þingsályktanir.
Þessar hafa verið samþykktar og afgreiddar til landshöfðingja frá því síðast.
XIV. Um undirbúning til brúargerða.
Neðri deild Alþingis ályktar að skora á landshöfðingja að hlutast til um, að vegfræðingur verði látinn skoða brúarstæði á Lagarfljóti og á Jökulsá í Öxarfirði, og gera áætlun um kostnað við brúargerðina.


Ísafold, 2. sept. 1891, 18. árg., 70. tbl., bls. 278:
Gert er ráð fyrir miklum mannfjölda við vígslu Ölfusárbrúar.

Ölfusárbrúin.
Ölfusárbrúin stendur til að verði vígð eða opnuð af landshöfðingja þriðjudag 8. þ.m. kr. 2. Athöfninni mun fylgja lúrablástur, undir stjórn hr. Helga Helgasonar, og kvæði sungin ný, eitt eða fleiri; enn fremur prýtt með blæjum beggja vegna. Gera má ráð fyrir miklum mannfjölda þar samankominn, og er ætlast til að allur sá múgur gangi í prósessíu yfir brúna, er hún er opnuð. Þangað til verður girt fyrir báða enda hennar með strengjum. Vígslan mun fara fram austan megin árinnar (Selfossmegin), og verða þá aðkomumenn að láta ferja sig yfir um þangað, sem sunnan að koma eða vestan, ef þeir vilja vera viðstaddir. En hesta sína geta þeir skilið eftir vestan megin árinnar, enda slæmur sundstaður fyrir þá hjá Selfossi, þótt gott sé að ferja þar og sjálfsagt nóg um ferjubáta, er notaðir hafa verið við brúarsmíðið í sumar.
Mikið láta þeir, er séð hafa brúna uppkomna, þessa daga, yfir styrkleika hennar og fegurð.


Ísafold, 2. sept. 1891, 18. árg., 70. tbl., bls. 278:
Nú er komin brú á Leirvogsá.

Brú á Leirvogsá.
Sú brú er nú fullger fyrir nokkru, milli bæjanna Leirvogstungu í Mosfellssveit og Varmalands í Kjalarneshrepp. Það er trébrú, um 22 álnir á lengd og 4 á breidd, og nær 2 álna háu riði til beggja handa. Brúarsporðarnir liggja á grjótstöplum, 6 álna háum og 6 álna breiðum að framan; eru þeir sérlega vel hlaðnir úr höggnu grjóti og vel felldu, en ólímdir, - eins og Norðmenn hafa kennt að hlaða brúarstöpla; hefir Erlendur Zakaríasson staðið fyrir því verki að mestu leyti, en Þorkell Gíslason smíðað sjálfa brúna. Brúin er gerð á landssjóðs kostnað - á aðalpóstleið - og mun kosta nálægt 3.000 kr.


Þjóðólfur, 4. sept. 1891, 43. árg., 41. tbl., forsíða:
Hér er sagt frá lögum og þingsályktunartillögu varðandi samgöngumál.

Alþingi.
XII.
Þjóðólfur hefur, þegar þetta blað er út komið, flutt greinilegar fréttir um úrslit málanna á þinginu, flutt flest lögin orðrétt og þingsályktanir sömuleiðis flestar orðréttar.
Lög afgreidd frá alþingi.
........
XXX. Lög um brýrnar á Skjálfandafljóti.
Endurborgun sú af láni úr landssjóði til Skjálfandafljótsbrúnna með vöxtum, sem eftir lögum 27. febr. 1880 3. gr. hvíldi á jafnaðarsjóði norður- og austuramtsins, sýslusjóði Suður-Þingeyjarsýslu og sýsluvegasjóðum Suður- og Norður-Þingeyjarsýslu, fellur niður um helming frá þeim tíma, er þessi öðlast gildi.
XVIL. Um undirbúning til brúargerða:
Neðri deild Alþingis ályktar, að skora á landshöfðingja að hlutast til um, að vegfræðingur verði látinn skoða brúarstæði á Lagarfljóti og Jökulsá í Öxarfirði, og gera áætlun um kostnað við brúargerðina.


Ísafold, 5. sept. 1891, 18. árg., 71. tbl., bls. 282:
Verið er að undirbúa hátíðarhöldin vegna vígslu Ölfusárbrúarinnar.

Ölfusárbrúin.
Vistaflutningur og "hressingar" ganga nú héðan austur að brúarstæði, til þess að hinn væntanlegi mannfjöldi þar vígsludaginn þurfi eigi að fasta. Líklega koma og einhverjar byrgðir frá Eyrarbakka, þar sem svo skammt er á milli. Til kl. 11 f. h. á þriðjudaginn (8. þ. m.) er mælt með að aðkomumenn vestan að og sunnan muni eiga kost á að nota brúna austur yfir, gangandi, eftir ráðstöfun hr. Tryggva Gunnarssonar, og verði hún að eins lokuð upp frá því kl. 2, að hún verður opnuð fyrir fullt og allt, til umferðar fyrir menn og skepnur.


Ísafold, 9. sept. 1891, 18. árg., 72. tbl., forsíða:
Hér er sagt frá vígslu Ölfusárbrúarinnar.

Vígð Ölfusárbrúin.
Vígsludagurinn. Veðrið. Aðsóknin.
Aðalfólkstraumurinn hér sunnan að austur yfir fjall til að vera við vígslu brúarinnar var í fyrra dag, í fögru verði, glaða sólskini meiri hluta dags. Hver hópurinn leiddi annan úr garði, sumir örsmáir, sumir heilar fylkingar. Eigi skein að vísu á gullroðna hjálma né steinda skildi, en glæsileg mun mörg kvennasveitin hafa þótt á að líta, og fagurt blikuðu lúðrarnir hins ótrauða söngflokks Helga Helgasonar, er lagði á sig þessa för kauplaust að vanda og ótilkvaddur, "fyrir fólkið"
Fátt manna kom þann dag að brúarstæðinu úr nærsveitunum austan fjalls. Tímanum var svo hagað, að víðast mátti ná heiman að frá sér að morgni, og margir voru svo forsjálir, að vilja sjá, hvernig veður réðist sjálfan vígsludaginn, áður en þeir legðu í skemmtiför þessa. Því jafnan er á tvær hættur að tefla um almennar skemmtanir og viðhöfn undir beru lofti. Sé lán með og veðrið leiki í lyndi, taka þær fram hverjum skemmtunum öðrum, sem almenningur hér á kost á að njóta, en bregðist það, verður annað upp á teningnum; hrakningur á mönnum og skepnum og lítið annað.
Hér sunnan fjalls var að vísu eigi bjart veður að morgni, í gærmorgun, en allt útlit fyrir uppihald, sem og raun varð á. Hér settust því engir aftur veðursins vegna í gærmorgun, þeir er höfðu ætlað sér að láta morguninn duga, sem og vel tókst; voru komnir sumir austur að brú stundu fyrir hádegi, þeir er höfðu lagt af stað kl. 5 eða þar um bil. En austan fjalls var þunga-rigning þegar frá morgni, sem á gerðist, er á daginn leið, og var heillirigning síðari partinn, fram á nótt, sjálfsagt hin mesta, er komið hefir á sumrinu, en hægð var, ýmist logn eða því sem næst.
Þrátt fyrir það sótti fjöldi manns að brúarstæðinu úr nágrenninu við það, einkum af Eyrarbakka, og allmargt jafnvel austan yfir Þjórsá. Nýir og nýir hópar komu í ljósmál fram úr dimmunni af regnúðanum jafnt og þétt, fram til hins ákveðna vígslutíma (kl. 2); sumir náðu eigi messu. Eftir kl. 11 rúmlega var engum hleypt yfir brúna, og urðu menn að láta ferja sig upp frá því, þar á meðal landshöfðingi og sá hópur allur, er honum fylgdi. Mannsöfnuðurinn varð á endanum full 1700, eflaust hin mesti mannsöfnuður, er nokkurn tíma hefir verið saman kominn í einum hóp hér á landi, utan höfuðstaðarins að minnsta kosti. En á 3. þús. eitthvað, heldur meira en minna líklega, hefði hann sjálfsagt komist ef veðrið hefði gengið að óskum.
Vígsluathöfnin
byrjaði, eins og til stóð kl. 2. Var strengjum fest fyrir báða enda brúarinnar sjálfrar þangað til og maður settur til gæslu við hvorn. Þá gekk landshöfðingi upp á vegarpallinn sunnan við brúna þar sem er trérið á báðar hendur; var rauður dúkur breiddur yfir kafla af riðinu að vestanverðu og veifur reistar þar á tvær hliðar. Var sá umbúnaður hafður í ræðupalls stað, og fór vel; hæðin allmikil, á að giska 6-7 álnir. Þar staðnæmdist landshöfðingi og hornasöngflokkurinn að baki hans. Þá var hafinn hornablásturinn, nýtt lag, eftir Helga Helgason, við kvæði það, er landritari Hannes Hafstein hafði ort og hér fer á eftir. Hafði því verið útbýtt prentuðu á undan, ásamt laginu. Síðan var kvæðið sungið til enda. Að því búnu tók landshöfðingi til máls. - Kvæðið nefnist
Brúardrápa
sungin við afhending hengibrúarinnar yfir Ölfusá.

Þunga sigursöngva
söng hér elfan löngum,
byst fann skemmtan besta
banna ferðir manna.
Annan söng nú ítar vaskir kveði,
upp skal hefja róm með von og gleði
Nú er móðan ekki einvöld lengur,
einvald hennar binda traustar spengur.

Hátt á bökkum bröttum
byggðir eru og tryggðir
synir stáls og steina
sterkir mjög að verki;
standa´á bergi studdir magni´og prýði,
strengja sér á herðum gjörva smíði,
tengja sveit við sveit, þótt aldan undir
ófær brjótist fram um klett og grundir.

Vakni von, og kvikni
varmur neisti´í barmi
mest er mann-verk treystum
móðurjarðar góðu.
Tjáir ei við hrepptan hag að búa,
hér á foldu þarf svo margt að brúa:
jökulár á landi og í lundu-
lognhyl margan bæði´í sál og grundu.

Sannar afrek unnið:
andinn sigrar vanda;
tengja traustir strengir
tvístrað láðið áður.
Tengjum þannig tvístruð öfl og megin.
Trausti, dáð og framkvæmd greiðum veginn.
Heilar vinni hendur jafnt og andi.
Hefjum brúargjörð á andans landi.

Vakni von, og kvikni
varmur neisti´í barmi.-
Vilji, von og elja
vinnu saman inni.
Þá mun rísa brú til betri tíða,
brú til vonarlanda frónskra lýða,
brú til frelsis, brú til mennta-hæða,
brú til mannfélagsins æðstu gæða.

Heill sé hug og snilli,
heill sé ráði' og dáðum.
Heill sé lönd og anda,
heiður um foldu breiðist.
Líti sól hver sæmd og nýjar tryggðir,
sveipi gæfan fósturjarðar byggðir.
Blessist framkvæmd, blómgist sviti lýða.
Brúin rísi fram til nýrra tíða.

Ræða landshöfðingja.
Það er hátíðlegt tækifæri, er afhenda skal til almennra og frjálsra afnota hið langmesta samgöngumannvirki, er gjört hefur verið á þessu landi, ekki einungis á þessari öld, heldur alla tíð síðan land byggðist, hina fyrstu járnbrú hér á landi, yfir eitt af landsins mestu vatnsföllum.
Það er almennt viðurkennt orðið fyrir löngu, að samgönguleysi er eitt hið versta þjóðarmein, hinn rammasti slagbrandur fyrir bæði andlegum og veraldlegum framförum. Enda var það eitt hið fyrsta verk Alþingis, eftir að það fékk löggjafar- og fjárveitingarvald, að veita allmikið fé bæði til vegabóta og gufuskipaferða (15.000 + 30.000 kr.).
Var það þegar mikil framför frá því sem áður var, einkum strandferðirnar, sem áður voru alls engar.
En, eins og menn vita, geta eigi allir fjórðungar landsins haft bein not strandferðanna, sakir hafnleysis. Það er hér um bil öll suðurbyggð landsins; þar er engin höfn, er því nafni geti heitið, alla leið frá Reykjanesi austur að Lónsheiði. Hvergi á landinu er því eins nauðsynlegt að koma á greiðum og góðum samgöngum á landi.
Værum vér staddir upp á fjalli því, er hér er oss næst, Ingólfsfjalli, og bjart væri veður, mundi blasa við sjónum vorum hið stærsta sléttlendi þessa lands, hinar frjósömustu og blómlegustu sveitir þess.
Þetta sléttlendi er það, sem jarðfræðingar nefna Geysis-dal. Það er þeirra kenning, og engin ástæða til hana að rengja, að fyrir ævalöngu, ef til vill svo þúsundum alda skiptir áður en land vort fannst og byggðist, hafi hér verið sjór, flói mikill, annar Faxaflói, með eigi allfáum eyjum á víð og dreif. Þessar eyjar köllum vér nú Brúfell, Mosfell, Hestfjall, Vörðufell o. s. frv. Þegar forfeður vorir reistu sér byggðir og bú hér fyrir rúmum 1000 árum, var flói þessi orðinn að þurru, grónu landi fyrir ævalöngu, og eyjarnar að fjöllum og hæðum. Það eru mikil umskipti, stórkostleg bylting, og má segja um það eins og skáldið; "Gat ei nema guð og eldur, gert svo dýrðlegt furðuverk". Þar sem öldur Atlantshafs léku um áður, þar sáu þeir, forfeður vorir,
"um grænar grundir líða
skínandi ár að ægi blám",
og mestar þeirra Þjórsá og Ölfusá, er verið hafa ferjuvötn síðan hér um bil alla leið milli fjalls og fjöru.
Á þessu sléttlendi eiga nú heima rúm 10.000 manna. En það hafa útlendir náttúrufræðingar fullyrt, að væri það land orðið vel ræktað, mýrarnar ristar fram, þúfur sléttaðar og móarnir uppstungnir o. s. frv., þá mundi hér á þessu svæði getað lifað allt það fólk, er nú byggir þetta land, um 70.000 manna, og lifað góðu lífi. Eru þetta fráleitt neinar öfgar, því til þess þarf eigi meira þéttbýli en svo, að 1000 manns komi á ferh.mílu hverja, og þykir það ekki mikið þéttbýli annarsstaðar, enda eru ekki nema 3 lönd hér í álfu önnur en Ísland svo strjálbyggð, að eigi komi meira en það á hverja ferh.mílu.
En til þess þarf margt að breytast og miklum umbótum að taka. Fyrst og fremst þarf til þess vegi og brýr, brýr yfir árnar og akvegi milli þeirra og fram og aftur um alla byggðina.
Það sem æðarnar eru fyrir líkama mannsins, það eru vegir og brýr yfir landið.
Eftir því sem landslagi hagar hér, þurfa brýrnar að koma á undan vegunum. Þegar þær eru komnar, mun ganga greitt eða greiðara miklu að koma á vegunum.
Fyrsta skilyrði fyrir því, að þessi hluti landsins einkanlega geti öðlast þá blómgun, náð þeirri ákvörðun, sem skaparinn hefir ætlast til ,eru því nægar og góðar brýr og nógir og góðir vegir.
Þá rakti landshöfðingi sögu brúarmálsins, viðlíka ýtarlega og gert er hér síðar í blaðinu, og er þeim kafla ræðunnar sleppt hér.
Eftir það lauk hann máli sínu hér um bil á þessa leið.
Ég leyfi mér að lokum í nafni þjóðarinnar og fyrir landstjórnarinnar hönd að votta öllum þeim alúðarþakkir, er að því hafa unnið, að koma þessu mikla og mjög svo nauðsynlega mannvirki til framkvæmdar: fjárveitingarvaldinu, bæði alþingi, hlutaðeigandi sýslunefndum og amtsráði suðuramtsins: alþingismönnum þeim, er sérstaklega hafa fyrir því barist og eigi þreyst að knýja á, þangað til upp var lokið; hinum útlendu smiðum, er sjálfa járnbrúna hafa gert, hinum innlendu smiðum og verkamönnum og öðrum, er að fyrirtækinu hafa unnið á ýmsan hátt; og síðast en eigi síst að alframkvæmdamanni fyrirtækisins, Tryggva kaupstjóra Gunnarssyni, fyrir þá miklu atorku og elju, þrek og þol, er hann hefir sýnt við þetta fyrirtæki frá upphafi til enda, svo mikil óþægindi og erfiðleika sem hann hefir átt við að stríða; og fyrir þá framúrskarandi ósérplægni og sjálfsafneitun, er hefir einkennt alla framkomu hans í þessu máli.
Það er algengast, að hið fyrsta sem þeir gjöra flestir, er nefnt er við að standa fyrir viðlíka meiri háttar mannvirkjum og þetta er, það er, að leggja niður fyrir sér, hve mikinn gróða þeir muni geta haft upp úr því handa sjálfum sér. Þessi maður, hr. Tr. G., hefir tekið þetta að sér með allt annarri hugsun. Ég get ímyndað mér, að hann hafi sagt við sjálfan sig eitthvað á þessa leið: "Ég sé mikið vel, að hag get ég ekki haft af því fyrir sjálfan mig, heldur öllu heldur talsverðan skaða. En ráðist ég ekki í það, verður ekkert úr því. Ég vil gjöra það vel, svo trútt og dyggilega, sem ég hef framast vit á og megn til, og hirði eigi um, þótt talsvert fé fari til þess úr mínum vasa, ef því er að skipta, að eins að verkið verði svo af hendi leyst, að það verði mér til sóma, og umfram allt landinu til gangs og sóma". Þannig ímynda ég mér að hann hafi hugsað, eða ég ræð það, réttara sagt, af allri framkomu hans í þessu máli. Og um það munu allir samdóma, er nú hafa séð brúna upp komna, að "verkið lofi meistarann". Hann hefir með því reist sér þann minnisvarða, er lengi mun geymast með innilegu þakklæti í brjósti hlutaðeigandi héraðsbúa, fyrir þessa gersemi, er þeir fá sér afhenta til frjálsra afnota í dag.
Í goðafræði vorri er getið um merkilega gersemi, hringinn Draupni, er hafði þá náttúru, að 9. hverja nótt drupu af honum 8 hringir jafnhöfgir. Óskum þess, að sama náttúra fylgi þessari gersemi vorri, að af henni drjúpi á skömmum tíma viðlíka margar brýr jafngóðar fyrir þau vatnsföll landsins, er þess þarfnast mest.
Biðjum þá að lokum guð að blessa brúna og alla þá ávexti, er hún getur borið, ef vér kunnum til að gæta. Biðjum hann að gefa þjóðinni í dug og dáð, áræði og framtakssemi til að halda áfram því sem vel er byrjað með þessu fyrirtæki, svo að það marki nýtt tímabil í viðburðum hennar til samgöngubóta og öðrum samkynja fyrirtækjum þjóðinni til hagsældar.
Að svo mæltu lýsi ég brúna opna og heimila til almennrar notkunar og frjálsrar umferðar.
Því miður er ræðuágrip þetta ekki svo nákvæmt, sem vera hefði átt, með því lítið næði var til að rita það upp jafnóðum og það var mælt af munni fram blaðalaust. Því drjúgum rigndi meðan á ræðuhaldinu stóð, þótt meira yxi úrkoman síðar.
Prósessían.
Eftir það gengu þeir landshöfðingi og hr. Tryggvi Gunnarsson vestur yfir brúna í broddi fylkingar og múgurinn allur á eftir, 3-4 samsíða, karlar og konur, ungir og gamlir. Fjórir voru fengnir til að telja, og töldu á 16. hundrað. Voru þá eftir ýmsir smá-hópar og einstakir menn á strjálingi hingað og þangað nokkuð frá brúnni, eða inni í tjöld og brúarsmíðahúsinu (Tryggvaskála), vegna úrfellisins, og var giskað á, að það mundi nema nær 2 hundruðum.
Það tók all-langan tíma að mannfjöldinn kæmist yfir brúna. Gekk fylkingin góðan spöl upp frá henni að vestanverðu og dreifði sér síðan um hæð, er þar er, og fögur er útsjón af í góðu veðri. Þar reyndu þeir Helgi Helgason og hans menn að skemmta mönnum með hornablæstri; en veðrið meinaði það mjög. Síðan fóru menn að smátínast austur yfir aftur, athafna sig og skoða brúna í krók og kring.
Lýsing brúarinnar.
Lengdin járnbrúarinnar sjálfrar er um 180 álnir. Þar af eru 120 álnir yfir um sjálfa ána, milli aðalstöplanna, en 60 yfir haf það, er milli er aðalstöpulsins á eystri bakkanum og akkerisstöpulsins þeim megin.
Breiddin er 4 álnir.
Járnrið er beggja vegna, með 3 landböndum, og nær meðalmanni því nær undir hendur.
Hæðin frá brúnni niður að vatnsfletinum, þegar ekki er vöxtur í ánni, er 12 álnir.
Brúin er hengibrú, eins og menn vita, þ. e. brúin sjálf hengd með uppstöndurum af járni neðan í þrjá járnstrengi hvers vegar. Járnstrengir þessir eru alldigrir, og strengdir yfir tvo stöpla við hvorn brúarsporð, 20 álna háa alls að austanverðu, og er neðri hlutinn, 9½ alin, úr vel límdu og vel höggnu grjóti, en efri hlutinn ferföld járnsúla eða súlnagrind, og haft á milli þeirra að ofan. Austanmegin eru járnsúlurnar jafnháar, en neðri hlutinn ekki nema 1 álnar hleðsla, með því þar er hár klettur undir.
Járnstrengurinn, er brúnni halda uppi þandir eru yfir nýnefnda stöpla (járnsúlurnar), er fest í akkeri til beggja enda, en það eru klettar af manna höndum gjörðir, þ. e. hlaðnir úr grjóti og grjótsteypu og rammlega límdir. Neðst í þeim klettum eru járnspengur þversum, er strengjaendunum er brugðið um.
Allt járnið í brúnni er um 50 smálestir að þyngd, eða sama sem 100.000 pd. Þar að auki er í brúnni, gólfinu á henni, 100 tylftir af plönkum, og 72 stórtré undir þeim, ofan á járnslánum og járnbitunum. Plankagólfið er tvöfalt.
Um traustleika brúarinnar er það að segja, að það er ætlast til að hún beri járnbrautarlest, en til þess má vera á henni í ein 50 punda þungi á hverju ferh.feti. Geri maður meðalmanns þyngd 144 pd., mega eftir því standa á brúnni í einu 1000 manns, svo óhætt sé í alla staði.
Út frá brúnni liggur á báða vegu vegargarður eða mjög upphækkaður vegur út á jafnsléttu, og þar á sund í einum stað að austanverðu, 15 álna breitt, með trébrú yfir. Er það gert til rennslis fyrir ána í aftaka vatnavöxtum, ásamt 60 álna sundinu milli stöpuls og akkeris, sem fyr er getið.
Umferð um brúna á eftir.
Skömmu eftir prósessíuna var tekið til að fara með hesta yfir brúna fram og aftur, bæði lestir og lausa hesta, og von bráðar ríðandi. Ægði þá öllu saman í einu á brúnni, ríðandi mönnum og gangandi, ungum og gömlum, konum og körlum, lausum hestum og klyfjahestum. Hált var á henni af rigningunni, og bar það til, að laus hestur datt á henni miðri, en stóð jafngóður upp og meiddi engan, þó mannmargt væri. Og er frá leið nokkuð, sást maður þeysa hana endilanga á allhörðum spretti, harða-skeiði. tóku fleiri það hreystisverk(!) sér til fyrirmyndar, víst bæði kenndir og ókenndir. Yfir höfuð var eigi hræðslu að sjá nema á einstöku manni, helst börnum og gamalmennum, er tveir menn leiddu þá á milli sín eftir miðri brúnni. Sér að vísu í grængolandi iðuna 12 álnir undir brúnni; en svo traust finnst mönnum hún og riðin beggja vegna, að fletir ganga öruggir þegar í stað.
Múgurinn býst til brottferðar og tvístrast.
Hefði veður leyft, stóð til að skemmt yrði mannfjöldanum fram eftir deginum með söng og ræðuhaldi. En það voru engin viðlit, því veður spilltist æ meir og meir. Þóttist hver hreppnastur, er fyrst komst burtu úr þeirri þvögu og leirleðju, er menn óðu út í og inni nærri því. Skorti eigi alla þá aðhlynningu af hálfu hr. Tryggva Gunnarssonar og hans manna, sem og Gunnars bónda á Selfossi, hvað húsaskjól snertir og þess háttar, er hægt var í té að láta. En sem nærri má geta, hrukku húsakynnin skammt. Sama er að segja um gestgjafa Einar Zöega, er hafði reist mörg tjöld (4) á árbakkanum, þar sem hann veitti mat og drykk eftir föngum, þangað flutt með ærum kostnaði og fyrirhöfn.
Mundi þetta hafa orðið einhver hin fegursta og mikilfenglegasta þjóðhátíð, ef öðruvísi hefði til tekist með veðrið.
Það leyndi sér ekki á svip og tali viðstaddra héraðsbúa, hvað vænt þeim þótti um hina nýfengnu "gersimi", brúna sína, blessuðu hana í hverju orði og aðalhöfund hennar, hann Tryggva sinn. Við lítilsháttar skilnaðarskál í "Skálanum" hafði og verið mælt fyrir minni brúarsmiðsins enska, Mr. Vaughans frá Newcastle, er farinn er heim til sín fyrir nokkru, og sömuleiðis ingenieurs Ripperda, er haft hefir umsjón með brúargerðinni í sumar af hálfu K. hafnarstjórnarinnar, og verður samferða Tryggva norður þessa daga til þess að fá far þaðan heimleiðis.
Saga Ölfusárbrúarinnar.
Það er sögulegt, að Ölfusárbrúin á sér sögu, nær 20 ára sögu, þó að hún , brúin, fæddist eigi fyr á þessu ári, og ekki hafi þurft nema part úr tveimur sumrum til að leggja hana. Slíkan tíma hefir undirbúningurinn tekið, eða réttara sagt umhugsunin um hvort þorandi væri eða ekki þorandi að leggja í annað eins stórræði og að brúa þetta eina af megin-vatnsföllum landsins. Framan af voru þau raunar höfð tvö í takinu í senn, þ.e. að segja í umhugsuninni og ráðagjörðunum. Það var þá fyrst, er lækkuð voru seglin - þessi háu segl, eða hitt þó heldur-, það var þá fyrst, er sleppt var að hugsa um að brúa nema aðra ána að sinni, er málið náði fram að ganga, og þó við illan leik.
Undirbúningssaga Ölfusárbrúarinnar er því raunasaga aumkunarverðs áræðisleysis og smásálarskapar. Vér höfum þá örugga von og sannfæringu, að landið eigi þá framtíð fyrir höndum, að komandi kynslóðir muni eiga bágt með að skilja í jafnlítil-sigldum hugsunarhætti, sem að þurfa fram undir tuttugu ár til að hugsa sig um að brúa eina á, fyrir ekki meira fé en 60-70.000 kr.
Vera má, að einhverja óvenju-háfleyga og stórhuga framfaramenn hafi dreymt um brú á Þjórsá og Ölfusá fyrir einum mannsaldri eða svo. En upp vita menn eigi til að því hafi verið stunið í heyranda hljóði fyr en nú fyrir 19 árum. Þá var stungið upp á því á almennum sýslufundi á Stórólfshvoli í Rangárvallasýslu, af síra Hannesi sál. Stephensen, er þá var prestur í Fljótshlíðarþingum (¿ 1882). Fundurinn ákvað, að kjósa 1 mann fyrir hvern hrepp í sýslunni til að ganga í nefnd til að framfylgja málinu bæði innan héraðs og utan, og skutu jafnframt saman nokkru fé, 110 rd. (220 kr.), "er skyldu vera til taks, ef á lægi eða nefndin krefði". Formaður þeirrar 9 manna nefndar var Sighv. alþm. Árnason, er á því láni að fagna að sjá það mál loks farsællega til lykta leitt, að því er Ölfusárbrúna snertir. Af öðrum nefndarmönnum má nefna síra Ísleif Gíslason, Sigurð dbrm. Magnússon á Skúmstöðum og Jón hreppstj. Hjörleifsson í Skógum. Af hinum eru fyrir víst 3 dánir, prestarnir Hannes Stephensen, Skúli Gíslason og Sveinbjörn Guðmundsson.
Nefndin átti fund og með sér mánuði síðar en hún var kosin, og "komst að þeirri niðurstöðu, að fyrst lægi fyrir að fá vissu fyrir því, hvort fyrirtækið væri mögulegt eða ekki, og ákvað að leita atkvæða landsstjórnarinnar og biðja hana að útvega verkfróðan mann til að skoða brúarstæði á ánum og gera áætlun um kostnaðinn". Leitað var síðan samkomulags og fylgis Árnesinga um mál þetta, og var þar engin fyrirstaða. Sama haust var svo stiftamanni (Hilmari Finsen) ritað um málið, og fékk hann því til vegar komið, að hinn eftiræskti verkfræðingur væri sendur hingað þegar um vorið eftir.
Það var Windfeldt-Hansen, kand.í verkfræði. Hann átti þar að auki að rannsaka, hvort hægt væri að gera höfn við Dyrhólaey; en það leist honum ófært. Hitt var hann þegar sannfærður um, að vel mætti brúa árnar báðar, og gerði nákvæma áætlun um tilhögun á báðum brúnum og kostnað til þess. Brúarstæði á Ölfusá leist honum best hjá Selfossi, þar sem brúin er nú upp komin; en á Þjórsá hafa aðrir fundið hentugri brúarstæði síðan, þótt enn sé óráðið, hvert þeirra verður valið. Kostnaðaráætlun hans fyrir Ölfusárbrúna var 80.000 kr. - Samskotin á Stórólfshvolsfundinum, þessir 110 rd., fóru í ferðakostnað W.H., að viðbættum nokkrum hundruðum rdla úr jafnaðarsjóði, vegasjóði suðuramtsins og landssjóði.
Ári síðar en W.H. ritaði skýrslu sína, kom hið löggefandi og fjárráðandi alþingi saman í fyrsta sinn, 1875; en eigi hafði áskorun til alþingismanna Árnesinga og Rangvellinga um að fá landstjórnina til að taka málið að sér og leggja fé til brúnna neinn árangur í það sinn.
Til næsta þings komu bænarskrár úr báðum sýslunum, um 168.000 kr. fjárveitingu úr landssjóði til að gera báðar brýrnar, samkvæmt áætlun Windfeldt Hansens; en fellt var málið á því þingi.
Tveim árum síðar (1879) komst svo langt, að þingið samþykkti lög um brúargjörð á báðum ánum, Þjórsá og Ölfusá, og veitti til þess 100.000 kr. vaxtalaust lán, er borgast skyldi á 40 árum, af sýslusjóðum 4 næstu sýslna og bæjarsjóði Reykjavíkur. Landstjórnin átti að sjá um framkvæmd fyrirtækisins. Hún spurði sig fyrir í Skotlandi, Danmörku og Svíþjóð, og fékk mikið af tilboðum og áætlunum, en þótti sitt að hverri áætluninni, - smíðið ekki nógu traust eftir sumum tilboðunum, en í sumum meira sett upp en fjárveitingin (100.000 kr.). Gat því ekkert orðið úr framkvæmdum og lögin náðu eigi staðfestingu.
Þessi málalok voru tilkynnt þinginu 1881, og þótti þá ekki árennilegt að eiga frekara við það þá um hæl. En á næsta þingi, 1883, var málið tekið aftur í neðri deild og vasklega flutt þar af þingmönnum Árnesinga, þeim Magnúsi próf. Andréssyni og Þorláki Guðmundssyni- er hefir verið manna þrautseigastur við það-. Var þá að eins hugsað um aðra brúna, þá á Ölfusá, og farið fram á 80.000 kr. úr landssjóði til hennar að gjöf, en ekki láni; það skildi frá því árinu áður hafði verið, og fyrir það féll málið á þingi í það sinn.
Á næsta þingi 1885, var því meðal annars hreift með fyrirspurn, af Sighv. Árnasyni; en 1887 náði það loks fram að ganga í lagaformi, og staðfesti konungur loks þau lög 2 árum síðar, vorið 1889. Voru þá aðeins ætlaðar 60.000 kr. til brúargjörðarinnar, með því að Hovdenak hafði þá komið með nýja áætlun, er taldi það allt að því nóg, mest vegna ódýrleika á járni um þær mundir. Af þessum 60.000 gaf landssjóður 40.000, en lánaði hitt, helminginn (10.000) sýslunefndunum í Árnessýslu og Rangárvalla, og hinn helminginn jafnaðarsjóði suðuramtsins-, gegn endurborgun með ársvöxtum á 45 árum.
Nærri lá, að lög þessi yrðu árangurslaus. Stjórnin sendi áskoranir í ýmsar áttir um að taka að sér brúarsmíð fyrir hina ákveðnu fjárupphæð, en allra-lægsta tilboð var 65.000 kr.; hin kring um 70.000.- Þá var það, að Tryggvi Gunnarsson, er áður hafði annast hið langhelsta brúarsmíði hér á landi annað, Skjálfandafljótsbrúna, fyrir 20.000 kr., bjargaði málinu, fyrir bænastað þeirra, er annast var um það, og réðst í að reyna að koma brúnni upp, hengibrú, fyrir hina ákveðnu upphæð. Mundi fyrirtækið að öðrum kosti hafa farist fyrir enn sem fyr, og fer eigi tvennum sögum um það, að hann hefir að vonum gert sér mikinn sóma og landinu gagn að því skapi með stakri alúð og samviskusemi hvað snertir allan frágang á þessu merkilegasta mannvirki, er hér hefir gert verið, þrátt fyrir það, þótt hann sæi skjótt fyrir mikinn óhag af því fyrir sig, vegna mikillar verðhækkunar á brúarefninu (járninu) meðal annars.


Þjóðólfur, 11. sept 1891, 43. árg., 42. tbl., forsíða:
Ölfusárbrúin hefur nú verið vígð og segir hér frá hátíðarhöldunum. Brúnni er lýst og aðdraganda brúargerðarinnar.

Ölvesárbrúin.
Eins og til stóð, var Ölvesárbrúin vígð á þriðjudaginn var. Þrátt fyrir allmikla rigningu þá um daginn hafði til vígslunnar safnast mikill manngrúi úr nálægum héruðum, Árnes- og Rangárvallasýslum, Kjósar-og Gullbringusýslu, Reykjavík og enda víðar að. Brúin var opin til kl. 11 um daginn; þeir sem komu eftir þann tíma vestan að ánni, voru því ferjaðir austur yfir, því austanmegin árinnar fór vígslan fram. Brúin var skreytt fánum og blæjum á báða bóga.
Klukkan rúmlega 2 safnaðist manngrúinn að brúnni, en upp á brúarsporðinn að austanverðu gekk landshöfðingi, frú hans, Tr. Gunnarsson og nokkrir fleiri, svo sem nokkrir embættismenn og heldri manna frúr, þingmenn, hornleikendur og söngmenn. Vígsluathöfnin byrjaði síðan með því, að sungin var uppi á brúarsporðinum með nýju lagi eftir kaupmann Helga Helgason þessi,

Brúardrápa
eftir landritara Hannes Hafstein.
Þunga sigursöngva
söng hér elfan löngum,
byst fann skemmtan besta
banna ferðir manna.
Annan söng nú ýtar vaskir kveði,
upp skal hefja róm með von og gleði
Nú er móðan ekki einvöld lengur,
einvald hennar binda traustar spengur.

Hátt á bökkum bröttum
byggðir eru og tryggðir
synir stáls og steina
sterkir mjög að verki;
standa á bergi studdir magni´og prýði,
strengja sér á herðum gjörva smíði,
tengja sveit við sveit, þótt aldan undir
ófær brjótist fram um klett og grundir.

Vakni von, og kvikni
varmur neisti´ í barmi
mest er mann-verk treystum
móðurjarðar góðu.
Tjáir ei við hrepptan hag að búa,
hér á foldu þarf svo margt að brúa:
jökulár á landi og í lundu-
lognhyl margan bæði´ í sál og grundu.
Sannar afrek unnið:
andinn sigrar vanda;
tengja traustir strengir
tvístrað láðið áður.
Tengjum þannig tvístruð öfl og megin.
Trausti, dáð og framkvæmd greiðum veginn.
Heilar vinni hendur jafnt og andi.
Hefjum brúargjörð á andans landi.

Vakni von, og kvikni
varmur neisti´ í barmi.-
Vilji, von og elja
vinnu saman inni.
Þá mun rísa brú til betri tíða,
brú til vonarlanda frónskra lýða,
brú til frelsis, brú til mennta-hæða,
brú til mannfélagsins æðstu gæða.

Heill sé hug og snilli,
heill sé ráði' og dáðum.
Heill sé lönd og anda,
heiður um foldu breiðist.
Líti sól hver sæmd og nýjar tryggðir,
sveipi gæfan fósturjarðar byggðir.
Blessist framkvæmd, blómgist sviti lýða.
Brúin rísi fram til nýrra tíða.

Ræða landshöfðingja.
Þegar búið var að syngja brúardrápuna hélt landshöfðingi ræðu. Hann talaði fyrst um, hve hátíðlegt tækifæri það væri, sem safnað hefði þangað öllum þeim mannfjölda, sem þar var saman kominn, þar sem nú ætti að opna til almennings nota Ölvesárbrúna, sem væri mesta samgöngumannvirki, sem unnið hefði verið hér á landi síðan landið byggðist, fór þar næst nokkrum orðum um, að samgöngutorfærur landsins væru hinn mesti slagbrandur fyrir framförum þess. Þetta hefði fyrsta löggjafandi alþingi kannast við og álitið eitt af því nauðsynlegasta fyrir landið að bæta samgöngur þess; það hefði því veitt allmikið fé til strandferða og vegabóta. En allir hlutar landsins gætu eigi notað strandferðirnar. Á allri strandlengjunni frá Reykjanesi austur fyrir Lónsheiði væri hafnaleysið því til fyrirstöðu, að þar gætu verið gufuskipaferðir; samgöngur þar því eingöngu á landi; því brýn nauðsyn að allir leggist á eitt að bæta samgöngur á þessu svæði.
Ef maður væri kominn í björtu veðri upp á Ingólfsfjall, sem væri hér á bak við héraðið, blasti við manni eigi aðeins hið stærsta, heldur einnig hið frjósamasta sléttlendi landsins. Útlendir jarðfræðingar kölluðu það Geysis-dalinn og kenndu oss, að það hefði þúsundum ára áður en landið byggðist verið fjörður eða flói, sem gengið hefði inn í landið, með smáeyjum, sem nú væru fellin upp af undirlendinu, t. d. Brúfell, Mosfell, Hestfjall, Vörðufell o. s. frv. Þegar þetta væri borið saman við það, sem var, er forfeður vorir settust hér að, og það sem nú er, gæti maður tekið undir með skáldinu, sem kvað
"gat ei nema guð og eldur
gert svo dýrðlegt furðuverk".
Þar sem áður var flói, þar sáu forfeður vorir
"Um grænar grundir líða
skínandi ár að ægi blám"
og þeirra mestar Þjórsá og Ölvesá.
Á þessu undirlendi búa nú um 10.000 manna. Útlendingar fullyrtu, að ef allt þetta svæði væri yrkt, eins og best mætti, þá gætu búið þar allir íbúar landsins, 70.000, það væri um 1.000 á ferhyrningsmílunni, og væri það ekki margt, eftir því sem gerðist víðast í útlöndum. En til þess þyrfti margt að breytast, meðal annars brýr að koma á árnar og akvegir eftir héraðinu, vegirnir yrðu að laga sig eftir brúnum, brýrnar yrðu að koma fyrst, vegirnir mundu þá fljótt koma. - Eftir það rakti hann sögu brúarmálsins, er vér sleppum hér, en drepum á síðar í blaðinu.
Þar næst þakkaði landsh. fyrir hönd landsstjórnarinnar öllum, sem að því hafa stutt að fá þessu mikilverða mannvirki framgengt: fjárveitingarvaldinu, bæði alþingi, hlutaðeigandi sýslunefndum og amtsráði Suðuramtsins; alþingismönnum, sem barist hafa fyrir því, hinum útlendu og innlendu smiðum, og öðrum, er að fyrirtækinu hafa unnið, og síðast en ekki síst aðalframkvæmdarmanninum Tryggva Gunnarssyni og fór mörgum lofsorðum um framkomu hans við þetta fyrirtæki, og kvað hann með því hafa reist sér þann minnisvarða, er lengi mundi halda minningu hans á lofti.
Síðan minntist hann á hringinn Draupni sem hafði þá náttúru, að níundu hverja nótt drupu af honum 8 hringir jafnhöfgir og óskaði, að á líkan hátt drypi af þessari brú innan skamms álíka margar brýr yfir þær ár landsins, er valda mestum farartálma.
Eftir að fór hann nokkrum blessunar- og bænarorðum um brúna og framtíð þjóðarinnar og lýsti að lyktum yfir að brúin væri opin og heimil til umferðar hverjum sem vildi.
Prósessían.
Þegar landshöfðingi hafði lokið ræðu sinni, gengu menn í prósessíu yfir brúna. Fór hornleikendaflokkur Helga kaupmanns Helgasonar fyrir og lék á horn. Þá kom landshöfðingi, frú hans, Tr. Gunnarsson og síðan hver af öðrum. Fjórir menn tóku að sér að telja þá, sem færu yfir brúna, og voru þeir rúmlega 1500 að tölu; tilætlunin var, að allir, sem viðstaddir voru, gengu í prósessíunni yfir brúna, en það varð þó ekki. Margir voru, sem eigi gerðu það, og giskuðu menn á, að þeir hefðu verið að minnsta kosti 200 til 300, og sumir héldu enda, að þeir hefðu verið fleiri, svo að það má fullyrða, að alls hafi verið viðstaddir um 1800 manna.
Lýsing á brúnni.
Brúin er hengibrú, sem hangir neðan í snúrum, margþættum og digrum járnstrengjum, sem þandir eru yfir ána, þrír á hvora hlið. Járnstrengir þessir hvíla á stöplum beggja megin árinnar; eru þeir að neðan hlaðnir úr grjóti og múraðir, en ofan á grjótstöplunum eru 11½ al. háir járnstöplar eða stólpagrindur, og á þeim hvíla uppihaldsstrengirnir. Að vestanverðu er hamar, sem hærra ber á en að austanverðu; vestan megin er grjótstöpullinn því lægri um 2 áln. á hæð, að lengd 12 áln. og breidd 6 álnir. Austan megin er grjótstöpullinn 9½ al. á hæð, 14 álnir á lengd og 6 álnir á breidd. 60 álnir á landi upp frá þeim stöpli er annar grjótstöpull, 8 ál. á hæð og stór um sig, hlaðinn eða öllu heldur steyptur utan um akkeri, sem endarnir á uppihaldsstrengjunum eru festir í. Að vestanverðu eru tveir sams konar grjótstöplar steyptir utan um akkerin þeim megin. Úr uppihaldsstrengjunum ganga niður í brúarkjálkanna, sem eru úr járni, eru járnslár margar og yfir þær er lagt gólfið úr plönkum; gólfið er hið eina, sem er úr tré, en að öðru leyti er öll brúin úr járni. Járnið í henni vegur um 100.000 pund, en í gólfið þurftu 100 tylftir af plönkum, og 72 tré. Brúin á að geta borið 144.000 pd.
Ölvesá er 112 álnir á breidd, þar sem brúin er; stöplarnir sem uppihaldsstrengirnir hvíla á, eru ekki fast fram á árbakkanum, að austanverðu 3 álnir frá brúninni; auk þess heldur brúin áfram af þeim stöpli austanmegin árinnar 60 álnir frá honum á land upp yfir á akkeraklettinn; er það gjört, af því að áin flæðir þar oft langt á land upp og mundi því oft verða ófært að brúnni þeim megin, ef brúin næði eigi nema rétt yfir ána, eða ef trébrú væri höfð þar yfir bakkann, mundi áin brjóta hana af. Alls er hengibrúin þannig 180 álnir danskar. Auk þess er um 20 álna löng trébrú austur af henni. Brúin er 4 álnir á breidd; beggja megin er 2 álna hátt handrið úr járni. Hengibrúin er öll máluð rauð, en trébrúin austur af hvítmáluð. Frá brúnni eru 20 álnir niður að vatninu og veltur áin þar fram jökullituð og ægileg. Var ekki trútt um, að sumum ógaði við að ganga yfir brúna og líta niður í grængolandi hyldýpið, og það því fremur, sem brúin dúar undi fæti og sveigist til hliðanna, ef hvasst er, en þennan hliðarslátt á að taka af henni með hliðarstrengjum, sem eiga að koma að ári og veittar voru til 3.000 kr. á þinginu í sumar.
Kostnaðurinn o. fl.
60.000 kr. hafa verið lagðar til brúarinnar, þar af 40.000 kr. sem beinn styrkur úr landssjóði og 20.000 kr. sömuleiðis úr landssjóði sem lán til sýslufélaga Árnes- og Rangárvallasýslu og jafnaðarsjóðs Suðuramtsins, er þau eiga að endurborga á 45 árum. Fyrir þessar 60.000 kr. tók kaupstjóri Tryggvi Gunnarsson að sér að koma upp brúnni; aðrir buðust ekki til þess fyrir svo lítið. Ef allt hefði gengið eftir óskum og engin óhöpp komið fyrir, hefði hann vel staðið sig við það. En ýms atvik og örðugleikar við þetta fyrirtæki hafa valdið því, að hann hefur haft af því nokkurn skaða, hve mikinn er oss ekki kunnugt.
Brúin er smíðuð í Englandi og flutt hingað til lands alsmíðuð í sættri og smærri stykkjum. Járnið í brúna varð nokkrum þúsundum króna dýrara, en ef það hefði verið keypt svo sem hálfu ári áður, og mun það hafa verið drætti eða seinlæti frá stjórnarinnar hálfu að kenna, að járnið varð eigi keypt, er það var í lægra verði. Brúin kom á gufuskipi frá Englandi í fyrra sumar og átti það að leggja hana af sér á Eyrarbakka, en þá leyfði eigi veður skipinu að leggjast þar að, svo að það varð að flytja hana til Reykjavíkur; varð því að leigja skip með hana austur á Eyrarbakka, sem var mikill kostnaðarauki. Í vetur var svo brúnni ekið frá Eyrarbakka að brúarstæðinu, og gekk það allt vel. Í fyrra sumar var Tryggvi Gunnarsson alllengi með nokkra menn við brúarstæðið að hlaða stöplana beggja megin árinnar. En í sumar hafa með Tryggva Gunnarssyni verið til þess að koma henni á ána tveir útlendir ingeniörar, annar danskur, Riperda að nafni, til umsjónar frá stjórnarinnar hálfu, en hinn enskur, Vaughan að nafni, ásamt 6 enskum verkamönnum, sem allir komu hingað snemma í júní og fóru ásamt Vaughan aftur með Lauru seint í f. m., en Riperda er hér enn.
Öllum, sem til þekkja, kemur saman um, að Tr. Gunnarsson hafði látið sér einkar annt um, að þetta verk yrði vel af hendi leyst, brúin sem tryggust og rammbyggilegust. Hann hefur og sýnt það með blaðagreinum sínum um brúarvörð, að honum er annt um, að brúin mætti ekki illri meðferð og að hún endist sem lengst. Ætti það, þótt enginn verði brúarvörðurinn, með öðru fleiru að vera mönnum áminning um að ríða eigi hart yfir brúna, skemma hana ekki og fara að öðru leyti sem gætilegast með hana, enda ætti slíkt að vera hverjum manni ljúft af sjálfsdáðum, er þeir athuga, hversu nytsamleg brúin er og hve mikið hún hefur kostað.
Vegurinn að brúnni.
Alfaravegurinn austur hefur hingað til legið annarstaðar að Ölvesá en þar sem brúin er nú komin á hana. Þess vegna varð að leggja veg að brúnni að vestanverðu; hefur verið byrjað á því í sumar; vagnvegur góður er kominn kippkorn frá Ingólfsfjalli áleiðis að brúnni, og verður þeim vegi lokið að ári; til þeirrar vegagjörðar voru veittar 5.000 kr. með fjáraukalögum á þinginu í sumar.
Um 20 ár
hefur þetta brúarmál verið á dagskrá heima í héraði og á alþingi. Fyrir 20 árum hér um bil var í Árnes- og Rangárvallasýslum farið að hreyfa því að koma brúm á Þjórsá og Ölvesá. Á sýslufundi að Stórólfshvoli 21. maí 1872 kom séra Hannes heitinn Stephensen fram með uppástungu um það; var þá kosin 9 manna nefnd til þess að greiða fyrir málinu; var alþingismaður Sighvatur Árnason formaður nefndarinnar (sjá skýrslu hans um þetta í Þjóðólfi 8. febr. 1873). Nefnd þessi stofnaði til samskota, til þess að minnsta kosti að standast kostnað við að fá útlendan ingeniör til að skoða brúarstæðin. Nefndin fékk því til leiðar komið, að stjórnin sendi hingað ingeniör danskan, Vindfeldt Hansen, til þess að skoða brúarstæðin. Brúarstæði á Þjórsá taldi hann best miðja vega milli bæjanna Urriðafoss og Þjótanda, en á Ölvesá rétt fyrir ofan Selfoss, þar sem brúin nú er komin, og áætlaði kostnaðinn við Ölvesárbrúna 80.000 kr., en Þjórsárbrúna 88.000 kr. Sjóðurinn, sem safnast hafði, gekk til kostnaðarins við skoðunargjörðina.
Inn á þing komst málið 1877, þá komu fram bænarskrár um að þingið legði 168 þús. kr. til að byggja báðar brýrnar. En þá var það fellt á þinginu. Á þingi 1879 komu enn bænarskrár til þingsins um að fá 100.000 kr. til beggja brúnna sem vaxtalaust lán, er skyldi endurborgast á 40 árum af sýslusjóðum fjögra næstu sýslnanna og bæjarsjóði Reykjavíkur. Þetta varð að lögum á þinginu. En þá kom stjórnin með lagasynjunar-vöndinn til að hirta Íslendinga með, sem vildu byggja brýr fyrir sína eigin peninga, og synjaði því lögunum staðfestingar. Á þingi 1883 var farið fram á 80.000 kr. fjárveitingu til Ölvesárbrúarinnar, en Þjórsárbrúin ekki nefnd, en það var fellt á því þingi. Á þingi 1885 varð heldur ekki neitt ágengt En á þingi 1887 voru samþykkt lög um Ölvesárbrúna, og með þeim veittar fjárupphæðir þær, sem áður eru nefndar. Stjórnin staðfesti lögin ekki fyr en 3. maí 1889 og gerði í s. m. samninginn við Tryggva Gunnarsson, sem síðan tók til óspilltra málanna og hefur nú komið brúnni á Ölvesá, eins og áður er frá skýrt.
Fyrirtæki þetta hefur þannig átt erfitt uppdráttar, eins og oft á sér stað, þótt um nauðsynjafyrirtæki sé að ræða; þau verða flest, áður en þeim verður framgengt, að ganga í gegn um margs konar mótmæla. En það er ekki vert að æðrast yfir slíku, heldur gleðjast yfir, að þetta fyrirtæki er til lykta leitt, og samfagna héraðsbúum þeim, sem þess eiga helst að njóta, og þeim mönnum, sem mest hafa fyrir því barist.


Ísafold, 12. sept. 1891, 18. árg., 73. tbl., bls. 290:
Ingeniör Ripperda hefur nú skoðað brúarstæði á Þjórsá að tilhlutun landshöfðingja.

Brú á Þjórsá.
Samkvæmt áskorun Alþingis í sumar hefir að tilhlutun landshöfðingja ingeniör Ripperda skoðað brúarstæði á Þjórsá, og er mælt, að hann sé eindregið á því, að það sé lang-líklegast þar, sem Tryggvi Gunnarsson benti á, en það er á milli þeirra brúarstæða, er þeir Windfeldt Hansen og Hovenak höfðu viljað velja, sitt hvor. Öll eru þessi brúarstæði á sama svæði, heldur litlu, milli bæjanna Urriðafoss og Þjótanda.


Austri, 30. sept 1891, 1. árg., 6. tbl., bls. 22:
Halda á sameiginlegan sýslufund beggja Múlasýsla og ræða m.a. vegagerð á Seyðisfjarðarheiði sem mörgum finnst tímabær.

Sameinaður sýslufundur.
Úr báðum Múlasýslum verður haldinn á Egilsstöðum 8. þ.m. og á þar að ræða þrjú mál, er varða Austurumdæmið mikils: nefnil. vegagjörð á Seyðisfjarðarheiði, gufubátaferðir á Austfjörðum og flutning höfuðpóststöðvanna frá Höfða. Skulum vér leyfa oss, að fara nokkrum orðum um þessi mikilsvarðandi málefni.
Það er, hvað hina fyrirhuguðu vegagjörð á Seyðisfjarðarheiði snertir, mjög heppilegt, að landsstjórnin mundi þó loksins eftir því, að Austurland þyrfti vegabóta við ekki síður en hinir fjórðungar landsins, því hingað til hefir það mjög farið þeirra á mis og verið stórum haft útundan og að olnbogabarni, hvað vegabætur áhrærir, að minnsta kosti á móts við Suður- og Norðurland, því á allri póstleiðinni að norðan og hingað á Seyðisfjörð hafa engar vegabætur verið gjörðar hér eystra, svo að nokkru sé teljandi, ekki einu sinni á hinum fjölfarnasta þjóð- og póstvegi landsins, hinni illræmdu Seyðisfjarðarheiði, sem er fjallvegur milli tveggja sýslna að langstærsta kaupstað þessa landsfjórðungs; en það munu nálægt tíu ár síðan byrjað var á póstveginum yfir Vaðlaheiði og Öxnadalsheiði, sem nú er fyrir löngu lokið við, og er þó Seyðisfjarðarheiði miklu lengri og verri yfirferðar en þær, enda hefir margur mátt á því kenna og orðið oft að manntjóni.
Þegar nú á loks að byrja á því nauðsynjaverki að leggja veg yfir heiðina, þá ætti það ekki að lenda í káki einu, eins og vegagjörðin á Vestdalsheiði, þar sem mörgum hundruðum króna var eitt til einskis, heldur ætti nú að leggja góðan upphækkaðan veg yfir alla heiðina, sem gæti verið til frambúðar og sjá svo um að vegurinn upp á heiðina beggja megin yrði miklu betur sniðskorinn en nú á sér stað. Til vegarins yfir Vaðlaheiði, sem þó er meira en helmingi styttri, mun hafa farið nálægt 10.000 kr. Og þá þyrfti sjálfsagt 20.000 kr. til þess að gjöra góðan og vel varðaðan veg yfir Seyðisfjarðarheiði. Væri þeim peningum nokkru betur varið á svo fjölförnum þjóðvegi sem Fjarðarheiði er, en e. 15.000 kr. til vegar á norðurhluta Grímstunguheiðar, sem mest er farinn af kaupafólki og gangnamönnum. Austlendingar hafa réttláta og fulla heimting á því, að hinn fjölfarnasti þjóðvegur þeirra og aðalviðskipta- og kaupstaðarleið verði nú loksins gjörð svo, að það verði ekki lengur lífsháski fyrir menn og skepnur að fara hana. Vegna vetrarferðanna þyrfti og sæluhús á heiðinni. Með því mundi margt mannslíf sparast.
Hvað gufubátsferðunum hér á Austfjörðum viðvíkur mun það öllum ljóst, að þær hljóta að efla betri og auðveldari samgöngur, og létta vöruflutninga, greiða fyrir öllum viðskiptum manna í milli á þessum landsfjórðungi, efla sjávarútveginn, með því yrði miklu hægra að ná beitu þangað sem hana vantaði o. m. fl. svo það væri vissulega tilvinnandi fyrir sýslufélög landsfjórðungs þessa, að styðja svo gott mál með hæfilegum fjárframlögum. - En vér viljum innilega óska, að hinir háttvirtu fundarmenn verði þess minnugir, að Norðurþingeyjarsýsla heyrir nú líka Austuramtinu til samkvæmt yfirlýstum vilja sýslunefndarinnar; en Norðurþingeyjarsýsla er sá hluti landsins, sem einna harðast er leikinn, með því að þar í sýslu koma strandferðaskipin hvergi við, og eru þar þó allgóðar sumarhafnir, bæði Þórshöfn og Raufarhöfn, en sýslan sjálf mjög afskekkt, víðlend og víða vondir fjallvegir, en víðast landgæði og sveitir góðar, sem mundu taka hinum mestu framförum við betri samgöngur. Það má því heita lífsspursmál fyrir Norðurþingeyinga að verða aðnjótandi að gufubátsferðum og mundi líka hagnaður fyrir hina hluta amtsins að geta skipst vörum á við þá. Teljum vér víst, að sú sýsla mundi eigi skorast undan að leggja til þeirra að sínum hluta, því það hyggjum vér mjög svo óvíst að reiða sig nokkuð á að saman gangi með erlendum félögum nálægt þeirri ferðaáætlun Alþingis er hér fer að framan, þar eð alþingi hafði ekki vit á að ganga að tilboði O. Wathne.
Það er auðséð að Austurskaptafellssýsla lægi eðlilegast við gufubátaferðum hér frá Austfjörðum, og er það ein ástæðan af þeim mörgu fyrir sameiningu hennar við Austuramtið, sem vonandi er að umboðsstjórnin verði ekki andstæð til lengdar gegn marg auglýstum vilja Austurskaftfellinga og á móti hagsmunum sýslunnar og fornri fjórðungaskipun landsins, er þótti hagfelld þá er hagur landsins stóð með mestum blóma.
Þriðja málið, er liggur fyrir þessum sameiginlega sýslufundi, er flutningur aðalpóststöðvanna hér austanlands frá Höfða.
Finnst oss þá góðar og gildar ástæður mæla með að flytja þær hingað á Seyðisfjörð, sem er langfjölmennasta kauptún á Austurlandi, rekur langmesta verslun og önnur viðskipti við uppsveitir og hefir hinar greiðustu og flestu samgöngur við útlönd af öllum kaupstöðum landsins. Hið núverandi fyrirkomulag er alveg óhafandi, því hálfan hluta ársins, og það einmitt þann hlutann, er öll viðskipti manna eru mest, á vorin og sumrin, fer sunnanpósturinn ekki lengra en að Höfða, en ekki er svo mikið sem aukapóstur sendur á Seyðisfjörð. Verða því bréfin að bíða norðanpósts vikunum saman á Höfða til þess að komast til skila hingað, eða menn fá þau þaðan ábyrgðarlaus og á skotspæni og geta átt á hættu að tapa þeim peningum og peningavirði, án þess að eiga tilkall til skaðabóta. En að öðrum kosti verður að kosta mann gagngjört héðan eftir bréfunum við hverja sunnanpóstskomu, vor og sumar, nær þingmannaleið héðan upp að Höfða; og senda mann héðan sömu leið, ef menn þurfa að koma bréfum og sendingum á sunnanpóstinn. Er vonandi allir skynberandi menn sjái, hve afleitt og ranglátt hið núverandi fyrirkomulag er og leggist á eitt til að bæta úr því með að flytja aðalpóststöðvarnar frá Höfða og hingað á Seyðisfjörð.
Aukapósturinn til Vopnafjarðar ætti og að ganga héðan upp yfir Vesturdalsheiði yfir Eiða og Bót og sömu leið til Vopnafjarðar og verið hefur. Það stendur líkt á með hann og sunnanpóstinn. Ef menn þurfa að koma bréfi á hann, þá þarf að senda með það gagngjört að Höfða, því hann fer strax þaðan eftir komu norðanpóstsins. Að láta aukapóstinn til Vopnafjarðar fara héðan væri og mikill hagnaður fyrir allan norðurhluta þessarar sýslu og Þingeyinga, þar sem strandferðaskipin koma miklu sjaldnar við, bæði á Vopnafirði og Húsavík en hér, þar sem líka má á sumrum heita nær því daglegar samgöngur við útlönd, sem ekki geta komið þessum héruðum að notum, er aukapóststöðvarnar eru nær þingmannaleið frá viðkomustað skipanna langt upp í sveit!!!
Þó að aðalpóststöðvarnar væru fluttar hingað og aukapósturinn til Vopnafjarðar legði upp héðan, þá væri víst óhjákvæmilegt, að hafa póstafgreiðslustað á Völlunum til afgreiðslu aukapóstanna upp í Fljótsdal og að Hjaltastað, sem ætti líka að ganga niður í Borgarfjörð, og svo virðist nægja að hafa aukapóst til Eskifjarðar og suðurfjarðanna.
Með því fyrirkomulagi, er vér höfum leyft oss að stinga hér upp á sparaðist póstsjóðnum líka töluvert fé, með því að hafa aðeins bréfhirðing á Eskifirði og losast við biðpeninga norðanpóstsins á Höfða á meðan hann bíður þar eftir sunnanpósti, sem nú er orðinn stöðugur útgjaldaliður, en alþýða fengi miklu hagkvæmari póstleiðir og betri samgöngur hér austanlands. Það virðist örðugt að neita því, að það sé ranglátt að menn þurfi að senda 2 hraðboða héðan við hverja póstferð til að taka og flytja frímerkt bréf til og frá Höfða á sunnanpóstinn, og aðra tvo til þess að hafa gagn af Vopnafjarðarpóstinum. En það getur orðið ómetanlegt tjón að því, að útlend bréf, er hingað koma með gufuskipunum, liggi hér lengi. Og loks finnst oss það nær pósthneyksli, að sýslumaðurinn í Norðurmúlasýslu geti ekki staðið í neinu reglulegu póstsambandi við nær helming af sýslu sinni fyrir þetta fráleita fyrirkomulag, heldur verður hann sem aðrir að senda gagngjört upp á eigin kostnað með frímerkt embættisbréf sín að Höfða! Þetta mun vera eins dæmi hér á landi, að sýslumaður þurfi að senda nær þingmannaleið fyrir ærna peninga til þess að koma embættisbréfum sínum ekki einungis á aðalpóstinn, heldur líka á sjálfan aukapóst sýslunnar!! Finnst oss sem þetta kóróni hið óhagkvæma núverandi fyrirkomulag með aðalpóststöðvarnar upp í Héraði og aukapóst þaðan til Vopnafjarðar.


Ísafold, 17. okt. 1891, 18. árg., 83. tbl., forsíða:
Hér er fjallað um vegagerð frá Ölfusárbrú og upp að Ingólfsfjalli og er þetta sagður dýrasti vegaspotti sem lagður hefur verið á landinu og að sama skapi vandaður. Ekki eru menn þó sáttir við vegastæðið og finnst kominn tíma til að fá fastan vandlega valinn verkfræðing, útlendan eða innlendan til að stjórna vegagerð landsins.

Vegagjörð upp frá Ölfusárbrúnni.
Til þess að Ölfusárbrúin yrði notuð undir eins tálmunarlaust, þurfti að gjöra ferðamönnum fært yfir vegleysu þá, mýri og móa, sem er á milli alfaravegarins meðfram Ingólfsfjalli og brúarsporðsins vestari, eins og skýrt var frá í Ísafold í fyrra. En úr því svo var, þótti réttast að gjöra þar þegar fullkominn veg, góða akbraut, eins og hinir nýju vegarkaflar hafa verið hafðir, er lagðir hafa verið á landssjóðs kostnað hin síðari árin, frá því lærðir vegfræðingar fóru að skipta sér af því. Fyrir því var að undirlagi lands-höfðingja vegarstæði um þetta pláss skoðað. Í vetur sem leið, af Erlendi Zakaríassyni, og tekið til starfa á miðju sumri, skömmu eftir að alþingi var sett og fengið vilyrði þingmanna fyrir áætlaðri fjárveitingu til vegarspotta þessa. Hefir verkinu síðan verið haldið áfram til skamms tíma, eða 10. þ. m., er því var að fullu lokið, en byrjað var það 7. júlí. Verkstjóri hefir Erlendur Zakaríasson verið, og segja þeir, sem séð hafa, veginn mjög vel af hendi leystan; enda er þetta eigi fyrsti vegurinn, sem Erlendur hefir gert og gert vel.
En vegarspotti þessi er að líkindum einhver hinn dýrasti, er hér hefir gerður verið. Hann er rétt viðlíka á lengd og ráð var fyrir gjört í áætluninni, og kunnugir vita, að ekki er um miklar torfærur að tefla á því svæði, er hann liggur um. Mundu því flestir hafa fortekið, að faðmurinn af honum mundi geta kostað stórum meira en á var ætlað, 4 kr., eða um 5.000 kr. vegurinn allur. En raunin mun hafa orðið sú, að vegurinn kosti þriðjung meir, eitthvað á 8. þúsund, líklega nær 8 en 7 þúsundum. Unnu að honum um 30 manna til jafnaðar hér um bil 80 virka daga, með 8-10 hestum og 4-5 vögnum, auk mikilla vinnutóla annarra (100 planka til að aka eftir o. s. frv., m. m.). Í stað 4 kr. kostaði vegurinn 10. kr. faðmurinn á einum kafla, eigi allstuttum, um 150 faðma, en á sumum köflum öðrum 6-7 faðma. Lengd vegarins alls er 1322 faðmar.
Þá er nú eigi tiltökumál, þótt slíkar áætlanir standi engan veginn fyllilega heima. En að svona stórkostleg skekkja skuli geta átt sér stað, það er eitthvað bogið, nú þegar búið er þó í mörg ár að fást við slíkar áætlanir og leggja vegi eftir þeim. Annaðhvort hlýtur sú iðn enn að vera í furðu mikilli bernsku hjá oss, eða þá að hér er um slysalega handvömm að tefla.
Það mun ekki leyna sér, að þetta, sem síðar var nefnt, hafi hreppt vegargjörð þá er hér ræðir um.
Eftir uppástungu Erl. Zak. átti vegurinn að liggja nokkuð á snið upp frá brúnni út á við upp undir fjallið. Með þeirri stefnu mælti þegar það atriðið, að þá styttist vegurinn með fjallinu nokkuð, en hann verður að gjöra að akvegi fyr eða síðar, og er þá hreinn gróði hver faðmur, sem sparast af honum, að öðru jöfnu. Því lengra en að brúarveginum þarf eigi þjóð-vegurinn með fjallinu ekki að ná nokkurn tíma; framhald hans kemur eigi að notum nema örfáum bæjum lengra upp með því. Þar að auki var mikið jafnlent á þessu svæði, svo að hvergi þurfti að grafa niður né hækka upp svo teljandi væri, til þess að fá veginn hæfilega jafnsléttan. Loks hagar svo til, að þótt vegurinn þannig lagður kæmi talsvert utar saman við Ingólfsfjallsveginn heldur en ef stefnt var þverbeint frá brúnni upp undir fjallið, þá hefði hann samt eigi orðið hóti lengri, heldur jafnvel nokkrum föðmum styttri, 1300 faðmar í stað 1322. Og geri maður 400 faðma langt bilið með fjallinu milli þessara tveggja vegarstefna, þá er það, að kjósa hina eystri, beint upp undir fjallið, sama sem að láta landssjóð kosta 1722 faðma veg þar, sem komast mátti af með 1300 faðma.
Hver stefnan giska menn nú á að kosin hafi verið á endanum?
Hver nema einmitt sú sem ver gegndi, hin eystri, sem skapar landssjóði á að giska 1732 faðma vegarlengd til lagningar að upphafi og síðan til viðhalds um aldur og æfi, í stað 1300.
Vitanlega getur svo staðið á og stendur margsinnis svo á, að betri er krókur en kelda, að betri er meiri vegalengd, vegna miklu greiðara vegarstæðis þar og þar af leiðandi kostnaðarminni að öllu samtöldu, þrátt fyrir lengdarmuninn. En því fer svo fjarri, að slíku væri hér til að dreifa, að eystra vegarstæðið var einmitt miklu ógreiðara, miklu torfærumeira, sem sýnir sig best á því, hve dýrt hefir orðið að leggja þar veginn, um mikinn kafla af því að minnsta kosti. Þar er sem sé mishæðótt, svo grafa þurfi stórum niður veginn sumsstaðar og hækka upp þess á milli, en sumsstaðar kviksyndis-dý og -fen, er gerði vegarvinnuna afar-erfiða og kostnaðarsama.
En hverjum gátu orðið svona mislagðar hendur í eigi meira vandamáli en þetta virðist hafa verið?
Svo ógeðfellt sem það er að hallmæla manni á bak, en svo má það heita, að rita um hann ámæli á honum ókunna tungu í fjarlægu landi, það verður að segja hverja sögu eins og hún gengur. Sagan er þá sú, að það var hinn danski verkfræðingur. v. Ripperda, er Kaupmannahafnarstjórnardeildin hafði útvalið til umsjónar af sinni hálfu við Ölfusárbrúarsmíðið í sumar, - það var hann, er réð þessari óhappabreytingu á vegarstefnunni, mældi hinn nýja veg og sagði fyrir um alla tilhögun á honum. Hafði landshöfðingja að sögn verið boðin hans liðveisla til að segja fyrir um vegagjörð þar, sem hann næði til frá brúnni í sumar, kostnaðarlaust, með því að hann hafði fullt kaup frá öðrum hvort sem var. Hefir landshöfðingi að líkindum eigi þóst mega eða viljað hafna svo góðu boði, þar sem hann hafði og engan lærðan verkfræðing sér við hönd.
Hvað hann hefir haft fyrir sér, er hann hafnaði vegarstefnu Erlendar, og færði sig svona langt austur á við, af jafnlendi á óslétt land, fenjótt og dýótt, mun flestum óljóst. Því látum svo vera, að honum hafi verið talin ranglega trú um, frá mönnum, er af sérplægnisástæðu var ekki sama hvar vegurinn var, að hann lægi miklu fremur undir vatnságangi og snjóa á vetrum á vestari staðnum, fram hjá Árbæ, þá var honum eigi ofætlun, að sjá hið rétta, að sjá það sem kunnugum ber saman um, að álíkt er um snjóþyngsli og þ.h. á báðum stöðunum, en jafnlendið og sérhvað annað, er áður hefir talið verið, mælti með Árbæjarstefnunni. Þar við bættust svo býsna miklar hallajafna-reikningsvillur hjá honum, er aukið hefðu enn kostnaðinn mikið, ef þær hefðu fengið að standa. Loks sparaðist þó nokkur hundruð króna kostnaður fyrir það, að horfið var frá vegarstefnu hans, er niður eftir dró, niður fyrir mýrina, eftir að landshöfðingi var búinn að sjá hana, þegar hann kom austur að vígja brúna, og leist eigi betur á en svo, að sögn; enda kom hinn útlendi verkfræðingur eigi nærri verkinu upp frá því.
Tvö-þrjú þúsund krónur er reyndar eigi mikið fé í sjálfu sér, og vitaskuld er alls eigi við að búast, að ekki vilji til því líkur halli við og við á nokkuð stórum fyrirtækjum, er sjá má eftir á, að hægt hefði verið að komast hjá. En það er mikið fé þar, sem lítið er af að taka og ekki meiri en aðalupphæðin er; allur kostnaðurinn til þessa ofurlitla vegarspotta.
Lærdómurinn, sem leiða má út úr þessu óhappi, þessari handvömm, - hann er sá, sem Ísafold hefir margsinnis vikið á, hvílík ráðleysa það er, að ætla sér að bjargast að föngum til með verkfróðra aðstoð við mannvirki á almennings kostnað, í stað þess að hafa hér fastan vandlega valinn verkfræðing, útlendan eða innlendan, mann, sem ekki þarf að fara hót eftir annarra sögusögn, og hefir von bráðara í huganum greinilegt yfirlit yfir, hvernig vegir eigi að liggja um landið, og framfylgir því, svo eigi þurfi að vera að hlaupa í vegargjörð hingað og þagnað að handa hófi, án þess að vita, hvernig þeir molar falla í aðalbygginguna, né annað, sem vita þarf og leggja niður fyrir fram, eigi nokkurn tíma að fást sæmileg trygging fyrir því, að vegabótafé landsins eigi varpað á glæ fyrir ráðleysu og handvömm.
Aðfengnir verkfræðingar um stuttan tíma eru harla gagnslitlir á við það sem þeir geta orðið, og hljóta að verða, séu þeir vel valdir, ef þeir ílengjast hér. Takist valið heppilega, svo sem segja má vafalaust um þá Hovdenak og Siwertson, þá eru þeir tapaðir óðara en þeir fara að kynnast, í stað þess að þá ríður hvað mest á að halda í slíka menn. Takist það miður, geta þeir orðið til tjóns og ekki annars. En því oftar sem þarf að vera að útvega slíka menn, því hættara er við að valið misheppnist. Enda er þeim, sem ráða eiga, ætlandi að leggja sig betur í framkróka um valið, er það á að verða til frambúðar, auk þess sem þá má til frekari varúðar ráða manninn að eins til bráðabirgða fyrst um sinn og festa hann eigi í embættinu nema hann reynist vel.

Austri, 20. okt. 1891, 1. árg., 8. tbl., bls. 31:
Hér segir Austri frá vígslu Ölfusárbrúar.

Ölfusárbrúin.
Þann 8. f. mán vígði landshöfðingi Magnús Stephensen brúna að viðstöddum fjölda fólks með mikilli viðhöfn og hélt snjalla vígsluræðu eftir að sungið hafði verið vígslukvæði eftir landritara Hannes Hafstein með nýju lagi eftir Helga Helgason. Var og blásið á horn. Brúin er 120 álna löng milli stólpanna beggja megin árinnar; en að austanverðu varð að lengja brúna um 60 álnir, svo fært yrði að aðalbrúnni á vatnavöxtum. Brúin er hengibrú, er hangir í margþættum afar sterkum járnstrengjum sem festir eru um brúarstólpana og þaðan í akkeri sem múruð eru niður báðum megin nokkuð fyrir ofan stólpana. Brúarkjálkarnir hanga í mörgum járnböndum neðan í brúarstrengjunum og úr kjálkunum ganga þverslár margar, og er allt þetta úr járni. En ofan í þessar slár er sjálft brúargólfið lagt úr plönkum. Allt til brúarinnar er smíðað á Englandi og yfirsmiðurinn enskur. En kaupstjóri Tryggvi Gunnarsson hefir byggt brúna fyrir 60.000 kr. Bauðst enginn til að gjöra það fyrir svo lítið, enda mun hann hafa skaðast á því fyrirtæki um margar þúsundir króna, kostað líka að ýmsu leyti meira til, en hann var skyldugur samkvæmt samningi.


Austri, 30. okt. 1891, 1. árg., 9. tbl., forsíða:
Til stóð að halda sameiginlegan sýslufund Múlasýsla en fáir mættu úr Suður-Múlasýslu. Voru því málin aðeins rædd frá hálfu Norður-Múlasýslu og ályktað m.a. um veg yfir Fjarðarheiði.

Sýslufundurinn.
Ár 1891 fimmtudaginn 8. október var sýslunefndarfundur fyrir Norður-Múlasýslu haldinn að Egilsstöðum á Völlum samkv. áskorun meiri hluta sýslunefndarmanna. Var svo til ætlast samkv. áskorun þessari að fundurinn væri sameinaður fyrir báðar Múlasýslur, en af sýslunefndarmönnunum úr Suður-Múlasýslu eru aðeins mættir sýslunefndarmennirnir úr Skeggjastaðahreppi, Vopnafj.hr., Hlíðarhreppi, Fellahr. Fjótsdhr. Tunguhreppi, Hjaltastaðahr., Loðmundarfjarðarhreppi, og varð því eigi haldinn sameinaður sýslufundur fyrir báðar Múlasýslur. En þó að þau málefni, er gáfu tilefni til fundarins, vörðuðu báðar Múlasýslur, var það gjört að samþykkt, að ræða þau frá hálfu sýslunefndar Norður-Múlasýslu.
Var svo tekið til umræðu:
1. Um gufubátsferðir á Austfjörðum og hluttekning sýslufélagsins í þeim kostnaði, er þær mundu hafa í för með sér, gagnvart styrk þeim, er veittur er á fjárlögunum fyrir 1892-93 úr landssjóði.
Eftir nokkrar umræður var samþykkt í einu hljóði svohljóðandi ályktun:
Sýslunefndin samþykkir, að styrkur sá, er veittur er á fjárlögunum fyrir 1892 og 93 (6.000 kr. fyrir bæði árin) til gufubátsferða á Austfjörðum, verði veittur sveitafélögunum á Fljótsdalshéraði til að koma á gufubátsferðum um Lagarfljótsós og ákveður að leggja fram 1.000 kr. úr sýslusjóði Norður-Múlasýslu til þess fyrirtækis fyrir bæði árin, þó með því skilyrði, að eigi verði lögð frekari byrði á sýslufélagið til þess fyrirtækis þessi 2 ár.
2. Um vegagjörð á Fjarðarheiði.
Eftir nokkrar umræður var samþykkt í einu hljóði: Að skora á landsstjórnina, að veita næsta ár af því fé, er veitt er á fjárlögunum til vegagjörða, 5.000 kr. til vegagjörðar á póstleiðinni um Fjarðarheiði af Fjarðaröldu upp til sýslumóta.
3. Um kaup á trébrú þeirri, er kaupm. O. Wathne hefir látið byggja yfir Fjarðará í Seyðisfirði.
Eftir nokkrar umræður var samþykkt í einu hljóði þessi ályktun:
Sýslunefndin tjáir sig fúsa til, að taka einhvern þátt í að borga brúna yfir Fjarðará ef Suður-Múlasýsla, Seyðisfjarðarhreppur, kaupm. O. Wathne og pöntunarfélag Fljótsdalshéraðs taka einnig þátt í borguninni, en sér sér ekki fært að tiltaka neina upphæð, fyr en brúin er virt af óvilhöllum virðingarmönnum.
........


Ísafold, 25. nóv. 1891, 18. árg., 94. tbl., forsíða:
Enn vantar brú á Hvítá í Borgarfirði og er greinarhöfundur mjög óhress með það.

Aðalbrú á Hvítá í Borgarfirði.
Einstök fyrirmunun má það heita, að enn skuli vanta aðalbrú, þjóðleiðarbrú, á Hvítá í Borgarfirði, ferjuvatn, sem þrír landfjórðungar eiga leið yfir til höfuðstaðar landsins, eina ferjuvatnið í öllum Vestfirðinga fjórðungi, og þó að eins á takmörkum hans. Þar að auki klýfur á þessi að endilöngu eitt með fjölbyggðustu héruðum landsins, sem nú er eitt lögsagnarumdæmi.
Ókunnugir hljóta að ímynda sér, að mjög mikill vandi og lítt kleifur kostnaður muni vera að brúa þá á. Þeir hugsa sjálfsagt, að það muni kosta marga tugi þúsunda; annars mundu héraðsbúar sjálfir löngu búnir að leggja slíka brú.
Þeir væru og líklegast búnir að því nú, ef eigi væri vegalögin frá 1887, er vörpuðu öllum slíkum fyrirtækjum á landssjóð, með öðrum torfærum á aðalpóstleið; því aðalbrú á Hvítá verður að vera á póstleið og þjóðleið.
Þeir hafa, eða réttara sagt 2-3 sveitir, brúað ána, eins og kunnugt er, í sumar, en langt úr þjóðleið, á Barnafossi, mest fyrir fjárrekstra, en þó svo vel, að fara má þá brú með klyfjaburð.
Vandinn og kostnaðurinn að brúa Hvítá á fyrirhugaðri þjóðleið að henni og frá er sem sé svo ótrúlega lítill, að jafnvel fátæk sýslufélög hafa lagt á sinn kostnað hálfu dýrri brýr, já margfalt dýrri.
Í sumar var lögð á landssjóðs kostnað brú á smásprænu eina skammt héðan, er fáir hafa heyrt nefnda utanhrepps; hún heitir Leirvogsá. Það mun hafa kostað um 3.000 kr., brúin sjálf og steinstöplarnir undir brúarsporðana beggja vegna. Og það er einstaklega traust og vel gerð brú. Hún er líka að eins 22 álnir á lengd.
Hvað er það að miða við annað eins höfuðvatnsfall og Hvítá í Borgarfirði! - munu menn segja.
Jú, viti menn!
Leirvogsárfarvegurinn er 22 álnir á breidd á brúarstæðinu.
Hvítárfarvegurinn er á hinu fyrirhugaða aðalbrúarstæði er, - hann er fjórðungi mjórri. Hann er ekki nema 17-18 álnir á breidd!
Og þessi ósköp hafa menn látið sér í augum vaxa allt til þessa dags, í mörg hundruð ár!
Auðvitað höfðu formenn brú á Hvítá á þessum stað, sem lesa má í Sturlungu og víðar. En vitanlega hlaut hún að takast af undir eins og hún fúnaði, eftir íslenskri manndáð á 14. og 15. öld. Að koma henni á aftur, - slíkt fyrirtæki hefir þjóðin sem sagt eigi hætt sér út í þau 6-700 ár, sem síðan eru liðin.
Þetta ægilega stórvirki kostar líklega 3000 kr.! Það kostar hálf, hálf eins árs eftirlaun eins embættismanns, eða lítið meira.
"Miklar hetjur erum við, Hrólfur minn!" Miklir garpar erum vér, Íslendingar.
Menn halda sjálfsagt að þessi kostanaráætlun nái engri átt.
En því skyldi það vera?
Brúin á Barnafossi kostaði eigi 2.000 kr., og er þó 4 álnum lengri en hin brúin þarf að vera, hjá Kláffossi. En af því það á að vera aðalbrú, er hæfilegt að ætlast til, að hún sé höfð þeim mun veigameiri, að trésmíðið, brúin sjálf, verði samt eins dýrt, - þó að miklu skemmra sé að flytja efnið og þó að mikill viður og talsverður smíðakostnaður hafi farið í kvíar úr frá báðum brúarsporðunum á Barnafossi, vegna gljúfrahættunnar þar. Þá eru samt meira en 1.000 kr. eftir, og þær eru ætlaðar í grjótvinnu undir brúarsporðana, stöpul eða stöpla. Hún var engin við Barnafoss; brúin liggur á gljúfurbörmunum; gljúfrin eru nógu djúp til þess.
Það mun þurfa lítið sem ekkert að hlaða undir brúna á Kláffossi nema öðrum megin. Norðmenn hafa nú kennt íslenskum vegagjörðamönnum að hlaða brúarstöpla án steinlíms, og það vel rammbyggilega, sem sjá má á Hólmsbrúnni og Leirvogsbrúnni. Til þess þarf vitanlega hentugt grjót, það er; grjót, sem kljúfa má eða höggva. Bresti það á þeim stað eða þar nærri, mun verða að hafa steinlím, og eykur það kostnaðinn nokkuð, en eigi stórkostlega. Enda ætti ekki að líða yfir neinn, þótt kostnaðurinn kæmist eitthvað fram úr þessu, sem hér er nefnt. Að hann þurfi að fara fram úr 4.000 kr., það er að minnsta kosti lítt hugsandi.
Ýmsir munu hafa heyrt getið um allt öðruvísi lagaða áætlun um brúarkostnaðinn hjá Kláffossi. Þeir munu hafa heyrt nefndar 10.000 í stað 3 eða 4, og það eftir vitring í þeim efnum, hálærðan vegfræðing. Hér skal og eigi dirfst að rengja einn staf í þeirri áætlun. Munurinn er sá, að hann (Siwerson) á við járnbrú, en hér er gert ráð fyrir trébrú.
En að hafa járnbrú yfir Hvítá hjá Kláffossi er bersýnileg þarfleysa. Aðalreglan með járnbrýr og trébrýr virðist annars vera sú, að hafa stórbrýr, brýr yfir langt haf, úr járni, en smábrýr úr tré. En mundi þessi Hvítárbrú hjá Kláffossi geta kallast stórbú á nokkru byggðu bóli? Eða því skyldi hún, 17 álna lögn, eiga að nefnast stórbrú, og vera smíðuð úr járni, en 20, 30 eða jafnvel 40 álna brýr á öðrum ám heita smábrýr og hafðar úr tré, eins og altíðkanlegt er, hvor sem þær eru í þjóðbraut (aðalpóstleið) eða eigi? Er það af því, að Hvítá þessi er fræg, mikils háttar, göfug á, sem skilur landsfjórðunga?
Þessu mun svarað svo, að það sé betra sem betra er, að hafa brýr úr járni en tré.
Getur vel verið, - ef, efnin leyfa.
En meðan landið á svo í vök að verjast með fjárhaginn sem það á, og getur ekki framkvæmt hundraðasta partinn af því, sem það bráðþarfnast fyrir, og fyrir þá sök lætur sér duga smábrýr af tré, sem vel má fara - það gera jafnvel efnaðri þjóðir -, á meðan er hégóma-tiktúra að láta sér vandara um eina á annarri fremur, eða eina smábrú af mörgum.
Vextir og vaxtavextir af kostnaðarmuninum á járnbrú og trébrú er miklu, miklu meiri en viðhaldskostnaðurinn á trébrúnni, að fyrningu meðtalinni eða endursmíðun trébrúarinnar í hvert sinn sem þess þarf. Er því mun hyggilegra, að spara sér þann kostnaðarauka, þegar það er hægt, þ. e. brúin eigi svo stór, að nauðsyn beri til fyrir styrkleika sakir, að hafa hana úr járni. Fyrir oss, jafnfélausa og jafn skammt áleiðis komna að brúa ár og læki á landinu, er einsætt að hafa þá reglu, að brúa heldur 3 ár, en 1 fyrir sama fé. Vér þurfum eigi að brúa þessar 3 ár illa fyrir því. Munurinn er sá, að viðhaldið er meira á trébrúnum, er til lengdar lætur, en það á niðjum vorum eigi að vera nein ofætlun.
Það er hneyksli, að láta Hvítá þessa vera óbrúaða lengur. En það verður hún samt sjálfsagt mörg ár enn, ef ekki má gera það öðruvísi en með járnbrú, og ef endilega á að leggja dýran akveg að brúarstæðinu beggja vegna samsumars. Þá verður sjálfsagt að bíða eftir sérstaklegri fjárveiting þingsins til þess; en þá verður farið að metast um, hver áin af mörgum skuli ganga fyrir; aðrir landsfjórðungar eða þeirra þingmenn halda þá fram hver sinni á. Getur þá svo farið, að Hvítá verði að bíða von og úr viti með því móti.
Í stað þess að með hinu mótinu mætti brúa ána nú þegar á næsta sumri. Enginn færi að metast um það, þó að varið væri 3.000 kr. af þess árs vegabótafé (30.000) til jafnáríðandi og merkilegrar samgöngubótar, úr því að enginn fékkst um aðra eins fjárbrúkun við Leirvogsána í sumar.
Til vegabóta við brúna þarf naumast öðru til að kosta í bráðina, en að gera vel fært með hesta yfir mýrina vestan árinnar, og getur það eigi miklu numið.
Þess má geta, ókunnugum til skýringar að Kláffoss-brúarstæðið, sem er skammt fyrir neðan Síðumúla, má heita í beinni stefnu frá Varmalækjarmelum upp í Norðurárdal þar, sem vegir skiptast norður í land og vestur, og sjá allir, að sú vegarstefna lengir eigi, heldur styttir til muna þjóðveginn, langferðamannaveginn, yfir Borgarfjörðinn. Hvað héraðsmenn sjálfa snertir, þá eru það að eins neðstu sveitirnar við ána, sem eigi hafa gagn af brúnni sín á milli, og svo Mýramenn og kann ske Snæfellingar eða þeir sem þangað eiga erindi sunnan yfir. En Mýramenn liggja við sjó og nota hann mest til ferða og flutninga. Og að fara að kosta upp á brú hinna vegna neðar á ánni, brú, sem hlyti að verða sjálfsagt meira en tífalt dýrari en á Kláffossi, það væri hin mesta fjarstæða, og er furða, að slíkt skuli hafa verið tekið í mál. Auk þess er einmitt þar niður frá vað á ánni, alfært fyrir kunnuga meiri hluta sumars.


Ísafold, 5. des. 1891, 18. árg., 97. tbl., bls. 186:
Hér er sagt frá vegagerð í Húnavatnssýslu en þar hefur verið unnið á nokkrum köflum milli Miðfjarðarár og Stóru-Giljár.

Vegagjörð í Húnavatnssýslu.
Aðal-landssjóðs-vegagjörðin í sumar sem leið, 1891, fór fram á nokkrum köflum aðalpóstleiðarinnar milli Miðfjarðarár og Stóru-Giljár í Húnavatnssýslu, og var verkstjóri Páll Jónsson vegfræðingur, er verið hefir nokkur ár í Noregi að fullnuma sig í vegagjörð, bæði bóklega og verklega. Var byrjað á vinnunni í miðjum júní og haldið áfram til septemberloka. Mannaflinn var 27 að tölu lengst af, að verkstjóra meðtöldum, sem gekk til vinnu eins og aðrir. Í vinnunni voru og hafðir 8 hestar, og 4 kerrur.
Á Miðfjarðarhálsi var langmest unnið: lagður þar nýr vegur um 3.400 faðma, frá Káradalslæk (suður frá Sporði) vestur um Sellæk, er fellur í Miðfjarðarvatn. Það kvað vera mjög vandaður og vel gerður vagnvegur, og halli hvergi meiri en 1:15, og það aðeins á einum stað.
Þar að auki var gert við eða lagðir smáspottar á 4-5 stöðum á téðum vegi, svo sem 25 faðma spotti nýr norðanvert við Dalsá í Víðidal; 174 faðma löng brú fyrir vestan Gröf í Víðidal umbætt, gerð 6 álna breið og ræsi gerð næg í gegn um hana og borið ofan í ; gjört við brú fyrir sunnan Hólabak; loks gert mikið við veginn frá Skriðuvatni út fyrir neðan Brekkukot í Sveinsstaðahreppi, meira en 2300 faðma, einkanlega á Axlarbölu, 300 faðma löngum kafla, gert mikið við tvær langar brýr þar, m. m.


Ísafold, 16. des. 1891, 18. árg., 100. tbl., forsíða:
Hér er fjallað um veginn frá Ölfusárbrú að Ingólfsfjalli og vill sr. Ísleifur Gíslason taka á sig ábyrgðina á vegstæðinu. Ritstjóri Ísafoldar er honum ekki sammála.

Meira um vegagjörð upp frá Ölfusárbrúnni.
Eftirfarandi grein frá hr. Ísleifi presti Gíslasyni í Arnarbæli, sem riturð er í leiðréttingarskyni við greinina í Ísaf. 17. okt. þ. á., gjörir raunar eigi nema staðfestir það sem þar er sýnt fram á; að vegur þessi hafi orðið slysalega dýr, fyrir óheppni eða handvömm þess eða þeirra, er fyrir honum áttu að ráða, og var því haldið fram í áminnstri grein, að ábyrgðin hvíldi á hinum danska vegfræðing, er hafði tekið að sér að ákveða vegarstefnuna og mæla og afmarka vegarstæðið. Nú vill prestur taka á sig nokkuð af þessari ábyrgð, sem sé að því er snertir færsluna á vegarstefnunni, og er það að vísu drengilega gjört, en það getur naumast tekist gilt. Hvorki prest (hinn heiðr. höf,) né aðra ber að skoða öðruvísi en ábyrgðarlausa ráðanauta hans. Þeir kunna að hafa sagt honum eitt hver, eins og gjörist, en hann var að skera úr, eftir sinni vegfræðisþekkingu, og hún hlaut að vera einhlít til þess að sjá, að misráðið var, að velja það vegarstæði, sem hann gerði, eins og reynslan sýndi. Dýjamergðina er, að kunnugra vitni, áhöld um á báðum vegastefnunum, og snjóþyngsli slíkt hið sama, en mesti munur á því, hve vegarstæði Erlendar Zakaríassonar er jafnlendara og þar að auki ágætur ofaníburður þar á hentugasta stað. Það sem prestur telur löst á vestri vegarstefnunni, að vegurinn hefði ofan til orðið að liggja utan í lágri brún eða dálitlum halla, það munu þeir, er til réttrar vegagjörðar þekkja, vilja kalla kost; því þá er miklu hægra en ella að veita vatni frá veginum, og þó að nokkur smáræsi þurfi gegnum hann til þess, þá eru þau marfalt ómaks-og kostnaðarminni en niðurgröftur (gegn um mishæðir) og verja veginn þar að auki miklu betur en skurðir fram með honum .
Hinn heiðraði höf. berst alveg við skuggann sinn, þar sem hann er að bera af sér athugasemdina um sérplægnisástæðu fyrir vegarstefnubreytingunni. Kunnugir vissu, að hann býr of fjarri til þess, að slíkt væri einu sinni hugsanlegt, en ókunnugir vissu eigi, að hann hefði nærri þessu vegagjörðarráðabruggi komið. Var því engin leið að því, að neinn grunur gæti á hann fallið, auk þess sem hann er of valinkunnur maður til þess, að þess háttar grunur færi að taka heim á honum alveg út í bláinn.
Í greininni í Ísaf í haust var giskað á, að kostnaðurinn við vegarspotta þessa mundi hafa komið 2-3.000 fram yfir áætlun eða með öðrum orðum hlaupið fram um 50%. Nú munu menn vera orðnir það nær, að líklegra er það þokist nær 100%, þ. e. að kostnaðurinn hafi orðið 9-10.000 kr., í stað 5.000. Og það sjá allir að er stórhneyksli, á ekki lengri vegarkafla en þetta er eða vandameiri, - einir 1300 faðmar, yfir torfærulitla mýri og sumt móa- og melholt. - Vitanlega er til lítils að fást um orðinn hlut, er eigi verður aftur tekinn. En "til þess eru víti til að varast þau", og var það auðvitað tilgangurinn með greininni í haust, er þessi eftirfarandi grein gjörir fremur að styrkja en veikja, ef rétt er að gáð. - Til hægriverka höfum vér skotið inn í hana smá athugasemdum á stöku stað, milli hornklofa.

* * *
Það hefir dregist fyrir mér þangað til nú, að gjöra nokkrar athugasemdir við ritstjórnargrein í 83. tölublaði Ísafoldar um "vegargjörð upp frá Ölfusárbrúnni", og biðja yður, herra ritstjóri, að veita þeim viðtöku í blað yðar. Ég finn mér því fremur skylt, að leiðrétta það, sem mér virðist vera mishermt í þessari grein, þar sem ég var að nokkru leyti viðriðinn breytingu þá á vegarstefnunni, er verkfræðingur v. Ripperda gjörði frá uppástungu Erlendar verkstjóra Zakaríassonar, með því að ég sem nokkurn veginn kunnugur maður hér í sveitinni, bæði sumar og vetur, var kvaddur til að vera með hr. Ripp. og gefa honum nauðsynlegar upplýsingar, er hann ákvæði vegarstefnuna. Þegar taka skyldi ákvörðun um stefnuna, fórum við fyrst eftir því svæði, er Erl. Zak. hafði í fyrra vetur talið tiltækilegast fyrir veginn, og er mýrinni þar svo varið, þegar lengra dregur upp eftir henni, nær fjallinu, að þar sem að vegurinn hefði átt að liggja, utan í lágri brún, er einlægt dýjakerfi [ekki meira en á hinum veginum], og hleðst þar upp í frostum margra feta þykkur ís, og í leysingum hefði vatnsrennsli allt stefnt á þveran veginn og útheimt fjölda af vatnsrennum og timburbrúm [áður svarað]. Þetta var E.Z. ekki fyllilega kunnugt um, er hann ákvað sína vegarstefnu, því að bæði var þá auð jörð, og sá, sem með honum var til leiðbeiningar, ekki svo kunnugur sem skyldi á þessum stöðvum [það var þó vel greindur bóndi af næstu bæjum]. Verkfræðingnum leist þegar mjög illa á, að leggja veginn um þetta svæði, og því fremur, er ég skýrði honum frá, hversu þar væri umhorfs á vetrum og í vorleysingum [ekki hóti lakara en á eystri leiðinni, að ókunnugra manna vitni]. Þá fór ég með honum nokkru austar yfir mýrina, þar sem hún er hæst og halli er yfir höfuð jafn í sömu stefnu, sem vegurinn átti að liggja, og kvaðst hann þá í engum vafa um, að þessi stefna væri stórum heppilegri, úr því að ekki væri að ræða um beina stefnu eftir endilangri mýrinni að "Kögunarhól" í stefnu á "Kambaveginn"; en það var svo mikið og dýrt verk, að hvorki var líklegt að fé fengist til þess, og var ekki tími til að ljúka því á þessu sumri; það lá því ekki fyrir, heldur hitt, að gjöra sem fyrst veg frá brúnni, þar sem tiltækilegast væri, upp á hinn gamla veg með fram Ingólfsfjalli. Þeir sem kunnugir eru þessum stöðvum, sérstaklega á vetrum og í vorleysingum, geta því naumast betur séð, en að hér hafi einmitt verið "betri (lítill) krókur en kelda", og að hr. R. sé í þessu efni, hvað vegarstefnuna snertir, alls eigi ámælisverður, þar sem hann gjörði sér far um, að leita sér allra þeirra upplýsinga er föng voru á, áður en hann ákvað stefnuna [en óheppinn með að nota "upplýsingarnar"]. Annað mál er það, að ekki verður betur séð, en að honum hafi missést í því, að binda sig of mjög við þráðbeina stefnu á veginum yfir mýrina, og því lagði hann fyrir, að grafa gegn um tvo mýrarbala, þær einu mishæðir, sem eru á mýrinni á þessum vegi [en því miður svo slæmar, að það hleypti kostnaðinum gífurlega fram], og við það lenti, er svo djúpt var grafið niður, í þessum "dýjum og fenjum", sem greinin getur um, því annars eru þar engin dý, að heita má [annað fannst vegagjörðarmönnunum]; og það voru einmitt þessir tveir kaflar, sem gjörðu veginn svo óvanalega dýran; en hjá því hefði mátt sneiða, sjálfsagt á öðrum staðnum og að líkindum á báðum stöðunum, með því að hafa litla bugðu á veginum. Eins verður það ekki fegrað, að ýmsir krókar voru ákveðnir af honum á veginum um holtin og móana næst brúnni, sem ekki varð annað séð en að væru óþarfir, en til talsverða kostnaðarauka, enda var horfið frá þeirri stefnu, er betur fór, eftir að landshöfðingi hafði verið á ferðinni.
Þar sem greinin nefnir vegarstefnu Erl. Zack. sem liggjandi "fram hjá Árbæ", þá er það alveg rangt [hártogun er að kveða svo ríkt að orði]; hans stefna kemur hvergi nærri þeim bæ [nær en hin]; þvert á móti verður hún því nær alveg samferða stefnu v. Ripp. Hinn nýi vegur liggur að fjallinu þar, sem það liggur lengst til suðurs (næst Ölvesárbrúnni), og verður þá ekki vel skiljanlegt, hvernig sá vegur, sem lægi meira skáhalt til vinstri handar (vegarstefnu E. Z.) og sem lægi að fjallinu eftir að það er farið að beygjast lítið eitt til útnorðurs, ætti að geta verið 20 föðmum styttri en sá, sem liggur þverara að fjallinu, en báðar stefnurnar liggja, eins og áður er sagt, fyrst um sinn saman á hinum endanum (frá brúnni). Auðvitað hef ég ekki mælt þetta nema með augunum; en mér er óskiljanlegt annað en að hér hljóti í greininni að vera "hausavíxl", sem menn kalla, eða vel það, og breytist þá reikningurinn talsvert við það [nei, engin hausavíxl; báðar vegalengdir mældar reglulega með mælisnúru, en ekki tómum augunum; eystri leiðin er svo mislend, og það gjörir hana lengri]; og auk þess mun bæði vera vel í lagt með vegalengdina á þessum spotta með fjallinu, þar sem hún er talin 400 faðmar [ekki fullyrt, en áætlað; er áreiðanlega nær 4 en 3 hundr. föðm.], og þar heldur ekki stórkostlega erfitt með vegargjörð eða viðhald, þar sem íburður er alveg við hendina.
Sú tilgáta í greininni, að vegfræðingnum hafi af, sérplægnisástæðum, verið ranglega talin trú um", að vegarstefna E. Z. væri ýmsum annmörkum bundin, getur eftir kringumstæðum ekki vel komist að. Hér var engum til að dreifa nema mér; því v. Ripp, leitaði ekki upplýsinga nema hjá mér, og skildi ekki aðra en mig í það sinn. En nú vill svo óheppilega til, að ég hef alls engin not af þessum vegi fyrir sjálfan mig, í hvorri stefnunni sem hann hefði legið, og get ekki haft tækifæri til að fara hann, nema með því að gjöra mér mjög bagalegan krók, sem þó hefði verið fylgt. Land á ég heldur ekki nálægt þessum stöðvum, og því gat ég ekki "talið honum ranglega trú um" neitt, af ótta við jarðraskir eða öðru þvílíku óhagræði. En þótt ég hefði verið landeigandi, hefði ég samt mátt þakka fyrir, að vegurinn væri lagður um þetta svæði, því við það hefði máske orðið þurrkað upp eitthvað af dýjunum, sem á því liggja [allir því miður ekki svo hyggnir].
Ég vona, að þegar þér, herra ritstjóri, kynnið yður betur þetta mál [þarf ekki að gjöra það betur], verðið þér mér samdóma um, að hér sé ekki um annað eins voðaefni að ræða og greinin yðar gefur í skyn [seint um skör fram fundið að vanhyggjueyðslu á almannafé]. aðalmisfellan á þessari vegargjörð er gröfturinn gegn um mýrarbalana, sem jók kostnaðinn svo mjög [og mjög langt að sækja ofaníburð ofan til í miðri mýrinni, rétt hjá árbæjarstekk]; en að öðru leyti virðist vel viðunandi þessi litli krókur upp að fjallinu, sem líka var nærfellt hinn sami eftir stefnu E. Z., og þetta því fremur, ef veginum verður framhaldið frá Ingólfsfjalli (við "Kögunarhól") hér um bil í beina stefnu á "Kambaveginn".
Arnarbæli 28. nóv. 1891. Virðingarfyllst.
Ísl. Gíslason.