1891

Þjóðólfur, 29. maí 1891, 43. árg., 25. tbl., forsíða:

Ný aðalpóstleið í Húnavatnssýslu.
eftir Séra Stefán M. Jónsson á Auðkúlu.
I.
Eitt af hinum mörgu málum, er nýafstaðinn sýslunefndarfundur Húnvetninga hafði til meðferðar, var aðalpóstleiðarmálið um sýsluna, - nú í annað sinn fyrir nefndinni. Eins og margir vita, er þetta mál afspringur vegalaganna frá 10. nóv. 1887, sem skipta öllum vegum landsins í aðalpóstvegi, sýsluvegi, fjallvegi og hreppavegi. Aðalpóstvegir eru kostaðir yfir höfuð af landssjóði, sýsluvegir af sýslusjóði og hreppavegir af hreppavegasjóði. Sú er auðsjáanlega hugsun laganna með því að taka aðalpóstvegina yfir höfuð á sína arma, að þeir séu lagðir þannig, að eigi einungis héraðið eða sýslan, sem vegurinn liggur í, hafi gagn af honum, heldur sé hann lagður sem hentugast fyrir þjóðina sem kostar hann og á að nota hann, og póstinn, sem fer með erindi þjóðarinnar, án einkatillits til hagsmuna eins héraðsins fremur en annars. Póstvegirnir eru því sannir þjóðvegir; og vegna þess, að þessi er aðal tilgangur þeirra, segja lögin, að leggja aðra vegi, sýsluvegi, sem sérstaklega eiga að greiða samgöngurnar innansýslu. Auðvitað er ákjósanlegt, þegar gagn þjóðar og héraðsbúa getur komið saman, án þess réttur aðalmálsaðila sé borinn fyrir borð, en þegar það lætur sig ekki gjöra, verður hinn rétthærri að ganga fyrir. Og hver getur verið í vafa um, ef þetta er rétt, að réttur og þarfir þjóðarinnar eigi að ganga fyrir hagsmunum héraðsins, ef ekki verður sameinað. Þessi réttur og þarfir þjóðarinnar næst án efa best með því, að aðalpóstleið í sýslu hverri sé sett í hentugt samband við aðalpóstleið næsta fjórðungs o. s. frv.; og naumast mun það hafa verið hugsun Alþingis með vegalögunum 1887, að landssjóður legði út stórfé, t. d. til þess, að nokkrir hreppar hvers héraðs gætu fengið greiða götu í kauptún sitt, ef þar við ykist óþarfur kostnaður og erfiðleikar á póstferðum landsins um héraðið, en þessa þörf sýslufélagsins eiga sýsluvegirnir einkum að bæta samgönguþörf hreppsfélagsins.
Þó ég sé fjarri því að vera lögfróður, hygg ég að enginn óhlutdrægur maður vilji eða geti neitað því, að þetta, sem ég nú hefi sagt, sé andi vegalaganna, um leið og það er bókstafur þeirra. Og frá þessu sjónarmiði vil ég segja ágrip af sögu aðalpóstleiðarmálsins um austanverða Húnavatnss. frá Giljá að Bólstaðarhlíð, og skoðanir mínar um það mál.
II.
Mál þetta var lagt fyrir sýslunefnd Húnavatnssýslu veturinn 1888, og átti sýslunefndin að segja álit sitt um stefnu vegarins. Sýslunefndin klofnaði í þrennt. Fáeinir aðhylltust að leggja leiðina frá Giljá út á Blönduós og þaðan yfir Blöndu fram allan hinn langa Langadal (Ystaleið). Fáeinir voru á því, að vegurinn lægi, eins og nú, að Reykjum á Reykjabraut, þaðan fram með austanverðu, eða réttara norðanverðu, Svínavatni, yfir Blöndu á Finnstunguvaði og að Hlíð. (Fremsta leið); en þeir, sem þá voru eftir, voru á því, að leggja veginn frá Giljá að Reykjum, þaðan meðfram Svínavatni að Laxá, en þá austur yfir Ásana hjá Tindum, yfir Blöndu á Holtastaðaferju, og þaðan fram Langadal (Miðleið). Þessir miðleiðarmenn réðu úrslitunum með 1 eða 2 atkvæða mun, við hina flokkana samantekna. Þessi úrslit sýslunefndar voru síðan send amtsráðinu; varð þar meiningamunur sá, að einn (Einar í Nesi) varð fyrst á Fremstu leiðinni, en amtmaður og Benedikt Blöndal á miðleiðinni, en enginn á ystu leiðinni. Þá gekk málið til landshöfðingja.
Alþing 1889 veitti 6.000 kr. til að fá vegfróðan mann frá útlöndum til að segja, samkv. vegalögunum, álit sitt um þetta og fleiri vegmál landsins. Hann kom og hafði um 3.000 kr. fyrir starfa sinn sumarið 1889. Vegfræðingur þessi var svenskur, A. Siwerson að nafni, alvanur vegagjörð í Svíaríki, og einkum Noregi, eigi einungis járnbrautarvegum, heldur vegum yfir og eftir hálsum og dölum, þar sem líkt er ástatt og hjá oss; þetta sagði hann mér sjálfur. Valið á manninum virðist því hafa verið heppilegt. Þetta ákvæði laganna um, að vegfróða menn skuli hafa í ráðum, þegar ákveða skal aðalpóstleiðir, virðist bæði viturlegt og gjöra úrskurðarvöldunum hægra fyrir; en einkum sýnist, að það ætti að létta fyrir landshöfðingja í að leggja sinn fullnaðarúrskurð á málið, hafi meiningamunur orðið hjá sýslunefnd eða amtsráði.
Siwerson vegfræðingur sendi í fyrra vetur skýrslu sína til landshöfðingja, með áliti sínu um, hvar hentugast sé að leggja aðalpóstleiðina, og áætlun um kostnað hennar. Útdrátt af þessu áliti og áætlun má lesa í Þjóðólfi nr. 10, 28. febr. 1890. Ystuleiðinni og miðleiðinni kastar hann þar algjörlega, en er eindreginn með því, að leggja veginn meðfram Svínavatni (Fremsta leiðin). Eini kosturinn er hann nefnir á Ystu leiðinni, er brúarstæði á Blöndu á svokölluðum Neðriklifjum, en þessi vegur er 10.340 metr. lengri en fremsta leiðin. Á leiðinn fram Langadalinn af Blönduós yrði vegurinn, að hans sögn, að liggja yfir 5 smáskriður og eina stóra 1). Auk þessa segir hann, að mjög sé hætt við, að Blanda bryti af veginum á 2 stöðum í Laugadal; vegurinn mundi stöðugt liggja undir skemmdum, og viðhald hans kosta stórfé. Miðleiðin er 4.140 metr. lengri en fremsta leiðin. Á miðleiðinni ekkert brúarstæði á Blöndu (hefði mátt bæta við: "ekkert vað"), og sömu ókostir sem á ystu leiðinni, hvað snertir skemmdir á veginum og hættur fyrir hann. Eftir skýrslunni, er fremsta leiðin 1. styst eins og áður er sagt, 2. skriðulaus, 3. hallaminnst, 4. efni nægilegt og auðflutt að veginum, 5. kostnaðarminnst (það munar 26.700 kr. á henni og miðleiðinni, hvað þá á henni og ystu leiðinni.) 6. Á fremstu leiðinni er gott vað á Blöndu. 7. Skammt þar frá góður ferjustaður, og 8. örskammt þar frá mjög gott brúarstæði.
Ef farið væri eftir tillögum vegfræðingsins, eru það 11.400 metr. um 5.7000 faðmar, sem þarf að gjöra til þess að fá besta veg alla leið frá Giljá að Blöndu, því hann ræður til að byrja lítið eitt fyrir sunnan Laxá (fremri), en þangað er allgóður vegur frá Giljá, eins og nú er. En einmitt nærri þessu er ysta leiðin lengri en hin fremsta. Frá Blöndu að Bólstaðarhlíð er væn bæjarleið, og góður vegur eins og er.
Þegar þetta skýlausa álit vegfræðingsins var nú fengið, virtist meiningarmunurinn eiga að vera jafnaður, og hvíla hefði mátt við úrslit hans, sem hlýtur að hafa best vit á þessu. Ef ekkert er eftir á farið að orðum slíkra manna, virðist ákvæði laganna um þá meiningarlaust, og fjárveitingar þingsins til þeirra hlægilegar. En svo er að sjá, sem landshöfðingja vorum hafi enn þótt vandi fyrir sig að ákveða aðalpóstleiðina hér í austursýslunni, því eftir allt þetta, er nú málið látið ganga afturábak, frá landshöfðingja aftur til amtsráðs, frá amtsráði aftur til sýslunefndar til þess að segja álit sitt um álit vegfræðingsins. Það virðist ekki hefði átt að vera vandasamt að gefa þetta álit, þar sem enginn hafði hrakið eitt einasta atriði í skýrslu vegfræðingsins, og enginn af meðferðarmönnum málsins hefir litið í þá fræði, sem vegfræði heitir. Beinast virðist liggja við, að álíta, að hann hefði rétt fyrir sér, og réði til hins hentugasta í máli þessu. Þetta hefir og amtsráðinu eflaust fundist, því nú þegar það í annað sinn fær málið til meðferðar, fellur meiri hluti þess (amtmaður og Einar í Nesi) inn á skoðun Siwersons, og ræður til að aðhyllast fremstu leiðina (í fyrra skiptið lá engin vegfræðingsskoðun fyrir ráðinu). Með þessu viðurkennir amtsráðið, að það standi Siwerson eigi ofar í vegfræðinni.
En nú fyrir fáum dögum kemur málið í annað sinn ofan til sýslunefndar, þar er ekki báglega ástatt, þar úir og grúir af "Ingeniörum", sem ekki eru einungis jafnsnjallir herra Siwerson, heldur svo langt fyrir ofan hann, að í skýrslu hans og áliti er ekki heil brú eftir að þeir hafa meðhöndlað það. Að vísu höfðu þeir ekkert mælt af vegarsvæðunum, ekkert grafið, ekkert reiknað, en það var talað allt í rot. Já það er einkennilegt að sömu sýslunefndarmennirnir, sem 1888 lofuðu mest og best miðleiðina, og töldu henni, bæði í ræðu og riti, flesta kosti fram yfir ystu og fremstu leiðina, þeir kveða nú með einum rómi þá skoðun sína niður, því enginn þeirra vildi nú nýta hana lengur, en samþykja nú allir ystu leiðina, enda er hún nærri 6000 metr. lengri en miðleiðin, og mörgum þúsundum kr. dýrari, hvernig gat þá komið til skoðunar, að aðhyllast þá leið, sem var nærri 1½ mílu styttri, og sparaði marga tugi þúsunda króna, eins og fremsta leiðin gjörir? Hver dirfist nú að segja að Ísland sé fátækt land? Hver dirfist að segja, að hentugra sé að fara stuttan veg en langan, ódýran veg en dýran? Hver dirfist að segja, að skriður séu vegum hættulegar, eða að vatnsföll geti unnið á vegum? Hver dirfist að segja, að Ísland eigi nú engan "Ingeniör"?
III.
Það er svo að sjá, sem sýslunefndarmenn hafi viljað forðast, að vera nokkursstaðar nálægt skoðunum Siwersons, og því hafi þeir yfirgefið hinn fyrri dýrling sinn, miðleiðina, og hörfað út að sjó. (Skaði að engin tillaga lá fyrir um, að láta aðalpóstleiðina liggja út á Skagastr) - Ég játa mig vankunnandi mjög í fræði "Ingeniöra", og voga mér því ekki að rengja eða lítilsvirða álit og áætlanir þessa vegfræðings, og það hefði ég aldrei lagt út í, þó hann hefði ráðið til að aðhyllast aðra leið en Svínavatnsleiðina (fremstu leið), því ég álít sjálfsagt að virða og fara eftir skoðunum þeirra manna, sem hafa full skilyrði fyrir þekkingu sinni, reynslu og lærdómi, meðan skoðanir þeirra eru með öllu óhraktar. En það vill svo vel til, að löngu áður en nokkur vegfræðingur var útnefndur til að fjalla um þetta mál, hafði ég látið í ljósi álit mitt um þessar vegastefnur, og blandast þá eigi hugur um að fremsta leiðin væri alls yfir hentugust. Þessi skoðun mín, sem að eins var byggð á margra ára kunnugleik á vegarsvæðinu og heilbrigðu skyni, en engri vegfærði stendur eigi aðeins óveikluð enn þá, heldur hefur hún nú styrkst ósegjanlega mikið við álit Siwersons. - Ég skammast mín ekki fyrir að segja það, að ég treysti lækninum betur til að tala um og ráðleggja heilt þeim, sem vanheilir eru, en þó 10 eða 11 ólæknisfróðir menn vildu fara og gefa sig við því. Ég treysti lögfróðum manni betur til að gjöra rétt úrslit á "jurdisku" efni, sem menn hafa deilt um, en 10-11 ólögfróðum mönnum.
Af því ég var og er svona mikið barn í vegfræðinni, gat ég ekki fylgst með meðnefndarmönnum mínum í sýslunefndinni, né gefið atkvæði mitt með hinum afar stóra vinkilkrók aðalpóstleiðarinnar út á Blönduós og fram allan Langadal, og sem þá byrjar annan vinkilinn fram við ármót Blöndu og Svartár upp að Hlíð að ógleymdum brattanum, skriðunum, landbrotunum af Blöndu, og hinum voðalegu ísbunkum í Hlíðarskriðu, sem ýkjulaust mestallan veturinn er mjög hættuleg leið, og mun sífellt verða, hversu breiður vegur sem þar kæmi, og sem Blanda gín neðanundir.
Ég man ekki allar þær gullvægu ástæður, sem þessi meiri hluti sýslunefndarinnar færði fyrir ystu leiðar áliti sínu; en það man ég, að á þögn Siwersons um Svartá voru allir hattar hengdir. Svartá á að vera jafnaðarlega mikill farartálmi - Ég leyfi mér að segja, að af öllum sýslunefndarmönnunum, er ég kunnugastur Svartá, og hefi án efa oftast átt yfir hana að sækja af þeim öllum. Eins og ég hefi áður lýst yfir, varð hún mér á 10 árum alls einu sinni að faratálma fyrir vaxtar sakir í vorleysingum. Hvaða vatnsfall, já, hvaða lækur á Íslandi, getur ekki orðið ófær, án þess hann sé kallaður verulegur farartálmi. Úr Svartá rennur mjög fljótt, og aldrei hef ég heyrt þess getið, að hún hafi verið ófær dægri lengur. Að Svartá liggja flatar eyrar, en hvergi í útdalnum háir bakkar til fyrirstöðu að komast að henni. - Svartá leggur yfir höfuð seint vegna kuldavermisvatns, sem í henni er, svo hún er reið lengi vetrar á auðu. Þegar hún ryður sig, hreinryður hún sig vanalega, og aldrei hefi ég séð ruðning til fyrirstöðu á eyrunum. - Það er undarlegt, ef Svartá er mikill farartálmi, að ég skyldi aldrei á 10 árum heyra þess getið, að menn tefðust við hana, en hún er auðvitað engin undantekning allra vatnsfalla frá að geta orðið ófær. Auk margra vaða á Svartá í úrdalnum, er fyrir utan og neðan bæinn Fjós, sem er rétt fyrir sunnan Gilsneiðing (póstleiðina upp á Vatnsskarð), ágætis vað; þar rétt hjá er lygn hylur, sem engum efa er bundið, að sé góður ferjuhylur, og sem oft er á ís, þó áin sé auð annarsstaðar. Ef nú póstur eða ferðamenn einhvern tíma skyldu teppast við Svartá utar, sýnist enginn ógjörningur, en örlítill krókur að fara yfir hana þarna; já ólíklegt að menn kysu það ekki heldur, en að klöngrast Hlíðarskriðu með lífshættu fyrir sig og hesta, og þá eiga eftir Hlíðará, sem sannast sagt er æði mikið hættulegra vatnsfall þó minni sé en Svartá. Það má reiða sig á, að sé Svartá ófær fyrir vorleysingar, er Hlíðará það einnig; og við Hlíðará tepptist oft bæði ég og messufólk; við Hlíðará tepptist póstur að mér ásjáandi, en aldrei við Svartá. Eigi póstleiðin að liggja utan Langadal, verðu brú nauðsynleg á Hlíðará, en getur sparast fyrst um sinn á Svartá. Enda hafa Bólstaðarhlíðarhreppsmenn oft sótt um fé af sýsluvegasjóði til að brúa Hlíðará, og var eitt sinn byrjað á að efna til hennar en við það situr, því að féð fékkst þá ekki. Hjá Hlíðará er hægt að komast ef fremsta leiðin væri tekin, að eins yrði þá að flytja bréfhirðinguna að Botnastöðum, þar sem hún var, eða Gili. - Þess er vert að geta, að fyrir utan mig og 2 menn aðra í sýslunefndinni, sem vel að merkja báðir eru Langdælir, eru allir aðrir ókunnugir Svartá og Hlíðará, margir þeirra hafa aldrei litið þær augum, og jafnvel eigi Blöndu heldur, sumir hafa örsjaldan, sumir aldrei komið að henni. Svona er nú þessi aðalsnagi tryggur.
En hvað gjöra nú þessir ystu leiðarmenn úr Laxá (ytri)? Svar: Ekkert, og þó er hún í sannleika engu minni torfæra en Svartá. Hún kemur úr Laxárvatni, og liggur leiðin yfir hana neðarlega nálægt sjó, á svo grýttu og vondu vaði, að annað eins vað þekki ég hvergi á Svartá, önnur vaðnefna er nokkuð neðar, djúpt með kaststreng í; enda meðan Laxárvatn er að leysa á vorin, er hún tíðum ófær, þar er ekki um marga vegi að velja til yfirferðar, nema að setja á hana brú, rúma brú, þriðju nauðsynlegu brúna til að geta notað ystu leiðina nokkurn veginn hættulaust, og auka kostnaðinn enn um nokkrar þús. króna, nei, enn betur, brú sjálfsagt nauðsynlega yfir Gunnsteinsstaða Síkið (þ. e. kvísl af Blöndu, sem liggur á veginum, djúp og tíðum ófær) það er fjórða brúin, og í fimmta lagi mundi vera oft þörf á brú yfir Auðólfsstaðaá, sem kemur ofan á þveran veginn ofan af Laxárdal.
Um þessa ystu leið hefur herra Siwerson eðlilega talað minnst í skýrslu sinni, af þeirri ástæðu, að honum hefur ekki komið til hugar, að vér yrðum þau börn að kjósa hana, þegar vegamunurinn og aðrir ókostir hennar væru oss kunnir. Enda er þessi ysta leið þannig til komin í fyrstu, að uppástungumaður hennar 1888 ætlaði eins og að ganga fram af mönnum með fjarstæðu sinni, hafandi ekki minnstu von um, að nokkur yrði með sér, en honum sjálfum var hún persónulega þægilegust.

Á fremstu leiðinni er einnig Laxá (fremri), sem kemur úr Svínavatni, segja mótstöðumennirnir. Það er satt, en vaðið á henni er við ós hennar, áður en nokkur sitra rennur í hana, vaðið er lygnt sem pollur, grunnt með sléttum malarbotni, að tala þar um brú er hlægilegt fyrir Íslendinga enn sem stendur.
Annar hattasnagi mótstöðumannanna er, að mig minnir, mismunurinn á brúarkostnaðinum yfir Blöndu útfrá og framfrá. Jú, eftir áætlun Siwersons, er brúin framfrá rúmum 8.000 kr. dýrari en útfrá, en skyldu ekki þær 8.000 kr. nást oftar en einu sinni af mismun vegakostnaðarins? 2)
Þá á vegfræðingurinn ekki að hafa reiknað neitt út, hversu miklu dýrara væri að koma brúarefninu fram eftir en uppá klifinn. Þetta er auðvitað sagt út í hött; en hafi hann gjört áætlun um hvað kostaði að koma brúarefninu fram á klif, þá hefir hann án efa gjört áætlun um kostnaðinn að koma því lengra á leið. Hvorugt er ástæða til að tortryggja - Af Blönduós á að vera í flestum vetrum ómögulegt að aka þungu æki fram í Blöndudal; en sannleikurinn er, að af Ósnum er oft örðugt að aka einmitt upp að klifjum, en úr því þangað er komið, kemur víst enginn sá vetur fyrir, að eigi sé alhægt að aka fram í Blöndudal - og Svartárdal, annaðhvort eftir Blöndu sjálfri, eða flóunum og vötnunum á Ásunum. Reyndar hefir hengibrúarefni aldrei verið ekið þessa leið, en sjálfur hefi ég látið aka þessa leið 1000 pundum korns í einu hingað á heimili mitt, á einum hesti, og gekk það ágætlega vel. Öðru sinni lét ég aka af Ósnum brúartrjánum í hina fyrirhuguðu Hlíðarárbrú. Efninu í Svínavatnskirkju var ekið þessa leið, og fjöldanum af stærstu trjánum í Bólstaðarhlíðarkirkju var ekið af Ósnum. Þetta finnst mér vera fremur til greina takandi, en bláber reynslulaus orð hinna móthverfu.
Þá er einn kostur enn á fremstu leiðinni, sem hvorug hinna á til, en það er Svínavatn, sem er stór hluti leiðarinnar að Blöndu. Flesta vetra liggur það megnið af vetrinum undir ís, og vanalega glærir ísar frá báðum endum þess. Er nú annað eðlilegra, en að bæði póstur og ferðamenn milli fjórðunga, fari Svínavatn að vetrinum, hvar svo sem aðalpóstleiðin liggur um sýsluna? Ég segi nei; enda hefir núverandi póstur sagt, að hann óneyddur færi eigi aðra leið; en að fleygja mörgum tugum þúsunda í veg, sem ekki er farinn af þeim, sem hann er ætlaður, er ekki við vort hæfi. - Ennfremur má geta þess, er um kostnaðinn er að ræða, að 1888 var sú hugsun sýslunefndarinnar, að láta veginn víða liggja eftir fjallshlíðunum í Langadal. Siwerson vegfræðing kom eigi einu sinni til hugar að mæla þar, heldur mældi hann niðri í dalnum á láglendinu. Og með því að nú minnast þessir menn ekkert á fjallshlíðaveg framar, er að sjá, sem þeir álíti þetta þó eigi öðru jafnvitlaust hjá vegfræðingnum, en við þetta eykst kostnaðurinn að stórum mun, því vegurinn liggur þá víða yfir blómlega flæðiengi, sem landssjóður verður fyrst að kaupa samkvæmt lögunum undir veginn, og ég efast ekki um, að Laugdælum þykir hver faðmurinn úr þessum engjum sínum mikils virði sem von er. Á fremstu leiðinni eru að vísu engjar sumsstaðar, en þær eru lítilsvirði í samanburði við Langadalsflæðin, og víða eru á þeirri leið aðeins óræktar og móar, mýrar, holt og melar, sem ekkert verð er í.
Þegar mótstöðumenn mínir í máli þessu í sýslunefndinni eru gjörtæmdir af sennilegum (ekki sönnum) ástæðum fyrir áliti sínu, snúa þeir að lögunum sjálfum, að sýna, hversu óhæfilegt sé að hugsa til akvega eða 6 álna breiðra vega hér hjá oss, og ráða til að leggja að eins klyfjagötur. Ég veit reyndar eigi hverjum þeir félagar mínir ætla að fara eftir þessari ráðleggingu, hvort það er hugsunin, að landshöfðinginn einn breyti nú þegar lögunum og fyrirskipi að leggja klyfjagötur í stað 6 álna breiðra vega eða hvort Húnavatnssýsla ein sé óhæf fyrir akvegi. Yfir höfuð kemur þessi tillaga, eins og nú stendur, eins og úr leggnum. Við höfum eitt sinn lög, sem við eigum að hlýða þar til þeim er breytt. Sök sér hefði verið, ef klyfjagatnafýsnin var ómótstríðanleg, að landshöfðinginn hefði verið beðinn um, að fresta því, að ákveða aðalpóstleiðina, þar til alþing væri búið að breyta lögunum og koma klyfjagötunni á. En séu nú klyfjagötur hentugri en 6 álna breiðir vegir, mega þær þá ekki liggja þar, sem þær eru hentugastar til umferða? Má þá ekki eins leggja klyfjagötu meðfram Svínavatni eins og fram og út Langadal, eru ekki sömu kostir og ókostir beggja leiðanna hvort heldur er klyfjavegur eða akvegur?
Þó nú svo ólíklega kunni að fara, að þessi ysta leið verði gjörð að aðalpóstleið, er ólíklegt að alþing verði fúst til að fleygja peningum alls landsins þannig á glæður, úr því það væri þvert ofan í tillögu amtsráðs og vegfróðra manna (sbr. 6. gr. laga nr. 25, 10. nóv. 1887), sem líkindi væru til að ættu að hafa meira að segja, en meiri hluti einnar sýslunefndar, sem er sannarlega ekki vegfróð; og suma norðanþingmenn hefi ég heyrt segja, að þó vegurinn yrði lagður ofan á Langadal yfir hjá Tindum (hvað þá út á Bl. ós), mundu þeir aldrei fara hann. En yrði ysta leiðin ofan á, þætti mér sjálfsagt, að fleiri sýslufélög landsins vildu fá samskonar aðalpóstleið. T. d. ætti þá aðalpóstleiðin í Skagafjarðarsýslu að leggjast út á Sauðárkrók, já fyrir því væru ótal ástæður gildari en fyrir Blönduósleiðinni hér. Eins ætti þá að leggja aðalpóstleiðina um Þingeyjarsýslu út á Húsavík, en ekki fram um Staði o. s. frv. Út á Húsavík og Sauðárkrók er góður vegur, og sömuleiðis þaðan og norður á við, svo tiltölulega væri lítill kostnaður að koma þeim krókum á, ef nauðsynin krefði; en það er svo merkilegt, að til þess að geta fengið nær 1½ mílu krók á aðalpóstleiðina í Húnavatnssýslu þarf að búa til alveg spánýjan veg sem kostar marga tugi þús króna eftir hinni afarlöngu sveit Langadalnum, og síðan eiga undir von, hvort hann verður farinn eða ekki, og varanlegleikinn mjög vafasamur vegna landslagsins. Það er og einkennilegt að aðalpóstleiðin frá Reykjavík til Akureyrar, og yfir höfuð aðalpóstleiðir landsins, liggja svo krókalaust sem frekast má, svo komist þessi ysta leið hér á, er það eini verulegi krókurinn, og þó er til því nær bein leið nálægt miðbiki sýslunnar, hafandi ótal sannaða kosti framyfir vinklaleiðina.
Á sýslunefndarfundinum 1888 var miðleiðinni talið eitt með öðru það til gildis, að hún lægi um miðja sýslu, nú er það enginn kostur lengur hjá sömu mönnunum, en álitið aftur á móti hentugast að þræða jaðra sýslunnar með ókleyfum kostnaði og þvert ofan í vilja almennings og pósts. Og viti menn, hún er reynd þessi ysta leið, því hér um árið var hún gjörð að aðalpóstleið, en hvað skeði? Póstur heimtaði launabót, almenningur, nema nokkrir Langdælir og Ósverjar óánægðir, og leiðin á næsta ári afmáð sem óhafandi. Á þessu eina ári komst þáverandi póstur tvisvar í lífshættu í ytri Laxá, (fyrir framan Ósinn) sem nú er eigi nefnd sem farartálmi. Og nú væri fróðlegt að fá að vita, til hvers aukapóstar eru settir; mun það ekki einmitt til þess að fara króknana af aðalpóstleiðinni svo aðalpósturinn þurfi ekki að tefja ferðina á því, en geti haldið sem beinast og greiðast.
Yfir höfuð er pósturinn og ferðamennirnir, sem þessi vegur er ætlaður, búnir að sýna, hvar vegurinn á að vera og á ekki að vera, með því að umferð þeirra er öll yfir fremstu leiðina, jafnvel þó nú sé vond yfirferðar, þegar Svínavatn ekki er á ís, en engin eftir hinum leiðunum, síst hinni ystu. Er þetta ekki sama, sem þjóðin, er notar, segi: "Ég vil hvergi hafa aðalpóstleiðina um austurhluta Húnavatnssýslu annarsstaðar en meðfram Svínavatni"? Og er þá ekki hart að segja við hana: "Þú hefur ekkert vit á þessu, þér er miklu betra að krækja um 1½ mílu út að sjó, og þó hálærður vegfræðingur, sem þú kostaðir til 3.000 króna, sé á þínu máli, þá er það allt eintómur misskilningur; þó þú á fremstu leiðinni hafir að velja um gott vað, ferju og ágætt brúarstæði á Blöndu allt hvað hjá öðru, þó leiðin sé styst, ódýrust, varanlegust og eðlilegust, þá er þetta allt fásinna móts við" -- ja móts við hvað? Það virðist varla annað svar til en "að fá að koma á Blönduós".
Það er ekki óeðlilegt, þó sumir ókunnugir héldu að ég berðist í þessa stefnu af því, að ég sé sjálfur í Svínavatnshreppi, og vildi halda mínum hreppi fram; en því til sönnunar, að það sé allt annað en hreppapólitík, sem ræður skoðun minni, læt ég þess getið, að meðan ég var prestur á Bergsstöðum, og hafði enga hugmynd um, að ég yrði í Svínavatnshreppi, eða að veglögunum yrði breytt, lét ég einmitt þessa aðalskoðun í ljósi út af þar til gefnu efni í ísl. blaði; og enn fremur vil ég segja ókunnugum það, að þó aðalpóstleiðin yrði lögð meðfram Svínavatni, hefir sveit mín svo sem ekkert gagn af þeim vegi, að eins örfáir bæir gætu notað hann til kirkju sinnar að Svínavatni á stuttum kafla.
Í febrúar 1891.
1) Hversu margar mundi mega telja eftir nokkur ár? Eigi ólíklegt að þá lægi vegurinn eigi lengur yfir þær, heldur undir þeim, þar sem hann verður að liggja við rætur á snarbröttu fjalli.
2) Ef maður einblínir í þessu máli aðeins á brú yfir Blöndu, og álítur það einu og fyrstu nauðsynina, sem að mínu áliti er alls ekki fyrsta skilyrðið, þar sem 3 lögferjur eru á ánni, þá á maður að einblína á hana þar, sem hún nær best tilgangi sínum, jafnvel þó hún yrði þar nokkuð dýrari, eins og með veginn yfir höfuð, hvað þá þegar gagnseminni sameinast afar mikill peningasparnaður í heild sinni.


Þjóðólfur, 29. maí 1891, 43. árg., 25. tbl., forsíða:

Ný aðalpóstleið í Húnavatnssýslu.
eftir Séra Stefán M. Jónsson á Auðkúlu.
I.
Eitt af hinum mörgu málum, er nýafstaðinn sýslunefndarfundur Húnvetninga hafði til meðferðar, var aðalpóstleiðarmálið um sýsluna, - nú í annað sinn fyrir nefndinni. Eins og margir vita, er þetta mál afspringur vegalaganna frá 10. nóv. 1887, sem skipta öllum vegum landsins í aðalpóstvegi, sýsluvegi, fjallvegi og hreppavegi. Aðalpóstvegir eru kostaðir yfir höfuð af landssjóði, sýsluvegir af sýslusjóði og hreppavegir af hreppavegasjóði. Sú er auðsjáanlega hugsun laganna með því að taka aðalpóstvegina yfir höfuð á sína arma, að þeir séu lagðir þannig, að eigi einungis héraðið eða sýslan, sem vegurinn liggur í, hafi gagn af honum, heldur sé hann lagður sem hentugast fyrir þjóðina sem kostar hann og á að nota hann, og póstinn, sem fer með erindi þjóðarinnar, án einkatillits til hagsmuna eins héraðsins fremur en annars. Póstvegirnir eru því sannir þjóðvegir; og vegna þess, að þessi er aðal tilgangur þeirra, segja lögin, að leggja aðra vegi, sýsluvegi, sem sérstaklega eiga að greiða samgöngurnar innansýslu. Auðvitað er ákjósanlegt, þegar gagn þjóðar og héraðsbúa getur komið saman, án þess réttur aðalmálsaðila sé borinn fyrir borð, en þegar það lætur sig ekki gjöra, verður hinn rétthærri að ganga fyrir. Og hver getur verið í vafa um, ef þetta er rétt, að réttur og þarfir þjóðarinnar eigi að ganga fyrir hagsmunum héraðsins, ef ekki verður sameinað. Þessi réttur og þarfir þjóðarinnar næst án efa best með því, að aðalpóstleið í sýslu hverri sé sett í hentugt samband við aðalpóstleið næsta fjórðungs o. s. frv.; og naumast mun það hafa verið hugsun Alþingis með vegalögunum 1887, að landssjóður legði út stórfé, t. d. til þess, að nokkrir hreppar hvers héraðs gætu fengið greiða götu í kauptún sitt, ef þar við ykist óþarfur kostnaður og erfiðleikar á póstferðum landsins um héraðið, en þessa þörf sýslufélagsins eiga sýsluvegirnir einkum að bæta samgönguþörf hreppsfélagsins.
Þó ég sé fjarri því að vera lögfróður, hygg ég að enginn óhlutdrægur maður vilji eða geti neitað því, að þetta, sem ég nú hefi sagt, sé andi vegalaganna, um leið og það er bókstafur þeirra. Og frá þessu sjónarmiði vil ég segja ágrip af sögu aðalpóstleiðarmálsins um austanverða Húnavatnss. frá Giljá að Bólstaðarhlíð, og skoðanir mínar um það mál.
II.
Mál þetta var lagt fyrir sýslunefnd Húnavatnssýslu veturinn 1888, og átti sýslunefndin að segja álit sitt um stefnu vegarins. Sýslunefndin klofnaði í þrennt. Fáeinir aðhylltust að leggja leiðina frá Giljá út á Blönduós og þaðan yfir Blöndu fram allan hinn langa Langadal (Ystaleið). Fáeinir voru á því, að vegurinn lægi, eins og nú, að Reykjum á Reykjabraut, þaðan fram með austanverðu, eða réttara norðanverðu, Svínavatni, yfir Blöndu á Finnstunguvaði og að Hlíð. (Fremsta leið); en þeir, sem þá voru eftir, voru á því, að leggja veginn frá Giljá að Reykjum, þaðan meðfram Svínavatni að Laxá, en þá austur yfir Ásana hjá Tindum, yfir Blöndu á Holtastaðaferju, og þaðan fram Langadal (Miðleið). Þessir miðleiðarmenn réðu úrslitunum með 1 eða 2 atkvæða mun, við hina flokkana samantekna. Þessi úrslit sýslunefndar voru síðan send amtsráðinu; varð þar meiningamunur sá, að einn (Einar í Nesi) varð fyrst á Fremstu leiðinni, en amtmaður og Benedikt Blöndal á miðleiðinni, en enginn á ystu leiðinni. Þá gekk málið til landshöfðingja.
Alþing 1889 veitti 6.000 kr. til að fá vegfróðan mann frá útlöndum til að segja, samkv. vegalögunum, álit sitt um þetta og fleiri vegmál landsins. Hann kom og hafði um 3.000 kr. fyrir starfa sinn sumarið 1889. Vegfræðingur þessi var svenskur, A. Siwerson að nafni, alvanur vegagjörð í Svíaríki, og einkum Noregi, eigi einungis járnbrautarvegum, heldur vegum yfir og eftir hálsum og dölum, þar sem líkt er ástatt og hjá oss; þetta sagði hann mér sjálfur. Valið á manninum virðist því hafa verið heppilegt. Þetta ákvæði laganna um, að vegfróða menn skuli hafa í ráðum, þegar ákveða skal aðalpóstleiðir, virðist bæði viturlegt og gjöra úrskurðarvöldunum hægra fyrir; en einkum sýnist, að það ætti að létta fyrir landshöfðingja í að leggja sinn fullnaðarúrskurð á málið, hafi meiningamunur orðið hjá sýslunefnd eða amtsráði.
Siwerson vegfræðingur sendi í fyrra vetur skýrslu sína til landshöfðingja, með áliti sínu um, hvar hentugast sé að leggja aðalpóstleiðina, og áætlun um kostnað hennar. Útdrátt af þessu áliti og áætlun má lesa í Þjóðólfi nr. 10, 28. febr. 1890. Ystuleiðinni og miðleiðinni kastar hann þar algjörlega, en er eindreginn með því, að leggja veginn meðfram Svínavatni (Fremsta leiðin). Eini kosturinn er hann nefnir á Ystu leiðinni, er brúarstæði á Blöndu á svokölluðum Neðriklifjum, en þessi vegur er 10.340 metr. lengri en fremsta leiðin. Á leiðinn fram Langadalinn af Blönduós yrði vegurinn, að hans sögn, að liggja yfir 5 smáskriður og eina stóra 1). Auk þessa segir hann, að mjög sé hætt við, að Blanda bryti af veginum á 2 stöðum í Laugadal; vegurinn mundi stöðugt liggja undir skemmdum, og viðhald hans kosta stórfé. Miðleiðin er 4.140 metr. lengri en fremsta leiðin. Á miðleiðinni ekkert brúarstæði á Blöndu (hefði mátt bæta við: "ekkert vað"), og sömu ókostir sem á ystu leiðinni, hvað snertir skemmdir á veginum og hættur fyrir hann. Eftir skýrslunni, er fremsta leiðin 1. styst eins og áður er sagt, 2. skriðulaus, 3. hallaminnst, 4. efni nægilegt og auðflutt að veginum, 5. kostnaðarminnst (það munar 26.700 kr. á henni og miðleiðinni, hvað þá á henni og ystu leiðinni.) 6. Á fremstu leiðinni er gott vað á Blöndu. 7. Skammt þar frá góður ferjustaður, og 8. örskammt þar frá mjög gott brúarstæði.
Ef farið væri eftir tillögum vegfræðingsins, eru það 11.400 metr. um 5.7000 faðmar, sem þarf að gjöra til þess að fá besta veg alla leið frá Giljá að Blöndu, því hann ræður til að byrja lítið eitt fyrir sunnan Laxá (fremri), en þangað er allgóður vegur frá Giljá, eins og nú er. En einmitt nærri þessu er ysta leiðin lengri en hin fremsta. Frá Blöndu að Bólstaðarhlíð er væn bæjarleið, og góður vegur eins og er.
Þegar þetta skýlausa álit vegfræðingsins var nú fengið, virtist meiningarmunurinn eiga að vera jafnaður, og hvíla hefði mátt við úrslit hans, sem hlýtur að hafa best vit á þessu. Ef ekkert er eftir á farið að orðum slíkra manna, virðist ákvæði laganna um þá meiningarlaust, og fjárveitingar þingsins til þeirra hlægilegar. En svo er að sjá, sem landshöfðingja vorum hafi enn þótt vandi fyrir sig að ákveða aðalpóstleiðina hér í austursýslunni, því eftir allt þetta, er nú málið látið ganga afturábak, frá landshöfðingja aftur til amtsráðs, frá amtsráði aftur til sýslunefndar til þess að segja álit sitt um álit vegfræðingsins. Það virðist ekki hefði átt að vera vandasamt að gefa þetta álit, þar sem enginn hafði hrakið eitt einasta atriði í skýrslu vegfræðingsins, og enginn af meðferðarmönnum málsins hefir litið í þá fræði, sem vegfræði heitir. Beinast virðist liggja við, að álíta, að hann hefði rétt fyrir sér, og réði til hins hentugasta í máli þessu. Þetta hefir og amtsráðinu eflaust fundist, því nú þegar það í annað sinn fær málið til meðferðar, fellur meiri hluti þess (amtmaður og Einar í Nesi) inn á skoðun Siwersons, og ræður til að aðhyllast fremstu leiðina (í fyrra skiptið lá engin vegfræðingsskoðun fyrir ráðinu). Með þessu viðurkennir amtsráðið, að það standi Siwerson eigi ofar í vegfræðinni.
En nú fyrir fáum dögum kemur málið í annað sinn ofan til sýslunefndar, þar er ekki báglega ástatt, þar úir og grúir af "Ingeniörum", sem ekki eru einungis jafnsnjallir herra Siwerson, heldur svo langt fyrir ofan hann, að í skýrslu hans og áliti er ekki heil brú eftir að þeir hafa meðhöndlað það. Að vísu höfðu þeir ekkert mælt af vegarsvæðunum, ekkert grafið, ekkert reiknað, en það var talað allt í rot. Já það er einkennilegt að sömu sýslunefndarmennirnir, sem 1888 lofuðu mest og best miðleiðina, og töldu henni, bæði í ræðu og riti, flesta kosti fram yfir ystu og fremstu leiðina, þeir kveða nú með einum rómi þá skoðun sína niður, því enginn þeirra vildi nú nýta hana lengur, en samþykja nú allir ystu leiðina, enda er hún nærri 6000 metr. lengri en miðleiðin, og mörgum þúsundum kr. dýrari, hvernig gat þá komið til skoðunar, að aðhyllast þá leið, sem var nærri 1½ mílu styttri, og sparaði marga tugi þúsunda króna, eins og fremsta leiðin gjörir? Hver dirfist nú að segja að Ísland sé fátækt land? Hver dirfist að segja, að hentugra sé að fara stuttan veg en langan, ódýran veg en dýran? Hver dirfist að segja, að skriður séu vegum hættulegar, eða að vatnsföll geti unnið á vegum? Hver dirfist að segja, að Ísland eigi nú engan "Ingeniör"?
III.
Það er svo að sjá, sem sýslunefndarmenn hafi viljað forðast, að vera nokkursstaðar nálægt skoðunum Siwersons, og því hafi þeir yfirgefið hinn fyrri dýrling sinn, miðleiðina, og hörfað út að sjó. (Skaði að engin tillaga lá fyrir um, að láta aðalpóstleiðina liggja út á Skagastr) - Ég játa mig vankunnandi mjög í fræði "Ingeniöra", og voga mér því ekki að rengja eða lítilsvirða álit og áætlanir þessa vegfræðings, og það hefði ég aldrei lagt út í, þó hann hefði ráðið til að aðhyllast aðra leið en Svínavatnsleiðina (fremstu leið), því ég álít sjálfsagt að virða og fara eftir skoðunum þeirra manna, sem hafa full skilyrði fyrir þekkingu sinni, reynslu og lærdómi, meðan skoðanir þeirra eru með öllu óhraktar. En það vill svo vel til, að löngu áður en nokkur vegfræðingur var útnefndur til að fjalla um þetta mál, hafði ég látið í ljósi álit mitt um þessar vegastefnur, og blandast þá eigi hugur um að fremsta leiðin væri alls yfir hentugust. Þessi skoðun mín, sem að eins var byggð á margra ára kunnugleik á vegarsvæðinu og heilbrigðu skyni, en engri vegfærði stendur eigi aðeins óveikluð enn þá, heldur hefur hún nú styrkst ósegjanlega mikið við álit Siwersons. - Ég skammast mín ekki fyrir að segja það, að ég treysti lækninum betur til að tala um og ráðleggja heilt þeim, sem vanheilir eru, en þó 10 eða 11 ólæknisfróðir menn vildu fara og gefa sig við því. Ég treysti lögfróðum manni betur til að gjöra rétt úrslit á "jurdisku" efni, sem menn hafa deilt um, en 10-11 ólögfróðum mönnum.
Af því ég var og er svona mikið barn í vegfræðinni, gat ég ekki fylgst með meðnefndarmönnum mínum í sýslunefndinni, né gefið atkvæði mitt með hinum afar stóra vinkilkrók aðalpóstleiðarinnar út á Blönduós og fram allan Langadal, og sem þá byrjar annan vinkilinn fram við ármót Blöndu og Svartár upp að Hlíð að ógleymdum brattanum, skriðunum, landbrotunum af Blöndu, og hinum voðalegu ísbunkum í Hlíðarskriðu, sem ýkjulaust mestallan veturinn er mjög hættuleg leið, og mun sífellt verða, hversu breiður vegur sem þar kæmi, og sem Blanda gín neðanundir.
Ég man ekki allar þær gullvægu ástæður, sem þessi meiri hluti sýslunefndarinnar færði fyrir ystu leiðar áliti sínu; en það man ég, að á þögn Siwersons um Svartá voru allir hattar hengdir. Svartá á að vera jafnaðarlega mikill farartálmi - Ég leyfi mér að segja, að af öllum sýslunefndarmönnunum, er ég kunnugastur Svartá, og hefi án efa oftast átt yfir hana að sækja af þeim öllum. Eins og ég hefi áður lýst yfir, varð hún mér á 10 árum alls einu sinni að faratálma fyrir vaxtar sakir í vorleysingum. Hvaða vatnsfall, já, hvaða lækur á Íslandi, getur ekki orðið ófær, án þess hann sé kallaður verulegur farartálmi. Úr Svartá rennur mjög fljótt, og aldrei hef ég heyrt þess getið, að hún hafi verið ófær dægri lengur. Að Svartá liggja flatar eyrar, en hvergi í útdalnum háir bakkar til fyrirstöðu að komast að henni. - Svartá leggur yfir höfuð seint vegna kuldavermisvatns, sem í henni er, svo hún er reið lengi vetrar á auðu. Þegar hún ryður sig, hreinryður hún sig vanalega, og aldrei hefi ég séð ruðning til fyrirstöðu á eyrunum. - Það er undarlegt, ef Svartá er mikill farartálmi, að ég skyldi aldrei á 10 árum heyra þess getið, að menn tefðust við hana, en hún er auðvitað engin undantekning allra vatnsfalla frá að geta orðið ófær. Auk margra vaða á Svartá í úrdalnum, er fyrir utan og neðan bæinn Fjós, sem er rétt fyrir sunnan Gilsneiðing (póstleiðina upp á Vatnsskarð), ágætis vað; þar rétt hjá er lygn hylur, sem engum efa er bundið, að sé góður ferjuhylur, og sem oft er á ís, þó áin sé auð annarsstaðar. Ef nú póstur eða ferðamenn einhvern tíma skyldu teppast við Svartá utar, sýnist enginn ógjörningur, en örlítill krókur að fara yfir hana þarna; já ólíklegt að menn kysu það ekki heldur, en að klöngrast Hlíðarskriðu með lífshættu fyrir sig og hesta, og þá eiga eftir Hlíðará, sem sannast sagt er æði mikið hættulegra vatnsfall þó minni sé en Svartá. Það má reiða sig á, að sé Svartá ófær fyrir vorleysingar, er Hlíðará það einnig; og við Hlíðará tepptist oft bæði ég og messufólk; við Hlíðará tepptist póstur að mér ásjáandi, en aldrei við Svartá. Eigi póstleiðin að liggja utan Langadal, verðu brú nauðsynleg á Hlíðará, en getur sparast fyrst um sinn á Svartá. Enda hafa Bólstaðarhlíðarhreppsmenn oft sótt um fé af sýsluvegasjóði til að brúa Hlíðará, og var eitt sinn byrjað á að efna til hennar en við það situr, því að féð fékkst þá ekki. Hjá Hlíðará er hægt að komast ef fremsta leiðin væri tekin, að eins yrði þá að flytja bréfhirðinguna að Botnastöðum, þar sem hún var, eða Gili. - Þess er vert að geta, að fyrir utan mig og 2 menn aðra í sýslunefndinni, sem vel að merkja báðir eru Langdælir, eru allir aðrir ókunnugir Svartá og Hlíðará, margir þeirra hafa aldrei litið þær augum, og jafnvel eigi Blöndu heldur, sumir hafa örsjaldan, sumir aldrei komið að henni. Svona er nú þessi aðalsnagi tryggur.
En hvað gjöra nú þessir ystu leiðarmenn úr Laxá (ytri)? Svar: Ekkert, og þó er hún í sannleika engu minni torfæra en Svartá. Hún kemur úr Laxárvatni, og liggur leiðin yfir hana neðarlega nálægt sjó, á svo grýttu og vondu vaði, að annað eins vað þekki ég hvergi á Svartá, önnur vaðnefna er nokkuð neðar, djúpt með kaststreng í; enda meðan Laxárvatn er að leysa á vorin, er hún tíðum ófær, þar er ekki um marga vegi að velja til yfirferðar, nema að setja á hana brú, rúma brú, þriðju nauðsynlegu brúna til að geta notað ystu leiðina nokkurn veginn hættulaust, og auka kostnaðinn enn um nokkrar þús. króna, nei, enn betur, brú sjálfsagt nauðsynlega yfir Gunnsteinsstaða Síkið (þ. e. kvísl af Blöndu, sem liggur á veginum, djúp og tíðum ófær) það er fjórða brúin, og í fimmta lagi mundi vera oft þörf á brú yfir Auðólfsstaðaá, sem kemur ofan á þveran veginn ofan af Laxárdal.
Um þessa ystu leið hefur herra Siwerson eðlilega talað minnst í skýrslu sinni, af þeirri ástæðu, að honum hefur ekki komið til hugar, að vér yrðum þau börn að kjósa hana, þegar vegamunurinn og aðrir ókostir hennar væru oss kunnir. Enda er þessi ysta leið þannig til komin í fyrstu, að uppástungumaður hennar 1888 ætlaði eins og að ganga fram af mönnum með fjarstæðu sinni, hafandi ekki minnstu von um, að nokkur yrði með sér, en honum sjálfum var hún persónulega þægilegust.

Á fremstu leiðinni er einnig Laxá (fremri), sem kemur úr Svínavatni, segja mótstöðumennirnir. Það er satt, en vaðið á henni er við ós hennar, áður en nokkur sitra rennur í hana, vaðið er lygnt sem pollur, grunnt með sléttum malarbotni, að tala þar um brú er hlægilegt fyrir Íslendinga enn sem stendur.
Annar hattasnagi mótstöðumannanna er, að mig minnir, mismunurinn á brúarkostnaðinum yfir Blöndu útfrá og framfrá. Jú, eftir áætlun Siwersons, er brúin framfrá rúmum 8.000 kr. dýrari en útfrá, en skyldu ekki þær 8.000 kr. nást oftar en einu sinni af mismun vegakostnaðarins? 2)
Þá á vegfræðingurinn ekki að hafa reiknað neitt út, hversu miklu dýrara væri að koma brúarefninu fram eftir en uppá klifinn. Þetta er auðvitað sagt út í hött; en hafi hann gjört áætlun um hvað kostaði að koma brúarefninu fram á klif, þá hefir hann án efa gjört áætlun um kostnaðinn að koma því lengra á leið. Hvorugt er ástæða til að tortryggja - Af Blönduós á að vera í flestum vetrum ómögulegt að aka þungu æki fram í Blöndudal; en sannleikurinn er, að af Ósnum er oft örðugt að aka einmitt upp að klifjum, en úr því þangað er komið, kemur víst enginn sá vetur fyrir, að eigi sé alhægt að aka fram í Blöndudal - og Svartárdal, annaðhvort eftir Blöndu sjálfri, eða flóunum og vötnunum á Ásunum. Reyndar hefir hengibrúarefni aldrei verið ekið þessa leið, en sjálfur hefi ég látið aka þessa leið 1000 pundum korns í einu hingað á heimili mitt, á einum hesti, og gekk það ágætlega vel. Öðru sinni lét ég aka af Ósnum brúartrjánum í hina fyrirhuguðu Hlíðarárbrú. Efninu í Svínavatnskirkju var ekið þessa leið, og fjöldanum af stærstu trjánum í Bólstaðarhlíðarkirkju var ekið af Ósnum. Þetta finnst mér vera fremur til greina takandi, en bláber reynslulaus orð hinna móthverfu.
Þá er einn kostur enn á fremstu leiðinni, sem hvorug hinna á til, en það er Svínavatn, sem er stór hluti leiðarinnar að Blöndu. Flesta vetra liggur það megnið af vetrinum undir ís, og vanalega glærir ísar frá báðum endum þess. Er nú annað eðlilegra, en að bæði póstur og ferðamenn milli fjórðunga, fari Svínavatn að vetrinum, hvar svo sem aðalpóstleiðin liggur um sýsluna? Ég segi nei; enda hefir núverandi póstur sagt, að hann óneyddur færi eigi aðra leið; en að fleygja mörgum tugum þúsunda í veg, sem ekki er farinn af þeim, sem hann er ætlaður, er ekki við vort hæfi. - Ennfremur má geta þess, er um kostnaðinn er að ræða, að 1888 var sú hugsun sýslunefndarinnar, að láta veginn víða liggja eftir fjallshlíðunum í Langadal. Siwerson vegfræðing kom eigi einu sinni til hugar að mæla þar, heldur mældi hann niðri í dalnum á láglendinu. Og með því að nú minnast þessir menn ekkert á fjallshlíðaveg framar, er að sjá, sem þeir álíti þetta þó eigi öðru jafnvitlaust hjá vegfræðingnum, en við þetta eykst kostnaðurinn að stórum mun, því vegurinn liggur þá víða yfir blómlega flæðiengi, sem landssjóður verður fyrst að kaupa samkvæmt lögunum undir veginn, og ég efast ekki um, að Laugdælum þykir hver faðmurinn úr þessum engjum sínum mikils virði sem von er. Á fremstu leiðinni eru að vísu engjar sumsstaðar, en þær eru lítilsvirði í samanburði við Langadalsflæðin, og víða eru á þeirri leið aðeins óræktar og móar, mýrar, holt og melar, sem ekkert verð er í.
Þegar mótstöðumenn mínir í máli þessu í sýslunefndinni eru gjörtæmdir af sennilegum (ekki sönnum) ástæðum fyrir áliti sínu, snúa þeir að lögunum sjálfum, að sýna, hversu óhæfilegt sé að hugsa til akvega eða 6 álna breiðra vega hér hjá oss, og ráða til að leggja að eins klyfjagötur. Ég veit reyndar eigi hverjum þeir félagar mínir ætla að fara eftir þessari ráðleggingu, hvort það er hugsunin, að landshöfðinginn einn breyti nú þegar lögunum og fyrirskipi að leggja klyfjagötur í stað 6 álna breiðra vega eða hvort Húnavatnssýsla ein sé óhæf fyrir akvegi. Yfir höfuð kemur þessi tillaga, eins og nú stendur, eins og úr leggnum. Við höfum eitt sinn lög, sem við eigum að hlýða þar til þeim er breytt. Sök sér hefði verið, ef klyfjagatnafýsnin var ómótstríðanleg, að landshöfðinginn hefði verið beðinn um, að fresta því, að ákveða aðalpóstleiðina, þar til alþing væri búið að breyta lögunum og koma klyfjagötunni á. En séu nú klyfjagötur hentugri en 6 álna breiðir vegir, mega þær þá ekki liggja þar, sem þær eru hentugastar til umferða? Má þá ekki eins leggja klyfjagötu meðfram Svínavatni eins og fram og út Langadal, eru ekki sömu kostir og ókostir beggja leiðanna hvort heldur er klyfjavegur eða akvegur?
Þó nú svo ólíklega kunni að fara, að þessi ysta leið verði gjörð að aðalpóstleið, er ólíklegt að alþing verði fúst til að fleygja peningum alls landsins þannig á glæður, úr því það væri þvert ofan í tillögu amtsráðs og vegfróðra manna (sbr. 6. gr. laga nr. 25, 10. nóv. 1887), sem líkindi væru til að ættu að hafa meira að segja, en meiri hluti einnar sýslunefndar, sem er sannarlega ekki vegfróð; og suma norðanþingmenn hefi ég heyrt segja, að þó vegurinn yrði lagður ofan á Langadal yfir hjá Tindum (hvað þá út á Bl. ós), mundu þeir aldrei fara hann. En yrði ysta leiðin ofan á, þætti mér sjálfsagt, að fleiri sýslufélög landsins vildu fá samskonar aðalpóstleið. T. d. ætti þá aðalpóstleiðin í Skagafjarðarsýslu að leggjast út á Sauðárkrók, já fyrir því væru ótal ástæður gildari en fyrir Blönduósleiðinni hér. Eins ætti þá að leggja aðalpóstleiðina um Þingeyjarsýslu út á Húsavík, en ekki fram um Staði o. s. frv. Út á Húsavík og Sauðárkrók er góður vegur, og sömuleiðis þaðan og norður á við, svo tiltölulega væri lítill kostnaður að koma þeim krókum á, ef nauðsynin krefði; en það er svo merkilegt, að til þess að geta fengið nær 1½ mílu krók á aðalpóstleiðina í Húnavatnssýslu þarf að búa til alveg spánýjan veg sem kostar marga tugi þús króna eftir hinni afarlöngu sveit Langadalnum, og síðan eiga undir von, hvort hann verður farinn eða ekki, og varanlegleikinn mjög vafasamur vegna landslagsins. Það er og einkennilegt að aðalpóstleiðin frá Reykjavík til Akureyrar, og yfir höfuð aðalpóstleiðir landsins, liggja svo krókalaust sem frekast má, svo komist þessi ysta leið hér á, er það eini verulegi krókurinn, og þó er til því nær bein leið nálægt miðbiki sýslunnar, hafandi ótal sannaða kosti framyfir vinklaleiðina.
Á sýslunefndarfundinum 1888 var miðleiðinni talið eitt með öðru það til gildis, að hún lægi um miðja sýslu, nú er það enginn kostur lengur hjá sömu mönnunum, en álitið aftur á móti hentugast að þræða jaðra sýslunnar með ókleyfum kostnaði og þvert ofan í vilja almennings og pósts. Og viti menn, hún er reynd þessi ysta leið, því hér um árið var hún gjörð að aðalpóstleið, en hvað skeði? Póstur heimtaði launabót, almenningur, nema nokkrir Langdælir og Ósverjar óánægðir, og leiðin á næsta ári afmáð sem óhafandi. Á þessu eina ári komst þáverandi póstur tvisvar í lífshættu í ytri Laxá, (fyrir framan Ósinn) sem nú er eigi nefnd sem farartálmi. Og nú væri fróðlegt að fá að vita, til hvers aukapóstar eru settir; mun það ekki einmitt til þess að fara króknana af aðalpóstleiðinni svo aðalpósturinn þurfi ekki að tefja ferðina á því, en geti haldið sem beinast og greiðast.
Yfir höfuð er pósturinn og ferðamennirnir, sem þessi vegur er ætlaður, búnir að sýna, hvar vegurinn á að vera og á ekki að vera, með því að umferð þeirra er öll yfir fremstu leiðina, jafnvel þó nú sé vond yfirferðar, þegar Svínavatn ekki er á ís, en engin eftir hinum leiðunum, síst hinni ystu. Er þetta ekki sama, sem þjóðin, er notar, segi: "Ég vil hvergi hafa aðalpóstleiðina um austurhluta Húnavatnssýslu annarsstaðar en meðfram Svínavatni"? Og er þá ekki hart að segja við hana: "Þú hefur ekkert vit á þessu, þér er miklu betra að krækja um 1½ mílu út að sjó, og þó hálærður vegfræðingur, sem þú kostaðir til 3.000 króna, sé á þínu máli, þá er það allt eintómur misskilningur; þó þú á fremstu leiðinni hafir að velja um gott vað, ferju og ágætt brúarstæði á Blöndu allt hvað hjá öðru, þó leiðin sé styst, ódýrust, varanlegust og eðlilegust, þá er þetta allt fásinna móts við" -- ja móts við hvað? Það virðist varla annað svar til en "að fá að koma á Blönduós".
Það er ekki óeðlilegt, þó sumir ókunnugir héldu að ég berðist í þessa stefnu af því, að ég sé sjálfur í Svínavatnshreppi, og vildi halda mínum hreppi fram; en því til sönnunar, að það sé allt annað en hreppapólitík, sem ræður skoðun minni, læt ég þess getið, að meðan ég var prestur á Bergsstöðum, og hafði enga hugmynd um, að ég yrði í Svínavatnshreppi, eða að veglögunum yrði breytt, lét ég einmitt þessa aðalskoðun í ljósi út af þar til gefnu efni í ísl. blaði; og enn fremur vil ég segja ókunnugum það, að þó aðalpóstleiðin yrði lögð meðfram Svínavatni, hefir sveit mín svo sem ekkert gagn af þeim vegi, að eins örfáir bæir gætu notað hann til kirkju sinnar að Svínavatni á stuttum kafla.
Í febrúar 1891.
1) Hversu margar mundi mega telja eftir nokkur ár? Eigi ólíklegt að þá lægi vegurinn eigi lengur yfir þær, heldur undir þeim, þar sem hann verður að liggja við rætur á snarbröttu fjalli.
2) Ef maður einblínir í þessu máli aðeins á brú yfir Blöndu, og álítur það einu og fyrstu nauðsynina, sem að mínu áliti er alls ekki fyrsta skilyrðið, þar sem 3 lögferjur eru á ánni, þá á maður að einblína á hana þar, sem hún nær best tilgangi sínum, jafnvel þó hún yrði þar nokkuð dýrari, eins og með veginn yfir höfuð, hvað þá þegar gagnseminni sameinast afar mikill peningasparnaður í heild sinni.