1890

Þjóðólfur, 7. mars 1890, 42. árg., 11. tbl., forsíða:

Vegfræðingsskýrsla.
(síðari grein)
Í síðasta blaði skýrðum vér frá kostnaðaráætlun vegfræðings A. Siwersons við nokkra vegi og brýr hér á landi. Í áætlunum þessum kveðst hann hafa talið vinnulaun handa vönum verkamanni 3 kr. á dag, auðvitað án fæðis, sem hann yrði að leggja sér til, og getur enginn talið það hátt eftir verkalaunum hér á landi, sem eru yfir höfuð talsvert hærri, en víða í öðrum löndum. En aftur á móti mun mönnum þykja hann reikna hátt hestleigu, sem hann gerir 2 kr. á dag fyrir hvern hest. Að öðru leyti segir vegfræðingurinn um áætlanir sínar: "Að því er snertir efni í brýrnar og vegina, verkfæri og verkstjórn, þá hef ég- sakir þess, að vinna verður að smáköflum, sínum á hverjum stað, og sakir annarra sérstakra staðhátta Íslands - sett þessi útgjöld um 60% hærra, en þetta kostar við vegi þá, sem lagðir eru í Noregi á kostnað ríkisins. Í áætlun um brúargjörðir er vel í lagt fyrir flutningskostnaði á efninu til Íslands og að brúarstæðunum. Þannig eru áætlanirnar um 80% hærri, en ef vega- og brúargjörðin færi fram í Noregi.
Að öðru leyti hef ég hugsað mér sjálfa vegagjörðina, bæði veglagninguna og ofaníburð, eins og vegi þá, sem þegar hafa verið gjörðir nálægt Reykjavík og á Vaðlaheiði, en við þá vegi hef ég þó það að athuga, að í mýrum eru skurðirnir of nálægt veginum. Í mýrlendi nálægt Hvítá og með fram Svínavatni ætti skurðbarmurinn að minnsta kosti að vera 2 metra (rúmar 3 álnir) frá vegbrúninni".
Um vegagjörð hér á landi yfir höfuð lætur A. Siwerson uppi álit sitt á þessa leið:
"Yfir höfuð er landslagið auðvelt til vegagjörðar og kostnaðarlítið að vinna jarðveginn og sprengja björg, sem fyrir kunna að koma. Jafnvel þótt árnar séu margar og stórar, jarðvegurinn víða gljúpur, ár og lækir straumharðir, og sökum þess útgjöldin við brýr og lokræsi verði jafnan tiltölulega mikil, þá á þó yfir höfuð að geta fengist gjörður akvegur, 3,8 metrar á breidd, eða 2,6 metrar á breidd, þar sem kostnaðarsamt er að leggja hann vegna landslagsins, fyrir 3.000 -3.500 kr. hver kílómeter (=1000 metrar).*
Af póstleiðinni milli Reykjavíkur og Akureyrar get ég ekki sagt um veginn frá Hvammi í Norðurárdal norður í Hrútafjörð, því að ég fór ekki þá leið**, en aðra hluta póstleiðar þessarar hef ég farið, og eru þar vitanlega miklir erfiðleikar að yfirbuga sumsstaðar, t.d. fyrir Hvalfjarðarbotni, yfir Svínaskarð og Öxnadalsheiði, en samt sem áður er ég sannfærður um, að jafnvel á þessum stöðum má gjöra góðan akveg. Ef menn vilja ekki verja allt of miklu fé til þeirrar vegagjörðar í upphafi, verður hinn árlegi viðhaldskostnaður meiri en ella.
Sakir þess, hve landið er stórt og þar af leiðandi afar nauðsynlegt að bæta vegina, er hins vegar líklega tiltölulega lítið fé til, sem varði verður árlega til vegagjörða, verður að ætlun minni óhjákvæmilegt að vinna að vegum á ýmsum stöðum ár eftir ár, svo fyrst verði bættir þeir kaflar, sem eru samgöngunum mest til tálmunar. Mér sýnist því vafalaust, að fyrst eigi að brúa þær ár, sem hættulegastar eru yfirferðar, og jafnframt séu lagðir þeir vegir í grenndinni, sem nauðsynlegir eru, til þess að geta notað brýrnar, svo framarlega, sem ekki nein slík brúargjörð kostaði svo afarmikið fé, að af þeim átæðum sýndist hentugra að láta hana bíða, þangað til seinna.

Á áðurnefndri leið (milli Reykjavíkur og Akureyrar) hefur verið gjört ekki svo lítið af reiðvegum, sem gjörsamlega hafa eyðilagst, eftir því sem fram liðu stundir: vatnið hefur tekið sér rás eftir vegunum, skolað burt allri mold og ofaníburði, svo að nú standa að eins eftir stórir og smáir steinar. Þetta er veggjörðarmanninum að kenna, því að í staðinn fyrir að veita vatninu niður fyrir veginn svo fljótt, sem auðið var, lítur út fyrir, að menn hafi viljað halda því fyrir ofan veginn svo lengi, sem unnt var. Það er sannfæring mín - sem ég styð við reynslu frá verkum mínum í Austur-Finnmörk og fjöllunum í Noregi, þar sem líkt stendur á eins og á Íslandi - að með hjálp vegfróðra manna megi fá góða vegi, sem með litlu viðhaldi munu geta staðið til lengdar og gefið góða vöxtu af fé því, sem til þeirra hefur verið varið".
__________
*) Það verður rúmlega 22.000 -26.000 kr. hver míla.
**) Hann fór norður Kaldadal og Grímsártunguheiði.


Þjóðólfur, 7. mars 1890, 42. árg., 11. tbl., forsíða:

Vegfræðingsskýrsla.
(síðari grein)
Í síðasta blaði skýrðum vér frá kostnaðaráætlun vegfræðings A. Siwersons við nokkra vegi og brýr hér á landi. Í áætlunum þessum kveðst hann hafa talið vinnulaun handa vönum verkamanni 3 kr. á dag, auðvitað án fæðis, sem hann yrði að leggja sér til, og getur enginn talið það hátt eftir verkalaunum hér á landi, sem eru yfir höfuð talsvert hærri, en víða í öðrum löndum. En aftur á móti mun mönnum þykja hann reikna hátt hestleigu, sem hann gerir 2 kr. á dag fyrir hvern hest. Að öðru leyti segir vegfræðingurinn um áætlanir sínar: "Að því er snertir efni í brýrnar og vegina, verkfæri og verkstjórn, þá hef ég- sakir þess, að vinna verður að smáköflum, sínum á hverjum stað, og sakir annarra sérstakra staðhátta Íslands - sett þessi útgjöld um 60% hærra, en þetta kostar við vegi þá, sem lagðir eru í Noregi á kostnað ríkisins. Í áætlun um brúargjörðir er vel í lagt fyrir flutningskostnaði á efninu til Íslands og að brúarstæðunum. Þannig eru áætlanirnar um 80% hærri, en ef vega- og brúargjörðin færi fram í Noregi.
Að öðru leyti hef ég hugsað mér sjálfa vegagjörðina, bæði veglagninguna og ofaníburð, eins og vegi þá, sem þegar hafa verið gjörðir nálægt Reykjavík og á Vaðlaheiði, en við þá vegi hef ég þó það að athuga, að í mýrum eru skurðirnir of nálægt veginum. Í mýrlendi nálægt Hvítá og með fram Svínavatni ætti skurðbarmurinn að minnsta kosti að vera 2 metra (rúmar 3 álnir) frá vegbrúninni".
Um vegagjörð hér á landi yfir höfuð lætur A. Siwerson uppi álit sitt á þessa leið:
"Yfir höfuð er landslagið auðvelt til vegagjörðar og kostnaðarlítið að vinna jarðveginn og sprengja björg, sem fyrir kunna að koma. Jafnvel þótt árnar séu margar og stórar, jarðvegurinn víða gljúpur, ár og lækir straumharðir, og sökum þess útgjöldin við brýr og lokræsi verði jafnan tiltölulega mikil, þá á þó yfir höfuð að geta fengist gjörður akvegur, 3,8 metrar á breidd, eða 2,6 metrar á breidd, þar sem kostnaðarsamt er að leggja hann vegna landslagsins, fyrir 3.000 -3.500 kr. hver kílómeter (=1000 metrar).*
Af póstleiðinni milli Reykjavíkur og Akureyrar get ég ekki sagt um veginn frá Hvammi í Norðurárdal norður í Hrútafjörð, því að ég fór ekki þá leið**, en aðra hluta póstleiðar þessarar hef ég farið, og eru þar vitanlega miklir erfiðleikar að yfirbuga sumsstaðar, t.d. fyrir Hvalfjarðarbotni, yfir Svínaskarð og Öxnadalsheiði, en samt sem áður er ég sannfærður um, að jafnvel á þessum stöðum má gjöra góðan akveg. Ef menn vilja ekki verja allt of miklu fé til þeirrar vegagjörðar í upphafi, verður hinn árlegi viðhaldskostnaður meiri en ella.
Sakir þess, hve landið er stórt og þar af leiðandi afar nauðsynlegt að bæta vegina, er hins vegar líklega tiltölulega lítið fé til, sem varði verður árlega til vegagjörða, verður að ætlun minni óhjákvæmilegt að vinna að vegum á ýmsum stöðum ár eftir ár, svo fyrst verði bættir þeir kaflar, sem eru samgöngunum mest til tálmunar. Mér sýnist því vafalaust, að fyrst eigi að brúa þær ár, sem hættulegastar eru yfirferðar, og jafnframt séu lagðir þeir vegir í grenndinni, sem nauðsynlegir eru, til þess að geta notað brýrnar, svo framarlega, sem ekki nein slík brúargjörð kostaði svo afarmikið fé, að af þeim átæðum sýndist hentugra að láta hana bíða, þangað til seinna.

Á áðurnefndri leið (milli Reykjavíkur og Akureyrar) hefur verið gjört ekki svo lítið af reiðvegum, sem gjörsamlega hafa eyðilagst, eftir því sem fram liðu stundir: vatnið hefur tekið sér rás eftir vegunum, skolað burt allri mold og ofaníburði, svo að nú standa að eins eftir stórir og smáir steinar. Þetta er veggjörðarmanninum að kenna, því að í staðinn fyrir að veita vatninu niður fyrir veginn svo fljótt, sem auðið var, lítur út fyrir, að menn hafi viljað halda því fyrir ofan veginn svo lengi, sem unnt var. Það er sannfæring mín - sem ég styð við reynslu frá verkum mínum í Austur-Finnmörk og fjöllunum í Noregi, þar sem líkt stendur á eins og á Íslandi - að með hjálp vegfróðra manna megi fá góða vegi, sem með litlu viðhaldi munu geta staðið til lengdar og gefið góða vöxtu af fé því, sem til þeirra hefur verið varið".
__________
*) Það verður rúmlega 22.000 -26.000 kr. hver míla.
**) Hann fór norður Kaldadal og Grímsártunguheiði.