1890

Ísafold, 15.mars, 1890, 17. árg., 22. tbl., bls. 86.:

Vegagjörð á Þorskafjarðarheiði.
Hinn forni vegur yfir heiði þessa, norður Langadal, lá fram Kollabúðadal og vestanvert upp úr botni hans yfir djúpt gljúfra-gil, sem kallað er Ísfirðingagil og hefir jafnan verið talið hinn versti farartálmi á þessari leið og stundum ófært fyrirferðar. Síðan lá vegurinn upp yfir Tröllaháls fram í Fremri-Fjalldal, og eftir honum og upp úr botni hans norður heiði á Fjölskylduholt. Þar eru sýsluskil Barðastrandar- og Ísafjarðarsýslna. Þaðan niður á Kjöl að Bröttubrekku, og loks ofan á Högnafjall og Heiðarbrekku. Ímyndi maður sér beina línu dregna dalbrúna á milli Kolabúðadals og Langadals, sést það glöggt, að vegur þessi liggur í mikinn bug til austurs, einkum um Bröttubrekku, sem er norðarlega á heiðinni.
Þá er nú að skoða vegagjörð á fjallvegi þessum, og er best fljótt yfir þá sögu að fara.
Vegagjörð á heiði þessari snemma á þessari öld var, eins og þá var títt, ekki önnur en að kasta steinum úr götu og hlaða vörður, sem hrundu fáum árum síðar, svo allt komst í sömu vegleysu aftur. Þá var Kollabúðafundur haldinn mörg vor af þriggja sýslna búum norðan til í Vesturumdæminu. Kom þar til umræðu um vegleysu á Þorskafjarðarheiði og sýndist öllum nauðsynlegt, að koma upp sæluhúsi á miðri heiði, mönnum til bjargar á vetrum á þessum fjölfarna og hættulega fjallvegi, og átti Kristján heitinn í Reykjarfirði lof skilið fyrir að gjörast hvatamaður þess. Var húsið reist á sýslumótum, nálægt Fjölskylduholti. Þó sæluhús þetta væri illa byggður og ónógur kofi, með slæmu fyrirkomulagi, varð hann þó mönnum til bjargar mörgum sinnum í vetrarbyljum og ófærðum, meðan hann gat hangið uppi; en nú er hann fyrir mörgum árum gjörsamlega niður fallinn.
Eftir að þingið var búið að fá fjárforráð í hendur, varð Þorskafjarðarheiði tekin fyrir til aðgjörðar og vinnan boðin upp af sýslumanni. Daníel heitinn Hjaltason í Hlíð varð svo hlutskarpur, að fá hana; hann var líka bláfátækur maður og þurfti eins og aðrir á peningum að halda. Hann mun hafa haft málsmetandi menn í ráðum með sér, hvar leggja ætti veginn upp frá Þorskafirði á heiðina. Sýndist þeim óhafandi vegur vetrardag upp úr Kollabúðadal, sem er djúpur og brattar hlíðarnar, er fyllast miklum og stundum ófærum hengifönnum, einkum eystri hlíðin, og þar að auki illfær gljúfragil í botni hans. Var því álitið, að heiðarvegurinn væri best að lægi frá Múlakoti, sem er stutt bæjarleið frá Kollabúðum, norðan fram við Þorskafjörð innan til, og þaðan fram hinn lága og torfærulausa Þorgeirsdal. Og þar byrjaði Daníel heitinn á þessari vegagjörð sinni. Hann mun með nokkrum mönnum hafa fengist við hana tvö sumur, og kostaði það landssjóð mörg hundruð krónur, og eftir 2 eða 3 ár mun enginn ferðamaður hafa freistast til að fara hans nýja veg, enda þó hann færi fram Þorgeirsdal fram á heiðina.
Þá kemur nú Jón gamli póstur Magnússon til sögunnar. Og þá kastar líka tólfunum. Jafnvel þó hann væri kunnugur Þorskafjarðarheiði, - því nokkrum sinnum hafði hann yfir hana farið - tekur hann þó tvo menn með sér, þá helstu, sem fáanlegir voru, Pétur heitinn hreppstjóra á Hríshól -"skýst þá skýrir séu" - og Bjarna bónda á Reykhólum. En óheppnin var, að báðir voru þeir ókunnugri heiðinni en hann sjálfur. Þessa hafði hann með sér til að meta, hvar haganlegast væri að leggja veg frá Þorskafirði upp á heiðina. Þeir vildu þá leggja hann fram Kollabúðadal og austanvert upp úr botni hans, svo komist yrði hjá að þurfa að fara yfir Ísfirðingagil, sem er vestanvert í dalbotninum eins og fyr er getið. En þeir athuguðu ekki vel fannkyngið austan til í dalnum, auk þess sem þar er líka slæmt gljúfragil, sem kallað er Ófærugil. Skapaði þá þessi þriggja manna nefnd veginn í huga sínum yfir heiðina fram Kollabúðadal, yfir fúamýrar frá Selgili fram að Ófærugili, yfir það og Nautatungur upp á fjall. Þaðan eftir melholtahryggjum norður austan til við Gedduvatn, sem er norðanvert á miðri heiði, og að Bröttubrekkuhæð, í mikinn krók til vesturs ofan á Högnafjall að Heiðarbrekku: og fylgdi Jón rækilega þessari vegarstefnu-hugsun þeirra, þegar til vinnunnar kom. Þeir vildu telja mönnum trú um, að þessi vegarstefna væri styttri en forni vegurinn. En það gefur hverjum manni að skilja, að svo er ekki. Vegirnir liggja báðir úr sama stað að sunnan og koma saman að norðanverðu á Heiðarbrekku. Nú er bugða mikil, eins og sagt hefir verið, á hinum forna vegi til austurs, en þó liggur þessi nýi vegur mikið austar, og munar það um miðja heiði mörg hundruð, ef ekki þúsund föðmum. Þá tekur nú vegavinnuforstjórinn Jón póstur til verka með útvalda 20 þjóna sína og byrjar á heiðarbrekkunni upp úr Langadal. Það er ein brú neðan af jafnsléttu langan hliðarhalla upp á brún. Þessi brú er talin af öllum er hafa séð allmikið mannvirki og er líka sá eini spotti sem allir fara um ofan af heiðinni og verður til frambúðar, þó endurbóta þurfi lítils háttar eftir leysingar á hverju vori. Jón vann mikið í tvö sumur að þessari vegavinnu á heiðinni. Að sunnanverðu brúaði hann frá Selgili að Ófærugili úr torfi yfir fúamýrarforæði, langan kafla, sem á öðru ári eftir vinnuna varð ferðamönnum að farartálma, því hestar ferðamanna lágu þar á kviðnum á þessum brúm. Nú fer þar enginn um. Jón meitlaði sundur bergnef hjá Ófærugili sem skútti fram yfir veginn. Við það voru þeir lengi. Gjörð var enn fremur ónýt brú í Nautatungum úr torfi. Frá Nautatungubrún gjörði hann góðan veg norður undir Gedduvatn að austanverðu, enda var það hægt eftir melholtabryggjum. Það er nú sá eini kafli af þessum nýja vegi sem farinn er nokkuð almennt. En þar stingur í stúf; því vegagjörð Jóns nær ekki lengra. Enda þurfti þar meira fyrir að hafa; því þar koma fyrir hraunurðaröræfi austan til við vatnið ofan á Högnafjall. Þá verða ferðamenn að beygja þvert úr leið sunnan til við Gedduvatn, mörg hundruð faðma til vesturs yfir urðir og bleytuslörk, sem þeir fara í ýmsum stöðum, eftir því sem skriflast geta. Jón hlóð vænar vörður eftir þessum nýja vegi - þó sumar séu nú hrundar - þó kvað einn kafli vera ónotaður, sem hann entist ekki til að fullgjöra.
Árangurinn af þessari vegagjörð yfir Þorskafjarðarheiði er nú sá eftir þessi fáu ár sem eru liðin, að enginn maður fer nú þennan nýja veg; því það er ekki hægt að fara hann nema heiðarbrekkuna að norðanverðu og kaflann frá Nautatungubrún að Gedduvatni. Er því þessum mörgu þúsundum króna, sem til þessa vegar var varið af landsfé sem kastað í sjóinn og er einmitt því um að kenna að vegurinn varð lagður á óhentugum og óhafandi stað.
Hryggilegast er að slysfarir eru nú farnar að verða tíðari á þessari heiði en sögur hafa af farið á næstliðinni öld og fram yfir þessa miðja. Má því naumast svo búið standa lengur. Mögl og óánægja pósta og ferðamanna yfir vegleysu heiðarinnar er mikil. Hún mun hafa valdið því að þetta mál var rætt á sýslufundi á Stað á Reykjanesi nú í vor, og kvað álit fundarmanna hafa verið að vegurinn upp á heiðina að sunnan væri hentugast lagður upp úr Þorgeirsdal. En árangur af því fyrir þetta mál verður komandi tíð að auglýsa. Ég hef nú lýst vegum þessum yfir Þorskafjarðarheiði með göllum þeim sem á þeim eru. Dirfist ég þá að endingu að láta skoðun mína í ljósi um þetta mál, og hefir hún að styðjast við kunnugra manna álit, bæði í Gufudals- og Reykhólahreppum um það, hvar heppilegast er að leggja vetrarveg yfir heiðina svo orðið gæti mönnum til varnar að hreppa slysfarir, en láta ferðamenn sjálfráða sumardaginn hvernig þeir vilja skrölta yfir hana; það verður þeim ekki að fjörlesti um þann tíma.
Álit vort er þá að vegurinn sé haganlegast lagður upp úr Þorgeirsdalsbotni upp á brún og beina sjónhending að sæluhússrústunum og svo þaðan eftir gamla veginum norður af fjallinu. Þessi vegur er hættulaus af kunnugum, sagður ófærðarminnstur af fönnum. Hann ætti að vera mjög vel varðaður með þéttum vörðum, hér um bil 20-30 faðmar milli þeirra, eins og nú er á Bæjardalsheiði: og hafa þar engin slys orðið síðan þessar þéttu vörður voru gjörðar, en áður voru þar tíðar slysfarir. Þessa vörðuhleðslu ættu næstu hreppar í báðum sýslum, Barðastrandar og Ísafjarðar, að annast án þess að íþyngja landssjóði. En sæluhús ætti að reisa aftur þar sem áður var og betra en það var á landssjóðs kostnað, og helst að hafa þar eitthvert fólk til umsjónar og beinleika fyrir ferðamenn. Skil ég ekki í að við Vestfirðingar eigum ekki jafnt tilkall til slíkra lífsnauðsynja fyrir ferðamenn eins og aðrir landsfjórðungar, sem fá stórfé úr landssjóði til vegagjörðar og brúa yfir stórár.
Mýrartungu í Reykhólasveit, í febrúar 1890.
Páll Ingimundarson.


Ísafold, 15.mars, 1890, 17. árg., 22. tbl., bls. 86.:

Vegagjörð á Þorskafjarðarheiði.
Hinn forni vegur yfir heiði þessa, norður Langadal, lá fram Kollabúðadal og vestanvert upp úr botni hans yfir djúpt gljúfra-gil, sem kallað er Ísfirðingagil og hefir jafnan verið talið hinn versti farartálmi á þessari leið og stundum ófært fyrirferðar. Síðan lá vegurinn upp yfir Tröllaháls fram í Fremri-Fjalldal, og eftir honum og upp úr botni hans norður heiði á Fjölskylduholt. Þar eru sýsluskil Barðastrandar- og Ísafjarðarsýslna. Þaðan niður á Kjöl að Bröttubrekku, og loks ofan á Högnafjall og Heiðarbrekku. Ímyndi maður sér beina línu dregna dalbrúna á milli Kolabúðadals og Langadals, sést það glöggt, að vegur þessi liggur í mikinn bug til austurs, einkum um Bröttubrekku, sem er norðarlega á heiðinni.
Þá er nú að skoða vegagjörð á fjallvegi þessum, og er best fljótt yfir þá sögu að fara.
Vegagjörð á heiði þessari snemma á þessari öld var, eins og þá var títt, ekki önnur en að kasta steinum úr götu og hlaða vörður, sem hrundu fáum árum síðar, svo allt komst í sömu vegleysu aftur. Þá var Kollabúðafundur haldinn mörg vor af þriggja sýslna búum norðan til í Vesturumdæminu. Kom þar til umræðu um vegleysu á Þorskafjarðarheiði og sýndist öllum nauðsynlegt, að koma upp sæluhúsi á miðri heiði, mönnum til bjargar á vetrum á þessum fjölfarna og hættulega fjallvegi, og átti Kristján heitinn í Reykjarfirði lof skilið fyrir að gjörast hvatamaður þess. Var húsið reist á sýslumótum, nálægt Fjölskylduholti. Þó sæluhús þetta væri illa byggður og ónógur kofi, með slæmu fyrirkomulagi, varð hann þó mönnum til bjargar mörgum sinnum í vetrarbyljum og ófærðum, meðan hann gat hangið uppi; en nú er hann fyrir mörgum árum gjörsamlega niður fallinn.
Eftir að þingið var búið að fá fjárforráð í hendur, varð Þorskafjarðarheiði tekin fyrir til aðgjörðar og vinnan boðin upp af sýslumanni. Daníel heitinn Hjaltason í Hlíð varð svo hlutskarpur, að fá hana; hann var líka bláfátækur maður og þurfti eins og aðrir á peningum að halda. Hann mun hafa haft málsmetandi menn í ráðum með sér, hvar leggja ætti veginn upp frá Þorskafirði á heiðina. Sýndist þeim óhafandi vegur vetrardag upp úr Kollabúðadal, sem er djúpur og brattar hlíðarnar, er fyllast miklum og stundum ófærum hengifönnum, einkum eystri hlíðin, og þar að auki illfær gljúfragil í botni hans. Var því álitið, að heiðarvegurinn væri best að lægi frá Múlakoti, sem er stutt bæjarleið frá Kollabúðum, norðan fram við Þorskafjörð innan til, og þaðan fram hinn lága og torfærulausa Þorgeirsdal. Og þar byrjaði Daníel heitinn á þessari vegagjörð sinni. Hann mun með nokkrum mönnum hafa fengist við hana tvö sumur, og kostaði það landssjóð mörg hundruð krónur, og eftir 2 eða 3 ár mun enginn ferðamaður hafa freistast til að fara hans nýja veg, enda þó hann færi fram Þorgeirsdal fram á heiðina.
Þá kemur nú Jón gamli póstur Magnússon til sögunnar. Og þá kastar líka tólfunum. Jafnvel þó hann væri kunnugur Þorskafjarðarheiði, - því nokkrum sinnum hafði hann yfir hana farið - tekur hann þó tvo menn með sér, þá helstu, sem fáanlegir voru, Pétur heitinn hreppstjóra á Hríshól -"skýst þá skýrir séu" - og Bjarna bónda á Reykhólum. En óheppnin var, að báðir voru þeir ókunnugri heiðinni en hann sjálfur. Þessa hafði hann með sér til að meta, hvar haganlegast væri að leggja veg frá Þorskafirði upp á heiðina. Þeir vildu þá leggja hann fram Kollabúðadal og austanvert upp úr botni hans, svo komist yrði hjá að þurfa að fara yfir Ísfirðingagil, sem er vestanvert í dalbotninum eins og fyr er getið. En þeir athuguðu ekki vel fannkyngið austan til í dalnum, auk þess sem þar er líka slæmt gljúfragil, sem kallað er Ófærugil. Skapaði þá þessi þriggja manna nefnd veginn í huga sínum yfir heiðina fram Kollabúðadal, yfir fúamýrar frá Selgili fram að Ófærugili, yfir það og Nautatungur upp á fjall. Þaðan eftir melholtahryggjum norður austan til við Gedduvatn, sem er norðanvert á miðri heiði, og að Bröttubrekkuhæð, í mikinn krók til vesturs ofan á Högnafjall að Heiðarbrekku: og fylgdi Jón rækilega þessari vegarstefnu-hugsun þeirra, þegar til vinnunnar kom. Þeir vildu telja mönnum trú um, að þessi vegarstefna væri styttri en forni vegurinn. En það gefur hverjum manni að skilja, að svo er ekki. Vegirnir liggja báðir úr sama stað að sunnan og koma saman að norðanverðu á Heiðarbrekku. Nú er bugða mikil, eins og sagt hefir verið, á hinum forna vegi til austurs, en þó liggur þessi nýi vegur mikið austar, og munar það um miðja heiði mörg hundruð, ef ekki þúsund föðmum. Þá tekur nú vegavinnuforstjórinn Jón póstur til verka með útvalda 20 þjóna sína og byrjar á heiðarbrekkunni upp úr Langadal. Það er ein brú neðan af jafnsléttu langan hliðarhalla upp á brún. Þessi brú er talin af öllum er hafa séð allmikið mannvirki og er líka sá eini spotti sem allir fara um ofan af heiðinni og verður til frambúðar, þó endurbóta þurfi lítils háttar eftir leysingar á hverju vori. Jón vann mikið í tvö sumur að þessari vegavinnu á heiðinni. Að sunnanverðu brúaði hann frá Selgili að Ófærugili úr torfi yfir fúamýrarforæði, langan kafla, sem á öðru ári eftir vinnuna varð ferðamönnum að farartálma, því hestar ferðamanna lágu þar á kviðnum á þessum brúm. Nú fer þar enginn um. Jón meitlaði sundur bergnef hjá Ófærugili sem skútti fram yfir veginn. Við það voru þeir lengi. Gjörð var enn fremur ónýt brú í Nautatungum úr torfi. Frá Nautatungubrún gjörði hann góðan veg norður undir Gedduvatn að austanverðu, enda var það hægt eftir melholtabryggjum. Það er nú sá eini kafli af þessum nýja vegi sem farinn er nokkuð almennt. En þar stingur í stúf; því vegagjörð Jóns nær ekki lengra. Enda þurfti þar meira fyrir að hafa; því þar koma fyrir hraunurðaröræfi austan til við vatnið ofan á Högnafjall. Þá verða ferðamenn að beygja þvert úr leið sunnan til við Gedduvatn, mörg hundruð faðma til vesturs yfir urðir og bleytuslörk, sem þeir fara í ýmsum stöðum, eftir því sem skriflast geta. Jón hlóð vænar vörður eftir þessum nýja vegi - þó sumar séu nú hrundar - þó kvað einn kafli vera ónotaður, sem hann entist ekki til að fullgjöra.
Árangurinn af þessari vegagjörð yfir Þorskafjarðarheiði er nú sá eftir þessi fáu ár sem eru liðin, að enginn maður fer nú þennan nýja veg; því það er ekki hægt að fara hann nema heiðarbrekkuna að norðanverðu og kaflann frá Nautatungubrún að Gedduvatni. Er því þessum mörgu þúsundum króna, sem til þessa vegar var varið af landsfé sem kastað í sjóinn og er einmitt því um að kenna að vegurinn varð lagður á óhentugum og óhafandi stað.
Hryggilegast er að slysfarir eru nú farnar að verða tíðari á þessari heiði en sögur hafa af farið á næstliðinni öld og fram yfir þessa miðja. Má því naumast svo búið standa lengur. Mögl og óánægja pósta og ferðamanna yfir vegleysu heiðarinnar er mikil. Hún mun hafa valdið því að þetta mál var rætt á sýslufundi á Stað á Reykjanesi nú í vor, og kvað álit fundarmanna hafa verið að vegurinn upp á heiðina að sunnan væri hentugast lagður upp úr Þorgeirsdal. En árangur af því fyrir þetta mál verður komandi tíð að auglýsa. Ég hef nú lýst vegum þessum yfir Þorskafjarðarheiði með göllum þeim sem á þeim eru. Dirfist ég þá að endingu að láta skoðun mína í ljósi um þetta mál, og hefir hún að styðjast við kunnugra manna álit, bæði í Gufudals- og Reykhólahreppum um það, hvar heppilegast er að leggja vetrarveg yfir heiðina svo orðið gæti mönnum til varnar að hreppa slysfarir, en láta ferðamenn sjálfráða sumardaginn hvernig þeir vilja skrölta yfir hana; það verður þeim ekki að fjörlesti um þann tíma.
Álit vort er þá að vegurinn sé haganlegast lagður upp úr Þorgeirsdalsbotni upp á brún og beina sjónhending að sæluhússrústunum og svo þaðan eftir gamla veginum norður af fjallinu. Þessi vegur er hættulaus af kunnugum, sagður ófærðarminnstur af fönnum. Hann ætti að vera mjög vel varðaður með þéttum vörðum, hér um bil 20-30 faðmar milli þeirra, eins og nú er á Bæjardalsheiði: og hafa þar engin slys orðið síðan þessar þéttu vörður voru gjörðar, en áður voru þar tíðar slysfarir. Þessa vörðuhleðslu ættu næstu hreppar í báðum sýslum, Barðastrandar og Ísafjarðar, að annast án þess að íþyngja landssjóði. En sæluhús ætti að reisa aftur þar sem áður var og betra en það var á landssjóðs kostnað, og helst að hafa þar eitthvert fólk til umsjónar og beinleika fyrir ferðamenn. Skil ég ekki í að við Vestfirðingar eigum ekki jafnt tilkall til slíkra lífsnauðsynja fyrir ferðamenn eins og aðrir landsfjórðungar, sem fá stórfé úr landssjóði til vegagjörðar og brúa yfir stórár.
Mýrartungu í Reykhólasveit, í febrúar 1890.
Páll Ingimundarson.