1890

Ísafold, 6. ágúst 1890, 17. árg., 63. tbl., forsíða:

Ölfusárbrúin
Á morgun leggur brúin af stað frá Englandi á skipi til Eyrarbakka, tilbúin að öllu leyti, smáu og stóru, svo að ekki vantar annað en að koma henni að brúarstæðinu og yfir ána.
Þetta er þá brúarfyrirtæki þetta langt komið.
Tuttugu ár hér um bil hefir málið verið á dagskrá. Hér er líka um að tefla hið langstærsta samgöngumannvirki, er hér á landi hefir nokkurn tíma verið tekið í mál, - hið fyrsta, sem nokkuð verulegt kveður að, en vonandi ekki hið síðasta. Er því skiljanlegt, að þurft hafi nokkurn tíma til að hugsa sig um og undirbúa annað eins stórvirki, sem vex margfalt í augum jafn-lítilsigldri þjóð og óvanri kostnaðarsömum allsherjar-fyrirtækjum. Drátturinn verður og engan veginn talinn til eintóms baga. Bæði veit þjóðin nú miklu betur, heldur en fyrir 10-20 árum, skilur miklu glöggvar nú orðið, hvað hún gerir, er hún tekur að sér að kosta slíkt fyrirtæki, þótt ekki hafi nema lítill partur landsins bein not af því, og eins má ganga að því vísu, að verkið verður talsvert traustara og forsjállegar gert, og þó með minni tilkostnaði.
Ýtarlega sögu þessa brúarmáls á best við að rifja upp, þegar brúin er komin á og öll þraut þar með unnin. En það er enn dagur til stefnu þangað til, - heilt ár að minnsta kosti. Vér höfum lítið af gufuhraða að segja hér á voru landi, og verðum því að gjöra oss að góðu, þótt hér eyðist ár til þess, sem annarsstaðar mundi lokið á einum mánuði eða kannske einni viku.
Þegar skipið með brúna er komið á Eyrarbakkahöfn, fyrir næstu mánaðamót, að vér gjörum ráð fyrir, verður fyrst og fremst að sæta góðu veðri eða hentugum kringumstæðum til að koma henni á land, eða réttara sagt til að koma skipinu inn á sjálfa höfnina; slíkt er hvergi á öllu landinu öðrum eins vandkvæðum bundið og þar. Síðan verður að bíða vetrar og góðs sleðafæris til að koma brúnni upp að brúarstæðinu, 2-3 mílur vegar, að vér ætlum. Raunar mun hver járnbútur, sem í brúna á að fara, - hún er sem sé öll úr járni -, ekki vera hafður stærri en svo, að hesttækur sé, ef í nauðir rekur og sleðafæri fæst ekki; en sleðaaksturinn er margfalt kostnaðarminni og fljótlegri. Þótt Ölfusá sé eitthvert hið mesta vatnsfall á landinu og dýpi nóg fyrir hafskip víðast allt upp að brúarstæði, þá eru þær torfærur við innsiglinguna um ósinn og auk þess svaðar í henni á þeirri leið, að skipaflutningur er þar fyrirmunaður. Straumharkan gjörir meira að segja það að verkum, á svöðunum einkanlega, að ís leggur þar sjaldan, síst svo traustan eða sléttan, að sleðafæri geti orðið.
Þegar að brúarstæðinu er komið með brúna, í mörg þúsund molum, og veturinn er liðinn, skal taka til óspilltra málanna að setja hana saman, ögn fyrir ögn, bút fyrir bút, þangað til hún er öll komin upp, í heilu líki. Og svo er henni ýtt yfir um sprænuna, hana Ölfusá, í heilu líki, með einhverjum vélum og kyngikrafti, - hugsa menn kannske, ef þeir annars gjöra sér nokkra hugmynd um þetta.
Nei, ekki alveg.
Sprænan er nefnilega talsvert á annað hundrað ál. á breidd, þarna sem hún er mjóst, á brúarstæðinu hjá Selfossi, og grængolandi hyldýpi. Til eru líkl. einhverjar tölur eða skýrslur um það, hve mörgum tugum eða hundruðum þúsunda allt báknið vegur að pundatali, þótt vér ekki vitum það; en hitt mun óhætt að fullyrða, að ætti að snara brúnni í heilu líki yfir ána, mundi þurfa til þess svo stórkostlegar tilfæringar, að þær kostuðu líklegast eins mikið og brúin sjálf.
Aðferðin að koma brúnni á er sú, að strengur eða strengir eru þandir yfir ána, járnstrengir afarsterkir, meira en 20 álnir fyrir ofan vatnsborð, og er brúin hengd neðan í þessa strengi, í smábútum, ögn fyrir ögn, og aukið við fet fyrir fet, þangað til hún er komin alla leið fyrir ána.
Á þá leið eru allar hengibrýr til búnar hér um bil eða í fljótu máli sagt.
Nánara lýst er réttara er verkinu þannig hagað, að fyrst er búinn til trépallur og hann hengdur neðan í strengina, handa smiðunum að standa á og vinna að brúarsmíðinu, og honum þokað eftir strengjunum jafnóðum, eftir því sem brúnni skilar áfram. Vinnan þar eða smíðið er mest í því fólgið, að skeyta alla járnbútana saman, eins og þeir eiga að vera, en þeir eru raunar felldir allir saman áður og samskeytin bundin með spengum, sem grópað er fyrir, og hnoðnaglar reknir í gegn. Aðalvinnan smiðanna, þegar þar er komið, er að hnoða naglana. Hnoðnaglar eru hafðir, en ekki skrúfur, því þeir eru traustari; skrúfurnar geta losnað með tímanum, hvað vel sem frá þeim er gengið.
Járnstengur ganga úr uppihaldsstrengnum eða -strengjunum niður í brúarkjálkana, með hæfilega stuttu millibili; það eru böndin sem hún hangir í. Þegar búið er að setja saman brúarkjálkana og leggja þverslárnar milli þeirra fram og aftur, allt af járni, og setja hæfilega hátt rið beggja megin, járngrindur, er lagt gólf í brúna af tré, til þess að ganga eftir fyrir menn og skepnur, og fyrir vagna að renna eftir, þegar þar að kemur. Breiddin á brúnni er ekki nema 4 álnir, en þó fara í gólfið 100 tylftir af plönkum, enda á það að vera tvöfalt.
Auðséð er, að á því ríður hvað allra mest, að strengirnir, sem eiga að halda brúnni uppi, séu nógu traustir, og að svikalaust sé búið um endana ná þeim.
Strengirnir áttu fyrst að vera að eins tveir, sinn hvoru megin, yfir hvorum kjálka brúarinnar. En það er ein af umbótum þeim, er hr. Tryggvi Gunnarsson hefir komið upp með og haft fram, að hafa strengina 3 hvorum megin. Vilji svo til, að einn strengurinn bili, sem hugsast getur á löngum tíma, þá er brúnni engin hætta búin fyrir það. Þeir mega meira að segja bila tveir í einu, sem er hér um bil óhugsandi, og haggast brúin ekki hót fyrir það. En auðvitað er ætlast til, að gjört sé hið bráðasta við þann strenginn, sem bilað hefir; annars væri viðhald brúarinnar ekki í neinu lagi.
Um endana á strengjunum ríður eigi síður á að brúa sem allra rammlegast. Þeir enda í járnakkerum, sem eru múruð djúpt niður í þar til gerða sementsteypu-kletta, þ.e. fyrirferðamikla grjótstöpla, límda saman með sementi. Þessir sementsteypu-klettar eru hafðir kippkorn frá ánni, er brúa skal, en á árbökkunum sjálfum reistir háir stöplar til að þenja strengina yfir og halda þeim nógu hátt uppi. Við Ölfusá eiga þeir að verða nær 20 álna háir, úr sementlímdu grjóti að neðan, upp til hálfs, á móts við sjálfa brúna eða þar um bil, en úr járni hið efra. Það er að segja: grjóthleðslurnar þarf raunar ekki nema að austanverðu; vestari árbakkinn er hamar svo hár, að litlu þarf við að bæta af grjóthleðslu. Járnstöplarnir verða jafnháir beggja megin.
Á þessari lýsingu má fá nokkurn veginn greinilega hugmynd sem brúarsmíðið og hvernig brúin muni líta út, þegar hún er komin upp.
Það sem í sumar hefir helst verið unnið til undirbúnings brúargerðinni er að hlaða aðalstöpulinn austan megin árinnar. Hann er 8-9 álnir á hæð, rúmar 14 álnir á lengd fram með ánni og 6½ álnir á breidd. Er mjög traustlega frá honum gengið og snoturlega. Eftir tilætlun stjórnarinnar og brúarsmiðsins á Englandi átti stöpullinn að standa alveg fram á árbakkanum, sem er hraunklöpp mikið traust að sjá. En með því að votta þótti fyrir, að áin mundi þó geta ef til vill unnið eitthvað á þessari klöpp á löngum tíma, með jakaburði sínum og straumfalli, þá lét hr. Tryggvi Gunnarsson, er hefir haft sjálfur yfirumsjón yfir verkinu í sumar, hafa stöpulinn 3 álnir frá brúninni, til vonar og vara, enda hagar svo til, að þar eru betri viðtök af berginu fyrir ofan, þegar jakaruðningur er. Þar að auki hefir hann látið gera þrístrenda þá hliðina á stöplinum, sem upp eftir veit, andstreymis, en ekki flata, sem til hafði verið ætlast á uppdrættinum, - til þess að jakaburður geti enn síður gert honum nokkurt mein.
Nálægt 60 álnir austur frá þessum aðalstöpli, uppihaldsstöpli, er akkerisstöpullinn, en ekki nema hálfgerður enn, með því að hinn helmingurinn, í skakkhorn, verður eigi hlaðinn fyr en strengirnir eru komnir og akkerin, sem hlaða á ofan og binda allt með steinlími.
Vestan megin árinnar hefir verið sprengt og höggvið mikið nokkuð framan af hamrinum, það sem ekki þótti nógu traust til að bera brúarstöpulinn þeim megin. Reyndist það meira en ráð var fyrir gjört, svo að munar fullri alin, og lengist brúin sem því svarar við þann endann. Sjálft hafið yfir ána bakka á milli, er eins og fyr hefir verið frá skýrt, 112 álnir danskar, en brúin þurfti að vera nokkrum álnum lengri, til þess að ná hæfilega langt upp á bakkana. En austan megin er bakkinn svo lágur góðan spöl frá ánni, að þar flóir hún yfir í vatnavöxtum, og þurfti að brúa það bil líka til þess að geta komist yfir þurrum fótum, hvort sem áin er mikil eða lítil; hún getur meira að segja orðið þar hesti á sund langsamlega. Í hinum eldri útlendu áætlunum var samt ekki ráðgjört að hafa brúna lengri en bakkanna á milli, og átti að hlaða vegarbrú, upphækkaðan veg, yfir flötina frá brúarsporðinum upp á melinn fyrir austan. Þetta gátu útlendingar, ókunnugir hinum voðalegu vatnavöxtum hér á landi á vetrum, látið sér detta í hug að duga mundi, og ef til vill hálfkunnugir innanhéraðsmenn, sem vildu fegnir að kostnaðaráætlunin yrði ekki voðalega há. En hitt er sýnilegt, að slíkum vegargarði hefði áin sópað burt á hverjum vetri og kostnaður af viðhaldi hans því orðið á endanum stórum meiri en hitt, að hafa sjálfa brúna svo langa, að hún næði yfir flötina líka. Enda er nú afráðið, að svo skuli vera, og lengir það brúna um nær 60 álnir.
Húsið, sem ætlað er til geymslu á efni í brúna og skýlis fyrir verkafólk m. m., en á síðan til gistingar fyrir ferðafólk, er nú fullgert, nema ósmíðað innan um það niðri. Það er timburhús, 12 álna langt og 10 álna breitt, og stendur fyrir austan ána. Það væri hentugt fyrir brúarvörð, sem sjálfsagt er enginn forsjálni að ætla sér án að vera; því brúin er of mikið mannvirki og kostnaðarsamt til þess, að láta hana eftirlitslausa, þegar hún er komin upp. Hvað traust og vönduð sem hún verður, þá má skemma hana smátt og smátt með glannalegri reið yfir hana t. a. m. eða með því að reka stóð yfir hana á harða spretti o. fl. Það brýtur hana auðvitað ekki, en það getur valdið svo miklum hristing á henni, að hún láti undan með tímanum eða endist miður miklu en skyldi beint fyrir þá sök. Annarsstaðar þykir ósvinna að fara svo með vandaðar brýr, og víti við lögð. Boðorð um það stoðar lítt; umsjónarmaður verður að vera til taks, að líta eftir að boðorðinu sé hlýtt og að enginn komist hjá refsingu, er brýtur. Kostnaðinn til að launa brúarverði ber að skoða eins og viðhaldskostnað, sem yrði ef til vill meiri á endanum án hans, enda gætu launin verið miklu leyti fólgin í ókeypis afnotum hússins, veitingaleyfi o. s. frv.
Veg þarf nauðsynlega að leggja upp frá brúnni beggja vegna hið allra bráðast, helst samsumars sem hún er lögð, að minnsta kosti þangað til kemur á þjóðvegi þá, sem nú eru notaðir, að svo miklu leyti sem þar eiga að vera þjóðvegir eftirleiðis. Hitt væri hefndargjöf, að bjóða mönnum upp á að nota brúna, en hafa þær vegleysur að henni, að menn kysu heldur af tvennu illu að sundleggja Ölfusá eins og áður og nota hina gömlu ferjustaði, til þess að hafa þó gagn af vegunum sem þangað liggja. Auk þess rekur og að því áður langt um líður, að brýn nauðsyn kallar eftir að fullgjöra vagnveginn milli höfuðstaðarins og hinna fjölbyggðu héraða austanfjalls, sem nú er nær hálfnaður, svo að hann geti náð tilgangi sínum. Að gera vagnvegarspotta hálfa leið milli bæja eða byggða hingað og þangað um land, sinn spottann í hverjum stað, "til þess að gjöra ýmsum héruðum landsins jafnt undir höfði", er álíka viturlegt og ef stórbóndi, sem hefði t. d. 3 jarðir undir og þyrfti að girða túnin á þeim öllum, girti sinn túnspottann á hverri jörðunni, "til þess að gjöra þeim öllum jafnt undir höfði", í stað þess að reyna að koma fyrst af einu túninu algjörlega, og hafa það þannig almennilega varið, áður en byrjað er á hinum.


Ísafold, 6. ágúst 1890, 17. árg., 63. tbl., forsíða:

Ölfusárbrúin
Á morgun leggur brúin af stað frá Englandi á skipi til Eyrarbakka, tilbúin að öllu leyti, smáu og stóru, svo að ekki vantar annað en að koma henni að brúarstæðinu og yfir ána.
Þetta er þá brúarfyrirtæki þetta langt komið.
Tuttugu ár hér um bil hefir málið verið á dagskrá. Hér er líka um að tefla hið langstærsta samgöngumannvirki, er hér á landi hefir nokkurn tíma verið tekið í mál, - hið fyrsta, sem nokkuð verulegt kveður að, en vonandi ekki hið síðasta. Er því skiljanlegt, að þurft hafi nokkurn tíma til að hugsa sig um og undirbúa annað eins stórvirki, sem vex margfalt í augum jafn-lítilsigldri þjóð og óvanri kostnaðarsömum allsherjar-fyrirtækjum. Drátturinn verður og engan veginn talinn til eintóms baga. Bæði veit þjóðin nú miklu betur, heldur en fyrir 10-20 árum, skilur miklu glöggvar nú orðið, hvað hún gerir, er hún tekur að sér að kosta slíkt fyrirtæki, þótt ekki hafi nema lítill partur landsins bein not af því, og eins má ganga að því vísu, að verkið verður talsvert traustara og forsjállegar gert, og þó með minni tilkostnaði.
Ýtarlega sögu þessa brúarmáls á best við að rifja upp, þegar brúin er komin á og öll þraut þar með unnin. En það er enn dagur til stefnu þangað til, - heilt ár að minnsta kosti. Vér höfum lítið af gufuhraða að segja hér á voru landi, og verðum því að gjöra oss að góðu, þótt hér eyðist ár til þess, sem annarsstaðar mundi lokið á einum mánuði eða kannske einni viku.
Þegar skipið með brúna er komið á Eyrarbakkahöfn, fyrir næstu mánaðamót, að vér gjörum ráð fyrir, verður fyrst og fremst að sæta góðu veðri eða hentugum kringumstæðum til að koma henni á land, eða réttara sagt til að koma skipinu inn á sjálfa höfnina; slíkt er hvergi á öllu landinu öðrum eins vandkvæðum bundið og þar. Síðan verður að bíða vetrar og góðs sleðafæris til að koma brúnni upp að brúarstæðinu, 2-3 mílur vegar, að vér ætlum. Raunar mun hver járnbútur, sem í brúna á að fara, - hún er sem sé öll úr járni -, ekki vera hafður stærri en svo, að hesttækur sé, ef í nauðir rekur og sleðafæri fæst ekki; en sleðaaksturinn er margfalt kostnaðarminni og fljótlegri. Þótt Ölfusá sé eitthvert hið mesta vatnsfall á landinu og dýpi nóg fyrir hafskip víðast allt upp að brúarstæði, þá eru þær torfærur við innsiglinguna um ósinn og auk þess svaðar í henni á þeirri leið, að skipaflutningur er þar fyrirmunaður. Straumharkan gjörir meira að segja það að verkum, á svöðunum einkanlega, að ís leggur þar sjaldan, síst svo traustan eða sléttan, að sleðafæri geti orðið.
Þegar að brúarstæðinu er komið með brúna, í mörg þúsund molum, og veturinn er liðinn, skal taka til óspilltra málanna að setja hana saman, ögn fyrir ögn, bút fyrir bút, þangað til hún er öll komin upp, í heilu líki. Og svo er henni ýtt yfir um sprænuna, hana Ölfusá, í heilu líki, með einhverjum vélum og kyngikrafti, - hugsa menn kannske, ef þeir annars gjöra sér nokkra hugmynd um þetta.
Nei, ekki alveg.
Sprænan er nefnilega talsvert á annað hundrað ál. á breidd, þarna sem hún er mjóst, á brúarstæðinu hjá Selfossi, og grængolandi hyldýpi. Til eru líkl. einhverjar tölur eða skýrslur um það, hve mörgum tugum eða hundruðum þúsunda allt báknið vegur að pundatali, þótt vér ekki vitum það; en hitt mun óhætt að fullyrða, að ætti að snara brúnni í heilu líki yfir ána, mundi þurfa til þess svo stórkostlegar tilfæringar, að þær kostuðu líklegast eins mikið og brúin sjálf.
Aðferðin að koma brúnni á er sú, að strengur eða strengir eru þandir yfir ána, járnstrengir afarsterkir, meira en 20 álnir fyrir ofan vatnsborð, og er brúin hengd neðan í þessa strengi, í smábútum, ögn fyrir ögn, og aukið við fet fyrir fet, þangað til hún er komin alla leið fyrir ána.
Á þá leið eru allar hengibrýr til búnar hér um bil eða í fljótu máli sagt.
Nánara lýst er réttara er verkinu þannig hagað, að fyrst er búinn til trépallur og hann hengdur neðan í strengina, handa smiðunum að standa á og vinna að brúarsmíðinu, og honum þokað eftir strengjunum jafnóðum, eftir því sem brúnni skilar áfram. Vinnan þar eða smíðið er mest í því fólgið, að skeyta alla járnbútana saman, eins og þeir eiga að vera, en þeir eru raunar felldir allir saman áður og samskeytin bundin með spengum, sem grópað er fyrir, og hnoðnaglar reknir í gegn. Aðalvinnan smiðanna, þegar þar er komið, er að hnoða naglana. Hnoðnaglar eru hafðir, en ekki skrúfur, því þeir eru traustari; skrúfurnar geta losnað með tímanum, hvað vel sem frá þeim er gengið.
Járnstengur ganga úr uppihaldsstrengnum eða -strengjunum niður í brúarkjálkana, með hæfilega stuttu millibili; það eru böndin sem hún hangir í. Þegar búið er að setja saman brúarkjálkana og leggja þverslárnar milli þeirra fram og aftur, allt af járni, og setja hæfilega hátt rið beggja megin, járngrindur, er lagt gólf í brúna af tré, til þess að ganga eftir fyrir menn og skepnur, og fyrir vagna að renna eftir, þegar þar að kemur. Breiddin á brúnni er ekki nema 4 álnir, en þó fara í gólfið 100 tylftir af plönkum, enda á það að vera tvöfalt.
Auðséð er, að á því ríður hvað allra mest, að strengirnir, sem eiga að halda brúnni uppi, séu nógu traustir, og að svikalaust sé búið um endana ná þeim.
Strengirnir áttu fyrst að vera að eins tveir, sinn hvoru megin, yfir hvorum kjálka brúarinnar. En það er ein af umbótum þeim, er hr. Tryggvi Gunnarsson hefir komið upp með og haft fram, að hafa strengina 3 hvorum megin. Vilji svo til, að einn strengurinn bili, sem hugsast getur á löngum tíma, þá er brúnni engin hætta búin fyrir það. Þeir mega meira að segja bila tveir í einu, sem er hér um bil óhugsandi, og haggast brúin ekki hót fyrir það. En auðvitað er ætlast til, að gjört sé hið bráðasta við þann strenginn, sem bilað hefir; annars væri viðhald brúarinnar ekki í neinu lagi.
Um endana á strengjunum ríður eigi síður á að brúa sem allra rammlegast. Þeir enda í járnakkerum, sem eru múruð djúpt niður í þar til gerða sementsteypu-kletta, þ.e. fyrirferðamikla grjótstöpla, límda saman með sementi. Þessir sementsteypu-klettar eru hafðir kippkorn frá ánni, er brúa skal, en á árbökkunum sjálfum reistir háir stöplar til að þenja strengina yfir og halda þeim nógu hátt uppi. Við Ölfusá eiga þeir að verða nær 20 álna háir, úr sementlímdu grjóti að neðan, upp til hálfs, á móts við sjálfa brúna eða þar um bil, en úr járni hið efra. Það er að segja: grjóthleðslurnar þarf raunar ekki nema að austanverðu; vestari árbakkinn er hamar svo hár, að litlu þarf við að bæta af grjóthleðslu. Járnstöplarnir verða jafnháir beggja megin.
Á þessari lýsingu má fá nokkurn veginn greinilega hugmynd sem brúarsmíðið og hvernig brúin muni líta út, þegar hún er komin upp.
Það sem í sumar hefir helst verið unnið til undirbúnings brúargerðinni er að hlaða aðalstöpulinn austan megin árinnar. Hann er 8-9 álnir á hæð, rúmar 14 álnir á lengd fram með ánni og 6½ álnir á breidd. Er mjög traustlega frá honum gengið og snoturlega. Eftir tilætlun stjórnarinnar og brúarsmiðsins á Englandi átti stöpullinn að standa alveg fram á árbakkanum, sem er hraunklöpp mikið traust að sjá. En með því að votta þótti fyrir, að áin mundi þó geta ef til vill unnið eitthvað á þessari klöpp á löngum tíma, með jakaburði sínum og straumfalli, þá lét hr. Tryggvi Gunnarsson, er hefir haft sjálfur yfirumsjón yfir verkinu í sumar, hafa stöpulinn 3 álnir frá brúninni, til vonar og vara, enda hagar svo til, að þar eru betri viðtök af berginu fyrir ofan, þegar jakaruðningur er. Þar að auki hefir hann látið gera þrístrenda þá hliðina á stöplinum, sem upp eftir veit, andstreymis, en ekki flata, sem til hafði verið ætlast á uppdrættinum, - til þess að jakaburður geti enn síður gert honum nokkurt mein.
Nálægt 60 álnir austur frá þessum aðalstöpli, uppihaldsstöpli, er akkerisstöpullinn, en ekki nema hálfgerður enn, með því að hinn helmingurinn, í skakkhorn, verður eigi hlaðinn fyr en strengirnir eru komnir og akkerin, sem hlaða á ofan og binda allt með steinlími.
Vestan megin árinnar hefir verið sprengt og höggvið mikið nokkuð framan af hamrinum, það sem ekki þótti nógu traust til að bera brúarstöpulinn þeim megin. Reyndist það meira en ráð var fyrir gjört, svo að munar fullri alin, og lengist brúin sem því svarar við þann endann. Sjálft hafið yfir ána bakka á milli, er eins og fyr hefir verið frá skýrt, 112 álnir danskar, en brúin þurfti að vera nokkrum álnum lengri, til þess að ná hæfilega langt upp á bakkana. En austan megin er bakkinn svo lágur góðan spöl frá ánni, að þar flóir hún yfir í vatnavöxtum, og þurfti að brúa það bil líka til þess að geta komist yfir þurrum fótum, hvort sem áin er mikil eða lítil; hún getur meira að segja orðið þar hesti á sund langsamlega. Í hinum eldri útlendu áætlunum var samt ekki ráðgjört að hafa brúna lengri en bakkanna á milli, og átti að hlaða vegarbrú, upphækkaðan veg, yfir flötina frá brúarsporðinum upp á melinn fyrir austan. Þetta gátu útlendingar, ókunnugir hinum voðalegu vatnavöxtum hér á landi á vetrum, látið sér detta í hug að duga mundi, og ef til vill hálfkunnugir innanhéraðsmenn, sem vildu fegnir að kostnaðaráætlunin yrði ekki voðalega há. En hitt er sýnilegt, að slíkum vegargarði hefði áin sópað burt á hverjum vetri og kostnaður af viðhaldi hans því orðið á endanum stórum meiri en hitt, að hafa sjálfa brúna svo langa, að hún næði yfir flötina líka. Enda er nú afráðið, að svo skuli vera, og lengir það brúna um nær 60 álnir.
Húsið, sem ætlað er til geymslu á efni í brúna og skýlis fyrir verkafólk m. m., en á síðan til gistingar fyrir ferðafólk, er nú fullgert, nema ósmíðað innan um það niðri. Það er timburhús, 12 álna langt og 10 álna breitt, og stendur fyrir austan ána. Það væri hentugt fyrir brúarvörð, sem sjálfsagt er enginn forsjálni að ætla sér án að vera; því brúin er of mikið mannvirki og kostnaðarsamt til þess, að láta hana eftirlitslausa, þegar hún er komin upp. Hvað traust og vönduð sem hún verður, þá má skemma hana smátt og smátt með glannalegri reið yfir hana t. a. m. eða með því að reka stóð yfir hana á harða spretti o. fl. Það brýtur hana auðvitað ekki, en það getur valdið svo miklum hristing á henni, að hún láti undan með tímanum eða endist miður miklu en skyldi beint fyrir þá sök. Annarsstaðar þykir ósvinna að fara svo með vandaðar brýr, og víti við lögð. Boðorð um það stoðar lítt; umsjónarmaður verður að vera til taks, að líta eftir að boðorðinu sé hlýtt og að enginn komist hjá refsingu, er brýtur. Kostnaðinn til að launa brúarverði ber að skoða eins og viðhaldskostnað, sem yrði ef til vill meiri á endanum án hans, enda gætu launin verið miklu leyti fólgin í ókeypis afnotum hússins, veitingaleyfi o. s. frv.
Veg þarf nauðsynlega að leggja upp frá brúnni beggja vegna hið allra bráðast, helst samsumars sem hún er lögð, að minnsta kosti þangað til kemur á þjóðvegi þá, sem nú eru notaðir, að svo miklu leyti sem þar eiga að vera þjóðvegir eftirleiðis. Hitt væri hefndargjöf, að bjóða mönnum upp á að nota brúna, en hafa þær vegleysur að henni, að menn kysu heldur af tvennu illu að sundleggja Ölfusá eins og áður og nota hina gömlu ferjustaði, til þess að hafa þó gagn af vegunum sem þangað liggja. Auk þess rekur og að því áður langt um líður, að brýn nauðsyn kallar eftir að fullgjöra vagnveginn milli höfuðstaðarins og hinna fjölbyggðu héraða austanfjalls, sem nú er nær hálfnaður, svo að hann geti náð tilgangi sínum. Að gera vagnvegarspotta hálfa leið milli bæja eða byggða hingað og þangað um land, sinn spottann í hverjum stað, "til þess að gjöra ýmsum héruðum landsins jafnt undir höfði", er álíka viturlegt og ef stórbóndi, sem hefði t. d. 3 jarðir undir og þyrfti að girða túnin á þeim öllum, girti sinn túnspottann á hverri jörðunni, "til þess að gjöra þeim öllum jafnt undir höfði", í stað þess að reyna að koma fyrst af einu túninu algjörlega, og hafa það þannig almennilega varið, áður en byrjað er á hinum.