1890

Ísafold, 10. sept. 1890, 17. árg., 73. tbl., bls. 254:

Póstvegurinn í Árnessýslu.
Mörgum kann að virðast, að það sé að "vinna fyrir gíg", að minnast á þetta málefni, þar sem hlutaðeigandi sýslunefnd sé búin að láta í ljósi álit sitt um, hvar vegur þessi eigi að vera, og svo sé álit hennar staðfest af landshöfðingja, og enn fremur sé þegar búið að kosta talsverðu fé til vegarins. En þar sem nokkur hluti póstvegar þessa, nfl. kaflinn milli Ölfusár og Þjórsár, er ákveðinn að skuli liggja þvert yfir Flóann, frá hinni fyrirhuguðu brú á Selfossi austur að Sandhólaferju, sem er að öllu samtöldu á mjög óhentugum stað, þrátt fyrir það, þó að þetta sé beinasta leið, þá er skylt að hreifa því áður en meiru er kostað til vegagjörðar á þessum stað, að þessi stefna á aðalpóstvegi þessum sé alls eigi hin hagfeldasta.
Jafnvel þó nafn helstu þjóðvega landsins "aðalpóstvegir", sýnist benda á, að það sé upphaflega hugsun þingsins og landsstjórnarinnar, að vegir þessir væru fyrst og fremst til þess, að létta fyrir ferðum landspóstanna úr einu héraði í annað, en notkun annarra af vegum þessum væri álitinn eins og annar veðréttur, ef svo mætti að orði kveða, mun þó engum manni detta í hug, að slíkt hafi verið aðaltilgangur þings og stjórnar, heldur hitt, að ætlast sé til að vegir þessir geti komið að sem bestu og mestu liði fyrir sem flesta; þeir séu ekki eins ætlaðir fyrir flutning hins opinbera, póstflutninga, heldur einnig, og ekki síður, fyrir flutninga hvers einstaklings, og framkvæmdarvaldið ætlist til, að þeir séu lagðir þar, sem þessum tvennum kröfum verði sem best fullnægt.
Þetta hefir, því miður, ekki heppnast í Flóanum.
Þegar farið er yfir Árnessýslu, þá sést þegar, að náttúran hefir lagað tvær aðalþjóðleiðir yfir hana austur og vestur. Önnur þeirra liggur úr Hreppunum yfir Hvítá ofanverða vestur í Biskupstungur og þaðan með fjallgarðinum vestur í Laugardal, þaðan yfir Þingvöll og svo suður yfir Mosfellsheiði (Geysisvegurinn). Hinn liggur frá ferjunum á Þjórsá: Sandhólaferju, Ferjunesi eða Selparti, sem allar eru rétt hver hjá annarri, og þaðan vestur með sjó fram hjá Loftsstöðum og Stokkseyri til Eyrarbakka, og þaðan annaðhvort yfir Ölfusá hjá Óseyrarnesi og yfir Lágaskarð til Kolviðarhóls, eða hjá Kotferju, og þaðan yfir Hellisheiði. Og þegar brúin verður komin á Ölfusá hjá Selfossi, verður vegur þessi að beygja eina bæjarleið upp á við, því þá leggst ferjan á Kotferju auðvitað niður. Aftur á móti verður vegur yfir miðjan Flóann aldrei notaður almennt, jafnvel þó það sé beinasta leið milli Selfoss og Sandhólaferju; og þar að auki kostar Flóavegurinn margfalt meira en alfaravegurinn niður með Ölfusá og þaðan austur með sjó. Á alfaraveginum yfir Eyrarbakka eru ekki nema 2 brýr frá Selfossi til Sandhólaferju: Partabrúin, dálítill spotti skammt fyrir utan Þjórsá, og Melabrúin, sem er aftur á móti lögn, milli Kotferju og Eyrarbakka. Hefir hún kostað mikið fé, en nú þarf hún að eins orðið viðgerðar og ofaníburðar smátt og smátt. Hinum hluta vegarins, með sjónum, er aftur á móti þannig háttað, að hægt er að gjöra þar góðan veg með miklu minni kostnaði en að brúa þvert yfir Flóann.
En hvað sem kostnaðinum líður, ef lagt er niður, hvað hvor vegurinn myndi kosta fyrir sig, þá liggur í augum uppi, að alfaravegurinn yfir Eyrarbakka hlýtur að verða langfjölfarnasti vegurinn í allri sýslunni, og hann þarf að verða svo vel úr garði gerður, sem framast er unnt, og þá væri barnaskapur að kosta upp á annan veg samhliða honum, að minnsta kosti eins dýran, 1-2 mílur í burt, á meðan ekki eru efni á að koma upp einum góðum þjóðvegi. Reyndar er náttúrlegt, að Flóamenn sjálfir vilji hafa sem bestan veg þvert yfir Flóann; en sá vegur ætti ekki að svo stöddu að vera annað en hreppa- eða sýsluvegur, því hann verður ekki að almennum notum fyrir utan héraðsmenn nema hrossa- og sauðakaupmenn, sem láta reka fénað til Reykjavíkur, er þeir hafa keypt í Rangárvallasýslu, en þeir, sem reka fénað að austan til sölu, fara yfir Eyrarbakka, til þess að geta selt smátt og smátt á leiðinni.
Að því er póstinn snertir munar vegalengdin svo litlu, að það getur engin veruleg áhrif haft, og á vetrum, þegar Þjórsá er lögð, getur pósturinn tekið af sér krók og farið beina leið austur að Odda, töluverðu fyrir sunnan Sandhólaferju. Dæmi eru til þess á vetrum að pósturinn hafi orðið að bíða vegtepptur í Hraungerði, þegar Ölfusá hefir flætt yfir Flóann, en það mun naumast hugsandi að ekki verði fær ytri leiðin, þegar veður er fært. Enn fremur er Eyrarbakki miklu betri póstafgreiðslustaður en Hraungerði, því þaðan eru miklu meiri ferðir í allar áttir á öllum tímum ársins. Aukapóstarnir um sýsluna þurfa ekki að vera nema tveir úr því, annar að vestanverðu en hinn í austanverðri sýslunni.
Enn fremur lítur út fyrir að ekki líði á löngu áður samföst póstleið verði stofnuð austur með sjó sunnan af Suðurnesjum, og hlýtur þá endastöð hennar að verða á Eyrarbakka, og gæti þar sameinast aðalleiðinni. Þar að auki er þar náttúrlegur miðdepill allra samgangna og viðskiptalífs að minnsta kosti alls neðri hluta sýslunnar og jafnvel líka allrar Rangárvallasýslu og Vestur-Skaftafellssýslu. Þar er miðdepillinn í hinum fjölsóttu verstöðum í Árnessýslu; þar eru aðalverslunarstaðir sitt til hvorrar handar, Þorlákshöfn og Stokkseyri, og er því auðsætt, að þegar sýslumannaskipti verða næst í Árnessýslu, verði hinum nýja sýslumanni skipað að hafa þar fastan bústað, til að vera sem næst til að hafa eftirlit með tollgreiðslu o. fl., sem varla getur verið fullkomið, þegar hann býr upp í sveit.
Auk þess fjölgar fólki í sjávarplássum þessum svo óðum, einkum á Eyrarbakka, að ekki sýnist vanþörf á, að lögreglustjóri búi þar, og það verður naumast nema stundarfriður þangað til verður að setja þar aukalækni, og við það aukast ferðir til Eyrarbakka enn þá meira.
Af þessum ástæðum sýnist vera fullljóst, að sjálfsagt sé að koma Eyrarbakka beinlínis inn í aðalpóstleiðina, og ekki sé ráð, að kosta meiru til vegar austur yfir miðjan Flóann, beinlínis úr landssjóði, því vegur sá getur ekki orðið að almennings notum, því flestir sem fara þessa leið, fara um á Eyrarbakka eftir sem áður.


Ísafold, 10. sept. 1890, 17. árg., 73. tbl., bls. 254:

Póstvegurinn í Árnessýslu.
Mörgum kann að virðast, að það sé að "vinna fyrir gíg", að minnast á þetta málefni, þar sem hlutaðeigandi sýslunefnd sé búin að láta í ljósi álit sitt um, hvar vegur þessi eigi að vera, og svo sé álit hennar staðfest af landshöfðingja, og enn fremur sé þegar búið að kosta talsverðu fé til vegarins. En þar sem nokkur hluti póstvegar þessa, nfl. kaflinn milli Ölfusár og Þjórsár, er ákveðinn að skuli liggja þvert yfir Flóann, frá hinni fyrirhuguðu brú á Selfossi austur að Sandhólaferju, sem er að öllu samtöldu á mjög óhentugum stað, þrátt fyrir það, þó að þetta sé beinasta leið, þá er skylt að hreifa því áður en meiru er kostað til vegagjörðar á þessum stað, að þessi stefna á aðalpóstvegi þessum sé alls eigi hin hagfeldasta.
Jafnvel þó nafn helstu þjóðvega landsins "aðalpóstvegir", sýnist benda á, að það sé upphaflega hugsun þingsins og landsstjórnarinnar, að vegir þessir væru fyrst og fremst til þess, að létta fyrir ferðum landspóstanna úr einu héraði í annað, en notkun annarra af vegum þessum væri álitinn eins og annar veðréttur, ef svo mætti að orði kveða, mun þó engum manni detta í hug, að slíkt hafi verið aðaltilgangur þings og stjórnar, heldur hitt, að ætlast sé til að vegir þessir geti komið að sem bestu og mestu liði fyrir sem flesta; þeir séu ekki eins ætlaðir fyrir flutning hins opinbera, póstflutninga, heldur einnig, og ekki síður, fyrir flutninga hvers einstaklings, og framkvæmdarvaldið ætlist til, að þeir séu lagðir þar, sem þessum tvennum kröfum verði sem best fullnægt.
Þetta hefir, því miður, ekki heppnast í Flóanum.
Þegar farið er yfir Árnessýslu, þá sést þegar, að náttúran hefir lagað tvær aðalþjóðleiðir yfir hana austur og vestur. Önnur þeirra liggur úr Hreppunum yfir Hvítá ofanverða vestur í Biskupstungur og þaðan með fjallgarðinum vestur í Laugardal, þaðan yfir Þingvöll og svo suður yfir Mosfellsheiði (Geysisvegurinn). Hinn liggur frá ferjunum á Þjórsá: Sandhólaferju, Ferjunesi eða Selparti, sem allar eru rétt hver hjá annarri, og þaðan vestur með sjó fram hjá Loftsstöðum og Stokkseyri til Eyrarbakka, og þaðan annaðhvort yfir Ölfusá hjá Óseyrarnesi og yfir Lágaskarð til Kolviðarhóls, eða hjá Kotferju, og þaðan yfir Hellisheiði. Og þegar brúin verður komin á Ölfusá hjá Selfossi, verður vegur þessi að beygja eina bæjarleið upp á við, því þá leggst ferjan á Kotferju auðvitað niður. Aftur á móti verður vegur yfir miðjan Flóann aldrei notaður almennt, jafnvel þó það sé beinasta leið milli Selfoss og Sandhólaferju; og þar að auki kostar Flóavegurinn margfalt meira en alfaravegurinn niður með Ölfusá og þaðan austur með sjó. Á alfaraveginum yfir Eyrarbakka eru ekki nema 2 brýr frá Selfossi til Sandhólaferju: Partabrúin, dálítill spotti skammt fyrir utan Þjórsá, og Melabrúin, sem er aftur á móti lögn, milli Kotferju og Eyrarbakka. Hefir hún kostað mikið fé, en nú þarf hún að eins orðið viðgerðar og ofaníburðar smátt og smátt. Hinum hluta vegarins, með sjónum, er aftur á móti þannig háttað, að hægt er að gjöra þar góðan veg með miklu minni kostnaði en að brúa þvert yfir Flóann.
En hvað sem kostnaðinum líður, ef lagt er niður, hvað hvor vegurinn myndi kosta fyrir sig, þá liggur í augum uppi, að alfaravegurinn yfir Eyrarbakka hlýtur að verða langfjölfarnasti vegurinn í allri sýslunni, og hann þarf að verða svo vel úr garði gerður, sem framast er unnt, og þá væri barnaskapur að kosta upp á annan veg samhliða honum, að minnsta kosti eins dýran, 1-2 mílur í burt, á meðan ekki eru efni á að koma upp einum góðum þjóðvegi. Reyndar er náttúrlegt, að Flóamenn sjálfir vilji hafa sem bestan veg þvert yfir Flóann; en sá vegur ætti ekki að svo stöddu að vera annað en hreppa- eða sýsluvegur, því hann verður ekki að almennum notum fyrir utan héraðsmenn nema hrossa- og sauðakaupmenn, sem láta reka fénað til Reykjavíkur, er þeir hafa keypt í Rangárvallasýslu, en þeir, sem reka fénað að austan til sölu, fara yfir Eyrarbakka, til þess að geta selt smátt og smátt á leiðinni.
Að því er póstinn snertir munar vegalengdin svo litlu, að það getur engin veruleg áhrif haft, og á vetrum, þegar Þjórsá er lögð, getur pósturinn tekið af sér krók og farið beina leið austur að Odda, töluverðu fyrir sunnan Sandhólaferju. Dæmi eru til þess á vetrum að pósturinn hafi orðið að bíða vegtepptur í Hraungerði, þegar Ölfusá hefir flætt yfir Flóann, en það mun naumast hugsandi að ekki verði fær ytri leiðin, þegar veður er fært. Enn fremur er Eyrarbakki miklu betri póstafgreiðslustaður en Hraungerði, því þaðan eru miklu meiri ferðir í allar áttir á öllum tímum ársins. Aukapóstarnir um sýsluna þurfa ekki að vera nema tveir úr því, annar að vestanverðu en hinn í austanverðri sýslunni.
Enn fremur lítur út fyrir að ekki líði á löngu áður samföst póstleið verði stofnuð austur með sjó sunnan af Suðurnesjum, og hlýtur þá endastöð hennar að verða á Eyrarbakka, og gæti þar sameinast aðalleiðinni. Þar að auki er þar náttúrlegur miðdepill allra samgangna og viðskiptalífs að minnsta kosti alls neðri hluta sýslunnar og jafnvel líka allrar Rangárvallasýslu og Vestur-Skaftafellssýslu. Þar er miðdepillinn í hinum fjölsóttu verstöðum í Árnessýslu; þar eru aðalverslunarstaðir sitt til hvorrar handar, Þorlákshöfn og Stokkseyri, og er því auðsætt, að þegar sýslumannaskipti verða næst í Árnessýslu, verði hinum nýja sýslumanni skipað að hafa þar fastan bústað, til að vera sem næst til að hafa eftirlit með tollgreiðslu o. fl., sem varla getur verið fullkomið, þegar hann býr upp í sveit.
Auk þess fjölgar fólki í sjávarplássum þessum svo óðum, einkum á Eyrarbakka, að ekki sýnist vanþörf á, að lögreglustjóri búi þar, og það verður naumast nema stundarfriður þangað til verður að setja þar aukalækni, og við það aukast ferðir til Eyrarbakka enn þá meira.
Af þessum ástæðum sýnist vera fullljóst, að sjálfsagt sé að koma Eyrarbakka beinlínis inn í aðalpóstleiðina, og ekki sé ráð, að kosta meiru til vegar austur yfir miðjan Flóann, beinlínis úr landssjóði, því vegur sá getur ekki orðið að almennings notum, því flestir sem fara þessa leið, fara um á Eyrarbakka eftir sem áður.