1886

Ísafold, 14. júlí 1886, 13. árg., 29. tbl., bls. 114:

Lítil bending viðvíkjandi brúarmálinu.
Þegar rætt hefir verið um að brúa Þjórsá og Ölfusá, hvort heldur það hefir verið á alþingi eða í fréttablöðum, hefi ég, eins og aðrir, sem eiga við þá erfiðleika að stríða, að eiga nauðsynjar sínar að sækja yfir stórvötn þessi, fylgt því máli með mestu athygli. Það hefir glatt mig, þegar ég hefi heyrt raddir hlynntar máli þessu; það hafa þá oftast verið menn, sem töluðu, er gagnkunnugir voru bæði landsháttum okkar austanmanna, og ókjörum þeim, sem við eigum við að búa, þar sem árnar eru; á hinn bóginn hafa og margir gjörst andmælendur brúanna, bæði á alþingi og í fréttablöðum; flestir þeirra hafa fært það til máls síns, að ógjörningur væri, að landsjóður kostaði brýrnar; en auk þeirrar ástæðu hafa sumir komið með aðrar léttvægari ástæður, svo sem Holger Clausen, er hann sagði á síðasta þingi á þá leið, að þar sem engar brýr hefðu í nokkur hundruð fyrirfarandi ár verið á ánum, væri oss ekki vandara um, að komast yfir þær brúarlaust, en forfeðrum vorum. Í vetur las ég langa grein um brúarmálið í “Austra”, að sögn eftir síra Jón prófast í Austur-Skaftafellssýslu, sem eins og kunnugt er, á síðasta þingi gjörði sitt til, að fella frumvarpið um brú á Ölfusá, en hefir samt þá ekki þóst hafa úttalað, og furðar mig á, að hann, jafn greindur og réttsýnn maður, skuli vera svo þrár við sinn keip; látum svo vera, þó honum vaxi í augum, að landsjóður leggi fram allt féð til að brúa báðar árnar (200.000 kr., sem er allt of há áætlun), en hitt gegnir furðu, að hann skuli berja það blákalt á fram, að brýrnar muni ekki koma oss sunnlendingum, austan ánna, að tilætluðum notum, og vill hugga okkur með því, að sumir aðrir eigi eins örðugar kaupstaðarferðir og við, og sé oss ekki vandara um en þeim, þetta dregur dám af ummælum H. Clausens.
Á (ólæsilegt) brúarmálið á sama skeri og fyr; meiri hluti neðri deildar neitaði að landssjóður legði allt féð fram. Þótt mér nú virðist það sanngirniskrafa, að landssjóður kostaði brýrnar, þá er það samt skoðun mín, að það sé ísjárvert fyrir oss sunnlendinga, sem hlut eigum að máli, að tefja fyrir brúargerðinni og lengja þingræður með þrábeiðni um “gjafabrýr”; ég er sannfærður um, að hér eftir munu verða lögð brúarfrumvörp fyrir hvert einasta ókomið þing, þar til brýrnar að lokum, fyrir tilstilli Alþingis, verða gjörðar á kostnað landssjóðs. En hver veit hvað lengi það getur dregist? Ef til vill fullan mannsaldur, eða meira; því að aftur á hinn bóginn er ég eins sannfærður um, að fyrst um sinn muni þingmenn úr þeim kjördæmum, sem ekki hafa beinlínis gagn af brúargerðinni, sitja jafnfastir við sinn keip, að landssjóður eigi ekki að kosta brýrnar að öllu, eins og komið hefur fram á fyrirfarandi þingum, og þótt atkvæðamunur hafi verið lítill á síðasta þingi, þá gæti svo farið, að hann yrði miklu meiri á öðrum þingum; en málið er allt of áríðandi, að það þoli slíkan drátt.
Til þess að koma í veg fyrir slíkan drátt, sé ég hið helsta ráð, að brúafrumvörp þau, sem lögð yrðu fyrir næsta alþing, færu í líka stefnu og tillaga Tryggva Gunnarssonar á síðasta þingi; landssjóður ætti að leggja fram féð að hálfu, en nágrannasýslurnar, eða jafnvel allt suðuramtið, ætti að fá rentulaust lán úr landssjóði, sem borga mætti smám saman, árlega, og skal ég leyfa mér hér á eftir að reyna að sýna fram á hvernig ég hefi hugsað mér, að sú lántaka yrði minnst tilfinnanleg fyrir lántakendur.
Upphæð sú, 80.000 kr., sem gert var ráð fyrir á síðasta þingi, að brú á Ölfusá mundi kosta, er að ætlan minni of há; mun Vinfeldt-Hansen hafa gert ráð fyrir þeim kostnaði; kunnugur maður erlendis hefir sagt mér, að á hinum síðustu 10 árum hafi steypt járnsmíði erlendis lækkað mjög í verði (ég gerði ráð fyrir að brýrnar verði úr járni), og ætti því brúarefnið ef til vill að fást með talsvert vægara verði, en þegar V. H. gerði áætlun sína; en hvað sem því líður, þá mundu tilfengnir útlendir brúarsmiðir gera kostnaðaráætlun af nýju, áður en tekið væri til starfa. Ég geri nú samt ráð fyrir, að báðar brýrnar mundu kosta 160.000 kr.; landssjóður legði þá fram 80.000 kr., en hinn helmingurinn væri lánsfé, sem borgast ætti með tiltekinni árlegri afborgun, upp frá þeim tíma að brýrnar væru fullgjörðar og til almennings afnota. Af því ég er kunnugri fyrir austan Þjórsá, mun ég hér aðeins miða við hana. Jafnskjótt og búið væri að velja brúarstæðið skyldi leggja veg af þjóðveginum, sem nú er (t.d. frá bænum Rauðalæk) að brúnni; sá vegur mundi að sönnu kosta talsvert, en ég geri ráð fyrir, að ekki yrði horft í þann kostnað, þegar slíkur væri hagur í aðra hönd, að Þjórsá yrði farin á brú; þeir, sem brúna færu með klyfjahesta, væru einkum Rangæingar og Vestur-Skaftfellingar, sem annaðhvort færu kaupstaðar- eða skreiðarferðir út á Eyrarbakka; reyndar versla sumir þeirra að miklu leyti í Vestmannaeyjum, og þessi síðustu ár hafa Vestur-Skaftfellingar pantað nokkuð af vörum frá útlöndum, og sótt þær til Eyja, en samt munu þó fáir eða engir búendur vera, einkum í Rangárvallasýslu, sem ekki hafa meiri eða minni aðdrætti árlega frá Eyrarbakka. Því miður er mér ekki kunnugt um búendatölu í Rangárvallasýslu, nú sem stendur, en af Johnsens Jarðatali sé ég, að 1844 voru 660 búendur í sýslunni, og mun hún nú ekki vera fjarri því. Ég ætla nú samt ekki, að taka of djúpt í árinni, og aðeins gjöra ráð fyrir, að 500 búendur úr Rvs. fari um brúna árlega með 10 klyfjahesta hver; ætti þá hver þeirra að gjalda 20 aura fyrir hvern klyfjahest, sem færi út yfir og austur yfir aftur á brúnni; þessir 500 búendur mundu þá árlega gjalda 1000 kr., en það væri hið sama, eða minna, en þeir árlega gjalda í ferjutolla (25 aura fyrir klyfjar af einum hesti); sama gjald skyldi lausríðandi gjalda; einnig skyldi taka nokkuð gjald af gangandi mönnum og lausum hrossum, sem farið væri með yfir á brúnni. Það er ekki hægt að giska á, hversu margir lestamenn úr Skaftafellssýslu, lausríðandi menn, eða laus hross (markaðshross hestakaupmanna) mundu árlega fara um brúna, en ekki þætti mér ólíklegt, að brúartollur þeirra mundi einnig nema 1000 kr. Ég þykist hér að framan ekki hafa farið of langt að ætla, að 500 búendur úr Rangárvallas. árlega fari um brúna, þar sem ég sleppi svo miklu af búendatölunni; sömuleiðis eru 10 klyfjahestar ekki ofætlað á hvern búanda; því þótt sumir einstakir fari ekki með svo marga hesta, þá er hinna tala meiri, sem árlega hafa miklu meiri aðdrætti, 20-40 hesta. Eftir þessari áætlun fengjust árlega 2000 kr. í brúartoll; en hver ætti að innheimta þennan brúartoll? Mér virðist liggja beinast fyrir, að brúin væri boðin upp á leigu, til eins eða tveggja ára, og ætti sá, sem brúna tæki á leigu, að skuldbinda sig til, að gjalda árlega í landssjóð peningaupphæð; það segir sig sjálft, að ekki væri fenginn annar brúarvörður, en áreiðanlegur maður, sem ætti veð fyrir árgjaldinu.
Umferðin um brúna kynni ef til vill fyrsta árið ekki að verða eins mikil og ég hefi ætlað á, en eftir því sem nýir vegir yrðu lagðir að henni, mundi hún vaxa með ári hverju, því fáir eða engir mundu heldur kjósa að fara á ferju og sundleggja hesta sína, nema ef vera skyldi menn af næstu bæjum við ferjur á ánni og ef til vill greinarhöf. í Austra; Skaftfellingar eru taldir bestir ferðamenn hér á landi; þess vegna mundu þeir manna helst nota brúna, en ekki eiga á hættu að leggja langþreytta hesta sína í ána og missa þá, eins og oft hefir viljað til; á ári hverju farast fleiri eða færri hestar í Þjórsá, og ef skýrsla væri til um það, hve mörg hross hafa týnst í henni um síðastliðin 40 ár, mundi andvirði þeirra skipta þúsundum króna.
Ég er greinarhöfundi í Austra samdóma í því, að æskilegra væri að brú kæmi fyr á Þjórsá en Ölfusá (því ekki er við að búast, að brýr komist jafn skjótt á báðar árnar); það, sem mælir fram með því, er, að margir Skaftfellingar og flestir Rangæingar fara aðalkaupstaðarferðir sínar á Eyrarbakka, en ekki til kauptúnanna fyrir utan Ölfusá; sömuleiðis er meginhluti Árnessýslu austan Ölfusár, og sækja menn þar helstu nauðsynjar sínar til Eyrarbakka; verslun þar hefur nú í seinni tíð fallið mönnum betur í geð, eftir að kaupmönnum fjölgaði þar; Árnesingum þeim, er búa utan Ölfusár, er innan handar að reka verslun sína annaðhvort í Þorlákshöfn eða kaupstöðunum fyrir vestan fjall. – Hvað lánið yrði fljótt, endurgoldið, er náttúrlega undir því komið, hversu brýrnar yrðu fjölfarnar. Brúarlán til Þjórsár (40.000 kr.) ætti að geta endurgoldist á 40 árum, eða skemmri tíma.
Ég ætla ekki að fjölyrða meir um þetta, en vona, að þessi bending mín, þó henni kunni í ýmsu að vera áfátt, verði til þess, að hrinda brúarmálinu þó ekki sé nema dálítið áfram.
Kirkjubæ 25/3 – “86. Bogi P. Pjetursson.


Ísafold, 14. júlí 1886, 13. árg., 29. tbl., bls. 114:

Lítil bending viðvíkjandi brúarmálinu.
Þegar rætt hefir verið um að brúa Þjórsá og Ölfusá, hvort heldur það hefir verið á alþingi eða í fréttablöðum, hefi ég, eins og aðrir, sem eiga við þá erfiðleika að stríða, að eiga nauðsynjar sínar að sækja yfir stórvötn þessi, fylgt því máli með mestu athygli. Það hefir glatt mig, þegar ég hefi heyrt raddir hlynntar máli þessu; það hafa þá oftast verið menn, sem töluðu, er gagnkunnugir voru bæði landsháttum okkar austanmanna, og ókjörum þeim, sem við eigum við að búa, þar sem árnar eru; á hinn bóginn hafa og margir gjörst andmælendur brúanna, bæði á alþingi og í fréttablöðum; flestir þeirra hafa fært það til máls síns, að ógjörningur væri, að landsjóður kostaði brýrnar; en auk þeirrar ástæðu hafa sumir komið með aðrar léttvægari ástæður, svo sem Holger Clausen, er hann sagði á síðasta þingi á þá leið, að þar sem engar brýr hefðu í nokkur hundruð fyrirfarandi ár verið á ánum, væri oss ekki vandara um, að komast yfir þær brúarlaust, en forfeðrum vorum. Í vetur las ég langa grein um brúarmálið í “Austra”, að sögn eftir síra Jón prófast í Austur-Skaftafellssýslu, sem eins og kunnugt er, á síðasta þingi gjörði sitt til, að fella frumvarpið um brú á Ölfusá, en hefir samt þá ekki þóst hafa úttalað, og furðar mig á, að hann, jafn greindur og réttsýnn maður, skuli vera svo þrár við sinn keip; látum svo vera, þó honum vaxi í augum, að landsjóður leggi fram allt féð til að brúa báðar árnar (200.000 kr., sem er allt of há áætlun), en hitt gegnir furðu, að hann skuli berja það blákalt á fram, að brýrnar muni ekki koma oss sunnlendingum, austan ánna, að tilætluðum notum, og vill hugga okkur með því, að sumir aðrir eigi eins örðugar kaupstaðarferðir og við, og sé oss ekki vandara um en þeim, þetta dregur dám af ummælum H. Clausens.
Á (ólæsilegt) brúarmálið á sama skeri og fyr; meiri hluti neðri deildar neitaði að landssjóður legði allt féð fram. Þótt mér nú virðist það sanngirniskrafa, að landssjóður kostaði brýrnar, þá er það samt skoðun mín, að það sé ísjárvert fyrir oss sunnlendinga, sem hlut eigum að máli, að tefja fyrir brúargerðinni og lengja þingræður með þrábeiðni um “gjafabrýr”; ég er sannfærður um, að hér eftir munu verða lögð brúarfrumvörp fyrir hvert einasta ókomið þing, þar til brýrnar að lokum, fyrir tilstilli Alþingis, verða gjörðar á kostnað landssjóðs. En hver veit hvað lengi það getur dregist? Ef til vill fullan mannsaldur, eða meira; því að aftur á hinn bóginn er ég eins sannfærður um, að fyrst um sinn muni þingmenn úr þeim kjördæmum, sem ekki hafa beinlínis gagn af brúargerðinni, sitja jafnfastir við sinn keip, að landssjóður eigi ekki að kosta brýrnar að öllu, eins og komið hefur fram á fyrirfarandi þingum, og þótt atkvæðamunur hafi verið lítill á síðasta þingi, þá gæti svo farið, að hann yrði miklu meiri á öðrum þingum; en málið er allt of áríðandi, að það þoli slíkan drátt.
Til þess að koma í veg fyrir slíkan drátt, sé ég hið helsta ráð, að brúafrumvörp þau, sem lögð yrðu fyrir næsta alþing, færu í líka stefnu og tillaga Tryggva Gunnarssonar á síðasta þingi; landssjóður ætti að leggja fram féð að hálfu, en nágrannasýslurnar, eða jafnvel allt suðuramtið, ætti að fá rentulaust lán úr landssjóði, sem borga mætti smám saman, árlega, og skal ég leyfa mér hér á eftir að reyna að sýna fram á hvernig ég hefi hugsað mér, að sú lántaka yrði minnst tilfinnanleg fyrir lántakendur.
Upphæð sú, 80.000 kr., sem gert var ráð fyrir á síðasta þingi, að brú á Ölfusá mundi kosta, er að ætlan minni of há; mun Vinfeldt-Hansen hafa gert ráð fyrir þeim kostnaði; kunnugur maður erlendis hefir sagt mér, að á hinum síðustu 10 árum hafi steypt járnsmíði erlendis lækkað mjög í verði (ég gerði ráð fyrir að brýrnar verði úr járni), og ætti því brúarefnið ef til vill að fást með talsvert vægara verði, en þegar V. H. gerði áætlun sína; en hvað sem því líður, þá mundu tilfengnir útlendir brúarsmiðir gera kostnaðaráætlun af nýju, áður en tekið væri til starfa. Ég geri nú samt ráð fyrir, að báðar brýrnar mundu kosta 160.000 kr.; landssjóður legði þá fram 80.000 kr., en hinn helmingurinn væri lánsfé, sem borgast ætti með tiltekinni árlegri afborgun, upp frá þeim tíma að brýrnar væru fullgjörðar og til almennings afnota. Af því ég er kunnugri fyrir austan Þjórsá, mun ég hér aðeins miða við hana. Jafnskjótt og búið væri að velja brúarstæðið skyldi leggja veg af þjóðveginum, sem nú er (t.d. frá bænum Rauðalæk) að brúnni; sá vegur mundi að sönnu kosta talsvert, en ég geri ráð fyrir, að ekki yrði horft í þann kostnað, þegar slíkur væri hagur í aðra hönd, að Þjórsá yrði farin á brú; þeir, sem brúna færu með klyfjahesta, væru einkum Rangæingar og Vestur-Skaftfellingar, sem annaðhvort færu kaupstaðar- eða skreiðarferðir út á Eyrarbakka; reyndar versla sumir þeirra að miklu leyti í Vestmannaeyjum, og þessi síðustu ár hafa Vestur-Skaftfellingar pantað nokkuð af vörum frá útlöndum, og sótt þær til Eyja, en samt munu þó fáir eða engir búendur vera, einkum í Rangárvallasýslu, sem ekki hafa meiri eða minni aðdrætti árlega frá Eyrarbakka. Því miður er mér ekki kunnugt um búendatölu í Rangárvallasýslu, nú sem stendur, en af Johnsens Jarðatali sé ég, að 1844 voru 660 búendur í sýslunni, og mun hún nú ekki vera fjarri því. Ég ætla nú samt ekki, að taka of djúpt í árinni, og aðeins gjöra ráð fyrir, að 500 búendur úr Rvs. fari um brúna árlega með 10 klyfjahesta hver; ætti þá hver þeirra að gjalda 20 aura fyrir hvern klyfjahest, sem færi út yfir og austur yfir aftur á brúnni; þessir 500 búendur mundu þá árlega gjalda 1000 kr., en það væri hið sama, eða minna, en þeir árlega gjalda í ferjutolla (25 aura fyrir klyfjar af einum hesti); sama gjald skyldi lausríðandi gjalda; einnig skyldi taka nokkuð gjald af gangandi mönnum og lausum hrossum, sem farið væri með yfir á brúnni. Það er ekki hægt að giska á, hversu margir lestamenn úr Skaftafellssýslu, lausríðandi menn, eða laus hross (markaðshross hestakaupmanna) mundu árlega fara um brúna, en ekki þætti mér ólíklegt, að brúartollur þeirra mundi einnig nema 1000 kr. Ég þykist hér að framan ekki hafa farið of langt að ætla, að 500 búendur úr Rangárvallas. árlega fari um brúna, þar sem ég sleppi svo miklu af búendatölunni; sömuleiðis eru 10 klyfjahestar ekki ofætlað á hvern búanda; því þótt sumir einstakir fari ekki með svo marga hesta, þá er hinna tala meiri, sem árlega hafa miklu meiri aðdrætti, 20-40 hesta. Eftir þessari áætlun fengjust árlega 2000 kr. í brúartoll; en hver ætti að innheimta þennan brúartoll? Mér virðist liggja beinast fyrir, að brúin væri boðin upp á leigu, til eins eða tveggja ára, og ætti sá, sem brúna tæki á leigu, að skuldbinda sig til, að gjalda árlega í landssjóð peningaupphæð; það segir sig sjálft, að ekki væri fenginn annar brúarvörður, en áreiðanlegur maður, sem ætti veð fyrir árgjaldinu.
Umferðin um brúna kynni ef til vill fyrsta árið ekki að verða eins mikil og ég hefi ætlað á, en eftir því sem nýir vegir yrðu lagðir að henni, mundi hún vaxa með ári hverju, því fáir eða engir mundu heldur kjósa að fara á ferju og sundleggja hesta sína, nema ef vera skyldi menn af næstu bæjum við ferjur á ánni og ef til vill greinarhöf. í Austra; Skaftfellingar eru taldir bestir ferðamenn hér á landi; þess vegna mundu þeir manna helst nota brúna, en ekki eiga á hættu að leggja langþreytta hesta sína í ána og missa þá, eins og oft hefir viljað til; á ári hverju farast fleiri eða færri hestar í Þjórsá, og ef skýrsla væri til um það, hve mörg hross hafa týnst í henni um síðastliðin 40 ár, mundi andvirði þeirra skipta þúsundum króna.
Ég er greinarhöfundi í Austra samdóma í því, að æskilegra væri að brú kæmi fyr á Þjórsá en Ölfusá (því ekki er við að búast, að brýr komist jafn skjótt á báðar árnar); það, sem mælir fram með því, er, að margir Skaftfellingar og flestir Rangæingar fara aðalkaupstaðarferðir sínar á Eyrarbakka, en ekki til kauptúnanna fyrir utan Ölfusá; sömuleiðis er meginhluti Árnessýslu austan Ölfusár, og sækja menn þar helstu nauðsynjar sínar til Eyrarbakka; verslun þar hefur nú í seinni tíð fallið mönnum betur í geð, eftir að kaupmönnum fjölgaði þar; Árnesingum þeim, er búa utan Ölfusár, er innan handar að reka verslun sína annaðhvort í Þorlákshöfn eða kaupstöðunum fyrir vestan fjall. – Hvað lánið yrði fljótt, endurgoldið, er náttúrlega undir því komið, hversu brýrnar yrðu fjölfarnar. Brúarlán til Þjórsár (40.000 kr.) ætti að geta endurgoldist á 40 árum, eða skemmri tíma.
Ég ætla ekki að fjölyrða meir um þetta, en vona, að þessi bending mín, þó henni kunni í ýmsu að vera áfátt, verði til þess, að hrinda brúarmálinu þó ekki sé nema dálítið áfram.
Kirkjubæ 25/3 – “86. Bogi P. Pjetursson.