Almenn verkefni 2020

Heiti verkefnis : 

Notkun reiknilegra straumfræðilíkana við mat á slysaáhættu ökutækja

Verkefnastjóri : 

 

Stutt lýsing á verkefninu:

 

Veðurfar er reglulega stór áhrifavaldur í umferðarslysum. Í verstu veðrum þarf að meta hvort og hvernig eigi að takmarka umferð á vegum. Betra er að slíkar ákvarðanir séu vel rökstuddar því þær hafa töluverð áhrif á þá sem nýta vegina. Þessu verkefni er ætlað að varpa frekara ljósi á hvenær og eigi að takmarka umferð. Reiknilegt straumfræðilíkan sem tekur inn veðurgögn ásamt tegund farartækis reiknar út loftfræðilega kraftstuðla á ákveðið farartæki. Þessir kraftstuðlar eru síðan settir inn í vélrænt líkan af ökutæki ásamt viðnámi vegs og farartækis, beygju og halla vegar og ökuhraða ásamt vélrænum eiginleikum farartækis. Niðurstöður vélræna líkansins gefa síðan líkindi þess að farartæki missi veggrip eða velti við ákveðnar aðstæður. Líkanið verður prófað með aðstæðum sem líkjast þeim sem hafa verið þegar slys hafa orðið og taka þá tillit til veðurs og staðbundinna þátta.

Fyrri hluti þessa verkefnis sem hlaut styrk frá Rannsóknasjóði Vegagerðarinnar árið 2019 var nýttur í að setja upp reiknilegt straumfræðilíkan fyrir einn flokk farartækis ásamt uppsetningu á vélrænu líkani fyrir þann flokk farartækis. Seinni hluti verkefnisins miðar að því að skoða fleiri flokka farartækja og búa til niðurstöður fyrir Vegagerðina sem hún getur nýtt til að taka ákvarðanir vegna lokunar vega.

Tilgangur og markmið:

 

Aukin þekking á hegðun farartækja við mismunandi veðurfarslegar og staðbundnar aðstæður auðveldar ákvarðanir um takmarkanir á umferð. Takmarkanir á umferð við erfiðar veðuraðstæður munu auka umferðaröryggi og fækka slysum. Verkefninu er ætlað að auka skilning og kortleggja við hvaða aðstæður áhætta á því að missa stjórn á farartæki eykst til muna. Niðurstöður verkefnis munu geta nýst við þróun á áhættumati á öryggi ökutækja vegna veðurs sem Vegagerðin getur notað til að rökstyðja betur ákvarðanir um takmarkanir á umferð vegna veðurs.

Markmið verkefnisins er að nota reiknileg straumfræðilíkön og vélræn líkön sem lýsa sambandi farartækis við veg til að öðlast frekari skilning á hegðun mismunandi flokka farartækja við mismunandi veðurfarslegar og staðbundnar aðstæður. Raunverulegar slysaðstæður verða notaðar til að herma og skoða hverju það hefði breytt ef öðruvísi farartæki eða lægri meðalvindstyrkur hefði verið á slysstað. Niðurstöður munu þá varpa ljósi á hvaða takmarkanir hefði átt að grípa til á vettvangi slyssins. Hægt verður að byggja ofan á niðurstöðurnar í framtíðinni til að búa til almennari skilgreiningu á hvenær og hvernig eigi takmarka umferð sem yrði þá óháð staðsetningu. Sú ákvörðun myndi byggja á hraða ökutækis, vindhraða, vindstefnu, viðnámi vegar ásamt halla og legu vegar.

Framhald verkefnisins frá árinu 2019 byggir á því að setja upp reiknileg straumfræðilíkön fyrir fleiri flokka farartækja ásamt því að halda áfram innleiðingu vélræns líkans sem lýsir sambandi farartækis og vegar. Þessi hluti er mikilvægur þáttur í því að breikka skilning á hegðun farartækja við mismunandi aðstæður. Niðurstöðurnar munu geta nýst á þann hátt að Vegagerðin getur notað þær við lokanir vega. Hægt væri að loka vegum fyrir ákveðnum flokka farartækja og jafnvel gefa leiðbeiningar um æskilegan hámarkshraða.