Almenn verkefni 2019

Heiti verkefnis : 

Yfirfærsla á dýptarmælingum í GIS kerfi og rannsókn á dýptarbreytingum í höfnum við Ísland

Verkefnastjóri : 

 

Stutt lýsing á verkefninu:

 

Í áranna rás hefur orðið til mikið af dýptarmælingum í og við hafnir landsins. Þessar mælingar sýna meðal annars breytingar sem hafa orðið vegna setflutninga og áhrif inngripa td. dýpkana og byggingu hafnarmannvirkja á setsöfnun. Rannsóknir á langtíma dýptarbreytingum í og umhverfis hafnir landsins eru af skornum skammti og er megin markmið verkefnisins að bæta úr því. Eftir um 1990 hafa dýptarmælingar nánast eingöngu verið unnar á stafrænu formi. Þrátt fyrir það eru ýmiss vandamál í dag við vinnslu dýptargagnanna meðal annars vegna þess að mælingar eru vistaðar á gagnaformi sem er úrelt eða erfitt að nota af öðrum orsökum. Annað markmið verkefnisins er að bæta úr þessu með því að yfirfara og vista dýptarmæligögn á formi sem hentar í úrvinnslu og kortagerðarhugbúnaði til framtíðar.

Tilgangur og markmið:

 

Megin tilgangur verkefnisins er að vinna dýptarmælingagögn á form sem GIS kerfi skilja og tryggja með því aðgengi og varðveislu gagnanna. Gögnin sem unnið verður með geyma meðal annars upplýsingar um setflutninga og setsöfnun í og við nokkrar mikilvægar hafnir landsins þar sem þessir þættir hafa valdið erfiðleikum. Í verkefni sem Rannsóknasjóður styrkti árið 2018 var unnið úr öllum mælingum eftir 1990 í Þorlákshöfn og á Sauðárkróki, unnið var úr mælingum frá tímabilinu 1990 – 1995 og eftir 2010 á Höfn í Hornafirði og gert var átak í skjölun og varðveislu gagnasafnsins í Landeyjahöfn, sem er orðið umfangsmikið og hefur að geyma meira en 350 mælingar. Gögnin hafa verið yfirfarin og vistuð á skipulegan og aðgengilegan hátt í gagnasafn Vegagerðarinnar. Ætlunin nú er að vinna áfram með gögn frá Höfn í Hornafirði frá tímabilinu 1995 til 2010 og Landeyjahöfn frá tímabilinu fyrir 2015, og bæta við gögnum frá Húsavík, Dalvík, Ólafsfirði, Skagaströnd og fleiri stöðum. Bætt aðgengi að gögnum og þekking á þáttum sem þau lýsa hjálpar til við skipulagningu á viðhaldsdýpkunarverkefnum og öðrum framkvæmdum í höfnum landsins.