Almenn verkefni 2019

Heiti verkefnis : 

Endurskoðun á líkindadreifingu ölduhæðar á hafinu umhverfis Ísland

Verkefnastjóri : 

 

Stutt lýsing á verkefninu:

 

Unnin verður líkindadreifing ölduhæðar og vindhraða á hafinu kringum Ísland úr spágögnum frá evrópsku veðurstofunni (ECMWF) og úthafsölduduflunum Veðurstofunnar. Skoðaðar verða samlíkur ölduhæðar og sveiflutíma. Líkindadreifing öldu og vinds verður nálguð með nokkrum mismunandi líkindadreifingum. 

Áður hefur verið unnið úr eldri spágögnum frá evrópsku veðurstofunni sem gerð voru með fyrri kynslóðum veðurfars- og öldulíkana. Árið 2003 var unnið úr gögnum fyrir tímabilið 1979-1999 og svo aftur árið 2012 fyrir tímabilið 1958–2012. Lengra er síðan að unnið var úr gögnum frá úthafsölduduflunum og þá var mælitímabilið mjög stutt. Nú er mælitímabilið mun lengra en í fyrri athugunum, sérstaklega hvað varðar öldumælingarnar, og veður- og öldulíkönin þróaðri og því má ætla að niðurstöður verði sannari. Gerður verður samanburður á spágögnum og mældum gögnum.

Í þessari vinnu verða skoðuð bæði lengri og styttri tímabil til að meta hvort breytingar hafi orðið á öldufari kringum landið á síðustu áratugum, annað hvort leitni til hærri eða lægri öldu eða hvort það séu einhverjar sveiflur í öldu- eða vindafari.

Tilgangur og markmið:

 

Megintilgangur verkefnisins er endurskoðun á líkindadreifingu öldu á hafinu umhverfis Ísland. Slíkar upplýsingar eru undirstaða margskonar vinnu Vegagerðarinnar fyrir hafnir landsins, þar sem verið er að skoða möguleika á stækkun hafna, ókyrrð innan hafnar og við álagsákvörðun á ytri mannvirki. Þá eru slíkar upplýsingar nauðsynlegar við skoðun á frátöfum á siglingaleiðum ferja eða hvaða öldu flutningaskip megi búast við í aðsiglingu til hafna. Sama á við um verkefni sem unnin eru fyrir aðra aðila svo sem sveitarfélög og fiskeldisfyrirtæki.

Verkefnið kemur til með að skila mati á ölduhæð og sveiflutíma öldu auk vindhraða fyrir 16 stefnugeira fyrir mislangan endurkomutíma, allt frá 1 ári til 100 ára. 

Með því að skoða styttri tímabil innan þeirra 60 ára sem spágögnin ná yfir verður skoðað hvort lesa megi úr gögnunum að einhverjar breytingar hafi orðið á öldufari sem tengist veðurfarsbreytingum og hnattrænni hlýnun.