Almenn verkefni 2019

Heiti verkefnis : 

Kortlagning á mögulegum skriðflötum í berghlaupaseti í Almenningum á Tröllaskaga með TDR aðferð

Verkefnastjóri : 

 

Stutt lýsing á verkefninu:

 

Verkefnið sem sótt er um hér byggir á samstarfi Land- og ferðamáladeildar Háskóla Íslands, Umhverfis- og byggingaverkfræðideildar
Háskóla Íslands, Jarðtæknideildar Háskólans í Žilina í Slóvakíu, Vegagerðarinnar og Ofanflóðasjóðs. Markmið verkefnisins er að innleiða þekkta mæliaðferð til að mæla og staðsetja skriðfleti og aflögun í lausum jarðefnum í jarðvegsmössum með svokallaðri TDR (Time Domain Reflectometry) aðferð. Um er að ræða tilraunaverkefni til að fá reynslu og öðlast færni í að beita þessari aðferð hér á landi í fyrsta skipti. Erlendir
samstarfsaðilar hafa beitt TDR aðferðinni með góðum árangri í heimalandi sínu, Slóvakíu. Aðferðin byggir á því að sérstökum mælikapli er komið fyrir í borholu sem nær í gengum og niður fyrir mögulega skriðfleti. Með því að mæla endurtekið leiðni kapals með spennupúlsum má kortleggja leiðnibreytingar sem verða ef kapallinn í holu aflagast, vegna hreyfinga á vel afmörkuðum skriðflötum. Hægt er að staðsetja nákvæmlega dýpi skriðflata, tímasetja færslur og einnig er hægt að áætla stærð færslu upp að ákveðnu marki. Ætlunin var að beita aðferðinni á þekkt sigsvæði í
Almenningum á utanverðum Tröllaskaga, en þar verður árlega vart við jarðsig á vegstæði Siglufjarðarvegar(þjóðvegur nr. 76) sem liggur yfir forn berghlaup. Hreyfingar á vegstæðinu hafa ógnað vegfarendum, allt frá því að vegurinn var lagður þar árið 1968. Í dag er brýn þörf á að finna nýtt vegstæði og ættu niðurstöðu þessara mælinga að geta nýst vel við það verk. Staða verkefnisins er í dag sú að árið 2018 fékkst styrkur frá Vegagerðinni og Ofanflóðasjóði til að bora holu í Tjarnardalaberghlaupinu og koma þar fyrir mælikaplinum og var það gert í október síðastliðin og komið var fyrir nauðsynlegum mælitækjum í lok desember.

Tilgangur og markmið:

 

Óstöðugleiki og hreyfing í skriðum og lausum jarðvegi (jarðvegsmössum) ógna byggð og mannvirkjum víða um land. Samfara hlýnun veðurfars hér á landi geta miklar breytingar orðið á úrkomumagni, úrkomudreifingu og ekki síst hitastigi jarðvegsmassa líkt og nýleg dæmi sanna (Þorsteinn Sæmundsson et al. 2018). Meginmarkmið verkefnisins er að innleiða hér á landi þekkta erlenda borholu mælitækni TDR (Time Domain Reflectometry) sem nota má til að kortleggja mögulega skriðfleti í jarðvegsmössum og öðlast meiri skilning á eðli og orsökum þeirra hreyfinga. Til að sannreyna og öðlast færni í að beita þessari mælitækni var valið virkt skriðusvæði þar sem vitað er um að regluleg færsla verður á jarðvegsmössum og eins var leitast við að tryggja auðvelt aðgengi fyrir nauðsynlegan borbúnað. Í því sambandi var horft til þekkts sigsvæðis í Almenningum á utanverðum Tröllaskaga þar sem árlega verður verulegt jarðsig á Siglufjarðarvegi og umhverfi hans. Árið 2018 fékkst styrkur frá  vegagerðinni og Ofanflóðasjóði til að bora eina holu á Skógarsvæðinu í Tjarnardölum og mælikapli komið fyrir í holunni. Hitastigsmælingar voru framkvæmdar á meðan á borun stóð og voru þær allar vel yfir frostmarki. Borholan varð 43 m djúp og á setsýnum að dæma þá náði hún niður fyrir skriðuefnið og líklega niður í berggrunn.