Almenn verkefni 2019

Heiti verkefnis : 

Hefur fjölgun kærumála vegna framkvæmdaleyfa haft áhrif á mat á umhverfisáhrifum?

Verkefnastjóri : 

 

Stutt lýsing á verkefninu:

 

Fjölgun kærumála á framkvæmdaleyfi sveitastjórna um matsskyldar framkvæmdir hafa vakið upp spurningar um hvaða áhrif þróunin hafi haft á ferli mats á umhverfisáhrifum. Er þróunin að færa okkur nær markmiðum laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum, stuðla að bættu samráði og auka vitund um umhverfismál og nýtingu auðlinda eða þvert á móti að flækja matsferlið og draga úr skilvirkni þess?

Í verkefninu verða skoðaðar og bornar saman matsskyldar framkvæmdir þar sem mat var unnið fyrir og eftir tímabilið 2012 -2014, eftir að reglugerð um framkvæmdaleyfi (772/2012) tók gildi. Skoðaðir verða helstu þættir matsins, meðal annars valkostagreining, rannsóknavinna, tímaferill og samráð. Viðtöl verða tekin við aðila sem hafa komið að matinu á einn eða annan hátt, það er framkvæmdaraðila, umsagnaraðila og leyfisveitendur, auk þess sem rýnifundir verða haldir og niðurstöður ræddar.

Verkefninu er ætlað að opna á umræðu um fjölgun kærumála framkvæmdaleyfa og áhrif á matsferlið sjálft. Leitað verður sjónarmiða ólíkra aðila sem koma að matinu á einn eða annan hátt og reynt að leggja hlutlaust mat á hvort þróunin hafi verið matsferlinu til bóta eða vansa.

Tilgangur og markmið:

 

Markmið verkefnis er að kanna hvort matsvinna, matsskýrslur og umfjöllun um mat á umhverfisáhrifum framkvæmda hafi tekið breytingum síðan reglugerð um framkvæmdaleyfi (nr. 772/2012) tók gildi og hvort rekja megi breytingarnar til aukinna kærumála á útgáfu framkvæmdaleyfa fyrir matsskyldar framkvæmdir.

Rannsóknaspurningin er: Hefur fjölgun kærumála á framkvæmdaleyfi haft áhrif á eftirfarandi þætti í ferli mats á á umhverfisáhrifum og þá hvernig:

►   vinsun umhverfisþátta,

►   valkostagreiningu,

►   rannsóknir og gagnaöflun,

►   tímaferil,

►   samráð, umsagnir og þátttöku almennings?